152. löggjafarþing — 76. fundur
 17. maí 2022.
stefna í geðheilbrigðismálum til ársins 2030, fyrri umræða.
stjtill., 575. mál. — Þskj. 814.

[19:20]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Tillagan tekur mið af bæði þingsályktun Alþingis um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og lýðheilsustefnu til ársins 2030. Þannig er í stefnu í geðheilbrigðismálum til næstu ára lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu á félagslegum grunni og stuðnings við heilsueflingu á öllum æviskeiðum.

Helstu straumar og stefnur í geðheilbrigðismálum á heimsvísu sýna að það eru sameiginlegir hagsmunir þjóða að auka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu. Þrátt fyrir töluverðar framfarir í geðheilbrigðismálum á undanförnum árum eru vísbendingar um að við Íslendingar stöndum frammi fyrir frekari áskorunum og hindrunum sem ryðja þarf úr vegi til að ná árangursríkari framförum til framtíðar. Samantekt niðurstaðna geðheilbrigðisþings, sem var haldið hér 2020, ásamt fyrri þverfaglegum greiningum og skýrslum um málaflokkinn, sýnir að það skortir heildstæðari og samhæfðari nálgun í geðheilbrigðismálum, allt frá geðrækt, forvörnum og snemmbærum úrræðum til geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum og á milli velferðarþjónustukerfa og við dómskerfið. Þjónusta milli heilbrigðisþjónustustiga er að einhverju leyti brotakennd og ósamhæfð og samþætting við félagsþjónustu, skólaþjónustu eða aðra opinbera þjónustu er takmörkuð og skortur á þverfaglegum mannauði í geðheilbrigðisþjónustu á öllum stigum. Það er, virðulegi forseti, mjög áríðandi að við horfum þannig á hlutina til að við náum að ráða bót á þessum brýna málaflokki og finna lausnir á þessum áskorunum.

Framsetning þingsályktunartillögu um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 tekur þannig mið af því sem ég hef hér sagt og er sett fram með hliðsjón af fjórum kjarnaþáttum og áherslum sem munu endurspeglast í þeim aðgerðaáætlunum sem unnar verða í kjölfar þessarar tillögu verði hún samþykkt af Alþingi. Hér má því segja að við séum að leggja upp með að móta stefnu og markmið, reyna að berja í þessa bresti, og gera kröfur um þessa þverfaglegu nálgun og skörun á milli kerfa, svo að þjónustan verði ekki eins brotakennd. Við höfum stigið einhver skref og þannig eru stefnumiðin sett fram í tillögunni. Við getum síðan haldið áfram með seinni hluta stefnumótunarinnar sem felst í aðgerðaáætlun og svo innleiðingu og eftirfylgni. Nú er nýlega komin skýrsla Ríkisendurskoðunar og þar kemur berlega í ljós að við þurfum í þessum seinni parti stefnumörkunar og hringrásar, þegar við ábyrgðarvæðum ákveðna þætti aðgerðaáætlunarinnar, að fylgja þeim miklu betur eftir og mæla hverju aðgerðirnar skila. Í þessari þingsályktunartillögu er verið að móta stefnuna og horfa á sýnina og framtíðina og vonandi getum við hér á Alþingi náð sátt um þessa stefnu þannig að við getum fylgt því eftir með aðgerðaáætlun.

Hér eru settir fram fjórir kjarnaþættir og áherslur sem aðgerðaáætlun getur síðan vonandi speglað sig í. Þessar áherslur til framtíðar í geðheilbrigðismálum þurfa að vera jafnt og greitt aðgengi að einfaldri, skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu sem byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu hverju sinni, gæðaviðmiðum og nýsköpun og veitt af hæfu starfsfólki.

Ég ætla nú að gera mér far um, virðulegi forseti, að rekja meginefni tillögunnar. Fyrsti áhersluþátturinn sem ég nefni af þessum fjórum lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis. Það er mikilvægt að hlúa að geðheilsu alla ævi. Þegar fólk hefur góða geðheilsu líður því betur og finnst það í stakk búið að takast á við lífið. Þá erum við eðli máls samkvæmt betur í stakk búin að takast á við lífið á uppbyggilegan hátt og njóta okkar í leik og starfi. Við nýtum hæfileika okkar betur og við tökum virkari þátt í samfélaginu og allt hangir þetta nú saman. Geðrækt snýr að því að styðja fólk til þess að efla og hlúa að geðheilsu sinni og þetta þurfum við auðvitað að hafa í huga alla ævi. Það er mikilvægt að fólk fái það veganesti strax í æsku. Auðvitað verðum við að horfa til rannsókna og það eru jákvæð tengsl við aðra og góðar uppeldisaðstæður sem eru meðal mikilvægustu atriða sem hafa áhrif á okkur allt okkar líf og okkar geðheilbrigði, auðvitað auk líffræðilegra, sálfræðilegra og félagslegra umhverfisþátta sem hafa áhrif á geðheilsu okkar.

Þetta eru, virðulegur forseti, þættir í daglegu lífi fólks eins og heimilisaðstæður. Það kom fram í ágætri ræðu hjá hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur, í umræðum um annað mál, sem vissulega hefur áhrif á alla samfélagslega þætti, þ.e. sóttvarnaráðstafanir og það hvernig við fórum í gegnum heimsfaraldurinn Covid-19. Uppvaxtarskilyrði barna, skólaumhverfi, menntun, atvinna og félagsleg og efnahagsleg staða, þessir áhrifaþættir eru að stórum hluta utan heilbrigðiskerfisins en það er engu að síður mikilvægt þegar um er að ræða geðheilbrigðisþjónustu, sem er í kjarna sínum undir heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðiskerfinu, að taka mið af einstaklingum í umhverfi hans og á hans forsendum. Hún kemur mjög vel fram í nýlegri skýrslu ríkisendurskoðanda þessi skörun innan velferðarkerfisins. Það er mjög mikilvægt að við náum að taka á því, að við horfum til einstaklingsins í sínu umhverfi og á hans forsendum.

Tækifæri gefast til að kenna börnum að hlúa að geðheilsu sinni á kerfisbundinn hátt í gegnum skólann sem vettvang geðræktar, forvarna og snemmbærra úrræða. Markviss kennsla í félagsfærni, hegðunarfærni og tilfinningafærni er mikilvæg undirstaða fyrir farsæld fólks og ég held að við þurfum, virðulegi forseti, að huga að þessu öllu í öllu okkar umhverfi, ekki bara í skólaumhverfinu heldur alls staðar þar sem við tökum þátt. Slík þekking og reynsla er mjög mikilvæg til að geta skilið eigin tilfinningar og hegðun, sett okkur í spor annarra og myndað farsæl tengsl við aðra, fundið eigin leið til að ná markmiðum og taka ábyrgar ákvarðanir í lífinu. Þessa færni er hægt að kenna og enn fremur er áríðandi að bjóða úrræði þegar vanda verður vart og koma þannig í veg fyrir að vandinn verði verri. Það er þessi snemmtæka íhlutun sem við nefnum svo oft, þessi snemmtæku úrræði, að við opnum á bæði leiðbeiningar og kennslu og svo að veita stuðning þegar á þarf að halda — og það snemma.

Ríkisstjórnin samþykkti árið 2020 aðgerðaáætlun um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Þessar aðgerðir ná þvert á skóla- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og sveitarfélögin. Stýrihópur um innleiðingu er að störfum og hefur forgangsraðað þeim aðgerðum sem brýnastar eru á næstu árum. Það þarf að innleiða grundvallarþætti þessarar aðgerðaáætlunar í leik-, grunn- og framhaldsskólum, svo sem geðrækt sem námsgrein í aðalnámskrá, þrepaskiptan stuðning í grunnskólum landsins og samvinnu þar að lútandi við fyrsta stig heilbrigðisþjónustu.

Þá var unnin hér aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi árið 2018 og hefur verkefnastjóri hjá embætti landlæknis haft umsjón og eftirfylgni með aðgerðum sem byggjast á henni. Það verkefni er komið vel á veg en mörgum aðgerðum er þó enn ólokið. Það er lögð áhersla á að ljúka innleiðingu á þeim aðgerðum sem lúta að heilbrigðisþjónustu fyrir árið 2030. Þá er lögð sérstök áhersla á að allir landsmenn hafi greiðan aðgang að hagnýtum, gagnreyndum og auðlesnum upplýsingum um geðrækt, forvarnir og geðheilbrigðisþjónustu sem auðveldar þeim að stunda heilbrigðan lífsstíl og bæta og viðhalda geðheilsu og bata. Þannig munu allir landsmenn hafa tækifæri til að styrkja og viðhalda eigin geðheilbrigði með aðgengi að upplýsingum í öruggu og samtengdu stafrænu umhverfi, svo sem á Heilsuveru. Leitast verður við að auka heilsulæsi fólks og gera því betur kleift að taka upplýstar ákvarðanir um eigin geðheilsu og hvernig best megi hlúa að henni.

Hér hef ég farið yfir þennan fyrsta áhersluþátt. Hann er mjög víðtækur og hann er á sama tíma mjög mikilvægur. Við erum hér að lýsa sýn og stefnu, hvert við viljum fara, og vonandi berum við gæfu til að fylgja því eftir með öflugri aðgerðaáætlun.

Annar áhersluþáttur stefnu í geðheilbrigðisþjónustu lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnrýeyndu meðferð og endurhæfingu og að geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur annars staðar í velferðarþjónustu. Skortur á samþættri og heildrænni geðheilbrigðisþjónustu og skortur á starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustu eru megináskoranir í geðheilbrigðisþjónustu sem og annarri heilbrigðisþjónustu. Við höfum mikið rætt það, m.a. hér í þessum þingsal, og flestar skýrslur sem við förum í gegnum draga fram þessa áskorun. Talið er að fimmti hver Íslendingur geti átt von á því að glíma við geðheilbrigðisvanda einhvern tíma á lífsleiðinni og þurfi að leita aðstoðar hjá fagaðila í því samhengi. Það er mikilvægt að landsmenn hafi aðgengi að árangursríkri meðferð og endurhæfingu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Til að mæta kröfum um gæði, öryggi og framþróun í þjónustunni þarf að huga vel að þeim mannauði sem knýr kerfið áfram. Sem dæmi þarf mönnun að vera í samræmi við umfang og eðli þjónustu þannig að tryggja megi geðheilbrigðisþjónustu innan ásættanlegs biðtíma. Því þarf fullnægjandi þverfaglega mönnun í geðheilbrigðisþjónustu sem er í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi með tilliti til viðfangsefna, hæfniviðmiða, handleiðslu og símenntunar. Sérstaka áherslu þarf að leggja á fjölgun fagstétta þar sem nýliðun er takmörkuð. Í heilbrigðisþjónustunni vil ég taka hér fram, virðulegi forseti, talandi um áskoranir í mönnun, að þetta samspil á milli fagstétta er líka mikilvægt þegar við verðum að horfa á þjónustuna og samþættingu á þjónustu sem við þurfum að passa upp á. Þannig er lögð áhersla á að einstaklingar með persónulega reynslu sem notendur geðheilbrigðisþjónustu starfi og veiti ráðgjöf varðandi þjónustuna og miðli þannig þekkingu sinni með það að markmiði að bæta gæði þjónustunnar.

Þetta kemur seinna fram, í öðrum áhersluþáttum, en hér er lögð áhersla á samhæfingu og samvinnu í samskiptum heilbrigðis-, félags- og barnaþjónustu. Til langs tíma hefur samhæfingu á milli þjónustukerfa verið ábótavant og skort hefur á að þörfum notenda sé mætt með árangursríkum lausnum og réttu þjónustustigi sem veittar eru tímanlega. Sem dæmi má nefna að ekkert landfræðilegt samhengi er á milli heilbrigðisumdæma, sveitarfélaga og lögregluumdæma.

Hér sé ég bara að tíminn er á þrotum og ég er rétt hálfnaður með framsögu, hæstv. forseti. En ég get komið eitthvað inn í samtalið hér á seinni stigum. Þingsályktunartillagan sem fylgir fer býsna vel yfir þessa þætti. Ég ætla að fá að ljúka þessu (Forseti hringir.) með því að leggja til að að lokinni fyrri umr. verði þingsályktunartillögunni og málinu vísað til hv. velferðarnefndar.



[19:35]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mig langar að nota þetta tækifæri og inna hann eftir vinnu við aðgerðaáætlun. Ég sé á netinu að skipaður hefur verið samráðshópur sem á að vinna að aðgerðaáætlun á grunni stefnunnar, verði hún samþykkt, til ársins 2030. Ég geri ekki athugasemdir við það en ég velti fyrir mér — vegna þess að við höfum verið og erum með til umfjöllunar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem hæstv. ráðherra minntist á, um stöðu geðheilbrigðisþjónustu hér á landi, og sú skýrsla lýsir mjög vel því óviðunandi ástandi sem ég tel vera, og tek því undir með ríkisendurskoðanda, í geðheilbrigðisþjónustu. Því miður eru það ekki ný tíðindi, því miður er það ekki eitthvað sem gerðist í gær eða á síðasta ári eða í Covid. Það er miklu eldri saga sem byggir á því að við höfum vanfjármagnað geðheilbrigðisþjónustuna. Hún fær ekki það hlutfall af framlögum til heilbrigðisþjónustu sem hún á að fá, í samræmi við þyngd sjúklinga, fjölda sjúklinga o.s.frv.

Ég spyr því hvort þessari stefnu sé fylgt eftir, ekki aðeins með aðgerðaáætlun heldur ítarlegri kostnaðaráætlun, og hvernig ríkisstjórnin hyggst fjármagna þær aðgerðir sem eru algjörlega nauðsynlegar til að bæta geðheilsu með bættri geðheilbrigðisþjónustu og annarri þeirri samþættingu og þeirri nálgun sem nefnd er í stefnunni. Í fljótu bragði sýnist mér hún vera fagleg og rétt.



[19:38]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir. Það gefur mér færi á að bregðast við þessu. Þetta er nefnilega mjög mikilvægt. Ég átti góðan stöðufund með samráðshópi sem er að vinna að aðgerðaáætlun í samræmi við þessa stefnumótun. Auðvitað leggjum við áherslu á að taka mið af því sem fram kemur í skýrslu ríkisendurskoðanda, sem ég tel mjög góða. Þetta er það besta sem ég hef séð hingað til þar sem er stöðumat og reynt að draga fram hvar fjárhæðirnar liggja í kerfunum okkar.

Það er tvennt sem liggur fyrir í framhaldsvinnunni og við höfum verið með mjög öflugan samráðshóp, ég leyfi mér að segja að við höfum verið með landsliðið þar. Við höfum verið með kjarnahópa og rýnihópa og í mjög breiðu samráði við þá sem gerst þekkja og notenda sömuleiðis. Það sem liggur fyrir er að taka mið af þeim ábendingum sem koma fram í skýrslunni — ég veit að hópurinn hefur þegar hafið vinnu við það — og taka tillit til þeirra þátta sem snúa að greiningum og fjármögnun og sköruninni og öllu því sem fram kemur og reyna að rýna það. Á sama tíma hefur þingið sagt sitt um þessa stefnu og velferðarnefnd fjallað um hana, mögulega gripið niður í stefnuna og sagt: Gerum þetta eitthvað aðeins öðruvísi, skerpum sýnina þarna, setjum inn aukamarkmið o.s.frv. Það er það tvennt fram undan sem hópurinn sem vinnur aðgerðaáætlunina horfir til frá þessum punkti í dag.



[19:40]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra að hinn nýskipaði samráðshópur hefur tekið til starfa og ætlar að taka mið af þeim tilmælum sem koma fram í stöðuskýrslu Ríkisendurskoðunar. Það veit á gott. Auðvitað er ég fullmeðvituð um að það er líka verið að sameina krafta með farsældaraðgerðunum, ég ætla bara að fá að kalla þær það. Við erum komin þangað sem betur fer að bæði stjórnmálamenn og auðvitað fagfólk skilur nauðsyn þess að unnið sé þvert á fagstéttir, í þverfaglegum teymum, af því að þannig fær fólk bestu geðheilbrigðisþjónustuna og það er algerlega nauðsynlegt að sinna henni með þeim hætti.

Mig langar þó að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra sem var hér áður, ekki fyrir svo löngu, formaður fjárlaganefndar og þekkir mjög vel ríkisfjármálin og að við störfum ekki aðeins eftir fjárlögum heldur einnig fjármálaáætlun til lengri tíma. Í fljótu bragði sé ég ekki að aukning til útgjalda í heilbrigðismálum sé önnur en sú sem hlýst af öldrun og/eða fjölgun þjóðarinnar. Því fýsir mig að vita hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hyggist ekki beita sér af öllu afli innan ríkisstjórnarinnar fyrir fjármögnun heilbrigðiskerfisins og ekki síst þess hluta sem hér er til umræðu, geðheilbrigðiskerfisins sem hefur verið bæði vanrækt og vanfjármagnað. Það verður bara að segjast eins og er. Ef hæstv. ráðherra vantar stuðning í það mál þá má finna hann hjá þingmönnum Samfylkingarinnar.



[19:42]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni yfirlýstan stuðning, ekki veitir af. Ég vil fylgja þeim orðum eftir og þeirri hvatningu, og mér finnst vera lag og tækifæri. Við höfum látið hjá líða allt of lengi í þessum tiltekna málaflokki og í þessari heilbrigðisþjónustu að bregðast við og við höfum ekki tekið nægjanlega utan um hana. En mér finnst margt hafa verið jákvætt á undangengnum misserum.

Það er hárrétt, sem hv. þingmaður dregur hér fram. Fyrir utan það sem hefur verið eyrnamerkt í geðheilsuteymin og þar sem farið hefur verið af stað með stuðning og þjónustu sálfræðinga í heilsugæslu sem fyrsta stigs þjónustu — og svo höfum við sett stöku Covid-fjármuni inn í kerfið til að styðja við geðheilsuteymin — er augljóst að við þurfum að kostnaðarmeta ærlega hvern þátt í aðgerðaáætluninni sem er til þess fallinn að við náum þeim markmiðum sem við setjum fram í þessari stefnu sem við fjöllum um.

Það mun alveg örugglega koma til þess að við þurfum að horfa á tímalínuna í því. Ég geri ráð fyrir að við getum hrint sumum þessara aðgerða úr vör þá og þegar og aðrar taka lengri tíma. Við þurfum bara að fá ærlegt kostnaðarmat þannig að hver aðgerð verði kostnaðarmetin. Út frá því verðum við síðan eðli máls samkvæmt að horfa á forgangsröðunina í meðferð fjármuna. En ég held að það sé lag og tækifæri núna til að gera enn betur í þessum mikilvæga málaflokki.



[19:44]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa þingsályktunartillögu. Mig langar kannski fyrst að nefna geðræktina, þ.e. að talað er um að fá geðrækt inn í aðalnámskrá skólanna. Mér finnst það vera mikið fagnaðarerindi. Margar fagstéttir, sálfræðingar og aðrir, hafa talað um að einhvers konar geðrækt þurfi að vera í aðalnámskrá, hvernig sem hún yrði útfærð. Það er mögulega verið að kenna hugræna atferlismeðferð eða aðrar gagnreyndar aðferðir sem eru mikilvægar og virka og er hægt að kenna börnum á grunnskólastigi. Það þarf að vanda vel til verka og það þarf að gera þetta vel. Ég veit að sums staðar eru skólarnir að gera mjög góða hluti og flestir eru að reyna sitt besta í að vera með einhvers konar geðrækt eða fræðslu.

Mig langaði í fyrsta lagi að spyrja: Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra það vald að setja geðrækt í námskrá? Fellur það undir hans svið? Í öðru lagi: Hver ætti að kenna þessa geðrækt og hvernig sér hæstv. ráðherra þetta fyrir sér?



[19:47]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur mjög góðar spurningar. Hv. þingmaður kemur inn á fyrsta áhersluþáttinn í þessari stefnumótun. Við getum talað um vegferð þegar við erum að leggja upp með stefnu og sýn. Ég veit að hv. þingmaður, með sína sérþekkingu, er mér sammála um mikilvægi forvarna og geðræktar, áherslu á geðrækt og snemmtæka íhlutun og stuðning við börnin og unglingana, og ávinninginn af því inn í framtíðina þegar við hlúum að geðrækt á öllum aldursstigum. Ég er fullviss um það og þarf ekki að fara yfir það.

En hv. þingmaður spyr hvort það sé á valdsviði heilbrigðisráðherra að setja þetta inn í námskrá. Við getum haft þetta sem markmið í stefnu um heilbrigðisþjónustu og sýn á hana. En það er hárrétt að aðalnámskrá er undir málefnasviði hæstv. barna- og menntamálaráðherra. En þarna komum við líka að því að við þurfum að vinna þessa hluti þverfaglega í stjórnsýslunni og tryggja að það bitni ekki á einstaklingum sem fá þjónustuna að við séum að setja einhverja múra innan kerfanna. Þetta kemur einmitt mjög skýrt fram í skýrslu ríkisendurskoðanda og þarna getum við sett markmiðið og svo fáum við barna- og menntamálaráðherra, sem hefur einmitt lagt drög að þessari vinnu um farsæld í þágu barna, til að huga að þessum þætti í námskrá svo að stefnan gangi upp.



[19:49]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Þetta er mjög metnaðarfullt markmið og ég fagna því. Þess vegna vil ég ganga úr skugga um að við getum barist fyrir þessu, að það verði barist fyrir þessu á öllum vígstöðvum. Mig langar einnig að tala um það sem segir í þingsályktunartillögunni, með leyfi forseta:

„Skortur á samþættri og heildrænni geðheilbrigðisþjónustu og skortur á starfsfólki á öllum stigum heilbrigðisþjónustu eru megináskoranir í geðheilbrigðisþjónustu.“

Þetta er vandi og við vitum að það eru margar fagstéttir sem fara annað. Við vitum að kulnun og fleiri erfiðleikar á vinnumarkaði, t.d. veikindi í tengslum við það að vinna í heilbrigðisþjónustu og einnig í geðheilbrigðisþjónustu, eru mikil áskorun fyrir heilbrigðiskerfið og félagslega kerfið okkar. Það sem mig langar kannski helst að koma að er: Af hverju heldur hæstv. heilbrigðisráðherra að þessi mikli skortur sé á starfsfólki í geðheilbrigðisþjónustu?



[19:51]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Ég hef ekki tiltæk svör varðandi síðustu spurninguna, en allt hangir þetta nú saman, varðandi ástæðu þess að það skortir fólk til starfa. Ég er ekki með neinar tölur þess efnis. Við settum á laggirnar landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu og í þeirri greiningu sem ég hef fengið að rýna í, í fjölmörgum skýrslum, er dregið fram að í öllum stéttum heilbrigðisþjónustunnar er skortur á fagfólki. Við höfum séð þetta birtast í þeirri þjónustu sem við höfum verið að setja á laggirnar, við erum alltaf að keppa um þennan takmarkaða mannauð. Ég get tekið dæmi um það þegar geðheilsuteymin voru sett á laggirnar að þá fóru fagaðilar af Landspítalanum inn í þau, þannig að það er togast á um takmarkaða auðlind. Þetta er eiginlega innan allra fagstétta heilbrigðisþjónustunnar og það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta er mikil áskorun.

Varðandi fyrri part spurningarinnar um þessa þverfaglegu sýn er bara mjög mikilvægt, og þess vegna setjum við fram þessa sýn, að tryggja að skjólstæðingar fái þessa árangursríku geðheilbrigðisþjónustu sem byggir á gagnreyndri þekkingu og klínískum leiðbeiningum þannig að við nýtum allar fagstéttir. Á þessu svið eins og svo mörgum erum við að færa okkur meira í átt að teymisvinnu og fjölbreyttri þekkingu sem er svo mikilvægt til að sinna fólki.



[19:53]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Ég ákvað að koma einkum inn á tvö mál sem tengjast þessari þingsályktunartillögu og það vill þannig til að það eru mjög sambærileg atriði og tveir hv. þingmenn komu hér inn á í andsvörum sínum. Að öðru leyti geri ég ráð fyrir að dýpka skilning minn á þessari tillögu í gegnum vinnu í velferðarnefnd og vinna þá úr þeim umsögnum sem þangað munu berast.

Fyrst vil ég koma aðeins inn á samspil þessarar stefnu við þær úttektir og þær skýrslur sem hafa verið að berast til þingsins í vetur og til stjórnvalda, og er jafnvel von á á næstu dögum, sem tengjast sérstaklega þjónustu við börn, þ.e. hvernig samspil þessara úttekta verður við stefnuna og þá aðgerðaáætlun sem kemur í kjölfarið. Að einhverju leyti kom þetta fram hér í andsvörum en ég held að þetta sé eitt af því sem velferðarnefnd þarf að velta fyrir sér og átta sig vel á, hvernig þetta mun spila saman. Eins finnst mér svolítið óljóst af textanum sem hér er, án þess að ég sé búin að lesa hann algjörlega frá orði til orðs, hvernig eigi að vinna aðgerðaáætlunina. Ég sat áður í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem það er mjög skýrt hvernig samspil stefnu og aðgerðaáætlunar er byggt upp. Það virðist vera miklu óljósara á mörgum sviðum sem tengjast heilbrigðismálum og þess vegna finnst mér áhugavert að við ræðum það í nefndinni, hvernig þetta samspil er, hver stýrir vinnunni og hvert hlutverk samráðshópsins við helstu hagsmunaaðila er. Þetta var annað af því sem mig langaði að velta upp í von um að það myndi skila sér betur inn í umræðuna í nefndinni.

Mig langaði hins vegar að koma inn á fræðsluna sem skiptir mjög miklu máli. Eins og staðan er, og hefur í raun verið um árabil, fer töluverður tími af því sem heitir lífsleikni eða umsjónartímar í stundaskrá í fræðslu sem getur fallið undir geðrækt. Þetta á við alveg frá leikskóla upp í framhaldsskóla, akkúrat um það sem segir hér: „Slík þekking og reynsla er mikilvæg til að geta skilið eigin tilfinningar og hegðun, sett sig í spor annarra og myndað farsæl tengsl við aðra, fundið eigin leiðir til að ná markmiðum sínum og tekið ábyrgar ákvarðanir í lífinu.“ Út á þetta gengur meira og minna vinna umsjónarkennara og þeirra sem kenna lífsleikni í skólum en ég tek hins vegar heils hugar undir það að mikilvægt er að skýra það betur í námskránni hvernig þetta er unnið og auka aðgengi kennara að námsefni og ýmsum verkfærum til að miðla þessari þekkingu, þó að mikið hafi gerst á undanförnum 20 til 25 árum. Þetta hefur í raun verið að byggjast upp um árabil og er að einhverju leyti komið inn í námskrá en það má bæta.

En mig langar líka að koma aðeins inn á sértækari kennslu til þeirra sem greinast með geðrænan vanda. Nú er það þannig að margir greinast með geðrænan vanda á framhaldsskólaaldri eða á þeim aldri sem flest fólk er í háskóla. Þá erum við að tala um raskanir eins og geðhvörf og ýmsar aðrar geðraskanir. Eftir því sem ég best veit er það sums staðar þannig í löndunum í kringum okkur að þegar fólk greinist með slíka röskun á unglingsaldri þá er því beinlínis boðið upp á námskeið, og jafnvel aðstandendum, til þess að átta sig á við hverju má búast, hvað fylgir slíkri greiningu og eins hvaða bjargir eru fyrir hendi, hvaða verkfæri fólk getur nýtt til að takast á við vandann. Ég held að hægt sé að gera mikið með því að auðvelda fólki að læra að lifa með sjálfu sér. Það er stærsta verkefnið sem við fáum öll í lífinu að takast á við það að vera við sjálf. Ég held að þetta sé líka lykilatriði í valdeflingu, að hver og einn læri hvaða verkfæri henta viðkomandi til að takast á við þær áskoranir sem mæta honum á lífsleiðinni.

Þetta var það tvennt sem ég vildi einkum koma inn á en svo er kannski annað sem ég vil nefna sem tengist náttúrlega þessum kafla líka, um að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga, og það er samspil við líkamlega heilsu. Það er kannski ekki síst þegar kemur á fullorðinsár að andlegri heilsu hrakar oft samhliða því að líkamlegri færni hrakar, samhliða ýmiss konar hrörnunarsjúkdómum eða sjúkdómum sem hafa á annan hátt áhrif á líkamlega getu. Ég held því að þetta sé þáttur sem skiptir ótrúlega miklu máli, þegar við horfum þvert á kerfi, að horft sé til samspils líkamlegrar og andlegrar heilsu.

Það var svo sem ekki fleira sem ég hafði hugsað mér að koma inn á núna en það er margt þarna sem ég veit að ég á eftir að setja mig betur inn í. Það mun vonandi takast í vinnu velferðarnefndar að dýpka umræðuna um þessa mikilvægu tillögu.



[20:01]
Halldór Auðar Svansson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framlagningu þessarar tillögu og fyrir góða framsögu um hana. Mér líst að mörgu leyti vel á áherslupunktana í þessari stefnu og mér finnst líka þakkarvert hve hæstv. ráðherra er hreinskilinn varðandi stöðu mála. Það er í raun verið að halda áfram vegferð sem hófst á síðasta kjörtímabili, sem er sú að ná utan um þennan málaflokk sem sérstakan málaflokk innan heilbrigðiskerfisins og setja um hann sérstaka stefnu. Þetta er í annað sinn sem verið er að setja hér sérstaka heilbrigðisstefnu. Efnislega finnst mér áherslurnar sem birtast fremst, sem eru grunnurinn að þessari stefnu, vera góðar að því leyti að það er viðurkennt að geðheilbrigði og geðheilbrigðisþjónusta er meira en bara að bregðast við og veita þjónustu þegar vandi er kominn upp og fólk er orðið fullorðið. Þetta snýst ekki síður og jafnvel aðallega um aðbúnað í æsku, uppeldisaðstæður, og kannski stærri samfélagslega þætti. Það er gott að þetta er tekið saman þó að ég sakni þess kannski að aðgerðunum fylgi ekki aðeins víðtækari nálgun. Það er mjög jákvætt að auka geðfræðslu í skólum en í samræmi við það hvernig áherslupunktunum er lýst væri ekki vitlaust að huga líka að stuðningi við foreldra, í öllu sem viðkemur stuðningi við börn, og svo náttúrlega jafnræði og jöfnuði. Erfiðar efnahagslegar aðstæður geta haft mjög alvarleg áhrif á geðheilsu.

Eins og hæstv. ráðherra kom aðeins inn á þá hefur barnamálaráðherra, sem ber þann titil, líkt og hann gerði til helmings á síðasta kjörtímabili, verið að móta áherslur sem lúta akkúrat að þessu, að huga að forvörnum gagnvart börnum og aðbúnaði þeirra og viðurkenna að slíkt hefur mjög mikil áhrif á líf fólks, að það sé í raun hagstæðasta aðferðin til að huga að geðrækt að gera það snemma í stað þess að bregðast við síðar. Þetta gæti mögulega verið ein ástæða þess að kostnaður hefur aukist, t.d. þegar kemur að geðlyfjum, og við sjáum líka fjölgun í hópi þeirra sem eru á örorku vegna geðrænna sjúkdóma. Það má sjá fyrir sér að þarna sé hægt að draga verulega úr því að fólk lendi í því að þurfa á þungri þjónustu að halda með því að koma inn fyrr.

Svo er komið inn á mönnun. Hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir kom aðeins inn á það og spurði út í mögulegar ástæður þess. Ég held að það hafi komið mikið fram í samráði, líkt og kemur fram í greinargerð, að einn þáttur hlýtur að vera fjármögnun kerfisins. Þjónustustigið er eðlilega í samræmi við fjármagnið sem veitt er, það þarf að fara vel yfir þetta og átta sig á að þessum aðgerðum þarf að fylgja fjármagn. Annar þáttur hvað varðar mönnun getur mögulega snúið að kerfinu sjálfu og tækifærum sem boðið er upp á þar. Þó að það haldist í hendur við fjármögnun þá fer það líka saman við stefnumótun. Hæstv. heilbrigðisráðherra kom aðeins inn á það að geðheilsuteymin — ég þekki til þeirra af því að ég starfaði við eitt þeirra í rúm tvö ár þannig að ég get borið þeim gott vitni. Það er einmitt eitt dæmi um mjög jákvæða hluti en þar er verið að innleiða þverfaglega nálgun og færa þjónustuna í nærsamfélagið. Hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi að fagfólk hefði verið að leita þaðan af Landspítalanum og Landspítalinn hefur kvartað yfir því að vera að missa fólk. Mér finnst það einkennast af skortshugusnarhætti, að þetta sé það takmörkuð auðlind að það sé missir af því að auka þjónustuna. Við verðum náttúrlega að átta okkur á því að fólk er samt sem áður að njóta þjónustu þarna, það er bara á öðrum stað. Ég ætla að leyfa mér að vera svo bjartsýnn að trúa því að það að auka tækifæri fyrir fólk til að starfa, hvort sem er inni á stofnun eða í teymi eða einhvers staðar annars staðar, skapi hvata fyrir fólk til að mennta sig í þeim fræðum sem veita fólki starfsréttindi á þessu sviði. Ég vil tala svolítið gegn þessum skortshugsunarhætti, að með því að auka framboð sé verið að ganga á takmarkaða auðlind frekar en að framboðið muni leiða til þess að auðlindin stækkar svolítið.

Ekki verður komist hjá því að koma aðeins inn á mál sem hefur verið margnefnt hér í þingsal og hefur verið afgreitt héðan, sem er niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu. Þarna er aðeins komið inn á hana og í raun er athugasemdum sem koma fram í samráðsgátt svarað. Þar er vísað til þess að það sé ábyrgð Sjúkratrygginga að semja um útfærsluna. Þarna finnst mér aðeins horft fram hjá því að það er erfiðara að semja ef fjármagn er ekki til staðar. Ég er á því að fjármagninu þurfi að úthluta fyrir fram eða alla vega samhliða, að það sé greint nákvæmlega hvert umfang þessa þáttar þjónustunnar á að vera og fjármagni síðan úthlutað í samræmi við það.

Að öðru leyti óska ég nefndinni velfarnaðar í að fara yfir málið og að sjálfsögðu þeim sem koma til með að innleiða stefnuna. Ég hvet enn og aftur til að hugað verði vel að fjármögnun. Ég vonast til þess að þær greiningar sem liggja fyrir og verður farið í muni varpa góðu ljósi á nákvæmlega hver þjónustuþörfin er, hvort fjárveitingar eru til staðar og hvar fjármagnið nýtist best.



[20:10]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Mig langar að byrja á að tala aðeins um stefnu sem var unnin og heitir Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Stefnan var unnin í miklu samráði við fagfólk og þingsályktunartillagan sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að leggja fram er unnin upp úr henni. Það eru þó ýmsir hlutir og aðgerðir sem ég sakna úr stefnunni sem eru, að mér sýnist, ekki í þessari tillögu til þingsályktunar. Þar er sumt, enda var þetta mjög metnaðarfull stefna, en annað er ekki.

Mig langar að byrja á að nefna aðgerð sem talað er um. Áður en stefnan fór í gegnum samráðsgátt var talað um, með leyfi forseta: „[…] að tryggja kjör heilbrigðisstarfsmanna til þess að tryggja samfellu í þjónustu og að atgervisflótti verði ekki í fagstéttum sem geri þjónustuna brothætta.“

Einnig er hér önnur sem mér finnst mikilvægt að komi fram þar sem hún var í þessari framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem var inni í samráðsgátt. Það stendur hér, með leyfi forseta:

„Hanna og byggja fyrir 2030 nýtt húsnæði fyrir geðþjónustuna sem svarar kalli tímans um aðbúnað einstaklinga í meðferð og aðstandendur, húsnæði þar sem starfsfólk getur sinnt öllum þáttum þjónustunnar betur en hægt er í dag með tilliti til greiningar, meðferðar, öryggis og sóttvarna og þar sem innlagðir sjúklingar hafa einstaklingsherbergi og greiðan aðgang að útisvæði.“

Fyrir mér hljómar þetta mjög mikilvægt, mjög mikilvæg aðgerð sem er grundvöllurinn að því að geðdeildir Landspítalans virki eða muni virka. Það er nefnilega svo að það er mikið ákall um betri aðbúnað fyrir fólk sem lendir í því að þurfa að sækja sér þjónustu á geðdeildir spítala. Það er mikið ákall um breytingar. Ekki þarf annað en að fara bara sjálfur inn á, hvort sem það eru deildir á Landspítala eða Kleppsspítala eða hvar sem það er, aðbúnaðurinn er bara ekki í lagi. Hann er fyrir neðan allar hellur. Hvernig á fólki að líða vel og ná heilsu á ný þegar umhverfið er eins og það er akkúrat núna á spítalanum? Það er ekkert skrýtið að fólk vilji helst ekki leggjast inn. Umhverfið er bara þannig, það býður mann ekki velkominn, enda virðist ekki neitt hafa verið gert þarna í ég veit ekki hve mörg ár. Auðvitað er starfsfólkið að gera sitt besta í ómögulegri stöðu, með ekkert fjármagn eða alla vega ekki nægilega mikið. Mygla, það er eitthvað sem maður heyrir oft. Það er mjög mikilvægt að nákvæmlega þetta atriði, umhverfi fyrir fólk sem er að kljást við geðraskanir, sé þannig að fólki líði vel. Grundvöllurinn að því að fólk sæki sér þjónustuna er, eins og var sagt hér, að fólk hafi t.d. greiðan aðgang að útisvæði. Ég held að hver maður sem hefur komið inn á geðdeildir Landspítala sé sammála mér um að þetta umhverfi er ekki í lagi. Það er mjög mikilvægt, tel ég, að þetta sé lagað sem fyrst.

Einnig er það önnur aðgerð sem ég sé í fljótu bragði ekki að sé nefnd hér, það gæti þó verið að það atriði sé hér einhvers staðar falið, en það er að stórauka stuðning og fræðslu fyrir foreldra. Þetta er mjög mikilvægt. Oft eru foreldrar bestu meðferðaraðilarnir en foreldrar hafa oft og tíðum ekki þekkinguna. Þess vegna er mjög mikilvægt að við gleymum ekki þessari aðgerð.

Einnig er talað um að hefja niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu. Það er hér í þessari framtíðarsýn. Það væri mjög gott ef það væri bara byrjað að fjármagna það og niðurgreiða sálfræðiþjónustu.

Annað er að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungmenni og fólk með geðrænar áskoranir. Þetta sé ég ekki í þessari tillögu til þingsályktunar. Þetta er mjög mikilvægt og má ekki gleymast. Þetta er hluti af því að koma unga fólkinu okkar út á vinnumarkaðinn með stuðningi. Það var nú bara í dag sem ég ræddi við fólk sem hefur upplifað geðrænar áskoranir og þráir það heitast að komast út á vinnumarkaðinn en tækifærin eru ekki til staðar.

Svo kemur hér aftur: „Byggja nýtt húsnæði geðsviðs Landspítala og endurskoða hugmyndafræði og innihald meðferðar.“

Hér er aftur talað um þetta og verið er að ítreka það og mikilvægi þess að breytingar verði á þessu. Það er grundvallaratriði að þessi þriðja stigs geðþjónusta sem veitt er á Landspítala virki.

Þar sem tíminn er að verða búinn vil ég einnig tala um einn punkt sem var í þessari stefnu en það er að útiloka nauðung og þvingun við meðferð. Þetta stendur ekki í þessari tillögu hér. Það er mjög mikilvægt að því sé haldið til haga, það er talað um þetta í þessari framtíðarsýn fyrir geðheilbrigðismál til ársins 2030.



[20:21]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér í dag að fela heilbrigðisráðherra að fylgja stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Í stefnunni koma fram tillögur og áhersluþættir sem ætlað er að bæta aðgengi og gæði heilbrigðisþjónustu í landinu. Þessi stefna skiptir mjög miklu máli, sérstaklega þar sem Ríkisendurskoðun kom með skýrslu fyrir stuttu þar sem farið var yfir stöðu geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk kynningu á þessari skýrslu og þar komu fram margir punktar. Til dæmis kom þar fram að ákveðin mismunun vegna búsetu, efnahags og tegundar geðvanda væri innbyggð í kerfið. Einnig var nefnt að tilteknir hópar væru á gráu svæði og fengju ekki þjónustu við hæfi. Ríkisendurskoðun kom með sjö tillögur til úrbóta, m.a. að efla ætti söfnun upplýsinga, greiningu og utanumhald, tryggja geðsjúkum samfellda þjónustu, útrýma gráum svæðum í geðheilbrigðisþjónustu, bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, huga að mönnun og sérhæfingu starfsfólks, tryggja tilvist geðheilsuteyma og vanda aðgerðaáætlanir og eftirfylgni þeirra. Þessar tillögur ríma mjög vel við þá þingsályktunartillögu sem við erum að ræða hér.

Ráðuneytið hefur fengið þessar tillögur úr skýrslunni til sín. Við eigum mjög mikla vinnu fyrir höndum til að auka og bæta geðheilbrigðisþjónustu í landinu og það sjá það allir. Ég fagna því að þingsályktunartillagan sé komin hér fram. Við þurfum að vinna vel að henni enda skiptir geðheilsa þjóðarinnar mjög miklu máli.



[20:23]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Það eru nokkrir aðrir punktar sem ég vil koma á framfæri sem ég sé ekki í þessari tillögu til þingsályktunar.

„Koma á fót mælaborði geðheilsu.“ Það er ein af þeim aðgerðum sem nefnd er í Framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Ég sé þetta ekki hér. Hér er þó talað um gæðaráð, sem er bara gott og blessað en það er þó þannig að svolítið hefur verið grynnkað á metnaðinum sem var í þessari framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Í lokaorðum skýrslunnar er talað um mikilvægi þess að koma þessari framtíðarsýn til framkvæmda og er nefnt að það þurfi samstillt átak allra hagsmunaaðila. Svo segir að hver og ein grunnstoðanna sjö muni þurfa sérstakar aðgerðaáætlanir með markmiðum og mælikvörðum. Þetta voru því sjö grunnstoðir með, að mig minnir, 42 aðgerðum.

Þó ber að nefna að þegar þessi framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var unnin var ekki vísað í neinar rannsóknir. Það er undarlegt að þar sem talað er um gagnreyndar og góðar aðferðir sé ekki vísað í grunnheimildir fyrir því að vilja gera hlutina á einn eða annan hátt. Taka mætti mun meira tillit til nýlegra rannsókna og vísa í þær á þann hátt að lesandinn gæti mögulega farið í frumheimild og lesið um rannsóknir sem tengdust því sem lagt er til að gera. Auðvitað er sumt af því mjög augljóst, eins og t.d. húsnæði fyrir geðdeildir, það er augljóst. Annað er ekki svo augljóst og er mikilvægt að vísa í rannsóknir sem sýna fram á að þetta sé besta leiðin til þess að gera hluti sem við ætlum okkur að gera.

Einnig langar mig að nefna í þessu samhengi að það sem vantar í framtíðarsýnina í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 er að ekki er tekið mikið tillit til mælanlegra eða hlutbundinna markmiða, það er ekki tekið tillit til fjárlaga, hversu mikið fjármagn þarf til þess að uppfylla þessa framtíðarsýn. Í þessa tillögu til þingsályktunar vantar þó marga aðgerðapunkta sem talað var um í framtíðarsýninni og ég sakna þess. Ég vona að þetta sé einungis fyrsta skrefið og í næstu skrefum verði sett fram metnaðarfull markmið, eins og niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu og húsakost þar sem fólki gæti liðið betur, þar sem vísað er í rannsóknir til að útskýra að um sé að ræða bestu leiðina til að gera hlutina. Einnig ber, finnst mér, hæstv. heilbrigðisráðherra að ræða um fjármagn. Það er það sem vantar, það er það sem skortir, það er það sem við þurfum, það er það sem þarf til þess að sinna þessum málaflokki eins og hann á skilið.



[20:29]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Evu Sjöfn Helgadóttur fyrir tvær prýðisræður og gott innlegg í umræðuna. Hv. þingmaður kom inn á fjölmargar góðar ábendingar sem hafa verið hluti af eldri aðgerðaáætlun og það er rétt. Ég vil bara ítreka að þessi stefnumörkun, sem hvílir til viðbótar á fyrri stefnumótun, þ.e. framtíðarsýn og markmiðum, og geðheilbrigðisþingi sem var mjög öflugt 2020 — við erum bara að horfa á fyrri hluta stefnumörkunarinnar og síðan munu fylgja aðgerðir. Og fjölmargar af þeim ábendingum sem hv. þingmaður fór yfir — ég vildi bara skýra það og þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þessa þætti, m.a. aðbúnaðinn og húsnæðið og hvernig við framfylgjum mælikvörðum og vísindunum og rannsóknum um gagnreyndar aðferðir. Það verður allt hluti af þeim mælikvörðum sem við munum síðan horfa til í þeirri aðgerðaáætlun sem mun fylgja.



[20:30]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir andsvar sitt. Já, ég efa það ekki að viljinn til góðra verka sé á bak við það sem hæstv. heilbrigðisráðherra er að segja okkur hér. Ég hef einungis áhyggjur vegna þess hversu illa hefur verið staðið að því að framfylgja aðgerðaáætlun. Ég hef áhyggjur vegna þess að mikilvæg atriði, sem mér þykja koma fram í framtíðarsýninni, eru ekki í þessari tillögu til þingsályktunar. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að mikilvægir hlutir gleymist og séu ekki settir í forgrunn. Mér finnst mikilvægt að draga fram það sem ekki hefur verið talað um hér en var hluti af niðurstöðum þar sem mjög mikið samráð átti sér stað. Ég vil halda því til haga að unnið verði upp úr þeim niðurstöðum og þær verði hafðar til hliðsjónar við að búa til markmið um betri þjónustu en vitað er að því var því miður ekki sinnt nægilega vel eða fylgt nægilega vel eftir á síðasta kjörtímabili, alla vega ekki 2016–2020, eins og kom fram í skýrslu ríkisendurskoðanda. Mér er umhugað um þennan málaflokk og ég vil bara að þetta sé gert vel og að fjármagn sé tryggt og það séu allir á sama sömu blaðsíðu með það.



[20:33]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil bara fá að koma hér í lokin og þakka góða umræðu og fjölmargar góðar ábendingar sem munu nýtast hv. velferðarnefnd og alveg örugglega þeim samráðshópi sem hefur hafið vinnu við undirbúning aðgerðaáætlunar sem mun fylgja þessari stefnumörkun. Þegar hv. velferðarnefnd er búin að taka utan um þessar ábendingar úr 1. umr. og eftir umfjöllun og umsagnir verða til mjög góð gögn fyrir þann hóp sem er að vinna aðgerðaáætlunina. Ég er því mjög þakklátur fyrir þær fjölmörgu góðu ábendingar sem hafa komið fram hér.

Það er nefnilega eitt — eins og kom fram í ræðum hv. þingmanna, og sú sem var hér síðast í ræðustól, hv. þm. Eva Sjöfn Helgadóttir, kom líka inn á það — að vera með sýn og stefnu og svo er annað hvernig við fylgjum því eftir og framkvæmum það. Eitt af því sem við getum tekið til okkar úr skýrslu ríkisendurskoðanda er að þegar við fylgjum þessu eftir, erum búin að ábyrgðarvæða hvaða aðgerð á heima hvar og á vettvangi hvers, getum við unnið úr því og lagt mat á það. Þá kemur að mælikvörðunum, sem verður mjög mikilvægt, og svo kostnaðarmati á hverja aðgerð fyrir sig. Þetta er fóður inn í vinnu samráðshópsins sem er kominn af stað við að vinna út frá þessari stefnu og tekur síðan mið af nýútkominni skýrslu ríkisendurskoðanda og þeirri umfjöllun um þá sýn og stefnu sem hér er sett fram. Sú sýn og stefna sem við erum að fjalla um hér byggir á fyrri stefnu og aðgerðum og geðheilbrigðisþingi sem var eiginlega alveg magnað. Þó að ég hafi ekki fengið að taka þátt í því, eða haft tök á því, hef ég bæði lesið í gegnum greinargerðir og heyrt frá þeim sem þar voru að það var mjög jákvætt innlegg í alla þessa vinnu. Ég get ekki lagt nógu mikla áherslu á það að við komum með aðgerðaáætlun til þingsins sem byggist á þessari stefnu og sýn. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvernig hv. velferðarnefnd kemur til með að vinna úr stefnunni og skila henni síðan áfram til okkar til að vinna með aðgerðaáætlunina.

Ég fór í framsögu vel yfir áhersluþætti eitt og tvö sem snúa að geðrækt og forvörnum, og hefur verið tekið ágætlega utan um það í ræðum hv. þingmanna, þennan heildræna hátt og samþættingu þjónustunnar í áhersluþáttum eitt og tvö. Ég verð þó að fá að koma inn á mikilvægi notendasamráðs. Ég hef lagt mikla áherslu á það í þessari vinnu, bæði við stefnu og aðgerðaáætlun, að horfa til þess og vinna að notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustunnar. Ég held að það sé mikilvægt á flestum sviðum. Til að slíkur samráðsvettvangur geti þróast í þennan breiða samráðsvettvang um geðheilbrigðismál þá er lagt til, í þriðja áhersluþætti, að koma á fót geðráði þar sem stjórnvöld, fagfólk, notendur og aðstandendur fjalli um málaflokkinn. Þetta er mjög mikilvægt skref sem við erum að stíga hér og hefur verð talað um það lengi, bæði af félagasamtökum og fagfólki í þessum geira. Þessi vettvangur hefur þá einnig það hlutverk að stuðla að samvinnu og samþættingu í geðheilbrigðisþjónustu og þróa leiðir til að auka þátttöku notenda í þróun og stýringu geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar. Ég held að þetta sé afar mikilvægt skref í þessu og mikilvæg áhersla.

Í fjórða lagi er komið inn á það í þessari áætlun, og ég held að við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu getum tekið undir það, að á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu eru nýsköpun og vísindi og þróun mikilvæg, eins og í allri annarri þjónustu, til að stuðla að betri geðheilbrigðisþjónustu og kannski ekki síst til að auka aðgengið.

Ég vil í lokin, hæstv. forseti, þakka kærlega fyrir mjög uppbyggilega umræðu og góðar ábendingar. Ég er ekki í vafa um að þær muni nýtast hv. velferðarnefnd í umfjöllun um þetta mál.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.