152. löggjafarþing — 77. fundur
 18. maí 2022.
tekjuskattur o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 678. mál (mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu). — Þskj. 1011.

[15:53]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, lögum um almannatryggingar og lögum um húsnæðisbætur. Í frumvarpinu felast tillögur að mótvægisaðgerðum til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör og kaupmátt viðkvæmustu hópa samfélagsins.

Verðbólga mældist 7,2% á ársgrundvelli í apríl sl. Hún var 6,7% í mars. Verðhækkanir á húsnæði eru enn megindrifkraftur verðbólgu en verðbólga án húsnæðis var 5,3% í apríl og hækkaði frá 4,6% í mars. Er það til marks um að verðhækkanir eru á breiðari grunni en áður. Þá hefur matvælaverð hækkað um 5%, bæði vegna innlendra og erlendra þátta.

Í nýlegri verðbólguspá Seðlabanka Íslands er gert ráð fyrir að verðbólga hækki áfram og verði rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi ársins. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur brugðist við verðbólguhorfum með hækkun vaxta. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur vaxið árlega síðastliðinn áratug. Sparnaðarhlutfall heimila er hátt, vanskil eru lítil og samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar hefur hlutfall heimila, sem eiga erfitt með að ná endum saman, aldrei verið lægra en á síðasta ári. Heilt yfir er því fjárhagsstaða heimila almennt sterk og viðnámsþróttur þeirra til að mæta áhrifum hækkandi verðlags og hærri vaxta nokkur.

Staða heimila til að takast á við vaxta- og verðlagshækkanir er þó ólík og líklegt að hærri verðbólga rýri lífskjör viðkvæmra hópa talsvert meira en annarra. Þess vegna er í frumvarpinu sérstaklega horft til þess að draga úr áhrifum verðbólgu á viðkvæmustu hópa samfélagsins. Í því samhengi er horft til aðila á leigumarkaði sem fá húsnæðisbætur, forráðamanna sem fá tekjutengdar barnabætur og aðila utan vinnumarkaðar sem reiða sig á bætur almannatrygginga. Lagt er til að hækka bætur almannatrygginga, greiða sérstakan barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta er hluti málsins sömuleiðis. Þannig er stutt við sértækan hóp einstaklinga með markvissum hætti.

Ég vil hér fara yfir einstök efnisatriði frumvarpsins og fyrst sérstakan barnabótaauka. Hér er tillaga um að til viðbótar almennum barnabótum skuli greiða sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni til þeirra sem fá ákvarðaðar barnabætur við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022. Barnabótaaukinn verður ákvarðaður sem föst fjárhæð á hvert barn sem öðlast heimilisfesti hér á landi á tekjuárinu 2021 og tekur ekki skerðingu í hlutfalli við dvalartíma þess. Sérstakur barnabótaauki telst ekki til skattskyldra tekna og leiðir ekki til skerðingar annarra tekna, svo sem bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá verður hinum sérstaka barnabótaauka ekki skuldajafnað á móti vangreiddum opinberum gjöldum til ríkissjóðs eða sveitarfélaga eða vangreiddum meðlögum. Um einskiptisaðgerð er að ræða og er gert ráð fyrir að skatturinn ákvarði barnabótaaukann til einstaklinga um mánuði eftir álagningu opinberra gjalda eða þann 1. júlí nk., að því gefnu að frumvarpið hafi verið samþykkt.

Í upphafi árs 2022 voru viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækkaðar um 5,5–5,8%, neðri skerðingarmörk um 8% og efri skerðingarmörk um 12%. Þessar breytingar rúmuðust innan 14 milljarða kr. útgjaldaramma barnabóta þar sem miklar launahækkanir hefðu annars leitt til þess að bæturnar hefðu dregist saman. Til viðbótar við almennar barnabætur hefur jafnframt verið greiddur sérstakur barnabótaauki síðustu tvö ár sem var 1,6 milljarðar kr. árið 2021 og 3 milljarðar kr. árið 2020.

Í öðru lagi, um bætur almannatrygginga og félagslega aðstoð, er í frumvarpinu lagt til að bætur almannatrygginga hækki og bætur til félagslegrar aðstoðar. Bætur ellilífeyrisþega hækkuð um 4,6% um síðustu áramót í samræmi við forsendur fjárlaga yfirstandandi árs og bætur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega um 5,6%. Til að milda áhrif verðbólgu á framangreinda hópa er gert ráð fyrir að bætur verði hækkaðar um 3% frá 1. júní nk. og að framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu, hækki einnig um 3%.

Og þá að húsnæðisbótum: Hér er lagt til að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækki um 10% frá 1. júní nk. og að frítekjumörk húsnæðisbóta hækki jafnframt um 3% til samræmis við fyrirhugaða hækkun bóta almannatrygginga. Lagt er til að hækkun frítekjumarka um 3% taki gildi með afturvirkum hætti frá 1. janúar á þessu ári til að hægt verði að framkvæma lokauppgjör og leiðréttingu húsnæðisbóta í samræmi við ákvæði laga um húsnæðisbætur. Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar nemur stærð leigumarkaðar hér á landi rúmum 32.000 íbúðum en áætlað er að tæplega helmingur þeirra sé í húsnæðisbótakerfinu. Þá er áætlað að a.m.k. 70% þeirra sem fá húsnæðisbætur séu með vísitölutengda leigusamninga.

Varðandi mat á áhrifum tillagna frumvarpsins þá er kostnaður ríkissjóðs af sérstökum einskiptisbarnabótaauka frá 1. júlí nk., að fjárhæð 20.000 kr., áætlaður um 1,1 milljarður. Kostnaður við hækkun bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar um 3% frá 1. júní nk. er áætlaður 3–3,5 milljarðar kr. en 5–5,5 milljarðar á ársgrundvelli. Verði frumvarpið að lögum munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækka um 10% frá 1. júní. Frítekjumörk húsnæðisbóta hækka um 3% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga. Eins og ég hef áður nefnt er gert ráð fyrir að hækkun frítekjumarka húsnæðisbóta taki gildi afturvirkt. Það er vegna þess að ekki væri ella unnt að framkvæma lokauppgjör og leiðréttingu húsnæðisbóta. Kostnaður við hækkunina nemur um 600 millj. kr. á yfirstandandi ári og um 1 milljarði kr. á ársgrundvelli.

Í forsendum fjárlaga yfirstandandi árs var ekki gert ráð fyrir áðurnefndum útgjöldum. Á hinn bóginn er einungis rétt um þriðjungur liðinn af árinu og í sjálfu sér nægar fjárheimildir til staðar fyrir árið í heild sinni. Ef í ljós kemur síðar á árinu að útgjöld viðkomandi málaflokka stefni í að verða umfram fjárheimildir kemur til skoðunar að fjárheimildir verði millifærðar af almennum varasjóði fjárlaga eða að aukinna heimilda verði aflað í frumvarpi til fjáraukalaga næsta haust til að mæta áhrifum af þessum hærri verðlagsforsendum fyrir bótagreiðslum í frumvarpinu. Þá víkur að áhrifum frumvarpsins á jafnrétti kynjanna. Á síðasta ári var greiddur sams konar barnabótaauki og lagt er til að nú sé gert. Féllu þá 62% barnabótaaukans í hlut kvenna samkvæmt niðurstöðu álagningar 2021. Áætlað er að hlutfallið verði svipað í ár verði frumvarpið að lögum. Almannatryggingakerfið nýtist fremur konum en körlum þar sem þær eru almennt með lægri tekjur aðrar en greiðslur frá almannatryggingum sér til framfærslu. Konur eru að jafnaði tvöfalt fleiri en karlar meðal öryrkja og hafa síður atvinnutekjur auk þess sem aldraðar konur hafa almennt lægri tekjur en aldraðir karlar.

Hækkun húsnæðisbóta og frítekjumark þeirra er til þess fallin að styðja við tekjulægstu hópa leigjenda. Viðtakendur húsnæðisbóta eru að meiri hluta til barnlaus heimili. Í þeim hópi er hlutfall kvenna og karla nokkuð jafnt enda þótt konur séu líklegri en karlar til að vera á leigumarkaði ásamt því að vera líklegri en karlar til að leigja félagslegt húsnæði hjá sveitarfélögum eða námsmannahúsnæði. Sé litið til heimila þar sem fyrir hendi er einn fullorðinn ásamt börnum er hinn fullorðni aftur á móti í yfirgnæfandi meiri hluta konur.

Virðulegi forseti. Ég held að þetta mál sé brýnt. Ég myndi helst af öllu óska þess að málið fengi forgang hér í þinginu, í þinglegri meðferð. Mér finnst mikilvægt að það hafi komist hér strax á dagskrá þó að fjöldinn allur af 1. umr. málum hafi enn ekki komist á dagskrá og það er þakkarvert að það skyldi takast. Við viljum að sjálfsögðu leggja allt á okkur í fjármálaráðuneytinu en það sama gildir, veit ég, um félagsmálaráðuneytið og innviðaráðuneytið, ef það eru atriði sem nefndin þarf að kafa dýpra í þá eru allir boðnir og búnir að veita frekari upplýsingar. Þetta er það sem ríkisstjórnin telur mikilvægt að sé gert núna í ljósi nýjustu verðbólgumælinga og í ljósi vaxtahækkana Seðlabankans. Við munum að sjálfsögðu áfram fylgjast mjög náið með framvindu mála. Í gangi er mikil vinna við að greina stöðuna á húsnæðismarkaði. Sérstakur húsnæðishópur hefur verið að störfum til að bregðast við þeirri staðreynd að húsnæðisliður vísitölunnar heldur áfram að hækka og hefur ekki séð fyrir endann á því. Það er þess vegna ein lykilaðgerða ríkisstjórnarinnar að koma með úrbætur á húsnæðismarkaði í samvinnu við aðila vinnumarkaðar, sveitarfélögin og aðra þá sem hafa komið að því starfi. Ég vænti þess að sú vinna verði til umræðu á fundi þjóðhagsráðs nú síðar í þessari viku. Ég hygg að hann sé á morgun, ef ég man rétt, og þar verði farið yfir tillögur sem hafa fæðst á undanförnum vikum og mánuðum og látið á það reyna hvort aðilar sem geta haft áhrif á þróun þeirra mála eru orðnir sammála um meginaðgerðir. Það skiptir máli til hliðar við þetta vegna þess að meginverkefnið er auðvitað að ná tökum á verðlagsþróuninni. Við ræddum það hér aðeins í óundirbúnum fyrirspurnum rétt áðan að ríkisfjármálin gegna hlutverki í því efni. Við getum ekki gleymt okkur í því að ræða eingöngu um viðbrögð fyrir þá sem verða fyrir verðbólgunni. Við verðum á sama tíma að hafa getu til að ræða um aðgerðir sem eru líklegar til þess að hægja á hækkun verðlags í landinu og komast aftur inn fyrir viðmið sem við höfum sett okkur í því efni, 2,5%, og vera innan vikmarka frá því.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu vil ég leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.



[16:05]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir sína framsögu og fagna því að þetta mál sé komið hingað inn í þingið. Það eru 9.000 manns á Íslandi án vinnu og þar af hafa 3.000 manns verið atvinnulaus í meira en 12 mánuði. Þetta er fólk sem hefur alla jafna orðið fyrir miklu tekjufalli, fólk sem er alveg jafn berskjaldað fyrir verðbólgunni, alveg jafn berskjaldað fyrir hærra matvælaverði, auknum húsnæðiskostnaði og hærra eldsneytisverði og það fólk sem reiðir sig á ellilífeyri og örorkulífeyri. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna eru atvinnuleitendur skildir eftir í þessum aðgerðapakka? Hvers vegna fá atvinnuleitendur ekki beina hækkun eins og hinir hóparnir?



[16:06]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum kannski fyrst og fremst verið að horfa til atvinnustigsins í landinu og þeirrar staðreyndar að atvinnuleysi hefur verið á niðurleið og sú þróun er nokkuð jákvæð. Ég get sagt af eigin reynslu, vegna þess að ég var á ferðinni víða um landið fyrir nokkrum dögum, að það er áberandi hversu víða er leitað eftir fólki. Það vantar t.d. mörg hundruð manns til vinnu á Austurlandi, mörg hundruð manns, og mjög erfitt að ráða í öll þau störf sem hægt er að bjóða fram, m.a. út af húsnæðisvanda á þeim slóðum. Engu að síður er mikil eftirspurn eftir starfskröftum og það er verið að vinna að úrræðum af ýmsum toga.

Það er efni í alveg sérstaka umræðu að ræða um þróun atvinnuleysis á Íslandi og þess hóps sem er í þeirri stöðu sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, langtímaatvinnulausir. Það er áhyggjuefni að á sama tíma og margir eru að flytja til landsins til að ganga í störf sem auglýst hafa verið þá eru margir að tapa starfi sem hafa einmitt áður flutt í þeim sama tilgangi til landsins. Við erum að mínu mati með óeðlilega hátt hlutfall útlendinga sem eru að færast í langtímaatvinnuleysi. Það leiðir til þess að við stöndum frammi fyrir alls kyns áskorunum, bæði í húsnæðismálum, í félagslega kerfinu, sveitarfélögin verða fyrir ýmiss konar þrýstingi, þetta getur leitt til ýmiss konar vandamála í menntakerfinu og annars staðar, fyrir innviði samfélagsþjónustunnar. Við því verður með einhverjum hætti að bregðast. Það er ekki góð þróun að fólk flytji til landsins til að fara í störf, sé skömmu síðar komið í atvinnuleysi og nýir flytji til landsins í staðinn til að fylla gömlu störfin. Því miður erum við að sjá einhverja vísbendingu um að þetta eigi sér stað og við því verður að bregðast. En meginsvarið við spurningunni er í raun og veru atvinnustigið og mikil eftirspurn eftir starfskröftum.



[16:08]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka svörin. Nú er það bara þannig að óháð atvinnustigi hefur það verið venjan, a.m.k. undanfarin ár, við setningu fjárlaga að atvinnuleysisbætur fylgi prósentuhækkuninni á bótum almannatrygginga. Hér er lagt fram frumvarp sem snýst öðrum þræði um að flýta hækkuninni hjá eftirlaunafólki og öryrkjum og þeim sem reiða sig á endurhæfingarlífeyri, að koma með beinum hætti til móts við þetta fólk vegna verðbólgu sem hefur ekki mælst jafn mikil síðan 2010. Algerlega óháð þessum sjónarmiðum varðandi atvinnustigið og þróun þess þá á ég svolítið erfitt með að átta mig á því hvernig það getur verið réttlætanlegt í verðbólguþróun eins og hér er verið að bregðast við að láta þennan hóp sem er án vinnu sitja eftir. Ég vil því kannski fá að spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvaða greiningar liggi að baki þessu. Hvað fær ráðherra og ríkisstjórn til að draga þá ályktun að atvinnuleitendur þurfi síður á beinum stuðningi að halda (Forseti hringir.) en öryrkjar og eftirlaunafólk?



[16:10]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera athugasemd við það sem hér er haldið fram, að atvinnutryggingarnar hafi alltaf fylgt bótum almannatrygginga. Það er ekki svo. Við verðum að hafa í huga, þegar við erum að tala um atvinnutryggingar, að þetta er hluti af tryggingakerfi, vinnumarkaðstengdum réttindum sem eru fullfjármögnuð af atvinnutryggingagjaldinu. Það er allt of algengt að við séum að ræða hér um hækkun á réttindum án þess að við ræðum um nauðsynlega fjármögnun þess. Það sem myndi gerast ef við myndum hækka atvinnutryggingar er að við ættum með réttu að hækka atvinnutryggingagjaldið. Ef við ekki gerum það myndum við þurfa að klípa af almenna tryggingagjaldinu til að fjármagna atvinnutryggingasjóðinn. Hann hefur reyndar notið þess að vera í skjóli ríkissjóðs og í fangi ríkissjóðs undanfarin ár þar sem safnast hefur upp tugmilljarða halli á sjóðnum. Fyrir nokkrum árum óskuðu aðilar vinnumarkaðarins eftir því að fá að taka allan þennan sjóð yfir og hefðu þá sjálfir setið uppi með tugmilljarða hallann. (Forseti hringir.) Ég held að margir séu fegnir því að það hafi ekki gerst. En ég vísa bara aftur í atvinnustigið (Forseti hringir.) sem svar við spurningunni.



[16:11]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að segja eins og er, ég veit ekki hvernig ég á að bregðast við þessu. Mér finnst eins og ríkisstjórnin sé að setja brosplástur á galopið sár, blæðandi sár. Ég get ekki séð hvernig þetta á að virka fyrir þá sem eiga að fá þetta. Jú, þeir þakka fyrir hverja einustu krónu, þeir þurfa á hverri einustu krónu að halda. Ég var á fundi með Öryrkjabandalaginu í gær, kjarahópi. Þar kom skýrt fram að þessi hækkun, 3% hækkun, skilar 8.000 kr. til þeirra sem verst standa, 5.000 kr. eftir skatta. Á sama tíma benti einstaklingur, með nákvæmlega þessar tekjur, 219.000 kr. útgreiddar, mér á að hann væri að fá 17.000 kr. hækkun á húsaleigu. Það er nýjasta hækkunin, 17.000 kr. hækkun. Ef við tölum um þessar 5.000 kr. þá eru 12.000 kr. eftir. Svo er það matvælahækkun. Hvernig í ósköpunum sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þessir einstaklingar eigi að geta borgað leigu? Hann talar um kaupmátt. Getur hann upplýst mig: Hvað er kaupmáttur verst settu einstaklinganna, sem ég er að tala um, mikill? Telur hæstv. ráðherra virkilega að þessir einstaklingar hafi fengið aukinn kaupmátt? Og telur hann að með því að setja þessi 3% inn fái þessi hópur einhvern kaupmátt?



[16:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður að skoða einstaka tilvik en ef við skoðum tölurnar aftur í tímann höfum við skýrar niðurstöður í þessu efni, þ.e. að kaupmáttur bóta almannatrygginga tók stökk á árunum frá 2015 og sérstaklega átti það við um ellilífeyrisþega. Fyrir öryrkja var sömuleiðis þó nokkur kaupmáttaraukning og ég var að rekja það hér áðan að um síðustu áramót hækkuðum við bæturnar hjá öryrkjum um 5,6%. Nú erum við að tala um viðbótarhækkun ofan á það. Auðvitað þarf að spyrja sig að því hvort það dugi í ljósi þeirra verðbólgumælinga sem við erum með núna til að viðhalda kaupmætti að lágmarki eða helst sjá hann vaxa. Það getur verið mjög einstaklingsbundið hvort það dugar og það þyrfti að reikna fjölbreytt dæmi til þess að komast að niðurstöðu um það. En þetta er a.m.k., af hálfu ríkisstjórnarinnar, inngrip sem við höfum ekki mátt venjast að koma svona snemma inn vegna verðbólgumælinga og bregðast strax við með lagafrumvarpi til að bæta stöðu þeirra sem eru tekjulægstir.

Ég ætla að fá að vekja athygli á því að örorkubótakerfið er um 100 milljarða kerfi. 100 milljarðar eru greiddir út í örorkubætur á ári, 100 milljarðar. Það er um 10% af öllum tekjum ríkissjóðs þannig að við erum að forgangsraða fjármunum í það að gera vel við þá sem þurfa að treysta á þetta kerfi. Það höfum við verið að gera í auknum mæli á hverju ári og höfum verið að fylgja eftir kjarasamningsbundnum launahækkunum þannig að kaupmáttur hefur vaxið gríðarlega. Ég myndi bara fagna því að komast í umræðu um það hversu mjög okkur hefur tekist að auka kaupmáttinn. Það breytir því ekki að hér í dag erum við með augun á þeim sem hafa minnst á milli handanna. Við erum að leiðrétta þeirra hlut.



[16:15]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég get fullyrt að verst setti hópurinn í þessu kerfi hefur engan kaupmátt. Það kom alveg skýrt fram á þessari ráðstefnu í gær. Kaupmátturinn er enginn, þau eru í mínus. En þegar sú staðreynd liggur fyrir vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Stendur til að koma eitthvað meira til móts við þennan hóp með eingreiðslum eða á annan hátt að kanna stöðu þeirra. Þessi hópur hefur nú þegar skorið niður mat, lyfjakostnað og læknisþjónustu, eins og ég fékk upplýsingar um í gær, hefur ekki efni á því lengur, hefur ekki efni á sjúkraþjálfun, hefur ekki efni á að fara til sérgreinalækna. Þessi hópur er búinn að skera allt niður út af Covid og núna út af verðbólgunni. Stendur til að koma með einhverjar eingreiðslur fyrir þennan hóp, skatta og skerðingarlaust?



[16:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum hér að boða aðgerðir sem koma strax til framkvæmda. Þegar horft er til lengri tíma vil ég bara vísa til vinnunnar sem félagsmálaráðherra hefur haft í gangi undanfarin misseri. Ég bind miklar vonir við að okkur takist að innleiða umbætur á tryggingakerfi öryrkja á komandi misserum sem myndi fela í sér ákveðna kerfisbreytingu sem ætti að koma öllum til góða og við myndum draga mjög verulega úr skerðingum í kerfinu í þágu þess að opna fyrir möguleika á aukinni atvinnuþátttöku þeirra öryrkja sem eiga á annað borð möguleika til slíks. Það verður að viðurkennast að fyrir þá sem hafa einhverja starfsgetu, þótt takmörkuð sé, þá er kerfið eins og það er smíðað í dag með allt of margar hindranir og litla hvata. Það falla of margar krónur sem fólk vinnur sér inn niður dauðar við það að réttindin skerðast í kerfinu. Þetta er, held ég, stóra framfaramálið sem við bíðum eftir að hrinda í framkvæmd.



[16:18]
Helga Þórðardóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Hér er verið að ráðast í mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins með því að hækka húsnæðisbætur um 10% en þær hafa ekki hækkað síðan í byrjun árs 2018. Á sama tíma hefur leiga hækkað um 20%. Sérstakur barnabótaauki, að fjárhæð 20.000 kr., verður greiddur út 1. júlí. Þeir sem þiggja bætur úr almannatryggingakerfinu fá 3% hækkun 1. júní. Þessi 3% hækkun, þó hækkun sé, mun ekki auka kaupmátt þessa hóps vegna þess að verðbólgan hefur nú þegar étið hækkunina upp. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Kom aldrei til greina að hafa þessi 3% afturvirk eins og húsnæðisbæturnar? Hefði ekki líka verið hægt að hafa eingreiðslu til þeirra verst settu líkt og gert var í Danmörku en nú fá lífeyrisþegar þar eingreiðslu upp á 90.000 kr.?



[16:19]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einfaldlega ekki rétt að alhæfa með þessum hætti að kaupmáttur örorkulífeyrisþega muni ekki batna við þessa hækkun. Að sjálfsögðu verður hann betri með hækkuninni. Það er ekki hægt að deila um það. Kannski mætti frekar spyrja: Halda þær hækkanir sem áttu sér stað um áramótin, upp á rúm 5%, og síðan þessi hækkun því til viðbótar, í við verðlag? Til að svara því þurfum við að skoða stöðu ólíkra hópa. Ég rakti það hér áðan að verðbólga án húsnæðis var 5,3% í apríl og 4,6% í mars. Þegar við horfum á þær hækkanir sem hafa orðið frá áramótum, og verða aftur með þessu, þá myndi ég halda, í ljósi þessara talna, að það sé alveg ótvírætt að við erum að auka kaupmátt þeirra sem eru ekki að eiga við þá undirliði vísitölunnar sem mælast vegna húsnæðisverðsþróunar. Það ætti að vera alveg óumdeilanlegt. Það er voðalega erfitt að eiga umræðu ef við getum ekki orðið sammála um að nota mældar stærðir sem grundvöll umræðunnar. Ég ber hins vegar fulla virðingu fyrir því að sumum finnst ekki nóg að gert og við vildum auðvitað gjarnan geta gert meira. Við erum að taka 10% af öllum tekjum ríkissjóðs í þennan málaflokk, 100 milljarða á ári til öryrkja, til að standa með þeim sem ekki geta bjargað sér sjálfir, hafa skerta starfsgetu, hafa orðið fyrir áföllum, orðið fyrir slysum, eru veikir, glíma við líkamleg örkuml eða andleg veikindi o.s.frv. Þetta er ofboðslega fjölbreyttur hópur og mér finnst allt of algengt að því sé slegið fram að allur hópurinn búi við sömu aðstæður. Það er bara alls ekki þannig. Ég hvet alla sem hafa raunverulega áhuga á því að kynna sér stöðu þeirra sem treysta á bætur almannatrygginga til að fara inn á tr.is og slá ólíkar forsendur inn í reiknivélina (Forseti hringir.) og sjá þá hversu misjöfn staða fólks getur verið og hvernig kerfið kemur á móts við ójafna stöðu ólíkra einstaklinga.



[16:22]
Helga Þórðardóttir (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri, hæstv. ráðherra, að við erum ekki sammála. Mér finnst þetta bara, mér finnst ekki vera gert nóg. Ég vil samt ítreka að ég styð frumvarpið en það er bara ekki nóg að gert. Við erum hér að rétta þeim verst settu lúsarbætur og þá er ég að vísa til þessara 3% hækkunar í júní. Auðvitað vitum við að þessi hópur sem er að þiggja bætur er mismunandi staddur. En við vitum líka að raðir fyrir utan hjálparstofnanir eru að lengjast og ég vildi bara hvetja hæstv. ráðherra til að íhuga eingreiðslu til þessa hóps líkt og gert hefur verið annars staðar. Við erum rík og við eigum ekki að sætta okkur við fátækt.



[16:23]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við höfum þá hækkað núna á sex mánuðum, ef þetta frumvarp nær fram að ganga, þessar bætur, um 8,6% frá áramótum, 5,6% plús 3%. Þetta eru verulega miklar hækkanir. Þær koma svo sem ekki að öllu leyti til af góðu. Þær koma ekki eingöngu til af þeim vilja og ásetningi ríkisstjórnarinnar að gera enn betur. Að hluta til, og það er bara opinbert, erum við að bregðast við verðbólguþróun. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við náum líka saman um aðgerðir til að bregðast við verðbólguþróuninni og ná tökum á verðþróun í landinu. Við getum lengi rætt um að það eru einstaklingar í landinu sem eiga erfitt og margir þurfa að þiggja aðstoð, fá jafnvel matargjafir. En ef við notum opinber gögn þá segja nýjustu gögnin okkur að staðan hefur aldrei áður verið betri en einmitt í dag, á árinu 2021. Það er lífskjararannsókn Hagstofunnar, hún segir að þessir hópar sem hv. þingmaður berst fyrir, og ég virði það, hafi aldrei verið jafn fámennir íslensku samfélagi og núna.



[16:24]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum almannatrygginga, mótvægi vegna verðbólgu. Hæstv. fjármálaráðherra spurði hér áðan: Af hverju farið þið ekki inn á reiknivél TR og reiknið þetta? Til hvers ætti ég að fara inn á þessa reiknivél og reikna þetta? Ég lifði í þessu kerfi og ég get upplýst að ég fer reglulega inn á þessa reiknivél og reikna. Það er alveg sama hversu oft ég fer þarna inn og hversu mikið ég reikna, þeir verst settu hafa það jafn slæmt, hversu oft sem ég reikna þetta.

Hæstv. ráðherra talar um kaupmátt lífeyrisþega eins og það sé einhver allsherjarlausn. Það er það ekki. Við vitum, og ég hef aldrei neitað því, að það er hópur innan þessa kerfis sem hefur það gott. Það er frábært og við eigum að fagna því. En við eigum ekki að nota þann hóp til að lemja á þeim sem hafa það ekki gott. Það er röng uppsetning að reyna að sannfæra fólk um að þeir sem fá útborgaðar 219.000 kr. á mánuði — það var talan sem viðkomandi sýndi okkur hjá Öryrkjabandalaginu í gær og það sem sló mig mest var það hvar viðkomandi kona bjó. Hún bjó í hjólhýsi og þar af leiðandi fékk hún ekki heimilisuppbót af því hún hafði ekki fasta heimilissetu. Hugsið ykkur, hún hafði ekki ráð á að leigja á markaði og fékk ekki félagslegt húsnæði. Henni var refsað, ekki bara fyrir að detta út af þessu heldur var henni líka refsað þannig að kerfið sagði við hana: Þó að þú sért ein og ættir rétt á húsaleigubótum færðu þær ekki vegna þess að þú hefur ekki heimilisfang. Við erum að rekast á þetta út um allt kerfið. Því miður eru þetta bara staðreyndir.

Við verðum líka að horfa á það þegar hæstv. ráðherra segir að það hafi verið 8,6% hækkun í heildina þegar þetta kemur inn. Hann verður að taka tillit til hvaðan við erum að koma. Við erum að koma út úr Covid-tímabili þar sem hefur þrengt gífurlega að þessum hópi, og sérstaklega þeim verst settu. Eldri borgarar fengu ekki krónu í aðstoð á öllu Covid-tímabilinu, hvort sem þeir höfðu það gott eða ekki, og þeir reyndu ekki einu sinni að hjálpa þeim sem höfðu það verst í því kerfi. Hverjir eru verst settir þar? Jú, það eru konur af því að þær hafa mun lægri lífeyri.

Það er af nógu að taka en það fólk sem við erum að ræða um er fólk sem getur ekki veitt sér nein lífsgæði. Því dettur t.d. ekki í hug að fara í leikhús. En það sem er kannski sárara er að það hefur ekki einu sinni efni á því að fara til sjúkraþjálfara lengur eða til geðlæknis eða sálfræðings. Það hefur ekki efni á því. Það er svo dýrt. Í dag eru, eins og við vitum, nærri 200 einstaklingar á Íslandi undir 67 ára nauðungarvistaðir á elliheimilum. Við erum að tala um kostnað, tölu. Við verðum að átta okkur á því að þetta bútasaumaða kerfi sem við erum búin að búa til veldur fólki gífurlegum erfiðleikum vegna þess að það getur ekki á nokkurn hátt áttað sig á því, þegar það fær einhvers staðar tekjur, hvar það skilar sér.

Nú erum við að setja inn í þennan skala tekjur og reyna að koma í veg fyrir að þær fari keðjuverkandi í skerðingar úti um allt kerfið. En það er alveg á hreinu að við komum aldrei í veg fyrir það nema á einn hátt og það er með því að koma með skatta- og skerðingarlausar tekjur, þannig að þær séu ekki skattskyldar, fari ekki inn á reikning viðkomandi sem skattskyldar tekjur. Við sjáum t.d. að einstaklingar með skerta starfsgetu fá ekki nema 109.000 kr. frítekjumark á atvinnutekjur á sama tíma og eldri borgarar eru með 200.000 kr. Bara svona óréttlæti sýnir hvað við erum að gera. Við erum komin með aukagjald hjá sérgreinalæknum sem nú er almennt 1.500–2.000 kr. Aukagjald hjá sjúkraþjálfurum var 500–1.000 kr. en er nú komið í 1.500 kr. Ef við skoðum bara einstakling sem þarf sjúkraþjálfun tvisvar í viku þá er það aukagjald upp á 3.000 kr., eða 12.000 kr. á mánuði. Setjum það í samhengi við þessar 5.000 kr. eftir skatta sem er hækkunin hérna. Setjum það líka í samhengi við 17.000 kr. leiguhækkunina og setjum það í samhengi við það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði um 8,6%. Það eru bara smáaurar. Það er allt farið. Hvað á þetta fólk að gera? Þessi aukakostnaður leggst þungt á alla sem þurfa á þjónustu að halda og þá helst fatlaða, langveika og einnig láglaunafólk.

Kostnaður fer auðvitað hækkandi eftir því sem þjónustan er notuð meira hjá sjúkraþjálfurum og því borga þeir veikari mun meira en þeir sem þurfa á minni þjónustu að halda. Veikt fólk hefur dregið úr því að nýta sér þjónustuna og stór hópur neitar sér um hana. Það á eftir að valda stórskaða á heilsu þeirra og þá einnig aukaálagi á heilbrigðiskerfið, það kostar innlögn á spítala. Einstaklingur sagði við mig: Ég hef ekki efni á sjúkraþjálfun lengur. Það hafði þær afleiðingar að hann gat ekki lengur stundað hlutavinnuna. Og hvaða afleiðingar haldið þið að það hafi haft? Jú, hann fer inn á dýrasta úrræðið sem hægt er, hann fer á sjúkrahús. Þetta á ekki að eiga sér stað. Þetta heitir að spara aurana og henda krónunni. Í þessum ljóta leik er fjárhagslegu ofbeldi beitt með því að sparka í veikt fólk. Það verður fyrir andlegu og líkamlegu tjóni í viðurvist fjölskyldu sinnar og jafnvel ungra barna.

Fátækt fólk á aldrei að þurfa að bíða eftir réttlætinu en sumir bíða allt sitt líf eftir því og fá það aldrei. Ríkisstjórnin er núna í stöðu til að geta leiðrétt þetta viðvarandi ranglæti. Þið eruð að skammta öryrkjum kjör sem duga ekki á nokkurn hátt þeim til framfærslu og dæmið þá því til sárafátæktar. Einstaklingur sem þarf að velja á milli þess hvort hann sleppir að eiga mat eða kaupa lyf fyrir sig eða jafnvel börnin sín er ykkur til háborinnar skammar, að veikt fólk hafi ekki efni á sjúkraþjálfun eða sálfræðiþjónustu, sem hugsanlega gæti aukið lífsgæði þess og jafnvel gert það vinnufært, er fáránleg sóun á lífsgæðum þess og fjármunum ríkisins. Veikt fólk sem á hvorki til hnífs og skeiðar og getur ekki stundað vinnu til að auka lífsgæði sín og barna sinna og ekki keypt sér lífsnauðsynleg lyf, á þeim eru mannréttindi gróflega brotin.

Þá er nú fram undan skerðingar- og skelfingardagurinn mikli hjá TR. Allar skattskyldar tekjur skerða jú framfærslu öryrkjans. Öryrkinn verður skuldugri við ríkissjóð og þarf að nota hluta teknanna til að greiða skuldirnar í TR. Andleg og líkamleg heilsa veiks fólks og lífeyrislaunaþega hefur versnað stórlega. Skuldir hafa stóraukist og áhyggjur og kvíði komin í hæstu hæðir. Eftir keðjuverkandi skerðingar og skatta standa bara eftir 20% af launum fyrir vinnu ef viðkomandi er heppinn eins og kom fram á ráðstefnu Öryrkjabandalagsins í gær. Þetta jafngildir yfir 80% skatti. Setjum það í samhengi við það að við erum með hátekjuskatt upp á 47%. Hver vill borga 80% skatt í formi skatta og skerðinga og jafnvel meira? Það kom fram að fólk getur jafnvel lent í þeirri aðstöðu að fara yfir 100%, þeir sem eru verst staddir og geta ekki reiknað út fyrir fram hvort það borgar sig fyrir þá að taka þennan styrk eða fá þessar tekjur. Það getur verið mjög slæmt þegar viðkomandi er kannski að taka við 20.000 kr. í einhverjum styrk og endar kannski í 23.000 kr. skerðingu. Það segir sig sjálft að það er eitthvað að kerfi sem getur boðið upp á þann veruleika.

Atvinnuleysisbætur, lágmarkslaun og listamannalaun eru hærri en örorkugreiðslur og það er flott. Atvinnuleysisbætur eru ekkert til að hrópa húrra yfir, lágmarkslaun ekki heldur en samt eru lægstu örorkulaun komin 100.000 kr. undir lágmarkslaun fyrir utan þær skattgreiðslur sem þeir sem lifa í fátækt og sárafátækt þurfa að greiða. Fæstir þurfa að vinna á lágmarkslaunum til lengri tíma. Það er ekki sama sagan með örorkugreiðslur sem eru mun lægri og munurinn eykst alltaf. Ísland á pottþétt heimsmet í skerðingum á greiðslum til öryrkja. Já, pottþétt heimsmet í skerðingum. Maður hefur reynt að útskýra þessar skerðingar fyrir kollegum á Norðurlöndunum og það er gjörsamlega vonlaust að koma þeim í skilning um það hvað er í gangi. Öll framboð lofuðu því fyrir síðustu kosningar að breyta þessu kerfi. Það kom skýrt fram hjá hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra í gær að það er vilji til að breyta þessu kerfi í haust. En það kom líka fram, og hefur að hluta til komið fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að þegar breyta á þessu kerfi í haust á að breyta skerðingunum en það á ekki að setja neina peninga inn í þetta kerfi.

Hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra var spurður sérstaklega að því í gær hvort grunnframfærsla yrði hækkuð, hvort einhver hækkun yrði inni í þessari endurskoðun. Nei, það verður ekki hækkun en það verður dregið úr skerðingum og þeir sem hafa orðið fyrir mestum skerðingum gætu fengið einhverja hækkun. Spáið í hversu rangt þetta er. Af hverju í ósköpunum, ef við erum að endurskoða svona kerfi, byrjum við ekki á því að reikna út hver er lágmarksframfærsla einstaklings eða rétt framfærsla til að lifa mannsæmandi lífi? Hæstv. fjármálaráðherra gæti kannski upplýst okkur um það hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, og líka hans ríkisstjórn, hefur ekki farið út í þá vinnu. Ég geri mér fulla grein fyrir hvers vegna það er. Það er vegna þess að sú tala yrði a.m.k. 100.000 kr. eða jafnvel 200.000 kr. hærri en sú tala sem verið er að borga í dag. Þá vantar líka inn í að taka á persónuafslættinum. Ég get ekki skilið þá afstöðu að þeir sem eru að fá 220.000 kr., undir því m.a.s., útborgaðar séu að borga 30.000 kr. í skatt. Það fer að vísu í útsvar. Hæstv. ráðherra myndi verða fljótur að segja að þetta færi í útsvar en það skiptir ekki máli, útsvar eða skattur til ríkisins eða sveitarfélaga, þetta er bara skattur í augum þessa fólks. Þetta er fólk sem á ekki til hnífs og skeiðar. Ég hef spurt marga þessa einstaklinga að því hvort þeir myndu frekar stoltir vilja greiða skatta eða fá þessar greiðslur. Það hefur nefnilega verið sagt að það verði að láta þetta fólk borga skatta vegna þess að það sé niðurlægjandi að borga ekki skatta. Það er það ekki. Herra forseti, ég segi strax: Ég myndi vilja fá þessar greiðslur. Mér er alveg sama um það hvort ég þarf að borga skatta eða ekki. Ef ég fengi þessa peninga myndi það hjálpa mér strax. Það er eitthvað alvarlegt að því kerfi að við skulum vera með þá stöðu að skattleggja þá sem hafa ekki á nokkurn hátt möguleika á því að framfleyta sér.

Það þarf að stokka þetta kerfi algerlega upp. Því miður er ég mest hræddur um að ef á að stokka þetta kerfi upp eingöngu á þeim forsendum sem núverandi ríkisstjórn ætlar að gera, með því að setja ekkert inn í kerfið, ekki neitt, heldur eingöngu taka á skerðingunum, þá muni það hjálpa ákveðnum hópi en það mun líka valda því að stór hópur mun áfram þurfa að lifa við þær aðstæður að eiga ekki til hnífs og skeiðar. Við erum líka með þennan hóp sem við megum ekki gleyma, sem er sá verst setti af þeim verst settu, sem varð fyrir búsetuskerðingunum, sem er ekki búið að leiðrétta, hefur verið haldið í gíslingu í 13 ár, hefur verið í gíslingu fyrir dómstólum í sex ár. Þetta fólk stendur svo illa að maður getur ekki einu sinni ímyndað sér hvernig staðan er hjá því frá degi til dags. En ríkisstjórnin sýnir það svart á hvítu að hún ætlar ekki að leiðrétta aftur í tímann, þvert á móti, hún ætlar bara að leiðrétta þetta um fjögur ár. Það sýnir hvers lags fjárhagslegu ofbeldi verið er að beita þetta fólk. Svo má líka nefna að þegar ríkisstjórnin leyfði þeim að taka út séreignarsparnaðinn en gleymdi að segja hvar haka ætti við á skattskýrslunni og rændi öllum séreignarsparnaðinum aftur af fólkinu og það er í baráttu við að reyna að ná þeim sparnaði til baka en fær það ekki. Þetta sýnir bara að ríkisstjórnin er ekki að hugsa um (Forseti hringir.) þennan hóp. Þetta er hópurinn sem er með breiðu bökin. Þetta er hópurinn sem ríkisstjórnin ber á og beitir fjárhagslegu ofbeldi án þess að hika.



[16:40]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað má segja um þá sem hafa lítið milli handanna að þetta sé ekki nógu gott og að við verðum að gera betur. Sérstaklega á það við um hópa sem eiga erfitt með að bjarga sér sjálfir eða geta það yfir höfuð ekki. Verst er kannski þegar þeir geta bjargað sér sjálfir en kerfin eru því miður smíðuð þannig að teknir eru af allir hvatar til að gera það. En öllum þessum stóru orðum verða að fylgja raunhæfar tillögur. Til þess að geta risið undir því sem hv. þingmaður er í raun og veru að kalla eftir, sem er skattleysi tekna upp í 300.000–350.000 kr. og bótagreiðslur sem eru langt umfram það sem við erum að ræða hér að kerfið okkar bjóði upp á, myndi þurfa að kosta til alveg gríðarlegum fjárhæðum. Ég ætla ekki einu sinni að fara út í það hversu slæmt það væri bara í ríkisfjármálalegu samhengi heldur bara benda á að við notum þegar 10% af heildartekjum ríkisins í þennan málaflokk og þær hugmyndir sem eru reifaðar, sem er auðvelt að setja fram, myndu örugglega kosta hátt í aðra 100 milljarða á ári um alla framtíð, á útgjaldahliðinni. Svo geta menn deilt um það hversu mikið myndi skila sér aftur í gegnum hagkerfið og hver endanlegur nettókostnaður ríkisins yrði en við erum að tala um svona fjárhæðir. Það er bara svo að ekkert ríki í heiminum er með svo örlátt stuðningskerfi fyrir öryrkja, eða annars staðar í almannatryggingum, að menn séu almennt betur settir en þeir sem mæta í vinnuna frá morgni til kvölds.



[16:42]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Ég svaraði honum alveg skýrt. Ef við tækjum okkur saman og myndum tryggja að viðkomandi hefði 300.000–350.000 kr. skatta- og skerðingarlaust þá erum við í Flokki fólksins með lausn á því. Við getum t.d. skattað inngreiðslur í lífeyrissjóði. Við getum breytt persónuafsláttakerfinu þannig að þeir hæstu væru ekki að fá persónuafslátt. Við getum breytt þessu kerfi og ávinningurinn yrði frábær. Hugsið ykkur bara ávinninginn af því að fólk geti lifað með reisn, að fólk geti farið til læknis ef það þarf á því að halda, að fólk geti farið í sjúkraþjálfun. Þið eruð að tala um að breyta kerfinu og reyna að fá fólk til að vinna. Hjá Öryrkjabandalaginu í gær var sett fram tölfræði. Kona kom upp og sýndi svart á hvítu að hún reyndi að vinna, hún vann og vann, hún var búin að vinna í tvö ár. Vitið þið hverjar endurgreiðslurnar sem krafist var af Tryggingastofnun voru? 1.300.000 kr. Þegar hún fór að reikna dæmið til enda þá komst hún að því að með kostnaði við að fara í vinnuna og vinna var hún komin í tap. Þetta borgar sig ekki.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig í ósköpunum getið þið haft svona kerfi, hvernig í ósköpunum getið þið varið svona kerfi og hvers vegna í ósköpunum breytið þið þessu ekki?



[16:43]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef einmitt verið að ræða það hér í dag að stóra breytingin sem við þurfum að ná fram er kerfisbreyting á þessu tryggingakerfi. Við höfum kannski ekki verið að ræða það hér heldur höfum við verið að ræða hugmyndir um að setja auka 100 milljarða í kerfið sem hv. þingmaður talar alltaf fyrir og hans flokkur. Ég er bara að halda því hér til haga að mér finnst það algjörlega óraunhæft og menn eiga ekki að skapa væntingar um að það sé auðvelt að gera. Að tala um að hækka skatta á tekjuhæsta fólkið í landinu og finna þar 100 milljarða er auðvitað bara út í bláinn, fullkomlega út í bláinn. Það er algerlega óraunhæft. Algerlega með öllu. Gott og vel. Ef menn vilja auka skatta á tekjuhærra fólk til að fjármagna einhverja hluta verða menn bara að gera sér grein fyrir því hverju það myndi skila upp í þær ofboðslegu hugmyndir sem verið er að kynna hér til sögunnar. Það myndi skila mjög takmörkuðu í samhengi við útgjaldavöxtinn sem verið er að tala fyrir. Ég leyfi mér að benda á að við búum í landi þar sem tekjujöfnuður er hvað mestur í heiminum, það sýna ítrekaðar mælingar. Þar fyrir utan er félagslegur hreyfanleiki líklega hvergi meiri í heiminum en einmitt á Íslandi. Þetta getum við séð ágætlega í lífshlaupinu á tekjusagan.is, hve gríðarlega mikill félagslegur hreyfanleiki mælist á Íslandi frá árinu 1991. Þó að ekki séu til raunhæfar samanburðartölur annars staðar frá þá hafa þær niðurstöður komið mjög á óvart.

Áfram heldur umræðan um það hvernig við getum gert betur. Ég segi að lykilaðgerðir í því séu að viðhalda krafti í efnahagslífinu, halda áfram verðmætasköpun, auka framleiðni til að ríkissjóður sé vel í stakk búinn til að standa með þeim sem á þurfa að halda. Og svo þurfa þessar umbætur á kerfinu að ná fram að ganga.



[16:46]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra andsvarið. Ég harðneita því að ég hafi sagt að það ætti stórauka skatta á hátekjufólk og það ætti að borga einhverja 100 milljarða, það voru ekki mín orð. Ég benti á að það þarf ekki á persónuafslætti að halda. (Gripið fram í.) Það er ekki upp á 100 milljarða, langt í frá. Einstaklingur sem er með 3 milljónir í tekjur, hver er persónuafslátturinn hjá honum? Það er það lág upphæð að það skiptir viðkomandi engu máli, ekki nokkru máli. Ég er viss um að ef viðkomandi gæti gefið það eftir, til þess að einhver annar þyrfti ekki að standa í biðröð eftir mat, gæti sótt sér læknisþjónustu eða keypt sér lyf, myndi hann gera það. Ég myndi segja, í þessum ræðustól, með mín laun hér á þingi: Þó að persónuafsláttur hyrfi frá mér, og ef hægt væri að garantera að hann færi í að bæta kjör þeirra verst settu, myndi ég glaður gefa hann eftir. Það er nefnilega þetta sem er að. Við getum ekki alltaf verið að fullyrða að fólk þarna úti vilji ekki eitthvað. Fólk þarna úti vill og ætti að krefjast þess að enginn á Íslandi þurfi að búa við sárafátækt. Það er okkur til háborinnar skammar að láta fólk bíða í röð eftir mat, það á ekki að eiga sér stað. Það er alltaf talað um að við séum svo rík þjóð og það sé rosalega lítill ójöfnuður og annað. En það er hópur, hæstv. fjármálaráðherra hefur líka margoft sagt að það sé fámennur hópur, sem er í þessari stöðu. Hæstv. fjármálaráðherra kemur upp ár eftir ár og segir: Þetta er fámennur hópur sem er í þessari stöðu. En hann breytir því ekki. Af hverju ekki? Af hverju breytið þið ekki þessari afstöðu og farið í að taka þennan fámenna hóp út? Það er alveg á hreinu að við í stjórnarandstöðunni munum halda okkur við að gera það á einum sólarhring, að sjá til þess að þessi fátækasti hópur landsins verði dreginn upp úr sárafátækt og helst upp úr fátækt líka þannig að hann geti lifað mannsæmandi lífi.



[16:48]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Þakka skal það sem vel er gert. Það er vissulega jákvætt að ríkisstjórnin sé að grípa til aðgerða en vandinn sem heimilin standa frammi fyrir er hins vegar stærri en svo að þær dugi til. Þann 9. maí sl. sendu Hagsmunasamtök heimilanna frá sér áskorun eða ákall til ríkisstjórnar Íslands um að verja heimilin á þeim tímum sem við horfum til. Yfirskrift áskorunarinnar var: „Tryggjum að enginn missi heimili sitt vegna verðbólgu og vaxtahækkana“. Þekkingin og vitneskjan um það sem gerðist eftir síðasta hrun er hvergi meiri en hjá Hagsmunasamtökum heimilanna og tímabært að stjórnvöld leggi við eyrun þegar þau tala. Með leyfi forseta ætla ég að leyfa mér að lesa upp áskorun þeirra hér því að hér inni er fólk sem þarf að heyra:

„Ríkisstjórnin kynnti í lok síðustu viku aðgerðir til handa þeim sem verst eru staddir vegna þeirrar verðbólgu sem nú geisar og fyrirsjáanlegra vaxtahækkana bankanna. Hún tók jafnframt ákvörðun um að ráðast ekki í neinar aðgerðir fyrir þá sem þurfa að greiða af húsnæðislánum.

Frá upphafi heimsfaraldursins hafa Hagsmunasamtök heimilanna kallað eftir vernd fyrir heimilin; að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga heimsfaraldurs enda ekki á valdi einstaklinga eða fjölskyldna að hafa áhrif á afleiðingar hans. Sama á nú við um afleiðingar stríðsátaka í Úkraínu.

Þrátt fyrir að eiginfjárstaða heimilanna hafi vissulega batnað með hækkandi fasteignaverði, hafa ráðstöfunartekjur þeirra ekki hækkað að sama skapi. Eiginfjárstaða borgar enga reikninga.

Ljóst er að mörg heimili standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum erfiðleikum á næstu mánuðum, þegar greiðslubyrði lána mun hækka um tugi þúsunda. Húsnæðismarkaður hefur verið erfiður þannig að margir hafa neyðst til að spenna bogann hátt til að geta komið sér þaki yfir höfuðið.

Hagsmunasamtök heimilanna telja augljóst að nú sé tímabært að ríkisstjórnin taki pólitíska ákvörðun um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð og beina því til Ríkisstjórnar Íslands að gefa út yfirlýsingu þess efnis.

Þar sem er vilji, þar er vegur. Ríkisstjórnin hefur tekið meðvitaða ákvörðun um að láta vaxtahækkanir falla af fullum þunga á heimili landsins, væntanlega í þeirra von að þær skili tilætluðum árangri. Sú von getur reynst þúsundum heimila gríðarlega dýrkeypt og í því sambandi má minna á að á flestum heimilum búa börn sem, samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna, eiga rétt á að búa á öruggu heimili.

Hagsmunasamtök heimilanna minna á að tugþúsundir misstu heimili sín í kjölfar bankahrunsins 2008. Slíkar hörmungar mega aldrei endurtaka sig.

Við biðjum ríkisstjórn Íslands að lýsa því yfir að þær fjölskyldur sem ekki geti staðið undir hækkandi greiðslubyrði komandi mánaða muni ekki missa heimili sín, heldur verði leitað allra leiða til að hjálpa þeim út úr þessum tímabundnu erfiðleikum svo þær geti risið á ný þegar aftur sér til sólar.

Hagsmunasamtök heimilanna búa yfir meiri og víðtækari þekkingu en nokkur annar aðili eða stofnun á Íslandi á afleiðingum hrunsins fyrir heimili og einstaklinga ásamt því sem vel var gert og því sem betur hefði mátt fara, til að koma í veg fyrir heimilismissi tugþúsunda.

Samtökin bjóða fram þekkingu sína og aðstoð við útfærslu á þeim leiðum sem hægt væri að fara til að tryggja að enginn missi heimili sitt vegna afleiðinga utanaðkomandi aðstæðna og atburða sem þau hafa enga stjórn á. Með virku samtali stjórnvalda, lánveitenda og neytenda er vel hægt að búa svo um hnútana, samstaða og samfélagsleg ábyrgð er allt sem þarf.

Ef Ísland á að vera land tækifæranna verður að gefa heimilunum tækifæri til að dafna.

Almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið!“

Svo mörg voru þau orð. Sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna frá 2017 og ein af þeim þúsundum sem misstu heimili sín í kjölfar síðasta hruns standa þessi mál mér nærri og koma við hjartað í mér svo að ekki sé sterkar kveðið að orði. Það voru a.m.k. 10.000 fjölskyldur sem misstu heimili sín á nauðungarsölum sem rekja má beint til afleiðinga hrunsins. Að auki má ekki gleyma þeim sem misstu heimili sín vegna gjaldþrota eða einhvers konar nauðasamninga við fjármálastofnanir. Engar tölur eru til um fjölda þeirra en út frá reynslu sinni og vitneskju undanfarinna ára telja hagsmunasamtökin óhætt að áætla að þær fjölskyldur hafi verið a.m.k. jafn margar eða 10.000. En af því að ekki eru til staðfestar tölur yfir það og hagsmunasamtökin setja aldrei neitt fram sem þau geta ekki 100% staðið við höfum við helmingað þá tölu niður í 5.000 heimili. Þess vegna höfum við talað um að 15.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín í kjölfar síðasta hruns og stöndum við þá tölu.

Hagsmunasamtökin þekkja betur en flestir þá örvæntingu sem fylgir þessari stöðu, bjargarleysið, reiðina og svo uppgjöfina sem oft fylgdi í kjölfarið og má m.a. sjá í mikilli aukningu á kulnun sem jafnvel hefur leitt til örorku á undanförnum árum. Ég þekki allar þessar tilfinningar sjálf og óska engum að þurfa að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum allt fram í nóvember 2019 þegar við hjónin náðum að klára okkar mál. Mér er því mikið í mun að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt endurtaki sig. Þetta er nefnilega ekki bara spurning um efnahagsmál, þetta er spurning um lýðheilsu. Þríeykið okkar góða myndi áreiðanlega taka undir það að álögð kvíði, áhyggjur og stress geti haft langvarandi áhrif á heilsu fólks. Við sem höfum annaðhvort gengið í gegnum þá ógn sem fylgir fyrst áhyggjum af heimilismissi og svo heimilismissinum sjálfum, eða höfum verið í samskiptum við þá sem gengið hafa í gegnum þetta ömurlega og erfiða ferli, vitum hversu gríðarlegt álag fylgir því og að margir hafa þegar misst heilsuna vegna þess. Það eru erfiðleikar fram undan og sennilega ekki á færi neins að koma algjörlega í veg fyrir það. En það er engu að síður hægt að milda höggið og fækka áhyggjuefnum.

Er það að létta áhyggjum af fjölskyldum landsins ekki næg ástæða til að ríkisstjórnin grípi til aðgerða? Bara sú litla aðgerð að veita einstaklingum og fjölskyldum þá fullvissu að heimilismissir sé ekki yfirvofandi myndi skipta gríðarlega miklu máli. Getum við sem samfélag ekki verið sammála um að enginn sé neinu bættari ef bankarnir fara að hirða heimilin af fjölskyldum sem ekki geta staðið í skilum vegna fordæmalausra aðstæðna sem þær bera enga sök á?

Ég hef sagt það í mörg ár, og ég stend við það, að með öðruvísi forgangsröðun hefði enginn þurfti að missa heimili sitt eftir hrun. Ef fyrst hefði verið litið til hagsmuna heimilanna og smærri fyrirtækja en ekki fjármálamarkaðarins hefðu öðruvísi ákvarðanir verið teknar og þá hefði ekki farið sem fór. Ástandið núna er allt annars eðlis en bankahrunið 2008 en það er þyngra en tárum taki að ríkisstjórnin sé með andvaraleysi að valda því að afleiðingarnar verði þær sömu fyrir heimilin.

Þann 17. apríl 2020, fyrir rúmum tveimur árum, skrifuðum við Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, grein saman sem bar yfirskriftina: „Erum við öll í sama báti?“. Þar stendur, með leyfi forseta:

„En verðum við öll á sama báti þegar allt er yfirstaðið? Verðum við öll á sama báti þegar ríkisstjórnin verður búin að skrifa síðasta aðgerðartékkann?

Það hvernig við rísum upp úr erfiðleikunum sem fram undan eru ræðst af því sem við gerum í dag og þess vegna skipta áherslur stjórnvalda og hvað þau hafa í forgangi gríðarlega miklu máli.

Mun ríkisstjórnin úthluta heimilunum björgunarvesti og plássi í björgunarbátnum eða láta þau troða marvaðann í veikri von um að bankarnir bjargi þeim frá drukknun? Eða fá þau kannski sama hripleka hrákadallinn og síðast eins og skilja má af orðum forsætisráðherra?

Eftir síðasta hrun var fjármálakerfið og afkoma þess sett í algjöran forgang á kostnað heimilanna og almennings í landinu. Sú hrikalega saga verður ekki rakin hér að þessu sinni, en það er umhugsunarefni að þau fyrirtæki sem fóru jafn óvarlega og raun ber vitni á árunum fyrir hrun skuli síðan hafa hagnast gríðarlega á öllu saman, eða um nær 700 þúsund milljónir.“ — Það var fyrir tveimur árum. — „Varlega áætlað lentu 15.000 heimili í gráðugum kjafti þeirra fyrir utan alla aðra erfiðleika sem fólk gekk í gegnum að ósekju vegna rangrar forgangsröðunar stjórnvalda.

Það má velta fyrir sér að fyrst áherslurnar voru þessar þegar sekt fjármálafyrirtækjanna í því hvernig fór var augljós, hverjar áherslur stjórnvalda verði nú þegar þau eiga enga sök á ástandinu frekar en aðrir þjóðfélagsþegnar.

Sporin hræða óneitanlega og það er alveg ljóst að það sem gerðist eftir hrun má alls ekki endurtaka sig!

Bankarnir eiga að vera í sama báti og við hin.

Núverandi ríkisstjórn ber skylda til að verja heimilin og setja hagsmuni þeirra framar hagsmunum fjármálafyrirtækja.“

Þetta hefur verið fyrirsjáanlegt allan þennan tíma. Við hefðum aldrei átt að lenda í þessari stöðu. Hér á landi er allt með öðrum hætti og öðruvísi farið að málum en í öðrum löndum. Í Bretlandi er verðbólgan t.d. komin upp í 9% og breski seðlabankinn mun væntanlega hækka vexti fljótlega. En þegar verðbólgan hjá þeim var 7,8% hækkaði breski seðlabankinn stýrivextina úr 0,75% í 1%, um 0,25 prósentustig, og væntanlega má gera ráð fyrir 0,25 prósentustiga hækkun frá þeim á næstu dögum, þannig að stýrivextir í Bretlandi verði 1,25%. Þetta er ekki á nokkurn hátt sambærilegt við þá skelfingu sem íslenskum heimilum er boðið upp á. Í Bretlandi eru vextir að hækka en ekki á sambærilegan hátt og hér. Þá hafa vaxtahækkanir og verðbólga erlendis ekki bein áhrif á höfuðstól húsnæðislána og bætast því ekki ofan á jafnháa vaxtabyrði og hér. Erum við virkilega klárari en allir aðrir þegar við aukum álögur á heimili með þeim hætti sem nú er að gerast? Eða erum við bara hallari undir fjármálafyrirtækin?

Fasteignalán heimilanna eru um 2.200 milljarðar. 1% hækkun stýrivaxta færir lánveitendum því rúma 22 milljarða í auknar tekjur á ársgrundvelli. Og hvað gerum við í því? Jú, á meðan bankarnir græða þá er ríkið að blæða á móti með greiðslu húsaleigubóta og svo fara vaxtabætur áreiðanlega að aukast. Í þessum aðstæðum verður fólk jú að fá hjálp, það er gefið. En væri ekki hreinlegra að lækka einfaldlega vextina? Eða fara bara fram á að bankarnir skili fólkinu þeim vaxtalækkunum sem aldrei komu nema að litlu leyti þegar vextir Seðlabankans voru lækkaðir? Eru bankarnir í sama báti og við eða eiga þeir alltaf að græða á ástandinu? Já, hver á að greiða fyrir stöðugleika? Hækkanir á greiðslubyrði upp á tugi þúsunda á mánuði eru í kortunum. Við horfðum á meðferð bankanna á heimilunum eftir síðasta hrun og þar var enga miskunn að finna. Þó að það hrun væri alfarið bönkunum að kenna kunnu þeir ekki að skammast sín heldur fóru af fullri hörku á eftir eigin fórnarlömbum. Og nú stefnir aftur í að heimilunum verði fórnað fyrir svokallaðan stöðugleika. En fyrir hvern er sá stöðugleiki ef heimilum er fórnað fyrir hann? Er það stöðugleiki fjármagnseigenda? Erum við leita eftir því að bankarnir standi undir arðsemiskröfum?

Við verðum að velta því fyrir okkur hvernig fjölskylda, sem er kannski með 3.000–500.000 kr. til ráðstöfunar á mánuði, ráði við 25–40.000 kr. hækkun sem mun bætast við lán margra bara vegna eins prósentustiga hækkunar á meginvöxtum Seðlabankans. Og athugum að fleiri vaxtahækkanir eru fyrirsjáanlegar. Á leigumarkaði eru tugþúsunda hækkanir yfirvofandi. Boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna þeirra munu augljóslega ekki duga til. Og hvað verður um leigjendur sem ekki standa undir hækkandi leigu? Hvar eiga þeir að búa? Er réttlætanlegt að svipta hundruð eða þúsundir fjölskyldna heimilum sínum fyrir stöðugleika hinna sem betur eru staddir? Er réttlætanlegt að sumir gjaldi fyrir stöðugleikann með heimili sínu? Er réttlætanlegt að krefjast slíkra fórna? Það er augljóst að 3% ofan á bætur sem almennt ná ekki einu sinni 300.000 eru 5.000–10.000 kr. á mánuði fyrir skatt, og það er engan veginn nóg og 20.000 eingreiðsla barnabóta er varla upp í nös á ketti í því ástandi sem nú er. Húsaleigubætur munu vissulega hjálpa þeim sem eru á húsaleigumarkaði en engu að síður er það einungis hjá tekjulægstu öryrkjum sem þær munu ekki valda skerðingu.

Ég bið ríkisstjórnina um að gefa það út að enginn muni missa heimili sitt í þeim hremmingum sem eru fyrirsjáanlegar og stafa af aðstæðum sem venjulegt heimili hefur lítil sem engin áhrif á. Ég vil líka benda hæstv. fjármálaráðherra á að í því felst ekki inngrip í samninga eins og hann hélt fram í óundirbúnum fyrirspurnum áðan. Ég bendi á að það er ekkert jafnræði á milli aðila og ef eitthvað er inngrip í samninga er það einhliða ákvörðun um vaxtahækkanir sem skilar sér alltaf beint með auknum álögum á neytendur á meðan vaxtalækkanir gera það ekki nema að litlu leyti. Hvar er jafnræðið í því og er virkilega hægt að tala um inngrip í samninga þegar aðstöðumunur er jafn mikill og raun ber vitni? Það getur ekki verið réttlætanlegt að svipta hundruð eða þúsundir fjölskyldna heimilum sínum fyrir stöðugleika hinna. Það er ekki réttlætanlegt að sumir gjaldi fyrir stöðugleika með heimili sínu og ekki réttlætanlegt að krefjast slíkra fórna.

Það eru mannréttindi að eiga heimili og börn eiga rétt á að búa á öruggu heimili. Ríkisstjórnin þarf að sýna pólitískt hugrekki og verja heimilin. Hún þarf að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð. Fjöldi fólks nær ekki endum saman í þessu ríka landi okkar og nú stefnir í að fjöldi heimila sé á hraðri leið í þrot. Þetta er ekki fólk sem hefur reist sér hurðarás um öxl heldur fólks sem í sveita síns andlits hefur náð að koma sér þaki yfir höfuðið. Það á ekki að vera lúxus að eiga húsnæði og fjölskyldur eiga ekki að vera peð á borði auðmanna í matador en engu að síður er það raunin fyrir allt of marga. Það eru mannréttindi að eiga heimili og börn eiga rétt á að búa í öruggu heimili. Ríkisstjórnin þarf að sýna pólitískt hugrekki og taka heimilin úr matador-leik fjármagnsaflanna. Hún þarf að taka pólitíska ákvörðun og gefa út yfirlýsingu um að enginn skuli missa heimili sitt í því ástandi sem fyrirsjáanlegt er að vari um hríð. Aðeins þannig tryggjum við heimilunum stöðugleika.



[17:03]
Kristrún Frostadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér er fjallað um mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu sem munu kosta ríkissjóð um 5 milljarða kr. á þessu ári. Í frumvarpi til fjáraukalaga, sem nú er verið að afgreiða úr hv. fjárlaganefnd, er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á fjárheimildum þrátt fyrir mun erfiðara ástand en blasti við þegar fjárlög voru samþykkt fyrir áramót. Mótvægisaðgerðirnar á að fjármagna úr varasjóðum, segir í því frumvarpi sem við ræðum núna, enda stóð ekki til að gera neitt. Hvergi var að finna þingmál tengd efnahagsástandinu á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar langt fram eftir vori þrátt fyrir ítrekað ákall um aðgerðir, m.a. frá okkur í Samfylkingunni. Við það sat þar til rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar þegar verðbólga var orðin 7,2%. Eftir hálft ár af hárri verðbólgu birtust svokallaðar sértækar aðgerðir á borði hæstv. ríkisstjórnar og nú er þetta forgangsmál og þykir, að mati hæstv. fjármálaráðherra, koma snemma. Í byrjun viku bárust svo fréttir um áframhaldandi þenslu á húsnæðismarkaði enn eitt árið þar sem markaður með heimili fólks hækkar um tugi prósenta á ársgrundvelli.

Betra seint en aldrei og betra er nokkuð en ekki neitt, segi ég um þessar aðgerðir, en viðbrögðin eru vonbrigði að mínu mati þó að ég fagni því vissulega að stjórnvöld viðurkenni þó a.m.k. loks vandann. Nágrannalönd okkar hafa kynnt hvern aðgerðapakkann á fætur öðrum en við sjáum raungerast sama seinagang og fyrir tveimur árum í heimsfaraldri. Verðbólgan er afleiðing af efnahagsaðgerðum stjórnvalda sem lögðu höfuðáherslu á að veita stuðning með almennum hætti fyrir tilstilli peningastefnunnar í stað þess að grípa hratt og örugglega inn í með sértækum aðgerðum á tímum heimsfaraldurs. Sama ríkisstjórn er nú að skera niður um 2 milljarða kr. í almenna íbúðakerfinu, opinbera húsnæðiskerfinu, samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun. Þetta er gert þrátt fyrir að húsnæðisliðurinn sé aðalástæðan fyrir verðbólgunni og þrátt fyrir vilyrði hæstv. iðnviðaráðherra um stórtæka opinbera uppbyggingu á næstu árum. Hver svo sem niðurstaða umrædds húsnæðishóps, sem hæstv. fjármálaráðherra vitnaði til hér áðan, er þá er ekkert fjármagn fyrir þeim aðgerðum í núverandi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Annaðhvort er ekkert að marka þau vilyrði eða hæstv. innviðaráðherra hefur einfaldlega takmarkað svigrúm í efnahagsstefnu sem stýrt er af einum flokki.

Virðulegi forseti. Það er erfitt að grípa til réttra og vel tímasettra aðgerða í efnahagsmálum þegar efnahagsstefnan er óljós og tilviljunarkennd. Þess vegna förum við úr niðurskurði í húsnæðismálum í smáviðbót í húsnæðisbótum þegar á gefur. Þess vegna er talað um þenslu en samt er ítrekað ráðist í aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem ýta undir þenslu hjá tekjuhæstu einstaklingunum í landinu. Ríkisstjórnin stundar hægri pólitík í fjármálum þar sem hæstv. fjármálaráðherra leggur áherslu á eignasölu og skattalækkanir eftir fremsta megni, en leiðréttir hana af og til með félagshyggjuáherslum þegar almenningi er ofboðið. Grunnstefnunni er stýrt af Sjálfstæðisflokknum en Vinstri græn plástra hana inn á milli svo að ásýndin sleppi fyrir horn um stundarsakir. Framsókn flýtur síðan með í anda samvinnu. Þessi tilviljunarkennda stefna kostar okkur gríðarlega peninga því að engin samfella er í því hvernig efnahagsmálunum í landinu er stýrt. Of langan tíma tekur að bregðast við þegar upp kemur ástand sem krefst skjótra viðbragða af hálfu stjórnvalda, hvort sem er heimsfaraldur eða verðbólga, tækifæri tapast, þrýstingur eykst og óánægja vex sem getur leitt af sér yfirskot í launakröfum og kostnað síðar meir. Þegar þetta bætist við þá vanfjárfestingu sem hefur átt sér stað í velferðarkerfi okkar undanfarinn áratug, undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í samvinnu við Framsókn sem Vinstri græn hafa í seinni tíð kvittað upp á, er erfitt að sjá að hægt verði að stemma stigu við ósjálfbærni í ríkisrekstri. Tekjuhliðin er brostin og tregða til að grípa til alvöruaðgerða til að leiðrétta skekkju í velferðarkerfi okkar eftir niðurskurð skapar þrýsting á að ráðast í skammtímaúrræði sem eru gífurlega dýr.

Endurfjárfesta þarf í velferðarkerfi okkar, virðulegi forseti, og koma í veg fyrir svona verðbólguspíral eins og nú blasir við með alvöruvelferðarstjórn. En vandinn er sá að grafið hefur verið undan getu hins opinbera til að halda velferðarkerfinu gangandi. Tekjur ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu verða þær lægstu á öldinni í lok þessa kjörtímabils, samkvæmt framlagðri fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Tölurnar tala sínu máli. Tugir milljarða hafa markvisst verið teknir út úr tekjugrunni ríkissjóðs undanfarin ár á meðvitaðan hátt án þess að nýjar tekjur komi á móti. Þetta eru ekki skoðanir minni hluta, þetta eru staðreyndir sem m.a. birtast í áliti fjármálaráðs þar sem einfaldlega er farið yfir þá 30–40 milljarða kr. sem teknir hafa verið út úr rekstri ríkissjóðs án mótframlaga. Hæstv. ríkisstjórn ber jafnan fyrir sig að stjórnvöld séu að lenda í kostnaði eða lenda í verðbólgu, að ytri þættir stýri flestu. Viðbrögðin eru þau að setja ríkissjóð í enn þrengri spennitreyju til að ýfa upp óánægju meðal þeirra sem starfa í velferðarkerfi okkar og meðal þeirra sem nýta þjónustuna. Það er gert til að mæta kröfum þeirra sem raunverulega stjórna um tekjuaðhald gagnvart ríkissjóði. Vítahringurinn magnast og enginn skilur hvers vegna óánægja eykst og kerfin verða brothættari, enda segir hæstv. fjármálaráðherra að ríkisstjórnin stundi skynsamlega hagstjórn og undir það taka formenn annarra stjórnarflokka gagnrýnislaust.

Hér axlar enginn raunverulega ábyrgð, ekkert uppbrot, engin kjarkur til að hafa raunveruleg áhrif á grunnvandann, aðeins stefna um að halda ríkissjóði í skefjum og minnka hlut ríkissjóðs og það af hálfu flokks með fimmtungsfylgi í dag. Hinir flokkarnir reyna að bjarga málunum af og til með skyndilausnum. Merkilegast er að sjá hvernig hæstv. ríkisstjórn talar um mótvægisaðgerðirnar sem við fjöllum um núna, aðgerðir sem voru kynntar í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga sem sértækar aðgerðir sem hafa þó ekki verið fjármagnaðar en sagt er að eigi að fjármagna með varasjóðum sem geta hæglega tæmst hratt í núverandi verðbólguumhverfi. Við vorum síðast í morgun, hv. fjárlaganefnd, að ræða við fjármálaráðherra þar sem fram kom að stór hluti af ástæðunni fyrir því að núverandi fjármálaáætlun og fjárlög halda er það að verið er að nota verðbólgufroðu á tekjuhliðinni. Það er því engan veginn hægt að gera ráð fyrir því að þessir varasjóðir muni nægja fyrir þessum svokölluðu sértæku aðgerðum. En staðreyndin er sú að stærstur hluti þess pakka sem hér er verið að fjalla um í dag snýr að því að bæta örorku- og ellilífeyrisþegum upp verðbólguna. Það er bundið í lög að verja eigi þennan hóp fyrir verðbólgu. Það stendur skýrum stöfum í 69. gr. laga um almannatryggingar að tryggja eigi að upphæðir í almannatryggingakerfinu fylgi launaþróun eða verðbólgu ef hún er hærri. Og þeir útreikningar sem hér fóru fram áðan af hæstv. fjármálaráðherra, sem var stoltur yfir því að þessi 3% væru að bæta upp fyrir verðbólguna — staðreyndin er sú að þessi 3% viðbót seinni sex mánuði ársins plús þessi umræddu 5,6% sem komu um áramótin koma okkur á þann stað að hækkunin fyrir þennan hóp, sem getur ekki farið í verkfall og barist fyrir réttindum sínum heldur er háður því að stjórnvöld fylgi lögum, er 7,1% á árinu. Og hvað sagði Seðlabankinn um daginn varðandi verðbólguspá fyrir árið? Jú, hún er 7,4%, það er bara verið að fylgja lögum og það er ekkert sértækt eða fréttnæmt við það að fara að lögum og virða réttindi fólks í velferðarsamfélagi nema kannski í ríkisstjórn þar sem hægri slagsíðan í efnahagsmálum er svo mikil að það þarf vinstri flokk til þess eins að passa að grunnforsendur velferðarkerfisins okkar séu virtar, að það sé raunverulega farið að lögum. En það tók reyndar hálft ár að þrýsta á um þetta. Svo birtist þetta svona í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Virðulegi forseti. Markmið stjórnvalda er ekki að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það er ekki markmiðið eins og nú heyrist svo víða þvert á ríkisstjórnarflokkana. Þetta eru þau öll sammála um, virðist vera, að sé markmið stjórnvalda. Markmið stjórnvalda er að þjónusta íbúa landsins og vernda samfélagið. Hvernig við náum því markmiði, með hætti sem er sjálfbær og stuðlar að efnahagslegu jafnvægi, snýr síðan að tækjum og tólum sem við beitum, vaxtastigi, gjöldum, skattlagningu, tekjuhliðinni sem er algerlega brostin. Það þarf að beita þeim tækjum og tólum sem til eru til að ná höfuðmarkmiði stjórnvalda um að þjónusta almenning og byggja þannig grunninn sem allt vex á, m.a. einkageirinn sem hæstv. fjármálaráðherra verður svo tíðrætt um að standi fyrir verðmætasköpun í samfélaginu. Kerfið virkar nefnilega í báðar áttir og sú kredda sem nú stýrir efnahagsmálunum, og hefur sett efnahagsstefnuna í baklás aðgerðaleysis, mun því ekki aðeins bitna á velferð fólks heldur líka á umræddri tekjusköpun í samfélaginu sem alltaf er verið að tala um, í einkageiranum sem vissulega er gríðarlega mikilvægur. Þetta er vítahringurinn sem ríkisreksturinn er kominn í og verður að rjúfa.

Virðulegi forseti. Þessar mótvægisaðgerðir eru nauðsynlegar þó að þær séu ekki nægjanlegar. En þörfin á aðgerðum af þessu tagi mun aðeins aukast í núverandi stjórnarfari því að ekkert bendir til þess að takast eigi á við grunnvandann í ríkisrekstrinum. Þetta kom skýrt fram á fundi fjármálaráðs með hv. fjárlaganefnd í morgun. Þetta kemur skýrt fram í opinberri umsögn fjármálaráðs þar sem liggur fyrir að það er kerfislægur halli á ríkissjóði því búið er að lækka tekjugrunninn sem við getum notað til þess að veita nauðsynlega lögbundna þjónustu. Við erum að horfa upp á brostna tekjuhlið, afskiptaleysi á húsnæðismarkaði og almennt stefnuleysi í efnahagsmálum sem litar allar aðgerðir á velferðarsviðinu. Þetta ástand skapar einmitt þær aðstæður sem nú þrýsta á tilviljanakenndar og kostnaðarsamar aðgerðir. Það er auðvitað lítið annað hægt að gera en að samþykkja og fagna því að eitthvað sé gert, þó lítið sé. En þetta er bara byrjunin ef stjórnarfarið heldur svona áfram.



[17:16]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni höfum kallað eftir því síðan í febrúar að gripið verði til mótvægisaðgerða til að verja viðkvæma hópa fyrir hækkandi verðbólgu og hækkandi vaxtastigi. Ég fagna því að ríkisstjórnin sé loksins að stíga einhver skref í þá áttina. Verðbólga var 6,7% í mars og 7,2% á ársgrundvelli í apríl. Hagdeild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,9% núna á milli mánaða og verðbólga fari þannig upp í 7,7% í maí. Samkvæmt Peningamálum Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólga aukist í rúmlega 8% á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Helsti drifkraftur verðbólgunnar er enn sem fyrr snarhækkandi húsnæðisverð í kjölfar þess að stýrivextir voru keyrðir niður í heimsfaraldrinum, hömlum var létt af bankakerfinu og hundruðum milljarða af lánsfé dælt inn á húsnæðismarkaðinn. Tólf mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 22,3% og var 22,2% í mars og raunverð íbúða hefur aldrei mælst jafnhátt og nú ef við skoðum þróunina frá aldamótum, þ.e. íbúðir hafa aldrei verið jafn dýrar í samanburði við annað vöruverð. Ofan á þessa stöðu á húsnæðismarkaði bætast nú innfluttar hækkanir, hærra eldsneytisverð, hærra matvælaverð, og þegar þetta kemur allt saman sjáum við verðbólgu sem hefur ekki mælst meiri síðan árið 2010. Það ætti engum að koma á óvart að Seðlabankinn bregðist við þessari stöðu með skörpum vaxtahækkunum. Nú í maí voru stýrivextir hækkaðir um eitt prósentustig, standa núna í 3,75%, og gætu hækkað enn frekar samkvæmt yfirlýsingum peningastefnunefndar.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun spáir því að greiðslubyrði óverðtryggðra lána geti orðið að lágmarki 49.700 kr. á hverjar 10 millj. kr. sem eru teknar að láni þegar bankarnir hafa brugðist við stýrivaxtahækkunum en fyrir ríflega ári var greiðslubyrðin um 37.300 kr. á hverjar tíu milljónir. Fyrir heimili með 40 milljóna kr. lán er þetta 50.000 kr. kostnaðarauki á mánuði á milli ára, það er meiri háttar kostnaður á skömmum tíma. Ríkisstjórnir víða í Evrópu hafa brugðist skjótt við því sem hefur verið kallað lífskjarakreppa, „cost of living crisis“. Í Bretlandi hefur fjármálaráðherrann Rishi Sunak þurft að berjast fyrir pólitísku lífi sínu fyrir að gera ekki nóg, hann gerði þó eitthvað og gerði eitthvað strax. En hér á Íslandi erum við fyrst núna, 18. maí, að tala um aðgerðapakka.

Þetta frumvarp felur vissulega í sér mikilvægt skref og ég fagna því sérstaklega að hér sé farin sú leið að beita tilfærslukerfunum frekar en að lækka skatta, eins og hæstv. matvælaráðherra í Vinstri grænum lagði til — hann talaði fyrir því að lækka virðisaukaskatt á matvæli eða fella hann niður. Ég held að það hefði verið afar ómarkviss leið til þess að ná til viðkvæmustu hópanna. Ég er feginn því að hæstv. fjármálaráðherra fer allt aðra leið sem er miklu meira í anda félagshyggju en það sem sumir hafa talað fyrir. Auðvitað get ég sem félagshyggjumaður haldið hér ræður um að gera þurfi enn meira og enn betur, að þetta sé ekki nóg o.s.frv. Ég get alveg tekið undir málflutning þess efnis. En mig langar kannski að nýta tækifærið hér til að benda á að umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgu geta bitið í skottið á sér, ef þær eru ekki fjármagnaðar. Það er alveg hægt að verja viðkvæma hópa fyrir verðbólgu án þess að létta umtalsvert á aðhaldsstigi opinberra fjármála og án þess að ríkisfjármálin fari að róa í aðra átt en Seðlabankinn. Samhliða stuðningsúrræðum eins og hér eru boðuð væri t.d. hægt að fara í það að skrúfa niður þensluhvetjandi skattastyrki til efri millitekjufólks eins og nær allir flokkar í stjórnarandstöðu voru sammála um en Sjálfstæðisflokkurinn og hans fylgitungl lögðust gegn í fjárlagaumræðunni rétt fyrir áramót. Það væri hægt að auka álögur á hópana sem eiga og þéna mest. Það er svo margt sem væri hægt að gera til að vega upp á móti mikilvægum en þensluhvetjandi aðgerðum fyrir viðkvæma hópa. Höfum þetta alveg á hreinu. Það er nefnilega aðhaldsstig opinberra fjármála í heild sem skiptir máli ef halda á aftur af verðbólgu.

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Kristrún Frostadóttir fór yfir áðan þá er varla hægt að kalla það sérstakar mótvægisaðgerðir að flýta hækkun elli- og örorkulífeyris. Það er skrifað inn í lögin um almannatryggingar, í 69. gr., að bætur eigi að fylgja launaþróun og þær megi aldrei hækka minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Til að fylgja 69. gr. þurfti annaðhvort að hækka lífeyrinn núna eða þá þeim mun meira í næstu fjárlögum. Ég nefndi það hér áðan að venjan við samþykkt fjárlaga hafi verið að atvinnuleysisbætur fylgi prósentuhækkun á bótum almannatrygginga. Hæstv. fjármálaráðherra brást við og sagði að það væri ekki þannig að þær hefðu alltaf fylgt þróun almannatrygginga og það er alveg rétt. En þegar ég talaði um venju í þessu samhengi var ég reyndar að vitna í a.m.k. þrjár eða fjórar greinargerðir fjárlagafrumvarpa sem fjármálaráðherra hefur sjálfur lagt fram og mælt fyrir á Alþingi á undanförnum árum. Þar er talað um þetta sem venju. Það þykir góður bragur á því að atvinnuleysisbætur fylgi þróun almannatrygginga.

Það er alveg rétt að atvinnustigið hefur farið lækkandi en það breytir því ekki að í dag eru 9.000 manns, 9.000 manneskjur á Íslandi, án vinnu og 3.000 manns sem hafa verið atvinnulaus í meira en 12 mánuði. Við skulum rifja það upp að grunnatvinnuleysisbætur eru 313.729 kr. á mánuði. Það er ekkert sérlega há fjárhæð. Þetta er fjórðungurinn af því sem við, þingmenn í þessum sal, fáum í laun á hverjum mánuði. Ætlar einhver að halda því fram að þessi hópur sé í eitthvað sérstaklega sterkri stöðu til að taka á sig hækkandi matvælaverð, stóraukinn húsnæðiskostnað, hækkandi eldsneytisverð? Nei, ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi hópur sé engu minna berskjaldaður fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum en hóparnir sem verið er að koma til móts við með beinum hætti í þessu frumvarpi. Ég sé ekki sanngirni í því að skilja þennan hóp eftir, fólk sem hefur orðið fyrir miklu tekjufalli, er oft einangrað og í viðkvæmri stöðu. Mér finnst þetta ósanngjarnt. Mér finnst það vond félagsmálapólitík að atvinnuleitendur fái ekki sams konar hækkun og eftirlaunafólk og öryrkjar.

Ég ætla rétt undir lokin, af því að ég á nokkrar mínútur eftir, að koma inn á kjaraviðræðurnar sem eru fram undan og fara fram við mjög krefjandi aðstæður. Nú er það þannig að Alþýðusamband Íslands hefur lýst því yfir að kröfur verkalýðshreyfingarinnar muni að miklu leyti ráðast af því hvort stjórnvöld séu tilbúin að efla tilfærslukerfin og auka framboð af húsnæði fyrir lágtekju- og millitekjuhópa. Þess vegna eru það vonbrigði að ríkisstjórnin boði í raun algera stöðnun í þessum efnum í þeirri fjármálaáætlun sem liggur fyrir. Það eru skammtímaaðgerðir sem ráðist er í í þessu frumvarpi og þær breyta í engu stóru myndinni. Ég hef líka áhyggjur af trúverðugleika stjórnvalda í komandi kjaraviðræðum. Nú liggur fyrir að enn hefur ekki verið brugðist að fullu við því að efna loforð sem voru gefin þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður. Á undanförnum dögum höfum við rætt hér um húsaleigulög og um starfskjaralög. Þetta eru frumvörp sem annars vegar hæstv. innviðaráðherra mælir fyrir og hins vegar hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra og í báðum þessum umræðum hefur komið fram mjög hörð gagnrýni frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem virðast ekki skeyta neitt um að þetta eru atriði sem aðilum vinnumarkaðarins voru gefin mjög skýr fyrirheit um fyrir örfáum árum. Í ljósi þessa hef ég satt best að segja svolitlar áhyggjur af trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í komandi kjaraviðræðum. Þar mun það skipta alveg gríðarlegu máli að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins, að þeir þurfi ekki bara að sækja sér kjarabætur í gegnum launahækkanir heldur líka með aukinni og bættri þjónustu og bættum kjörum, m.a. í gegnum tilfærslukerfin okkar og í gegnum húsnæðisstefnu stjórnvalda.

Annars vil ég segja að lokum: Það eru mjög mikilvæg skref sem eru stigin í þessu frumvarpi og ég held að við í þingflokki Samfylkingarinnar munum styðja þessi skref heils hugar og jafnvel leggja til einhverjar breytingar. Ég hlakka til að fá þetta mál inn í efnahags- og viðskiptanefnd til frekari umræðu og til umsagnar.



[17:27]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Ég vil bara koma hér upp og lýsa eindregnum stuðningi við frumvarpið og þá hungurlús sem verið er að boða í því. Þessi hópur sem á að fá þessa 3% hækkun er sá hópur sem þarf mest á þessu að halda. Stærsti hluti þeirra sem eru þarna í lægstu þrepunum fær 219.000 kr. útborgaðar eftir skatta og þarf virkilega á stuðningi að halda. En þó að búið sé að setja inn þessa 3% hækkun og reyna að koma í veg fyrir að húsaleigubætur lækki megum við ekki gleyma því að allar skattskyldar tekjur sem eru settar inn í þetta kerfi skerða aðrar bætur eins og sérstöku uppbótina og aldurstengdu uppbótina. Þetta kerfi er svo arfavitlaust að það er eiginlega synd og skömm að við skulum alltaf vera að púkka upp á það og einhvern veginn að reyna að bæta inn í þann bútasaumaða óskapnað sem þetta kerfi er. Það má ekki heldur gleyma því í þessum aðgerðum að það eru einstaklingar þarna úti sem hafa það ótrúlega slæmt. Þetta bitnar ótrúlega illa á einstaklingum, og líka einstæðum foreldrum, sem eru að reyna sitt besta til að lifa af í þessu kerfi, voru búnir að herða sultarólina og eiginlega komnir á heljarþröm eftir Covid og síðan skellur þetta stríð á með tilheyrandi verðbólgu.

Það er alveg ótrúlega klikkuð lausn að hækka stýrivexti eins og gert hefur verið. Við vitum að fólk þarf að borga 20.000–30.000 kr. meira í leigu og síðan er það hækkun á afborgun lána þeirra sem eiga húsnæði. Við vitum að eins prósentustiga stýrivaxtahækkun Seðlabankans á 30 millj. kr. láni hefur í för með sér 20.000 kr. hækkun á mánuði. Þetta er allt of mikið fyrir láglaunafólk. Þetta er allt of mikið og eiginlega óbærilegt fyrir þá sem eru á lægstu bótum almannatryggingakerfisins. Ég vona heitt og innilega að þegar þetta mál fer til nefndar verði hægt að bæta í og ég vona svo heitt og innilega að ríkisstjórnin taki sig nú til og skelli á, eins og Danir gerðu, 90.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlaust. Ég spurði að því í gær á ráðstefnu hjá Öryrkjabandalaginu hverju það myndi breyta fyrir einstaklinga sem ég var að tala við ef þeir fengju þetta. Einn sagði: Það myndi skipta sköpum fyrir mig, þá hefði ég von um að ég gæti lifað af á leigumarkaði fram á haustið þegar á að fara að endurskoða almannatryggingakerfið. Ég vona að þá verði eitthvað gert fyrir viðkomandi svo að hann eigi einhvern möguleika á að lifa í þessu kerfi.

Eins og staðan er vona ég heitt og innilega að þetta sé bara uppkast að því sem koma skal. Ef vilji er til — og ég er alveg sannfærður um að stjórnarandstaðan mun greiða fyrir því á allan hátt að breyta þessu og reyna að gera þetta eitthvað betur — getum við séð til þess í eitt skipti fyrir öll að einhver ákveðin upphæð verði sett inn skatta- og skerðingarlaust. Eins og ég segi 90.000 kr., eins og Danir hafa verið senda til sinna þegna og þá eingöngu vegna verðbólguhækkana, myndu gagnast þessum einstaklingum mjög vel. Ég get fullyrt að þeim sem eru verst settir í þessu kerfi veitir örugglega ekki af því.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.