152. löggjafarþing — 80. fundur
 24. maí 2022.
um fundarstjórn.

brottvísanir flóttamanna.

[18:11]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Forseti. Nú er lögreglan í óðaönn að undirbúa mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar; það á að reka 270 flóttamenn úr landi. Þetta er fólk með viðurkennda stöðu flóttamanns og mörg hver munu lenda á götunni í Grikklandi og Ungverjalandi þar sem ástandið er ömurlegt. Dómsmálaráðherra getur komið í veg fyrir þetta með leiðbeinandi tilmælum eða með afmörkuðum reglugerðarbreytingum. Ríkisstjórnin hefur það í hendi sér að tryggja að fólk sem hefur dvalið lengi á Íslandi vegna fordæmalausra aðstæðna í heimsfaraldri fái að búa hérna áfram, vinna á Íslandi, auðga samfélagið okkar. Ef ráðherra kemur ekki í veg fyrir þessa ósvinnu þá verður Alþingi, þá verða mannúðarsinnar hér úr öllum flokkum, úr stjórn og stjórnarandstöðu, að hafa hraðar hendur á næstu dögum og sameinast um nauðsynlegar lagabreytingar.

Ég vil óska eftir því við hæstv. forseta að hann og við öll hér á þinginu sýnum sveigjanleika, verum í viðbragðsstöðu ef þetta er það sem þarf að gera, ef Alþingi þarf að stíga inn með mjög afgerandi hætti í þágu skynsemi og mannúðar.



[18:12]
Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég tek auðvitað undir með hv. þm. Jóhanni Páli Jóhannssyni um að við verðum að sjá ríkisstjórnina gera eitthvað í þessu máli. Það er eiginlega sárara en tárum taki að í sömu vikunni og það birtast tölur um að í fyrsta skipti séu 100 milljónir manna á flótta í heiminum undan hryllilegum aðstæðum héðan og þaðan þá ætli Ísland að bregðast við með því að senda 270 einstaklinga, hugsanlega, í algjöra óvissu og líklega í mörgum tilfellum í ömurlegar aðstæður. Þetta eru einstaklingar sem hér hafa dvalið um lengri og skemmri tíma, m.a. ílengst vegna Covid, eru búnir að festa hér rætur, komnir í vinnu, hafa sótt skóla. Þetta er ömurlegt, herra forseti.



[18:14]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með vandræðagangi ráðherra ríkisstjórnarinnar varðandi þetta Íslandsmet í brottvísun flóttafólks sem stefnir í. Hér í gær töluðu þrír ráðherrar í kross. Sumum fannst ástandið á Grikklandi ekki eitthvað sem væri hægt að mæla með, öðrum fannst bara í fína lagi að senda fólk þangað, á götuna, þjónustulaust, útsett fyrir ofbeldi, mismunun, atvinnulaust, fær ekki heilbrigðisþjónustu, fær ekki menntun fyrir börnin sín. Það sem er eiginlega verra er þessi stanslausi áróður, þessi upplýsingaóreiða sem ríkisstjórnin stendur fyrir í þessum málum þar sem t.d. dómsmálaráðherra heldur því fram að það þurfi að breyta lögum, eins og hann sé nauðbeygður til að sýna þessa mannvonsku. Hann neyðist bara til þess vegna þess að lögin eru svona slæm. Það er rangt. Frú forseti. Það er pólitísk ákvörðun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur (Forseti hringir.) að senda þetta fólk úr landi, (Forseti hringir.) þingmenn sem sögðust vera að skoða aðstæður í Grikklandi hér í salnum í gær (Forseti hringir.) stoppuðu ekki endursendingadeildina í að fara að senda skilaboð á fólk í dag (Forseti hringir.) um að það ætti að fara að henda því úr landi. Meiri var nú aðgátin ekki hjá þessari ríkisstjórn.

(Forseti (LínS): Hv. þingmaður er minntur á að umræður um fundarstjórn forseta eru ein mínúta.)



[18:16]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er þetta vandamál sem við glímum við hjá hæstv. dómsmálaráðherra sem fer ítrekað með rangt mál um einmitt að það þurfi að breyta lögum til að hætta að senda fólk til Grikklands sem fengið hefur þar vernd. Hann hefur sagt þetta ítrekað, t.d. í morgunútvarpinu í morgun. Þetta er rangt. Lögin veita heimild til að senda fólk til Grikklands en það er ekki skylda. Ráðherra þarf ekki að senda fólk til baka. Hann hefur heimild til þess en ber ekki skyldu til þess. Lögin virka alveg til að grípa þær aðstæður sem eru í gangi núna. Það þarf ekki að breyta þeim til að hætta við að senda fólk aftur til Grikklands. Við skulum hafa þetta algerlega skýrt og mér finnst mjög alvarlegt, forseti, að ráðherra málaflokksins viti þetta ekki.



[18:17]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er svo magnað að fylgjast með því hvernig ríkisstjórnir sem innihalda Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk, og jafnvel Vinstri græn líka, skýla sér meira en nokkrar aðrar ríkisstjórnir hér á landi á bak við regluverk Evrópusambandsins. Þar er nú aldeilis hægt að skýla sér, þar er nú aldeilis hægt að finna skjól fyrir því að axla ekki pólitíska ábyrgð, að taka ekki þær samfélagslega ábyrgu og skynsamlegu ákvarðanir sem við þurfum að taka og vera þar alltaf með „free rider“ í Evrópu, svo ég fái að sletta á ensku, alltaf að senda vandamálin frá Íslandi, 11. ríkasta landi í heimi, alltaf að senda allt í burt frá okkur eða þegar við viljum ekki axla siðferðilega og pólitíska ábyrgð á fólki á flótta.



[18:18]
Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að fá að koma hérna upp og taka undir það sem félagar mínir hafa verið að segja um þá stöðu sem er uppi, að það sé verið að vísa hundruðum einstaklinga úr landi, fólki sem er búið að dvelja hér svo árum skiptir og aðlagast, lítil börn sem eru búin að vera í skóla, eignast vini. Það er þyngra en tárum taki að sjá myndir sem birtast okkur frá Grikklandi þar sem flóttafólk sefur undir plastpoka eða lítil börn á götunni sem eru bara með eitt teppi á sér. Mörg börn sem liggja saman með eitt teppi á sér. Er það þetta sem við viljum bjóða fólki sem hefur leitað til okkar með beiðni um hjálp? Hversu hjálpsöm ætlum við að vera gagnvart þeim sem standa höllum fæti í þessum heimi? Er þetta kærleikurinn sem við ætlum að sýna?



[18:19]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Hér ætlar dómsmálaráðherra að fara að senda úr landi 270 manns sem hafa leitað hælis hér, sem hafa vegna Covid ílengst hér jafnvel í nokkur ár. Ég tel mjög mikilvægt við undirbúning þessarar ákvörðunar að mjög sé vandað til hennar á allan hátt og þar gætt meðalhófs, sem er ein af grundvallarreglum íslenskrar stjórnsýslu sem felst í því að beitt sé vægasta úrræði sem mögulegt er og að ekki verði farið strangar í sakirnar en alger nauðsyn er á. Með því þarf ráðherrann að fara í gegnum listann og líta á það fólk, fjölskyldufólk sem hefur kannski verið með börn í skóla hér og hefur aðlagast, eins og kom fram í ræðu annars þingmanns hér áðan, og búið að festa rætur og er jafnvel farið að vinna fyrir sér, að það fólk verði ekki sent úr landi, þ.e. að ráðherra beiti sér í því eftir fremsta megni að fækka fólki á þeim lista sem verður sent úr landi. Það er meðalhófið, það er grundvallarregla íslensks réttar og okkur ber að beita þeirri reglu í einu ríkasta samfélagi heims þegar við erum að senda fólk (Forseti hringir.) til lands sem er ekki með jafn góðar aðstæður og við (Forseti hringir.) á nokkurn hátt. Þetta er grundvallaratriði. (Forseti hringir.) Það sýnir vönduð vinnubrögð í stjórnsýslunni og það virðist ekki vera gert í þessu máli.



[18:21]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Við erum að biðja um mannúð. Við erum að biðja um það að fólk sem hefur flúið skelfilegar aðstæður verði ekki sent aftur í skelfilegar aðstæður. Við erum að tala um 270 manns. Við erum ekki að tala um tugi þúsunda, við erum ekki að tala um hundruð þúsunda, við erum ekki að tala um holskeflu af fólki. Við erum að tala um 270 konur, börn og karlmenn. Frú forseti. Ég skora á ráðherra þessarar ríkisstjórnar og þingmenn, sér í lagi þá þingmenn sem kenna sig við vinstri stefnu og mannúð, að sýna í alvöru mannúð gagnvart þessu fólks.



[18:22]
Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Mann verkjar hreinlega í hjartað að vera í þessum aðstæðum. Aldrei áður hefur staðið til að vísa jafn mörgum úr landi í einu. Það virðist eiga bara að sturta öllu þessu fólki úr landi til að losna við vandamálið, sem er ekki einu sinni vandamál. Þetta er fólk af holdi og blóði sem þráir að búa í friði og ró. Þarna eru innan um börn sem hafa fest hér rætur, ganga í íslenska skóla, eiga íslenska vini og við þykjumst ekki getað fundið það hjá okkur í þessu friðsæla, fallega, risastóra landi að eiga smá, örlítið, pínulítið pláss fyrir þetta fólk. Í gær sendi Félagsráðgjafafélag Íslands frá sér yfirlýsingu og ályktun þar sem það fordæmir það sem verið er að gera.

Í ályktun Félagsráðgjafafélags Íslands segir að Ísland þurfi að leggja sitt af mörkum til þróunarsamvinnu, mannúðar- og neyðaraðstoðar. Félagsráðgjafarnir segja að áform stjórnvalda nú séu í hrópandi mótsögn við þau markmið.



[18:24]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að vísa aftur í þetta viðtal við hæstv. dómsmálaráðherra í morgun þar sem fram komu a.m.k. 11 rangfærslur. Mesta rangfærslan var að fólk sem fær vernd í einu Evrópuríki geti farið hvert sem er í Evrópu og leitað sér að vinnu. Það er rétt að fólk getur farið hvert sem er sem ferðamaður í þrjá mánuði en hann getur ekki farið og leitað sér að vinnu. Það er bara rangt. Það er sagt að reglurnar séu skýrar um að fólk sem fengið hefur vernd í öðru landi skuli fara aftur þangað. Það er líka rangt, eins og fyrsta rangfærslan sem ég fór hérna yfir áðan. Það er heimild til að vísa fólki aftur til baka en ekki skylda. Lagaumhverfið mælir gegn því að þessi hópur fái að vera hérna. Það er rangt. Flestir fara af landinu af sjálfsdáðum þegar þeir hafa fengið höfnun. Það er rangt. Að það brjóti gegn jafnræði að stöðva endursendingar til eins ríkis en ekki annars. Það er rangt. Þetta er allt rangt, aftur og aftur. Ég velti fyrir mér: Hversu margar rangfærslur getur einn ráðherra farið með í einu stuttu viðtali?