152. löggjafarþing — 82. fundur
 31. maí 2022.
skýrsla Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands, ein umræða.
álit stjórnsk.- og eftirln., 514. mál. — Þskj. 736.

[14:25]
Frsm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil, fyrir hönd hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þakka fyrir það tækifæri að fá að ræða álit nefndarinnar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Skýrslan var send hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í febrúarmánuði á þessu ári og var þar til umfjöllunar. Kallaðir voru til gestir, fengnar frá þeim umsagnir og í raun kallaðir þeir til sem teljast mega haghafar í málinu, svo sem starfsfólk Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðuneytisins ásamt fleirum.

Meginniðurstöður nefndarinnar eru að taka undir þau tilmæli sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þessi skýrsla er engin sérstök skemmtilesning vegna þess að hún dregur mjög skýrt fram hvernig vegið er að viðbragðsgetu, æskilegu úthaldi og tækjakosti Landhelgisgæslu Íslands vegna ónógra fjárveitinga og áætlana sem standast ekki. Að mati Ríkisendurskoðunar hafa viðmið í fyrirliggjandi drögum að landhelgisgæsluáætlun um viðbragðsgetu, æskilegt úthald og tækjakost Gæslunnar ekki verið í samræmi við forsendur fjárlaga og fjármálaáætlana og því óraunhæf í því ljósi. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að það er mikill ábyrgðarhluti að samþykkja eða leggja til áætlanir sem eiga að tryggja viðbragðsgetu, úthald og tækjakost í líklega því verkefni sem við metum hvað mest sem þjóð, þ.e. þeirri þjónustu og öryggisvernd sem Landhelgisgæslan veitir okkur, en að þetta séu óraunhæfar áætlanir því að fjármögnun er ekki eins og hún þarf að vera. Ríkisendurskoðun bendir að sjálfsögðu á að hagræða megi í rekstri stofnunarinnar og tryggja þurfi sveigjanleika.

Í annan stað má nefna að gerð er athugasemd við það hvort Landhelgisgæslan eigi að gera þjónustusamning um varnartengd verkefni við utanríkisráðuneytið. Í því efni er gott að benda á að hér þarf ábyrgðarkeðjan að vera skýr, bæði í faglegum og fjárhagslegum skilningi. Einhverjir þingmenn muna kannski eftir því að hér var einu sinni til Varnarmálastofnun, hún var lögð niður árið 2010 en af einhverjum ástæðum hafa verkefnin sem þar voru ekki verið að fullu færð til dómsmálaráðuneytisins og við því þarf að bregðast því ábyrgðarkeðjan verður að vera algjörlega skýr þegar kemur að varnarverkefnum.

Ríkisendurskoðun telur einnig að bæta þurfi nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum. Aftur er vikið að óraunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum í skipakosti Gæslunnar og er það talið alvarlegur veikleiki.

Þá er einnig vikið að flugkosti Gæslunnar og notuð þau sömu orð að þar sé þörf á raunhæfum áætlunum um fjárfestingar og rekstur loftfara svo viðunandi björgunargeta sé tryggð.

Þá er vikið að því, og ég mun víkja að því aftur síðar í minni ræðu, að setja reglur um notkun ráðherra og annarra einstaklinga á loftförum, þyrlum og skipum Landhelgisgæslunnar og gerðar eru alvarlegar athugasemdir við notkun slíkra farartækja í einkaerindum.

Einnig er bent á að TF-SIF sé vannýtt til eftirlits og björgunar þar sem meiri hluti heildarflugstunda vélarinnar hefur verið í leigu erlendis. Ríkisendurskoðun telur að mikilvægt sé að TF-SIF sé fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks Gæslunnar sem sé að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland. Gerðar eru níu tillögur til úrbóta og fjallað var um þær allar í umfjöllun stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þessa ágætu skýrslu.

Ég vil næst víkja að því er kallað er landhelgisgæsluáætlun. Dómsmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum fyrirhugað að leggja fram opinberlega landhelgisgæsluáætlun þar sem skilgreint verði öryggis- og þjónustustig Gæslunnar og lagt mat á kostnað og fjárfestingarþörf. Engar slíkar áætlanir hafa þó verið fullunnar og síðasta útgáfa af slíkri áætlun er frá árinu 2018, hún er sem sagt fjögurra ára gömul og spyrja má hvað valdi því að ekkert hafi hreyfst í þessari mikilvægu áætlanagerð í fjögur ár.

Í skýrslunni og fyrir nefndinni kom fram að landhelgisgæsluáætlun hafi ekki virkað sem skyldi. Fremur sé um að ræða óskalista um það hvernig sinna mætti skyldum stofnunarinnar þar sem sett væri fram framtíðarsýn um æskilegt úthald og tækjakost sem ekki væri í nægilegum tengslum við fjárlög og fjármálaáætlun. Hins vegar væri að finna í henni hlutlægar skilgreiningar á öryggis- og þjónustustigi stofnunarinnar í samræmi við lögbundið hlutverk hennar og alþjóðlegar skuldbindingar. Mat á þeim aðföngum sem þarf til að ná þeim markmiðum að halda uppi viðunandi viðbragðsgetu sé byggt á faglegum greiningum.

Að mati nefndarinnar þurfa dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæsla Íslands að taka stefnumótun, markmiðasetningu og eftirfylgni fastari tökum. Nefndin tekur að sjálfsögðu undir það sjónarmið að mikil og góð greining hafi farið fram í tengslum við gerð landhelgisgæsluáætlunarinnar. Það þarf að vera samræmi í þessari vinnu og það þarf að vera samræmi á milli áætlana og fjárlaga og fjárveitinga.

Eins og kunnugt er hefur TF-SIF verið í verkefnum á vegum Frontex sem er landamæraeftirlit Evrópusambandsins og sér um ytri landamæri Schengen-landanna og eins og þingheimur veit er Ísland aðili að Schengen-samstarfinu. Ísland er skuldbundið til að taka þátt í sameiginlegum aðgerðum stofnunarinnar og ber skylda til að veita liðsinni við slíkar aðgerðir. Sé TF-SIF ekki nýtt í þetta verkefni ber íslenskum stjórnvöldum að veita aðstoð með öðrum hætti. Ráðuneytið hefur metið það svo að það sé gagnlegt að nýta TF-SIF í þessi verkefni. Með því fái áhöfn vélarinnar m.a. mikilvæga þjálfun í leit og björgun. Nefndin gerir ekki athugasemd við að TF-SIF sé nýtt í verkefni á vegum Frontex. Hins vegar telur nefndin að tryggja þurfi viðveru hennar hér á landi allt árið, svo eftirlit með landhelginni sé bætt. Við bendum einnig á að það sé ráðuneytisins að leita leiða til að auka viðveru vélarinnar hér við strendur og tryggja fullnægjandi öryggis- og þjónustustig á hafinu umhverfis Ísland.

Mig langar að lokum að víkja að umfjöllun Ríkisendurskoðunar um nýtingu loftfara í þágu æðstu stjórnenda ríkisins. Eins og kunnugt er var gerð athugasemd við það í ágúst 2020 að þáverandi dómsmálaráðherra hefði flogið með þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Reynisfjöru til Reykjavíkur. Það var sem sagt skutlað fram og til baka, frú forseti. Ríkisendurskoðun hefur kannað hversu oft loftför Gæslunnar hafa verið nýtt til að ferja æðstu stjórnendur ríkisins á árunum 2018–2020 og það voru alls tíu skipti sem þeir voru farþegar. Gerð er alvarleg athugasemd við það og nefndin tekur undir þá alvarlegu athugasemd við það að loftför Gæslunnar séu nýtt til persónulegra erinda fyrir ráðamenn þjóðarinnar. Það er einfaldlega ekki hægt að una við að þannig sé það gert. Það er talað um, svo vitnað sé beint til orða Ríkisendurskoðunar, að notkun skipa og loftfara Landhelgisgæslunnar í einkaerindum sé alvarlega athugunarverð og hvatt til þess að settar verði skýrar reglur um afnot æðstu stjórnenda af slíkum farkosti. Nefndin tekur undir þær athugasemdir og það er alveg ljóst að þrátt fyrir þá viðbáru fulltrúa Landhelgisgæslunnar að alltaf sé gott að fá flugtíma og alltaf sé gott að komast í loftið vegna þess að fólk þurfi að vera í þjálfun, þá verður það að viðurkennast að það er algerlega óviðunandi að Landhelgisgæslan, þetta öryggistæki, sé nýtt til þess að skutla ráðherrum þó að það sé á mikilvægan fund þegar það fer í bága við þann viðbragðsflýti og það öryggi sem við viljum veita borgurum og sjófarendum.



[14:35]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Landhelgisgæslan hefur gríðarlega mikilvægu hlutverki að gegna á Íslandi og í lögum nr. 52/2006 eru nokkrar skilgreiningar á starfssviði hennar. Í 3. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Starfssvæði Landhelgisgæslu Íslands er hafið umhverfis Ísland, þ.e. innsævið, landhelgin, efnahagslögsagan og landgrunnið, auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Landhelgisgæsla Íslands sinnir einnig verkefnum á landi í samstarfi við lögreglu og önnur yfirvöld.“

Þetta er gríðarlega viðamikið.

Í 4. gr. laganna eru verkefni Landhelgisgæslunnar nánar skilgreind og það er enginn smá listi. Þau eru eftirfarandi, með leyfi forseta:

„1. Öryggisgæsla á hafinu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands, samninga við önnur ríki og ákvæði laga. 2. Löggæsla á hafinu, þ.m.t. fiskveiðieftirlit og aðstoð við löggæslu á landi í samvinnu við ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra. 3. Leitar- og björgunarþjónusta við sjófarendur, skip og önnur farartæki á sjó. 4. Leitar- og björgunarþjónusta við loftför. 5. Leitar- og björgunarþjónusta á landi. 6. Aðkallandi sjúkraflutningar í samvinnu við aðra björgunaraðila. 7. Aðstoð við almannavarnir. 8. Aðstoð, þegar eðlilegar samgöngur bregðast, svo sem vegna hafíss, snjóalaga, ofviðra eða náttúruhamfara. 9. Eftirlit á hafinu samkvæmt lögum um siglingavernd og öðrum sambærilegum lögum. 10. Að tilkynna um, fjarlægja eða gera skaðlaus reköld, tundurdufl, sprengjur eða aðra hluti sem sjófarendum getur stafað hætta af auk sprengjueyðingar á landi. 11. Sjómælingar, sjókortagerð, útgáfa tilkynninga til sjófarenda, sjávarfallataflna og leiðsögubóka auk annarra rita sem tengjast siglingum. 12. Móttaka tilkynninga frá skipum samkvæmt lögum um útlendinga og eftirlit með lögsögumörkum á hafinu. Ráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd einstakra verkefna í reglugerð.“

Í 5. gr. laganna er svo að auki skilgreind samningsbundið þjónustuverkefni sem ég ætla ekki að lesa hér en sá listi er álíka langur og felur m.a. í sér sprengjueyðingu, tolleftirliti og aðstoð við læknisþjónustu auk mengunarvarna, svo nokkuð sé nefnt.

Það á við um Landhelgisgæsluna eins og svo margt annað í opinberum rekstri að markmiðin eru háleit og göfug en svo fylgir ekki fjármagn til að gera allt sem til er ætlast. Rekstur Landhelgisgæslunnar er í eðli sínu dýr. Allur búnaður og tæki eru dýr þannig að í hvert sinn sem þarf að endurnýja eitthvað kostar það mikil fjárútlát. Fram kom á fundum nefndarinnar að Landhelgisgæslan sé nokkuð vel búin tækjum en skorti fé til viðhalds. Landhelgisgæslan ræður yfir tveimur skipum, einni þyrlu og einni flugvél. Þetta sleppur en þó bara rétt svo. Það er t.d. bagalegt að það sé aldrei nema eitt varðskip úti í einu. Til að ráða bót á því þyrftu einfaldlega að vera tvær áhafnir á hvoru skipi. Einhvern veginn finnst manni að það ætti að vera tiltölulega auðvelt að ráða bót á því þegar jafn mikið er í húfi og raun ber vitni. Ein þyrla er ekki nóg en því hefur verið bjargað með leiguþyrlum sem gera að sjálfsögðu sama gagn en þó hefur sú staða komið upp að aðeins ein þyrla sé tiltæk og árið 2020 voru heilir sjö dagar þar sem engin þyrla var tiltæk. Slys gera ekki boð á undan sér og þar að auki geta fleiri en eitt slys þar sem þyrlu er þörf átt sér stað á sama tíma. Flugvélin TF-SIF er nær aldrei á landinu því að hún er leigð til verkefna á vegum landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu.

Í skýrslu sinni leggur Ríkisendurskoðun áherslu á að dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæslan leiti allra leiða til að auka viðveru og nýtingu TF-SIF við eftirlit með landhelginni. Flugvélin sé lykileining við eftirlit og löggæslu á hafinu og ljóst að ekki sé hægt að halda uppi viðunandi eftirliti þegar flugvélin er ekki til staðar.

Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar er fjallað um að viðmið sem sett eru fram í drögum að landhelgisgæsluáætlun um viðbragðsgetu, æskilegt, úthald og tækjakost séu ekki í samræmi við fjárlög og fjármálaáætlanir. Það er bara ekki ásættanlegt. Þar kemur einnig fram að ekki hafi verið lögð fram landhelgisáætlun þar sem skilgreind eru öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslu Íslands ásamt mati á kostnaði og fjárfestingarþörf síðan 2018. Það væri því nær að tala um óskalista um hvernig stofnunin gæti sinnt skyldum sínum fremur en raunhæfar áætlanir í samræmi við fjárlög og fjármálaáætlun.

Eitt af því sem Ríkisendurskoðun gagnrýndi í skýrslu sinni voru kaup Landhelgisgæslunnar á olíu í Færeyjum til að spara sér að greiða virðisaukaskatt. Þá fjármuni var þá hægt að nýta í annað. Í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar stendur, með leyfi forseta:

„Að mati nefndarinnar endurspeglar þessi staða“ — þ.e. að Landhelgisgæslan sjái sig tilneydda til að kaupa olíu í Færeyjum — „þá staðreynd að rekstur Landhelgisgæslunnar er yfirgripsmikill og flókinn. Tækjakostur stofnunarinnar er dýr og viðhald hans kostnaðarsamt. Takmarkað svigrúm sé því til að bregðast við óvæntum og kostnaðarsömum bilunum. Að mati nefndarinnar hefur þessi staða óneitanlega leitt til þess að Landhelgisgæslan hafi leitað allra leiða til að fjölga úthaldsdögum varðskipanna til að tryggja sem best öryggi á hafinu með öflugri leitar- og björgunarþjónustu, virku eftirliti og löggæslu. Það er hins vegar óheppilegt að stofnunin sé sett í slíkar aðstæður. Nefndin beinir því til ráðuneytisins, í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið, að leita leiða til að tryggja að kaup Landhelgisgæslunnar á olíu hér á landi hafi ekki neikvæð áhrif á úthaldsdaga varðskipanna.“

Að mati stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þurfa dómsmálaráðuneytið og Landhelgisgæsla Íslands að taka stefnumótun og markmiðasetningu Landhelgisgæslunnar ásamt eftirfylgni fastari tökum. Landhelgisgæslan er gríðarlega mikilvæg stofnun. Það skiptir máli fyrir öryggi þjóðarinnar að hún standi undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar. Það þarf að fara vel yfir rekstur hennar og hlutverk og byggja fjárframlög til hennar á raunhæfum grunni.



[14:42]
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni lagði Ríkisendurskoðun fram níu tillögur til úrbóta í skýrslunni sem við ræðum hér í dag. Sem dæmi má nefna tillögur um hagræðingarmöguleika í rekstri Landhelgisgæslunnar, skýrari og raunhæfari ákvarðanir um verkefni og tækjakost í samræmi við fjárheimildir og svo langtímafjárfestingaráætlun um tækjakost. Tækjakostur Landhelgisgæslunnar hefur verið byggður upp í samræmi við landhelgisgæsluáætlun en frá viðbrögðum Landhelgisgæslunnar er hægt að draga fram að skortur á fjárveitingum til reksturs kemur í veg fyrir að sett öryggis- og þjónustustig náist. Það verður að tryggja öruggan starfsgrundvöll Landhelgisgæslunnar til að gera henni kleift að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni.

Það er þó eitt sem ég vil draga fram í umræðunni sem ekki var fjallað um í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en kemur þó fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar en það voru kaup á varðskipinu Freyju á árinu 2021. Í mars 2021 tilkynnti þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, að ráðist yrði í kaup á varðskipi sem kæmi í stað varðskipsins Týs. Í apríl 2021 fór fram útboð. Starfshópur skipaður fulltrúum dómsmálaráðuneytis, Landhelgisgæslunnar og Ríkiskaupa vann að undirbúningi útboðsins þar sem leitað var eftir notuðu en öflugu skipi. Skipið sem var keypt er um 12 ára gamalt og er sambærilegt við Þór hvað varðar stærð og aðbúnað en býr yfir meiri dráttar- og björgunargetu. Ég leyfi mér að fullyrða að þáverandi dómsmálaráðherra hafi lyft grettistaki en frá því að hugmyndin varð til og þar til nýtt varðskip var bundið við bryggju á Siglufirði liðu átta mánuðir. Sjálf stóð ég á bryggjunni er Freyja kom í heimahöfn. Þá var alvöru norðlenskt blíðviðri; rok og lárétt rigning en samt sem áður var bros á öllum vörum þar á bæ, ekkert minna hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar en heimamönnum sem tóku glaðir á móti skipinu heim.

Viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið hefur stórlega verið aukin með Freyju á Siglufirði og Þór í Reykjavík. Landhelgisgæslan hefur nú tvö afar öflug varðskip sérbúin til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland. Til umræðu í skýrslunni er fjölgun í áhöfn til að fjölga úthaldsdögum á sjó til að efla viðbragð en viðbótarkostnaður þess að bæta heilli áhöfn við gæti numið um 320 millj. kr. á ári. Þetta þarf svo sannarlega að taka inn í myndina þegar skilgreint verður með óyggjandi hætti öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslunnar og viðbúnaðargetu hennar mörkuð skýr viðmið.

Nú er verið að vinna að framkvæmdaáætlun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða en stefnan, eins og við þekkjum, var unnin af þverpólitískum starfshópi og samþykkt á síðasta kjörtímabili. Vinnan við framkvæmdaáætlunina fer fram í sérstökum þemahópum en einn þeirra er leit og björgun, fjarskipti og björgunarklasi. Í fyrra kom einnig út skýrsla starfshóps um efnahagstækifæri á norðurslóðum þar sem fjallað er um tækifæri og áskoranir í öryggismálum.

Þó að ekki hafi verið sérstaklega fjallað um leit og björgun í áliti nefndarinnar eru verkefni Landhelgisgæslunnar tilgreind í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 52/2006 í 12 liðum. Eftirlit, öryggis- og löggæsla á hafinu er þar umfangsmest ásamt leit, björgun og sjúkraflutningum. Eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Í tímans rás hefur áhersla á getu stofnunarinnar til leitar- og björgunarstarfa ásamt sjúkraflutningum, bæði á sjó og landi, orðið ríkari. Eiginleg gæsla með landhelginni og viðvera skipa á fiskimiðum úti fyrir landinu er nú einungis einn þáttur í starfseminni.“

Skýrsla Ríkisendurskoðunar varpar einmitt ljósi á þetta breytta hlutverk sem telja má að verði áfram í stöðugri þróun í ljósi þróunar á öðrum utanaðkomandi þáttum. Mig langar því aðeins að koma inn á þetta lögbundna hlutverk Landhelgisgæslunnar við leit og björgun. Við hljótum að hafa skýrt markmið um að efla viðbragðsgetu okkar á norðurslóðum því samfara aukinni umferð um norðurslóðir og fjölgandi ferðum stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðausturströndum landsins eykst þörfin á því að hafa öryggisviðbúnað til reiðu á Íslandi. Illa gæti farið ef skemmtiferðaskip lenti í vandræðum innan íslenskrar lögsögu eða annars staðar á norðurslóðum því mannafli og tækjabúnaður er takmarkaður. Þetta hefur vissulega oft komið upp í umræðunni en auk okkar vaxandi þarfar innan íslenskrar lögsögu er aukin alþjóðleg þörf á betra viðbragði á norðurslóðum. Það eru mörg rök fyrir því að slíkur alþjóðlegu björgunarklasi yrði staðsettur á Norðurlandi þar sem norðurheimskautsbaugurinn liggur í gegnum Grímsey sem er nyrsti byggðakjarni Íslands, þar sem þekkingarnetið er byggt upp á Akureyri og miðstöð norðurslóða á Íslandi er þar einnig. Sjúkrahúsið á Akureyri er næsta sjúkrahús fyrir íbúa á austurströnd Grænlands og þjónustar nú þegar íbúa svæðisins. Og já, eins og ég kom inn á áðan er heimahöfn annars varðskips Landhelgisgæslunnar nú á Norðurlandi, á Siglufirði. Því er tími til kominn að umræða um björgunarklasa á Íslandi fari fram og að stjórnvöld finni verkefninu réttan farveg.

Skýrslan sem við ræðum hér í dag er umfangsmikil og margir punktar sem hægt er að draga fram og ræða og auðvitað eru það fjármálin sem varpa kannski skýrasta ljósinu á stöðuna en Landhelgisgæsla Íslands gegnir lykilhlutverki í aðgerðum í þágu almannavarna og björgunarstarfa og hana ber okkur að styðja og efla.



[14:49]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við ræðum hér nefndarálit meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Skýrslan byggir á beiðni frá fyrrverandi hv. þm. Smára McCarthy sem var samþykkt á Alþingi í desember 2020. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að hún hafi óskað eftir því að Landhelgisgæslan upplýsti hversu oft loftför stofnunarinnar væru notuð til að flytja ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðra aðila innan eða á vegum stjórnsýslunnar á árunum 2018–2020. Í svari stofnunarinnar kom fram að ráðamenn voru meðferðis í tíu flugverkefnum á þessum tíma. Fjallað er sérstaklega í skýrslunni um þyrluflug ráðherra frá því í ágúst 2020 þegar þáverandi dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, var farþegi í þyrlunni TF-EIR frá Reynisfjöru, þar sem hún var stödd í einkaerindum, til Reykjavíkur og svo til baka. Einungis ein þyrla var tiltæk hjá Landhelgisgæslunni þegar þáverandi dómsmálaráðherra þáði far með henni. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að ferðir ráðherra og annarra einstaklinga með þyrlum Landhelgisgæslunnar séu alvarlega athugunarverðar og sé ég mér ekki fært annað en að taka undir það. Tækin sem keypt eru eða leigð til löggæslu og björgunarstarfa til þess að gæta öryggis almennings eiga augljóslega ekki að vera misnotuð í þágu ráðamanna, einkaþágu þeirra allra síst.

Ég fæ hins vegar ekki séð að miklar breytingar hafa orðið á viðhorfum sitjandi ráðherra gagnvart því að nota þyrlur Landhelgisgæslunnar þar sem núverandi hæstv. dómsmálaráðherra hefur haldið áfram að nota þyrlurnar með hætti sem vafi leikur á um að sé í samræmi við gagnrýni Ríkisendurskoðunar. Lagði Ríkisendurskoðun til að í reglum sem settar yrðu um afnot æðstu stjórnar ríkisins af loftförum í eigu eða leigu stofnana ríkisins yrðu leyfileg afnot einkum látin taka til „flutninga vegna óvæntra atburða eða formlegra athafna á vegum æðstu stjórnar ríkisins en að öll einkaafnot verði óheimil“. Ríkisendurskoðun áréttaði hins vegar í skýrslu sinni að hún teldi varhugavert að túlka ákvæði laga um ábyrgð og yfirstjórn ráðherra með þeim hætti að hann hafi heimild til að nýta eða ráðstafa mannauði, eignum eða öðru lausafé stofnunarinnar í þágu embættisins frá degi til dags. Þannig að það eru ekki bara einkaerindi þarna undir heldur einnig tilfallandi erindi á vegum embættisins. Svo virðist sem engin hugarfarsbreyting hafi orðið hjá hæstv. ríkisstjórn þrátt fyrir ámæli Ríkisendurskoðunar og tel ég því tilefni til að halda þessari umræðu áfram og þessari gagnrýni og tek undir það.

Mig langar einnig að gera að umtalsefni mínu fjármögnun Landhelgisgæslunnar frá öðrum ríkisaðilum. Þaðan koma um 27% af tekjum Landhelgisgæslunnar. Hluti þeirra kemur með útleigu á flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, til landamæra- og strandgæslustofnunar Evrópu, einnig þekkt sem Frontex, sem Ísland er aðili að. Þótt ekki sé fjallað í löngu máli um eðli verkefna flugvélarinnar fyrir Frontex í skýrslunni kemur fram í tilkynningum Landhelgisgæslunnar að flugvélin hafi sinnt landamæraeftirliti á austanverðu Miðjarðarhafi. Í svörum Landhelgisgæslunni kemur fram að allt frá hruni hafi TF-SIF verið nýtt til landamæraeftirlits fyrir Frontex í allt að sex mánuði á ári. Það er helmingur ársins. Fram kemur enn fremur í skýrslunni að Landhelgisgæslan hafi allt frá árinu 2010 tekið þátt í fjölmörgum verkefnum á vegum Frontex og m.a. lagt til varðskip og eftirlitsflugvél og mörg þessara tækja hafa einmitt verið nýtt í landamæraeftirlit á Miðjarðarhafinu. Það kann að vera sumum ljóst en þó ekki öllum hvað felst í þessu landamæraeftirliti á Miðjarðarhafinu. Í því felst aðallega að flugvélin er að leita flóttafólki sem er að gera tilraunir til að komast til Evrópu. Á einum mánuði árið 2018 fann flugvélin 900 flóttamenn sem freistuðu þess að flýja til Evrópu. Það er sannarlega göfugt og mikilvægt verkefni að koma í veg fyrir að fólk farist á sjó, sem mikil hætta er á á þessum slóðum, en þar með er sagan ekki öll. Viðvera Landhelgisgæslunnar í Miðjarðarhafinu snýst nefnilega ekki bara um leit og björgun heldur um að aðstoða við stefnu og áætlanir Evrópusambandsríkja um að herða aðgerðir gegn fólkssmyglurum og auka samstarf við til að mynda við líbísk stjórnvöld þangað sem flóttafólk er sent í skelfilegar aðstæður. Þetta þýðir að bátar fullir af flóttafólki sem fundnir eru af þeim sem sinna þessu landamæraeftirliti eru dregnir aftur til Líbíu og ef þeir sökkva ekki á leiðinni til baka fer fólk þangað í skelfilegar aðstæður þar sem ofbeldi, pyndingar og frelsissvipting eru daglegt brauð, jafnvel þrælahald, nauðganir og dauði. Þetta eru engar ýkjur, því miður. Það veit hver maður að eina leiðin til að sporna við smygli á fólki um lífshættulega leiðir er sú að skapa löglegar og öruggar leiðir, líkt og okkur forréttindafólki heimsins býðst nokkurn veginn hvert sem okkur dettur í hug að fara og hvað sem kemur upp á og bjátar á. Ástæðan fyrir að fólk velur þessa leið, þiggur aðstoð óprúttinna glæpamanna og leggur líf sitt að veði, er sú að það hefur engu að tapa og löglegu leiðirnar eru engar. Þau eiga ekki annarra kosta völ.

Ég verð því að lýsa því yfir hversu ámælisvert ég tel að fjármögnun Landhelgisgæslunnar fari fram með þessum hætti. Evrópusambandið hefur valið þá leið að girða Miðjarðarhafið af og styður uppsetningu og útvistun á flóttamannavandanum með búðum í Líbíu þar sem fólk býr við lífshættulegar aðstæður. Þetta er það sem Landhelgisgæslan tekur þátt í með Frontex-samstarfinu. Þetta er sú aðferð sem við höfum verið að nota til að fjármagna landamæravörslu okkar hér heima og aðra starfsemi.

Þá tek ég undir þá gagnrýni sem margoft hefur komið fram hér, m.a. í máli hv. þingmanna sem komu upp á undan mér, þ.e. áhyggjur af því að tækjabúnaður og starfsfólk sem Ísland hefur fjárfest í til þess að tryggja öryggi fólks á sjó í kringum Ísland í samræmi við þá þörf sem metin hefur verið hér á landi sé fjarverandi stóran hluta árs.



[14:56]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Landhelgisgæslan á ríkan sess í huga landsmanna sem treysta henni best allra opinberra stofnana í landinu. Þetta traust hefur Landhelgisgæslan áunnið sér með góðum verkum og öguðum vinnubrögðum og það er ekkert endilega sjálfsagt að svona mikið traust ríki til stofnunarinnar enda vandasamt verk sem þetta embætti innir af hendi. Okkur ber skylda til þess og stjórnvöldum ber skylda til þess að hlúa að þessum öryggisþætti, þessari grunnþjónustu okkar og tryggja að Gæslan geti sinnt þeim störfum sem henni hafa verið falið. Það kemur fram í ágætri skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem við erum hér að fjalla um í dag, um Landhelgisgæsluna að það þurfi að gera raunhæfar áætlanir um fjárfestingar og rekstur loftfara Gæslunnar svo að viðunandi björgunargeta sé tryggð. Þetta er, frú forseti, að mínu mati algjört lykilatriði, að björgunargetan sé tryggð. Til þess erum við jú að þessu. Í samhengi held ég að við þurfum að velta fyrir okkur hvort það sé nóg að tryggja lágmarksviðbragð. En við þurfum líka að rannsaka gaumgæfilega hvort það sé nauðsynlegt að auka björgunargetuna enn frekar og hvort það sé rétt að fela Gæslunni formlegra og stærra hlutverk þegar kemur að þjónustu, sjúkraflutningum á lofti, legi og landi, af því að lágmark er ekki endilega nóg. Það verður að vera tryggt að svona öryggistæki virki með fullnægjandi hætti, alltaf þegar á reynir. Við sjáum það bara á síðustu árum að það hafa komið upp fjöldamörg tilvik þar sem svo hefur ekki verið og það er eiginlega alveg óboðlegt, af því að við treystum því að þegar við þurfum á því að halda þá sé þetta öryggistæki okkar viðbúið. Við sjáum ákall eftir sjúkraþyrlu á Suðurlandi þar sem nú á að setja af stað tilraunaverkefni og er það vel og það eru sterk rök fyrir því að á Suðurlandi sé ávallt staðsett þyrla fyrir sjúkraflutninga og björgun þegar á þarf að halda, ekki síst vegna gríðarlegrar umferðar ferðamanna sem þekkja kannski illa það umhverfi, þá náttúru sem þar er. En það er líka mikilvægt að skoða þann möguleika að setja upp starfsstöð fyrir þyrlu á Norður- og Austurlandi af því að þar, á þeim hluta landsins, er stór hluti íslenska flotans staddur. Eins gæti slík starfsstöð stytt viðbragðstíma til muna þegar kemur að sjúkraflutningum á landi. Við vitum öll að hver einasta mínúta getur skipt máli þegar slys ber að höndum. Þá skiptir líka máli að þyrlurnar séu ekki allar á sama stað. Um þetta hafa verið skrifaðar margar skýrslur en málið hefur aldrei náð upp úr einhverjum hjólförum. Við höfum aldrei náð að taka þessa umræðu alla leið og það er mikilvægt að við gerum það, að við ræðum hvað það kostar að gera ekki hlutina, að gera of lítið. Það er eitthvað sem ég vil alltaf ræða hér þegar við erum að tala um t.d. heilbrigðisþjónustuna. Hvað kostar það okkur að gera of lítið? Hvað kostar það okkur að gera of lítið í öryggis- og varnarmálum sem Landhelgisgæslan sinnir? Hvað kostar það í varanlegu heilsutjóni eða jafnvel mannslífum þegar öryggisnetið okkar brestur? Við sjáum að grunnheilbrigðisþjónusta úti á landi er verulega vanfjármögnuð og ekki síður vanmönnuð. Því er nauðsynlegt að fólk um allt land eigi þess kost að komast svo fljótt sem verða má undir nauðsynlegar læknishendur. Þess vegna verðum við að stytta viðbragðstíma Gæslunnar, til að hjálpa öllum landsmönnum. Það myndi auðvitað kalla á styrkingu flugflota Gæslunnar, aðallega þyrlna sem þyrftu að vera af stærð sem hentar, t.d. með hliðsjón af reynslu nágrannaþjóðanna. Við eigum alveg að þora að bera okkur saman við nágrannalönd okkar. Þó að það sé dýrara samkvæmt höfðatölu þá er það samt þannig að við þurfum að hafa lágmarksgrunnþjónustu. Það er reynsla og þekking fyrir hjá Landhelgisgæslunni og það er mjög gott og það eru alveg möguleikar líka til hagræðingar. En það er líka möguleiki að samnýta betur þá þjónustu sem er fyrir hendi.

Að mati Ríkisendurskoðunar hafa viðmið í fyrirliggjandi drögum að landhelgisgæsluáætlun um viðbragðsgetu, æskilegt úthald og tækjakost Landhelgisgæslunnar ekki verið í samræmi við forsendur fjárlaga og fjármálaáætlana. Því er hún að mati Ríkisendurskoðunar óraunhæf í því ljósi. Við sjáum þetta líka allt of víða hjá hinu opinbera. Það er ekki nóg að hafa bara glæsta áætlun, heilbrigðisáætlun, geðheilbrigðisáætlun, áætlun um þjónustu við eldra fólk o.s.frv. ef það er ekki vilji hjá stjórnvöldum til að tryggja þessa grunnþjónustueiningar okkar fái fjármagn til að geta sinnt sínum lögbundnu skyldum. Það geta ekki alltaf allir bara hlaupið hraðar og það er ekki hægt að ætlast til þess að vélar og tæki sem eru úr sér gengin virki. Þá skapast hætta. Dómsmálaráðuneytið hefur á undanförnum árum fyrirhugað að leggja fram opinberlega landhelgisgæsluáætlun þar sem skilgreint verði öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslunnar ásamt því að lagt verði mat á kostnað og fjárfestingarþörf. Það er engin slík áætlun núna sem má segja að sé miðuð við daginn í dag, þær hafa ekki verið fullunnar og síðasta útgáfa er frá 2018. Þarna þurfum við að gera betur og um það erum við ríkisendurskoðandi sammála.



[15:03]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Upphaflegt hlutverk Landhelgisgæslu Íslands var fyrst og fremst að tryggja yfirráð Íslands yfir fiskveiðiauðlindum þjóðarinnar og standa vörð um efnahagslögsöguna. Hlutverkið hefur hins vegar breyst í tímans rás og áherslan á björgunar- og leitarstörf ásamt sjúkraflutningum, bæði á sjó og landi, orðið ríkari. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er lögð áhersla á að stjórnendur Landhelgisgæslu Íslands leiti allra leiða til að hagræða í rekstri stofnunarinnar og skoða þurfi gaumgæfilega áhrif ýmissa tækniframfara og sjálfvirknimöguleika á mannaflaþörf við einstök störf. Horfa þurfi til þess hversu álagspunktar eru mismunandi og haga mannahaldi í samræmi við það. Sérstaklega þurfi að gæta að því að starfsemi stoðdeilda sé haldið í lágmarki þannig að mönnun skipa og loftfara sé hámörkuð. Þá telur Ríkisendurskoðun vera tækifæri til að einfalda rekstrarfyrirkomulag vaktstöðvar siglinga.

Fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kom fram að Landhelgisgæslan hafi hagkvæmni að leiðarljósi og leiti sífellt leiða til hagræðingar innan þeirra marka sem viðmið um viðbragðsgetu, lög og reglugerðir og kjarasamningar leyfa. Landhelgisgæslan hafi jafnframt verið leiðandi í að nýta nýjustu tækni í starfsemi sinni með tilheyrandi hagræðingu. Megi þar nefna fjareftirlit með efnahagslögsögunni, nýtingu snjallforrita og notkun ómannaðra loftfara. Landhelgisgæslan taki jafnframt þátt í þróun tækninýjunga og vorið 2021 hafi nýtt vaktakerfi verið innleitt í stjórnstöðvum sem hafi veitt svigrúm til að aðlaga mönnun enn frekar að álaginu hverju sinni. Þá ber að nefna að huga verður að mikilvægi starfsaldurslista flugmanna sem er mikilvægt öryggisatriði og jafnvel enn mikilvægara í tilfelli flugmanna Landhelgisgæslunnar sem starfa oft undir gríðarlegu álagi, standa í framlínu í björgunaraðgerðum þar sem mannslíf eru iðulega í húfi og fljúga loftförum við afar krefjandi aðstæður með veikt og slasað fólk. Það þarf að huga vel að þessu þegar við tölum um að hagræða.

Virðulegur forseti. Mér finnst mikilvægt þegar kemur að því að gera hagræðingarkröfur á stoðir og störf þeirra sem er falið að tryggja öryggi og björgun hér á landi að varlega sé stigið til jarðar. Að mínu mati er gjörsamlega galið að við séum með slíka kröfu þegar kemur að þessum málaflokki. Við þurfum að búa vel að öryggi okkar Íslendinga í sínu víðasta samhengi og við gerum það ekki alltaf með því að draga úr og sýna málaflokknum skilningsleysi.

Ljóst er að það þarf að bæta nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru flugvélarinnar TF-SIF á Íslandsmiðum. Skortur á raunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum í skipakosti Landhelgisgæslunnar reynist vera alvarlegur veikleiki í starfsemi Gæslunnar, eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þá segir að hvað varðar flugkost Landhelgisgæslunnar þurfi að gera raunhæfar áætlanir um fjárfestingar og rekstur loftfara svo viðunandi björgunargeta sé tryggð. Í skýrslunni er skýrt tekið fram að mikilvægt sé að TF-SIF sé fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks Landhelgisgæslunnar sem sé að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland.

Virðulegi forseti. Verkefni Landhelgisgæslunnar eru talin upp í 4. gr. laga nr. 52/2006. Meðal þeirra verkefna eru aðkallandi sjúkraflutningar og aðstoð við almannavarnir. Ég velti fyrir mér hvert hlutverk þyrlu Landhelgisgæslunnar er varðandi almenna sjúkraflutninga þar sem vegalengdir eru langar eða jafnvel ómögulegar. Í gildi er samningur milli Landhelgisgæslunnar og Sjúkratrygginga Íslands um sjúkraflutninga með þyrlum á flugsvæði sjúkraflugs á norður- og austursvæði landsins, auk Vestmannaeyja og Vestfjarða vegna erfiðra veðurskilyrða. Í þessu samhengi þurfum við einnig að huga að því að tryggja viðunandi lendingaraðstæður fyrir þyrlur víða um land og að aðeins 10% af sjúkraflutningum með þyrlum Landhelgisgæslunnar falla undir þennan samning. Á Suðurlandi nánast þrefaldast fólksfjöldi landshlutans yfir sumartímann og því þurfum við að vera vel í stakk búin til að bregðast við með réttum hætti og búa viðbragðsaðilum okkar þannig aðstæður og búnað að fumlaus vinnubrögð séu sjálfsögð. Í samfélagi okkar er uppi rík krafa um jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Vegna þess hve fá við erum og byggðin dreifð er þetta göfuga markmið langsótt. Hins vegar er heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga gott og það eru til leiðir til að jafna aðgengi landsmanna að þeirri sérhæfðu þjónustu sem ekki er raunhæft að halda úti í hverju héraði fyrir sig. Annað úrræði sem þekkist víða í vestrænum heimi er notkun á sjúkraþyrlum sem geta bæði stytt flutningstíma til muna ásamt því að koma viðbragðsaðilum fyrr til skjólstæðinga. Þyrlur sem sinna þessu hlutverki væru gríðarlega góð viðbót við kerfið sem við nú þegar höfum og það er jákvætt að segja frá því að starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra skilaði skýrslu 2018 um þetta og nú er kominn tími til að hrinda því í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Við treystum öll á Landhelgisgæsluna en Gæslan treystir líka á okkur. Við verðum að skapa betri starfsaðstæður til þess að öryggi okkar Íslendinga sé tryggt.



[15:09]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það þarf ekki að leita lengi á netinu eða fara í umfangsmiklar upprifjanir á fréttamiðlum til að finna frásagnir af atvikum þar sem starfsfólk og tækjakostur Landhelgisgæslunnar skipti sköpum þegar mannslíf voru í hættu. Ég held að það hljóti að gilda um okkur öll að við höfum lesið, séð og heyrt slíkar fréttir, séð jafnvel myndskeið af frækilegri björgun, hvort heldur er á landi eða sjó. Að sjálfsögðu er það líka þannig að lítil þjóð í harðbýlu landi þar sem veður og vindar hafa ótrúlega mikil áhrif á líf og heilsu er háð því að starfsemi Landhelgisgæslunnar sé eins og best verður á kosið. Þjóð sem í gegnum aldirnar hefur stundað sjómennsku og er enn í þeirri stöðu að sú atvinnugrein er burðarstoð í samfélaginu er þakklát í hvert skipti sem hægt er að reiða sig á tæki og tól Landhelgisgæslunnar. Við þurfum því í raun ekki að hafa mörg orð um mikilvægi Gæslunnar í íslensku samfélagi. Mikilvægið er óumdeilt og því brýnt að reksturinn sé í lagi og ekki síður að fjárveitingar til stofnunarinnar sé í samræmi við ætlað hlutverk hennar. Því miður vantar talsvert upp á að samhengi sé á milli mikilvægis stofnunarinnar og þeirra fjárveitinga sem eyrnamerktar eru henni. Það kemur skýrt fram í skýrslunni sem hér er til umfjöllunar.

Hlutverk Gæslunnar er stórt og mikið. Við getum nefnt þar löggæslu og eftirlit á hafi, leitar- og björgunarhlutverk, sjúkraflutninga, aðstoð við löggæslu á landinu og aðstoð við almannavarnir. Þetta er ekki tæmandi upptalning en segir mikla sögu um að líf og heilsa borgaranna er undir í fjölmörgum tilvikum.

En áður en lengra er haldið langar mig að nefna sérstaklega að brýnt er að fara rækilega ofan í saumana á hlutverki Landhelgisgæslunnar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar nú þegar gerbreytt heimsmynd blasir við okkur vegna árásar Rússa á Úkraínu. Sú breytta heimsmynd kallar á endurmat og skoðun á öllum póstum samfélagsins og það er vinna sem við megum ekki vanrækja, hvað þá stinga höfðinu í sandinn og vona að allt fari vel. Landhelgisgæslan sinnir nú þegar ýmsum verkefnum sem lúta að þessu og er það til fyrirmyndar að okkar framlag til NATO sé með þessum hætti. Við þurfum hins vegar að ræða sérstaklega hvort hlutverk okkar á þessu sviði eigi ekki að vera veigameira í ljósi þess að við erum herlaus þjóð í varnarbandalagi, hvers mikilvægi er margfalt meira í dag en það var fyrir fáeinum mánuðum. Okkar framlag í alþjóðlegu varnarsamstarfi í gegnum verkefni Landhelgisgæslunnar er síst of mikið og fjárframlög til stofnunarinnar þurfa að endurspegla það. Hér vil ég þó árétta það sem segir í nefndaráliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um að tekið sé undir þá tillögu Ríkisendurskoðunar að tekið verði til skoðunar „hvort gerð þjónustusamnings við jafn viðamikil verkefni sé farsæl leið að því marki að skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum skilningi sé tryggð“, svo ég vitni nú beint í álitið. Svo er full ástæða til að taka alvarlega þá ábendingu Ríkisendurskoðunar að misbrestir séu við ákvarðanatöku varðandi nýtingu fjármuna, starfsmannahald, viðhald og endurnýjun búnaðar. Það er kallað eftir skýrum viðmiðum um viðbragðs- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar, mannauðinn og tækjakostinn sem til þarf og langtímaáætlanir um fjárfestingar og mikilvægt að stjórnendur stofnunarinnar sem og dómsmálaráðuneytið taki þetta til sín.

Sömuleiðis hljótum við að lesa kaflann í skýrslunni af athygli þar sem vakin er athygli á því að frá árinu 2015 hafa tvö varðskip, Þór og Týr, verið til taks en varðskipið Ægir ekki haffært og að jafnaði sé hvort skipanna einungis á sjó hálft árið. Fram kemur að leitast eigi við að hámarka nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru TF-SIF á Íslandsmiðum og við hljótum að taka því mjög alvarlega þegar bent er á að nýta megi mun betur þau tæki sem Gæslan hefur þó yfir að ráða. Vissulega getur þar verið um að ræða talsverðan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð en við þurfum hins vegar ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess að þessir hlutir séu í lagi. Við erum jú væntanlega öll sammála um að fjárhagsleg vangeta Gæslunnar á ekki að leiða til þess að lífi og heilsu fólks sé hætta búin.

Í skýrslunni kemur fram að Landhelgisgæslan hafi undanfarin ár keypt olíu á varðskipin í Færeyjum en innkaupsverð olíu sé lægra þar en hér á landi þar sem ekki þurfa að greiða virðisaukaskatt af olíunni í Færeyjum. Ein af tillögum Ríkisendurskoðunar er að olíukaupum í Færeyjum verði hætt. Ég vil taka heils hugar undir þessa athugasemd Ríkisendurskoðunar sem undrast að þetta hafi verið látið viðgangast af dómsmálaráðuneytinu án þess að fram hafi komið fullnægjandi upplýsingar um þá fjármuni sem stofnunin taldi sig vera að spara við olíukaupin. Þetta er gagnrýnivert og brýnt að bætt verði úr og stofnunin ekki sett í þá stöðu að vera of skapandi í sparnaðaráformum sínum.

Að síðustu langar mig að gera að umtalsefni þann lið í skýrslunni sem fjallar um afnot æðstu stjórnenda ríkisins á þyrlum Gæslunnar. Rakið er sérstaklega atvik frá því í ágústmánuði 2020 þar sem þáverandi dómsmálaráðherra var flogið frá Reynisfjöru til Reykjavíkur. Ráðherrann var í einkaerindum úti á landi en fékk far í bæinn til að fara á blaðamannafund. Þetta er ekki í lagi, hreint ekki í lagi. Þótt það komi fram hjá Gæslunni að viðbragðsgeta hafi ekki verið skert í þessu tilviki er þetta engu að síður alvarlegt og reyndar mjög alvarlegt og í raun misnotkun ráðherra á aðstöðu sinni. Þetta er ekki eina tilvikið eins og fram kemur í skýrslunni. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur undir þessa gagnrýni og leggur áherslu á að settar séu reglur um þessa hluti. Ég vil taka það hér fram mjög skýrt að ég hef áhyggjur af því hversu auðvelt stjórnendur Gæslunnar áttu með að réttlæta þessa notkun á þyrlukostinum. Þetta snýst nefnilega ekki bara um hvort viðbragðsgeta hafi verið skert eða hvort þetta kallaði á aukin útgjöld eða ekki. Þetta snýst um þá ásýnd og það traust að almenningur hafi ekki ástæðu til að ætla að ráðamenn geti nýtt sér tækjakostinn til að fá skutl úr einkaferð í bæinn, hvað sem líður öllum heildarflugstundum eða öðru slíku. Ef almenningur fær ástæðu til að ætla að þessir hlutir séu ekki í lagi þá hrynur traustið og skyggir á það góða starf, það afbragðsstarf sem Gæslan innir af hendi.



[15:15]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við ræðum hér um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar liggur fyrir og ég ætla ekki að rekja það allt hér í minni ræðu enda liggur það skriflega fyrir og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur gert grein fyrir meginefni þess. En hlutverk Landhelgisgæslunnar er fjölbreytt og víðfeðmt í orðsins fyllstu merkingu, einir 1,9 milljónir ferkílómetrar af flatarmáli eða um 20 sinnum flatarmál Íslands. Innan þess svæðis stýrir stofnunin leit og björgun frá björgunarstjórnstöðinni í Skógarhlíð og eftir atvikum hefur hún beina aðkomu vegna neyðartilvika langt frá Íslandsströndum. Þá eru ótalin hin fjölmörgu verkefni sem lúta að eftirlits- og löggæsluhlutverki stofnunarinnar, til að mynda með fiskveiðum, bæði á grunnslóð og á hafi úti. Á vef stofnunarinnar segir að eftirlit með skipum nái m.a. yfir haffæri og öryggisbúnað skipa, réttindi stjórnenda til skipstjórnar, brot á lögum um fiskveiðar, fiskveiðistjórn og nytjastofna sjávar sem og mengunar í hafi. Eftirlit þetta er eftir atvikum samstarfsverkefni annarra eftirlitsstofnana og Landhelgisgæslunnar. Þessi upptalning er ekki tæmandi og á aðeins við um afmarkaðan hluta þeirra verkefna sem stofnunin sinnir. Það segir sína sögu um vöxt stofnunarinnar að siglingarsviðið, sá hluti Landhelgisgæslunnar sem hún er stofnuð í kringum, er núna minnst af kjarnasviðum stofnunarinnar.

Ég ætla ekki að gera alla hluta skýrslu Ríkisendurskoðunar að umtalsefni mínu hér í dag en tel engu að síður mikilvægt að halda umfangi stofnunarinnar til haga í ljósi mikilvægis þess að hún sé sem best í stakk búin til að sinna þessu meginhlutverki sínu sem lýtur að leit og björgun, löggæslu og eftirliti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar er því skýrt haldið til haga að eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sé vannýtt til eftirlits og björgunar en vélin hefur verið í útleigu hjá landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu, Frontex. Jafnframt segir í skýrslunni að 62% heildarflugstunda vélarinnar hafi verið vegna leigu erlendis. Þá er því einnig haldið á lofti að mikil útleiga vélarinnar standist ekki viðmið landhelgisgæsluáætlunar. Eins og kemur fram í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands hefur Ísland ákveðnar skuldbindingar gagnvart landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu í gegnum Schengen og hlutaðeigandi aðilum falið að ráðstafa búnaði Gæslunnar, þ.e. loftförum og skipum ásamt áhöfnum, til þess eftirlits. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið sem fram koma í nefndarálitinu um mikilvægi þess að tryggja bætt eftirlit við Íslandsstrendur með aukinni viðveru vélarinnar hér við land en bendi sömuleiðis á það sem fram kemur í skýrslunni að sá galli er á gjöf Njarðar að leigutekjur vegna TF-SIF hafa verið veigamesti hluti leigutekna stofnunarinnar. Þó að það sé ekki úrslitaatriði í rekstri hennar þá hamlar fjarvera vélarinnar Landhelgisgæslunni að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Í þessu samhengi þá tek ég undir með Ríkisendurskoðun sem bendir á að það verði að leggja hlutlægt mat á þjónustustig Landhelgisgæslunnar, m.a. með tilliti til viðbúnaðargetu, mannafla og tækjakosts.

Mig langar líka að taka undir það sem hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir talaði um í sinni ræðu og er kannski svona hliðargrein við það sem við erum að ræða hérna og heyrir kannski meira undir hæstv. utanríkisráðherra, en það er fyrirkomulagið á landamæraeftirliti Frontex. Það er gríðarlega mikilvægt að sinna leit og björgun á Miðjarðarhafinu en það skiptir auðvitað ekki síður máli að mannúðlega sé staðið að því hvernig flóttafólki sem er að fara þessa gríðarlegu hættulegu leið er sinnt. Þar tel ég að við sem þjóð meðal þjóða eigum að hafa rödd og við eigum að tala fyrir því að mannúð sé höfð að leiðarljósi. En það er kannski aðeins út fyrir efni þessarar skýrslu en þetta er hins vegar mikilvægur punktur sem tengist í rauninni inn á þetta vegna þess að þetta hefur með búnað Landhelgisgæslunnar og starfsmenn hennar að gera.

Það er endurtekið stef í skýrslunni að gera þurfi raunhæfar áætlanir um fjárfestingar, viðhald tækja og rekstur. Í þessu tilliti er bent á vankanta við ráðstöfun fjármagns og nýtingu þess vegna einstakra verkefna, til að mynda rekstur varðskipsins Ægis sem hefur ekki verið haffært um árabil. Jafnframt er bent á ýmsa möguleika þegar lýtur að verkefnum sem ættu frekar heima annars staðar, til að mynda sjómælingar Íslands. Þá er bent á að umtalsverður hluti tekna Landhelgisgæslunnar sé vegna þjónustusamninga.

Ég vil nefna það sérstaklega að í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er sérstaklega fjallað um orkuskipti sem annars var ekki hluti af úttekt Ríkisendurskoðunar. Ég fagna þeim sjónarmiðum sem þar koma fram og tel eðlilegt að Landhelgisgæslan, sem auk hins mikla fjölda verkefna sinnir eftirliti með mengun í hafi ásamt hlutaðeigandi stofnunum, verði leiðandi í orkuskiptum í skipaflota Íslands verði því komið við og að markmið þar að lútandi verði skjalfest og skráð í stefnumótun stofnunarinnar.

Þá tek ég undir þau sjónarmið að Landhelgisgæslan láti af siglingum til Færeyja til kaupa á olíu. Það er í mínum huga tvíþætt, annars vegar til að einfalda og auðvelda eftirlit með hafinu nær okkur og hins vegar vegna þess sem kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem ein af tillögunum er að olíukaupunum í Færeyjum verði einfaldlega hætt. Ríkisendurskoðun bendir á að hún fallist ekki á að haldbær rök séu fyrir sjónarmiðum um hagkvæman ríkisrekstur með þessum kaupum og að virðisaukaskattur sem Landhelgisgæslan vísar til að þurfi ekki að greiða fyrir í Færeyjum renni, ef eldsneytið er keypt á Íslandi, allur til ríkissjóðs. Mér finnst þetta vera atriði sem skiptir máli og vera eitt af þeim atriðum sem eigi að taka til skoðunar því að það skiptir svo sannarlega máli að stofnanir ríkisins standi skil á sköttum og skyldum og finni ekki einhverjar hjáleiðir fram hjá þeim frekar en önnur fyrirtæki.

Mig langar aðeins að gera varnarmálakaflann að umtalsefni. Ég get alveg tekið undir að það skiptir máli að þar sé skýr ábyrgðarkeðja í faglegum og fjárhagslegum viðmiðum og verkefnum. En ég vil gjalda varhuga við því að það sé verið að blanda saman hernaðarlegum og borgaralegum verkefnum en slíkrar tilhneigingar hefur mátt sjá stað í auknum mæli á undanförnum áratugum, einkum að frumkvæði herstjórnenda. Það sem af þessu leiðir er m.a. útgjöld til hernaðarmála verða undir yfirskini almannavarna. Mér finnst þetta vera atriði sem mikilvægt er að hafa í huga auk þess sem ýmsar borgaralegar stofnanir eru almennt ekki skotmörk ef til stríðsátaka kæmi, en það eru hernaðarverkefni og aðgerðir af hernaðarlegum toga. Þetta skiptir hreinlega máli fyrir öryggi Íslands.

Almennt vil ég segja það að skýrsla Ríkisendurskoðunar er gríðarlega gagnleg. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur vandað vinnu sína um skýrsluna og tekur undir þær ábendingar sem þar koma fram. Ég held að þessi skýrsla verði okkar samfélagi til góðs og leiði til eflingar Landhelgisgæslunnar ef við tökum mark á henni og ég tel reyndar ekkert í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað í dag benda til annars en að svo verði. Ég þakka fyrir þessa skýrslu og vona að umræðan í dag verði okkur öllum til gagns því að Landhelgisgæsla Íslands skiptir svo sannarlega máli í íslensku samfélagi.



[15:29]
Sigurður Páll Jónsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Við ræðum hérna álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands og það hefur verið fróðlegt að hlusta á umræðuna og eins að lesa þetta álit. Ég hjó eftir því strax þegar framsögumaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mælti fyrir þessu máli að hún sagði að skýrslan hefði ekki verið nein skemmtilesning. Það kom fram að fjármögnuninni væri ábótavant. Það er akkúrat það sem einhvern veginn er gegnumsneitt við lestur þessa álits stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrsluna, að það skortir fjármagn og þar af leiðandi er skýrslan þannig úr garði gerð að það er verið að sauma að hlutum. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, og það kom meira að segja fram í ræðu áðan, að Landhelgisgæslunni skuli vera tryggð hæfni og geta til að sinna lögbundnu verkefnum sínum og þá þarf fjármögnun til þeirra athafna að vera myndarleg eða hún þarf að duga. Það er bara alls ekki það sem maður fær út þegar maður les niðurstöðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Ég er mjög stoltur af sögu Landhelgisgæslu Íslands. Ég er mjög stoltur af því hvernig við Íslendingar stóðum saman í því að færa út landhelgi okkar á sínum tíma í nokkrum áföngum, 1948 er hún færð út fyrst í þrjár og svo fjórar mílur og það eru sett lög um þau mál hér á Alþingi og síðan er hún færð út í 12 mílur 1958 eða um það leyti sem sá sem hér stendur er að koma í heiminn. Síðan í 50 mílur og svo 200 mílur 1973–1976, einhvers staðar á því bilinu. Maður fylgdist mjög stoltur af því hvað við vörðumst keikir, Íslendingar, gegn Bretum aðallega og Þjóðverjum, við að færa út þessa landhelgi. Mér finnst alveg nauðsynlegt að halda þessu til haga og hvað tímarnir hafa breyst mikið síðan þegar við erum að ræða þessi mál og hvað margt hefur breyst líka í því hver krafan er. Hún er ekki bara í dag að verja landhelgina, hún er miklu meira en það. Það hefur komið skýrt fram í ræðum hér á undan.

Skipakostur Landhelgisgæslunnar hefur lagast mikið núna á örfáum árum með komu varðskipsins Þórs 2011 og varðskipið Freyja kom bara í fyrra, 2021. Þetta eru skip sem geta sinnt björgunarverkefnum og dregið stór skip sem eru í sjávarháska eða biluð úti í hafi, sem var varla hægt áður vegna þess að skipakosturinn var það lélegur. Við vorum með skip sem voru í landhelgisstríðunum um 50 mílurnar og 200 mílurnar og eru úr sér gengin fyrir löngu og hefði átt að vera fyrir löngu búið að skoða þau mál. Í mínum huga er líka eitt sem breytist þegar bandaríski herinn fer frá Íslandi 2006, þá verður svolítið gap í björgunarmálum vegna þess að það kom oft fyrir að bandaríski herinn hjálpaði til við björgun. Ég man eftir nokkrum tilfellum þar sem það skipti máli að það var hægt að fá þá til að hjálpa því þeir voru náttúrlega með mjög góð tæki og þjálfaðan mannskap. Eftir 2006 og þangað til 2011, þegar varðskipið Þór kemur, þá vorum við ansi blönk í þessum málum. Þannig að ég er frekar bjartsýnn á að þetta sé að komast í betri farveg en það þarf að tryggja það fjármagn sem þarf til að sinna þessum málum. Það sem tafði líka fyrir því, í mínum huga, að brugðist var við þessum málum var í raun og veru það gleðilega efni að hér voru sjóslys fá og lítið um mannskaða frá árunum, við getum sagt um 2000, ég er ekki með það alveg í hausnum. Núna hafa komið þau ár þar sem enginn hefur farist á sjó og það er mjög gleðilegt. En á móti megum við ekki vera kærulaus í því að hafa viðbragðshlutina í lagi eins og Landhelgisgæslan þarf að vera. En fiskiskip hafa tekið miklum framförum, og náttúrlega öll skip, og öryggisbúnaður hefur tekið miklum framförum. Það er skylda í dag að allir sem eru skráðir á skip fari í gegnum öryggisnámskeið, það hefur sýnt sig að það er mikið öryggisatriði, og þar fram eftir götunum. Þetta hefur orðið til þess til allrar guðs blessunar að lítið hefur verið um slys. En eins og ég segi, það má ekki koma niður á því að við séum ekki með tæki til þess að geta brugðist við ef eitthvað alvarlegt skeður. Hér hefur ýmislegt verið reifað eins og kaup á olíu í Færeyjum sem hlýtur að vera eðlilega gert af viðkomandi aðilum til að drýgja þann takmarkaða pening sem þeir hafa til rekstrar Landhelgisgæslunnar. Ég gef mér að það sé út af því sem þeir hafa keypt olíu í Færeyjum. Það er ekkert bara af því að þá langar til að fara til Færeyja og borða skerpukjöt. Ég á ekki von á því. Þannig að það eru skýringar á öllu svona.

TF-SIF hefur verið í leigu erlendis og það er sagt að hún sé vannýtt. Það er náttúrlega vegna þess, gef ég mér líka, að það kostar peninga að reka hana og hún hefur verið leigð til annarra verkefna til þess í raun og veru að dekka reksturinn. En að því sögðu þá tek ég alveg hjartanlega undir það að við eigum að taka þátt í erlendri aðstoð og erlendri björgunarstarfsemi eins og við getum ef þannig ber undir. Það er bara sjálfsagt mál og ekkert athugavert við það.

Það sem skín í gegn við að lesa þennan texta frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er fjárskortur. Það er nú svo algengt þegar maður er starfandi á Alþingi að alltaf komum við að sama hlutnum þegar við erum að ræða um að gera hlutina, að það þarf peninga. Við alþingismenn eigum að spara fyrir ríkið en líka að deila út peningum til þeirra starfa sem nauðsynleg eru og ég myndi segja að Landhelgisgæsla Íslands ætti að vera það vel fjármögnuð að við gætum verið mjög stolt af þeirri starfsemi sem þar fer fram. Það var virkilega gaman að vera vitni að því að sjá þessi skip koma eins og Þór og síðan Freyju, þessi stóru og öflugu skip sem eru mjög kröftug og vel tækjum búin til þess að sinna sínum verkefnum. Það hafa verið svo miklar framfarir í þessum málum síðustu örfáu árin, ég hef nú verið til sjós í 40 ár, að það er alveg ótrúlegt að verða vitni að því og mjög gleðilegt þannig að ég trúi því að það sé bjart fram undan hjá Landhelgisgæslunni eins og hjá okkur Íslendingum.



[15:39]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mér er heiður að taka til máls í þessari umræðu um Landhelgisgæslu Íslands og ég tel að þetta sé ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Það er svolítið áhugavert að þegar maður horfir til virðingar Landhelgisgæslunnar að þá virðist orðstír hennar vera meiri erlendis en í íslensku samfélagi. Ég veit að litið er til Landhelgisgæslu Íslands með mikilli virðingu erlendis og þá í ljósi sögunnar að sjálfsögðu. Við erum herlaus þjóð og það að hafa öfluga landhelgisgæslu og geta varið landhelgina, efnahagslögsöguna, eins og hún hefur gert í þorskastríðunum, og barist fyrir stækkun hennar, var mjög mikilvægur hluti í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Þessi skýrsla Ríkisendurskoðunar er að mörgu leyti mjög athyglisverð og gott innlegg í umræðu um Landhelgisgæsluna. Hún fer ansi víða. Mig langar að drepa á nokkrum hlutum, t.d. því sem segir um skort á langtímaáætlunum, raunsæjum langtímaáætlunum. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að rekstur Landhelgisgæslunnar til lengri tíma sé í föstum skorðum. Núna er komið nýtt varðskip. Þór kom fyrir nokkrum árum og svo kom í fyrra, minnir mig, varðskipið Freyja, sem er staðsett á Siglufirði. Það er mjög vel að hafa það staðsett á Norðurlandi og búið að efla tækjakostinn með þessum tveimur skipum. Ég velti því upp hvort ekki mætti kaupa þriðja skipið til að hafa þá við austurströnd landsins, gera það kannski út frá Neskaupstað. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum eftirlit með þessu gríðarlega mikla hafsvæði sem 200 mílurnar í kringum landið í Norður-Atlantshafi eru og það verður einungis gert með öflugri landhelgisgæslu.

Það eru þarna atriði sem mér finnst athugaverð. Það er t.d. kafli um varnarmálin og við erum herlaus þjóð í Atlantshafsbandalaginu. Við erum eina herlausa þjóðin í Atlantshafsbandalaginu og ég get ekki skilið þann kafla öðruvísi í nefndarálitinu — það kemur reyndar ekki fram að vægi — það segir, með leyfi forseta:

„Í skýrslunni er fjallað um vægi varnarmálasviðs í heildarrekstri Landhelgisgæslunnar og aukin umsvif varnartengdra verkefna síðustu ár.“

Svo kemur fram að Landhelgisgæslan sinni þessum verkefnum í umboði utanríkisráðuneytisins með þjónustusamningi. Ég skil þennan kafla þannig að þessi varnartengdu verkefni séu raunverulega eingöngu verkefnin á Keflavíkurflugvelli, þ.e. að þegar loftrýmiseftirlitið kemur hingað þá sé það vegna umsjónar Landhelgisgæslunnar á því verkefni, annað sé það ekki, annað er ekki varnartengd verkefni. Ég lít ekki svo á varðskipin séu að sinna þeim varnartengdu verkefnum.

Það er annað sem vekur athygli mína og það er varðandi olíukaup í Færeyjum. Ég geri athugasemd við ummæli sem eru í skýrslunni. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur athugunarvert að Landhelgisgæslan geti ekki veitt betri upplýsingar um þá fjármuni sem stofnunin telur sig spara við olíukaup í Færeyjum.“

Svo er haldið áfram og segir, með leyfi forseta:

„Það er einnig umhugsunarvert að yfirstjórn ráðuneytis skuli hafa látið þessa háttsemi óátalda …“

Ég tel að Landhelgisgæslan, þeir sem stjórna útgerð skipanna, hafi einfaldlega verið, með því að vera að sigla til Færeyja, eins og kemur fram í skýrslunni, að drýgja þær fjárveitingar og auka úthald á varðskipunum eins og kostur er. Það var tilgangurinn með því og ég efast ekki um að þeir sem stjórna útgerð skipanna hjá Landhelgisgæslunni hafi verið að gera það með réttmætum hætti. Það sýnir að það er gríðarleg fjárþörf hjá þeim til að halda úti skipunum þannig að það þarf bara að auka fjármagn svo þeir fari þá ekki til Færeyja að kaupa olíu. Mér skilst að það sé reyndar hætt.

Annað sem vekur athygli mína er að rætt er um það í nefndarálitinu að til greina komi að hætta með sjómælingar, að þeim verði útvistað. Það tel ég alls ekki vera rétt. Ég tel að það sé mikil sérþekking innan Landhelgisgæslunnar, eins og kemur fram í frumvarpi um lög um Landhelgisgæsluna, sem er gríðarlega mikilvæg og sjómælingar eru í eðli sínu eitt af grundvallarstörfum Landhelgisgæslunnar. Ég get bara vitnað til karls föður míns sem var sjóliðsforingi og vann hjá Gæslunni á sínum tíma og sjómælingar eru meðal áhugaverðustu verkefna sem innt eru af hendi hjá Landhelgisgæslunni og af starfsmönnum hennar. Þetta er mjög sérhæft. Það er ekki hægt að fara í nám hérna hvað sjómælingar varðar og ég tel mjög mikilvægt að þær verði áfram innan Gæslunnar. Það er reyndar minnst á það í álitinu, þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Fyrir nefndinni voru reifuð þau sjónarmið að í ljósi mikilla samlegðaráhrifa með rekstri sjómælinga og öðrum verkefnum Landhelgisgæslunnar kunni að vera farsælla að útvista ekki þessum verkefnum.“

Það er alveg klárt í mínum huga að þessi verkefni eigi að vera inni hjá Landhelgisgæslunni, ekki neins staðar annars staðar og ekki að útvista þeim, bæði vegna samlegðaráhrifanna sem koma fram í textanum og líka vegna mikilvægis verkefnanna. Það að landgrunnið verði rannsakað af Gæslunni og Gæslan sjái um kortagerð — og það kemur fram í frumvarpi um Landhelgisgæsluna að Landhelgisgæslan hafi gert samning við bresku sjómælingarnar sem hafi verið til mikilla bóta fyrir sjómælingar.

Annað sem ég tel mjög mikilvægt hér eru öryggismál sjómanna og hlutverk Landhelgisgæslunnar hvað þau varðar. Ræðumaður hér áðan minntist á öryggismálin og sagði að sjóslysum hefði stórlega fækkað og það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Það er m.a. vegna mikillar áherslu á öryggismál sjómanna. (Forseti hringir.) Við erum t.d. með skólaskip sem tekur á þessum málum og lögð hefur verið áhersla á það og þyrlukosturinn er gríðarlega mikilvægur hvað þetta varðar líka. (Forseti hringir.) Annað sem skiptir miklu máli er að flugvélin TF-SIF verði til notkunar á Íslandi og í íslenskri efnahagslögsögu (Forseti hringir.) en ekki til leigu til Evrópusambandsins hvað varðar landamæragæslu.

(Forseti (LínS): Forseti vekur athygli hv. þingmanns á því að hann nýtti allan ræðutíma flokks síns og fleiri komast því ekki á mælendaskrá.)



[15:47]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við ræðum hér skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Þetta er áhugaverð skýrsla og mikilvæg og ber að þakka fyrir hana og umræðuna hér í dag um þessi mikilvægu mál sem tengjast Gæslunni.

Mig langar að hefja mál mitt á að ræða aðeins um leitar- og björgunarþjónustu í Norður-Atlantshafinu og innan efnahagslögsögu Íslands til framtíðar. Það hlýtur að vera samfélagslegt markmið að tryggja leitar- og björgunarþjónustu með þyrlum innan efnahagslögsögu Íslands og það er ákveðin skilgreining á bak við það, sem ég fer í á eftir þetta. Grunnatriði þessara skilgreiningar er að skilgreina kröfur sem gerðar eru til þeirra þyrlna sem eru í rekstri Landhelgisgæslunnar og þá snýst það einna helst um björgunargetu þyrlna Landhelgisgæslunnar á sjó. Þar er tekið mið af lögum um Landhelgisgæsluna sem skilgreina starfssvæði Landhelgisgæslunnar sem hafið umhverfis Ísland sem afmarkast af efnahagslögsögu landsins og landgrunninu auk úthafsins samkvæmt reglum þjóðaréttar. Til að setja hlutina í eitthvert stærðarsamhengi er Ísland rétt rúmir 100.000 km² og stærð efnahagslögsögunnar er rétt tæplega 800.000 km² eða átta sinnum stærri en landið. Til að sinna þessu hafsvæði sem er innan efnahagslögsögunnar er lagt upp með að þyrlur Gæslunnar hafi drægi til að geta flogið um 235 sjómílur frá strönd, sem eru ystu mörk efnahagslögsögunnar, og að þær geti tekið tíu manns um borð og náð til baka inn á eldsneytisstað, sem er þá almennt að komast aftur í land. Með því móti er hægt að sinna leit og björgun með þyrlu innan allrar efnahagslögsögunnar, ef menn koma til móts við þessar vegalengdir. Þar að auki fer Landhelgisgæslan með yfirstjórn leitar og björgunar á skilgreindu leitar- og björgunarsvæði Íslands sem nær yfir 1,9 milljónir km² og einnig sinna björgunarþyrlur Gæslunnar leit, björgun og sjúkraflutningum á landi. Það er kannski sá þáttur sem við verðum mest vör við í daglegum rekstri Gæslunnar. Það er orðið frekar sjaldgæft að farið sé langt út á haf og sóttir einstaklingar í sökkvandi skip en auðvitað eru oft farnar langar leiðir að sækja sjúklinga um borð, hvort sem þeir eru í skemmtiferðaskipum, togurum eða uppsjávarskipum og öðrum skipum.

Rétt er að geta þess um björgunargetu hér á landi, í kringum landið, að þyrlu- og björgunarsveit flughers Bandaríkjanna, sem var staðsett í Keflavík, yfirgaf landið 2006 og þá veiktist töluvert þessi geta hér í landinu. Síðan þá höfum við reynt að byggja upp þessa getu sem er kannski ekki enn komin á sama stað og hún var þegar herinn var í Keflavík. Þar voru fimm öflugar þyrlur til staðar og því erum við að leita allra leiða til að efla getu og styrk þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar sem allra best til að fylla upp í það skarð sem þyrlu- og björgunarsveit varnarliðsins skildi eftir sig á sínum tíma.

Síðan langar mig að vekja athygli á því að það hefur lengi verið í umræðu að þjónusta þyrludeildar Landhelgisgæslunnar sé mun veikari á austurhluta landsins. Það hefur verið umræða um að styrkja þjónustu Landhelgisgæslunnar á því svæði á undanförnum árum, bæði á austurhluta landsins og á hafsvæðinu norðan og austan við landið. Í þó nokkurn tíma hefur verið unnið að hugmyndum um að Landhelgisgæslan setti upp aðra starfsstöð á austurhluta landsins með sérstakri áherslu á þyrlurekstur Gæslunnar. Sá sem hér stendur hefur skrifað töluvert um það á undanförnum árum. Gæslan er að sinna um 15% af heildarsjúkraflugi í landinu en afar lítið af því flugi fer fram á austurhluta landsins. Það eru fjögur tilvik af 150 að meðaltali á ári á undanförnum árum, þannig að það er mjög lítill hluti sem er á austurhluta landsins. Þetta er vegna fjarlægða og fjalllendis og slíkra þátta. Það er bara langt að fara frá Reykjavík til að sinna leit og björgun og sækja sjúklinga á austurhluta landsins. Þar með hefur Mýflug sinnt um 85% af sjúkrafluginu með sínum tveimur flugvélum. Þar sem fjarlægðirnar eru miklar og aðstæður með þessum hætti til að sinna sjúkraflutningum á austurhluta landsins þá hef ég lagt fram tillögur um að það verði komið upp aðstöðu á Akureyri og þar yrði staðsett þyrla til að sinna því og hafsvæðinu norðan og austan við landið.

Það er ekki langt síðan sjöttu þyrluáhöfninni var bætt við hjá Landhelgisgæslunni, það eru fá ár síðan, og nú er svo komið að um tvo þriðju hluta ársins eru tvær áhafnir á vakt til að sinna flugi. Með því að bæta við sjöundu þyrluáhöfninni, einni í viðbót, færi það upp í um 95% af tímanum þar sem væru tvær áhafnir til reiðu, sem væri náttúrlega mikilvægt og nauðsynlegt skref. Kostnaður við það skref yrði væntanlega um 250–300 millj. kr.

Eins og ég hef bent á áður í pontu Alþingis eru til staðar á Akureyri læknar sem sinna núverandi sjúkraflugi með Mýflugi og þar eru líka flugvirkjar. Svo búa líka flugstjórar í Eyjafirði sem starfa hjá Landhelgisgæslunni, þannig að það er mikill mannauður til staðar fyrir slíkan rekstur nú þegar. Eins og hefur komið fram í þessari umræðu er ekki skynsamlegt að hafa öll eggin í sömu körfunni þegar kemur að eldsvoða, vatnstjónum og öðrum mögulegum skakkaföllum. Það er líka óskynsamlegt að hafa allar þyrlurnar á sama veðurfarssvæðinu. Því tel ég skynsamlegt að hluti af þyrlukosti Gæslunnar væri staðsettur úti á landi. Í þessu samhengi tel ég að það yrði auðsótt mál af hálfu Akureyrarbæjar að koma því við ef sótt sótt um flugskýli fyrir slíka starfsemi. Það hefur verið meira vandamál sunnan heiða, á Reykjavíkurflugvelli, að byggja upp húsnæðiskostnað en það virðist vera að lagast núna síðustu misserin og er hafin bygging við flugskýli.

Síðan kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að stofnunin telur að bæta þurfi nýtingu og afköst varðskipa og auka viðveru TF-SIF á Íslandsmiðum. Flugvélin er afar vel búin og hefur verið eftirsótt til verkefna fyrir landamærastofnun Evrópu, Frontex. Ríkisendurskoðun bendir á að TF-SIF sé vannýtt til eftirlits og björgunar þar sem meiri hluta af heildaflugsstundum vélarinnar hefur hún verið í leigu erlendis. Að mati Ríkisendurskoðunar er mikilvægt að flugvél Gæslunnar, TF-SIF, sé fyrst og fremst notuð til eftirlits og annarra verkefna hérlendis í ljósi meginhlutverks Landhelgisgæslunnar sem sé að sinna öryggisgæslu, björgun og löggæslu á hafinu við Ísland.

Það má kannski benda á í framhjáhlaupi að TF-SIF er ákaflega vel búin vél og þó að hún sé um tíu ára gömul í dag er hún ákaflega vel búin fyrir minni gerð flugvéla til að sinna því verkefni sem hún gerir fyrir landamærastofnun Evrópu. Hún er hagkvæm í rekstri og hefur því verið mjög eftirsótt af Frontex, landamærastofnun Evrópu, til að sinna verkefnum á Miðjarðarhafi. En auðvitað viljum við sjá meira af henni hérna heima til að tryggja öryggi og leit og björgun á okkar svæði. Mikilvægt er að að því sé stefnt.

Það kemur líka fram hjá Ríkisendurskoðun að skortur á raunsærri langtímaáætlanagerð þegar kemur að rekstri og fjárfestingum á skipakosti Landhelgisgæslunnar hafi reynst alvarlegur veikleiki. Þetta var náttúrlega ævintýralega stuttur tími í fyrra þegar Freyja kom til Siglufjarðar, það var bara átta mánuðum frá kaupunum, ákaflega vel heppnuð kaup og skemmtilegt að taka á móti skipinu í nóvember, þótt maður stæði þarna í ömurlegu veðri var þetta samt skemmtilegt. Það var kannski verið að kaupa skipið fyrir 20% af nývirði. Þetta voru ákaflega góð kaup.

Það sem vantar almennt inn í þetta eru tækninýjungar varðandi leit og björgun og eftirlit í Atlantshafinu. Við þurfum að búa til stefnu sem snýr að þessu. Við erum að sjá að drónar til margs konar notkunar hafa mjög eflst og tæknin að eflast mjög á öllum sviðum. Ég held að við þurfum að horfa til þess á næstu árum í starfsemi Gæslunnar.

Mig langaði síðan að koma aðeins inn á það sem komið er inn á í skýrslu Ríkisendurskoðunar og það eru varnar- og öryggismál í starfsemi Gæslunnar. Í dag er samningur við ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu Íslands um að sinna framkvæmd verkefna á grundvelli varnarmálalaga, nr. 34/2008, og var endurnýjað fyrir einhverjum árum. Þar eru margs konar verkefni sem við þurfum að fara að huga að núna og ættu kannski að tengjast umræðunni okkar um þjóðaröryggisstefnu landsins og slíka hluti, hvernig við eigum að fara með þessi mál þegar hlutir eru að breytast með þeim hætti sem við erum að upplifa núna og höfum verið að upplifa á undanförnum misserum, alla vega hefur þetta breyst mikið síðustu þrjá mánuði með innrás Rússa í Úkraínu. Við þurfum að skapa þessum málum betri umgjörð. Það hefur verið aðeins of tilviljunarkennt hvernig hlutirnir gerast. Síðan þurfum við að skilgreina hlutverkið leit og björgun í Norður-Atlantshafinu. Við stjórnum frá Íslandi gríðarlega stóru svæði, eins og ég kom inn á áðan, og ég held að með vinaþjóðum í NATO sé ástæða til að reyna að fara í þá vinnu að skoða hvernig eigi að tryggja þetta sem best varðandi skemmtiferðaskip og alla þá umferð sem við erum að verða vitni að í Norður-Atlantshafinu.

Það er rétt í lokin að ítreka mikilvægi þess að þetta sé skoðað. Það hefur orðið stór breyting í alþjóðakerfinu, í alþjóðastjórnmálunum, og ný mynd að verða til núna með innrás Rússa í Úkraínu. Sviðsmyndin er gjörbreytt og nú þegar við lítum til næstu ára og áratuga er full nauðsyn á að fara í gegnum þetta og skapa góða stefnu til næstu ára.

Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar og vonandi höldum við áfram að þróa það gríðarlega mikilvæga hlutverk sem Landhelgisgæslan gegnir. Ég þakka fyrir góða umræðu hér í dag um þetta gríðarlega mikilvæga mál.



[16:00]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu og áhugaverðu umræðu og þakka flutningsmanni beiðnarinnar, hv. fyrrverandi þingmanni, Smára McCarthy fyrir að hafa hrundið þessari vinnu af stað. Af þessari skýrslu er að sjá að þetta var mikilvæg vinna og það er gott að hún er nú komin hér fyrir þingið til umræðu. Ég vil beina sjónum mínum að tvennu í þessari skýrslu, annars vegar þyrluflugi ráðherra og hins vegar olíukaupum Landhelgisgæslunnar í Færeyjum þrátt fyrir að aðrar athugasemdir Ríkisendurskoðunar í þessari skýrslu séu mjög alvarlegar líka, t.d. varðandi þessa klassík sem við erum að sjá aftur og er í raun orðin næstum því að reglu, að áætlanir sem ríkisstjórnin gefur út standast ekki með nokkru móti þegar kemur að fjármögnun þessara áætlana. Svona var þetta t.d. í geðheilbrigðismálum. Þetta á líka greinilega við í landhelgisáætlun og við sjáum þetta víða í kerfinu að ríkisstjórnin býr til voðalega fallegar áætlanir, t.d. í loftslagsmálum, en svo fylgir ekki viðeigandi fjármagn til þess að fylgja því eftir þannig að í raun eru einu áætlanirnar sem hægt er að taka mark á af hálfu ríkisstjórnarinnar þær sem birtast í fjárlögum. Ég vil bara ítreka þetta vegna þess að það er ekki hægt að taka mark á neinum öðrum áætlunum ef fjármagnið fylgir ekki, sem er því miður allt of algengt og nánast regla með einhverjum undantekningum þó.

En svo ég snúi mér að þeim umfjöllunarefnum sem ég hef boðað, virðulegi forseti. Í fyrsta lagi vil ég fjalla um þyrluflug ráðherra og kannski í aðeins stærra samhengi en hefur verið gert hingað til. Auðvitað byrja ég bara á innganginum um að hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir fær hér alvarlegar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun fyrir að hafa notfært sér þyrluflug í einkaerindum með því að hafa fengið far með Gæslunni úr hestaferð með fjölskyldunni á fund í Reykjavík. Ríkisendurskoðun segir um þetta, með leyfi forseta:

„Tæki stofnunarinnar eru öryggisbúnaður sem keyptur er eða leigður sem tæki til löggæslu og björgunarstarfa til hagsbóta fyrir almenning en ekki til einkaerinda.“

Mér finnst mjög áhugavert að Landhelgisgæslan sé ósammála því að það að sækja ráðherra úr hestaferð, skutla henni til Reykjavíkur og skutla henni svo aftur í hestaferð teljist ekki einkaerindi. Ég skil ekki alveg hvernig sú niðurstaða fæst að það séu ekki einkaerindi þó að um ráðherra málaflokksins sé að ræða. Þó að hún sé á leiðinni á mikilvægan fund þá er þetta vissulega einkaerindi. Í kjölfarið á þessu heitir ráðuneytið því og leggur drög fyrir Ríkisendurskoðun um verkferla í kringum nýtingu ráðherra og æðstu ráðamanna á loftförum á skipakosti Landhelgisgæslunnar og leggur til að það mætti, með leyfi forseta:

„... skipta þeim ólögbundnu verkefnum sem stofnunin tekur að sér að sinna innan þess ramma sem æfingaflugtímar leyfa í fimm flokka:

1. Flug vegna forvarnarstarfs, fræðslu og kynningar á björgunartækjum ríkisins.

2. Flug fyrir einkaaðila gegn greiðslu.

3. Flug fyrir einkaaðila án endurgjalds (t.d. góðgerðar- eða sjálfboðaliðasamtök).

4. Flug fyrir dómsmálaráðuneyti (í tengslum við verkefni ráðuneytisins og í krafti stöðu ráðherra sem „æðsta yfirmanns“ Landhelgisgæslunnar).

5. Flug á grundvelli samvinnusamninga við opinbera aðila sem falla ekki undir 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga um Landhelgisgæslu Íslands.“

Í svari við þessu, með leyfi forseta, segir og áréttar Ríkisendurskoðun:

„… ferðir ráðherra eða annarra einstaklinga með flugvélum, þyrlum eða skipum sem Landhelgisgæslan hefur til umráða, í einkaerindum, eru alvarlega athugunarverðar. […] Verði settar formlegar viðmiðunarreglur þurfa þær að endurspegla þetta og tryggja að einkanot séu ekki heimil.“

Þetta eru viðbrögð við þeim verklagsreglum sem dómsmálaráðuneytið leggur til:

„Hvað snýr að þeim verklagsreglum sem dómsmálaráðuneyti hefur unnið tekur Ríkisendurskoðun fram að varhugavert er að túlka ákvæði laga um ábyrgð og yfirstjórn ráðherra yfir tilteknum stofnunum á þá leið að viðkomandi ráðherra hafi með því heimild til að nýta eða ráðstafa mannauði, eignum og öðru lausafé stofnunarinnar í þágu embættis síns frá degi til dags svo sem vikið er að í tilvitnuðum drögum að viðmiðunarreglum. Slíkt fær naumast staðist.“

Þetta er nú með því þyngsta sem Ríkisendurskoðun tekur til orða svona almennt og yfirleitt í svona skýrslum. Hún er sem sagt að segja að þetta sé fráleitt.

„Sömuleiðis felst ekki í heimildum forráðamanna Landhelgisgæslunnar að bjóða fólki afnot af tækjakosti til einkanota eða nota til ferðalaga til að sækja fundi svo dæmi sé tekið.“

Þetta er algerlega skýrt.

Þessi skýrsla, virðulegi forseti, birtist á vef Ríkisendurskoðunar 20. febrúar síðastliðinn þó ætla megi auðvitað að ráðherra hafi fengið að sjá þessa skýrslu eitthvað fyrr. En þrátt fyrir þessa skýru leiðsögn Ríkisendurskoðunar ákvað ráðherra að nota þyrlu Landhelgisgæslunnar, að eigin sögn, með leyfi forseta, til þess að láta skutla sér á fundi mánuði síðar. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur ýmislegt.

Í fyrsta lagi vil ég setja það í samhengi við ákveðna orðræðu sem hefur verið í gangi hér af hálfu stjórnarliða sem er sú að þegar stjórnarandstaðan óskar eftir rannsóknarnefnd Alþingis vegna þess að hún hafi skýrari og breiðari rannsóknarheimildir heldur en Ríkisendurskoðun þá er verið að saka okkur um að vera að grafa undan trausti til Ríkisendurskoðunar, að við séum að lýsa yfir einhvers konar vantrausti á Ríkisendurskoðun. Því fer nú fjarri. En ef við horfum á þetta dæmi hér þá sjáum við í verki hvaða virðingu ríkisstjórnin ber fyrir tilmælum Ríkisendurskoðunar, hversu mikið mark þau taka á þeim. Hér eru skýrar leiðbeiningar: Ekki gera þetta. Ráðherra segir: Heyrðu, ég ætla bara samt að gera þetta. Hver er það sem er að grafa undan Ríkisendurskoðun? Það er ekki stjórnarandstaðan. Það er hæstv. dómsmálaráðherra, Jón Gunnarsson, að gera.

Ég á bara örfáar sekúndur til að fara yfir olíukaupin í Færeyjum. Ég vil kannski bara koma að niðurstöðu í þeim efnum sem er að dómsmálaráðuneytið hefur í 22 ár leyft Landhelgisgæslunni að sleppa við að borga virðisaukaskatt og ég get ekki lesið annað úr þessu en að það sé bara svona hjáleið til að veita stofnuninni aðeins meiri pening í staðinn fyrir að gera það í gegnum réttan kanal sem eru auðvitað fjárlög ríkisins. Það er heldur ekki ásættanlegt, virðulegi forseti, að hér eigi að komast hjá því að greiða í almenna skattkerfið einfaldlega til að drýgja tekjur, Landhelgisgæslunnar. Bara á þeim árum sem tiltekin eru í þessari skýrslu þá getum við reiknað út að um 50 milljónir hafi sparast við þetta inn í almenna skattkerfið sem auðvitað ætti að vera greitt til Landhelgisgæslunnar í fjárlögum.



[16:08]
Stefán Vagn Stefánsson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Málefni Landhelgisgæslu Íslands skipta okkur öll máli og því ber að fagna skýrslu Ríkisendurskoðunar um verkefni og fjárreiður Landhelgisgæslunnar til að hægt sé að átta sig með betri og skýrari hætti á stöðu Landhelgisgæslunnar gagnvart þeim verkefnum. Það er mikilvægt að við notum skýrsluna til þess að horfa til framtíðar og meta með hvaða hætti hún getur nýst til að gera starfsemina betri og hagkvæmari, en mikilvægi stofnunarinnar fyrir land og þjóð verður ekki dregið í efa. Að mati þess sem hér stendur er það eitt af mikilvægustu verkefnum Landhelgisgæslunnar, ef ekki það mikilvægasta, að vera sjómönnum og sjófarendum til aðstoðar ef aðstoðar er þörf. Íslenskir sjómenn eiga með skýlausum hætti að geta treyst á starfsemi Landhelgisgæslunnar og það er okkar og stjórnenda Gæslunnar að tryggja að svo sé. Land sem byggir í eins miklum mæli á útgerð þarf að hafa þá hluti í lagi. Öryggismál sjómanna hafa verið tekin til gagngerðrar endurskoðunar á síðustu árum sem hefur leitt til gjörbyltingar í landslagi er kemur að öryggi sjómanna um borð við vinnu sína. Slysum hefur fækkað verulega sem og dauðsföllum og þarf ekki að horfa langt aftur í tímann til að sjá allt annað landslag. Sem dæmi um það eru árbækur áranna 1982–1987 glöggt dæmi þar sem sérkafli var í þeim bókum um slys og slysfarir á sjó við Íslandsstrendur. Það er óhætt að segja að grettistaki hafi verið lyft á þeim vettvangi. Þar hefur Landhelgisgæslan svo sannarlega hlutverk og hefur sýnt og sannað í fjölmörgum tilfellum styrk sinn og mátt er kemur að björgunarhlutverki á sjó og landi. Það verður að vera tryggt að svo sé áfram og sú þróun sem ég lýsti hér ofan haldi áfram í þá átt að auka öryggi okkar sjómanna með samvinnu útgerðar, björgunarskóla sjómanna og Landhelgisgæslu. Stjórnvöld þurfa að tryggja Gæslunni fjármagn til þess að sinna því hlutverki sem henni er ætlað og á að hafa.

Siglingar varðskipa Gæslunnar til Færeyja eftir olíu er í raun hið ótrúlegasta mál, sama hvernig á það er litið. Það að Landhelgisgæslan sjái sér hag í því að sigla til Færeyja eftir olíu í stað þess að taka hana hér heima er í raun og veru ótrúleg staða og henni verður að breyta. Fyrir utan þá sóun sem siglingin sjálf felur í sér, umhverfisáhrifin og kolefnissporið, er ljóst að viðbragðsgeta skipanna innan íslenskrar efnahagslögsögu og þar með talið Landhelgisgæslunnar er skert með þessu móti.

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að skoða þetta í stærra samhengi. Það er mín tillaga í þessu máli að skoðað verði með kaup á eldsneyti til allra viðbragðsaðila og þá með hvaða hætti er hægt að veita þeim afslátt, hvort sem það er í formi endurgreiðslu virðisaukaskatts líkt og björgunarsveitir eru með eða með einhverjum öðrum hætti. En þetta verður að taka til gagngerrar endurskoðunar. Svo ég taki lögreglunni sem dæmi, sem ég þekki ágætlega, þá eru laun og launagreiðslur um 80–85% af heildarútgjöldum og því lítið svigrúm til hagræðingar í öðrum rekstri. Þegar fastur kostnaður er tekinn inn, svo sem húsnæði, rekstur bifreiða, tækja- og búnaðarkaup, þá er ljóst að það sem eftir stendur er lítið sem ekkert. Lækkun á eldsneytiskostnaði myndi skipta þessar stofnanir verulegu máli og auka getu þeirra til að sinna þeim verkefnum sem eru lögbundin og ætlast er til að þær sinni á hverjum tíma. Það getur ekki talist eðlilegt að Landhelgisgæslan sé knúin til að fara út fyrir efnahagslögsöguna til að sækja sér sitt eldsneyti. Þeirri stöðu verður að breyta, eins og ég sagði. Ég trúi ekki öðru, virðulegur forseti, en að það sé vilji allra hér inni að Landhelgisgæslunni sé gert að starfrækja skip, þyrlur og flugvélar þannig að með hagkvæmum hætti sé hægt að sinna þeim verkefnum sem stofnuninni er falið og krafa er um og gengið út frá öryggissjónarmiðum sjómanna og landsmanna allra. Ekki má heldur líta fram hjá því öryggishlutverki sem Landhelgisgæslan gegnir innan lands og hefur aukist verulega á síðari tímum með fjölgun ferðamanna hér á landi. Einnig hefur Landhelgisgæslan stórt hlutverki þegar kemur að flutningi slasaðra frá slysavettvangi og í einhverjum tilvikum flutningi á einstaklingum á milli sjúkrastofnana þó að sú starfsemi sé aðallega í höndum þeirra sem sinna sjúkraflugi. Að öllu þessu upptöldu er ljóst að öryggishlutverk Landhelgisgæslunnar er gríðarstórt.

Mikilvægi varnarmála fyrir Ísland hafa aukist verulega á síðustu árum, ekki síst á síðustu mánuðum. Umræður um varnarmál hafa þó ekki verið þungar í umræðunni, hvorki á Alþingi né í samfélaginu, þó svo að einstakir aðilar eða samtök hafi haft á þeim sterkar skoðanir. Þetta hefur breyst og að mínu mati á eftir að breytast verulega á næstu misserum. Umræður um varnarmál landsins eru nauðsynlegar og það er einfaldlega barnaskapur að halda öðru fram. Það að Ísland sem við tölum um að sé þátttakandi í samfélagi þjóða, þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi á mjög breiðum grunni, sé á einhvern hátt ónæmt fyrir þeim ógnum sem nú beinast að ríkjum Evrópu er því miður málflutningur sem ekki stenst skoðun og við verðum, við sem erum kosin til setu á Alþingi Íslendinga, að taka þetta alvarlega og ræða. Það er mikilvægt að staða Landhelgisgæslunnar sé skýr er kemur að varnarmálum og það sé skýrt hvert hlutverk hennar er. Stefnt var að því að málefni öryggis- og varnarmála yrðu færð frá utanríkisráðuneytinu til þáverandi innanríkisráðuneytis en aldrei kom þó til þeirra færslu og þjónustusamningur um verkefnið hefur fest í sessi. Þessu þarf að breyta að mínu mati og gera hlutverk og verkefni Gæslunnar skýr innan þess ráðuneytis sem yfir hana heyrir. Einfaldari boðleiðir og einfaldari stjórnsýsla getur skipt máli er varnarmál eru annars vegar. Sú sviðsmynd sem er að teiknast upp nú í austanverðri Evrópu mun hafa áhrif á okkur Íslendinga og nú þegar farin að gera það á svo mörgum sviðum.

Virðulegur forseti. Það er von mín að þessi umræða og þessi skýrsla eigi eftir að skila Landhelgisgæslunni árangri til framtíðar er kemur að rekstri og þeim fjölmörgu stóru og smáu verkefnum sem stofnunin sinnir á hverju ári. Mikilvægi Landhelgisgæslunnar fyrir íslenskt samfélag er gríðarlegt og er allra hagur að stofnunin fái að vaxa og dafna í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu á hverjum tíma. Ég óska starfsmönnum Landhelgisgæslunnar velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum fyrir íslenska þjóð.



[16:15]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ef maður hugsar um Landhelgisgæslunna þá er hún svona sveipuð einhverjum ljóma frá fyrri tíð þegar við horfðum með stjörnur í augum á hetjurnar okkar sem börðust við ofurefli Breta og unnu það stríð. Þannig hefur þessi ímynd Landhelgisgæslunnar verið löngum að við treystum og trúum á að hún sé að sinna sínu hlutverki og hafi til þess burði að gera það sem þarf.

Þessi skýrsla sem nú er komin fram er að mörgu leyti áfellisdómur um þennan rekstur og á hvaða hátt hann hefur verið starfræktur. Mig langar að nefna nokkur atriði eftir því sem tími vinnst til. Þá er kannski fyrst að nefna áætlanagerð sem talað er um í þessari skýrslu og vekur athygli mína sem nýgræðings á þingi að sjá. Í þessari skýrslu er það orðað með þeim hætti að dómsmálaráðuneyti hefur á undanförnum árum fyrirhugað að leggja fram opinberlega Landhelgisgæsluáætlun þar sem skilgreind verði öryggis- og þjónustustig Landhelgisgæslu Íslands og lagt mat á kostnað og fjárfestingarþörf. Það er endalaust verið að búa til fjárhagsáætlanir, fjármálastefnur, fjármálaáætlanir og inn í slíkar áætlanir ætti auðvitað að koma fjárfestingarþörf Landhelgisgæslunnar sem og annarra stofnana sem verið er að fjalla um þegar verið er að útdeila fjármagni sem til skiptanna er og er bara takmarkað fjármagn. Að sjá það að ráðuneyti frá 2018 hafi ekki sinnt skyldum sínum hvað þetta varðar er athyglisvert í mínum huga. Það þarf að taka þetta mál til gagngerrar skoðunar. Að áætlanagerð ráðuneytis sé ekki til staðar nær engri átt.

Að því sögðu þá langar mig að nefna nokkur atriði sem mér finnst skipta máli. Það er þessi staðsetning á bæði þyrlum og skipum, hvar þau eru stödd. Hér hefur verið nefnt að þyrlur varnarliðsins sáu um stærstan hluta af erfiðum verkefnum á sínum tíma þangað til að herinn fór vorið 2006. Þegar maður horfir á kaflann um nýtingu og rekstur loftfara í þessari skýrslu þá þykir mér leitt að sjá að það er eins og staðan sé bara að versna ár frá ári. Við sjáum í skýrslunni að á árinu 2018 voru þrjár þyrlur í 153 daga, tvær þyrlur í 193, 17 daga var bara ein þyrla og tvo daga var engin þyrla. En á árinu 2020 þá eru aldrei neinar þrjár þyrlur. Það eru tvær þyrlur í 171 dag, ein þyrla í 188 og síðan er bara engin þyrla í sjö daga. Og maður spyr hvað gerist ef eitthvað kæmi upp á þegar engin þyrla er til staðar í landinu. Þarna er bara verk að vinna, virðulegur forseti. Það þarf að taka til gagngerrar athugunar að við getum leyft okkur að hafa öryggismál með þeim hætti að það sé engin þyrla til taks í nokkra daga á ári. Það bara gengur ekki upp að mínu mati.

Síðan langar mig að nefna skipin sem við erum nýbúin að fá í hendurnar, varðskipið Freyju, sem sent var norður og hennar heimahöfn verður á Siglufirði. Ég hef upplýsingar um að farið sé að þrengja að Þór í Reykjavík. Á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins má lesa að verið sé að skoða kosti hafnaraðstöðu fyrir varðskip utan Reykjavíkur. Freyja er jú fyrir norðan. Síðan fól dómsmálaráðherra hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni að skoða slíkt. Niðurstaðan af því er að það gæti verið álitlegur kostur samkvæmt heimasíðu ráðuneytisins að færa Þór til Njarðvíkur. Það standa yfir miklar breytingar á Njarðvíkurhöfn og síðan er verið að stækka Skipasmíðastöð Njarðvíkur sem gerir það að verkum að það verður vel hægt að taka við Þór í Njarðvíkurhöfn. Í breytingum á aðalskipulagi sem nú er verið að vinna að og hefur verið í umsögn er verið að skoða skipulagsbreytingar sem eru m.a. fólgnar í byggingu þurrkvíar og dýpkunar hafnarinnar, að gerður verði brimvarnargarður og aukin landfylling og síðan viðlegukantur. Slíkur viðlegukantur gæti verið aðstaða fyrir Þór til viðlegu við þegar hann er í landi. Ég held að það gæti verið ásættanleg aðstaða fyrir Þór í Njarðvík þegar fram í sækir. Ég held að við verðum aðeins að herða okkur í að tryggja að Landhelgisgæslan gerir þær áætlanir sem við sem þingmenn þurfum síðan að reyna að koma til móts við.



[16:22]
Hildur Sverrisdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla á þessum stutta tíma sem eftir er að ræða það sem fengið hefur mesta athygli í þessari umræðu um annars langa skýrslu. Ríkisendurskoðun óskaði eftir að Landhelgisgæslan upplýsti hversu oft loftför stofnunarinnar hafi verið notuð til að flytja ráðherra, ráðuneytisstjóra og aðra aðila innan eða á vegum stjórnsýslunnar á árunum 2018–2020. Fram kom í svari stofnunarinnar að ráðamenn voru meðferðis í tíu flugverkefnum. Forseti. Hér þykir mér rétt að árétta að spurning Ríkisendurskoðunar fól ekki í sér að um einkaerindi hafi verið að ræða þó að það megi skilja sem svo í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hér um þessa skýrslu og niðurstöður hennar. Það mál sem verið hefur hvað mest til umræðu varðar það þegar dómsmálaráðherra var farþegi í þyrlu Landhelgisgæslunnar frá Reynisfjöru til Reykjavíkur og aftur til baka í ágúst 2020. Til að allrar sanngirni sé gætt í þessari umræðu tel ég rétt að það sé skýrt tekið fram að þrátt fyrir að ráðherrann hafi verið staddur úti á landi í einkaerindum var ástæða flugferðarinnar það ekki. Ástæða flugferðarinnar var þvert á móti að ráðherra þurfti að sinna embættisverkum sínum og hafði það erindi að taka þátt í samráðs- og blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar um aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins. Mat Landhelgisgæslunnar er að viðbragðsgeta stofnunarinnar hafi ekki verið skert og ef komi til útkalls þegar farþegar eru um borð sé þeim hleypt frá borði eins fljótt og mögulegt er til að sinna megi útkalli. Í tilkynningu Landhelgisgæslunnar af þessu tilefni kom fram að flug sem þessi væru innan flugtímaáætlunar stofnunarinnar og því ekki um óeðlilega tilhögun að ræða. Þrátt fyrir það hefur viðkomandi ráðherra viðurkennt að það hafi verið mistök að þiggja þetta boð Landhelgisgæslunnar um að nýta þyrluna með þessum hætti og sjálfsagt að endurskoða með hvaða hætti staðið væri að flugi Landhelgisgæslunnar í þágu ráðamanna þrátt fyrir að eingöngu væri um embættiserindi um að ræða. Ég nota tækifærið hér og tek undir það sjálfsagða sjónarmið.

Forseti. Ég tel rétt í ljósi umræðunnar hér að hnykkja á helstu atriðum þessa máls eins og þau birtast í skýrslunni svo ekki verði um neina upplýsingaóreiðu að ræða í þessu tiltekna máli. Í tillögu Ríkisendurskoðunar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur að setja þurfi skýrar viðmiðunarreglur um afnot æðstu stjórnar ríkisins af loftförum í eigu eða leigu stofnana ríkisins, þ.á.m. Landhelgisgæslu Íslands. Slíkar reglur verði einkum látnar taka til flutninga vegna óvæntra atburða eða formlegra athafna á vegum æðstu stjórnar ríkisins en að öll einkanot verði óheimil.“

Viðbrögð Landhelgisgæslunnar voru sem hér segir, með leyfi forseta:

„Landhelgisgæslan telur sjálfsagt og eðlilegt að reglur vegna nýtingar loftfara í verkefnum óviðkomandi eftirlits- og björgunarstörfum verði settar. Landhelgisgæslan ítrekar að engin dæmi eru um að loftför stofnunarinnar hafi verið nýtt í einkaerindum.“

Ég leyfi mér í þessu samhengi og í ljósi þessarar umræðu allrar að endurtaka síðustu setninguna: „Landhelgisgæslan ítrekar að engin dæmi eru um að loftför stofnunarinnar hafi verið nýtt í einkaerindum.“



[16:26]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands. Hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk skýrsluna til umfjöllunar og kallaði til sín gesti sem gáfu gleggri mynd af umfjöllunarefninu. Saga Landhelgisgæslu Íslands er nokkuð löng. Hún hefst í kringum 1920 þegar gæsla hefst í landhelginni, bæði við björgun og til að gæta hagsmuna þjóðarinnar á fiskimiðum við landið. Þessi saga spannar því rúm 100 ár. Mikilvægi Landhelgisgæslunnar er gríðarlegt, ekki bara fyrir öryggi sjófarenda og varnir fyrir landhelgina heldur hefur Landhelgisgæslan einnig gætt öryggis landsmanna í gegnum tíðina, bæði á sjó og í lofti. Banaslysum á sjó hefur fækkað mikið á liðnum áratugum, frá því að vera rúmlega 200 manns á áttunda áratugnum og niður í þrjá á tímabilinu 2014–2018. Úr mörgu hefur verið bætt hvað varðar öryggismál sjómanna og er þar öflugu forvarnastarfi fyrir að þakka og á Landhelgisgæslan þar hlut að máli. Eðlilega hefur umfang og verkefni Gæslunnar breyst í gegnum árin og hefur hún tekið að sér margvísleg verkefni. Vægi og umsvif varnarmála hafa aukist í starfsemi Landhelgisgæslunnar undanfarin ár og ekki er útlit fyrir annað en að sú þróun haldi áfram, sérstaklega í ljósi innrásar Rússlands í Úkraínu.

Lykileining við eftirlit og löggæslu Landhelgisgæslunnar í hafinu við Ísland er TF-SIF. Það er flugvél sem er sérhönnuð fyrir verkefni á Norður-Atlantshafi. Hún er búin ýmsum hátæknibúnaði eins og fullkominni ratsjá og hitamyndavél og hún er einnig þannig búin að hægt er að varpa úr henni björgunarbátum. Vélin skiptir mjög miklu máli fyrir lögsögu Íslands þar sem hún getur sinnt leit og björgun á svæðum þar sem erfitt er fyrir önnur tæki að taka þátt í björgun. TF-SIF er stóran hluta ársins í útleigu til verkefna á vegum Frontex. Á árunum 2018–2020 má sjá að aðeins á bilinu 18–36% flugstunda hennar var varið við eftirlitsstörf við Íslandsstrendur. Útleiga TF-SIF í Frontex-verkefnunum hefur að jafnaði numið allt frá þremur mánuðum til sex mánaða á ári en það hefur stundum verið þannig að hún er lengur úti og hefur jafnvel verið meira en helming árs erlendis. Mér skilst að vélin hafi einungis farið í tvær ferðir hér á landi á þessu ári. Tíminn sem vélin er hérlendis fer að miklu leyti í uppsafnað viðhald, sem oft getur tekið töluverðan tíma, sem gæti annars verið sinnt með reglulegu viðhaldi hérlendis og án þess að vélin þyrfti að stoppa í lengri tíma. Á meðan flugvélin er í Frontex-eftirlitinu í Miðjarðarhafi er stór hluti lögsögu Íslands eftirlitslaus þar sem skip og þyrlur geta ekki sinnt jafn stóru svæði og TF-SIF getur á skömmum tíma. Af því leiðir að ekki er hægt að fylgjast jafn vel með umferð um landhelgina líkt og dæmin hafa sýnt í skútumálunum. TF-SIF er lykillinn að því að veita skjóta aðstoð úr lofti þegar slys verða á sjó, getur varpað björgunarbátum eða öðrum búnaði úr lofti til þeirra sem þurfa aðstoð. Hún er búin fullkomnum búnaði til að meta og kortleggja mengun í sjó og lofti og eldsumbrot og breytingar á yfirborði jarðar með radarbúnaði ásamt hitamyndavélum. Þetta sýndi sig og sannaði í eldsumbrotunum árið 2010 þar sem búnaður vélarinnar náði myndum af gígum í gegnum ský og gosstróka. Aðalskylda okkar ætti að vera landhelgisgæsla og aukaskyldan Frontex. Ef til vill mætti velta því fyrir sér hvort betra væri fyrir okkur að fjárfesta í minni eftirlitsflugvél til að reka í Frontex og afla rekstrartekna og reka TF-SIF á Íslandi fyrir hluta þeirra tekna sem aflað er í Frontex.

Eftir sem áður er það skýrt að Landhelgisgæslan skiptir okkur mjög miklu máli og stofnunin sem slík á hrós skilið fyrir alla þá vinnu sem hún leggur á sig við að halda okkur öruggum og taka þátt í björgunarstörfum.