152. löggjafarþing — 83. fundur
 1. júní 2022.
heilbrigðisþjónusta, 2. umræða.
stjfrv., 433. mál (stjórn Landspítala). — Þskj. 617, nál. m. brtt. 1118, breytingartillaga 1132.

[18:23]
Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta velferðarnefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um stjórn Landspítala. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, sem hafa það að markmiði að skipa faglega stjórn yfir Landspítala að norrænni fyrirmynd. Markmið frumvarpsins er að styrkja stjórn Landspítala sem er stærsta heilbrigðisstofnun landsins, bæði út á við og inn á við, með því að lögfesta það fyrirkomulag að stjórn verði skipuð yfir spítalann sem gegni því hlutverki að tryggja frekar faglegan rekstur spítalans.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og fór yfir umsagnir sem henni bárust. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur frammi á þingskjali. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar um málið vill meiri hlutinn árétta nokkur atriði sérstaklega.

Nefndin ræddi ýmis sjónarmið varðandi tilnefningu og skipan stjórnarmanna og áheyrnarfulltrúa en frumvarpið gerir ráð fyrir að sett verði reglugerð þar sem nánar verði kveðið á um hlutverk og ábyrgð stjórnar. Auk þess er gert ráð fyrir að ráðherra setji stjórninni erindisbréf og ákveði þóknun til stjórnarmanna sem skuli greidd af rekstrarfé stofnunarinnar.

Í því sambandi leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðuneytið hafi í huga að æskilegt væri að áheyrnarfulltrúar verði skipaðir að fenginni tilnefningu starfsmannasamtaka innan spítalans og áskilið verði að áheyrnarfulltrúar í stjórn geti ekki gegnt stjórnunarstöðu innan spítalans samtímis því hlutverki að vera fulltrúar starfsmanna á stjórnarfundum. Þá bendir meiri hlutinn á að eðlilegt væri að gera ríkar hæfniskröfur til stjórnarmanna en ekki þó ríkari kröfur en mælt er fyrir um í hlutafélagalögum.

Í 3. málslið 1. efnisgreinar 1. gr. frumvarpsins kemur fram að í stjórn skuli sitja einstaklingar sem m.a. hafi þekkingu á vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um mikilvægi þessa ákvæðis en bent var á að Háskóli Íslands væri sá aðili sem hefði allar þessar grunngreinar sem krefjast starfsleyfis sem og vísindagreinarnar og ætti þar af leiðandi að eiga fulltrúa eða sæti í stjórn. Meiri hlutinn tekur undir mikilvægi þess að við skipan stjórnar verði lögð áhersla á að tryggja að þar verði til staðar þekking og sýn á vísindi, nám og nýliðun heilbrigðisstétta, eins og kemur raunar fram í greinargerð.

Með lögum nr. 91/2020, um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, kom inn nýtt ákvæði um fagráð sem forstjóri heilbrigðisstofnunar skipar og ber forstjóra heilbrigðisstofnunar að leita álits fagráðs um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag heilbrigðisstofnunar, en fagráðin eru þá skipuð úr hópi starfsmanna í mismunandi faggreinum innan viðkomandi heilbrigðisstofnunar. Sett hefur verið reglugerð 1111/2020 sem fjallar nánar um skipun fagráðanna. Með 4. gr. þess frumvarps sem við fjöllum um hér er lagt til að ráðherra skipi notendaráð. Í ráðinu verði sjö fulltrúar notenda sem skipaðir verði samkvæmt tilnefningu starfandi sjúklingasamtaka. Er notendaráði ætlað að veita forstjórum heilbrigðisstofnunar, og stjórn þegar það á við, ráðgjöf og aðhald með virku samráði til að tryggja að sjónarmið notenda komi til skoðunar við ákvarðanatöku um skipulag og rekstur heilbrigðisstofnana.

Fyrir nefndinni kom fram gagnrýni frá sjúklingasamtökum um að samráð við stjórn tryggði ekki raunverulega aðkomu notenda með sama hætti og bein aðkoma að stjórn og skyldur til samráðs væru ekki nægilega vel skilgreindar.

Meiri hlutinn álítur það nýmæli frumvarpsins að skipa skuli notendaráð ákaflega mikilvægt og leggur áherslu á að við setningu reglugerðar um hlutverk og ábyrgð stjórnar og erindisbréfs stjórnar verði skyldur stjórnar til samráðs við notendaráð nánar skilgreindar.

Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðuneytis og ráðherra að tiltekin verði ákveðin verkefni og/eða tilvik sem stjórninni beri að hafa samráð við notendaráð um, til að afmarka þetta hlutverk betur.

Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að notendaráð hafi reglulegt umsagnarhlutverk um áætlanir er varða sjúklinga og leggur áherslu á að stjórn hafi samráð við notendaráð við ákvarðanatöku um atriði sem varða sérstaklega hagsmuni sjúklinga.

Að lokum telur meiri hlutinn eðlilegt að ráðuneytið fylgist með reynslunni af samráði stjórnar við fagráð sem nýlega voru sett á laggirnar, eins og áður sagði, og notendaráð sem verður sett á laggirnar verði frumvarp þetta að lögum og að ráðherra beiti reglugerðarheimildum til að tryggja markmið um að virkt samráð náist. Þá hvetur meiri hlutinn heilbrigðisráðuneytið til að fylgjast með þróun samráðs stjórnenda, starfsmanna og notenda alþjóðlega og leggur áherslu á að ef reynslan leiði í ljós að aðrar leiðir til samráðs en þær sem hér er lagt upp með séu heppilegri verði farið í frekari lagabreytingar.

Vík ég þá að breytingartillögu nefndarinnar. Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til breytingu er varðar áheyrnarfulltrúa. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að óvenjulegt væri að fulltrúar í stjórn sem ekki hafa atkvæðisrétt teljist stjórnarmenn en ekki áheyrnarfulltrúar. Meiri hlutinn telur þessa hugtakanotkun geta leitt til misskilnings og leggur því til breytingu þess efnis að fulltrúar starfsmanna fái heitið áheyrnarfulltrúar.

Í öðru lagi er lögð til breyting er varðar aðkomu stjórnar að ráðningu forstjóra. Á fundum nefndarinnar kom fram að við gerð frumvarpsins hefði komið til álita að skilgreina aðkomu stjórnar að ráðningu forstjóra og meiri hlutinn telur að til að markmið frumvarpsins náist þurfi stjórn að hafa aðkomu að ráðningu. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að aðkoma stjórnar að ráðningu forstjóra með þeim hætti sem hér er lagt til skýri samspil og ábyrgð stjórnar, forstjóra og ráðherra. Meiri hlutinn leggur því til að við 1. mgr. 9. gr. laganna bætist nýr málsliður um að ráðherra skipi forstjóra Landspítala til fimm ára í senn „að fengnum tillögum stjórnar“, það er tillagan sem meiri hlutinn leggur til.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar sem eru tæknilegs eðlis sem þarfnast ekki sérstakrar umfjöllunar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti velferðarnefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í nefndaráliti. Undir álit meiri hluta velferðarnefndar rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Óli Björn Kárason.

Virðulegi forseti. Nokkur orð í viðbót: Ég hef gert grein fyrir áliti meiri hluta velferðarnefndar varðandi nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, um stjórn Landspítala. Ég vil að lokum árétta að í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að staða og hlutverk Landspítala sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verði styrkt. Í þeim tilgangi verði fagleg stjórn skipuð yfir spítalann að norrænni fyrirmynd. Þess vegna eru með þessu frumvarpi lagðar til þær breytingar sem hér hafa verið raktar og þar með er ætlunin að setja á stjórn sem styrkir spítalann í hlutverki sínu sem stærsta heilbrigðisstofnun landsins. Sú sem hér stendur hefur miklar væntingar til þess að fagleg stjórn efli Landspítalann í að sinna hlutverki sínu.



[18:32]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir þessa framsögu og ég fagna því að þetta skref sé stigið. Við í mínum flokki lögðum til á síðasta kjörtímabili að farið yrði í þessa átt, að skipuð verði stjórn yfir Landspítalanum. Þar sem ég hef ekki kafað mikið ofan þetta frumvarp, var svona að krafla mig í gegnum það í dag, langar mig að spyrja þingmanninn hvað þessar breytingar geti haft í för með sér miðað við þá stöðu sem Landspítalinn hefur verið í undanfarin ár. Oft og tíðum virðist hafa mistekist að reka spítalann svo sæmilegt þyki, getur maður sagt, vegna þess að ýmislegt hefur komið upp á.

Spurningin er þessi: Getur hv. þingmaður sagt mér eitthvað um það hvað þessi breyting kemur til með að hafa í för með sér?



[18:34]
Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni andsvarið. Ég vil byrja á að segja að ég álít að margt gangi býsna vel í stjórn Landspítalans. Við sáum það auðvitað í gegnum covid hvernig ótrúlegir hlutir gerðust frá degi til dags. Hins vegar höfum við, og við höfum rætt það áður hér í þingsal, eins og hv. þingmaður kom inn á, rætt leiðir til að efla stjórnina og fá kannski fleira fagfólk í stjórnunarhlutverk á bak við forstjóra. Það er það sem þessu frumvarpi er ætlað að gera, að efla það hlutverk og skýra líka samráð við fagráð, við fulltrúa starfsmanna og við fulltrúa notenda. Það er afskaplega dýrmætt að fá fleira fólk að verkefninu og getur orðið mjög dýrmætt fyrir þann sem síðan situr í forstjórastóli Landspítalans hverju sinni. Þannig getur spítalinn eflst í hlutverki sínu sem stærsta heilbrigðisstofnun landsins og í forystuhlutverki í heilbrigðismálum innan lands sem og auðvitað í daglegum verkefnum.



[18:36]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég vil ítreka, og kannski leiðrétta ef einhver misskilningur hefur verið í þá veru að spítalinn væri ekki að gera sitt besta, þegar ég talaði um sæmilegt áðan, að það er alveg kristaltært að menn eru að reyna að gera hlutina eins vel og hægt er. En það hefur ekki gengið eins og væntingar standa til. Ég hef oft sagt það, bæði í ræðu og í riti, að það eru gríðarlegar framfarir í heilbrigðismálum, í tækni og vísindum og í læknisfræðinni þannig að álagið er mikið, bara til þess að mæta þeim breytingum. Það kallar á meiri fjármuni og meiri umsýslu þannig að það er löngu kominn tími á að stíga einhver skref til að milda álagið á forstjórann. Ég átta mig betur á því hvernig þetta er hugsað í stóru myndinni og eins rak ég augun í það áðan, þegar ég las þetta í gegn, að það á að fylgjast vel með hvernig þessi mál reynast. Það verður spennandi að fylgjast með því. Ég vil óska Landspítalanum alls hins besta.



[18:38]
Frsm. meiri hluta velfn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Það fólst ekki bein spurning í því en mér heyrist við vera sammála um að betur sjái augu en auga. Það skiptir máli að fá fleira fólk með faglega þekkingu, eins og talað er um í nefndarálitinu og greinargerð með frumvarpinu, sem hefur sérstaka sýn á mönnunarmálin, rannsóknirnar, vísindin og menntunina. Þannig er líka hægt að sækja mismunandi áherslur inn í stjórnina eftir því hver stóru viðfangsefnin eru hverju sinni og efla þannig og bæta við þá sérþekkingu sem forstjóri hefur hverju sinni þannig að það geti verið breytilegt eftir hverju er verið að leita inn í stjórnina. Þannig sé ég þetta og man ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi farið þannig yfir málið í framsögu sinni.



[18:39]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mig langaði bara að vera með örstutta ræðu hér. Ég hélt ansi langa ræðu við 1. umr. þessa máls og það er gott að sjá að hv. velferðarnefnd hefur í nefndarálti sínu tekið tillit til sumra þeirra atriða sem við vorum að benda á. En það eru enn þá tvö atriði sem mig langar að nefna, og vonandi er það eitthvað sem hv. velferðarnefnd eða alla vega þeir sem í henni sitja munu hugsa aðeins um. Hið fyrra er í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í stjórn skulu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar.“

Nú veit ég ekki alveg hvernig svona lagatexti virkar en ég sé ekki fyrir mér að mikið sé til af einstaklingum sem uppfylla alla vega allar þessar kröfur, en kannski les ég bara vitlaust út úr lagatextanum. En það kom líka ábending til okkur sem hæstv. ráðherra virtist reyndar ekki vera mótfallinn. Það er að við erum á tímum mikilla breytinga og mikillar stafrænnar umbyltingar og það er spurning um hvort það gæti verið sterkur leikur að hafa einhverja aðila í stjórninni sem hefðu jafnvel reynslu af stafrænni umbyltingu nú á þessum tímum, við gætum líka kannski bætt því inn áður en næsta stjórn kemur af því að þessi situr í tvö ár.

Hitt sem við bentum á og ræddum mjög mikið virðist hafa ratað inn í breytingartillögu frá fjórum hv. þingmönnum. Ég gef mér að þessir fjórir hv. þingmenn sitji sennilega sem minni hluti í velferðarnefnd. Það er breytingartillaga um að áheyrnarfulltrúarnir tveir séu úr hópi starfsmanna.

En það var annað sem við töluðum mikið um við ráðherra í 1. umr., þ.e. að bæta líka inn einum fulltrúa úr notendaráði sem áheyrnarfulltrúa. Þess vegna langar mig að hvetja þá sem eru í ríkisstjórnarflokkunum að hugsa þetta dálítið vel, hvort þetta sé ekki bara ágætisbreytingartillaga þó svo að fjórir þingmenn úr stjórnarandstöðunni komi fyrir á henni. Það er mikilvægt að notendur hafi líka aðkomu þar. Það hefur hafi sýnt sig í fjölda stjórna í fjölda stofnana víða um heim að það mjög mikilvægt framfaraskref.

Eins langar mig að þakka hv. velferðarnefnd fyrir vel unnin störf.



[18:43]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við ræðum mál um stjórn yfir Landspítalanum okkar, mál sem hefur dúkkað mjög reglulega upp síðustu ár, jafnvel áratugi. Það var að ég hygg árið 2007 sem síðast var starfandi stjórn yfir spítalanum og lögð niður en þá hafði árin áður verið nefnd, ég held að ég fari rétt með að hún hafi heitið stjórnarnefnd ríkisspítalanna og var við lýði um nokkurt skeið. Síðan hefur þetta verið mál sem hefur komið upp öðru hverju. Ég er ein þeirra sem hafa talið það jákvætt að setja stjórn yfir spítalann. Þetta er jú eining sem fer með gríðarlega fjármuni, flókin starfsemi. Eftirlitshlutverk okkar þingmanna, sem förum með fjárveitingavaldið annars vegar og síðan með ýmiss konar eftirlitshlutverk, hefur oft og tíðum verið býsna flókið þegar kemur að flókinni starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar okkar og þessa hryggjarstykkis í heilbrigðiskerfinu.

En það er kannski þetta með stjórnir yfir Landspítalanum og hefur verið gegnumgangandi í umræðunni um þessi mál, sem hefur verið þó nokkur, að það er ekki alltaf alveg ljóst hvað fólk meinar með þessu, þ.e. hvað fólk sér fyrir sér að slík stjórn geti áorkað. Einhverjir tala um að þetta sé fyrst og fremst — og nú er ég ekki endilega vísa í þetta tiltekna frumvarp, ég kem kannski að því rétt bráðum — en svona í umræðunni almennt er þetta allt frá því að vera að fólk sé á þeirri skoðun að það eigi að setja stjórn yfir Landspítalann sem gegni svipuðu hlutverki og félagastjórnir eða stjórnir yfir fyrirtækjum, þar sem farið er vel ofan í rekstur frá mánuði til mánaðar, það er eftirfylgni með stefnumótun og fylgst með því að viðkomandi eining uppfylli markmið eigenda og umsjón með helstu ráðningum, að minnsta kosti forstjóra og eftir atvikum annarra, svo drepið sé á þessu helsta.

Síðan eru aðrir sem hafa þá skoðun á stjórn yfir Landspítala að hún eigi fyrst og fremst að vera skipuð fólki sem er til þess bært að hafa faglegt eftirlit með hinni mjög svo flóknu og margbrotnu starfsemi spítalans, þ.e. að þar eigi að vera fólk með þekkingu og færni og reynslu. Sumir tala um, af því að við erum fámenn þjóð og það er ekki endilega þannig að við eigum slíkt fólk á lausu ef það er ekki þegar starfandi innan spítalans, að jafnvel sé leitað til fagfólks erlendis.

Enn aðrir tala um að svona stjórn eigi fyrst og fremst að gæta hagsmuna notenda í þeim skilningi að hún eigi að tryggja samskipti notenda við hinar ýmsu deildir og ýmsu þjónustusvið og vinna að því að greiða leið notenda sem best.

Svo eru enn aðrir sem segja að það þurfi stjórn til þess að gæta hagsmuna starfsmanna. Það hefur nú ekki farið lítið fyrir fréttum af örmagna starfsfólki sem sér einhvern veginn ekki út úr augum í verkefninu og er orðið langþreytt, svo ég noti ekki sterkara orð, á því að kvartanir þess og ábendingar séu ekki teknar til greina eða skili neinu.

Þetta eru býsna fjölbreytt verkefni, öll mikilvæg en mjög fjölbreytt. Það liggur í hlutarins eðli að það er ekki á færi einnar stjórnar að uppfylla þetta allt. Þá erum við kannski komin að því að ég vitni í forstjóra Landspítalans úr fréttum dagsins þar sem Runólfur Pálsson segir að það sé óreiða í skipulagi heilbrigðisþjónustunnar. Ég tek hjartanlega undir þessi orð forstjórans. Sú óreiða verður ekki leyst með stjórn yfir Landspítala þó svo að Landspítalinn leiki lykilhlutverk í heilbrigðiskerfinu okkar. Ég held að frekar megi segja að hluta vandans, sem starfsfólk og stjórnendur Landspítalans og notendur standa frammi fyrir, megi rekja til þessarar óreiðu. Kannski ættum við að íhuga stjórn yfir heilbrigðiskerfinu okkar. En við erum jú með hana, ekki satt? Hún er bara ekki endilega alltaf að klára málin og hér er ég að sjálfsögðu að vísa í hæstv. ríkisstjórn. Þetta var nú útúrdúr en þetta er það sem forstjóri Landspítalans segir og skefur ekkert utan af því, að vandi spítalans sé grafalvarlegur og gríðarstór en hins vegar þurfi að skilgreina hlutverk hans betur.

Svo er áhugavert að forstjórinn talar um þá skipulagsóreiðu sem hefur verið í mörg ár í heilbrigðisþjónustunni og að hún sé ekki hvað minnst á höfuðborgarsvæðinu. Það er áhugavert. Ég held að við séum öll sammála um að íbúar landsbyggðanna ríða ekkert sérlega feitum hesti oft frá heilbrigðisþjónustunni. En sá vandi er annars eðlis sem þeir standa frammi fyrir. Þar skortir fólk og þar skortir aðgengi á meðan sú óreiða sem forstjóri Landspítalans talar um í heilbrigðiskerfinu, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu, kristallast í stöðunni á Landspítala sem býr við það að vera annars vegar héraðssjúkrahús okkar sem búum á suðvesturhorninu og síðan sérhæft sjúkrahús fyrir alla landsmenn. Þetta er nokkuð sem gerir stöðu spítalans gríðarlega flókna, sem gerir fjármögnun, á meðan hún er jafn ógagnsæ og raun ber vitni, mjög erfiða og allan samanburð við önnur sjúkrahús erlendis líka flókinn vegna þess að þetta eru býsna sértækar aðstæður. Ég er ekki að segja að ekki sé hægt að finna héraðsspítala, einhvers staðar á Norðurlöndum kannski sérstaklega. Vissulega er það hægt og það hefur legið fyrir en það breytir því ekki að oft þegar við berum saman sjúkrahús, hvort sem við viljum bera saman verkefni sjúkrahúsanna eða fjárhagsstöðu, fjármögnun eða rekstur, þá erum við að bera saman epli og appelsínur vegna þess að við stöndum frammi fyrir þessari stöðu.

Þá erum við komin að því hvað þessi stjórn eigi að gera. Það kemur fram í málinu sjálfu og nefndaráliti að þessu frumvarpi er fyrst og fremst ætlað að breyta lögum um heilbrigðisþjónustu til að skapa svigrúm fyrir skipan slíkrar stjórnar. Kveðið er á um hversu margir eiga að sitja í henni — og ég ætla svo sem ekkert að hafa skoðun á þeirri tölu, fimm, sjö, níu — en annað er látið eftir í reglugerð. Er það ekki? Þá erum við aftur kominn að því hver setur reglugerðir. Jú, það er ráðherra heilbrigðismála. Við einhvern veginn sitjum enn þá í þessari lúppu. Það er búið að reyna að færa þetta einhvern veginn til en við ætlum samt að vera með í þessari stjórn fagfólk og við ætlum að vera með einhverja sem hafa skilning og þekkingu á rekstri. Svo eru það áheyrnarfulltrúar starfsfólks, samanber breytingartillögu meiri hlutans, og síðan eru það breytingartillögur minni hlutans um áheyrnarfulltrúa úr hópi notenda. Þetta er allt mikilvægt, að raddir þessara fulltrúa heyrist þegar kemur að rekstri spítalans. Það er líka mikilvægt að þeir séu þarna inn í myndinni. En ég hygg samt að við sem þekkjum það af eigin raun að sitja í stjórn þar sem virkilega er ætlunin að taka á rekstri höfum ýmislegt við það að athuga raunverulega að við það borð sitji alltaf fulltrúar starfsfólks. Það liggur einfaldlega í hlutarins eðli. Ég myndi a.m.k. telja mikilvægt að einhvers konar greinarmunur sé gerður á því hvort þeir séu alltaf eða hvort þeir séu áheyrnarfulltrúar í tilteknum verkefnum eða hvort það eigi hreinlega fjölga í stjórn. Það þekkist líka að það sé stærri stjórn — hún getur þess vegna verið ellefu manna — sem er með stærri verkefnalista sem lýtur þá kannski að því sem ég er búin að vera að tala um að einhverju leyti, þ.e. aðgengi, notendum, starfsemi, skipulagi og öðru slíku og fjármálum, en síðan sé önnur — þegar ég ætla að einfalda málið fer ég eiginlega þá leið að flækja það — þá hluti af þessari stóru stjórn sem sé með kjarnareksturinn og þar séu ekki fulltrúar starfsfólks meðtaldir. Þetta er ekki endilega tillaga frá mér, langt í frá. Ég er bara að velta þessu upp af því að það sem ég sit svolítið eftir með, verandi samþykk því og á þeirri skoðun að svona stjórn geti verið af hinu góða, er að þetta er enn þá gríðarlega opið og lykilákvarðanirnar um hverjir skipa og hver verkefnalistinn er eru áfram skildar eftir í hendi ráðherra. En ég hefði t.d. haldið að stjórnin væri að taka þær ákvarðanir til sín að hluta til. Mér finnst þetta fara eilítið í hring.

Ég hlakka til umræðunnar. Ég veit að það eru töluvert margir hér á mælendaskrá, fólk sem situr í hv. velferðarnefnd, nokkuð sem ég geri ekki, þannig að ég ætla nú bara að læra af þeim sem hér hafa verið og unnið þetta mál áfram. Bara svo ég klári: Heilt yfir er ég sammála þessu máli, er hlynnt því, en hefði viljað sjá aðeins skarpari skil og skarpari línur um það hvert raunverulegt hlutverk þessarar stjórnar er og þar með og ekki síður hverjar væntingar okkar eru til þess ágóða í sinni víðustu mynd sem við og heilbrigðiskerfið okkar, og Landspítalinn, fær af skipun slíkrar stjórnar.



[18:55]
Kristrún Frostadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta tækifærið til að tala aðeins um stöðuna á Landspítalanum, kannski aðallega stöðuna sem umrædd stjórn yfir honum á að laga. Stjórnarinnar bíður náttúrlega gríðarlega erfitt verkefni ef fram fer sem horfir og þessi skipun stjórnar mun ekki laga grunnvandann á Landspítalanum sem er vanfjármögnun rekstrar spítalans. Þetta kemur mjög skýrt fram hjá stjórnendum spítalans, bæði þeim sem áður voru þar og þeim sem eru nýir. Við sáum þetta sem sitjum í hv. fjárlaganefnd síðast í umsögn þeirra um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er þar til umræðu. Auðvitað er það þannig að oft má fara betur með fjármagn og líklega er það eitt stærsta verkefni þessarar stjórnar að hafa betri yfirsýn yfir hvernig nýta má fjármuni betur. En það er ótrúlega erfitt þegar það er undirliggjandi vanfjármögnun til staðar. Við höfum séð í umsögnum um stöðuna í heilbrigðiskerfinu að það er undirliggjandi rekstrarvandi. Það er skortur á úrræðum utan spítalans. Það liggur líka fyrir að fólk er bara langþreytt og örmagna eftir Covid. Fjármögnun spítalans hefur verið ótrúlega erfið. Það er ítrekað verið að slengja fram upphæðum fjármagns sem hefur verið sett í spítalann og heilbrigðiskerfið án þess að taka tillit til niðurskurðar á sínum tíma. Við erum að vinna upp alveg ótrúlega dæld í rekstri og fjárfestingu á spítalanum, vegna aukinni hjúkrunarþyngdar vegna þess að þjóðin er að eldast og fólki er líka að fjölga. Það eru ný og dýrari verkefni sem hafa verið færð yfir á Landspítalann. Við höfum séð útreikninga sem taka tillit til þessarar hjúkrunarþyngdar, m.a. frá Gylfa Zoëga, prófessors við hagfræðideild Háskóla Íslands. Ef við lítum á svoleiðis mælikvarða, þar sem tekið er tillit til hjúkrunarþyngdar og nýrra verkefna, hefur í fjármögnun til spítalans í rauninni hrunið.

Í þeirri fjármálaáætlun sem við erum núna að skoða og snertir beint spítalann — vegna þess að þar er risastór liður sem er sjúkrahúsþjónusta sem er að nær öllu leyti, 86%, fjármögnun á Landspítalanum — er gert ráð fyrir 1,5% í árlegan vöxt í málaflokk sjúkrahúsþjónustu út tímabil fjármálaáætlunar, sem er 2027, þrátt fyrir að það sé vitað mál að þetta hlutfall, 1,5%, er langt undir nauðsynlegum raunvexti. Spítalinn hefur talað um 2,5% og segir í sinni umsögn að það sé talan sem þurfi til að koma í veg fyrir að grunnrekstrarvandi spítalans vindi upp á sig og verði, nokkuð sem stjórn á erfitt með að koma í veg fyrir. Það er vitað mál að einfaldur framreikningur í tengslum við öldrun, fólksfjölgun og hjúkrunarþyngd þýðir a.m.k. 2,5% aukningu á ári. Þannig að þetta er tölfræði sem við eigum að þekkja og hún er ekki leyst í núverandi áætlun ríkisstjórnarinnar. Þetta gerir það auðvitað að verkum að það er mjög erfitt fyrir spítalann að ráðast í neitt nema bara alger grunnverkefni. Það er sífellt verið að ausa bátinn. Síðan eru oft gerðar athugasemdir til stjórnenda spítalans um að það þurfi langtímastefnumótun og m.a. er verið að ræða um mikilvægi þess að vera með stjórn yfir spítalanum til að auðvelda slíka stefnumótun. En vandinn sem þessi stjórnvöld standa frammi fyrir ef þetta fjármögnunarlíkan heldur áfram er að þau munu bara eiga við þau verkefni að ausa vatni úr bátnum, ef þau fá ekkert öryggi til lengri tíma. Þess vegna skiptir svo gríðarlega miklu máli að samhliða svona umræðu um stjórn spítalans fari líka fram umræða um hvert stóra verkefnið í heilbrigðiskerfinu sé. Þetta vilja stjórnendur spítalans. Þeir vilja einmitt þetta svigrúm til langtímastefnumótunar vegna þess að það er svo erfitt að skipuleggja sig þegar fjármögnunin er óskýr. Þetta er lykilbreyta sem verður að horfa til. Við sjáum það bara svart á hvítu í núverandi áætlunum stjórnvalda að það mun mjög lítið breytast.

Virðulegi forseti. Um fjórðungur af rúmum á Landspítalanum er nú nýttur í öldrunarþjónustu. Það liggur hvergi fyrir samt hvert eðlilegt umfang öldrunarþjónustu á Landspítalanum ætti að vera. Það hefur verið kallað eftir því að verkefni séu skilgreind betur og það verður eflaust verkefni stjórnar að eiga það samtal við stjórnvöld, að það liggi fyrir hvað séu eðlileg verkefni sem Landspítala beri að sinna og hvaða fjármagn þurfi þá að fylgja. Landspítalinn stendur frammi fyrir því að verið er að vanfjármagna hjúkrunarheimili og uppbyggingu þeirra sem skilar sér þess vegna í meiri þrýstingi á Landspítalann. En það áhugaverða við þessa vanfjármögnun er að sparnaðurinn, hinn umræddi og svokallaði sparnaður, er auðvitað ekkert annað en frestun á útgjöldum sem vindur upp á sig. Þessi sparnaður sem fæst fram með því að sleppa því að byggja hjúkrunarrými og nýta áfram pláss á spítalanum skilar sér ekki í meira fé til Landspítalans. Þeir þurfa alltaf að taka við þeim sem til þeirra leita og ef þeir geta ekki útskrifað þá einstaklinga þá geta þeir það bara ekki. En spítalinn fær ekkert aukafjármagn til að sinna því þrátt fyrir að umræddur sparnaður sé annars staðar í kerfinu, jafn óskynsamlegur og hann er. Þetta vekur kannski einna helst athygli í samhengi við nýja skýrslu sem kom út hjá McKinsey um daginn um heilbrigðiskerfið, af því að okkur verður svo tíðrætt um þennan blessaða sparnað. Þar kom fram til að mynda að nýi Landspítalinn væri nú þegar sprunginn hvað varðar legurými — nýi Landspítalinn sem er ekki enn þá fullkláraður er nú þegar sprunginn hvað varðar legurými — ef ekki yrði fjárfest í úrræðum fyrir langtímaumönnun. Það kemur fram í skýrslunni að það þurfi að bæta við 240 úrræðum fyrir langtímaumönnun sjúklinga, eins og í heimaþjónustu, hjúkrunarrými og svo í endurhæfingu, til að spítalinn springi ekki um leið og hann opnar. Sparnaður við að ráðast í slíka aðgerð, segir McKinsey, er auðvitað sparnaður sem birtist ekki strax heldur með tíð og tíma, yrði heilt yfir fyrir heilbrigðiskerfið 1–2 milljarðar kr. og 9 milljarðar á Landspítalanum, 9 milljarðar kr. Í kringum 10% af því renna til Landspítalans á ári hverju, þeir 9 milljarðar sem gætu sparast með þessum úrræðum. Því veltir maður fyrir sér hvort þetta sé ekki einn af þeim hlutum sem hlýtur að vera tekinn til umræðu í yfirgripsmikilli yfirferð á heilbrigðiskerfinu og í samráði við vænta stjórn sem stjórnvöld eru hér að leggja til að verði skipuð, að það sé svigrúm til að ráðast í svona úrræði sem geta losað Landspítalann úr þeirri spennitreyju útgjalda sem hann er í. En það er ekkert um þetta í fjármálanefnd. Það er ekkert um þessi legurými í plönum stjórnvalda. Það er ekki tekið mið af athugasemdum frá McKinsey þrátt fyrir að þetta eigi að spara pening, marga milljarða. Raunar er það svo að eftir árið 2023 er næstum því engin fjármögnun til staðar í fjármálaáætlun stjórnvalda fyrir ný hjúkrunarrými.

Ég velti því fyrir mér hvernig þetta fellur að þeim markmiðum sem verið er að setja með umræddri stjórn, m.a. um að nýta fjármagn betur, ef kerfið spilar ekki með þegar það er vitað að það er langkostnaðarsamast að hafa fólk inni á Landspítalanum miðað við önnur legurými. Ég trúi í raun ekki öðru en að inn í 2. umr. fjármálaáætlunar, sem kemur hér fljótlega á dagskrá, komi meira fjármagn til spítalans til að ná yfir grunnreksturinn, til að draga úr umframkostnaði vegna þess að það er ekki pláss til að mynda fyrir eldri einstaklinga til að fara af spítalanum.

Við jafnaðarmenn munum auðvitað fylgjast gaumgæfilega með því hvort fjármagn komi inn í fjármálaáætlun til að standa undir byggingu þeirra hjúkrunarrýma sem lofað hefur verið af stjórnvöldum og er m.a. fjallað um í stjórnarsáttmála, af því að það er forsenda þess að m.a. það mál sem við ræðum hér í dag skili raunverulega einhverju, að hægt sé að reka spítalann með eðlilegum hætti og stjórnin geti myndað alvörutillögur til framtíðar, að ramminn í kringum heilbrigðiskerfið sé í lagi af því að Landspítalinn starfar ekki einn og sér heldur í kerfi sem þarf að virka.

Mig langar líka að vekja athygli á því sem er til umræðu í dag í hv. fjárlaganefnd og tengist málefnum Landspítalans beint og það er að Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa líka lýst áhyggjum af því að þjónustusamningar við hjúkrunarheimilin, sem er nýbúið að gera, séu ekki fullfjármagnaðir í nýjustu fjármálaáætlun. Ef þetta breytist ekki mun þetta mjög líklega hafa niðurskurð í för með sér sem mun draga úr getu þessara heimila til að taka við fólki og þar af leiðandi létta á vandanum og kostnaðinum sem er á Landspítalanum. Þannig að ég vona innilega að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. ríkisstjórn séu að líta til þessara þátta og við sjáum fjármagn koma inn í 2. umr. þess máls.

Í lokin langar mig til að segja að ég nefni þessa þætti með fjármögnunina sérstaklega vegna þess að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir í fjölmiðlum að það standi ekki á fjármagninu til að leysa vandann á spítalanum þegar fréttir um m.a. uppsagnir vegna óánægju berast. En þetta virðist ekki vera rétt, virðulegi forseti. Þetta virðist einmitt stranda á fjármagni. Við höfum fullt af punktum og athugasemdum sem snúa líka að langtímaáætlun stjórnvalda og loforðum til Landspítalans sem sýna svart á hvítu að þetta strandar á fjármagni.

Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga, virðulegi forseti, svo mál líkt og hér er rætt um í dag, stjórn Landspítalans, fái ekki þá ásýnd og þá áru að hér sé komin lausn á vanda Landspítalans og það án fjármagns. Þetta er lítill hluti af risastóru vandamáli og vandinn í heilbrigðiskerfinu og á Landspítalanum verður ekki leystur með viðbótum á jaðrinum. Það þarf alvörubreytingar.



[19:06]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir mjög yfirgripsmikla og fína ræðu. Mér fannst gott að hlusta á hv. þingmann setja þetta í það samhengi að spítalinn er auðvitað bara partur af stærra kerfi og alls konar hliðarstofnanir og annað sem vinnur með spítalanum þarf að vera í lagi. Stefnumörkunin ofan frá, stefna stjórnvalda á hverjum tíma, þarf auðvitað líka að vera í lagi til að spítalinn virki.

Hér var svolítið rætt um hjúkrunarheimilin og við höfum auðvitað verið að sjá mikið af fréttum af því að fólk komist ekki af spítalanum inn á hjúkrunarheimili af því að það vantar einfaldlega rými. Þetta er vandi sem hefur verið við lýði mjög lengi. Það er endalaust verið að tala um að gefa eigi í og bæta úr. Vandinn er að einhverju leyti þekkt stærð. En maður veltir alltaf fyrir sér þessu með efndirnar. Af því að ég hjó eftir því að hv. þingmaður var að vísa í það sem hægt er að lesa út úr fjármálaáætluninni varðandi þetta þá kannski vaknar sú spurning — af því að við höfum heyrt margar ræður, mörg viðtöl við forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, við núverandi heilbrigðisráðherra, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, þar sem lofað er bót og betrun — hvort þingmaðurinn hafi einhverja skýringu á því að efndirnar skuli ekki vera meiri en raun ber vitni. Er þetta skortur á pólitískri forystu? Talað er um fjármagn og stundum hefur verið komið með þá skýringu að það hreinlega vanti fólk til að manna hjúkrunarheimilin og annað í þeim dúr. Mig langaði kannski að inna hv. þingmann eftir því hvort þessar skýringar stjórnvalda, til að mynda um mönnun, haldi vatni eða hvort þetta sé bara ofureinfaldlega skortur á pólitískri sýn og fyrirhyggju til framtíðar.



[19:09]
Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina. Já, þetta er stóra spurningin og þetta á við svo ótrúlega margt í núverandi fjármálaáætlun stjórnvalda sem er ekkert annað en plagg sem hefur verið framreiknað miðað við fólksfjölgun, ekki einu sinni að fullu en að einhverju leyti, bara svona kerfislægar tölur. Það er eiginlega engin pólitísk stefnumótun í þessu plaggi.

Það sem kemur auðvitað á óvart er þegar maður heyrir misræmi, ekki bara í orðræðu hæstv. ráðherra út á við sem tala um að verið sé að ráðast í átak, verið sé að styrkja stöðu hjúkrunarheimila. Það er verið að stæra sig af því að settur hafi verið aukamilljarður í rekstur hjúkrunarheimila rétt fyrir jólahlé, því að þau voru að lenda í gríðarlegum vanda, í staðinn fyrir að laga bara grunnvandann. Það liggur líka fyrir í samræðum við heilbrigðisráðuneytið að þau eru jafn hissa og við að búið sé að taka þessar upphæðir út. Það lá alltaf fyrir að það ætti að vera til fjármagn fyrir uppbyggingu hjúkrunarrýma út þetta kjörtímabil vegna þess að það stendur í stjórnarsáttmála, þar er talað um að það sé langtímaplanið að bæta önnur úrræði. Vandinn er sá að fjármálaáætlun og stefna hins opinbera, þegar kemur að rekstri ríkissjóðs, er mótuð í mjög þröngum römmum í fjármálaráðuneytinu. Hún er ekki unnin með þeim hætti að fólkið sem hefur sérþekkinguna innan heilbrigðisráðuneytisins eða innviðaráðuneytisins, eða hvað svo sem á við, komi saman og kostnaðarmeti ákveðin úrræði til lengri tíma og segi: Þetta er það sem við þurfum að gera, m.a. til að spara kostnað á Landspítalanum til 10, 15, 20 ára. Þess vegna þurfum við þetta fjármagn núna. Nei, hæstv. fjármálaráðherra hefur ákveðið að útgjöld megi bara vaxa um x prósent á ári. Hann treystir sér ekki til að eiga við tekjuhliðina og þá vanfjármagnar hann einfaldlega þær nauðsynlegu beiðnir sem liggja fyrir í kerfinu. Það er einfaldlega svarið.



[19:11]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur fyrir svarið og samtalið um þetta. Nú hefur maður heyrt hæstv. fjármálaráðherra halda margar ræður, og hann gerði það ekki síst í faraldrinum, um það að vandi spítalans væri ekki skortur á fjármagni heldur starfsfólki. Það var alltaf svolítið áhugavert að heyra hæstv. ráðherra nefna þetta ítrekað. Með því virtist hann svolítið vera að fjarlægja sig ákveðnum vanda og ábyrgð. Það er auðvitað þannig að ef það skortir ekki peninga heldur bara starfsfólk er ábyrgðin engu að síður þeirra, hlýtur að vera, sem hafa ráðið yfir ríkisrekstrinum óslitið frá 2013. Sá stjórnmálaflokkur sem hefur verið meira og minna við völd hér allan lýðveldistímann hlýtur að bera ábyrgð á því fyrirkomulagi sem gerir það að verkum að fólk er ekki tilbúið til að starfa inni á þessari stórmerkilegu og frábæru og mikilvægu stofnun sem við hljótum öll að vilja hlúa að. Ég les það einhvern veginn þannig að engu máli skipti í sjálfu sér út frá ábyrgðarhliðinni hvort þetta sé skortur á fjármagni eða skortur á starfsfólki, ábyrgðin er alltaf stjórnvalda. Menn geta ekkert hoppað frá einum þættinum yfir í hinn og fríað sig þannig ábyrgð.

Ég velti því fyrir mér að það hefur líka svolítið verið talað um í þessu öllu saman að strúktúrinn almennt í spítalanum sé einhvers konar fyrirstaða fyrir því að hægt sé að ná fram betri nýtingu á fjármunum. Ég ætlaði kannski að inna þingmanninn eftir því hvort hann gæti að einhverju leyti tekið undir það sem hæstv. fjármálaráðherra hefur verið að segja, að vandinn sé einhvern veginn frekar kerfislægur inni á spítalanum en fjárhagslegur, og þá hvort hv. þingmaður sé sammála mér í því að eftir sem áður hljóti ábyrgðin að liggja hjá stjórnvöldum, hvort sem þetta er spurning um mannskap eða fjármagn.



[19:13]
Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Við höfum heyrt þetta; skortur á starfsfólki, ekki skortur á fjármagni. Auðvitað þarf maður að velta því fyrir sér hvernig okkur tókst að setja Landspítalann í þá stöðu að það þyki ekki ákjósanlegt að vinna þar fyrir marga. Við höfum líka heyrt frá stjórnendum spítalans og starfsfólki að oft er óþarflega neikvæð umræða í kringum starfsemina. Það eru margir sem eru auðvitað gríðarlega ánægðir sem starfa þarna en staðreyndin er einfaldlega sú að álagið er þess eðlis að það gerir fólki erfitt fyrir. Það sem gerist líka undir þessu mikla álagi er að fólk stendur frammi fyrir því að það skapast ofsahræðsla við að gera mistök. Fólk vill einfaldlega ekki láta bjóða sér að starfa í þannig umhverfi. Skortur á starfsfólki er að mínu mati afleiðing af langvarandi vanfjármögnun spítalans sem gerir það að verkum að vistarverur þar sem fólk er að vinna og aðstaða er ófullnægjandi. Það gerir það líka að verkum að fólk þarf að hlaupa hraðar þar sem það er, sem gerir það að verkum að álagið eykst og fólk hefur síður áhuga á að vinna þarna. Það er langtímaverkefni að fá fleira fólk til að sýna þessu áhuga. Þetta snýst þó ekki bara um útskrifaða einstaklinga í heilbrigðiskerfinu. Við vitum til að mynda að það eru einhver hundruð hjúkrunarfræðinga sem eru með hæfnina, menntunina og þekkinguna til að starfa á spítalanum en hafa kosið að gera það ekki. Í því samhengi hljótum við að hugsa til launakjara, álags og möguleika fólks á að vinna þá bara einfaldlega aðeins minna fyrir svipuð laun sem er það sem hefur verið reynt að gera með betri vaktavinnutíma. En það hefur heldur ekki verið fjármagnað.

Ég hef ekki tök á að fara í lengra máli yfir þetta svar en ég held að í grunninn hljótum við að velta því fyrir okkur að þó að fjármagn muni aldrei leysa allt getur þú lent í hnút sem aðeins fjármagn mun a.m.k. höggva á. Raunveruleg fjárfesting þarf þannig að skila sér í betri starfsskilyrðum fólks.



[19:16]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. „Ástandið síðustu vikur hefur verið verra en nokkurn tíma í sögu bráðamóttökunnar, fleiri bíða innlagnar á sama tíma og það kvarnast upp úr hópi starfsfólks.“

Þetta eru orð Hjalta Más Björnssonar, starfandi yfirlæknis á bráðadeild Landspítala, höfð eftir honum á einum netmiðlanna. Hann segir að alger skortur sé á legudeildarrýmum fyrir fólk sem þurfi að komast að, að tugir sjúklinga þurfi að bíða á bráðamóttökunni í óhæfilegan tíma. Þetta eru ekkert nýjar fréttir þannig séð, við heyrum þessi neyðaróp á nokkurra vikna eða nokkurra mánaða fresti. Við erum eiginlega orðin svo vön þessu að maður er hættur að kippa sér upp við fyrirsagnir um þetta.

Ef við skoðum tölurnar aðeins þá ættu þessi neyðaróp ekki að koma neinum á óvart. Nú er það þannig að á undanförnum árum og áratugum hefur sjúkrarýmum fækkað jafnt og þétt miðað við íbúafjölda á Íslandi. Þau voru 335 árið 2007 á hverja 100.000 íbúa, en árið 2019 voru þau 227. Þetta gerðist á meðan hlutfall eldra fólks, hópsins sem helst þarf á sjúkrahúsþjónustu að halda, fór úr 11,5% af heildaríbúafjölda á Íslandi upp í 14,2%. Þetta gerðist líka á sama tíma og sprenging varð í komu ferðamanna til landsins, sem olli auðvitað stórauknu álagi á bráðamóttöku Landspítalans, sérstaklega á sumrin, eins og við sjáum núna. Um leið hefur uppbygging hjúkrunarrýma setið á hakanum, rekstur hjúkrunarheimila verið vanfjármagnaður, eins og við fengum svo ítarlega skýrslu um bara núna í fyrra, rúmanýting á sjúkrahúsum hefur verið um og yfir 100%. Þannig var þetta meira að segja löngu fyrir heimsfaraldurinn. Ísland er í hópi þeirra Evrópuríkja þar sem gjörgæslurúm eru fæst miðað við mannfjölda og í hópi Evrópuríkja þar sem rúmanýtingin á spítölum er mest. Þetta liggur allt saman fyrir.

Það sem ég var að telja upp er ekki til marks um einhvern ægilegan stjórnunarvanda á spítalanum. Það vitnar fyrst og fremst um skort á fjármagni og skort á starfsfólki. Ef við skoðum bara raunframlög inn í rekstur Landspítalans miðað við íbúafjölda sjáum við að þau hafa varla haggast á undanförnum árum. Þetta er auðvitað það sem þarf að líta til. Það er ekki hægt að skoða bara einhverja nafnvirðishækkun og taka hana algjörlega úr sambandi við alla undirliggjandi þætti, fjölda íbúa og annað. Starfsfólk finnur þetta á eigin skinni, þannig að það er engin tilviljun að við heyrum neyðaróp svona reglulega. Það er einfaldlega verið að fjársvelta heilbrigðiskerfið okkar. Við erum ört stækkandi samfélag sem verður flóknara og flóknara, en nýjar og nýjar áskoranir í heilbrigðismálum og fjárframlögin inn í kerfið endurspegla það einfaldlega ekki.

„Get ekki horft upp á þetta lengur“, segir bráðahjúkrunarfræðingur á Facebook. Hún lýsir ómanneskjulegu álagi og aðstæðum þar sem engin leið er að sinna sjúklingum með viðunandi hætti. „Hef beðið og vonað að hlutirnir breytist og lagist en þetta versnar bara“, skrifar hún. Hún sagði upp og getur ekki meir.

Hún er ekki sú eina. Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir á bráðamóttöku, skrifar:

„[H]ið langvinna álag og samviskubit yfir að geta ekki sinnt sjúklingum sem [leita á bráðamóttökuna], með sómasamlegum hætti hrekur burtu fleiri og fleiri af mínum frábæru samstarfsmönnum.“

Hvernig bregst ríkisstjórnin við svona ástandi, þessu ástandi sem ítrekað er varað við og bent á? Er ríkisstjórnin að ráðast mjög skipulega að rótum útskriftarvandans á Landspítalanum með því t.d. að fjölga hjúkrunarrýmum eða ráðast í byltingu í heimaþjónustu og heimahjúkrun? Sjáum við peningana fara þangað? Sjáum við meiri háttar umbætur hér til þess að leysa þennan útskriftarvanda, sem svo er kallaður? Sjáum við t.d. stóruppbyggingu á fjölbreyttum búsetuúrræðum fyrir eldra fólk? Sjáum við aukin stofnframlög t.d. renna inn í eitthvað slíkt? Nei. Er ríkisstjórnin að ráðast í stórátak til að bæta starfsaðstæður, aðstæður í heilbrigðiskerfinu og gera það eftirsóknarvert fyrir heilbrigðismenntað fólk að vinna á Íslandi? Nei. En er þá verið að stórauka fjárframlög til heilbrigðiskerfisins, og þá ekki bara að auka útgjöld í fjárfestingarþáttinn heldur líka inn í reksturinn sjálfan og hverfa þannig frá þeirri fjársveltistefnu sem ég var að lýsa hérna þar sem raunframlög haggast varla miðað við íbúafjölda? Nei. Kannski trúa ráðherrarnir því ekki að þetta sé stóri vandinn; skortur á fjármunum, mönnunarvandi. Kannski hafa þau bara bitið það svolítið í sig að þetta sé fyrst og fremst skipulagsvaldið, stjórnunarvandi. Þá verður að koma fram annars vegar mjög sterkur rökstuðningur fyrir því að sú sé raunin og hins vegar eitthvert plan um að leysa það og stokka upp í kerfinu.

Þetta frumvarp hér í dag gerir náttúrlega ekkert slíkt og það dugar ósköp skammt. Ef ástæðan fyrir úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar er sú að þau líta bara á þetta sem stjórnunar- og skipulagsvanda er þetta frumvarp hér í dag ósköp aumt viðbragð við því. Ég held jafnvel að það séu atriði í þessu frumvarpi sem orki tvímælis og veki spurningar um hvort flækjustigið við stjórnun spítalans geti jafnvel aukist. Landspítalinn sjálfur bendir á það í umsögn sinni að stjórnkerfi stofnunarinnar verði að vera skýrt, verkaskiptingin skýr og ábyrgðarsviðin skýr. Þar segir enn fremur:

„Almennt má segja að með því að setja sérstaka stjórn yfir stofnun aukist hættan á að ábyrgðarsvið verði óskýrari og má í því samhengi benda á að skv. 1.gr. frumvarpsins skal stjórnin taka ákvörðun um veigamikil atriði er varða rekstur og starfsemi spítalans en forstjóri ber ábyrgð á rekstrarútgjöldum og afkomu skv. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá lengjast boðleiðir innan spítalans og á milli ráðherra og forstjóra. Að hluta má takast á við óljós ábyrgðarsvið og langar boðleiðir með erindisbréfum stjórnar og forstjóra og skipuriti stofnunarinnar en þó aldrei nema að hluta, sbr. 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Skýra þarf því vel hvar vald og ábyrgð ráðherra, stjórnar og forstjóra liggur.“

Þetta segir í umsögn Landspítalans. Ég verð að segja að ég get ekki séð við lestur nefndarálitsins frá meiri hluta nefndarinnar að tekið sé eitthvað sérstaklega á þessum atriðum eða að þessi atriði séu miklu skýrari eftir hina þinglegu meðferð þessa frumvarps. Eins er alveg ljóst að þau viðfangsefni og ákvarðanir sem munu heyra undir stjórn spítalans krefjast mjög svo yfirgripsmikillar þekkingar á starfsævinni og bara þessu samspili mismunandi þjónustuþátta innan og utan spítalans. Við hljótum að vilja að reynslan af þessu og þekkingin sem getur byggst upp varðveitist og haldist að einhverju leyti innan stjórnarinnar. Þá veltir maður fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að skipunartíminn sé lengri en tvö ár, hvort ekki sé hætt við of tíðum stjórnarskiptum og skiptum á stjórnarmönnum.

Ég vil líka víkja aðeins að umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar sem leggja áherslu á að í stjórn Landspítala sitji fulltrúar notenda. Þar segir:

„Það verður að teljast gamaldags viðhorf að í frumvarpi heilbrigðisráðherra sé gert ráð fyrir tveimur fulltrúum starfsmanna í stjórn spítalans en engum fulltrúa notenda. Því miður hefur ekki verið hlustað á raddir notenda í gegnum árin sem aftur hefur gert þjónustuna verri og tafið fyrir bata fjölda einstaklinga. Að undanförnu höfum við heyrt fréttir af málum þar sem ekki var hlustað á notendur heilbrigðiskerfisins með sorglegum afleiðingum. Þessi mál hafa komið upp á ýmsum deildum og stigum heilbrigðisþjónustunnar og eru til marks um hve mikilvægt það er að hverfa frá stefnu valdaójafnvægis á milli notenda þjónustunnar og þeirra sem veita þjónustuna í kerfinu.“

Ég held að óhætt sé að taka undir þetta og styðja að sjálfsögðu breytingartillögu fulltrúa minni hlutans þess efnis að ráðherra skuli ekki aðeins skipa tvo áheyrnarfulltrúa úr hópi starfsmanna Landspítalans heldur einnig fulltrúa úr notendaráði með málfrelsi og tillögurétt.

Ég vil svo rétt ítreka hér sjónarmið sem ég setti fram í fyrri umræðunni um þetta mál um að það er í raun löngu tímabært að koma líka upp innri endurskoðun hjá Landspítalanum. Þetta er stærsti vinnustaður landsins, það eru hátt í 6.000 manns sem vinna hjá spítalanum, árlegar fjárveitingar ríkisins til Landspítalans slaga hátt upp í 100 milljarða. Það er ekki að ástæðulausu sem Ríkisendurskoðun hefur trekk í trekk gert athugasemdir við að enginn innri endurskoðandi skuli vera hjá Landspítalanum. Ég hefði kannski talið eðlilegt núna þegar við erum líklega í þann mund að afgreiða út úr þinginu frumvarp um stjórn yfir Landspítalanum að við myndum þá nota ferðina og setja líka inn ákvæði um innri endurskoðun, skipun endurskoðunarnefndar, skipun innri endurskoðanda til að stuðla þá að kerfisbundnu og óháðu eftirliti með starfsemi stofnunarinnar. En ekki virðist hafa náðst nein samstaða um eitthvað slíkt í velferðarnefnd.

Hér grunar mig reyndar að vandamálið sé kannski líka það að hæstv. fjármálaráðherra hefur um margra ára skeið, alveg síðan lög um opinber fjármál voru sett — voru þau ekki sett 2015 og tóku gildi 2016 — heykst á því að fylgja eftir reglugerðarheimild í lögunum sem lýtur að samræmdu innra eftirliti hjá ríkisaðilum. Það er auðvitað mjög bagalegt ef þetta tefur það núna að komið sé upp einhvers konar innri endurskoðun og innra eftirliti út frá einhverjum samræmdum stöðlum hjá svona risastórri stofnun sem heldur á svo miklum fjármunum þar sem svo gríðarlega miklir hagsmunir eru undir og mikilvægt að peningar séu nýttir sem allra best.



[19:29]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þetta er áhugavert mál. Þegar við erum að ræða nákvæmlega þetta mál þá hljótum við auðvitað að tala um stærri myndina í leiðinni. Það er ástæða fyrir því að menn eru endalaust að slást við þá hugmynd hvernig best sé að koma málum fyrir þegar kemur að spítalanum okkar, þessari stóru og sjálfsagt að margra mati mikilvægustu stofnun landsins. Það hefur gengið á ýmsu með þessa stofnun í gegnum tíðina og heilbrigðiskerfið okkar í heild sinni. Við erum að takast á um þessa hluti í pólitíkinni á hverjum einasta degi. Það sem ég myndi vilja leggja fyrst inn í þessa umræðu er að við getum auðvitað verið gríðarlega þakklát fyrir það, hvort sem okkur finnst kerfið okkar vera rétt upp byggt eða ekki eða hvernig sem fjármögnun þess er háttað eða annað, að við eigum a.m.k. starfsfólk í kerfinu sem er algjörlega á heimsmælikvarða. Flestir þeir sem hafa þurft að nýta sér þjónustu spítalans — svo að við tökum hann sérstaklega fyrir —lýsa því, óháð aðstöðunni sem slíkri eða skorti á fjármagni sem æpir á mann í hverju horni, að þegar fólk leitar þangað inn, stundum á erfiðustu stundu lífsins, þá sé vilji starfsfólks til að gera vel alltaf mjög mikill. Við eigum að vera mjög þakklát fyrir það.

Einmitt þess vegna hljótum við að velta því fyrir okkur hversu öflug stjórn þarf að vera til að takast á við það sem ég vil meina að sé ákveðinn grunnvandi í þessu, hvort sem það kemur til út af fjármagni eða ekki, að fólk er út um alla stofnun að kikna undan álagi. Það fæst ekki til að að vinna lengur, það er að segja upp.

Ég gerði það að gamni mínu þegar ég var að fara í þessa umræðu að ég tók bara fréttir síðasta sólarhringinn um ástandið á spítalanum. Mjög mikla athygli vakti færsla sem Soffía Steingrímsdóttir hjúkrunarfræðingur skrifaði á Facebook og fjölmiðlar fluttu síðan fréttir upp úr og tóku viðtöl þar sem var verið að lýsa álaginu.

„Fjórir sögðu upp í dag: „Við erum búin að hrópa og kalla og biðja um hjálp.““ — Það er fyrirsögnin.

„Fjórir hjúkrunarfræðingar sögðu í dag upp störfum á bráðamóttöku vegna álags. Ein þeirra segir algjört ráðaleysi í heilbrigðismálum. Manneklan sé gríðarleg og hún telur ljóst að staðan eigi eftir að versna. Heilbrigðisráðherra segir að byggja þurfi upp innviði og styðja við þá takmörkuðu auðlind sem heilbrigðisstarfsfólk er. Mikil áskorun sé þó fram undan.“

Þarna orðar hæstv. heilbrigðisráðherra hugsun sína örugglega frekar varlega. Það er meiri háttar vandi sem blasir við þessari stjórn og það hlýtur að eiga að vera hennar helsta verkefni sem faglegrar rekstrarstjórnar að taka á þessu. Þar komum við að fjármagni, þar komum við að strúktúrnum og uppbyggingu spítalans í heild sinni og svo kannski bara þeirri mannauðsstefnu sem þarf að byggja þar upp, að fólk sem hefur þá köllun að vilja vinna í heilbrigðiskerfinu og á spítalanum geti sinnt því starfi þannig að sómi sé að án þess að að keyra sig út á fáeinum árum vegna álags og jafnvel fyrir laun sem eru ekkert sérstök. Það er kannski hryggjarstykkið í því sem blasir við þessari stjórn. Við getum svo farið fram og til baka með það hvernig eigi að manna slíka stjórn.

Í greinargerðinni kemur fram, með leyfi forseta:

„Markmið frumvarpsins er að styrkja stjórn stærstu heilbrigðisstofnunar landsins, Landspítala, með því að veita lagastoð fyrir því að stjórn verði skipuð yfir spítalann sem gegni því hlutverki að tryggja frekari faglegan rekstur spítalans.“

Svo var litið til stjórnskipulags sjúkrahúsa á hinum Norðurlöndunum og þar voru hlutir auðvitað með misjöfnum hætti eins og rakið er í greinargerðinni. Síðan segir í greinargerðinni:

„Helstu nýmæli sem felast í frumvarpinu eru að stjórn verði sett á stofn yfir Landspítala. Stjórninni verði ætlað að eiga ríkt samstarf við forstjóra stofnunarinnar sem og ráðherra heilbrigðismála um stefnu og rekstur stofnunarinnar. Stjórninni er ætlað, í samráði við forstjóra, að marka stofnuninni langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum. Henni er einnig ætlað að yfirfara árlega starfsáætlun hennar og ársáætlun og leggja sjálfstætt mat á þær og þau markmið og mælikvarða sem þar eru sett fram og gera ráðherra grein fyrir mati sínu innan tveggja vikna frá því að ársáætlun hefur verið lögð fyrir ráðherra til samþykktar. Þá er stjórninni ætlað að taka afstöðu til ákvarðana sem eru mikils háttar eða óvenjulegar í starfsemi stofnunarinnar, svo sem varðandi skipurit stofnunarinnar.“

Það er því greinilegt að þarna á að taka til hendinni og fara svolítið djúpt ofan í málin og við hljótum að fagna því.

Ég nefndi áðan frétt af bráðamóttökunni og gleymdi í því samhengi að nefna að þar var líka viðtal við Hjalta Má Björnsson yfirlækni sem margoft hefur komið í fjölmiðla og talað um ástandið bara á þeirri deild. „Ástandið hið versta í sögu bráðadeildar“ — en þessa fyrirsögn sjáum við alltaf aftur og aftur. Niðurstaðan í þeirri frétt var eiginlega að ástandið væri að versna. „Við höfum verið að fækka sjúkrarúmum á meðan fólki fjölgar.“

Þetta er kannski stóra verkefnið sem blasir við þegar þessi stjórn á að taka til starfa. Auðvitað þarf hún síðan að hafa almennilegt, svo að ég sletti nú, „back up“ frá stjórnvöldum sem þurfa þá svolítið að hlusta eftir því þegar verið er að greina og leggja mat á það hvers konar fjármunum stofnunin hefur yfir að ráða. Ég ætla að fullyrða það hér að þegar ráðamenn og ráðherrar í ríkisstjórninni hafa komið fram og talað um að vandi spítalans sé ekki fjárhagsvandi heldur eitthvað annað, mönnunarvandi eða eitthvað slíkt, þá er það mikil einföldun á málinu.

Eins og ég rakti í andsvari áðan þá er ábyrgðin á ástandinu í sjálfu sér alltaf á sama stað, hvort sem það er fjármagnið eða mönnunin. Hún hlýtur að vera mikil hjá heilbrigðisráðherra á hverjum tíma, hjá forsætisráðherra, stjórnvöldum og auðvitað hjá fjármálaráðherra á hverjum tíma. Ég minni á að þeir þrír flokkar sem fara núna með stjórn landsins hafa verið í því hlutverki í fimm ár, síðan árin á undan Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur og sami einstaklingur og sami flokkur hefur verið með fjármálaráðuneytið óslitið frá árinu 2013. Það er því alveg skýrt hvar ábyrgðin á ástandinu liggur. Þess vegna er það svolítið dapurlegt, bæði þegar við erum að ræða þetta mál og auðvitað önnur, að það skuli alltaf einhvern veginn vinnast þannig að menn séu meðvitaðir um vandann og vilji gera betur og betur en árin hlaðist síðan upp og vandinn leysist ekki. Auðvitað er það svo, svo að við séum nú sanngjörn, að við finnum aldrei hið fullkomna heilbrigðiskerfi en við getum gert svo miklu, miklu betur. Ég ætla því alveg að vera jákvæður gagnvart því að þessi stjórn sem til stendur að skipa yfir spítalann geti verið gæfuspor.

Í greinargerðinni er rakið að það er svolítið verið að hringla með þetta fram og til baka og verði þetta að veruleika erum við aftur að fara í það sem gilti að einhverju leyti á árum áður. Ég held að þetta snúist hins vegar alltaf um að svona stjórn getur ekkert gert ef hún hefur ekki stjórnvöld, ríkisstjórn, heilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, sem hafa djúpan og góðan skilning á þeim vanda sem blasir þarna við.

Ég vildi gjarnan nefna líka í þessu samhengi að auðvitað fylgja umsagnir þessu frumvarpi og ég trúi því og treysti að velferðarnefnd hafi vandað sig mjög við vinnuna í nefndinni. Ég vil gjarnan staldra svolítið við umsögn Landssamtakanna Geðhjálpar. Ástæðan fyrir því að ég staldra þar sérstaklega við er skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi, svo að ég fari aðeins í gegnum það, en þar kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu, eftir nokkuð góða skoðun — og við eigum eftir að ræða þá skýrslu hér í þinginu í næstu viku, held ég að séu áform um, þetta snýr ekki bara að spítalanum en hann er auðvitað hluti af þessu — að vægi geðheilbrigðisþjónustu aukist ár frá ári innan heilbrigðiskerfisins en fjármagnið fylgi ekki — það var nú ein stór niðurstaða — og að gatið þar á milli sé alveg himinhrópandi stórt. Stefnumótun í málaflokknum hefur verið rýr. Verið er að gera alls konar aðgerðaáætlanir, úttektir og skýrslur og árangur af því hefur verið ófullnægjandi. Það eru grá svæði hér og þar í geðheilbrigðisþjónustunni; mannekla, skortur á sérhæfðu starfsfólki, biðlistar, margir sem búa við skert aðgengi að þjónustunni, — ég er nú að hlaupa yfir þetta og árétta að þetta snýst auðvitað ekki bara um spítalann heldur kannski geðheilbrigðiskerfið í heild sinni — það er skortur á hjúkrunarfræðingum og geðlæknum og verkefnum fjölgar eins og ég rakti. Það væri hægt að halda enn lengri ræðu um þetta allt saman.

Í því ljósi langar mig að nefna það sem Geðhjálp nefnir í umsögn þegar kemur að stjórn spítalans. Hún nefnir að þar sitji fulltrúar notenda. Ég vitna orðrétt í umsögnina:

„Það verður að teljast gamaldags viðhorf að í frumvarpi heilbrigðisráðherra sé gert ráð fyrir tveimur fulltrúum starfsmanna í stjórn spítalans en engum fulltrúa notenda. Því miður hefur ekki verið hlustað á raddir notenda í gegnum árin“ — sem er auðvitað ástæðan fyrir því að ég nefni þetta með skýrslu Ríkisendurskoðunar— „sem aftur hefur gert þjónustuna verri og tafið fyrir bata fjölda einstaklinga.“

Það er auðvitað gríðarlega alvarlegt að heyra „tafið fyrir bata fjölda einstaklinga“ vegna þess að ekki er hlustað á notendur kerfisins. Þetta hljótum við að þurfa að hlusta svolítið vel á.

Síðan segir áfram: „Að undanförnu höfum við heyrt fréttir af málum þar sem ekki var hlustað á notendur heilbrigðiskerfisins með sorglegum afleiðingum. Þessi mál hafa komið upp á ýmsum deildum og stigum heilbrigðisþjónustunnar og eru til marks um hve mikilvægt það er að hverfa frá stefnu valdaójafnvægis á milli notenda þjónustunnar og þeirra sem veita þjónustuna í kerfinu.“

Svo er verið að leggja fram breytingar. Tillaga Geðhjálpar er að ráðherra skipi sjö manna stjórn Landspítala og tvo til vara til tveggja ára í senn.

„Skal einn skipaður formaður stjórnar og annar varaformaður. Tveir stjórnarmanna skulu vera a) fulltrúi starfsmanna og b) fulltrúi notenda báðir þessir stjórnarmenn eru með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar. Fulltrúi notenda er valinn af notendaráði …“

Auðvitað getum við, eins og ég sagði í upphafi, farið lengi yfir það hvernig best er að skipa svona stjórn en einmitt vegna þess hve staða geðheilbrigðismála er bágborin í kerfinu okkar og inni á spítalanum líka vil ég a.m.k. leggja það til að við hlustum sérstaklega eftir því sem Geðhjálp hefur að segja í þessu. Þetta er auðvitað ekki bara sá sjúklingahópur sem upplifir að reynsla notenda kerfisins sé kannski ekki virt eins mikils og gera ætti þegar við erum að velta fyrir okkur hvernig kerfin eiga að vera uppbyggð. Þessi kerfi eru fyrir notendur þjónustunnar. Kerfin eiga ekki að þjóna starfsmönnum, starfsstéttum, yfirstjórn eða einhverjum óræðum pólitískum markmiðum ef þau eru önnur en að gera kerfið gott fyrir notendurna. Í því ljósi myndi ég gjarnan vilja nefna breytingartillögu sem liggur fyrir og kemur frá Oddnýju G. Harðardóttur, Guðmundi Inga Kristinssyni, Halldóru Mogensen og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur.

„Jafnframt skal ráðherra skipa tvo áheyrnarfulltrúa úr hópi starfsmanna Landspítalans og einn fulltrúa úr notendaráði með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar.“ — Svo að það sé nú allt saman nefnt.

Ég satt best að segja vona heitt og innilega að hvort sem þessi stjórn verður til bóta eða ekki, og ég ætla kannski að gera það að því síðasta sem ég segi í þessari ræðu, fari ríkisstjórnin að taka alvarlega að ástandið í heilbrigðismálum þjóðarinnar er ekki nógu gott. Það þýðir ekki að tromma upp fyrir kosningar, eins og t.d. var gert fyrir síðustu kosningar, og tala um að blásið hafi verið til stórsóknar í geðheilbrigðismálum. Við erum bara með gögn og úttektir sem sýna fram á að það er ekki reyndin, það er langur vegur frá. Þar vil ég meina að menn hafi verið að skreyta sig með stolnum fjöðrum, upplognum fjöðrum getum við alveg sagt. Við opnum ekki fjölmiðil, horfum ekki á sjónvarp, fréttatíma, lesum ekki blað eða flettum vefmiðli öðruvísi en að þar séu einhverjar sögur innan úr kerfinu okkar sem eiga ekki að vera. Við eigum ekki að hafa svona mikla þolinmæði fyrir því án þess að grípa til alvarlegra aðgerða.

Það var ágætt að heyra mál hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur sem kom svolítið inn á kjarnann í þessu öllu sama, forvitnileg ræða sem hv. þingmaður flutti hér áðan, og var þá að tala um hvað væru lítil merki í fjármálaáætlun um að menn bæru skynbragð á hvað vandinn væri mikill og hversu mikið þyrfti að gefa í til þess að betur mætti fara. Það á auðvitað við um spítalann og það á auðvitað við um heilbrigðisstofnanir úti á landi og önnur stig heilbrigðisþjónustunnar en bara spítalann. Í því samhengi var nefndur skortur á hjúkrunarrýmum, sem einn og sér er auðvitað gríðarlegur vandi og hefur margoft verið bent á en virðist lítið ganga að bæta úr en er einmitt sá vandi sem er kannski ein helsta ástæðan fyrir því að greinar eins og ég var að vitna til áðan birtast í blöðunum þegar allt teppist inni á bráðadeild aftur og aftur, fólk liggur í öllum skúmaskotum, margir í hverju herbergi, inni á göngum og alls staðar, vegna þess að ekki er hægt að koma fólkinu áfram yfir á yfirfullar deildir sem svo eru yfirfullar vegna þess að ekki er hægt að koma fólki yfir í önnur úrræði. Þetta er auðvitað bara keðja. Þegar einn hlekkur keðjunnar er ekki í betra lagi þá auðvitað hefur það áhrif á allt hitt.

Mér finnst, þegar við erum að ræða það mál sem núna liggur fyrir, velta fyrir okkur hvernig best sé að stýra Landspítalanum með stjórn og þá hvernig eigi að skipa þá stjórn, að eftir höfðinu dansi limirnir. Það er til lítils að fara í svona breytingar ef ekki er vitneskja á æðstu stöðum og áform um það og skilningur meðal ráðamanna þjóðarinnar á því að vandinn er gríðarlega alvarlegur. Það að verið sé að byggja nýjan spítala mun svo sannarlega ekki leysa allan vandann þótt að sjálfsögðu vonumst við til þess að eitthvað lagist.

Ég ætla aftur að koma að því sem ég nefndi hér áðan. Mér finnst að stóri vandinn og stóra úrlausnarefnið hjá þessari stjórn hljóti eiginlega að vera að finna út úr því hvernig hægt er að gera vinnuumhverfið þarna manneskjulegra þannig að við séum ekki að sjá þessar fréttir dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár; Fjórir sögðu upp í dag: Við erum búin að hrópa og kalla og biðja um hjálp. Þetta er heilbrigðiskerfið okkar að einhverju leyti í hnotskurn. Auðvitað er margt gott þar en við viljum ekki sjá svona fréttaflutning dag eftir dag og viku eftir viku.

Það er orðið tímabært að stjórnvöld vakni til vitundar um að ástandið er grafalvarlegt, að menn geri gangskör í því að auka fjárveitingar til bæði spítalans og annarra anga kerfisins. Ég vil árétta það sem ég sagði áðan, mér finnst að geðheilbrigðismálin hljóti að vera eitt það sem menn þurfa að horfa sérstaklega vel til og þá í samhengi við þessa skýrslu sem við ætlum að ræða í næstu viku, vona ég að sé rétt.



[19:48]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmari Guðmundssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu um þetta mál, að skipa stjórn yfir Landspítalanum. Þingmaðurinn fór yfir víðan völl og talaði um vanda heilbrigðiskerfisins sem er búinn að vera mikill lengi og fer vaxandi. Ég var líka í andsvari áðan við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur og fagnaði þessu skrefi vegna þess að það tónar alveg við þingmál sem við fluttum hér í mínum flokki árið 2020, um að skipa sjö manna stjórn yfir Landspítalanum, þar sem við lögðum til að æðsta vald innan Landspítala yrði í höndum fjölskipaðrar stjórnar með sterkri aðkomu fagstétta. Það er alveg sama hvaðan gott kemur. Nú er ríkisstjórnin komin með það mál og ég fagna því. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns með andakt og eins hlustaði ég á ræðu hv. þm. Jóhanns Páls Jóhannssonar og hann talaði um að innri endurskoðun væri ábótavant í þessu. En ég heyrði ekki hjá hv. þm. Sigmari Guðmundssyni hverju mætti að bæta við þetta skref nema þá meira fé, það væri ekki eingöngu stjórnunarvandi sem væri vandamálið. Menn hafa alltaf verið að reyna að finna út hvað sé aðalvandinn. En þá spyr ég þingmanninn: Hverju hefði þingmaðurinn viljað bæta við? Ég heyrði ekki betur en að hann væri sammála frumvarpinu. Hverju hefði hann viljað bæta við?



[19:50]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Eins og ég tók fram í ræðu minni þá finnum við seint upp hið fullkomna heilbrigðiskerfi. Og eins og vitnað er til í greinargerðinni með þessu frumvarpi þá litu menn til Norðurlandanna og sjá það að fyrirkomulagið þar er með ýmsu móti. Það eru ekki allir með það sama. Ég veit í sjálfu sér ekki endilega hvað er best að gera, en sú hugmynd sem kemur fram í frumvarpinu finnst mér vera góðra gjalda verð. Hvers konar einstaklingar nákvæmlega eiga síðan að setjast í stjórnina eða hvort notendur eigi að hafa þar fulltrúa inni, starfsmenn og annað, það má auðvitað ræða fram og til baka. Ég tel reyndar gríðarlega mikilvægt að notendur eigi þar sinn fulltrúa. Í frumvarpinu stendur:

„Í stjórn skulu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu og vísindarannsóknum á heilbrigðissviði og menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar.“

Þetta hlýtur að segja manni að verkefni og verksvið stjórnarinnar er býsna vítt þannig að grunnhugmyndin í þessu er auðvitað eitthvað sem ég fellst mjög eindregið á. Ég held að það sé brýnt a.m.k. að breyta kerfinu þarna innan húss af því að við höfum séð að það hefur ekki gengið upp. Menn hafa talað um að forstjóri spítalans sé stundum svolítið einn þarna úti á akrinum og hann vanti kannski meira formlegt „back up“ að einhverju leyti. En auðvitað er það líka þannig að það vantar fjármagn og ef það er ekki bara spurning um fjármagn til þess að laga þá stöðu sem uppi er varðandi starfsmannavanda, fólk er þarna örmagna inni á mörgum deildum og segir upp í stórum stíl og annað, þá er það nokkuð sem þarf að bæta. Það hlýtur að vera á verksviði þessarar stjórnar að fara svolítið „grundigt“ ofan í það. En allar svona tillögur og hugmyndir eru til rosalega lítils ef höfuðið sjálft, ríkisstjórnin, fjárveitingavaldið og stefnumótunin þar uppi fylgir ekki með. Það er svo einfalt.



[19:53]
Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er honum hjartanlega sammála um að ábyrgðin liggur hjá stjórnvöldum. Þingmaðurinn kom líka inn á það í ræðu sinni að í sambandi við geðlækningar hefði Geðhjálp verið með álit á þessu. Ég hef einmitt hlustað vel eftir því hvað það ágæta félag hefur að segja, og mér hefur fundist vera tónn þar inni sem klingir bjöllum um að einhvers konar grasrótarsamtök eða grasrótaraðferð myndi hjálpa mikið til á geðsviðinu líkt og virkar vel í fíknimeðferðum. Að það sé ekki bara eitthvað sem er mjög formfast og lítið á tilfinningasviðinu, heldur sé einnig fyrir hendi samband sjúklings við þann sem er að hjálpa honum, að það tóni saman. Ég er með þá sýn að geðsviðið myndi virka vel í bland við einkarekið kerfi, eins og sýnir sig í heilbrigðiskerfinu víða úti um heim, að einkarekið og ríkisrekið heilbrigðiskerfi er það sem kemur einna best út. Þess vegna ætti það líka að virka í sambandi við geðsviðið. Ég er í raun og veru ekki með neina beina spurningu vegna þess að þær eru svo margar, en ég þakka fyrir það sem komið er.



[19:55]
Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanninum kærlega fyrir þetta innlegg. Hann tæpti á tveimur atriðum sem ég myndi gjarnan vilja nýta tækifærið til að fara aðeins yfir. Já, ég er svo hjartanlega sammála því að gott heilbrigðiskerfi getur nýtt krafta einkaframtaksins. En það verður ekki gert öðruvísi en að við séum með einhverja öfluga stofnun, eins og til að mynda Sjúkratryggingar, sem hefur þá öflugt eftirlitshlutverk og að það sé algerlega á hreinu hvers konar þjónustu verið er að kaupa af einkaaðilum og hvað verið er að borga fyrir hana. Það þarf að vera ótrúlega mikið gegnsæi í þessu til að viðhalda traustinu sem þarf að vera af því að þetta er svo viðkvæmt þegar við erum að veita heilbrigðisþjónustu. Þetta er auðvitað ekki eins og hvaða þjónusta sem er. Og af því að hv. þingmaður nefndi fíknisjúkdómana þá erum við með dæmi um það þar að einkarekstur hefur reynst að mínu mati mjög vel. Þetta sem Geðhjálp er að segja, sem rímar ágætlega við það sem var rætt hér, er að það hafi ekki verið hlustað á raddir notenda í gegnum árin — grasrótin, getum við sagt, hefur svo mikið að segja. Hvort hún á að hafa einhverja faglega, formlega stöðu inni í spítalanum sjálfum veit ég ekki, en við hljótum alltaf að hlusta eftir því sem hún segir. Við hljótum að taka mark á umsögn eins og hér liggur fyrir, að það sé ekki verið að hlusta á notendur heilbrigðiskerfisins. Þannig að einhvers konar grasrótarstarfsemi og einhverjir sem eru mögulega nær notendum o.s.frv., þessar raddir þurfa að eiga greiða leið inn í stjórn spítalans og auðvitað bara til okkar allra. Við hljótum að meta kerfið og gæði þess út frá því hvernig notendurnir upplifa það og hvers konar þjónustu þeir fá.