152. löggjafarþing — 92. fundur
 15. júní 2022.
vistmorð, síðari umræða.
þáltill. AIJ o.fl., 483. mál. — Þskj. 697, nál. 1330 og 1334.

[23:01]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um þingsályktunartillögu um vistmorð. Í stuttu máli leggur meiri hlutinn til að þingsályktunartillögunni verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Það gerum við á þeim forsendum að um er að ræða mjög áhugavert mál, virkilega áhugavert mál og greinargerð vel unnin.

Þannig er mál með vexti að tillagan var lögð fram seint í mars síðastliðnum og það var mælt fyrir málinu 13. júní. Hv. allsherjar- og menntamálanefnd tók það fyrir á fundi sínum 14. júní. Þá var lagt til af fulltrúa Pírata að senda það til umsagnar í einn dag, þ.e. sólarhring, og það bárust þrjár umsagnir um málið. Hér er um að ræða mál sem á jú sannarlega heima í allsherjar- og menntamálanefnd en hefði líka átt heima í umræðu í utanríkismálanefnd og umhverfis- og samgöngunefnd. Þetta er mál sem þarfnast svo sannarlega umræðu í samfélaginu, í stjórnkerfinu og hjá mörgum aðilum. Ég vil leggja áherslu á það að við vinnum mál vel og ég hef haldið ræður hér í dag í öðrum málum þar sem ég hef tekið fram að tíminn hefði mátt vera meiri og við höfum lagt mikið á okkur til að afgreiða frá okkur mál á stuttum tíma. En það er bara algerlega vonlaust að ætlast til þess að Alþingi Íslendinga og hv. allsherjar- og menntamálanefnd geti afgreitt eins risastórt mál og um ræðir hér á einum sólarhring. Það væri ákall um ófagleg vinnubrögð að mínu mati.

Það sem hér liggur undir er auðvitað mjög mikilvæg umræða og í rauninni framhald af umræðunni um loftslagsmál þar sem Ísland hefur svo sannarlega verið í ákveðinni forystu hvað alþjóðasamstarf varðar og þar af leiðandi eru hugmyndirnar sem fram koma í þingsályktunartillögunni mjög áhugaverðar. Í nefndaráliti meiri hlutans er farið aðeins yfir þá lagabálka sem að einhverju leyti taka á slíkum málum. Við vorum svo lánsöm að starfsfólk utanríkisráðuneytisins kveikti á því þegar málið var flutt hér í þingsal að þetta væri kannski eitthvað til að skoða og lagðist í það að senda okkur minnisblað, sem er ein af umsögnunum í málinu. Þar benda þau á að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hafi lögsögu í málum er varðar alvarlegustu glæpi, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði. Vegna átaka víða um heim og yfirstandandi stríðs Rússlands gegn Úkraínu er álag á dómstólnum og vænta má aukins málafjölda en í byrjun mars vísaði 41 land, þar með talið Ísland, meintum stríðsglæpum Rússa í Úkraínu til dómstólsins. Því telur ráðuneytið að tillaga þessi þurfi frekari skoðun áður en Ísland leggur til útvíkkun á lögsögu dómstólsins þannig að hún nái til nýrra flokka brota. Bent er á að komi til þess að ákveðið verði að leggja fram tillögu á vettvangi Alþjóðlega sakamáladómstólsins af Íslands hálfu þurfi undirbúning og samráð á alþjóðavettvangi til þess að vinna slíkri tillögu fylgi. Stefnumörkun og ákvörðun um leiðir í því efni yrði til umræðu á vettvangi ríkisstjórnar og utanríkismálanefndar Alþingis.

Með hliðsjón af framangreindu og því sem ég hef farið hér yfir leggjum við í meira hluta nefndarinnar til að málinu verði vísað til ríkisstjórnar.

Undir þetta nefndarálit skrifar sú sem hér stendur og hv. þingmenn Birgir Þórarinsson, Jóhann Friðrik Friðriksson, Kári Gautason og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.



[23:05]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Minni hluti nefndarinnar fagnar því að fram sé komin tillaga til Alþingis um að Alþingi viðurkenni vistmorð að landslögum og beiti sér fyrir því að ákvæðinu verði bætt við Rómarsamþykktina. Umhverfisréttur hefur hlotið aukið vægi bæði á landsvísu og alþjóðavísu á undanförnum árum. Viðurkenning vistmorðs sem glæps er rökrétt og þarft skref í baráttunni gegn loftslagshamförum. Lagaákvæði um vistmorð veitir nauðsynlegt verkfæri til að draga valdafólk til ábyrgðar fyrir víðtæk og langvarandi umhverfisspjöll. Það hefur hingað til reynst erfitt þar sem áhrifanna getur gætt á vistkerfi þvert á landamæri og yfir stærra landsvæði en regluverk hvers og eins þjóðríkis nær til.

Ríki á borð við Belgíu, Samóa, Vanúatú og Maldíveyjar hafa lýst yfir stuðningi við viðurkenningu vistmorðs sem glæps að alþjóðalögum, en þar að auki hafa forseti Frakklands, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Evrópuþingið og fjölmörg alþjóðleg umhverfisverndarsamtök tekið í sama streng. Það er löngu kominn tími til að náttúran hljóti stöðu sjálfstæðs réttar- og hagsmunaaðila og að réttarstöðu hennar sé gætt, bæði í þágu jarðarinnar sjálfrar en einnig, og kannski ekki síst, í þágu komandi kynslóða.

Nefndinni barst minnisblað um tillöguna frá utanríkisráðuneytinu þar sem áhyggjur eru reifaðar af því að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn í Haag hafi nú þegar mörg brýn mál á sinni könnu. Að mati minni hluta nefndarinnar er þrátt fyrir þetta ekki tilefni til að stöðva framgang tillögunnar á Alþingi, enda yrði væntanlega úr því bætt af hálfu dómstólsins sjálfs og aðildarríkja hans þegar þar að kemur. Viðbætur við Rómarsamþykktina yrðu að sjálfsögðu að vinna í alþjóðlegu samráði, en um það fjallar efni tillögunnar. Verði hún samþykkt verður ríkisstjórninni falið að fara í þá vinnu og hefði hún þar með tækifæri til að verða leiðandi afl í umhverfismálum á alþjóðavísu.

Minni hlutinn styður áform um að íslenska ríkið verði leiðandi á sviði umhverfis- og loftslagsmála með samþykkt tillögunnar og leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt.



[23:08]
Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem fram hefur komið að þetta er að mörgu leyti áhugavert mál og greinargerðin góð og sá hugur sem stendur að baki alveg ágætur. Það sem ég hef haft svolitlar efasemdir um er þetta hugtak vistmorð. Mér finnst það hljóma mjög harkalega. Maður tengir morð kannski fimmta boðorðinu, svo dæmi sé tekið; þú skalt ekki morð fremja. Þá spyr maður sig: Varðar þetta boðorð líka umhverfissóða? Það er mjög svo hugsanlegt. Það er talað um það í gamla testamentinu að maðurinn eigi að umgangast náttúruna af virðingu og hann er skapaður sem gæslumaður náttúrunnar. En aftur að þessu vistmorði þá er það nú í Íslandsklukkunni að Jón Hreggviðsson er ekki viss um hvenær menn drepi mann og hvenær menn drepi ekki mann. Ég tengi þetta hugtak því ekki beint náttúrunni og hefði hugsanlega viljað sjá annað hugtak eins og t.d. vistskaði. En ég vildi koma þessum hugleiðingum mínum á framfæri og ég veit að það er góður hugur sem stendur þarna á bak við. Einhvern veginn stingur þetta hugtak mig svolítið og maður hrekkur svolítið við. Kannski er það ætlunin með þessari tillögu að stuða fólk svo það fari að hugsa: Bíddu, hvað með þá sem umgangast náttúruna af miklu virðingarleysi?

Frú forseti. Þetta eru hugleiðingar sem ég vildi koma á framfæri vegna þess að mér hefði hugnast betur hugtakið vistskaði.



[23:11]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að veita hérna örstutt andsvar vegna þess að ég átti einmitt ekki auðvelt með þetta hugtak á íslensku fyrst um sinn. Á ensku og flestum tungumálum sem geta tekið hluti beint af einhverjum svona samevrópskum orðstofni þá heitir heiti þetta „ecocide“. Við þekkjum orðin „genocide“, „homocide“, þetta eru allt einhver morð (Gripið fram í: Suicide.) — „suicide“, já. Ég fór fram og aftur með þetta, ég skal viðurkenna það, en eina almennilega þýðingin er þessi, vistmorð, og hún nær alveg utan um þetta vegna þess að við erum að tala um smá hnikun á hugsunarhætti þannig að hið lifandi umhverfi, fyrir utan manneskjurnar, hafi rétt í sjálfu sér. Þótt það að myrða mann sé það sem við kannski tengjum þetta fyrst við þá snýst þetta einmitt um að víkka það út.

Nú langar mig að nefna mann sem við hv. þingmaður höfum einhvern tímann rætt, Frans páfa. Hann nefnilega mætti á einhvern fund innan Vatíkansins, nei, Vatíkanið mætti á einhvern alþjóðasakamálafund þar sem Frans vinur okkar lagði til að syndir gegn vistkerfum væru eitthvað sem þyrfti að taka alvarlega. Þetta er nú maður sem kann boðorðin upp á tíu, öll tíu. Hann bætti síðan við að leggja til að vistmorð ætti að bætast við (Forseti hringir.) sem fimmti glæpurinn í Rómarsamþykktinni og þar með heyra undir alþjóðasakamáladómstólinn. Frans páfi styður þessa tillögu okkar.



[23:13]
Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Það er ánægjulegt að hann skuli vitna í heilagan Frans páfa, mér finnst það mjög gott og tek heils hugar undir það. Ég er algerlega á því að það sé synd að umgangast náttúruna af miklu virðingarleysi og valda tjóni á náttúrunni. Ég sagði áðan að maðurinn væri nokkurs konar gæslumaður náttúrunnar, hann gengur hér á jörðinni og á að umgangast hana af virðingu þannig að ég tek alveg heils hugar undir að það eru ýmsar þjóðir þjakaðir af þeirri synd að ganga illa um náttúruna og ég nefni bara Kína sem dæmi, enda eru þeir ekki þekktir fyrir það að vera sérstaklega hliðhollir kristni eða greiða götu hennar í því landi. Ég veit náttúrlega ekki nákvæmlega hvernig heilagur Frans páfi orðaði þetta með vistmorðið en ég skil alveg þessa tengingu sem hv. þingmaður nefndi þarna, þ.e. þjóðarmorð og svo komum við að þessari þýðingu á „ecocide“. Stundum finnst mér þegar við erum að þýða yfir á íslensku að við eigum að velta fyrir okkur hinum ýmsu möguleikum, en nú veit ég ekki hvernig það var í þessu tilfelli. Ég segi bara enn og aftur, eins og ég sagði hér áðan, að mér hugnast t.d. vistskaði, ég held að það segi nákvæmlega það sem er um að ræða, eða visttjón o.s.frv. En ég veit að hugurinn er jákvæður og góður þarna á bak við og margt mjög áhugavert í þessu máli, svo sannarlega.



[23:15]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Nú er langt liðið á kvöld og við höfum verið hér lengi þannig að ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. En … [Hlátur í þingsal.] Nú gerir þingheimur grín að konunni sem stendur í pontu. Nei, ég ætla bara að koma hingað upp til að hrósa hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir að hafa snarað fram þessu góða máli, fyrir að hafa unnið mjög vandaða greinargerð sem fylgir málinu. Það er örlítill kvíði í maganum á mér yfir afdrifum þessa máls, en ég treysti því að hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, sem og við öll sem viljum að þetta mál verði raunverulega unnið í ráðuneytunum og í ríkisstjórninni, muni fylgja því fast eftir. Þannig að ég vil bara þakka Andrési fyrir hans frumkvæði í þessu og styð málið heils hugar.



[23:17]
Andrés Ingi Jónsson (P):

Frú forseti. Ég ætla svo sannarlega ekki að lengja þessa umræðu. En ég má til með að koma hérna upp til að lýsa ánægju með það hvernig allsherjar- og menntamálanefnd hefur unnið í þessu máli. Þó að minni hluti og meiri hluti hafi ekki komist að sömu niðurstöðu þá er algjör eindrægni í nefndinni um mikilvægi málsins. Það hefði þótt saga til næsta bæjar að Alþingi Íslendinga gæti tekið hugmynd, sem er í grunninn jafn róttæk og þessi, í fangið og verið sammála um að þetta væri eitthvað sem við vildum gera, þó að við séum síðan ekki alveg sammála í nefndinni um hvernig við eigum að gera það eða hvað við eigum að kalla það. Höfum ekki áhyggjur af því. Það er hugurinn sem skiptir máli, eins og sagt hefur verið.

Þetta er svo róttæk hugmynd vegna þess að hún ræðst gegn grundvallarsjálfsmynd okkar, hvað þá okkar sem löggjafa. Það sem við vinnum við er að setja lög um mannanna verk. Við erum að setja lög um fólk. Maðurinn er mælikvarði alls sem við gerum. Og það að vera mannmiðjuð er hægara sagt en gert að rífa sig út úr. Það að gera vistmorð refsivert snýst akkúrat um það. Jú, jú, þetta gagnast komandi kynslóðum. Jú, jú, þetta gagnast fólki í regnskógum Amazon sem missir búsvæði sitt og viðurværi og heilsu vegna gegndarlausrar græðgi stórfyrirtækja sem enga ábyrgð þurfa að sýna. Þetta gagnast öllu þessu fólki, en það gerir það vegna þess að það gagnast jörðinni. Jörðin er náttúrlega það sem við þurfum til að lifa af. Það hefur dálítið oft gleymst þegar við tökum stærri ákvarðanir. Ég deili alveg kvíða hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur um afdrif þessa máls af því að ég vil að það komist sem lengst sem fyrst. Ég er hins vegar fullur bjartsýni af því að ég veit að það mun komast á endapunkt einhvern tímann. Hér er bolti farinn að rúlla af stað sem allir sem komu að málinu í nefndinni eru sammála um að eigi að rúlla í þessa átt. Þeir eru bara ekki alveg sammála um hversu fast þeir vilja sparka í hann. En ég vona að við spörkum bara sem fastast hérna á eftir.