152. löggjafarþing — 92. fundur
 16. júní 2022.
veiting ríkisborgararéttar, 1. umræða.
frv. allsh.- og menntmn., 741. mál. — Þskj. 1331.

[00:21]
Frsm. allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Allsherjar- og menntamálanefnd hefur borist 71 umsókn um ríkisborgararétt á vorþingi 152. löggjafarþings, en skv. 1. mgr. 6. gr. laga um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum að fenginni umsögn Útlendingastofnunar og lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda, sbr. 2. mgr. 6. gr. Þau gögn bárust eingöngu vegna hluta umsóknanna og leggur nefndin til að umsækjendum á 12 umsóknum verði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni. Aðrar umsóknir komi til meðferðar síðar þegar nauðsynleg gögn hafa borist. Það eru sem sagt 12 umsækjendur sem hljóta nú íslenskan ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi og vil ég nota tækifærið og óska þeim innilega til hamingju með þennan áfanga.

Ég vil jafnframt þakka undirnefnd hv. allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þingmönnum Birgi Þórarinssyni, Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og Jóhanni Friðriki Friðrikssyni kærlega fyrir þeirra störf í undirnefndinni. Ég veit að mikið álag hefur verið á undirnefndinni og virðulegur forseti hefur vissulega orðið var við mikla umræðu hér í þingsal um veitingu ríkisborgararéttar. Ég vona að það kasti engri rýrð á þá 12 aðila sem eiga nú svo sannarlega að geta fagnað því að vera orðnir íslenskir ríkisborgarar. Þeim umsóknum sem ekki bárust umsagnir um, og var því ekki hægt að vinna að þessu sinni, verður frestað til haustsins og munu umsagnir berast frá Útlendingastofnun með þeim umsóknum eigi síðar en 31. ágúst. Jafnframt hefur allsherjar- og menntamálanefnd fengið staðfestingu á því frá Útlendingastofnun að enginn þeirra einstaklinga sem bíður afgreiðslu muni sæta frávísun eða brottvísun.

Jafnframt er það hluti af samkomulagi varðandi þinglok að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hefur nú skipað undirnefnd fimm einstaklinga, sem ég fer fyrir, sem mun vonandi komast að góðu samkomulagi um breytt fyrirkomulag við veitingu ríkisborgararéttar, því að ég held að okkur sé öllum í mun að þau upphlaup sem orðið hafa hér í þingsal á síðasta þingi muni ekki endurtaka sig.

Ég enda á að þakka hv. undirnefnd kærlega fyrir hennar störf og þessum 12 einstaklingum óska ég innilega til hamingju með að verða orðnir íslenskir ríkisborgarar.



Frumvarpið gengur til 2. umr.