153. löggjafarþing — 8. fundur
 22. september 2022.
uppbygging þjóðarhallar.

[10:34]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Um síðastliðna helgi var hæstv. innviðaráðherra í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni og það var alveg ljóst að það var verið að slá þjóðarhöllinni á frest, ekki alveg að slátra henni en fresta henni. Síðan kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir að það sé nóg af fjárfestingum og til nóg af fjármagni en var samt frekar óljós. Tveir formenn stjórnarflokka sem tala mjög óljóst í þessu mikla hagsmunamáli fyrir íþróttahreyfinguna. Þess vegna langar mig að spyrja um skoðun hæstv. forsætisráðherra sem skrifaði undir viljayfirlýsingu korteri fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor, í maí, um að þjóðarhöllin ætti að rísa á þessu kjörtímabili. Ég vil vitna í samtal við Hannes S. Jónsson, formann Körfuknattleikssambands Íslands, í fréttum í gær á Stöð 2, að hvorki hann sem formaður KKÍ né formaður HSÍ, hafi verið kallaðir að borðinu varðandi framkvæmdanefndina. Hún hefur ekki hafið störf. Þetta er ámælisvert að mínu mati. Síðan segir Hannes að hann telji, og ég vil taka undir það, að það verði að sýna íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er. Við höfum séð margar myndatökur af undirskriftum varðandi þjóðarhöllina. Ég tek undir þessa ábendingu og þessi vinsamlegu, hófsömu tilmæli frá forystufólki innan íþróttahreyfingarinnar.

Ég bið ríkisstjórnina um að tala skýrt og þess vegna beini ég þessari spurningu til hæstv. forsætisráðherra, formanns Vinstri grænna, þriðja stjórnarflokksins: Mun þjóðarhöllin rísa á þessu kjörtímabili? Þið skuldið okkur hreinskilið svar.



[10:36]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að setja þetta mál hér á dagskrá. Ég hef nú bara verið á einni mynd að undirrita viljayfirlýsingu, af því að hv. þingmaður vitnaði í margar myndir. Frá því að sú viljayfirlýsing var undirrituð þann 6. maí sl., þá hefur starfshópur um uppbyggingu þjóðarleikvang íþrótta verið skipaður þar sem sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta og Reykjavíkurborgar. Þessi hópur starfar undir forystu mennta- og barnamálaráðherra sem er einnig íþróttamálaráðherra. Þessi hópur á að samþætta störf framkvæmdanefndar og ráðgjafaráðs. Framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarleikvangs fyrir innanhússíþróttir hefur verið stofnuð. Formaður þess hóps er Gunnar Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ, sem hv. þingmaður þekkir til, og það hefur verið ráðinn verkefnastjóri sem er að vinna með nefndinni að hlutverki hennar sem á að leiða faglega vinnu vegna allra þátta uppbyggingar mannvirkis og skipulags því tengdu. Þessi nefnd á að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun vegna þjóðarhallarinnar. Ég ætla ekkert að fara út í hin mannvirkin sem þarna heyra undir, annars vegar þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu og hins vegar þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir, því þetta mál snýst ekki bara um þjóðarhöll fyrir innanhússknattíþróttir, handbolta og körfubolta, þetta snýst líka um knattspyrnuna og frjálsíþróttir.

Ég skal bara viðurkenna það hér og nú að mér er ekki nákvæmlega kunnugt um fundaplön hópsins, mér er sagt að hann sé að funda. Hafi fulltrúar íþróttahreyfingarinnar ekki verið kallaðir til þá hlýtur það að standa til, því hópurinn ku vera farinn af stað og farinn að funda reglulega vegna þess að á næstu mánuðum á að vinna alla þá nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf þannig að við getum lagt af stað í þetta mannvirki, sem ég get bara verið sammála hv. þingmanni um að er löngu tímabært. Það verður lagt af stað í þetta verkefni á þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) og ég bind enn þá vonir við að því verði lokið á þessu kjörtímabili, af því að hv. þingmaður spyr.



[10:39]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Já, ég efast um það að forsætisráðherra, íþróttaráðherra eða aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar vilji vera með á myndamómentinu þegar íslenska landsliðið í handbolta, þegar íslenska landsliðið í körfubolta spilar sína heimaleiki hjá okkar gömlu herraþjóðum, Dönum eða Norðmönnum. Ég held að þeir vilji nú ekki vera á slíkri mynd.

Mér finnst að ríkisstjórnin þurfi að sýna þann manndóm að tala skýrt, ekki segja: Við bindum vonir um. Við ætlum að klára þetta verkefni á kjörtímabilinu. Eða var tilgangurinn í maíplagginu sem skrifað var undir kannski bara sá að láta plaggið lifa rétt fram yfir sveitarstjórnarkosningar?

Ég vil segja við hæstv. forsætisráðherra: Sýnið forystu. Talið afdráttarlaust og segið við íþróttahreyfinguna: Já, við ætlum að klára þjóðarhöllina 2025, á þessu kjörtímabili. Í guðanna bænum setjið ekki alla ábyrgð yfir á næstu ríkisstjórn í öllum málum sem þið setjið hér fram.



[10:40]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Nú hefur hv. þingmaður ekki verið með virka hlustun því að hefði hún hlustað grannt eftir því sem ég sagði hér mjög skýrt þá er vinnan farin af stað. Hér var skrifað undir viljayfirlýsingu í vor, vinnan fór strax af stað, það er búið að setja alla vinnu af stað til þess að hægt sé að ljúka nauðsynlegum undirbúningi fyrir þetta mannvirki, það er verið að vinna að þessu sameiginlega með Reykjavíkurborg, sem skrifaði undir viljayfirlýsinguna með okkur. Hv. þingmaður þarf ekkert að efast um að verkefnið er á fullu skriði. Það kom fram í mínu máli að mér er ekki kunnugt um af hverju fulltrúar íþróttahreyfingarinnar hafa ekki verið kallaðir til, en samkvæmt mínum upplýsingum er þetta verkefni á fullu skriði samkvæmt þeim áætlunum sem hafa verið settar fram um löngu tímabæra þjóðarhöll. Hv. þingmaður þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur af skýrum vilja ríkisstjórnarinnar.