153. löggjafarþing — 8. fundur
 22. september 2022.
sala á upprunavottorðum.

[10:48]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. „Íslendingar hafa selt syndaaflausnir vegna losunar á 68 milljónum tonna af CO2. I? ru?man a?ratug, eða fra? a?rinu 2011, hafa i?slensk orkufyrirtæki selt hreinleika- eða upprunavottorð a? raforku til fyrirtækja Evro?pu. Í skjo?li þessara vottorða hafa erlend fyrirtæki skreytt sig og segjast nota hreina orku sem samt er framleitt að meirihluta með kolum, oli?u, gasi og kjarnorku. A? mannama?li þý?ðir þessi sala upprunavottorða að Íslendingar eru beinli?nis að hja?lpa erlendum fyrirtækjum að blekkja neytendur.“

Svona hefst grein Harðar Kristjánssonar, fyrrverandi ritstjóra Bændablaðsins, í blaðinu sem kom út núna í vikunni, með síðbúnu leyfi forseta. Þessi umræða um aflátsbréf, upprunavottorð, hefur komið reglulega upp en umfang málsins hefur sennilega ekki verið tekið jafn vel saman og í þessari grein Harðar í nýjasta Bændablaðinu. Ég get sagt fyrir mig að það er allt að því sjokkerandi að sjá með hvaða hætti þessi mál hafa unnist síðan þessi sala á þessum aflátsbréfum, eins og ég kalla þau, byrjaði. Staðreyndin er sú að ef við horfum á meðaltal uppruna raforku á Íslandi samkvæmt upplýsingum Orkustofnunar árin 2011–2021 þá er endurnýjanleg raforka 39%, kjarnorka 23% og jarðefnaeldsneyti 38%. Auðvitað vitum við öll að það er ekki kjarnorkuver á Íslandi, en þetta er nú engu að síður uppgjörið eins og það blasir við okkur. Það sem mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um er hvort hún telji að við séum að ganga til góðs með þessu kerfi sem þarna hefur verið byggt upp. Er allt falt á endanum og jafnvel sá hreinleiki sem ég veit að hæstv. forsætisráðherra er svo áhugasamur um að tala fyrir?

(Forseti (BÁ): Forseti vill geta þess að honum urðu á mistök hér áðan þegar hann vísaði til 1. persónu en ekki 2. persónu. Hér í málfarshorninu þá verður það því skráð að forseti átti við 2. persónu, en ekki 1. persónu. En minnir hv. þingmenn á að nota 3. persónu.)



[10:51]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég biðst velvirðingar, mér varð á í messunni og nýtti einmitt 2. persónu. Ég biðst afsökunar á því.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég hef ekki lesið greinina sem hann vitnaði til í Bændablaðinu en mun gera það að þessum fyrirspurnatíma loknum. Hv. þingmaður hefur rætt aflátsbréfin og er þá ekki að vísa í viðskiptakerfi með losunarheimildir heldur þessi sérstöku bréf sem hafa oft verið til umræðu í þessum þingsal. Hann spyr mig sérstaklega um mitt viðhorf í því. Ég vil bara einfaldlega segja að auðvitað er æskilegast að þessi mál séu með eins gagnsæjum hætti og mögulegt er. Þegar um er að ræða kaup á slíkum aflátsbréfum sem í raun og veru birta ekki réttar upplýsingar um uppruna orkunnar þá dregur það auðvitað úr gagnsæi sem ætti náttúrlega að vera ákveðið forgangsatriði þegar við erum að tryggja að almenningur sé vel upplýstur um það t.d. hvaðan orkan kemur sem við nýtum hér. Ég get tekið undir með hv. þingmanni þegar kemur að sjónarmiðum um gagnsæi í þessum efnum.

Kannski var það vegna málfarsathugasemda forseta að ég náði ekki alveg endanlegri fyrirspurn hv. þingmanns en ég vísa til þessara almennu sjónarmiða hér í mínu fyrra svari. Hv. þingmaður getur þá brýnt mig aðeins í síðari fyrirspurn sinni.



[10:53]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka svar hæstv. forsætisráðherra. En það sem ég vildi fá fram frá hæstv. forsætisráðherra er sjónarmið ráðherrans gagnvart því að þetta kerfi verði viðhaft hér til framtíðar. Meginþorri þeirrar orku sem framleidd er á Íslandi er framleidd af opinberum fyrirtækjum þannig að hæg eru heimatökin. Því vil ég spyrja: Telur hæstv. forsætisráðherra ástæðu, m.a. í ljósi — ég veit að ráðherrann þekkir þennan málaflokk vel þó að hún hafi ekki lesið það sem ég vísa hér til. En er ráðherrann tilbúin til að skoða það að það fari af stað vinna sem setji punkt aftan við þá vegferð sem við höfum verið á þannig að þessi áframhaldandi sala aflátsbréfa verði ekki viðhöfð til framtíðar?



[10:54]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þetta hefur auðvitað verið umdeilt. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta geti haft áhrif á gagnsæi þegar við skoðum það hvaðan orkan er upprunnin. Eins og ég þekki þetta mál þá hefur hins vegar þessi sala á upprunavottorðum, eins og það er kallað, eða upprunaábyrgðum, ekki áhrif á loftslagsbókhald í raun og veru. (Gripið fram í.) — Hvað segirðu? (BergÓ: Þetta sýnir nú þvæluna.) —Fyrirgefðu, þarna notaði ég 2. persónu aftur, herra forseti, afsakið. En þetta hefur ekki áhrif á loftslagsbókhaldið sem er auðvitað það mikilvægasta sem við erum að fást við. Það er hinn raunverulegi árangur þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Hefur þetta áhrif á ímynd Íslands — eins og hv. þingmaður veltir hér upp — þar sem upplýsingarnar eru ekki með gagnsæjum hætti? Það má deila um það. Það sem ég get tekið undir er það meginsjónarmið að æskilegt væri að við værum með þessar upplýsingar eins gagnsæjar og mögulegt er og þetta getur haft neikvæð áhrif á það.