153. löggjafarþing — 8. fundur
 22. september 2022.
sérstök umræða.

Virðismat kvennastarfa.

[11:09]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. „Konur búa enn við launamisrétti 60 árum eftir að launajafnrétti var leitt í lög. Kynskiptur vinnumarkaður er ein helsta skýringin á kynbundnum launamun.“

Þetta má lesa í drögum að skýrslu starfshóps um endurmat á virði kvennastarfa sem skilað var til forsætisráðherra fyrir réttu ári. — Og nú eru næstum því allir karlarnir farnir úr salnum.

Við búum í samfélagi sem enn metur vinnuframlag kvenna til færri fiska en karla. Vandinn er kerfislægur og endurspeglar kynjakerfið sem við búum í og við. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni frá árinu 2020 var svokallaður leiðréttur launamunur um 4% og óleiðréttur launamunur kynjanna að jafnaði 12,6% en munur á atvinnutekjum karla og kvenna var 23,5%. Og um það fjallar þessi umræða.

Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur. Konur sinna að miklum meiri hluta störfum innan heilbrigðis- og menntageirans. Þær eru hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, ljósmæður, leik- og grunnskólakennarar, og þannig mætti áfram telja. Ekki er langt síðan konum voru send þau skilaboð að þær þyrftu bara að mennta sig til starfa sem karlar höfðu áður sinnt; verða verkfræðingar, prestar, læknar og iðnaðarmenn. Þetta hafa konur gert í miklum mæli, sérstaklega í þeim störfum sem krefjast háskólamenntunar, en karlar hafa ekki flykkst með sama hætti í kvennastörfin. Rétt er að fram komi að tölfræðileg gögn um stöðu kynjanna á vinnumarkaði eru greind í tvö kyn: karla og konur. Litlar sem engar upplýsingar liggja fyrir um stöðu kynsegin fólks. Mér er aðeins kunnugt um eina rannsókn þar sem kjör voru skoðuð eftir kynhneigð, en það var nýlega gert á vegum BHM. Þar benda fyrstu niðurstöður til þess að gagnkynhneigðar konur séu lægst skipaðar í lagskiptingu feðraveldisins.

Forseti. Lykilspurningin sem við þurfum að svara er í sjálfu sér einföld: Hvers vegna borgum við fólki hærra kaupa fyrir að sýsla með peninga en að starfa með börnum? Svarið við henni afhjúpar í raun verðmætamat samfélagsins. Það var því gleðiefni að BSRB, undir forystu Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, skyldi fá það í gegn í síðustu kjarasamningum að skoða skyldi verðmætamat kvennastarfa og þróa nýjar leiðir til þess að meta þau, því að um þetta snýst verkefnið; að störf geti verið ólík en jafn verðmæt.

Ef við skoðum tekjustigann í tekjutíundum kemur í ljós að því ofar sem við förum í stigann því meiri verður launamunur kynjanna í nær öllum starfsgreinum. En heildarlaun karla eru alltaf hærri en heildarlaun kvenna. Konur eru miklum mun ólíklegri til að vera á hæstu laununum jafnvel þó að þær séu sérfræðingar eða stjórnendur. Konur á lágum launum eru á lægri launum en karlar á lágum launum. Karlar með grunnmenntun eru með hærri heildartekjur en konur með starfs- og framhaldsmenntun.

Hæstv. forseti. Það þarf að spyrja: Hvaða þættir eru metnir til launa á íslenskum vinnumarkaði? Samskiptahæfni, teymisvinna, innsæi, tilfinningagreind, þolinmæði, samkennd, tilfinningaálag? Með öðrum orðum, hvernig metum við óáþreifanleg verðmæti sem skapast t.d. í störfum í heilbrigðis- og menntakerfinu? Starfshópurinn, sem ég vitnaði til og er tilefni þessarar umræðu, gerði nokkrar tillögur til forsætisráðherra. Ég vil nota þetta tilefni til að spyrja hvort og þá hvaða þróunarverkefni sé verið að vinna í framhaldi af skýrslunni og hvað líði framgangi annarra tillagna sem starfshópurinn gerði og hvort vinna megi gegn kynskiptingu vinnumarkaðarins eftir öðrum leiðum en nú er gert. Mig langar líka til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sjái tækifæri í aðdraganda kjaraviðræðna, sem verða í vetur þar sem allir samningar á íslenskum vinnumarkaði verða lausir, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði, til þess að styrkja stöðu kvennastétta á vinnumarkaði.

Fyrst ég á enn nokkrar sekúndur eftir, hæstv. forseti, þá langar mig til að ítreka þá augljósu staðreynd að ævitekjur kvenna á Íslandi, þegar mið er tekið af heildartekjum, eru u.þ.b. fjórðungi lægri en ævitekjur karla. Við verðum að vinda ofan af þessari staðreynd af því að það er auðvitað líka þannig að ævitekjur ráða eftirlaunum og kjörum og fátækt er mikil meðal kvenna á eftirlaunum.



[11:15]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál upp. — Og enn eru tveir karlar í þingsal. Hv. þingmaður vitnaði hér í aðgerðir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar til þess að draga úr kynbundnum launamun hjá hinu opinbera. Ég skipaði aðgerðahóp til skýringar á þessu ferli öllu til að vinna að aðgerðum til að útrýma launamun kynjanna sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Í raun og veru er þetta önnur aðferðafræðin sem við höfum fylgt hingað til þar sem við höfum verið að vinna með jafnlaunavottun og önnur mjög mikilvæg tæki til að draga úr launamun kynjanna, þ.e. einbeita okkur að hinum kynskipta vinnumarkaði og hvernig við getum dregið úr launamun með því að taka í raun á þeim launamun sem til staðar er vegna kynskipts vinnumarkaðar.

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er skipaður fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, fjármála- og efnahagsráðuneytis, SA, BSRB, ASÍ og Kennarasambands Íslands og formaður hópsins er skrifstofustjóri jafnréttis- og mannréttindamála í forsætisráðuneytinu. Hann vinnur að þróunarverkefni með fjórum stofnunum ríkisins. Markmið þess verkefnis er að þróa verkfæri til að leggja mat á virði starfa með áherslu á launajafnrétti þvert á vinnustaði og stofnanir. Frá sjónarhóli ríkisins sem atvinnurekanda er þetta nokkuð ný nálgun varðandi mat og virði starfa. Sú virðismatsnálgun byggir á því sem hv. þingmaður fór hér yfir, að kynbundinn launamunur sé félagslegt fyrirbæri með sögulegar og menningarlegar rætur þar sem kvennastörf eru lægra metin að jafnaði vegna vanmats á þáttum í þessum störfum sem að jafnaði eru taldir kvenlægir. Hv. þingmaður taldi upp nokkra slíka þætti hér og við getum talað um það sem oft er kallað umhyggjuhagkerfið, til að mynda, í þeim efnum. Þetta vanmat byggir ekki endilega á illum ásetningi eða meðvitaðri hlutdrægni en virðismatsnálgunin er ein aðferð eða leið til að draga fram ómeðvitaða hlutdrægni. Afleiðingarnar af þessu vanmati eru viðvarandi launamunur kynjanna að stærstum hluta þó að 70 ár — 70 ár — séu liðin frá samþykkt jafnlaunasamþykktar ILO og 60 ár frá því að jöfn laun karla og kvenna voru færð í lög hér á Íslandi. Það eru 60 ár. Mér finnst það alveg ótrúlega langur tími sem þetta hefur tekið, herra forseti.

Þróunarverkefni aðgerðahópsins með þessum fjórum stofnunum fjallar um leið til að fara ofan í kjölinn á þessu vanmati, endurskoða þá þætti sem lagðir eru til grundvallar við mat á störfum þvert á stofnanir. Þá er byggt á þekkingu á stöðu kvenna á vinnumarkaði, áhrifum kynjakerfisins á verðmætamat starfa og vinnu, reynslu annarra þjóða og stuðst við leiðbeiningar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um framkvæmd jafnlaunasamþykktarinnar um jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. En þar er áhersla á mat og virði starfa og þróun matskerfa sem eru eins laus við kynjaskekkju og mögulegt er. Stofnanirnar sem hafa verið valdar til samstarfs eru Ríkislögreglustjóri, Tryggingastofnun, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Hafrannsóknastofnun. Þær eru valdar til þess að endurspegla fjölbreytileika ríkisstofnana með tilliti til kynjahlutfalls, fjölbreytni starfa og fleiri þátta.

Þetta verkefni hófst í júní sl. og unnin hefur verið undirbúnings- og kynningarvinna í samstarfi aðgerðahópsins og kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Jafnlaunastofu sveitarfélaga og þessara stofnana. Greiningarvinnu mun ljúka á næstu vikum og því næst verður unnið að þróun á virðismatskerfi sem nýst geti í víðara samhengi. Síðan er gert ráð fyrir því, þegar þessu tilraunaverkefni er lokið, að við ættum að sjá hér eftir u.þ.b. ár tillögur sem byggja á þessu tilraunaverkefni.

Hvað líður framgangi annarra tillagna? Ja, þetta er talið mikilvægasta verkefnið af hálfu aðgerðahópsins og mest áhersla lögð á það, en einnig er verið að vinna að fræðsluráðgjöf og auknu samtali til að auka vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaga, sem var ein af tillögum fyrri starfshópsins. Þessar tvær tillögur eru þær veigamestu sem unnið er að.

Ég vil svo nefna, af því að hv. þingmaður spyr hér um aðrar leiðir, að vissulega hefur dregið úr launamun kynjanna, svo við séum aðeins jákvæð líka, m.a. vegna aðgerða stjórnvalda, eins og jafnlaunavottunar. En það dugir ekki til, eins og ég nefndi. En það kemur hins vegar fram að launamunur karla og kvenna hefur dregist saman síðustu ár og það á jafnt við um atvinnutekjur, óleiðréttan launamun og leiðréttan launamun. Ég ætla ekki að lesa hér upp tölurnar, ég get kannski gert það á eftir ef ég hef tíma, en eins og hv. þingmaður bendir réttilega á er 14% óleiðréttur launamunur. Það getur þýtt lægri greiðslur í lífeyrissjóði, þar með talið viðbótarlífeyrissparnaður og áhrif á afkomu kvenna út ævina. Það er auðvitað algjörlega galið, herra forseti, að 60 árum eftir að við færðum þetta í lög á Íslandi séum við enn með þennan launamun (Forseti hringir.) og enn að fást við það að við sem sitjum nú á þingi getum átt von á því að okkar kynslóðir (Forseti hringir.) verði að eiga við þetta ranglæti í samfélaginu þrátt fyrir að (Forseti hringir.) þetta hafi verið í lögum svo lengi. — Afsakið, herra forseti. Mér varð skyndilega heitt í hamsi. Fyrirgefið.



[11:20]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Til að styrkja stöðu kvennastétta á vinnumarkaði þarf fyrst og fremst að hækka laun þeirra. Hér á landi er ein stór kvennastétt hreinlega í útrýmingarhættu þótt afleiðingarnar eigi enn eftir að koma fram af fullum þunga þegar stéttin eldist úr starfi. Þarna er ég að tala um grunnskólakennara. Meðalaldur grunnskólakennara er um 55 ár en endurnýjun stéttarinnar er því miður allt of hæg og þar spila laun og starfsaðstæður stærstu rulluna. Samkvæmt tillögum vinnuhóps forsætisráðherra um endurmat á virði kvennastarfa er lagt til að kvennastéttir nýti svokallað starfsmat til að, eins og nafnið ber með sér, láta endurmeta kvennastörf sín til hærri launa. Nú ber svo við að í kjarasamningi grunnskólakennara árið 2019 var samið um að grunnskólakennarar færu í gegnum þetta starfsmat, en þá kom einfaldlega í ljós að þeir passa ekki inn í það. Starf grunnskólakennara er gríðarlega umfangsmikið og oft flókið. Þeir þurfa á hverjum degi að sinna ólíkum hlutverkum, eins og t.d. sköpun og námsefnisgerð, undirbúa margar kennslustundir á hverjum degi með tilliti til mjög ólíkra þarfa, kannski 25 barna þar sem einn þriðji til helmingur þeirra er með mismunandi greiningar, og miðla til þessa sundurleita hóps auk þess að verkstýra honum í vinnu. Þetta er fyrir utan margs konar samskipti við börn, foreldra og samkennara auk funda t.d. með sálfræðingum vegna mismunandi þarfa nemenda í þeirra umsjá.

Þó að þessi listi sé langur er samt ekki allt upp talið því að hver einasti dagur er í raun opin bók sem enginn veit hvernig endar. En hvernig passar þetta inn í starfsmat? Þetta passar bara alls ekki inn í starfsmatið eða þá myndu grunnskólakennarar skora svo hátt í svo mörgum þáttum að ef þeir væru rétt metnir yrðu þeir of vel launaðir, kannski á pari við þingmenn. Í starfsmatinu sem grunnskólakennarar fóru í gegnum átti sem dæmi ekki að veita þeim nein stig fyrir verkstjórn. Þeir voru lægra metnir en hópstjórar í unglingavinnunni sem fengu samkvæmt starfsmatinu nær fullt hús stiga fyrir sína verkstjórn. Af hverju skyldu kennarar ekki fá stjórnunarlaun fyrir verkstjórn yfir 20–40 einstaklingum? Er það kannski lítils metið af því að þeir verkstýra börnum og af því að börn eru lítil? Eða er það af því að þetta eru konur?



[11:22]
Berglind Harpa Svavarsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hér ræðum við virðismat kvennastarfa. Ég er hjúkrunarfræðingur og tilheyri stórri kvennastétt sem ber þess því miður merki að laun eru ekki í takt við þá menntun og þá ábyrgð sem liggur í starfinu. Markmið okkar hlýtur að vera að í sem flestum störfum sé jafnvægi í kynjahlutfalli og það jafnvægi byggist á hæfni, menntun og reynslu hvers og eins. Á þessari vegferð höfum við ákveðin verkfæri til að meta hvert starf þannig að greidd séu jöfn laun fyrir öll kyn fyrir sömu ábyrgð. Sem betur fer hefur dregið verulega úr kynbundnum launamun á undangengnum árum fyrir tilstuðlan aðgerða, innleiðingu á starfsmati hjá sveitarfélögum og kröfu um jafnlaunavottun.

Ef ég nefni aftur mína starfsstétt, hjúkrunarfræðinga, er ástæða þess að þeir leita í önnur störf því miður of lág laun miðað við þá ábyrgð sem liggur í þeirra starfi og þá menntun sem liggur að baki gráðunni hjúkrunarfræðingur. Markmið okkar hlýtur að vera að fá alla okkar hjúkrunarfræðinga til baka, fá þá aftur til starfa. En hvernig gerum við það? Það þarf að skapa góðar starfsaðstæður og greiða þeim laun fyrir sitt starf í takt við þá ábyrgð og menntun sem liggur að baki gráðunni. Ég vil í því samhengi einnig tala fyrir tækifærum til að efla heilbrigðisþjónustu með erlendu framhaldsnámi hjúkrunarfræðinga sem þarf að viðurkenna að hér á landi. Það framhaldsnám nefnist klínískur sérfræðingur og er erlent framhaldsnám sem nefnist á enskri tungu „nurse practitioner“. Erlendis eru klínískir sérfræðingar með heimild til að skrifa út ákveðin lyf og gætu þannig létt á læknastéttinni ef þessi menntun yrði samþykkt hér á landi. Námið þýðir aukin ábyrgð og fyrir það þarf auðvitað að greiða svo hjúkrunarfræðingar sjái bæði hvata til að fara í grunnnám í hjúkrunarfræði, fara í framhaldsnám og uppskeri svo í takt við þá ábyrgð og menntun sem stendur undir stórum hluta öflugs heilbrigðiskerfis.



[11:25]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Mig langar til þess að fjalla aðeins um áhrif á jafnrétti kynjanna í fjárlagafrumvarpinu sem er frekar áhugavert að skoða með tilliti til alls sem þetta málefni fjallar um. Í fjárlagafrumvarpinu er sagt að nýr hluti útgjaldaráðstafana sé greindur með aðferðum kynjaðrar fjárlagagerðar. Hér er flott tafla sem sýnir að 81% af öllum rammasettum útgjöldum ríkissjóðs á árunum 2020–2023 sé til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina. Í kynningu ráðuneytisins í fjárlaganefnd er sagt að velflestar aðgerðirnar séu til þess ætlaðar að auka jafnrétti en lítill hluti þeirra til að búa til í rauninni meira ójafnrétti. Lítill hluti. Það er merkilegt, sérstaklega það sem segir í þeim kafla:

„Karlar voru í forsvari fyrir um þrjá fjórðu hluta umsókna árið 2021. Stór hluti fyrirtækja sem fengu skattafrádrátt á árinu 2021 starfar við hugbúnaðargerð eða framleiðslu á tækjum og búnaði þar sem mikill meiri hluti starfandi er karlar …“

Samt kemur ráðuneytið fyrir fjárlaganefnd og segir að lítill hluti aðgerðanna í fjárlagafrumvörpum undanfarinna ára sé til að auka á misrétti. Það er bara ósatt. Ég skil ekki hvernig ráðuneytið kemst upp með að segja þetta þegar fjárlagafrumvarpið sjálft segir annað. Það er stórkostlega skrýtið. Í umfjöllun um framkvæmdaverkefni segir: „Sé eingöngu litið til atvinnuskapandi áhrifa á framkvæmdatíma hallar verulega á konur …“ Samt segir ráðuneytið að áætlanir ríkisstjórnarinnar stuðli að jafnrétti að mestum hluta. Það er bara ósatt. Ég nota stór orð hérna, takk fyrir, til að leggja áherslu á að það er ekki boðlegt að ráðuneytin komi fyrir þingið og nefndir þingsins og segi eitthvað sem er ekki satt.



[11:27]
Halla Signý Kristjánsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir frumkvæðið að umræðu um virðismat kvennastarfa. Ég veit að ég er ekki fædd í gær en samt ekkert fyrir löngu síðan, að mér finnst. En þegar ég fór í mína fyrstu vinnu í sláturhúsinu var kvennataxti og karlataxti og svo sér taxti fyrir börn yngri en 16 ára. Því gat 17 ára karlmaður unnið við hliðina á fullorðinni konu, sem var hokin af reynslu, og fengið hærri laun.

Hér erum við á árinu 2022 og hver er umræðan? Við eigum að ræða launamun kynjanna en líkt og kemur fram í þessari skýrslu eru meginástæður þess launamunar kynskiptur vinnumarkaður. Það er fleiri en ein ástæða fyrir mikilvægi þess að leiðrétta verðmæti kvennastarfa með hærri launum og hér er ein sem ég tel að muni verða háværari þegar fram í sækir ef ekkert er að gert. Konur vinna fulla vinnu. Svo koma þær heim á þriðju vaktina og vinna almennt meira ólaunaða vinnu við heimilisstörf og barnauppeldi og umönnun ættingja en karlar. Það á ekki að vera þannig að þriðja vaktin eigi að vera verkefni kvenna. Þá minnka þær frekar við sig starfshlutfallið, hlaupa hraðar, nú eða eru líklegri til að keyra í kulnun. Við erum farin að sjá afleiðingar af því; tveir þriðju hlutar þeirra sem leita til VIRK eru konur og mikil aukning hefur verið þar í hópi háskólamenntaðra kvenna á liðnum árum. Á sama tíma vinna karlar fleiri vinnustundir í launaðri vinnu. Sem liður í því að ná fram betra jafnrétti, bæði í vinnu sem og á heimilum landsins, þarf að auka virðismat kvennastarfa. Með því geta karlar unnið minna og tekið aukinn þátt í umönnun barna og ættingja ásamt heimilishaldi. Þetta getur leitt til betra jafnvægis á milli vinnu og einkalífs fyrir alla.



[11:29]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, fyrir að hefja þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í henni. Ég vil benda á áhugavert kynjajafnræði hér í þingsal í þessari umræðu sem er eiginlega táknrænt. Mig langar aðeins að tala um kynbundinn launamun enda er í skýrslunni, sem liggur hér til grundvallar, töluverð umræða um hann. Við ræðum svolítið mikið um óútskýrðan launamun, veltum honum fyrir okkur, en sá kynbundni launamunur sem hægt er að útskýra er minna ræddur, en starfsstéttir sem að miklum meiri hluta eru skipaðar konum eru verðmetnar lægra. Við höfum eytt orkunni svolítið mikið í að ræða akkúrat hitt og látið þetta liggja svolítið eftir. Það er kannski flóknara og erfiðara að ráðast í þetta stóra vandamál. Mig langar þess vegna að minna á þingsályktunartillögu Viðreisnar sem var samþykkt vorið 2018 og bar titilinn: Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Hún fjallaði nefnilega ekki bara um að skila skýrslu um verðmætamat kvennastétta heldur um að ráðherra myndi efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga til að tryggja jafnræði við launasetningu. Reyndar hafði meiri hlutinn, þegar tillagan var samþykkt, tekið mesta bitið úr tillögunni sem var upphaflega lögð fram með orðræðu um sérstakt þjóðarátak, jafnvel gerð sérstaks kjarasamnings. Það væri óskandi að hæstv. forsætisráðherra sæi tækifæri í aðdraganda kjaraviðræðna til að styrkja stöðu kvennastétta á vinnumarkaði með því að líta til þessarar samþykktar og vilja Alþingis frá því fyrir fjórum árum.

Mig langar að lokum að nefna að í skýrslunni, sem liggur hér til grundvallar, er góður kafli um stöðuna á Nýja-Sjálandi. Þegar kafað er ofan í það sem þar var gert þá virðist munurinn kannski fyrst og fremst vera sá að eftir alla þá vinnu sem þar var lagt í, eins og hér hefur verið gert, tóku stjórnvöld boltann og skiluðu honum áfram.



[11:31]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að hefja þessa umræðu hér. Af því að það hefur verið gert nokkrum sinnum síðan umræðan hófst að telja fjölda karlmanna í salnum þá vil ég halda því til haga að hér í salnum eru tveir þingmenn stjórnarandstöðu af frjálsum vilja en hæstv. forseti getur ekki annað, þannig að það vantar fulltrúa stjórnarflokkanna hér í salinn og hvet ég þá til að mæta. En þessi umræða er auðvitað að mörgu leyti snúin hvað það varðar að ná utan um þetta, en það er eitt atriði sem mig langar að koma inn á í fyrri ræðu minni og það snýr að því hversu alltumlykjandi ríkið og hið opinbera er sem launagreiðandi og vinnuveitandi í þessum stóru stéttum sem helst tilheyra þessum lægra launuðu hópum samfélagsins. Ég velti fyrir mér hvort hluti lausnarinnar geti verið sá að fækka hlutfallslega opinberum starfsmönnum og fjölga starfsmönnum á almennum markaði með því að auka frelsi þeirra stofnana. Við þekkjum öll umræðuna um það hversu snúið hefur verið fyrir heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði að skipuleggja sinn rekstur undanfarin kjörtímabil og það sem af er þessu. Það snýr að hjúkrunarfræðingum og öllum þeim stéttum sem koma að heilbrigðisgeiranum, að grunnskólakennurum og leikskólakennurum. Ég hef trú á því að ef hærra hlutfall starfsfólks í þessum stéttum ætti möguleika á því — velkominn, Ási — að sækja starf í einkageirann þá yrði samkeppnin með þeim hætti að það væri líklegt að launakjör þessara hópa þrýstust upp á við.



[11:34]
Forseti (Birgir Ármannsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hv. þingmaður virðist hafa misst af málfarsumræðu hér fyrr í dag. [Hlátur í þingsal.] Við hana má bæta að þingmenn ber að ávarpa með fullu nafni eða kjördæmissæti en ekki með gælunafni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[11:34]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Kynbundinn launamunur er til staðar hér á landi og horfa þarf á heildarlaun þegar hann er metinn; krónurnar sem rata í veski kvenna miðað við karla. Kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á mánaðarlaun kvenna, hann hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur fá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri lífeyri. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á efri árum. Það er kaldur veruleiki margra kvenna sem nú eru komnar á efri ár. Ríkið verður að ganga fram með góðu fordæmi með réttlátri launaleiðréttingu kvennastétta. Stytting vinnuvikunnar er liður í að jafna leikinn. Með hæfilega langri vinnuviku fæst bæði fjölskylduvænna starfsumhverfi og meiri framleiðni. Fleiri konur geta samræmt atvinnu og fjölskyldulíf og fengið full laun fyrir vinnu sína. Og svo er það glerþakið. Konur eiga að fá sömu tækifæri og karlar. Því fleiri konur sem sitja við stjórnvölinn því eðlilegra verður það að konur séu í ábyrgðarstöðum og því eðlilegra verður að vinnustaðurinn hugi einnig að þeirra þörfum sem starfsmanna. Tryggja þarf að leikskólar taki við börnum að fæðingarorlofi loknu. Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla er mörgum erfitt og oftar en ekki bitnar sú staða frekar á starfsframa móðurinnar. Tilgangur barnabóta á að vera að jafna stöðu þeirra sem hafa börn á framfæri við þá sem ekki hafa börn á framfæri. Barnabætur draga síður úr atvinnuþátttöku kvenna ef þær eru ekki tekjutengdar. Oft er fullyrt að jafnrétti kynjanna sé þegar orðið að raunveruleika en það er rangt. Ójafnrétti leynist víða og staða karla og kvenna er sannarlega ekki jöfn á meðan kynbundinn launamunur mælist og störf stórra kvennastétta eru vanmetin.



[11:36]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Þessi umræða sem við eigum hér núna er eitt af allra stærstu málunum sem við getum rætt því að hún snýst um réttlæti í samfélaginu og að kynin séu metin að verðleikum þegar kemur að launum. Það er ljóst, eins og í raun hefur verið farið hér yfir bæði af hv. málshefjanda og eins hæstv. forsætisráðherra í þessari umræðu, að það gerist ekkert í þessum málum af sjálfu sér. Það er ekki nægjanlegt að setja lög sem segja að tryggja eigi jafna stöðu karla og kvenna, það þarf fleira að koma til. Þetta snýst heldur ekki um það að konur eigi að gera betur á einhvern hátt: Að mennta sig, hefur verið nefnt, jafnvel sækja í önnur störf. Þetta snýst ekki um það. Konur geta ekki með breyttri hegðun sinni breytt gangi heils samfélags. Það skiptir þess vegna máli að stjórnvöld grípi til aðgerða hjá sér líkt og verið er að gera. Þar þarf að halda áfram. Það er gríðarlega mikilvægt að stéttarfélögin stigi hér inn eins og þau hafa verið að gera og haldi þeirri vinnu áfram. En svo er þetta líka verkefni samfélagsins alls vegna þess að það þarf viðhorfsbreytingu, það þarf menningarbreytingu til þess að viðurkenna það að karlar og konur og kynin öll eigi að vera jafn sett og þannig samfélag ættum við að hafa.



[11:39]
Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða stærstu kvennastétt landsins, grunnskólakennara. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu átti einungis að veita kennurum örfá stig fyrir verkstjórn þrátt fyrir að hún sé óumdeilanlega fyrir hendi og sennilega flóknari en verkefnastjórar horfast almennt í augu við vegna fjölbreytileika, þroska og aldurs þeirra sem verkstýrt er. Samkvæmt starfsmatinu sem starfshópur forsætisráðherra leggur til að sé notað skoraði ungt fólk í sumarstarfi í unglingavinnunni hærra en grunnskólakennari í verkstjórn. Með fullri virðingu fyrir því unga fólki þá er svona niðurstaða hreinlega niðurlægjandi fyrir grunnskólakennara og sýnir í hnotskurn hversu veik staða þessarar kvennastéttar er. Í grunnskólum er línuleg stjórnun og hver kennari ber gríðarlega mikla ábyrgð sem ekki er metin til launa. Ábyrgð á velferð og námi barna og ungmenna er lítils metin á meðan t.d. nefndasetur og möndl með peninga er hátt metið. Endurspeglar það verðmætamat okkar sem þjóðar. Það er líka staðreynd að ólíkt t.d. heilbrigðisstéttum, sem geta aukið við sín laun með yfirvinnu og vaktaálagi, geta kennarar það ekki. Starf skólanna fer fram á dagvinnutíma og möguleikar kennara á að hækka laun sín með yfirvinnu eru litlir sem engir. Tæplega fimmtugur grunnskólakennari með 15 ára starfsreynslu er með 668.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Sem alþingismaður borga ég álíka mikið í skatt á hverjum mánuði og ég fékk í laun sem grunnskólakennari. Hvernig ætli þingmenn myndu koma út úr starfsmatinu? Með reynslu af hvoru tveggja veit ég að báðum þessum störfum er erfitt að lýsa fyrir þeim sem ekki þekkja til. Þau eru bæði fjölbreytt og krefjandi og passa bæði mjög illa inn í starfsmat. En ég er ekki viss um að þingmaðurinn Ásthildur Lóa eigi endilega skilið að vera með mikið hærri laun en kennarinn Ásta Lóa og minni á að einu sinni voru laun alþingismanna miðuð við laun kennara. Það væri ekki úr vegi að taka þau viðmið upp aftur. Það er a.m.k. ljóst að þótt starfsmatið geti virkað fyrir einhverjar stéttir virkar það ekki fyrir grunnskólakennara, stærstu kvennastétt landsins. Og hvað ætlar forsætisráðherra að gera í því?



[11:41]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við ræðum hér virðismat kvennastarfa. Það er auðvitað nátengt jafnréttisbaráttunni og þar getum við Íslendingar með sanni sagt að við séum best í heimi, alltaf í fyrsta sæti. Frábær árangur hjá okkur. Við erum með lagaumhverfi sem virðir fullkomið jafnrétti. Við höfum séð það að konur hafa flykkst í nám, útskrifast úr háskólum og meira að segja er svo komið að það liggur við að maður hafi áhyggjur af drengjunum okkar, strákunum okkar, en samt sitjum við uppi með það að launamunur er enn til staðar. Þá má velta fyrir sér hverju það sæti. Þegar horft er til þeirra stóru kvennastétta sem nefndar hafa verið hér, m.a. grunnskólakennarar og hjúkrunarfræðingar, þá er það náttúrlega alveg ljóst að þeir sem mennta sig til þessara starfa og vilja starfa við það sem þeir menntuðu sig til hafa fyrst og fremst möguleika á að vinna hjá hinu opinbera. Lögfræðingar starfa margir hverjir hjá hinu opinbera en þeir geta líka starfað á einkamarkaði. Læknar starfa flestir hjá hinu opinbera en geta líka starfað á einkamarkaði hjá sjálfum sér. Verkfræðingar starfa mest á einkamarkaði en líka hjá hinu opinbera. Það hlýtur að vera eitthvert samhengi þarna á milli. Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að hjúkrunarfræðingar og grunnskólakennarar hafa flykkst í að starfa sem flugþjónar, að starfa á einkamarkaði, starf sem þær menntuðu sig ekki til, mikilvægt starf, og einhverra hluta vegna ákveður einkafyrirtækið Icelandair eða einkafyrirtækið Play að það sé meira virði að starfa sem flugþjónn en sem grunnskólakennari eða hjúkrunarfræðingur.

Virðulegur forseti. Ég held að við verðum að taka þetta inn í myndina þegar við horfum á verðmætamatið og velta fyrir okkur hvort markaðurinn sé einfaldlega betur til þess fallinn að leggja mat á virði starfa en opinberar aðgerðir.



[11:43]
Eva Sjöfn Helgadóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Rannsóknir hafa sýnt fram á að kynjaskiptur vinnumarkaður sé einn stærsti orsakaþáttur kynbundins launamunar. Sögulega hafa sum þau störf sem hafa verið álitin kvennastörf einmitt verið þau lægst launuðu eða jafnvel ólaunuð, en þar má nefna þau störf sem fylgja hefðbundnum hugmyndum um umönnunarhlutverk kvenna, ólaunuðu störfin sem konur tóku að sér og taka að sér í umönnun annarra einstaklinga. Söguleg viðhorf gagnvart slíkum umönnunarstörfum virðast enn ráðandi að einhverju leyti. Á vinnumarkaði má sjá að konur í umönnunarstörfum eru meðal lægst launuðu starfsstéttanna sem um ræðir. Matið virðist vera að þeirra störf skipti einfaldlega ekki jafn miklu máli í dag og önnur störf sem karlar sækjast fremur í þrátt fyrir að hæfniskröfur starfanna kunni að vera sambærilegar. Það segir í skýrslunni sem hér um ræðir, með leyfi forseta:

„Hefðbundin karlastörf fela oft í sér sköpun áþreifanlegra verðmæta sem auðvelt er að meta til fjár en á hinn bóginn fela hefðbundin kvennastörf gjarnan í sér sköpun óáþreifanlegra verðmæta sem ýtir undir vanmat á samfélagslegu virði starfanna.“

Gömul viðhorf gagnvart störfum þar sem konur eru í meiri hluta virðast enn ráða miklu um möguleika þeirra til að fá starfskjör við hæfi. Meðal tillagna skýrslunnar, sem hefur verið rædd hér, er að kortleggja og greina kerfisbundið vanmat á kvennastörfum og er það meðal verkefna aðgerðahóps sem hæstv. forsætisráðherra skipaði á grundvelli skýrslunnar um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Ég hef mikinn hug á því að vita hvort að hæstv. forsætisráðherra telji að sú vinna muni skila sér að einhverju leyti inn í komandi kjaraviðræður og hvort þessar viðræður muni leiða til þess að draga úr launamisrétti gagnvart þeim.



[11:46]
Ingibjörg Isaksen (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir þessa nauðsynlegu umræðu. Umræða sem þessi þarf sífellt að vera á lofti þar til fullu jafnrétti hefur verið náð. Því miður hafa hefðbundin kvennastörf lengi verið vanmetin á kerfislægan hátt og enn eru til staðar úreltar hugmyndir í samfélaginu um hlutverk kynjanna sem viðhalda þessu misrétti. En þetta er ekki séríslenskt vandamál. Rannsóknir sýna að kerfisbundið vanmat á svonefndum kvennastörfum leiðir til lægri launa um allan heim og er meginástæðan fyrir kynbundnum launamun. Það hefur dregið úr launamun kynjanna á undanförnum árum, m.a. vegna innleiðingar jafnlaunavottunar og starfsmats hjá sveitarfélögum. Þessi tæki leiðrétta hins vegar ekki að óbreyttu launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Betur má því ef duga skal.

Ég vil minnast á það hér að nýafstaðinn heimsfaraldur varpaði skýru ljósi á mikilvægi og verðmæti kvennastarfa enda eru konur mikill meiri hluti starfsfólks í heilbrigðiskerfinu og í menntakerfinu. En er það eðlileg þróun að heilbrigðiskerfinu og skólakerfinu sé að miklum hluta haldið uppi af konum? Í því ljósi vil ég aðeins rifja upp hvernig launakjör kennara og kynjahlutfallið hefur breyst í gegnum tíðina. Fyrir þó nokkrum áratugum, í kringum 1960 til 1970, voru kennaralaun bundin við þingfararkaup. Þá var mikill meiri hluti starfandi kennara karlar. Þetta var afnumið. Hvað gerðist? Jú, hlutfall karla fór lækkandi og hlutfall kvenna fór hækkandi. Breyttist virðismat starfsins að einhverju leyti? Ég er ekki viss um það, það er verðmætara í dag ef eitthvað er.

Virðulegur forseti. Hvernig útskýrum við launamun fyrir börnunum okkar? Hvernig útskýrum við það fyrir stúlkunum okkar að karlmenn fái hærri laun fyrir sama starf? Það er flókið og það er ekki réttlætanlegt. Það er gott og mikilvægt að setja lög en árangurinn hefur því miður skilað sér allt of hægt. Við þurfum sem samfélag að (Forseti hringir.) brjóta þessa múra og við þurfum í samtalinu við börnin okkar, þegar við ræðum við þau, að ræða hvað það er sem þau langar að gera, að þau skoði þetta.



[11:48]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar til að nefna hérna, af því að við erum svo mikið að ræða vandann, að við ræðum líka lausnirnar. Eitt af þeim verkfærum sem við eigum í þessari baráttu er þingsályktunartillaga sem samþykkt var 2018, sem þingflokkur Viðreisnar lagði fram, sem heitir Þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Hún varðar það að jú, vissulega þarf að afla gagna en við þekkjum í raun og sann hver staðan er. Hún fjallar um að ráðherra myndi efna til viðræðna við aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa sveitarfélaga með það markmið að ná þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta. Við eigum annað verkfæri sem er jafnlaunavottun, líka mál frá Viðreisn á sínum tíma sem forsætisráðherra hefur beitt sér mikið fyrir og ég er henni þakklát fyrir það. En það er vinna sem lýtur að því að greiða sambærileg laun fyrir sambærileg störf.

Hérna erum við að tala um það hvert virði kvennastéttanna er, eins og þessi umræða gengur út á. Það skiptir máli að fara í aktíft og markvisst samtal og viðræður við aðila vinnumarkaðarins um þetta til að komast í þá stöðu að við séum að ræða lausnir en ekki bara vandamál. Við þekkjum það að launamunurinn veldur því ekki bara að konur hafa að meðaltali minna milli handanna, við þekkjum það að heimilin tapa á þessu líka. Við þekkjum það hver staðan er í lok starfsævinnar vegna þessa en við þurfum að ræða það hverjar afleiðingarnar eru fyrir samfélagið allt. Það eru að koma kjarasamningar. Staðan í heilbrigðiskerfinu, staðan í leikskólanum, staðan í velferðarþjónustunni er auðvitað spegill á það hvernig við verðleggjum störf kvenna. Það er ekki mikið flóknara en svo. Og þá er aðgerðaleysi líka pólitík. Það er pólitík að gera ekki neitt. Það er pólitík (Forseti hringir.) að bregðast ekki við.

En ég þakka fyrir þessa umræðu og ég hvet forsætisráðherrann okkar og stjórnvöld áfram til dáða um að fara í aðgerðir.



[11:51]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil halda áfram þar sem hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skildi við varðandi verkfærin sem við höfum í þessari umræðu og til að takast á við þá þætti sem undirliggjandi eru. Eitt þeirra vil ég nefna sérstaklega, sem er jafnlaunavottunin sem innleidd var hér í námunda við árið 2017. Síðan var mismunandi eftir stærð fyrirtækja hvenær fyrirtæki og stofnanir þurftu að hafa lokið þeirri vinnu. Ég held að ég muni það rétt að frá og með 31. desember næstkomandi eigi öll fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn að hafa lokið þeirri innleiðingu. Þetta snýr að því sem ég kem stundum inn á, kannski í öðru samhengi, að við setjum orkuna í það sem skiptir máli, þar sem árangur næst. Eftir nokkra leit á vefnum hefur mér ekki tekist að finna neina greinargóða úttekt á þeim árangri sem talið er óhætt að færa rök fyrir að jafnlaunavottunarkerfið hafi skilað. Og bara af því að hæstv. forsætisráðherra situr í sínu sæti þá held ég að það væri áhugavert ef jafnréttismálaráðherra setti af stað vinnu þar sem reynt væri að komast til botns í því hver árangur af því regluverki hefur verið, því að það liggur fyrir að kostnaðurinn af þessu er umtalsverður og hann er áþreifanlegur fyrir fyrirtækin. En það skiptir máli þegar slíkt er lagt yfir efnahagslífið í heild sinni, a.m.k. fyrir fyrirtæki með 25 starfsmenn og fleiri, að við getum sýnt fram á að einhver árangur hafi náðst. Ég sá hér gamla frétt frá því u.þ.b. þeim tíma þegar lagaskyldan var að byrja. Þar var bara tiltölulega lítið fyrirtæki með heildarkostnað upp á 4 milljónir, sem er væntanlega orðinn töluvert hærri núna. Þannig að ég hvet hæstv. jafnréttisráðherra til að skoða þetta.



[11:53]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þátttöku þingmanna í þessari umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin. Það er gott að heyra að það eigi að fara í tilraunaverkefni með fjórum giska ólíkum opinberum stofnunum, en út úr því kemur vonandi niðurstaða sem við getum unnið með áfram. En hún verður ekki væntanleg fyrr en á næsta ári, ef ég hef skilið þetta rétt.

Það sem mig langar til að hnykkja á í lokin varðar tækin sem við höfum verið að nota. Starfsmatið hjá sveitarfélögunum hefur t.d. leitt til þess að þar er minnstur óleiðréttur launamunur hjá sveitarfélögunum. En það er alveg rétt sem hér hefur verið bent á að það er ekki sama hvernig það er gert og stigatalningin í starfsmatinu hentar stéttum mjög misjafnlega. Það getur verið innbyggð skekkja í tækjunum, eins og í starfsmatinu, og við vitum líka að jafnlaunavottunin hefur mikla ókosti. Hún fer ekki þvert á vinnumarkaðinn og ég tek undir spurningu hv. þm. Bergþórs Ólasonar um að það verði skoðað og árangurinn mældur.

Þriðja vaktin er auðvitað stórkostlegt hagsmunamál kvenna að því leyti að þær þurfa að losna við hana. Ég legg til að næsta kvennaverkfall verði á þriðju vaktinni og það standi í heilt ár og við leyfum bara liðinu að sjá um sig sjálft. En ég vara við hugmyndum um að einkarekstur, hvað þá einkavæðing, bæti hér úr. Allur einkarekstur sem fer fram í velferðarkerfinu er fjármagnaður beint úr ríkissjóði. Við verðum að sjá til þess að ríkið sinni því hlutverki sínu að halda úti mennta- og velferðarkerfi, heilbrigðiskerfi, af því að það er hlutverk ríkisins og verðmætamat starfanna sem þar fer fram þarf að vera þannig að konur og karlar sækist í þau og að það sé sanngjarnt og endurspegli virði starfanna.

Að síðustu þetta: Það þarf bara pólitíska forystu. Ný-Sjálendingar hafa sýnt okkur það og ég skora á hæstv. forsætisráðherra að taka hana.



[11:56]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu. Mér finnst nú ástæða til að byrja á að nefna aðeins árangurinn af því sem við höfum verið að gera. Alveg sama hvert litið er þá hefur leiðréttur og óleiðréttur launamunur dregist saman á árunum 2010–2019. Leiðréttur launamunur fór úr 6,2% í 4,3% og óleiðréttur úr 17,5% í 13,9%, væntanlega vegna jafnlaunavottunar sem kannanir sýna að mælist mjög vel fyrir hjá þeim sem stjórna bæði fyrirtækjum og stofnunum. Hins vegar þegar innleiðingunni lýkur munum við að sjálfsögðu gera stóra rannsókn og meta hvernig til hefur tekist.

Þriðja vaktin hefur verið rædd. Við erum að fara að ráðast í tímarannsókn vegna þess að við höfum ekki gert það af einhverjum ástæðum sem t.d. önnur Norðurlönd hafa gert, þ.e. að mæla hvernig kynin nýta tíma sinn með ólíkum hætti þegar þau eru ekki í vinnunni. Ég þykist vita hvað kemur út úr því en það verður áhugavert að sjá. Mig grunar að það séu fremur konurnar sem skutla í afmæli og tómstundir og sjá um ýmislegt sem er ekki endilega það sem við köllum hin hefðbundnu heimilisstörf.

Hér er rætt um að útvistun starfa skili stórkostlegum árangri í þessum málum. Ég vil minna á það að launamunur hjá ríki og sveitarfélögum er minni en á almennum markaði og ég held að það væri nú bara áhugavert rannsóknarefni að skoða hvernig farið hefur með launaþróun t.d. hjá þeim kvennastéttum þar sem störfum hefur verið útvistað, t.d. í ræstingum. Ég er ekki viss um að það komi neitt sérstaklega vel út. En það er eitthvað sem þyrfti kannski að rannsaka sérstaklega. Ég get tekið undir það sem hér hefur verið sagt að heimsfaraldurinn dró fram verðmæti umönnunarstarfa. Hann dró líka fram verðmæti kvennastarfa í skólakerfinu. Hér var tekin ákvörðun um að halda skólum opnum til að tryggja sem mest órofa samfellu í lífi barna en líka vegna þess að það er nokkuð ljóst hvort foreldrið hefði tekið ábyrgðina á því ef börnin hefðu verið heima. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þetta var rétt ákvörðun þegar við lítum til barna á Íslandi miðað við þau börn sem voru jafnvel heima hjá sér mánuðum saman. En þetta var álag þannig að að sjálfsögðu þarf að taka þetta með í reikninginn við undirbúning næstu kjarasamninga, að skoða nákvæmlega framlag þessara mikilvægu stétta.