153. löggjafarþing — 8. fundur
 22. september 2022.
skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks, fyrri umræða.
þáltill. ÁBG o.fl., 133. mál. — Þskj. 133.

[14:01]
Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks.

Virðulegur forseti. Af því að ég mæli fyrir þessu máli í fyrsta sinn ætla ég að byrja á því að fara yfir tillögugreinina en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda hvort sem er á opinberum eða almennum markaði vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.“

Í greinargerð með málinu er nánar vikið að hugmyndafræði tillögunnar. Keppnis- og afreksíþróttafólk á oft á tíðum erfitt með að fá vinnu við hæfi samhliða íþróttaiðkun vegna þess að fyrirtæki veigra sér við því að ráða starfsmenn sem þurfa að vera frá vinnu vegna tíðra æfinga eða keppnisferða. Afleiðingarnar eru að keppnisíþróttafólk stendur frammi fyrir því erfiða vali hvort það vilji halda áfram að æfa og keppa í sinni íþrótt, með tilheyrandi óvissu um framfærslu, eða ekki. Með takmörkuðum tekjum nær íþróttafólk ekki að ávinna sér full lífeyrisréttindi, atvinnuleysisbætur eða rétt til fæðingarorlofs. Það að bæta fjárhagsáhyggjum ofan á að byggja upp feril í íþróttum er ekki hvetjandi og síst til þess fallið að fjölga efnilegu íþróttafólki hérlendis. Á þetta bæði við um einstaklinga sem eru í innlendum keppnisíþróttum, upprennandi afreksíþróttafólk sem og núverandi afreksíþróttafólk. Sá sem hér stendur, ásamt öðrum flutningsmönnum tillögunnar, telur mikilvægt að skapaður verði sérstakur hvati með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna sem og aukinn hvata til þess. Við þetta má auðvitað bæta að sá sem hér stendur telur það einnig heilbrigt og mikilvægt fyrir atvinnulífið í heild að hafa öflugt íþróttafólk innan sinna raða sem smitar svo út frá sér með margvíslegum hætti inn á vinnustaði fólks.

Á 151. þingi voru samþykkt lög um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld (skattalegir hvatar fyrir lögaðila sem starfa til almannaheilla), þskj. 1263, 151. löggjafarþing, 342. mál. Með þeim voru útvíkkaðir skattalegir hvatar og lögfestir nýir til að styrkja starfsemi þriðja geirans, m.a. íþróttafélög, björgunarsveitir, góðgerðarfélög og mannúðarsamtök. Horfa má til þessara laga og huga að því hvort laun til íþróttafólks frá launagreiðanda gætu t.d. verið skilgreind með svipuðum hætti og einstakar gjafir og framlög til lögaðila sem hafa með höndum starfsemi til almannaheilla.

Með því að styðja við keppnis- og afreksíþróttafólk með þessum hætti er jafnframt verið að styðja við lýðheilsu í landinu. Ekki þarf að fjölyrða um hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem þjóð að geta státað okkur af fjölbreyttu og efnilegu keppnis- og afreksíþróttafólki. Forvarnagildi íþrótta er ótvírætt og mikilvægt er að börn og ungmenni eigi sér öflugar fyrirmyndir en rannsóknir hafa sýnt fram á að þátttaka í íþróttum hefur m.a. jákvæð áhrif á námsárangur, sjálfsmynd, sjálfsvirðingu, líkamsmynd, heilsu og almenna líðan.

Tillagan er í samræmi við íþróttastefnu stjórnvalda sem lögð var fram árið 2019. Í stefnunni kemur fram að fjárframlög til málaflokksins hafi aukist og nauðsynlegt sé að halda áfram á þeirri braut. Þótt þær hugmyndir sem hér eru lagðar fram sé ekki að finna í stefnunni þá byggjast þær á sömu hugmyndafræði og þar kemur fram. Einn liður í stefnunni snýr að því að stuðningur skólakerfisins við afreksíþróttir sé aukinn og íþróttaæfingar, keppnir og íþróttaafrek séu metin til námseininga í skólakerfinu. Sem liður í þeim aðgerðum er mennta- og menningarmálaráðuneytinu, nú mennta- og barnamálaráðuneyti, falið að hvetja skólastjórnendur til að sýna sveigjanleika gagnvart afreksfólki í íþróttum. Þá segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að styðja eigi við íþróttahreyfinguna til að jafna stöðu karla og kvenna í íþróttum ásamt því að áfram verði unnið með félagasamtökum að því að efla umgjörð um afreksstarf íþróttafólks þar sem m.a. verði litið til eflingar afreksíþróttasjóðs og ferðajöfnunarsjóðs. Öll miðum við að því að róa í sömu átt.

Flutningsmenn, ásamt þeim sem hér stendur, að þessari tillögu eru eftirtaldir hv. þingmenn: Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ingibjörg Isaksen og Líneik Anna Sævarsdóttir. Ég vil þakka þingmönnum Framsóknar stuðninginn við þetta mikilvæga mál. Flutningsmenn vilja koma því á framfæri að þeir telja þessa tillögu ekki koma í staðinn fyrir hugmyndir um laun og styrki frá ríkinu til afreksíþróttafólks heldur frekar til stuðnings við þær hugmyndir. Það er mikilvægt að áfram verði unnið að útfærslum á stuðningi ríkisins við afreksíþróttafólk og vonar sá sem hér stendur að þær komi til framkvæmda sem allra fyrst. Annars vona ég að við í þinginu, hv. þingmenn, sýnum vilja okkar til stuðnings við keppnis- og afreksíþróttafólk í verki með því að styðja og samþykkja þessa tillögu.

Virðulegur forseti. Ég trúi því að efnahags- og viðskiptanefnd taki málið til umfjöllunar, kalli eftir umsóknum og nái að fjalla um það þar sem málið kemur fram snemma á þessu þingi. Þá vonast ég eindregið til þess að við fáum málið aftur hingað inn í þingsal í síðari umræðu þegar líður á veturinn. Ég lýk nú máli mínu og legg til að málinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[14:08]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mér finnst ég í pínulítið skrýtinni stöðu vegna þess að ég kem annars vegar hingað upp til að lýsa yfir ánægju minni með þetta mál, sem ég styð heils hugar, en hins vegar til að lýsa yfir furðu minni með að það skuli vera fram komið. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi hér einróma tillögu mína til þingsályktunar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum, að mennta- og menningarmálaráðherra, í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin, ætti að setja stefnu sem fæli í sér víðtækan stuðning og stefnu um hvernig best yrði unnið að þessum málum. Við vitum, og það kom ágætlega fram í ræðu hv. þingmanns, hvar skóinn kreppir. Síðan átti jafnhliða að tryggja fjárhagslegan stuðning. Samkvæmt samþykkt Alþingis bar ráðherra að leggja fram á Alþingi tímasetta stefnu fyrir 1. júní 2022. Stefnan er ekki komin fram. Ég hef óskað upplýsinga og skýringa með fyrirspurn til ráðherra. En í ljósi þess að á liðnu kjörtímabili og því sem nú er tiltölulega nýhafið kemur ráðherra íþróttamála úr röðum Framsóknarflokksins, úr þeim sama flokki og þingmenn sem flykkjast nú á þessa tillögu, þá ætla ég bara að koma með einfalda spurningu. Ég veit að hv. þingmaður kom inn á það áðan að hann teldi þetta ekki skarast á við launasjóð og það er ekki það sem ég er að tala um heldur þessa stefnu. Vissi hv. þingmaður ekki af þessari ályktun sem samþykkt er og þeirri vinnu sem er í gangi í ráðuneyti íþróttamála, geri ég ráð fyrir? Er ekki eðlilegt að þetta sé innlegg í þá vinnu, þessi tiltekna tillaga um skattalega hvata, og heyri undir heildstæða stefnu sem við búum afreksíþróttafólki okkar?



[14:10]
Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Jú, ég er vel meðvitaður um þá tillögu sem liggur fyrir. Ég taldi hins vegar málið brýnt og þekki það ágætlega, komandi af öðru stjórnsýslustigi, sveitarstjórnarpólitíkinni, að við vorum að kljást við þetta ítrekað á kjörtímabilinu sem leið, 2018–2022. Við vorum að fá beiðnir til okkar um að gefa afreksíþróttafólki okkar frí á launum, fólki sem var jafnvel að keppa fyrir hönd þjóðarinnar. Það er kannski hvatinn að þessu máli hjá mér að mér finnst mjög brýnt að við mótum okkur stefnu og förum yfir það að þetta sé almennt bæði á opinberum og almennum markaði og gerist mjög hratt. Ég held að það mál sem við erum hér að ræða geti farið mjög vel með öðrum málum sem liggja fyrir og eru jafnvel í vinnslu í ráðuneytinu.



[14:12]
Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og árétta að við erum öll að vinna í sömu átt. Það er löngu orðið tímabært að við stöndum við stóru orðin þegar kemur að aðstöðu keppnis- og afreksíþróttafólksins okkar og ég held að það sé við hæfi að vitna í orð formanns Körfuknattleikssambands Íslands þegar hann segir í fjölmiðlum, í tilefni vonbrigða vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar til nýrrar íþróttahallar: Sýnið nú íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er. En mig langar að gera athugasemd við orð hv. þingmanns þegar hann talar um mótun heildstæðrar stefnu um afreksfólk í íþróttum sem tillögu sem fyrir liggur. Það er ekki svo. Þetta er samþykkt. Ráðherra er með boltann, ráðherra er, ef hann fer eftir vilja Alþingis, að vinna málið. Með fullri virðingu fyrir góðri þingsályktunartillögu þá er það nú einfaldlega þannig að það er einfaldara að koma þessu inn í þá stefnu heldur en að taka heilt þingmál í gegnum kerfið aftur, þá væntanlega með einhvers konar annarri tímasetningu. Þetta er tímasett hérna 2023. Það er ómögulegt að vinna heildstæða stefnu um afreksíþróttafólk án þess að þetta mikilvæga mál sé þar inni. Þannig að aftur verð ég eiginlega að lýsa því yfir að ég er undrandi á því að þetta skuli ekki vera unnið saman, að það skuli ekki vera samfella í þessu. Jafnframt verð ég að lýsa mig ósammála því að þetta sé rétta leiðin til að koma þessu mikilvæga máli um skattahvata á framfæri. Þannig að ég hef í sjálfu sér enga spurningu en þó, gjarnan þessa: Telur hv. þingmaður ekki að þetta eigi heima í heildarstefnu fyrir afreksíþróttafólk?



[14:14]
Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna sem kom í lok hennar máls. Mér finnst í raun og veru tvennt ólíkt að móta heildstæða stefnu varðandi afreks- og keppnisíþróttafólk, hvernig við ætlum að hátta þeirri umgjörð, og svo þetta tiltekna mál, að fara strax í að framkvæma og búa til umgjörð fyrir bæði opinbera og almenna markaðinn um það hvernig við getum sniðið þessi mál þannig að fyrirtæki og stofnanir eftir atvikum fái í raun og veru þennan hvata til sín, að þau líti kannski enn frekar til þessa hóps fólks og fái það til starfa. Ég ítreka að mér finnst það, eins og kom reyndar fram í framsögu minni, mjög mikilvægt og brýnt að þessi hópur sé virkur þátttakandi í atvinnulífinu. Ég held að það sé mjög heilbrigt fyrir fyrirtæki og stofnanir og atvinnulífið í heild að hafa íþróttafólk innan sinna raða sem smitar svo út frá sér, eins og ég sagði áðan, með margvíslegum hætti inn á vinnustaði. Vissulega getur þetta mál og stefnan vel talað saman en ég tel mjög brýnt að þetta komi til framkvæmda strax.



[14:16]
Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé gengið til góðs í báðum þeim málum sem hér hafa verið til umræðu og ég styð heils hugar það mál sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson hefur lagt fram um heildstæða stefnu í íþróttamálum. Það er löngu tímabært að það komist til afgreiðslu hér og ég held að það fari ágætlega saman við það sem hv. þm. Ágúst Bjarni Garðarsson er hér að tala um. Þetta er afmarkað svið og minnir mig dálítið á baráttu nafna hans, Ágústs Einarssonar, hér fyrir mörgum árum fyrir því að við fengjum kannski örlitla skattalega hvata fyrir fyrirtæki til að styðja við menningarstarf, líknarstarf og slíkt. Það gekk eftir í smáum en nokkuð markvissum skrefum. Ég tel að þetta sé náskylt mál. Þetta er nú ein af forsendum þess t.d. í Bandaríkjunum að menn geti stundað íþróttir sem atvinnumenn og náð árangri. Það sama gildir um kvikmyndagerð og margt fleira í þeim efnum. Ég vildi líka, af því að hv. þingmaður er úr Kraganum, óska honum til hamingju með það sem ég vissi ekki fyrr en bara núna fyrir örfáum dögum. Hann er einn af helstu stoðum og styttum þess kraftaverks sem hefur átt sér stað í Bæjarbíói í Hafnarfirði, mikill fylgismaður þess, sem breytti Hafnarfirði úr svefnbæ í menningarbæ þótt ótrúlegt megi virðast. Einn staður með jafn markvissa og glæsilega starfsemi og þar hefur átt sér stað undanfarin ár hefur gjörbreytt ásýnd bæjarfélagsins, míns gamla heimabæjar. Að styðja við það með svo glæsilegum hætti ber að lofa og þakka (Forseti hringir.) og ég óska þingmanninum til hamingju með það, ekki síður en það sem ég nefndi áðan. Megi það vel ganga eftir.



[14:18]
Flm. (Ágúst Bjarni Garðarsson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég get ekki annað en þakkað fyrir hrósið frá hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni. En ég held að þetta sé akkúrat málið eins og hann fór yfir í sínu andsvari, það er mikilvægt að draga þessa hvata fram. Þrátt fyrir að þessi tillaga taki til keppnis- og afreksíþróttafólks þá er hægt að taka þetta með miklu víðari hætti um samfélagið, eins og hv. þingmaður nefndi í sínu andsvari, varðandi tónlistarfólkið og fleiri. En þessi tillaga tekur til íþróttafólks og keppnisíþróttafólks og ég held að það sé, eins og ég sagði reyndar í framsögu minni, mjög brýnt að fá þessa hvata inn sem fyrst til þess að auðvelda íþróttafólki lífið og að það búi ekki við þær áhyggjur sem það hefur þurft að búa við til þessa, atvinnuóöryggi og slíkt, og brýnt að fyrirtæki og stofnanir, hvort sem það er á almennum eða opinberum vettvangi, sjái fram á ákveðna hvata til að fá til sín öflugt fólk sem styður við þeirra starfsemi.



[14:20]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa þetta langt hjá mér hér, ég kom athugasemdum mínum og hugleiðingum ágætlega á framfæri í andsvörum við hv. framsögumann og fékk svör. Mig langar samt aðeins að hnykkja á því að það er kannski ástæða fyrir því að réttindastaða og fjárhagsstaða keppnis- og afreksíþróttafólks á Íslandi er jafn bágborin og raun ber vitni þrátt fyrir mikla velvild almennt, mikinn skilning á stöðunni og mikinn áhuga almennings og stjórnvalda á þessum sömu afreksíþróttum. Það hefur skort á heildstæða nálgun. Þegar afreksfólkið okkar er í sviðsljósinu — vegna tiltekinna kappleikja eða keppna á hvaða sviði íþrótta sem það er, ég tala nú ekki um þegar árangur næst, sem er býsna oft hjá fámennri þjóð — stíga ráðamenn fram, þá stígur alls konar fólk fram, og lofa hinu og þessu, af því að það er jú stór hluti af okkar góðu þjóðarsál að fylgjast með og hvetja og dásama og vera stolt af íþróttafólkinu okkar. En síðan verður oft minna um efndir og aftur, svo að ég vitni í orð langþreytts formanns stórrar íþróttahreyfingar: Sýnið nú íþróttahreyfingunni þá virðingu að standa einhvern tímann við eitthvað af því sem lofað er. Um það snýst þetta mál miklu frekar en það, eins og stundum er, að fyrst þurfi að selja hugmyndina og afla stuðnings. Hann er til staðar í orði, hann nær ekki að vera í verki. Auðvitað er það svo að eitthvað af þessu kostar peninga og eitthvað af þessu kostar vinnu o.s.frv. en þegar vilji er til er yfirleitt a.m.k. hægt að gera betur.

Nú liggur fyrir einróma samþykkt Alþingis frá því fyrir tveimur árum um að ráðherra íþróttamála skuli vera búinn að leggja fram heildstæða stefnu fyrir afreksfólk í íþróttum sem m.a. tekur til fjárhagslegs stuðnings en teiknar líka upp hvernig við eflum og hvetjum fólk í íþróttum, og þá á ég ekki bara við afreksíþróttirnar heldur grunninn sem eru almenningsíþróttirnar og börnin og ungmennin, hvernig við tengjum skólana og vinnustaði, eins og kemur fram í góðri tillögu hv. framsögumanns hér, hvernig allt þetta er unnið. Alþingi er búið að biðja um þetta. Þá finnst mér, og ég ætla bara að vera hreinskilin með það, það ekki bara óþarfi að koma fram með svona tillögu sem tekur til afmarkaðs hluta af þeirri stefnu, mér finnst það beinlínis geta skaðað vegna þess að þá erum við aftur komin niður í smáskammtalækningar, með fullri virðingu fyrir því hversu mikilvægt þetta mál er með skattahvatana, ef við ætlum einungis að fara í það og svo ætlum við einungis að gera eitthvað annað. Alþingi er búið að biðja um heildstæða stefnu um þessi mál.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég vildi bara koma þessu á framfæri og fá að brýna hv. framsögumann til dáða. Hann er þingmaður Framsóknarflokksins, þar sem eru tveir ráðherrar íþróttamála, annars vegar sá sem var ráðherra þegar Alþingi samþykkti tillöguna og fékk verkefnið til sín og hins vegar ráðherra íþróttamála núna, sem væntanlega er með það á sinni könnu að klára málið og skoða, vegna þess að stefnan var ekki lögð fram í vor eins og Alþingi fór fram á. Ég segi það einlæglega: Það er fljótlegra að setja þetta inn í stefnu heldur en að fara með nýja þingsályktunartillögu þingmanna alveg í gegn.

En bara svo að það liggi alveg skýrt fyrir: Ég óska þess einlæglega að þetta verði að veruleika. Ég myndi vilja sjá það inni í heildstæðri stefnu en við eigum það sameiginlegt að þetta vil ég sannarlega sjá gerast og þekki það á eigin skinni hversu slæmt það er ef maður lendir í því að það er ekki velvilji hjá viðkomandi vinnuveitanda og skóla. Málið styð ég en ég vildi bara að það lægi fyrir nákvæmlega hvernig staðan væri.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.