153. löggjafarþing — 8. fundur
 22. september 2022.
efling félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, fyrri umræða.
þáltill. BjarnJ o.fl., 10. mál. — Þskj. 10.

[14:25]
Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við þurfum að styrkja stöðu sjávarbyggðanna, tækifæri fólks til að leggja fyrir sig vistvænar krókaveiðar á grunnslóð í atvinnuskyni, nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sjávarauðlindina, að sú leið sé öllum opin, ekki síst í þágu smærri byggðanna sem hafa á undanförnum árum verið rúnar aflaheimildum sínum og lífsbjörg kynslóða færð á sífellt færri hendur á færri stöðum. Kvótakerfið er án byggðafestu þar sem menn hafa komist upp með að höndla með veiðiheimildir sem eign þeirra væri og án tillits til hagsmuna og réttinda einstakra byggðarlaga og samfélaga fólks sem hefur í kynslóðir byggt afkomu sína á því að sækja sjóinn og vinna úr og nýta það sem hafið gefur.

Ég mæli hér í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu félagslega hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins, einu af forgangsmálum þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að stækka í áföngum félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með það fyrir augum að hlutdeild þess verði 8,3% af heildarafla í stað 5,3% eins og er í dag. Þá er lagt til að endurskoðuð verði skipting aflamagns á milli aðgerða innan kerfisins sem og endurskoðun á hlutverki hverrar og einnar þeirra.

Virðulegi forseti. Félagslegar veiðar skipta sköpum fyrir byggðafestu í landinu. Það má ekki gleymast í umræðunni um sjávarútvegsmál hversu samofin greinin er sjálfsmynd þjóðarinnar. Hvert einasta sjávarpláss á sér ríka sögu vegna veiða og í mörgum tilfellum voru veiðar aflvaki byggðarinnar. Það má kalla þetta tilfinningasemi en í eðli sínu eru félagslegar veiðar jöfnunartæki og liður í því að treysta byggðajafnrétti og styrkja stöðu sjávarbyggðanna sem og réttlátari nýtingu sjávarauðlindanna um land allt.

Sjávarbyggðir þær sem verst urðu úti vegna framsals aflaheimilda hafa sumar gengið í endurnýjun lífdaga fyrir tilstilli félagslegra veiða. Þar hafa strandveiðar skipt sköpum. Þær hafa glætt lífi hafnir sem áður stóðu tómar og sjávarútvegur var á undanhaldi. Félagslegar veiðar styrkja atvinnulíf hvar sem þeirra nýtur við. Þær stuðla að aukinni fjárfestingu í sjávarútvegi, ekki síst þar sem aflaheimildum er ekki lengur til að skipta í minni og brothættari byggðum. Það er mat þess sem hér stendur að viðvarandi stækkun félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins til lengri tíma muni auka enn á þá fjárfestingu, auka fyrirsjáanleika í greininni og koma til móts við sveiflur vegna kvótaskerðinga sem koma öllu verr við smáútgerð. Þá eru ótalin áhrif félagslegra veiða, sér í lagi strandveiða, á nýliðun í sjávarútvegi og mikilvægi þeirra sem mótvægi við aukna fákeppni og samþjöppun í greininni.

Virðulegi forseti. Þegar lýtur að félagslega kerfinu er eðlilegt að staldra við og kanna hvort allar aðgerðir innan þess standi undir hlutverki sínu. Það er öllum til heilla að félagslegar veiðar skili sem farsælustum árangri. Þess vegna er lögð til endurskoðun á innbyrðis skiptingu aflamarks á milli aðgerða sem og endurskoðun hverrar aðgerðar fyrir sig.

Félagslegar veiðar skipta sköpum fyrir byggðafestu á Íslandi. Strandveiðar voru heimilaðar með lögum nr. 66 19. júní 2009. Það voru mikilvæg og farsæl tímamót 25. júní sama ár þegar þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, undirritaði fyrstu reglugerðina um strandveiðar við flotbryggjurnar neðan við gömlu verbúðirnar við Tryggvagötu. Hafandi tekið þátt í mótun hugmyndafræðinnar að baki strandveiðunum og komið að samningu frumvarpsins um veiðarnar á sínum tíma er sérstaklega ánægjulegt að standa nú á Alþingi og mæla fyrir tillögu um frekari eflingu strandveiða og að þær verði festar enn betur í sessi.

Við upphaf strandveiða var markmiðið m.a. að auka aðgengi að fiskveiðum í atvinnuskyni og opna á takmarkaðar veiðar þeirra sem ekki voru handhafar aflaheimilda. Veiðarnar voru sömuleiðis liður í aukinni atvinnustarfsemi á árunum eftir hrun. Veiðarnar voru lyftistöng fyrir atvinnulíf í smærri byggðum og á svæðum sem illa höfðu komið út úr samþjöppun aflaheimilda. Grunnhugmyndin fólst í að setja á fót frjálsar handfæraveiðar meðfram ströndinni. Þessi nýi flokkur veiða fékk síðan heitið „strandveiðar“ og var hugsaður sem frjálsar en ábyrgar og sjálfbærar veiðar sem myndu greiða fyrir nýliðun í sjávarútvegi og efla atvinnu og líf í sjávarbyggðum landsins. Þau markmið hafa að mörgu leyti gengið eftir og einn þýðingarmesti ávinningur strandveiðanna er sá að fleiri en handhafar aflamarks geta stundað veiðar í atvinnuskyni. Strandveiðar skipta nú sköpum fyrir fjölda fjölskyldna vítt og breitt um landið. Er um að ræða aðkomu 700 sjálfstæðra útgerða að handfæraveiðum, að ótöldum afleiddum störfum fiskverkenda, verkafólks, þjónustuaðila og heilu byggðanna.

Þá er oft litið fram hjá þeim hluta veiðanna sem snýr að umhverfinu en handfæraveiðar eru ekki ágengar, fara vel með hráefni sem og umhverfi sitt. Einnig er vert að horfa til tækifæra sem snúa að orkuskiptum í strandveiðum og smáskipaflotanum öllum við endurskoðun þá sem hér er lögð fram. Þá er vert að horfa til rafknúinna veiðarfæra og fleira sem styður markmið um vistvænar veiðar og kolefnishlutleysi.

Á nýliðnu strandveiðasumri var aflaverðmæti handfæraveiða langt á fimmta milljarð. Heildarþorskafli var 10.948 tonn og 1.472 tonn í ufsa. Fiskverð var í sögulegu hámarki og er því að baki farsælasta strandveiðivertíð frá upphafi þeirra. Langstærstur hluti strandveiðiaflans er seldur frjálsi sölu í gegnum uppboðskerfi fiskmarkaðanna sem styður við vinnslu sjávarafurða án tengsla við útgerð en er jafnframt liður í hærra meðalverði fisks. Tækifæri er til að gera enn betur við lestun á hráefni um borð í bátum. Fiskurinn í strandveiðibátunum er allur nýr við löndum. Það er eftirsóknarvert, ólíkt afla veiddum með sumum öðrum veiðiaðferðum, og ber því jafnan af þegar vel er gætt að meðhöndlun.

Af öðrum mikilvægum byggðaaðgerðum má nefna sérstaka byggðakvóta. Ég vil byrja á því að árétta mikilvægi þess að árangur byggðaaðgerða sé sýnilegur og mælanlegur. Með tilliti til sérstaka byggðakvótans mætti auka gagnsæi með reglubundinni skýrslugjöf. Í samningnum komi fram markmið úthlutunar sem og mælikvarðar, fyrirkomulag, umsýsla og eftirfylgni og fleira þar sem styður gagnsæi. Þá tel ég að horfa ætti til þess að koma á samræmdum reglum um úthlutun almenna byggðakvótans, hvort tilefni sé til þess að endurskoða dreifingu byggðakvótans og að honum verði beitt með ákveðnari hætti til smærri útgerða og skipa og hvort nýta megi hann til að styðja betur við félagslegar veiðar. Þá er fyrirsjáanlegt að aukinn hluti línuívilnunar verði ónýttur næstu ár vegna tækniframfara. Hefur hún dregist saman um tvo þriðju frá árinu 2016. Vert er að kanna hvort taka mætti upp með einhverjum hætti umhverfisívilnun með sömu formerkjum. Þá mætti til að mynda horfa til veiðarfæra sem hafa lítil áhrif á umhverfið, svo sem línuveiðar, gildruveiðar og/eða útgerð sem styðst við endurnýjanlega orkugjafa.

Loks vil ég segja um skel- og rækjubætur, sem komið var á til að minnka það áfall sem skel- og rækjuútgerðir urðu fyrir með áföllum stofnanna, að aflaheimildir þær sem gefnar voru eftir í skiptum fyrir heimildir til veiða þessara tegunda voru hluti af almenna fiskveiðistjórnarkerfinu, ekki því félagslega, og eðlilegt að uppgjör við handhafa þeirra bóta taki mið af þeim forsendum. Þá tel ég að komi til álita að horft verði til þess hvort veiðiheimildirnar hafi verið nýttar heima fyrir til hagsbóta fyrir þau byggðarlög sem fyrir áföllunum urðu eða leigðar í burtu.

Virðulegi forseti. Ástæða er til að endurskoða úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, með tilliti til þess hvernig þær veiðiheimildir nýtast sem best smærri byggðarlögum sem þær eiga að þjóna og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Þá þarf að koma í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra veiðiheimilda við Íslands strendur.

Að þessari þingsályktunartillögu standa ásamt mér þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, þau Steinunn Þóra Árnadóttir, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur. Vil ég að lokum leggja til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar.



[14:35]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar stendur að skipuð verði nefnd um að kortleggja ýmsar áskoranir. Þar er t.d. fjallað um gagnsæi fyrirtækja og að meta árangur af atvinnu- og byggðakvóta á strandveiðar til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum. Mér sýnist þessi þingsályktunartillaga einmitt gera nákvæmlega það sama og þessi nefnd á að gera, sem er nú þegar störfum, alla vega samkvæmt stefnuræðu hæstv. matvælaráðherra hérna á dögunum. Þar er einmitt talað um að við þurfum að ræða hversu stórum hluta aflans eigi ráðstafa á félagslegan hátt og að fara þurfi yfir gjaldtökuna af sjávarútvegi, sem er áhugavert út af fyrir sig því að það að ræða gjaldtöku af sjávarútvegi er ekki inni í stjórnarsáttmálanum, það er bara af fiskeldinu. Það er hreinlega ekki í stjórnarsáttmálanum að breyta stærð félagslega hlutans í kvótakerfinu heldur bara að ræða hann.

Þingsályktunartillagan snýst dálítið um það nákvæmlega. Svo að maður renni örstutt yfir hana þá er matvælaráðherra falið að efla félagslega hlutann, endurskoðun á skiptingu aflamagns o.s.frv. Það er svo auðvelt nefnilega að breyta bara prósentunni í lögunum. Ég skil ekki alveg af hverju þetta er þingsályktunartillaga og miðað við það skil ég ekki til hvers hún er ef matvælaráðherra, sem er í stjórnmálaflokki hv.flutningsmanns þessarar þingsályktunartillögu, er einmitt ráðherra þess málaflokks og ætti væntanlega að geta gert nákvæmlega það sem þingsályktunartillagan snýr að án þess að það komi þinginu neitt sérstaklega mikið við, sérstaklega af því að það er nefnd að störfum sem á að vera að gera nákvæmlega þetta, að meta árangurinn.



[14:37]
Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Fyrir það fyrsta þá þarf að gerast eitthvað í þessu strax. Það er nefnd að störfum vissulega, fjölskipuð, sem hefur talsvert langan tíma til að fara yfir og vinna í hlutunum og við eigum eftir að sjá hvað út úr því kemur. Ég sé ekki ástæðu til að bíða þess. Ef við horfum t.d. bara á næsta ár strax, á næsta veiðitímabil, vil ég að þær fjölskyldur sem reiða sig t.d. á strandveiðarnar viti þá bara sem allra fyrst að við séum að fara að sjá fram á að kerfið verði fest betur í sessi og með meiri veiðiheimildum sem allra fyrst. Þessi tillaga ætti í sjálfu sér að vera góð hvatning til þess og líka til að vekja um það umræðu. Það er náttúrulega líka ánægjulegt og gott ef flutningsmenn telja sig njóta þess að ráðherrarnir séu jafnvel sömu skoðunar og líklegir til að gera eitthvað í málunum. Ég hef fulla trú á því að það verði góð eftirfylgni á þessu og svo sem verið svigrúm til að stíga ýmis skref fljótt og vel að mínu mati. Þótt sumt krefjist frekari yfirferðar og skoðunar tel ég að hægt sé að spyrna svolítið hart við fæti og fara í breytingar til góðs. Ég hef bara mjög jákvæða tilfinningu fyrir því að svo verði.



[14:39]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ef þetta á að gerast strax þá skil ég ekki af hverju þetta er þingsályktunartillaga. Lögin um stjórn fiskveiða eru með hlutfallsprósentuna sem er talað um í greinargerðinni, 5,3% en samkvæmt stefnu Vinstri grænna á hún að vera 8,3%. Samkvæmt stefnu Pírata eru það bara frjálsar handfæraveiðar, ekkert rosalega flókið enda, eins og hv. þingmaður sagði, er þetta ekki ágeng veiðiaðferð og gengur ekki á stofninn. Ef þetta á að gerast strax, af hverju er þetta þá ekki lagafrumvarp?



[14:39]
Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Takk fyrir andsvarið hv. þingmaður. Ég bara tek undir með hv. þingmanni. Við deilum því Vinstri græn og Píratar að vilja efla strandveiðar og efla krókaveiðar. Svo er spurning með hvaða hætti það verði best gert. Ég vænti þess að þið, eins og við, fagnið því ef stigin eru skref í þessa veru. Burtséð frá því hversu stór þau eru og hversu hratt þau eru stigin þá eru þau mikilvæg. Ég tel að innan kerfisins — ég ætla ekkert að fara út í einhverjar flóknar pælingar og þá líka um byggðakvóta og hitt og þetta annað sem er undir í þessu — sé hægt að stíga strax ákveðin skref og vonandi fleiri skref. Svo mun væntanlega þurfa lagabreytingar til að festa hlutina í sessi á einhverjum tímapunkti.

Ég held að það sé mjög mikilvægt og margir geti tekið undir það, m.a. meðþingmenn mínir hér, að það á að taka málið upp og fylgja því eftir og sýna einarðlega fyrir hvað við stöndum hér og í þessu tilviki við í þingflokki Vinstri hreyfingar - græns framboðs. Við stöndum með okkar stefnu og því sem við höfum talað fyrir alveg frá upphafi kerfisins, eins og ég kom að líka, hafandi tækifæri til að taka þátt í að móta það á sínum tíma.

Þetta er bara mitt hjartans mál líka, ég verð bara að viðurkenna það. Þess vegna finnst mér gríðarlega mikilvægt að geta fylgt því hér eftir og fengið meiri og betri umræðu um það, sem væntanlega skilar þá því að það verður enn þá meiri slagkraftur og eitthvað gerist — sem ég hef fulla trú á að verði.



[14:41]
Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni fyrir þessa prýðilegu þingsályktunartillögu. Verandi nýliði hér á þinginu er maður að átta sig betur og betur á því hvernig ferlið er í lagasmíðunum. Ég hef verið í annars konar lagasmíðum í gegnum ævina og stundum verður til ágreiningur um höfundarrétt, hver samdi hvaða viðlag eða hvaða vers, en þegar upp er staðið skiptir öllu að lögin verði góð. Ég held að hér hafi hv. þingmaður brugðist vel við þeirri undarlegu stöðu sem kom upp við upphaf þingsins þegar svo virtist sem Vinstri grænir ætluðu virkilega að vega að strandveiðisjómönnum. Hv. varaþingmaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, brást ókvæða við og ýmsir fleiri. Það var kannski eitthvað sem þurfti að leiðrétta og rétta kúrsinn af með. Það held ég að hv. þingmaður sé að gera.

Hitt sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson vék hér að er auðvitað yfirstandandi vinna sem er gríðarlega yfirgripsmikil og tímafrek og ég vænti ekki neinnar niðurstöðu þeirrar vinnu fyrr en í fyrsta lagi á næsta ári, jafnvel þarnæsta. Þetta er gott mál sem er bara full ástæða til að taka til afgreiðslu og klára. Svo kemur stóra myndin í fyllingu tímans. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með þessa þingsályktunartillögu og óska honum velfarnaðar og styð heils hugar það sem lagt hefur verið fram.



[14:43]
Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, vissulega er ágætt að verið sé að fara yfir og ýmsir hafa komið að því að fara yfir hvernig við getum bætt kerfið og gert það sanngjarnara og þannig stigið skref í því. Ég er samt svolítið óþolinmóður í þessu, ég viðurkenni það. Ég vil bara sjá suma hluti gerast eins fljótt og verða má. Ég hef líka áður séð svona vinnu fara af stað og kannski ekki komið mikið út úr henni. Ég vil alveg treysta því þótt ég hafi væntingar og vonist til að svo verði, en ekki eiga allt undir því að svo verði og svo kannski endist það ekki.

Síðan eru bara alls konar hlutir að gerast núna þar sem við verðum að spyrna við fæti. Hér erum við sérstaklega að horfa á þessi byggðarlög sem eiga í vök að verjast. Þarna þarf fólk tryggingu fyrir sinni aðkomu. Annað sem þarf að fara að taka á — að horfa upp á þessa uppsöfnun veiðiheimilda á hendur örfárra fyrirtækja og einstaklinga. Við höfum bara ekki tíma til að horfa upp á þetta. Við verðum bara að gjöra svo vel að grípa inn í alla þessa hluti sem okkur finnst ekki æskilegir.

Ég myndi óska þess t.d. með strandveiðarnar að það liggi betur fyrir bara fyrir næstu vertíð meira öryggi og framtíðarsýn varðandi þær og fyrir þær byggðir sem eiga í hlut, fyrir þá sjómenn og þeirra fjölskyldur sem eiga í hlut. Ég hef fulla trú á því að ráðherrann okkar muni bregðast við og stíga skref fyrir næsta vor. Ég bara heiti og treysti á hana í því.



[14:45]
Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir sitt innlegg hér. Það sem hér er lagt fram fellur mjög nærri stefnu okkar í Flokki fólksins. Við erum atfylgisfólk strandveiðisjómanna og teljum það hluta af eðlilegri, náttúrulegri atvinnustefnu að byggðarlögin hafi svigrúm og frelsi til að sækja sjóinn og færa björg í bú. Þó að við skulum ekki vanmeta dýrmætt framlag stórútgerðarinnar til hagkerfisins þá er ýmislegt þar sem vefst fyrir þorra landsmanna. Það felst ákveðin mótsögn í því að þjóðin eigi miðin en rétturinn sé samt í eigu fárra. Það er stóra verkefnið að sammælast um. Verkefnið núna er að tryggja strandveiðimönnum rétt, sjálfsagðan og eðlilegan rétt, til að sækja sjó, færa björg í bú og efla hagkerfi kjarna um gjörvallt land. Ég styð þessa þingsályktunartillögu.



[14:47]
Flm. (Bjarni Jónsson) (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti og hv. þingmaður. Ég þakka enn og aftur andsvarið. Já, ég held að það sé reglulega gott að minna okkur á það sem oftast að sjávarauðlindin er sameign íslensku þjóðarinnar og þannig á það að vera. Við þurfum að styrkja það enn frekar í sessi og snúa ofan af þeirri óheillaþróun sem við höfum verið að horfa upp á varðandi það hvernig fólk umgengst það sem er ríkt í okkar hjörtum varðandi það. Síðan er það líka með sjávarbyggðirnar þar sem kynslóð fram af kynslóð hefur lifað af sjósókn, að ég tali ekki um smærri byggðirnar sem eru búnar að missa allt vegna þess að það hefur verið selt í burtu eða safnað á einhverra hendur.

Það sem við höfum gert, ég og mínir félagar, er að við höfum lagt gríðarlega áherslu líka bara á rétt þessara byggðarlaga, þessa fólks, til að geta sótt sjóinn og sjávarauðlindina, að ekki sé hægt að taka það svo auðveldlega frá fólki þó að við þurfum vissulega að sameina þetta tvennt, annars vegar að þjóðin njóti sem mests af sjávarauðlindinni en líka að við virðum rétt og mikilvægi byggðanna og byggðafestuna og hvað það skiptir miklu máli fyrir okkur öll að svo sé og að smærri útgerðirnar og slíkt fái notið sín.

Ég segi það bara enn og aftur að það verður að snúa ofan af þessari samþjöppun. Hún er búin að vera gríðarleg síðustu árin og þetta er bara ekki boðlegt. Við sem hér störfum eigum að gera eitthvað í því sem allra fyrst. Þetta er kannski fyrir utan málið sem ég er sérstaklega að tala hér um en þarna er annað stórt verkefni sem við verðum að takast á við.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.