153. löggjafarþing — 8. fundur
 22. september 2022.
vextir og verðtrygging o.fl., 1. umræða.
frv. ÁLÞ o.fl., 12. mál (aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu). — Þskj. 12.

[15:56]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og húsaleigulögum, aðgerðir til að sporna við áhrifum verðbólgu á húsnæðislán og húsaleigu. Meðflutningsmenn mínir eru Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Í frumvarpinu eru lagðar til lagabreytingar sem miða að því að frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023 skuli vísitala neysluverðs eins og hún stóð í nóvember 2022 gilda um verðtryggingu neytendalána og fasteignalána til neytenda. Einnig eru með frumvarpinu lagðar til samsvarandi takmarkanir á leigu íbúðarhúsnæðis í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023.

Frumvarp þetta var fyrst lagt fram um leið og þing hófst á síðasta ári og ég komst að til að mæla fyrir því þann 18. janúar síðastliðinn. Þá var miðað við að þessi breyting myndi gilda allt þetta ár en nú er miðað við að verðtryggðar skuldbindingar neytenda, hvort sem er vegna lána eða leigu, muni ekki taka breytingum til hækkunar á næsta ári, 2023. Til einföldunar má kalla þetta frystingu á verðtryggingu á lánum og leigu og við getum öll séð í hendi okkar hversu miklu máli þessi frysting hefði skipt á þessu ári. Vonandi látum við þetta okkur að kenningu verða og látum ekki annað ár líða án þess að gera það sem við hefðum átt að vera löngu búin að gera. Ég bendi á að ekki er verið að leggja til neinar afturvirkar breytingar sem myndu auka flækjustigið verulega heldur eingöngu verið að koma í veg fyrir frekari skaða en þann sem þegar er orðinn.

Það er einnig vert að vekja athygli á að þegar frumvarpið var fyrst lagt fram var ekki hafið stríð í Úkraínu. Við vorum hins vegar rétt að stíga út úr takmörkunum vegna heimsfaraldurs og alveg ljóst í hvað stefndi, enda virðiskeðjur viðskipta og varnings víða rofnar eftir heimsfaraldurinn og margir í sárum. Ríkisstjórnin kaus samt að aðhafast ekkert heldur hélt sig við möntruna um góða stöðu heimilanna eins og þar væri hægt að setja öll heimili landsins undir sama hatt. Þótt meðaltöl hafi verið góð og þau í efstu tekjutíundunum sem hífa meðaltölin upp hafi það mjög gott þá er ekki hægt að segja það sama um þau sem eru í neðri eða neðstu tekjutíundunum en það er einmitt fólkið sem hefur verið fast í gildru verðtryggðra lána eða á leigumarkaði þar sem flestir samningar eru einnig verðtryggðir. Stríðið í Úkraínu, sem kom okkur öllum að óvörum, hefur vissulega haft áhrif bæði á verðbólgu og neysluvísitölu en þó ekki í þeim mæli sem ríkisstjórnin vill að þjóðin haldi. Verðbólguskot og erfiðleikar hefðu alltaf komið í kjölfar heimsfaraldurs þótt það hefði hugsanlega verið mun mildara en raunin hefur verið þar. En hér á landi bætist við skelfilegt ástand á húsnæðismarkaði sem er algerlega á ábyrgð stjórnvalda, hvaða nafni sem þau nefnast. Það er ljóst að hefði þetta frumvarp verið samþykkt og þessi frysting gilt fyrir þetta ár hefði það skipt gríðarlega miklu máli fyrir þær þúsundir sem verst hafa það, ekki hvað síst öryrkja og annarra sem hafa úr litlu að moða en greiða himinháa leigu sem hefur hækkað um tugi þúsunda á undanförnum mánuðum og einnig þá sem rétt náðu að komast inn á húsnæðismarkaðinn með því að taka verstu lán í heimi. Þau munu borga þessa verðbólgu dýrum dómum á næstu árum þannig að þegar þessi tími grimmdarlegra vaxtahækkana og verðbólgu verður ekkert nema fjarlæg minning í huga okkar, sem þrátt fyrir allt horfum á lánin okkar lækka um hver mánaðamót, mun koma að skuldadögum hjá þeim sem nú eru í svikaskjóli verðtryggðra lána og allt of mörg heimili munu ekki standast það.

Þetta mál var hins vegar svæft í nefnd þangað til Flokkur fólksins setti það í forgang í þinglok og ég fékk að mæla fyrir því aftur og þá var það afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd. Við atkvæðagreiðslu hér í þessum sal var því síðan vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem hann virðist hafa dáið drottni sínum, a.m.k. hefur ekkert spurst til þess síðan. Á meðan versnar staða heimilanna stöðugt þannig að ég sé mér ekki annað fært en að leggja þetta fram aftur.

Í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var áður lagt fram á 152. löggjafarþingi (80. mál) og er nú lagt fram efnislega óbreytt að öðru leyti en því að dagsetningar gildistíma hafa verið uppfærðar.

Heimsfaraldur kórónuveiru hefur leitt til verulegs efnahagssamdráttar og síhækkandi verðbólgu , sem hefur enn aukist vegna stríðsreksturs rússneska hersins í Úkraínu. Þrátt fyrir möguleika á endurfjármögnun með óverðtryggðum lánum geta fjölmörg heimili ekki breytt skuldum sínum þannig vegna íþyngjandi skilyrða eða kostnaðar. Þau sem greiða af verðtryggðum lánum eða húsaleigu eru berskjölduð gagnvart þessu ástandi. Nauðsynlegt er að vernda heimili landsins fyrir hörðustu áhrifum verðbólguskots.

Lagt er til að ákvæði til bráðabirgða verði sett í lög um vexti og verðtryggingu og húsaleigulög, sem kveða á um að verðtryggðar skuldbindingar neytenda skuli ekki taka breytingum til hækkunar á tímabilinu 1. janúar 2023 til 31. desember 2023. Að tímabilinu loknu taki slíkar skuldbindingar aftur breytingum með hefðbundnu sniði. Jafnframt miðist þær þá aðeins við breytingu á vísitölu neysluverðs frá næstliðnum mánuði. Að öðrum kosti yrði hætta á því að verðtryggðar skuldbindingar neytenda myndu stórhækka strax að tímabilinu loknu og að lánastofnanir og leigusalar myndu halda að sér höndum í nýjum samningum í þeirri von að fá að tímabilinu loknu fulla árshækkun vísitölu á skuldbindingar en það kæmi illa niður á neytendum sem ekki geta losnað undan þeim á tímabilinu.“

Það þarf ekki að útlista fyrir þingheimi hvernig verðbólgan geisar bæði hér og úti um allan heim. Sá stóri munur er þó á okkur og öðrum löndum að hér á landi hækka lán margra okkar og leiga í takt við vísitölu neysluverðs. Þau ósköp tíðkast hvergi annars staðar í heiminum og þess vegna verða áhrif verðbólgu alltaf mikið verri og alvarlegri hér á landi en annars staðar í heiminum og við erum misvel í stakk búin til að takast á við það. Það er óhætt að fullyrða að leigjendur standa einna verst að vígi, bæði vegna þess að það eru tekjulægstu hópar samfélagsins sem eru fastir á leigumarkaði, eins og t.d. einstæðir foreldrar og öryrkjar, en líka vegna þess að leigusamningar eru nær allir verðtryggðir og hækkandi vísitala mun strax hafa mikil áhrif á þá. Þegar leið á síðasta ár voru strax komin dæmi um leigusamninga sem höfðu hækkað um tugi þúsunda og þeim hefur bara fjölgað og staða leigjenda versnað enn frekar enda var ekkert gert. Þegar fólk hefur lítið á milli handanna skiptir hver hækkun upp á 5.000, 10.000 eða 20.000 kr. á hverjum mánuði gríðarlega miklu máli og leiga hefur víða hækkað mun meira en það. Þessir peningar eru hreinlega ekki til á mörgum heimilum. Það er því þörf á fyrirbyggjandi lausnum. Öryrkjar eru margir á leigumarkaði og ljóst að flestir sem þar eru standa illa fjárhagslega, jafnvel svo að þau eigi ekki til hnífs og skeiðar út mánuðinn. En þarna er um að ræða viðkvæmasta fólkið okkar og það þarf að verja fyrir þeim áföllum sem fram undan eru. Leigjendur, sérstaklega þeir sem leigja hjá stórum hagnaðardrifnum leigufélögum, standa illa að vígi gagnvart þeim og hækkandi leiguverði. Þetta er jafnan lágtekjufólk, oft einstæðir foreldrar og öryrkjar sem hafa ekki í nein önnur hús að venda og eiga vart til hnífs og skeiðar, hvað þá ef auknar húsnæðishækkanir auka enn á erfiðleika þeirra.

Raunveruleg staða fólks er ekki alltaf í samræmi við opinberar tölur. Það var í ársbyrjun 2020 sem verðbólgan fór að skríða yfir verðbólgumarkmið. Hafi leiga fylgt vísitölunni er sá sem borgaði 280.000 kr. í leigu í janúar 2020 að borga 328.000 kr. í dag. Á meðan fær ellilífeyrisþegi sem er ekki með heimilisuppbót útborgaðan lífeyri upp á 250.000 kr. og lægsti örorkulífeyrir er 258.000 kr. Hugsum aðeins um það. Til að eiga fyrir leigu sem hefur hækkað um 48.000 kr. á mánuði þurfa laun að hækka um tæp 64.000, bara til að eiga fyrir þessum eina lið. Þá er ekki verið að taka með í reikninginn þá holskeflu af öðrum verðhækkunum sem fram undan eru. Þeir sem eru með 500.000 kr. á mánuði fá 371.000 kr. útborgaðar. Til að koma útborguðum launum í 400.000 kr. þurfa laun að hækka í 540.000 kr., en leiga getur hækkað meira en þetta og ég veit um raunverulegt dæmi um að leiga einstaklings hækkaði úr 280.000 í 320.000 kr. á rúmu ári. Hvaða þýðingu mun slíkur kostnaðarauki heimilanna hafa í komandi kjaraviðræðum og hvers konar skilaboð eru þessar hækkanir inn í þær? Augljóslega munu verkalýðsleiðtogar hafa þessar tölur í huga í samningaviðræðum haustsins enda eru launahækkanir eina leið launþega til að standa undir þessum hækkunum. Við þurfum að skoða hækkun lána og leigu í því samhengi.

Rétt fyrir ofan leigjendur í fæðukeðjunni eru þeir sem eru með verðtryggð lán. Þar er líka oft um að ræða fólk sem hefur ekki mikið á milli handanna og rétt komst inn á húsnæðismarkaðinn með því að taka óhagstæðustu lán sem fyrirfinnast í víðri veröld. Þar sem er þó ólíkt með þessum hópi og leigjendum er að hann mun ekki finna svo mikið fyrir hækkandi húsnæðiskostnaði alveg strax. Mánaðarlegar afborganir þessa hóps muni vissulega hækka í takt við vísitölu neysluverðs en vísitölutengingin mun ekki koma niður á þeim af fullum krafti fyrr en eftir nokkurn tíma. Þegar þar að kemur verður ekki við nokkuð ráðið. Þaðan í frá munu mánaðarlegar afborganir þeirra sem eru með verðtryggð lán hækka í veldisvexti út lánstímann.

Ég skoðaði veruleika þeirra sem taka verðtryggð lán með því að fara inn á reiknivél Landsbankans og skoðaði greiðsluáætlun fyrir 40 millj. kr. lán til 25 ára sem tekið er í dag. Fyrst má nefna að greiðslubyrði óverðtryggðs láns á 7% vöxtum til 25 ára er 283.000 á mánuði og sú upphæð á að haldast óbreytt út lánstímann og ekkert nema vaxtahækkanir getur breytt því, en þær fara vonandi ekki mikið hærra en þetta auk þess sem vextir munu lækka aftur áður en yfir lýkur. Verðtryggða lánið er hins vegar á 2,3% vöxtum og fyrsta greiðslan á því og sú eina sem greiðslumatið tekur tillit til er 177.000 kr. Þarna munar um 110.000 kr. og þetta er fólki hreinlega selt sem lausn sem er freistandi fyrir marga þótt því stæði vissulega líka til boða að taka óverðtryggt lán til 40 ára með lægri greiðslubyrði. En eftir tæp fimm ár er afborgun verðtryggða lánsins komin upp í 283.000 kr. og búin að ná afborgunum af því óverðtryggða. Þá fyrst byrjar ballið fyrir alvöru. Eftir tíu ár er afborgun verðtryggða lánsins komin upp í 450.000 kr. á meðan afborgun óverðtryggða lánsins er enn þá 283.000 kr. Eftirstöðvar óverðtryggða lánsins eru þá komnar niður í 31,5 milljónir en eftirstöðvar verðtryggða lánsins eru komnar upp í 68,6 milljónir. Eftir tíu ár eru eftirstöðvar verðtryggða lánsins meira en tvöfalt hærri en þess óverðtryggðra. Eftir 15 ár hefur afborgun verðtryggða lánsins hækkað um 546.000 kr. og er komin upp í 723.000 kr. á mánuði á meðan afborgun óverðtryggða lánsins er enn þá 283.000 kr. Ef miðað er við 35% mörk Seðlabanka Íslands sem eru að neyða marga í verðtryggð lán þá þarf þessi lántakandi að vera kominn á ráðherralaun á þeim tíma, með um 2 milljónir á mánuði í laun á mánuði, til að standa undir þessu eða gerum við ráð fyrir því að lægstu laun eða örorkubætur verði 2 milljónir eftir 15 ár? Ég bara spyr. Eftir þessi 15 ár hafa eftirstöðvar óverðtryggða lánsins lækkað um 15 milljónir og eru 25,2 milljónir en höfuðstóll verðtryggða lánsins hefur á sama tíma hækkað um 37 milljónir og er 77,4 milljónir eða þrefalt hærri. Ef við höldum áfram þá verður það eftir 20 ár þannig að eftirstöðvar óverðtryggða lánsins eru 14,3 milljónir en af verðtryggða láninu eru þær 65,6 milljónir og afborgun þess er komin upp í 1.160.000 kr. á mánuði á meðan afborgun óverðtryggða lánsins er enn þá 283.000 kr. Þá þarf ekkert lítið til að greiða 65 milljónir á fimm árum, enda hækka afborganir upp frá því sífellt þar til síðasta afborgunin er 1.858.000 kr. Manni fallast hreinlega hendur yfir þessu.

Það að verðtryggð lán séu yfirleitt í boði fyrir neytendur á Íslandi er til háborinnar skammar enda hefur engri annarri siðmenntaðri þjóð látið sér detta í hug að bjóða neytendum upp á flókin afleiðulán sem í öllum öðrum löndum er eingöngu í boði fyrir fagfjárfesta, enda flokkast þau undir flókna og áhættusama fjármálagerninga. Það þarf því að banna verðtryggð lán til neytenda sem allra fyrst, en það verður ekki gert í þessari atrennu. Núna snýst málið hreinlega neyðaraðstoð við fólkið sem er annaðhvort á leigumarkaði eða fast í viðjum verðtryggðra lána. Hvert ár í verðbólgu eins og þeirri sem nú geisar getur skipt sköpum fyrir þær fjölskyldur sem eru með verðtryggð lán. Eðli verðtryggðra lána er þannig að sú hækkun sem þegar hefur orðið og mun verða á næsta ári, verði ekkert að gert, mun aldrei ganga til baka. Ef lánið sem ég tók dæmi um áðan væri tekið í dag þannig að fjórði mánuður væri fyrsta greiðsla næsta árs og sú 16. síðasta greiðsla ársins, þá mun afborgun lánsins hækka um 18.000 kr. á árinu 2023 eða um 1.500 kr. á mánuði að meðaltali. 1.500 kr. á mánuði hljómar ekki mikið en 18.000 kr. hækkun á einu ári er það óneitanlega og er um að ræða 10% hækkun afborgana á einu ári. Strax við fjórðu greiðslu lánsins í janúar á næsta ári hefur höfuðstóll lánsins hækkað um 870.000 kr. og lánið því komið í 40.870.000 kr. Við lok ársins 2023 verður lánið sem tekið er í dag komið í 43.547.000 kr. og hefur þá hækkað um 3.547.000 kr. á þessum fyrstu 16 mánuðum þannig að hækkunin á árinu 2023 er 2,7 milljónir. Það er hækkunin sem þingheimur myndi hlífa þessu fólki við ef verðtryggðar skuldbindingar neytenda tækju ekki breytingum til hækkunar frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023.

Þessa frystingu í eitt ár þarf líka að skoða í því samhengi að hún myndi einnig hlífa þessum lántakendum við snjóboltaáhrifum þessarar hækkunar sem er margfalt meiri en þessi tala gefur til kynna því verðbólga næsta árs mun verða greidd ofan á annan kostnað lánsins í 24 ár í hverjum einasta mánuði eða í 285 mánuði með tilheyrandi vöxtum, vaxtavöxtum og vaxtavaxtavaxtavöxtum auk verðbóta. Svo veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðar munu væntanlega koma önnur verðbólguskot sem enn munu magna upp þessa hækkun fyrir utan það sem þau verðbólguskot munu svo sjálf bæta við höfuðstól lánsins. Einnig ber að hafa í huga að þegar verðbólgan lækkar mun hvorki þessi hækkun né aðrar sem eiga eftir að verða nokkurn tímann ganga til baka. Það er staðreynd að verðtryggð lán hafa aldrei lækkað á ársgrundvelli í 40 ára sögu þeirra á Íslandi. Við þetta bætist svo að vextir, vaxtavextir og verðbætur verða svo reiknaðir af upphæðinni sem kom til vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins og verður þeim mun hærri en annars myndi vera. Við erum að tala um snjóboltaáhrif og við þurfum að koma í veg fyrir þau.

Það hefur stundum verið sagt að verðtryggingin sé til þess að lánveitandi fái til baka jafnvirði þess sem hann lánaði upphaflega en þegar grannt er skoðað er ljóst að þessi áhrif eins árs verðbólgu fara langt umfram það, enda er sú hækkun greidd aftur og aftur á lánstímanum. Það efast enginn um að sá sem tók óverðtryggða lánið í þessu dæmi greiðir það að fullu til baka þannig að lánveitandinn fái það sem honum ber og hann greiðir 85 milljónir á 25 ára lánstíma. Sá sem tók verðtryggða lánið greiðir hins vegar 215 milljónir á 25 árum fyrir þetta 40 millj. kr. lán eða 5,4 sinnum meira en það sem hann fékk lán á meðan sá sem tók óverðtryggða lánið greiðir rétt rúmlega tvöfalt meira. Hvernig gengur það upp? Lánsfjárhæðin er sú sama og lánstíminn hinn sami en samt borgar annar aðilinn rétt tvisvar sinnum upphæðina til baka en hinn meira en fimm sinnum.

Þessar tölur einar og sér sýna fram á með óyggjandi hætti að það er engin sanngirni í því að lánveitandinn hagnist endurtekið í tugi ára vegna tímabundins verðbólguskots. Það er ekkert sem réttlætir að lántakinn þurfa að borga álag í hverjum einasta mánuði í tugi ára fyrir tímabundin áhrif heimsfaraldurs.

En aftur að leigjendum. Leigjendur á húsnæðismarkaði eru án nokkurs vafa þeir sem standa verst gagnvart hækkunum eins og við höfum þegar horft upp á og horfum núna aftur fram á. Þeir eru á markaði þar sem eftirspurnin er mun meiri en framboðið og standa algerlega berskjaldaðir gagnvart leigusölum. Þeir eiga ekkert val í raun því hinn kosturinn gæti verið gatan. Vandinn við leigumarkaðinn er líka hversu ólíkir leigusalarnir eru. Þar er bæði um að ræða einstaklinga og stór leigufyrirtæki. Það getur verið flókið að setja lög og framfylgja þeim gagnvart svo ólíkum aðilum. Að því sögðu verðum við engu að síður að reyna að verja þá sem höllustum fæti standa á húsnæðismarkaði. Það getur ekki verið mikið mál að fylgjast með þeim sem stærstir eru á leigumarkaðnum og sjá til þess að leiguverð sé ekki vísitölutengt.

Kjarni málsins er, hvort sem um er að ræða leigjendur eða þau sem eru með verðtryggð lán, að þetta eru heimilin sem verst standa. Fjölskyldur á leigumarkaði hafa orðið og munu verða fyrir miklum áhrifum vegna vísitölutengdra leigusamninga og það sama á við um húsnæðiseigendur um verðtryggð lán. Við þurfum að koma í veg fyrir að heimili landsins verði skikkuð til að greiða fyrir fjárhagslegar afleiðingar óstjórnar á húsnæðismarkaði, stríðs í Evrópu og þeirra náttúruhamfara sem Covid-19 vissulega er, í tugi ára til loka lánstímans þegar allir verða fyrir löngu búnir að gleyma öllum þessum ósköpum og hagkerfið fyrir lifandis löngu búið að jafna sig á þeim.

Frumvarpið er sett upp þannig að ekki felist í því afturvirkni. Ef Alþingi afgreiðir málið fyrir áramót verður afturvirknin engin en nái að Alþingi ekki að afgreiða það fyrir áramót væri í versta falli hægt að færa dagsetningar fram um einn mánuð. Það sama myndi að sjálfsögðu gilda um leiguverð. Í mínum huga er hér um neyðarráðstöfun að ræða, það minnsta sem hægt væri að gera fyrir fólkið sem stendur hvað höllustum fæti í þjóðfélaginu. Við erum misvel í stakk búin til að takast á við afleiðingar verðbólgu sem fólk í þessari stöðu ber enga ábyrgð á. Samkvæmt rannsóknum er fólk á leigumarkaði það fólk sem hefur það hvað verst í þjóðfélaginu, í þessum hópi er fólk sem á vart til hnífs og skeiðar og munar um hverja einustu krónu. Auðvitað eru ekki allir leigjendur það illa staddir að þeir eigi ekki fyrir næstu máltíð en engu að síður er þetta hópurinn sem er með hvað lægstar tekjur í samfélaginu. Gerum stöðu þeirra ekki verri. Komum í veg fyrir að staða þeirra versni sem verðtryggingu húsnæðiskostnaðar nemur. Það verður nóg samt fyrir þennan hóp að takast á við aðrar afleiðingar verðbólgunnar.

Þótt einstaklingar séu einnig að leigja út íbúðir eru það stóru leigusalarnir, fjárfestarnir, sem hafa almennt reynst harðastir í horn að taka. Þessir aðilar eru ekki á flæðiskeri staddir og geta svo sannarlega lagt eitthvað af mörkum til samfélagsins með því einu að hækka ekki leigu í takt við vísitölu. Hvað varðar verðtryggðu lánin þá snýr þessi aðgerð að bönkum og lífeyrissjóðum. Eins og tölur og ársskýrslur sýna fram á með óyggjandi hætti eru þessir aðilar gríðarlega vel staddir og munar minna um þetta en heimilin sem þetta myndi hjálpa. Einnig er varla hægt að tala um viðskiptafrelsi eða samningsfrelsi þegar aðstöðumunur aðila er jafn mikill og raun ber vitni og heimilið eða gatan er eini valkostur leigjenda eða lánþega á fákeppnismarkaði.

Hér er um að ræða sértækar aðgerðir sem hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda. Margt af þessu fólki lifir í ótta um hvað næstu mánuðir muni bera í skauti sér. Ég bið Alþingi um að sýna samkennd og setja hópana sem veikast standa á húsnæðismarkaði í forgang og veita þessu máli brautargengi. Þetta er það minnsta sem hægt er að gera fyrir þennan hóp, ekki síst með tilliti til kjaraviðræðna haustsins.



[16:18]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Mig langar til að þakka fyrir þetta mál. Þó að ég sé ekki meðflutningsmaður þá styð ég það að sjálfsögðu. Það er stundum reynt að lesa of mikið í stuðning fyrir fram við þingmál með því að skoða hverjir eru meðflutningsmenn og hverjir ekki, hvort það séu einhverjir flokkar til eða frá og svoleiðis. Það virkar ekki alveg þannig hérna. Ég myndi til að mynda vilja henda verðtryggingunni út um gluggann helst á morgun eða í dag í staðinn fyrir að taka þetta milliskref og frysta. Það er alveg fínt milliskref og ég styð það heilshugar. Ástæðan fyrir því er í raun rosalega einföld. Mig langaði að fara aðeins yfir ástæðurnar fyrir því að verðtryggingin er algerlega djöfullegt verkfæri hinnar lötu efnahagsstjórnar, ef ég má orða það þannig. Ekkert kurt og pí með það, bara einfaldlega eins vel orðað og hægt er að hafa það.

Vísitalan sem slík, með eða án húsnæðis og ýmislegt svoleiðis, er ekki vondi karlinn í neinu, vísitala er einfaldlega bara mæling á því hvernig verðlag er að breytast. Það er bara gott að vita það. En það að taka þetta mælitæki og setja það sem sjálfvirka uppfærslu á eitthvað eins og lán, sem vísitalan er líka að mæla, breytir mælitækinu. Ég er hér með metersstiku sem má nota til að mæla hversu mikið af húsnæði er í landinu, hversu dýrt það er o.s.frv. Frábært. Svo dettur einhverjum í hug að binda leiguna sína við þessa mælistiku þannig að hún haldist. Einhver hækkar leiguna hjá sér einhvers staðar í kerfinu sem gerir það að verkum að mælistikan lengist af því að vísitalan sem verið er að mæla hækkaði. Allt í einu er húsnæði í landinu orðið verðmætara. Það hefur áhrif á þann sem batt leiguna við þessa mælistiku og hækkar leiguna þar, sem aftur breytir mælistikunni — ekki til baka, alltaf bara í eina átt. Þarna er verið að misnota þá mælistiku sem vísitalan er, sem á að vera upplýsingatæki fyrir okkur, og það verður til ákveðinn vítahringur. Mælistikan á að mæla ákveðin verðmæti og breytingar á þeim verðmætum. Verðmætunum er breytt sem kemur fram í vísitölunni; fínt, nákvæmlega eins og það á að vera. En út af því að verðmætunum var breytt, sem voru tengd við mælistikuna, þá breytast verðmætin aftur í kjölfarið, út af breytingunni á mælistikunni, út af breytingunni sem var gerð upprunalega og veldur breytingu númer tvö, sem aftur veldur breytingu á mælistikunni og veldur þá breytingu númer þrjú o.s.frv. Þetta verður vítahringur endalausrar verðbólgu.

Þetta er hagstjórnartæki, við skulum hafa það algerlega á hreinu. Efnahagurinn sem slíkur, hagkerfið, er í raun ekkert annað en það sem er þarna úti og er með verðmiða; bara andvirði alls sem hægt er að kaupa. Það er hagkerfið eins og það er. Hagvöxtur er bara mæling á muninum milli þess sem var keypt í fyrra og í ár. Ef meira er keypt í ár en í fyrra var hagvöxtur. Þá eru fleiri hlutir komnir með verðmiða. En það gætu líka hafa verið jafn margir hlutir með hærri verðmiða. Hundrað manns kaupa 100 mjólkurfernur í hverri viku eða eitthvað svoleiðis sem kostar 100 kr. hver. Það er efnahagurinn, þessi lokaði efnahagur þessara 100 mjólkurferna. Næstu viku eru allar mjólkurfernu á 110 kr. en það eru áfram hundrað manns sem kaupa þessar 100 mjólkurfernur, en efnahagurinn stækkaði þá um 10%. Það er hagvöxtur upp á 10% þrátt fyrir að nákvæmlega jafnmargar mjólkurfernur hafi verið keyptar fyrir nákvæmlega jafn margt fólk; og meira að segja þó að fólki fjölgi, bara ef verið er að kaupa jafn margar mjólkurfernur fyrir hærra verð. Allt í einu verður hagvöxtur þrátt fyrir að engu hafi verið bætt við, verð var bara uppfært, því var bara breytt. Einhvers staðar þarf fólk að hafa efni á þessum auka 10% og þar koma inn launakröfur o.s.frv. til að ná þeirri hringrás, hluta af verðmætasköpuninni, í veski fólks aftur.

Hingað til hefur það alla vega virkað að launaþróun almennt séð hefur að jafnaði verið hærri en verðbólguþróun. Það er veðmálið sem við erum að taka þegar við erum með verðtryggingu. Við byrjum á að taka verðtryggt lán og þá erum við að veðja á, til þess að hafa í við aukningu á afborgunum, hækkunina, að launin okkar hækki það mikið. Hingað til hefur það veðmál að mestu leyti gengið eftir. Það hafa vissulega komið tímabil, sérstaklega í hruninu, þar sem verðbólgan var miklu meiri en launahækkanirnar og á sama tíma lækkaði verðgildi íbúðanna sem voru þar á bak við. Þegar við byrjum með eign sem við skuldum 80% í, verðtryggt lán og svoleiðis, sem hækkar að vísu, þá hefur andvirði eignarinnar alla jafna líka hækkað þannig að skuldahlutfallið hefur ekkert endilega breyst neitt rosalega mikið. Þótt við séum komin 10–20 ár í að greiða af láninu, sem hefur sífellt hækkað o.s.frv., hefur andvirði eignarinnar líka hækkað þannig að við erum kannski ekki endilega komin umfram 80% skuldahlutfall á íbúðinni sem við erum að reyna að kaupa með þessu ömurlega láni. Veðmálið helst þar enn þá. Það er ekki fyrr en á seinni hlutanum sem við loksins getum farið að greiða niður og ná lægra skuldahlutfalli og allt upp á það að byrja á lægri afborgunum en á óverðtryggðu láni, sem er rosalega merkilegt. Allt þetta veðmál lendir á lántaka, þar er öll áhættan.

Helsti vandinn við þetta er að áhættan er hvergi annars staðar. Út af því hefur hagstjórnin á Íslandi einfaldlega leyft sér að vera dálítið frjálsleg því að allar bólur og allar slæmar efnahagslegar ákvarðanir hafa í raun bara dottið í verðtrygginguna, á öllum sviðum efnahagsins. Fólk með verðtryggð lán borgar fyrir slæmar efnahagslegar ákvarðanir. Þess vegna þurfum við að losna við verðtrygginguna til þess að stjórnvöld hafi ekki þessa flóttaleið frá því að sinna almennilega ábyrgri efnahagsstjórn. Hingað til hafa stjórnvöld bara getað lokað augunum og reikningurinn lendir á heimilunum, sjálfkrafa. Í því ábyrgðarleysi standa rökin um mælistikuna. Það má einfaldlega ekki nýta þessa mælistiku, sem á að vera upplýsingatæki fyrir okkur um vísitölu, sem vítahringjatæki. Við eigum ekki að geta notað mælitæki til þess að hafa áhrif á það sem þau síðan mæla sjálf. Það býr til vítahringi. Bara út af því að vísitalan er mælieining má ekki nota hana, þannig á það að vera, til að breyta því sem hún er að mæla. Það skemmir mælitækið. Hitt er síðan að þetta er letihagstjórnartæki, sem er kapítuli út af fyrir sig, sem við verðum að losna við til að ná einhvers konar stöðugleika hér á Íslandi. Alltaf þegar stjórnvöld eru að tala um að aðalmarkmiðið sé stöðugleiki þýðir það ekki neitt á meðan við erum í verðbólguhagkerfi með verðtryggingu, þar sem verðtryggingin er einhvern veginn skálkaskjól stjórnvalda sem þykjast vera með einhverja stöðugleikapólitík. Það bara gengur ekki upp. Út af þessu tvennu þurfum við nauðsynlega að losna við verðtrygginguna.

Annað sem tengist þessu er að á undanförnum árum hefur verið átak í gangi, fólk hefur verið að fara af verðtryggðu lánunum. Það var ákveðin þróun yfir í það að fólk færi í óverðtryggð lán. Nú virðist eins og fólk sé að leita aftur í verðtryggðu lánin, einfaldlega af því að það voru önnur hagstjórnarmistök sem ollu því að íbúðaverð fór í hæstu hæðir. Þá fara upphæðir afborgana að skipta máli og þar eru verðtryggðu lánin þau sem eru með lægstu afborganirnar og fólk nær ekki inn á nein önnur lán en þau. Það eru einu lánin þar sem þú getur tekið nægilega hátt lán og haldið afborgunum niðri til að standast greiðslumat. Það var farið í lán með breytilegum vöxtum, það er ekkert annað en annað nafn yfir verðtryggt lán, ekki neitt. Það er ekki nákvæmlega sama beintenging við vísitölu neysluverðs eða byggingarvísitölu eða hvað sem er, en það er samt ekkert annað. Ef verðbólgan fer á fleygiferð þá breyta lánastofnanirnar einfaldlega vöxtunum eftir miklu ógagnsærri aðferðum en með verðtryggingunni. Það er vissulega meiri nákvæmni í því, það er ekki bara nákvæmlega eftir vísitölu neysluverðs heldur er hægt að breyta minna o.s.frv., en ákvörðun um það er ekki eins gagnsæ og er í raun ekkert annað en verðtryggt lán. Það að lánastofnanir geti eftir mjög óljósum rökum, eins og Neytendasamtökin hafa komist að, breytt skilmálum lána á þann hátt að vextir hækka eða lækka er einfaldlega sama fyrirkomulag að grunni til og að tengja við verðbólgu, vísitölu neysluverðs. Vissulega eru stýrivextirnir þarna inni en ef þetta væri t.d. óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum byggðum á stýrivöxtum en ekki einhverju öðru eins og lánaskilmálar fela í sér væri það kannski skárra. En af því að skilmálarnir eru svo opnir er hægt að breyta vöxtum lánsins eftir því sem hentar lánastofnuninni. Það besta til að tryggja lánastofnunina fyrir tapi er einmitt að bendla lánið beint við vísitölu neysluverðs og byggingarvísitölu. En það hefur kannski ekki verið fullnýtt heldur er hægt að fela það í verðtryggingu; létt útgáfa ef þannig má orða það. Það lánafyrirkomulag er líka eitthvað sem þarf tvímælalaust að henda út um gluggann. Það er í raun jafn ógagnsætt fyrir lántaka og verðtryggt lán þegar þú sérð í raun bara fyrstu afborgunina, eftir það hefur þú ekki hugmynd um hvernig lánið kemur til með að þróast og vextir eru byggðir á geðþóttaákvörðunum lánastofnunarinnar. Það er að mínu mati óboðlegt út frá neytendasjónarmiðum.



[16:33]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég veit varla hvar ég á að byrja, en ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni kærlega fyrir stuðninginn. Það var ofboðslega margt sem hann kom inn á. Ég var kannski ekki 100% sammála þessu sem hann endaði á að tala um, þ.e. að lán á breytilegum vöxtum væru í rauninni það sama og verðtryggð lán vegna þess að þau virka allt öðruvísi. Það verða ekki þessi snjóboltaáhrif því að þú ert ekki að fá lánað fyrir verðbólgunni. En hitt er svo að það þarf að herða þessa skilmála og Hagsmunasamtök heimilanna hafa bent á það í mörg ár og lagt fram alls konar kvartanir gagnvart þessum skilmálum í mörg ár. Það er eitthvað sem verið er að vinna í og þarf virkilega að þrengja. En ég er algerlega sammála því að þessi verðtryggðu lán eru bara djöfullegt tæki, það er ekki hægt að kalla það annað. Ég hefði líka algerlega viljað sleppa þessu millistigi, að biðja um frystingu í eitt ár, enda er ég með frumvarp sem verður vonandi lagt fram á næstu vikum um afnám verðtryggingar á lánum til neytenda. Hins vegar á verðtrygging alltaf að vera á milli fjárfesta og fjárfesta og ríkis vegna þess að öðruvísi hafa þessir aðilar ekki hag af því að halda verðbólgunni niðri. Í raun hefur þessu verið snúið við hér á Íslandi. En það er alveg rétt líka sem hv. þingmaður sagði. Mælitækið, vísitalan, það er ekkert við það að athuga. Ef við værum ekki eina þjóðin í heiminum sem miðaði lán við vísitölu neysluverðs hefði ekkert okkar áhyggjur af því hvort húsnæðisliðurinn væri inni í vísitölunni eða ekki. Þá myndi það ekki skipta okkur neinu einasta máli. En þegar lánin okkar hækka og lækka með einhverju sem á bara að vera mælitæki, þá skiptir það öllu máli.



[16:35]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég stend við það að lán á breytilegum vöxtum séu verðtryggð útgáfa, léttverðtryggð útgáfa, út af opnu skilmálunum. Ef þeir væru þrengri eins og ég rakti varðandi t.d. breytingar á stýrivöxtum þá væri það allt annað mál. En eins og útfærslan er núna þá gæti lánastofnun einfaldlega bara tengt þetta við vísitölu neysluverðs eða byggingarvísitölu án þess í raun að segja það upphátt og þá væri það eiginlega verðtryggt lán án þess að nokkur vissi það. Hún getur meira að segja gert það tímabundið og síðan ekki tímabundið þannig að það myndi ekki líta nákvæmlega eins út en það væri samt þannig þegar allt kemur til alls. Möguleikinn er til staðar. Og af því að möguleikinn er til staðar þá legg ég þessa skilmála að jöfnu hvað það varðar. – Það var áhugavert sem hv. þingmaður kom inn á, hvatinn til að halda niðri verðbólgu. Hann hefur verið fjarlægður á vissan hátt. Áður fyrr voru laun verðtryggð í smátíma en það var fljótlega afnumið af því að þá var svo erfitt að stunda hagstjórn, þá þurfti að sýna aðhald í ríkisfjármálum og ýmislegt svoleiðis og þá væri ekki hægt að haga útflutnings- og innflutningstekjum sjávarútvegsfyrirtækja á nægilega þægilegan hátt eða gengisbreytingum o.s.frv. án þess að það kæmi út í launum og þess háttar líka. Þá fór náttúrulega allt á hausinn. Það er búið að snúa þessu tæki upp í það, þessu letihagstjórnartæki, að það eru heimili landsins sem borga brúsann. Ef þetta ætti að vera til á annað borð ætti áhættan tvímælalaust að vera hjá öllum aðilum. (Forseti hringir.) En hún er það ekki og fyrst hún er greinilega bara sett á annan aðilann þá ætti enginn að bera þá hagstjórnarlegu ábyrgð nema ríkisstjórnin.



[16:37]
Flm. (Ásthildur Lóa Þórsdóttir) (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við þurfum bara að taka aðra umræðu um það hvort þetta sé verðtryggt eða ekki, við getum alveg gert það. En það sem hv. þingmaður er að segja undirstrikar að það eru engin góð lán til fyrir neytendur á Íslandi. Það kemur alltaf í bakið á þér einhvern veginn. Það er þetta gríðarlega óöryggi sem neytendur á Íslandi búa við, sem er allt annað en nokkurs staðar annars staðar í heiminum, alla vega í löndum sem við viljum miða okkur við. Það er eitthvað sem þarf að breyta.

Í mínum huga er frumvarpið sem ég hef lagt fram núna neyðarráðstöfun. Það sem ég lagði upp með í fyrra, þegar ég samdi frumvarpið, var hvað ég gæti hugsanlega fengið samþykkt sem bjargar málum núna. Ég veit að afnám verðtryggingar er mál sem er miklu stærra og erfiðara að fá í gegn. Það kemur til með að taka miklu lengri tíma. Þess vegna er ég að fara þessa leið til að bjarga því sem bjargað verður. En svo þarf bara að minna á þetta, stöðuna eins og hún er í dag. Samkvæmt reiknivél Landsbankans er óverðtryggða lánið með 7% vöxtum og þeir fara ekkert oft mikið hærra en það. Samt er heildargreiðslan á lánstímanum á 25 ára láni, ég varð að miða við það af því að óverðtryggða lánið er til 25 ára, „ekki nema“ 84 millj. kr., en 215 af verðtryggða láninu. Svo komum við að því, sem gerist ekki með óverðtryggðu lánin, sem eru þessi snjóboltaáhrif á afborganir. Sá sem var með verðtryggða lánið ætti að borga 65,6 millj. kr. á síðustu fimm árum lánstímans. Hver myndi fara inn í banka og taka lán til fimm ára upp á 65,6 milljónir? Ekki neinn. Þetta nær ekki nokkurri einustu átt.



[16:40]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Eftir 20–25 ár þegar afborgunin er rúm milljón, þá hafa laun væntanlega þróast líka (ÁLÞ: … 1,9.) og hingað til hefur það verið þannig að launaþróun hefur verið meiri en verðbólgan. Þetta er því væntanlega vel umfram útborguð laun ef veðmálið stenst eftir 20–25 ár. En það er einmitt veðmál sem við ættum ekki að þurfa að taka og það er eins og hv. þingmaður segir, og ég er sammála, að það er ekki til neitt gott lánaform á Íslandi. Óverðtryggð lán eru á svimandi háum vöxtum miðað við samanburðarlönd. Ef við mættum taka húsnæðislán einhvers staðar annars staðar fyrir íbúð á Íslandi og með miklu lægri vöxtum þá væri það mjög áhugavert. Að vísu værum við þá að velta áhættunni út í gengið, í gengisbreytingar og svoleiðis, þannig að þar kæmi vaxtamunurinn væntanlega fram í staðinn þegar allt kæmi til alls. Þá erum við bara í, held ég, krónuvanda þegar allt kemur til alls. Og kannski ágætt að enda umræðuna á því að krónan leiðir kannski af sér hátt vaxtastig og ýtir undir leti stjórnvalda til að haga efnahagsmálum almennilega. Úr því verður verðbólga sem skellir öllum kostnaðinum á heimili landsins.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.