153. löggjafarþing — 9. fundur
 27. september 2022.
sjúklingatrygging, 1. umræða.
stjfrv., 211. mál (bótaréttur vegna bólusetninga). — Þskj. 212.

[18:14]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, vegna bótaréttar í tengslum við apabólubóluefni. Samkvæmt gildandi ákvæðum laga um sjúklingatryggingu eru ekki greiddar bætur ef rekja má tjón til eiginleika lyfs. Í frumvarpinu er því lagt til að lögfest verði bráðabirgðaákvæði í lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000, þess efnis að gildissvið þeirra sé rýmkað með það að markmiði að treysta skaðabótaréttarlega stöðu þeirra sem kunna að verða fyrir líkamstjóni við eða í kjölfar bólusetningar hér á landi gegn apabólu.

Í frumvarpinu er lagt til að bætur greiðist vegna tjóns sem hlýst af eiginleikum bóluefnis gegn apabólu eða rangri meðhöndlunar þess, þar með talið við flutning þess, geymslu, dreifingu eða bólusetningu af hálfu heilbrigðisstarfsmanns. Þá er gildissviðsákvæði frumvarpsins ekki eingöngu bundið við eiginleika bóluefnis gegn apabólu heldur er nauðsynlegt að sjúklingatrygging taki einnig til tilvika þar sem bóluefni hefur tekið breytingum vegna rangrar eða ófullnægjandi meðhöndlunar, hvort heldur hjá framleiðanda, flutningsaðila, dreifingaraðila eða þeim sem annast bólusetningu. Bótaábyrgðin takmarkast við það bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til á árunum 2022–2023 og að aukaverkunin sé sjaldgæf og alvarleg.

Virðulegi forseti. Stöðva getur þurft útbreiðslu smitsjúkdóma til að vernda einstaklinginn og samfélagið sem heild. Af ýmsum ástæðum getur raunin verið sú að ekki séu fáanleg bóluefni sem hafa markaðsleyfi hér á landi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins. Því getur komið upp sú staða að stjórnvöld þurfi að leggja til og mæla með notkun á bóluefnum sem eru annaðhvort alveg ný, eins og reyndin var í Covid-19, eða eingöngu með markaðsleyfi utan EES-svæðisins, líkt og nú á við um bóluefnið gegn apabólu sem frumvarpið fjallar um.

Samkvæmt ráðleggingum frá sóttvarnalækni í júní síðastliðnum var apabóla skilgreind sem tilkynningarskyldur sjúkdómur í reglugerð og um mánuði síðar lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna útbreiðslu á apabólu og skilgreindi þá apabólu sem alþjóðlega heilsuvá. Í þeim tilgangi að bregðast við útbreiðslu apabólu hér á landi og til að vernda þá hópa sem líklegastir þóttu til að smitast af henni tryggði íslenska ríkið sér bóluefni gegn apabólu í gegnum verkefni Evrópusambandsins, Evrópusambandið fyrir heilsu eða, með leyfi forseta, EU for Health, sem Ísland er aðili að. Bóluefnið heitir Jynneos og er hvorki með markaðsleyfi á Íslandi né annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur hins vegar markaðsleyfi í Bandaríkjunum og fékk það samþykki til notkunar gegn apabólu í september 2019 en áður hafði það eingöngu verið notað gegn bólusótt.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa nú fengið til landsins 1.400 skammta af bóluefninu. Það er lágmarksfjöldi þeirra skammta sem dreift var til aðildarríkjanna. Þegar um er að ræða bóluefni sem ekki hefur markaðsleyfi innan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og á við um bóluefnið gegn apabólu, er brýnt að almenningur sé öruggur um réttarstöðu sína við eða í kjölfar bólusetningar, sérstaklega í þeim tilvikum þegar sóttvarnayfirvöld hvetja til að einstaklingur þiggi umrædda bólusetningu vegna almannahagsmuna. Af þeim ástæðum er frumvarp þetta lagt fram í þeim tilgangi að styrkja skaðabótarétt þeirra sem þiggja bólusetningu gegn apabólu. Við gerð frumvarpsins var horft sérstaklega til þess að þeir sem gangast undir bólusetningu gera það í þeim tilgangi að vernda sig en ekki síður allt samfélagið. Auðveldara aðgengi að bótum ef tjón verður af völdum bóluefnis getur stuðlað að aukinni þátttöku í bólusetningu.

Þetta frumvarp, virðulegur forseti, var ekki birt í samráðsgátt stjórnvalda þar sem bregðast þurfti hratt við nýjum smitsjúkdómi en haft var samráð við Sjúkratryggingar Íslands við gerð frumvarpsins og kostnaðarmat þess. Þá var frumvarpið sent Lyfjastofnun, sóttvarnalækni og embætti landlæknis til umsagnar og samráðs og tekið tillit til þeirra athugasemda í því samráði sem þar komu fram. En það liggur fyrir kostnaðarmat vegna þess frumvarps sem hér um ræðir og er ljóst af því að kostnaður verður mjög líklega óverulegur í samhengi við samfélagslega hagsmuni eða um 10 millj. kr. og byggist það á líkindamati frá Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins en ég ætla að leyfa mér að segja að þar sem frumvarpið fór ekki í samráðsgátt af þeirri ástæðu sem ég fór hér yfir er mikilvægt að það fái eins og alltaf tilhlýðilega umsögn og umræðu og umfjöllun í hv. velferðarnefnd og legg ég til að að lokinni þessari umræðu verði því vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.



[18:20]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir framsöguna. Mig langaði að forvitnast hjá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki einfaldlega kominn tími til að hafa einhverja fljótlegri leið fyrir ráðherra að búa til svona bótarétt. Fyrir rúmu ári síðan var það Covid og bólusetningarnar, sem við þurftum svipuð lög fyrir. Nú er það apabóla. Við vitum ekkert hvað kemur á næsta ári. Væri ekki lag að hafa þetta þannig að það þyrfti t.d. ekki að setja jafnvel bráðabirgðalög ef þingið er ekki komið saman, vera með eitthvert form sem gerir þetta auðveldara? Gætum t.d. verið með reglugerð yfir hvaða bóluefni falla undir þetta.



[18:21]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni fyrir þessa spurningu. Mér finnst þetta ekki bara vera mjög réttmæt spurning heldur mjög góð spurning. Það eru ýmis rök sem mæla með því að samhliða sjúklingatryggingu verði stofnað til lyfjatjónstryggingar hér á landi á sambærilegan hátt og í nágrannalöndum. Það hefur verið skoðað og var rætt, man ég, í tengslum við það bráðabirgðaákvæði sem var sett með viðlíka hætti varðandi Covid-19 til að tryggja skaðabótaréttarlega stöðu. Það hefur jafnframt núna verið sett af stað vinna við að endurskoða heildarlöggjöfina og taka samanburð við aðrar þjóðir, hvernig þær hafa brugðist við. Það er með aðeins ólíkum hætti. Ég held að það þurfi að koma þessu einmitt í þannig farveg að við séum alltaf undir þetta búin. Svo má auðvitað bæta við þá spurningu sem hv. þingmaður ber upp hér, sem er auðvitað stóra spurningin, hvort við hugum ekki að því að láta þetta gilda um bara allar bólusetningar almennt.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.