153. löggjafarþing — 9. fundur
 27. september 2022.
framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2, 1. umræða.
frv. ÁsF o.fl., 16. mál. — Þskj. 16.

[19:02]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Þetta er í þriðja skipti sem ég legg fram þetta mál. Ég ætla ekki að fara að lesa greinargerðina sem er mjög löng og ítarleg en ég verð þó aðeins að koma inn á örfáa punkta.

Í greinargerðinni stendur m.a. að með frumvarpi þessu sé lagt til að löggjafinn veiti heimild með lögum til framkvæmda við hin nauðsynlegu flutningsvirki sem kveðið er á um í 1. gr. frumvarpsins, á grunni lögbundins undirbúningsferlis, í stað viðkomandi sveitarstjórna, að því leyti sem viðkomandi sveitarstjórnir hafa ekki þegar veitt framkvæmdaleyfi. Verði frumvarpið að lögum er um að ræða sérlög er ganga framar almennum lögum er kunna að varða útgáfu framkvæmdaleyfa og málsmeðferð þeirra innan stjórnsýslunnar.

Markmið framkvæmdarinnar við Suðurnesjalínu 2, sem frumvarp þetta nær til, er þríþætt: að bæta afhendingaröryggi raforku á Suðurnesjum, að auka flutningsgetu milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja til að styðja við afhendingaröryggi á höfuðborgarsvæðinu, og að styrkja flutningskerfi raforku á suðvesturhorni landsins.

Forsendur framkvæmdaleyfis eru í samræmi við álit Skipulagsstofnunar. Niðurstaða Landsnets var að sækja um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 í samræmi við valkost C í áliti Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020, um mat á umhverfisáhrifum. Sú niðurstaða byggist á ítarlegri undirbúningsvinnu sem felur í sér valkostagreiningu, mat á umhverfisáhrifum, sérfræðiskýrslur, kostnaðargreiningu, samræmi við lög og reglur, stefnu stjórnvalda og samráð við hagaðila og landeigendur. Valkosturinn er einnig í samræmi við svæðisskipulag og skipulagsáætlanir allra sveitarfélaga á línuleiðinni.

Kostur C er loftlína sem fer um Hrauntungur og frá sveitarfélagamörkum Hafnarfjarðar og Sveitarfélagsins Voga liggur hún samhliða Suðurnesjalínu 1. Frá Njarðvíkurheiði að Rauðamel liggur línan samhliða Fitjalínu 1. Jarðstrengur er í báðum endum, þ.e. 1,4 km í Hafnarfirði en 0,2 km við Rauðamel. Lengd línu er alls um 33,9 km.

Frumvarpið er í samræmi við stefnu stjórnvalda. Orkustofnun samþykkir kerfisáætlun Landsnets, sbr. 9. gr. a í raforkulögum og reglugerð um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku. Í framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar er fjallað um fjárfestingar sem þarf að ráðast í á næstu þremur árum og tímaáætlun þeirra en samkvæmt 2. mgr. 9. gr. raforkulaga ber að tilkynna Orkustofnun um ný flutningsvirki áður en þau eru tekin í notkun og skal Orkustofnun hafa eftirlit með að slík framkvæmd sé í samræmi við framkvæmdaáætlun flutningsfyrirtækisins.

Suðurnesjalína 2 er á samþykktri þriggja ára framkvæmdaáætlun í kerfisáætlun 2018– 2027. Leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2 liggur því fyrir og um leið fyrir þeim fjármunum sem Landsneti er heimilt að nota í verkefnið. Fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 liggur að langmestu leyti utan svæða sem stefna stjórnvalda um lagningu raflína kveður á um að meta skuli bæði jarðstreng og loftlínu. Eina svæðið sem fellur undir framangreinda stefnu er innan þéttbýlismarka í Hafnarfirði.

Eitt af markmiðum landsskipulagsstefnu fyrir árin 2015–2026 er að tryggja örugga afhendingu raforku um leið og tekið er tillit til náttúru og landslags. Suðurnesjalína 2 fellur að stefnu svæðisskipulags Suðurnesja fyrir árin 2008–2024 sem gildir í sveitarfélögunum Vogum, Grindavíkurbæ og Reykjanesbæ. Meginstefna svæðisskipulagsins er að nýta núverandi flutningsleiðir raforku og eru þær skilgreindar sem meginlagnabelti á Suðurnesjum, þ.e. Suðurnesjalínur, Reykjaneslínur og Svartsengislínur og gert ráð fyrir að fleiri línur geti byggst upp innan þeirra. Fyrirhuguð framkvæmd um Suðurnesjalínu 2, valkostur C, er í samræmi við aðalskipulag Sveitarfélagsins Voga fyrir árin 2008–2028.

Ég ætla að láta þetta nægja úr greinargerð frumvarpsins. Ég ætla ekki að taka mjög mikinn tíma frá þinginu, hann er dýrmætur, en í stuttu máli þá var það svört skýrsla sem fram kom á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir u.þ.b. tíu dögum. Í henni fjallar fyrirtækið Reykjavík Economics um efnahagsleg áhrif Suðurnesjalínu 2. Víkurfréttir og fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um þessa skýrslu. Ég verð að segja að þrátt fyrir að maður telji sig þekkja nokkuð vel til á þessu svæði þá koma slíkar upplýsingar manni alltaf á óvart þegar dregin er upp sú mynd sem er að teiknast upp á Suðurnesjum ef þessi lína verður ekki að veruleika fljótlega.

Í skýrslunni kemur fram að náttúruleg fjölgun íbúa kallar á töluvert aukið orkuöryggi línunnar á svæðinu. Bara að teknu tilliti til íbúðarhúsnæðis, atvinnuhúsnæðis og orkuskipta þarf töluvert mikið rafmagn og viðbót á næstu árum. Vöxtur og viðgangur samfélagsins á Suðurnesjum er algerlega háður öryggi flutningskerfis raforku til Suðurnesja og tækifæri unga fólksins á Suðurnesjum inn í framtíðina verða tengd raforku í heimabyggð. Fjöldi verkefna á Suðurnesjum þarf á aukinni orku að halda inn á svæðið.

Það er magnað að meira að segja í því sveitarfélagi sem er að koma í veg fyrir það að þessi lína verði lögð er fyrirtækjum sem þangað eru að reyna að sækja tilkynnt að þau geta ekki fengið örugga orku, sem þýðir með öðrum orðum að þetta stingur þá mest sjálfa, þetta er að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á þessu svæði þar sem, eins og kemur fram í skýrslunni, er lökust afkoma sveitarfélags og hefur það minnst eftir upp í afborganir og skuldir af sveitarfélögunum öllum. Þannig að það vantar víða peninga og tækifæri fyrir unga fólkið og fyrir fyrirtæki til að skapa atvinnu á Suðurnesjum.

Það kemur fram í skýrslunni að forsvarsmenn atvinnulífsins á Suðurnesjum lýsa yfir miklum áhyggjum í viðtölum sem tekin voru við gerð skýrslunnar. Tafir á Suðurnesjalínu 2 setji vexti svæðisins skorður til framtíðar og fjárhagsleg velferð íbúa svæðisins til lengri tíma sé í mikilli hættu. Orkuþörf Suðurnesja í dag eru 140 MW en gangi áætlanir eftir mun orkuþörf stórnotenda og svæðisins alls vera orðin 230–300 MW árið 2030 eða eftir átta ár. Þar er ekki tekið tillit til metnaðarfullra áforma á Suðurnesjum um framleiðslu vetnis til útflutnings. Vegna óvissu um Suðurnesjalínu 2 hafa nokkrir aðilar ráðist í að byggja upp varaaflsstöðvar sem brenna dísilolíu. Það er sem sagt að gerast í dag á okkar vakt að fyrirtæki á Suðurnesjum eru að byggja upp varaafl í dísilstöðvum til að grípa inn í þegar orkan gefur sig eða berst ekki inn á svæðið, sem því miður hefur komið fyrir og allar líkur á því að það muni halda áfram að koma fyrir, verði ekkert að gert. Þannig eru bæði Isavia og Verne Global að byggja upp varaafl með dísilstöðvum sem kostar þessi fyrirtæki og stofnanir tugi eða hundruð milljóna, fyrir utan að þetta er í algerri andstöðu við allt það sem hér er sagt í þessu húsi og við öll stefnum að; að minnka notkun jarðefnaeldsneytis í þessu landi. En það er enn að gerast að fyrirtæki þurfi að bjarga sér með því að byggja upp dísilrafstöðvar vegna þess að þingið ætlar ekki hafa dug í sér til að koma þessari framkvæmd af stað. Það er mjög mikilvægt að við klárum það mál sem fyrst.

Skýrsluhöfundar draga upp dökka mynd af minnkandi fólksfjölgun og fækkun fyrirtækja, jafnvel eru fyrirtæki sem vilja flytja hluta af starfseminni burt af svæðinu og jafnvel til útlanda eins og gagnaverin sem sjá tækifæri í Finnlandi og á öðrum norðlægum slóðum, þar sé ekki síður gott að vera og hafa þá raforkuöryggi, sem er náttúrlega lykillinn að gagnaverum.

Ég upplifði það, þegar var verið að fara yfir þessa hluti á þingi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, að Suðurnesin væru að verða eins og byggðirnar allt í kringum landið þar sem kvótinn hefur verið tekinn í burtu og það er ekkert við að vera. Hjá okkur suður frá er verið að ræna okkur orkuöryggi og tækifærum til framtíðar til að vinna og búa til tækifæri fyrir unga fólkið með aukinni orku með því að koma í veg fyrir það að Suðurnesjalína 2 verði sett upp. Það er hrikalegt að hugsa til þess að unga fólkið á Suðurnesjum þurfi kannski í náinni framtíð að fara að huga að því að búa annars staðar vegna þess að atvinnutækifærin verða ekki þar, vegna þess að við komum í veg fyrir það með því að byggja ekki Suðurnesjalínu 2. Það er alvarleikinn við þetta mál og það er ekki hægt, núna eftir að menn hafa staðið í 17 ár að ræða þessi mál, að segja það núna að það þurfi bara að setjast niður og tala saman. Það er allt samtal löngu búið. Það er allt löngu búið. Það er engin þolinmæði fyrir löngum fundum lengur. Nú þarf að fara að vinna og efna loforðið um raforkuöryggi og aukna orku inn á svæðið á Suðurnesjum.

Þingmenn verða að standa í lappirnar í þessu máli. Þeir verða að hafa þor til þess að taka á erfiðum málum. Það er ekki bara að mæta í kokteilboðin og hafa gaman af lífinu. Það er líka að taka á móti alvörunni þegar lífið er erfitt og standa í lappirnar. Þá reynir á úr hverju fólk sé gert og það hlaupi ekki út í horn og ætli ekki að vera með. Það eru 30.000 manns eða 95% af íbúum á Suðurnesjum sem bíða eftir þessari orku en innan við 5% koma í veg fyrir það. Ég er sannfærður um að flestir af þeim eru ekki sammála því að það eigi ekki að koma orka inn á svæðið. Það er ekkert auðvelt fyrir gamlan bæjarstjóra á Suðurnesjum að fara þessa leið, að taka valdið af sveitarfélaginu, skipulagsvald í einu máli. Það er ekkert grín, það er mjög erfitt. En það er bara til marks um það í hvaða farveg þetta mál er komið að við getum ekki annað. Við höfum enga aðra leið ef við ætlum ekki að halda áfram að byggja upp dísilrafstöðvar á Suðurnesjum til þess að halda lífinu þar gangandi. Landsnet hefur farið að öllum lögum. Veiting framkvæmdaleyfis Suðurnesjalínu 2 eru í höndum bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga og samkvæmt þeim niðurstöðum sem Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun og allir þeir aðilar sem hafa vélað um þetta mál hafa komist að, er aðeins eitt atriði eftir. Það er bara eitt mál eftir sem Sveitarfélagið Vogar á ekki að komast undan að framkvæma og það er að gefa út framkvæmdaleyfið en lopinn er teygður.

Virðulegur forseti. Skýrsla Reykjavík Economics er svört skýrsla um stöðuna á Suðurnesjum og það má ekki verða frekari dráttur á lagningu línunnar. Við getum ekki horft upp á þessa stöðu að við á Suðurnesjum lendum í þeirri ógæfu að missa atvinnutækifæri vegna þess að við fáum ekki raforku. Alþingi verður að grípa inn í og sýna af sér manndóm svo að hagsmunir Reyknesinga og Suðurnesjabúa víki ekki fyrir einstrengingslegri afstöðu 5% íbúanna. Við verðum að skera það fólk niður úr snörunni.



[19:16]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir þrautseigjuna og fyrir að halda áfram með þetta mikilvæga mál. Það er eiginlega alveg ótrúlegt að það hafi ekki komist til meðferðar eða komist lengra í þau fyrri skipti sem það hefur verið lagt fram. Þegar maður les umsagnir frá fyrri þingum um málið þá sést mikilvægi þess — hér frá HS Veitum vorið 2021, með leyfi forseta:

„HS Veitur leggja mikla áherslu á að Suðurnesjalína 2 verði lögð sem allra fyrst. Afhendingaröryggi er mjög ábótavant og eins og staðan er í dag er ekki unnt að bæta við neinni notkun á svæðinu og hafa HS Veitur þurft að hafna tengingu á nokkrum millistórum notendum (10–30 MW) þar sem ekki er unnt að fá flutning á orkunni. Núverandi ástand er með öllu óviðunandi og þarf að laga sem allra fyrst.“

Sami tónn er sleginn í fleiri umsögnum, frá Kadeco, Landsneti, Orkustofnun, Samorku og fleirum. Það er alveg ótrúlegt að við séum föst í þessu hjólfari með þessa mikilvægu framkvæmd en það er þó ákveðin von í því að þetta er þingmál nr. 16, sem þýðir auðvitað að málið kemur snemma inn og maður skyldi ætla að þetta væri skilgreint sem eitt af forgangsmálum Sjálfstæðisflokksins í þetta skiptið þannig að ég vona að það komist til atkvæðagreiðslu hér í sal, en það gæti orðið erfitt að ræða við einhverja samstarfsaðila í ríkisstjórninni. Mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Friðriksson hvað hann telji að hafi raunverulega orsakað það að málið, jafn gott og skynsamlegt og það er, hafi ekki komist í gegnum þingið við fyrri framlagningar. Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt að við finnum leið til að klára það á þessu þingi og í þeim efnum mun ekki standa á þingflokki Miðflokksins.



[19:18]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir andsvarið. Já, þetta eru staðreyndir sem komu fram í umsögnum sem blasa við og hafa því miður blasað við allt of lengi. Lengi framan af var töluvert meiri andstaða við þessa línulögn. En nú situr aðeins eitt sveitarfélag eftir og við höfum verið að gera okkur vonir um að hægt verði að berja í brestina og við náum saman um þetta, það skiptir miklu máli. Ég hef sagt við alla hlutaðeigandi í þessu máli að ef sátt næst við Sveitarfélagið Voga í þessu máli — það hefur verið reynt að ná sáttum og ég veit að það er í farvatninu að reyna að ná sáttum — þá verður það ekki neitt einasta vandamál fyrir mig að stíga til hliðar með þetta mál til að opna fyrir samkomulagi sem gert er við sveitarfélagið sem myndi tryggja að framkvæmdaleyfi verði gefið út. Það er ég búinn að segja ráðherrum og það hef ég sagt þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég held að ýmsar ástæður séu fyrir því að við náðum þessu ekki í vor. Það voru mikil vonbrigði fyrir mig að málið kláraðist ekki í vor og það fór ekki fram hjá neinum að ég var afar ósáttur við það. Nú er komið haust og eins og hv. þingmaður nefndi þá er þetta 16. mál okkar á dagskránni og ég ætla bara rétt að vona að það verði til þess að við náum að klára það. En kannski náum við samkomulagi áður og málið verður óþarft, sem er auðvitað það besta sem myndi gerast í þeirri stöðu sem uppi er.



[19:20]
Bergþór Ólason (M) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Auðvitað vonar maður að samkomulag náist en í ljósi sögunnar er maður hóflega bjartsýnn, svo maður orði það nú þannig. En mig langar að spyrja hv. þingmann hvar hann telji mestu fyrirstöðuna verða við að málið hljóti snögga og góða afgreiðslu hér á þinginu, bara svo að við finnum okkur ekki í þeirri stöðu að þingmenn sem styðja við þetta mál séu teymdir á asnaeyrunum fram á vor og þá deyi þetta góða mál í þinglokasamningum án þess að nokkur efnisleg rök komi inn í þá umræðu. Við þekkjum hvernig það getur átt sér stað. Ef hv. þingmaður færi svona í stuttu máli yfir hvar helstu fyrirstöðuna sé að finna þannig að við þingmenn sem erum áhugasamir um að þetta mál klárist getum varið orkunni í að reyna að leysa þá hnúta í stað þess að sigla í strand við þinglok.



[19:21]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Þetta var ágætisspurning. Eins og hv. þingmaður veit og við þekkjum þá eru skiptar skoðanir um þessi mál í þinginu. Það er eðlilegt. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir þeim skoðunum, að fólki vilji fara varlega með náttúruna og ganga vel um hana. Það hef ég sagt hér í mörgum ræðum. Það hefur komið fram, m.a. hjá Landvernd ef ég man rétt, sem hefur mótmælt þessu og vill að jarðstrengur verði lagður í gegnum hraunið í vegöxl Reykjanesbrautar. Fólk talar um að það sé ekkert mál að plægja streng í öxlina á Reykjanesbraut en það er því miður ekki þannig. Þetta er gríðarlegt mannvirki sem þarf að leggja þarna og þess vegna er loftlína skásti kosturinn af þeim öllum sem bent er á og leið C er skásta leiðin. Ég segi það við þetta ágæta fólk sem hefur líka það prinsipp að vilja ekki taka valdið af sveitarfélaginu — það er líka mjög stórt mál að þingið standi frammi fyrir því að taka lögin af sveitarfélaginu eins og ég kom aðeins inn á í ræðu minni, það er náttúrulega mjög alvarlegt að þurfa að gera það — að í ljósi þeirrar stöðu sem er uppi á Suðurnesjum, og í rauninni þessari litlu andstöðu í landmiklu sveitarfélagi, þá er það auðvitað ekki hægt að við í þinginu búum við þannig lög að hér geti örfáir aðilar, kannski bara fimm landeigendur, stoppað það að komið verði í veg fyrir að allt atvinnulíf, alþjóðlegur flugvöllur, höfn fyrir úthafsskip, verði orkuskorti að bráð. Það getur auðvitað aldrei gengið upp.



[19:24]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir flutning á sínu máli. Ég telst sjálfsagt til hóps þeirra þingmanna hér í húsi sem hafa áhyggjur af þessu máli, þ.e. að sett séu sérlög sem hefðu það í rauninni í för með sér að við tækjum skipulagsvaldið af sveitarfélögunum. En ég greini líka, og ég held að ég sé að greina það rétt, í máli þingmannsins að hann skilur alveg þær áhyggjur og hefur þær að einhverju leyti sjálfur. Mig langar þess vegna að spyrja hann í því samhengi í fyrsta lagi hverju hann svari þeim Suðurnesjabúum sem hafa þessar sömu áhyggjur og hvort hann viti til þess að lýðræðislega kjörnir einstaklingar í sveitarstjórnum á Suðurnesjum deili þeirri sýn, sem hann kallar hér að þingmenn verði að standa í lappirnar, þ.e. að afgreiða sérlög sem hefðu það í för með sér að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum með þessum hætti.



[19:25]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni fyrir þessa fyrirspurn. Auðvitað er fullt af fólki á Suðurnesjum sem hefur þá skoðun að þetta sé nokkuð harkaleg aðgerð en ég upplifi að þrátt fyrir það finnist fólki að sá tími sem þetta hefur verið svona sé orðinn allt of langur. Ætli það séu ekki svona tvö ár síðan að bæjarstjórn Reykjanesbæjar hætti að styðja Voga í þessu máli vegna þess að þeir sáu að ekki var hægt að bíða lengur með þessa framkvæmd og hanga á þessu máli hjá einu sveitarfélagi. Auðvitað eru sveitarfélögin alltaf að ræða það sín á milli hvernig það má vera að eitt býli í sveitinni eða einn bóndi eða tveir landeigendur geti komið í veg fyrir vegalagnir, línulagnir eða mikilvæga innviði. Það er auðvitað okkar hlutverk hér að koma í veg fyrir að við þurfum að standa í svona málum á þingi og í landinu. Mikilvægir innviðir þurfa að vera á forræði ríkisins og ríkið á að geta lagt vegi, línur og flugvelli eins og best verður fyrir komið í sátt við sveitarfélögin en að þau geti ekki stöðvað þá hluti. Ég held að fyrirspurnin hjá hv. þingmanni hafi verið hvort fólk hafi ekki áhyggjur. Jú, fólk hefur áhyggjur en ég held að menn séu svolítið að gefast upp á því að sýna rósemi.



[19:27]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hjó líka eftir því hér áðan að hv. þingmaður bindur vonir við að samkomulag náist á grundvelli samtals og það held ég sjálfur að sé alltaf vænlegasti kosturinn þegar kemur að svona málum. Upp að ákveðnu marki deili ég þeirri sýn að það verði að vera hægt að leggja í þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir. Að sama skapi erum við ekkert endilega alltaf sammála um hverjar þær eru. Þá hef ég sjálfur stoppað við það að við þurfum að horfa til þess að geta byggt ákvörðunina, eins og hv. þingmaður segir réttilega, á góðu samtali og samvinnu.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann í seinna andsvari: Nú liggur fyrir þinginu, eða er öllu heldur komið til umræðu í umhverfis- og samgöngunefnd, frumvarp um breytingu á skipulagslögum, sem lýtur akkúrat að svokallaðri raflínunefnd og raflínuskipulagi og gæti tekið á þessu máli sérstaklega. Ef ekki næðist samkomulag og samtal, sér þá hv. þingmaður á grundvelli samtals eins og fyrir dyrum liggur, í því tækifæri, nái þetta ákveðna frumvarp ekki fram að ganga, að horfa til þess sem verið er að reyna að ná fram með tillögum að breytingum á skipulagslögum um raflínuskipulag?



[19:29]
Flm. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið hjá hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni. Ég hef bundið miklar vonir við þetta frumvarp og að ósekju hefði það mátt vera komið fram fyrir löngu síðan. Við erum alltaf að stíga skref inn í framtíðina og taka góðar ákvarðanir í þinginu — flestar alla vega, held ég. Þetta yrði mjög góða ákvörðun.

Ég hef sagt að ég er tilbúinn að bakka með þetta mál ef það verður samstarfsvilji. Ég reyndi og það er búið að reyna að fá ráðherrann til að mæta á fundi og það hafa verið þreifingar um það. Það hefur ekki tekist. Ég vildi ekki missa tækifæri til að flytja frumvarpið svona snemma því að annars hefði það allt dottið upp fyrir.

Ég hef sagt að myndist svigrúm til að ná sátt er ég auðvitað maður að meiri að taka málið til baka. En ég er svo hræddur við að ef ég hefði bara beðið þá værum við kannski enn og aftur að bæta við einu ári, tveimur árum. Það mun taka tíma að koma svona frumvarpi í gegnum þingið. Verði ekki mælt fyrir slíku frumvarpi á næsta ári mun það ekki verða tilbúið fyrir en 2024 eða jafnvel 2025. Tíminn er ótrúlega fljótur að fljúga hjá okkur í þinginu og erfiðu málin taka mjög langan tíma. Ég segi því: Förum bara rækilega yfir þetta mál núna og vonum að þetta sé síðasta málið sem við þurfum að taka svona, ef við þurfum að taka það. Við getum ekki misst lengri tíma á Suðurnesjum. Við getum bara ekki misst lengri tíma. Hann er svo dýrmætur fyrir framtíðina, hann er svo dýrmætur fyrir atvinnulífið, hann er svo dýrmætur fyrir flugvöllinn og alla ferðamannauppbygginguna. Það er varla hægt að hlaða bíla á Reykjanesi og á Keflavíkurflugvelli eru orkuskipti leigubíla óhugsandi eins og staðan er.



[19:31]
Vilhjálmur Árnason (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að koma fram með þetta mál og vekja máls á þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp varðandi raforkuöryggi og flutningskerfi raforku á Suðurnesjum. Ég vildi koma hingað upp og leggja áherslu á af hverju ég væri einn af meðflutningsmönnum á þessu máli og hvernig það horfir við mér. Það er alltaf talað um þetta eins og að við séum að taka skipulagsvald af Sveitarfélaginu Vogum, þetta snúist um skipulagsvald sveitarfélaga. Nú kom þetta mál hér fyrir ári síðan til þingsins og þá var ég líka meðflutningsmaður og það kom inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem fjallaði um málið. Við fengum til okkar gesti og fórum yfir málið og ef maður les líka það sem er kannski aðalgagnið í þessu máli, úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá því 4. október 2021, þá kemur alveg skýrt fram að gagnvart Vogum snýst þetta ekki um skipulagsvald heldur stjórnsýslu. Í svæðisskipulagi Suðurnesja er Suðurnesjalína 2 eins og hún er lögð til af Landsneti. Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga er Suðurnesjalína 2 eins og Landsnet óskar eftir framkvæmdaleyfi fyrir. Árið 2009 gaf Sveitarfélagið Vogar út framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 þannig að þetta sveitarfélag, sem hér er verið að tala um að við séum að leggja til að taka skipulagsvaldið af er búið að setja Suðurnesjalínu 2 í allar sínar skipulagsáætlanir og veita framkvæmdaleyfi. Framkvæmdaleyfið var hins vegar kært af því að ekki hafði verið gerð umhverfismatsskýrsla um muninn á loftstreng og jarðstreng. Sú umhverfismatsskýrsla hefur verið gerð nú. Það er búið að fá leyfi hjá Orkustofnun, þetta er inni í öllum skipulagsáætlunum og þetta er búið að fara í gegnum úrskurðarnefndina aftur, sem segir að búið sé að undirbúa alla vinnuna. Þann 4. október 2021, það er ár síðan, felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðun Sveitarfélagsins Voga um að hafna framkvæmdaleyfi vegna skorts á rökum. Það voru engin rök fyrir því að neita Landsneti um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2. Það er staðan í málinu í dag. Það er ár síðan Sveitarfélagið Vogar fékk það verkefni að fjalla aftur um umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi eftir að úrskurðarnefndin felldi fyrri ákvörðun sveitarfélagsins úr gildi. Það er staða málsins í dag. En er einhver skipulagsvaldsvinkill á þessu? Já, það eru nefnilega önnur sveitarfélög á Suðurnesjum og á Reykjanesskaganum sem eru með skipulagsvaldið hjá sér. Það eru sveitarfélögin Hafnarfjörður, Grindavíkurbær og Reykjanesbær. Það eru miklir almannahagsmunir að aðalskipulag og svæðisskipulag þessara sveitarfélaga nái fram að ganga en eins og staðan er í dag, liðið ár frá því að úrskurðarnefndin felldi ákvörðunina um framkvæmdaleyfið úr gildi, hefur skipulag þessara þriggja sveitarfélaga sem ég taldi upp ekki náð fram að ganga. Sú atvinnuuppbygging og þróun byggðar sem gert er ráð fyrir í svæðisskipulagi Suðurnesja og í aðalskipulagi fyrrnefndra sveitarfélaga gerir ráð fyrir að rafmagn komi inn á svæðið. Þetta nær ekki fram að ganga. Þetta er meginástæðan fyrir því að ég tel það mál sem við fjöllum um hér nauðsynlegt, algerlega nauðsynlegt.

Hver er munurinn í þetta sinn, úr því að málið kláraðist ekki í vor, mun það klárast núna? Ég tel mikilvægt að fara aðeins yfir það. Við fjölluðum um málið síðastliðið vor en þá var ekki liðið eitt ár frá því að ákvörðunin var felld úr gildi með úrskurðinum, það var stutt til sveitarstjórnarkosninga og Landsnet, sem er stærsti hagsmunaaðilinn í þessu, mælti gegn því að frumvarpið næði fram að ganga af því að þeir vildu ekki skapa þetta fordæmi vegna annarra verkefna og það vildi gefa sveitarfélaginu ráðrúm til þess að endurskoða höfnun sína á framkvæmdaleyfinu og vildu leysa málið í þessum farvegi þar sem Landsnet var nokkuð sátt við úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þar sem þessu var vísað aftur til sveitarfélagsins. Landsnet treysti á að sveitarfélagið myndi viðhafa góða og vandaða stjórnsýslu og afgreiða erindið innan eðlilegra tímamarka. Síðan eru liðnir nokkrir mánuðir, komin ný sveitarstjórn og enn er ekki búið að taka ákvörðun um að veita framkvæmdaleyfið eða koma með ítarlegri rök fyrir því að hafna því. Það hefur ekki komið fram og tíminn líður og satt best að segja er ekkert sem bendir til þess enn að framkvæmdaleyfið sé á leiðinni. Því finnst mér vera kominn annar grundvöllur fyrir því að afgreiða málið núna en var þegar Landsnet lagðist gegn því. Það finnst mér vera svolítið augljóst. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum að vonandi leysist málið áður en Alþingi þurfi að stíga inn í, en að sjálfsögðu á Alþingi að sýna að það sé tilbúið að stíga inn í sé það nauðsynlegt.

Svo skulum við fara aðeins yfir þennan feril, um hvað verið er að tala hér og af hverju það er ekki bara einfalt að breyta þessu og fara með strenginn í jörð. Af hverju hlustum við ekki á þessa eðlilegu kröfu Sveitarfélagsins Voga um að setja hann í jörð? Það hefur margoft komið skýrt fram undanfarna mánuði að það eru vissar jarðfræðilegar ástæður fyrir því að það er ekki hægt, þ.e. að á meðan tilfærsla í jarðlögum sé yfir 10 sentímetrar geti jarðstrengur ekki legið þar. Á því svæði sem hinn fyrirhugaði jarðstrengur átti að liggja í vegstæði Reykjanesbrautar eða þar fyrir ofan er þessi tilfærsla meiri. Það getur vel verið að hægt sé að fara niður fyrir Reykjanesbrautina og leggja strenginn þar í jörð og fá þá ekki þessa tilfærslu. En þá þurfum við að hefja hinn 20 ára feril upp á nýtt, fá leyfi hjá Orkustofnun um að setja strenginn í jörð og þá þarf Orkustofnun að meta það hvað það kostar fyrir flutningskerfi raforku á landsvísu, hvaða orkuöryggi er í því og hvort náttúruvá er líka þar. Þetta er allt kæranlegt. Þá þurfa öll fjögur sveitarfélögin að breyta sínum skipulagsáætlunum, það er allt kæranlegt og tekur tíma. Áður en þessi ferill nær fram að ganga eru Suðurnesin orðin rafmagnslaus af því að þau eru rafmagnslaus í dag. Þau eru rafmagnslaus í dag. Þarna er bara augljóst að það er ekki annar valkostur. Það er líka annað sem þarf að skoða við að setja þetta upp, það eru aðrir tæknilegir annmarkar upp á dreifikerfið í heild sinni þannig að allar þær ákvarðanir sem við tökum þarna, bæði um verð og orkuöryggi og orkunýtni, hafa áhrif á allt flutningskerfið, ekki bara á Suðurnes, svo að það sé sagt. Öll gögn í þessu máli sýna að Landsnet hefur farið hagkvæmustu, öruggustu og skynsamlegustu leiðina og umhverfismatsskýrslur og álit Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar sýna að þetta sé líka best fyrir náttúruna og annað slíkt.

Ég hef aðeins heyrt í umræðunni og ég hef heyrt ákall frá heimamönnum í Vogum sem mér finnst vert að hlusta á að þarna séum við að tala um grunninnviði, þ.e. rafmagn, en þeir hafi ekki aðgengi að grunninnviðum sem er heitt vatn. Ég tel ekki ástæðu til að tengja þetta tvennt saman en ég lýsi mig algerlega reiðubúinn til að aðstoða við að lagt verði heitt vatn á Vatnsleysuströnd. Það eru vissir ferlar til hjá stjórnvöldum til að styðja við slíka uppbyggingu og við eigum bara að horfa sjálfstætt á það mál, að það sé vilji okkar að sem flestir hafa aðgengi að hitaveitu ef það er hægt. En það á ekki að tengja þetta stóra mál við það. Ég vil bara ítreka að skipulagsvald og skipulagsáætlanir sveitarfélaganna Hafnarfjarðar, Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar ná ekki fram að ganga út af því að eitt sveitarfélag veitir ekki framkvæmdaleyfi en er með þetta allt inni á sínum skipulagsáætlunum. Ég sé enga aðra lausn en að veitt sé framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 eins og hún er. Annað tekur of langan tíma og það er bara jarðfræðilega ómögulegt að fara aðra leið út af náttúruvá, út af misgengi, út af röskun á hraunmyndunum og líka öðrum tæknilegum þáttum. Því er ég stuðningsmaður þessa máls og vona að lausn fáist sem fyrst í þetta mál og lausnin finnist hraðar en þingleg meðferð málsins tekur.



[19:43]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Suðurnesjalínu 2. Ég er á þessu máli ásamt fleiri ágætum hv. þingmönnum. Málið er mikilvægt og það hefur dregist allt of mikið. Samflokksmenn mínir úr Sjálfstæðisflokknum hafa farið ágætlega yfir þetta mál, flutningsmaður málsins, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, og hv. þm. Vilhjálmur Árnason.

Málið er þríþætt og snýst kannski fyrst og fremst um afhendingaröryggi á raforku á Suðurnesjum og aukna flutningsgetu inn á svæðið. Þetta er ein lína í dag og raforku- og afhendingaröryggi er mjög takmarkað á Suðurnesjum eins og við þekkjum. Eitt besta dæmið var kannski þegar járnplata fauk af þaki á Suðurnesjalínu 1 fyrir einhverjum árum og sló út rafmagni á Reykjanesi í fimm klukkustundir og þar með á Keflavíkurflugvelli líka. Þetta var mjög sérstakt og það að það skyldi gerast sýndi reyndar hvað það er ótrúlega dapurt hvernig kerfið er byggt upp í dag. Þetta snýst um afhendingaröryggi á Suðurnesjum og þetta snýst um flutningsgetu, bæði frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja og síðan aftur frá Suðurnesjum inn á höfuðborgarsvæðið. Það myndi þá líka styrkja flutningskerfið á höfuðborgarsvæðinu. Í dag eru þar, að mig minnir, fjórar línur í háspennta kerfinu sem flytja raforku inn á svæðið og þær eru orðnar þunglestaðar af raforku. Það er því brýnt líka að auka afhendingaröryggi raforku inn á höfuðborgarsvæðið.

Það er aðeins komið inn á það í landsskipulagsstefnunni hvaða markmið menn hafi sett sér í orkumálunum. Það er því komið fram í þessu ágæta máli. En grunnmálið finnst mér vera að þetta er þjóðaröryggismál. Það snýst um afhendingaröryggi raforku sem er gríðarlega mikilvægt, eins og við þekkjum og upplifðum í þessari viku þegar hálft landið datt út, að mig minnir frá Hvammstanga að Höfn í Hornafirði, norður um allt og austur, í tvær klukkustundir fyrr í þessari viku. Þá var það einmitt háspennta kerfið eða byggðalínan sem fór út, sem þó er hafin uppbygging á. Kröflulína 3 var tekin í notkun fyrir einu ári, eða spennusett frá Fljótsdalsstöð og upp í Kröflu, og hún bjargaði raunverulega töluverðu í vikunni þegar það gerðist að það brotnuðu, að mig minnir, fimm staurasamstæður í gömlu Kröflulínunni, frá Kröflu í Fljótsdalsstöð. Það er í fyrsta skipti sem slík tjón hafa komið fram á þeirri línu. Það er ótrúlega heppilegt að það skyldi akkúrat hafa gerst eftir að nýja línan var tekin í notkun fyrir ári síðan.

Það að tryggja innviðina á Suðurnesjum er bara hluti af því stóra markmiði að ná að tengja raforkukerfi landsins, háspennta kerfið, alveg frá Reykjanestá og austur í Fljótsdalsstöð á næstu árum, sem allra fyrst. Eins og kerfisáætlun Landsnets er í dag er talað um að það eigi að nást 2032 ef allt gengur eftir og nú er náttúrlega að tryggja að það gangi eftir. Þetta hefur, eins og við þekkjum, gengið mjög erfiðlega víða á síðustu árum. Flutningsmaður þessa máls, hv. þm. Ásmundur Friðriksson, talaði um að þetta væri orðinn 17 ára ferill. Við þekkjum þessi mál á Norðurlandi og Austurlandi. Þar er eitthvað svipað í gangi, 20–25 ára ferill þar sem er búið að bíða eftir að þetta klárist.

Þetta er líka mjög stór hluti af orkuskiptunum sem við erum að tala um. Ef markmiðin eiga að nást um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 þá þurfa þessar framkvæmdir að fara fram sem fyrst, ef byggja á upp þann möguleika yfirleitt að þessi markmið náist. Eins og hv. flutningsmaður málsins fór ágætlega í gegnum eru, eins og staðan er í dag, engir möguleikar á því á Suðurnesjum.

Maður horfir líka til atvinnuuppbyggingar. Talað er um að fara í mikið fiskeldi á landi. Það er gríðarlega orkufrekt. Uppbygging Keflavíkurflugvallar er gríðarlega orkufrek framkvæmd ef allar stækkanir og allt gengur eftir þar og þau umsvif sem er stefnt á að fara í á næstu árum og áratugum. Það er gríðarleg orka sem þarf líka í það. Þetta er bara hluti af markmiðum okkar í stóru myndinni. Ef við tölum um stærri myndina sem ég er kannski helst að reyna að fara yfir hér — ef þau markmið eiga að nást í loftslagsmálum þá verðum við að fara í þessa uppbyggingu hratt og vel og tryggja hana fljótt og vel.

Ég er þeirrar skoðunar að 2032 sé of seint að byggja upp þegar ég tala um Reykjanestá alveg austur í Fljótsdalsstöð. Það á að fara allar þær leiðir sem hægt er að fara og fjárfesta hratt og vel og tryggja að hægt sé að fara í þetta sem allra fyrst. Ef okkur er einhver alvara í þessum málum hér á Alþingi, í loftslagsmarkmiðum og loftslagsmálum, þá er þetta kjarninn, hryggjarstykkið í því að þau markmið náist á næstu árum. Það er alveg furðulegt hversu lítið hefur verið rætt um það. Við getum virkjað og virkjað en ef við höfum ekki það öfluga flutningskerfi sem við höfum til að nýta okkar grænu orku, sem er í sjálfu sér farið illa með í dag — við gætum nýtt hana miklu betur með öflugu flutningskerfi og látið orkukerfin okkar spila saman, á suðurhluta landsins og fyrir norðan. Nú er talað um vindorku sem fellur algjörlega að þeirri mynd. Það er lykilatriði fyrir áætlun um orkuframleiðslu með vindorku að vera með öflugt flutningskerfi. Það er raunverulega bara forsenda þess að hægt sé að gera það með góðum og almennilegum hætti. Fyrir þau markmið sem við sjáum fyrir okkur þurfum við öflugt flutningskerfi og þetta er bara einn hluti af því.

Hér hefur kannski verið talað meira um Suðurnesin sem slík en ef við ætlum að ná þeim risamarkmiðum sem við ætlum okkur að ná — og manni finnst þau risastór en það er nú þannig að 80% af orkunni sem við framleiðum og nýtum á Íslandi í dag er græn orka. Þá er oft bent á að í Evrópusambandinu er þetta hlutfall 15% og þar ætla menn að ná sömu markmiðum og við. Okkur þykir þetta stórt og þá getur maður rétt ímyndað sér hvernig það er fyrir Evrópusambandslöndin að fara úr 20% í 100% á kannski 20–30 árum. Ef við ráðum ekki við þetta verkefni, að leggja háspennta kerfið og byggðalínuna, gera það af einhverju viti og tryggja hratt og vel að þau skipulagsmarkmið náist og markmið þjóðarinnar og þessa þings hér sem hafa verið sett um þessi loftslagsmarkmið og grænorkuframtíð, ef við komumst ekki yfir þennan hjalla, þá erum við aldrei að fara að ná þessum markmiðum. Þannig að í stóra samhenginu finnst mér þetta — það er búið að fara í gegnum forsendurnar, ég skil alveg umræðu um strengi og annað, svo að því sé haldið til haga. Svo hefur líka verið bent á tæknimálin, að á jarðskjálftasvæðum sé ekki heppilegt að reisa línur eða að leggja strengi í jörð þegar ákveðin gliðnun er á veginum og hreyfing.

Þetta mál er þjóðarnauðsyn og það á að tala um loftslagsmarkmiðin og þjóðaröryggi og hafa það að leiðarljósi. Ef það næst ekki lausn á þessu máli fljótt og vel þá þykir mér ekki annað hægt en að við hér á Alþingi klárum þetta mál og sköpum þær forsendur að hægt sé að fara í framkvæmdir hratt og vel, eins og langstærstur hluti, eins og komið hefur fram hér, sveitarfélaga og íbúa á Suðurnesjum vill að gert sé.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.