153. löggjafarþing — 21. fundur
 20. október 2022.
almannatryggingar, 1. umræða.
frv. GIK o.fl., 54. mál (aldurstengd örorkuuppbót). — Þskj. 54.

[11:06]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007 (aldurstengd örorkuuppbót). Flutningsmenn auk mín eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr.

Á eftir 1. mgr. 21. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:

Þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skal réttur til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldast óbreyttur.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Frumvarp þetta var áður lagt fram á 150., 151. og 152. löggjafarþingi (124. mál) og er nú lagt fram óbreytt. Á 152. löggjafarþingi bárust umsagnir um frumvarpið frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, Félagi eldri borgara í Reykjavík og nágrenni og Landssambandi eldri borgara. Umsagnaraðilar lýstu allir yfir stuðningi við frumvarpið og kem ég að því seinna.

Þegar örorkulífeyrisþegi verður 67 ára, þ.e. nær þeim aldri þegar réttur til töku ellilífeyris myndast, fellur niður réttur hans til aldurstengdrar örorkuuppbótar. Við þetta tímamark skerðast greiðslur viðkomandi um þá upphæð sem nemur aldurstengdri örorkuuppbót hans. Þessi skerðing hefur mikil áhrif á ráðstöfunartekjur öryrkja og er þeim verulega íþyngjandi. Rökin fyrir því að greiða aldurstengda örorkuuppbót eru þau að aflahæfi viðkomandi skerðist til lengri tíma allt eftir því hve ungur hann er þegar hann er metinn til 75% örorku. Þau rök eiga við óháð því hvort viðkomandi er 66 eða 67 ára, enda er það svo að með sífellt bættum læknavísindum hefur aflahæfi fólks aukist vel fram yfir 67 ára aldur. Þeir sem eru vinnufærir geta nýtt sér úrræði laganna til töku hálfs lífeyris eða nýtt sér frítekjumörk ellilífeyris en þeir sem eru óvinnufærir njóta þá engra slíkra úrræða. Því á hin aldurstengda örorkuuppbót ekki að falla niður við upphaf töku ellilífeyris.

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni segir orðrétt, með leyfi forseta, í umsögn um frumvarpið á síðasta þingi:

„Með þessu frumvarpi er lagt til að inn í 21. gr. laganna komi nýtt ákvæði á þá leið að þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst skuli réttur öryrkja til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldast.

Þegar öryrkjar verða 67 ára fara þeir sjálfkrafa af örorkubótum á ellilífeyri, og þá fellur umrædd uppbót niður skv. gildandi lögum. Hún getur hæst orðið jafnhá örorkulífeyrinum, nú 48.100 kr. á mánuði, hjá þeim sem voru metnir 75% öryrkjar á unga aldri, en verður þeim mun lægri sem það gerðist við hærri aldur. Hjá þeim sem varð 75% öryrki fertugur er upphæðin nú 7.200 kr. á mánuði“ — en er núna rúmar 50.000 kr., heildarupphæðin. Nákvæmlega er aldurstengda örorkuuppbótin í dag 54.210 kr. — „Tilgangurinn með uppbótinni mun vera sá, að bæta öryrkjanum það upp að einhverju marki að hann hefur ekki átt sömu möguleika og aðrir til að bæta hag sinn með öflun tekna á lífsleiðinni, s.s. að koma sér upp eignum og lífeyrisréttindum.

Stjórn Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni fær ekki séð að málefnaleg rök fyrir greiðslu uppbótarinnar falli niður við það að öryrkinn verði 67 ára og lýsir því yfir stuðningi við frumvarpið.“

Það er alltaf skrýtið og maður hefur eiginlega oft gert grín að því að þegar öryrkjar verða 67 ára þá hætti þeir að vera öryrkjar og verði heilbrigðir í boði ríkisins. Meira að segja má segja að þegar þessi aldurstengda örorkuuppbót fellur niður sé það eiginlega staðfesting á því að viðkomandi er hættur að vera öryrki og er bara orðinn heilbrigður einstaklingur og þarf þar af leiðandi ekki á þessari aldurstengdu örorkuuppbót að halda. Við sjáum hversu furðulegt það er miðað að þarna er kannski einstaklingur sem er búinn að vera öryrki alla sína ævi og allt í einu er bara eins og það hafi aldrei verið.

Landssamband eldri borgara segir orðrétt í umsögn, með leyfi forseta:

„Landssamband eldri borgara styður heilshugar framkomna tillögu um breytingu á lögum um almannatryggingar (aldurstengda örorkuuppbót) enda öllum vandséð hvaða breytingar verða til bóta á aflahæfi einstaklinga við það eitt að ná 67 ára aldri. Óvinnufærir örorkulífeyrisþegar geta ekki nýtt sér úrræði sem kunna að bjóðast öðrum og því á alls ekki að fella niður aldurstengda örorkuuppbót við upphaf töku ellilífeyris.“

Þarna kemur líka fram að Landssamband eldri borgara er gjörsamlega sammála þessu. Það sér enginn rök fyrir því að fella þessa uppbót niður vegna þess að í sjálfu sér er það bara staðreynd að — nema auðvitað þeir sem settu lögin, og ríkisstjórn hvers tíma, hafa einhvern veginn fundið það út að það sé í lagi að fella þetta niður. Einhverra hluta vegna telja þeir að viðkomandi sé orðinn það vel staddur eftir að hafa verið nær alla sína ævi á örorkubótum að þá sé einhver breytt staða þannig við 67 ára aldur að það sé allt í lagi að lækka viðkomandi.

Í umsögn Öryrkjabandalags Íslands segir orðrétt, með leyfi forseta:

„ÖBÍ lýsir stuðningi við frumvarpið sem hér er til umsagnar og sem felur í sér að réttur til aldurstengdrar örorkuuppbótar haldist óbreyttur þegar réttur til örorkulífeyris fellur niður og taka ellilífeyris hefst. Samkvæmt núgildandi lögum missa örorkulífeyrisþegar aldurstengdu örorkuuppbótina við 67 ára aldur. Breytingin myndi bæta stöðu fatlaðs og langveiks fólks sem vegna veikinda, slysa eða fötlunar nær ekki að ávinna sér lífeyrisréttindi í lífeyrissjóðum og eftirlaunaréttindi þess úr lífeyrissjóðakerfinu því mjög takmörkuð eða jafnvel engin. Á slíkt sérstaklega við um einstaklinga sem fá örorkumat ungir að árum. Þessir einstaklingar fá almennt mjög lág eða jafnvel engin eftirlaun frá lífeyrissjóðum og eru auk þess í þeirri stöðu að ná heldur ekki að greiða inn í og safna viðbótarlífeyrissparnaði. Þar af leiðandi þurfa þeir enn frekar að treysta á almannatryggingar.

Ljóst er að sá hópur ellilífeyrisþega sem fyrir 67 ára aldur þurfti að framfleyta sér á örorkulífeyri og/eða var um lengri tíma utan vinnumarkaðar er almennt með mun lægri tekjur og í mun erfiðari fjárhagsstöðu en aðrir ellilífeyrisþegar. Þetta er sá hópur ellilífeyrisþega sem stendur verst.

Örorkulífeyrisþegar hafa að auki ekki val um að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs, eins og aðrir, og hækka þar með greiðslur sínar á mánuði um 0,5%, þar sem greiðslum til örorkulífeyrisþega er breytt án umsóknar úr örorkulífeyri í ellilífeyri við 67 ára aldur.

ÖBÍ mælir með því að frumvarpið verði samþykkt, þar sem það mun bæta kjör þess hóps sem verst stendur í mengi ellilífeyrisþega.

Hægt er að hækka ellilífeyri og heimilisuppbót um að hámarki 30% með því að fresta töku ellilífeyris.“

Landssamtökin Þroskahjálp taka einnig undir í umsögn og þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið sent til umsagnar.

Aldurstengdri örorkuuppbót er m.a. ætlað að koma til móts við þann hóp sem hefur oft óverulegar lífeyris- og fjármagnstekjur. Þá er eignastaða þess hóps oft lakari en þeirra sem verða fyrir skerðingu eða veikjast síðar á lífsleiðinni. Það á við hjá fólki sem svo háttar til um og hefur verið á örorkubótum og nær 67 ára aldri.

Með vísan til framangreinds lýsa Landssamtökin Þroskahjálp stuðningi við frumvarpið.“

Ef við áttum okkur á um hvaða fjárhæðir við erum að tala í þessu samhengi þá erum við að tala um að hámarkið lækkar um 25.000 kr. útborgaðar bara við það að verða 67 ára hjá einstaklingi sem hefur orðið öryrki við 18 ára aldur, 25.000 kr. lækkun bara við það að fara á ellilífeyri. Ef við horfum á aðstæður þess einstaklings sem er búinn að vera í þessari fátæktarstöðu alla sína tíð hefði eðlilegt verið að þetta hefði hækkað um 50.000–100.000 kr. við það að verða 67 ára vegna þess að það verður allt erfiðara eftir því sem lengur lengra líður á ævina.

Við megum heldur ekki gleyma og við verðum að taka inn í dæmið að þetta eru þeir einstaklingar sem við erum að tala um sem verða öryrkjar 18 ára og yngsti hópurinn er þeir sem eru verst settir að því leyti að vegna þess að þeir fá svokallaða framfærsluuppbót, sem er í dag rétt um 60.000 kr., sem skerðist frá öllum tekjum strax. Meira að segja fjármagnstekjur, bara við það að einstaklingur fær fjármagnstekjur, fær 1.000 kr. í fjármagnstekjur, þá skerðist það strax um 65%. Það er ekki einu sinni byrjað að skatta, það er ekki byrjað að skatta fyrr en um hvað, 300.000, en hjá þessum einstaklingum byrjar skerðingin strax um 65%. Ég spyr mig: Hver getur sett svona kerfi, sett svona lög? Ef þessi einstaklingur ákveður og gæti, hugsið ykkur, ef hann gæti bara farið að vinna og fengi, segjum bara 100.000 kr. í laun, þá má hann þakka fyrir að halda 25.000 kr. af þessum 100.000 kr. Ég spyr: Hver vill vinna við svona aðstæður? Hver vill vinna við aðstæður þar sem hann veit að það eru 75% að lágmarki tekin af hans tekjum? Þetta eru fátæktargildrur í boði ríkisstjórnar eftir ríkisstjórn og því miður virðist enginn áhugi hjá núverandi ríkisstjórn eða fyrri ríkisstjórnum á að breyta þessu vegna þess að eins og kom fram í upphafi er ég að leggja þetta fram í fjórða sinn.

Við verðum að átta okkur á því að ef þeir búa einir, þessir einstaklingar, þá fá þeir framfærsluuppbót upp á 57.567 kr., heimilisuppbót upp á 58.678 kr. og aldurstengda örorkuuppbót upp á 54.210 kr. en allar þessar bætur skerða, mismunandi eftir tekjum. Þetta er hópurinn sem er með ákveðna upphæð samkvæmt lögum sem hann á að lifa af og ef þeir reyna á einhvern hátt að bæta kjör sín þá lenda þeir alltaf á vegg. Þeir lenda alltaf í þeim ömurlegum aðstæðum að tapa stórfé á því að reyna að bjarga sér á einhvern hátt.

Það er þyngra en tárum taki að við skulum vera með þetta kerfi en ég bind ákveðnar vonir við endurskoðun almannatryggingakerfisins sem er núna í gangi. Ég segi að ef við tökum ekki á svona hlutum eins og stöðu þeirra sem verst hafa það í þessu kerfi, eins og þessa sem ég er að reyna að fá — að þessi lága upphæð fylgi þeim eftir 67 ára aldur og ég hefði viljað helst að hún væri mun hærri, ef við tökum ekki á því í endurskoðun almannatryggingakerfisins þá er endurskoðunin þegar fallin um sjálfa sig. Þessi hópur og aðrir, þetta er hópurinn sem okkur ber að verja. Við getum eiginlega sagt okkur það að ef við sjáum einstakling sem er í þessum hópi og hann býr einn og ætlar að reyna að redda sér í þeim aðstæðum þá er hann með útborgaðar ráðstöfunartekjur upp á 325.000 kr. í dag. Fyrir þessar 325.000 kr. þarf hann að standa undir öllum þeim kostnaði sem við — jafnvel lyfjakostnaði, læknisþjónustu, húsaleigu, fæði. Spáið í það, að vera einn, einstaklingur, í þessu. Þetta er nefnilega hópurinn sem líka er í þeirri aðstöðu að borga upp undir 70–75% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu. Það segir sig sjálft að það er ákveðið ofbeldi í því að hafa einhvern hóp sem er í þeirri aðstöðu að hann þurfi eiginlega að velja um það hvort hann geti búið einn eða hvort hann vilji reyna að finna einhver önnur úrræði þannig að hann geti — hvort hann á að vera með húsnæði eða lifa af, hvort hann eigi að hafa efni á mat eða húsnæði. Það virðist vera stór hópur af þessu fólki sem hefur ekki möguleika á að velja að búa eitt.

En hvað skeður ef einstaklingurinn ákveður síðan að búa með öðrum? Þá fer kerfið af stað og byrjar að skerða grimmilega. Heimilisuppbótin hverfur og þessum einstaklingum er refsað í skerðingarkerfinu. Það er oft talað um og ríkisstjórnin hefur verið að hæla sér af því t.d. að núna ætlar hún að — setti í vor 3% inn í þetta kerfi og ætlar að setja 6% inn í þetta kerfi um næstu áramót. Ef við tökum bara þennan hóp, þegar sett er akkúrat inn í þetta kerfi ákveðin upphæð þá fer af stað rúlletta. Það byrjar á því að um leið og bætur þeirra hækka þá fara af stað keðjuverkandi skerðingar. Ef fólk er með húsaleigubætur byrja þær að skerðast. Síðan færist þetta yfir til sveitarfélaganna, sérstakar húsaleigubætur. Þetta verða keðjuverkandi skerðingar í kerfinu. Maður getur ekki ímyndað sér og maður botnar ekki í því að við skulum vera með svona kerfi, að við skulum leyfa okkur ár eftir ár að hafa hlutina svona.

Síðan er auðvitað alveg stórfurðulegt þegar maður reynir að benda á að þessir hópar séu berskjaldaðir og eitthvað þurfi að gera fyrir þá að þá kemur t.d. fjármálaráðherra hér í dag í óundirbúnum fyrirspurnum og bendir á einhverja tekjutíund hjá skattstjóra eins og það geti leyst vanda fólks í almannatryggingakerfinu. Staðreyndin er að hversu oft sem við færum inn á þessa tekjutíund breytir það ekki stöðu þeirra sem eru í þessum aðstæðum í dag. Það hefur engin áhrif á það vegna þess að það eina sem hefur áhrif á stöðu þessa fólks er það sem það fær borgað um hver mánaðamót. Þetta er einmitt hópurinn sem fær skilaboð um það að eftir fyrstu viku hvers mánaðar er þessi hópur og aðrir sem eru illa staddir á leið til hjálparstofnana að fá matargjafir. Það er bara staðreynd, við vitum það, og það þarf ekki meðaltöl, ekki tekjutíund, það þarf enga tölfræði til að segja mér að það að reyna að lifa af á einhverjum rétt um 300.000 kr. með húsaleigu upp á 50–70% af þeim tekjum plús verðbólgu og aðra þætti — þá er alveg á hreinu að hversu oft fjármálaráðherra eða aðrir í ríkisstjórn koma hingað í pontu og fullyrða að þessi hópur hafi fengið svo rosalega mikið, eins og líka var fullyrt um eldri borgara áðan, að þeir væru í svakalega góðri stöðu vegna þess að það hefðu aukist svo gífurlega inngreiðslur frá ríkinu inn til eldri borgara — það var bent á það að eldri borgurum hefur stórfjölgað, er það ekki stærsti kostnaðarliðurinn?

Sama gildir þegar er verið að tala um öryrkja. Það er alltaf sett ein tala en síðan kemur í ljós að það hefur fjölgað í hópi viðkomandi vegna kulnunar í þjóðfélaginu og annarra þátta. Við megum líka aldrei gleyma því að það er stór hópur öryrkja að koma inn í kerfið í dag vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin er búin að búa til færiband úr heilbrigðiskerfinu inn í örorkukerfið með því að sjá til þess að biðlistar lengist og lengist, með því að láta fólk vera á biðlistum og taka lyf er verið að brjóta bæði andlega og líkamlega heilsu fólks. Við erum að sjá þetta um allt kerfið. Ég er að hitta fullfrískt fólk sem hefur ekki efni á að fara yfir götuna í Ármúla í liðskiptaaðgerðir en situr heima fast og getur ekki unnið vegna þess að það hefur ekki efni á því að fara til einkarekinna og er á þriggja ára biðlista eftir að komast í aðgerð á heilbrigðisstofnun. Þetta sýnir okkur það og ég er sannfærður um það því miður að eina lausnin fyrir þennan hóp og að þetta fáist samþykkt er að þessi ríkisstjórn færi frá. Miðað við það sem ég hef heyrt og miðað við það að þeir þykjast ætla núna að fara að endurskoða almannatryggingakerfið þá vonandi samþykkja þeir þetta frumvarp þar sem við erum ekki að fara fram — þetta er ekki stór hópur og ekki háar upphæðir en skipta þetta fólk gífurlegu máli þegar það verður 67 ára og fer inn í ellilífeyriskerfið, að það fái að halda þeim réttindum sem það hefur nú þegar þegar það fer þangað yfir.



[11:27]
Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir elju hans við að halda þessum málum á lofti og horfa á að þetta er í fjórða skipti sem þetta frumvarp er lagt fram og það gerist ekkert. Þegar maður hlustar á hv. þingmann lýsa því hvernig þetta kerfi virkar finnst manni það algjörlega galið. Það er verið að segja: Jú, það er verið að hækka á miðju ári tekjur þessa hóps um 3% og það á að gera það um 6% um áramót. En á sama tíma fer í gang eitthvert hjól í hinn endann sem rífur þetta bara af fólki.

Mig langar aðeins varðandi aldurstengdu örorkuuppbótina að biðja þingmanninn aðeins að fara betur yfir hana. Ekki að ég sé að gagnrýna heldur af því að mig skortir bara þekkingu. Ég gæti ímyndað mér að aldurstenging væri mikil þegar þú ert ungur af því að þá verður þú af möguleikum til að búa þér til tekjur og hún eigi svo að fjara út eftir því sem þú eldist af því að möguleikar á vinnumarkaði eru þannig að þeir minnka í sjálfu sér eftir því sem maður eldist.

Mig langar aðeins að biðja hv. þingmann um að fara yfir það hvernig hún virkar gagnvart þessum hópi, þessi aldurstengda örorkuuppbót. Við sjáum þessa hluti vera að gerast í lífeyriskerfinu okkar líka — ef hann gæti skýrt þetta aðeins út.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir þingmenn á að ávarpa forseta en ekki hver annan.)



[11:30]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir andsvarið. Upphaflega hugsunin á bak við aldurstengdu uppbótina var sú að þeir sem verða t.d. öryrkjar 18 ára eru búnir að vera öryrkjar alla tíð, þeir koma inn í kerfið 18 ára og þetta eru yfirleitt þeir einstaklingar sem eru verst staddir líkamlega og jafnvel andlega líka. Það er hvort tveggja. Það var hugsað þannig að kostnaður hjá þessu fólki væri yfirleitt meiri en gengur og gerist meðal öryrkja. Það er ýmis kostnaður eins og lyfjakostnaður, læknisþjónusta og ýmislegt, jafnvel sjúkraþjálfun sem þetta fólk þarf á að halda. Þess vegna var hugsað um upphæð sem er, eins og ég sagði, 54.210 kr í dag og það er fyrir þá sem eru 18 ára og eldri. Síðan ef þú kemur seinna inn í kerfið þá minnkar þessi upphæð. Eins og þegar ég fór inn í kerfið 38 ára þá fékk ég einhvern þrjúþúsundkall eða eitthvað, bara smotterí. Þegar þú ert kominn upp í ákveðinn aldurshóp þá dettur þetta út. Það sem ég hef oft hugsað í þessu kerfi er að það mætti eiginlega láta þetta detta miklu fyrr út því að þeir sem koma seinna inn í kerfið eiga þó alla vega lífeyrissjóð, þeir eiga jafnvel séreignarsparnað í dag og þeir standa að mörgu leyti betur en þessir einstaklingar. Þess vegna myndi ég vilja hafa þetta miklu hærri upphæð hjá þessum einstaklingum og láta þetta fjara út hraðar og bara hverfa fyrr. Það væri hægt að gera til að bæta stöðu þessa hóps vegna þess að þetta er hópur sem þarf þennan stuðning og þetta er hópur sem er ekki á vinnumarkaði og hefur yfirleitt ekki neinar lífeyristekjur eða aðrar tekjur, séreignarsparnaðinn eða nokkurn skapaðan hlut annan.



[11:32]
Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil biðjast forláts á að kunna mig ekki almennilega í pontunni. Ég er enn þá að læra. En mig langar að byrja á því, virðulegi forseti, að þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Mig langar að nefna að í gær sátum við hv. þingmaður fund í velferðarnefnd þar sem verið var að kynna fyrir okkur vinnu stýrihóps um endurskoðun á almannatryggingakerfinu sem snýr að kjörum öryrkja. Þar nefndi ég í fyrirspurn til formanns þessa stýrihóps að fólk væri að gera sér væntingar um afkomubata í gegnum þessa vinnu stýrihópsins af því að við erum búin að hlusta á það sýknt og heilagt hér í þinginu að ekkert sé verið að gera í málunum af því að alltaf er verið að bíða eftir því að þessi endurskoðun eigi sér stað. Maður veltir því þá fyrir sér: Getum við í raun og veru gert okkur einhverjar væntingar? Er eitthvert sérstakt tilefni til að ætla að sú ríkisstjórn sem nú situr og hefur setið ætli sér að fara að setja einhverja aukapeninga inn í þennan hluta velferðarkerfisins eftir eitt ár eða tvö ár frekar en bara núna? Reynslan segir okkur að það er endalaust verið að knésetja ákveðna hópa og taka í raun og veru af þeim það sem þeim ber út úr grunnkerfum okkar. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Gerir hann sér einhverjar væntingar um afkomubata vegna þessarar endurskoðunar?



[11:34]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hún er eiginlega að mörgu leyti frábær vegna þess að staðreyndin er nefnilega sú að þegar almannatryggingakerfið var síðast endurskoðað voru eldri borgarar teknir út og kerfið hjá þeim einfaldað. Á sama tíma voru teknir frá held ég 4 eða 5 milljarðar sem átti að nýta í endurskoðun örorkukerfisins og krónu á móti krónu skerðingar og annað. Síðan var hætt við það og ríkið er sennilega búið að spara sér 30–40 milljarða á þessu tímabili. Þetta er bara sparnaður upp á 4–5 milljarða á hverju einasta ári sem ríkið á og áttu að fara í þetta kerfi en hafa ekki farið í það. Meira að segja voru þessir peningar sem voru í þessu kerfi á sínum tíma notaðir í eingreiðslur og líka til þess að hækka bílastyrki. Það átti að kaupa bíla og þeir voru notaðir í það á sínum tíma.

Ég hef trú, jú. Fyrsta málið sem ég lagði fram á Alþingi á sínum tíma var út af styrkjum, bílastyrkjum, lyfjastyrkjum og ýmsum styrkjum. Ég lagði það fram vegna að þar hafði ég mína eigin reynslu, ég fékk bara 15.000 kr. styrk til að kaupa bensín á bíl og það endaði með því að ég fór að reikna þetta út af því ég skildi ekkert í því að ég stóð ekkert betur við að fá þennan 15.000 kr. styrk. Ég endaði í 3.000 kr. mínus, ég var búinn að reikna það út, við að taka við styrknum, vegna skerðinga út úr kerfinu. Mér fannst þetta svo arfavitlaust vegna þess að þetta átti að hjálpa. Þannig að ég lagði fram hér að þessir styrkir yrðu gerðir skatta- og skerðingarlausir þannig að ekki yrði tekinn skattur af þeim og það var samþykkt. Það var samþykkt og það var fyrsta málið sem ég náði í gegn.

Núna er þetta held ég rétt um 20.000 kr. Þetta hefur nú ekki hækkað mikið því að þeir passa sig að hækka þetta ekki samkvæmt vísitölu. En það er skattlaust og það er ekki skert. Þannig að ég á von á að dropinn holi steininn og núna þurfi ekki að koma með þetta í fimmta skiptið.



[11:37]
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að geta rætt þetta í dag. Okkur hættir svolítið til að líta á öryrkja sem einsleitan hóp fólks. Það eru bara fjöldamargir í þeirri stöðu að vera fatlaðir og örorkulífeyrisþegar allt sitt líf og það er svo mikilvægt að við festum þessa hópa ekki í fátæktargildru alveg þar til þeirra ævidagar eru taldir. Það er mjög mikilvægt að við tryggjum fólki sem mun aldrei geta unnið framfærslu. Það eru ákveðnir hópar sem munu aldrei geta farið í endurhæfingu eða komið sér inn á vinnumarkað, t.d. fólk með þroskahömlun sem getur bara ekki unnið, fólk með fjölþætta fötlun og þeir sem vegna annarra veikinda munu aldrei geta komist á vinnumarkað. Við megum ekki líta á örorku sem tímabundið ástand og við þurfum að tryggja að þeir sem eru á langvarandi örorku geti lifað mannsæmandi lífi alveg fram eftir, þar til þeir verða eldri borgarar og lengur en það.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.