153. löggjafarþing — 21. fundur
 20. október 2022.
framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu, fyrri umræða.
þáltill. ÞKG o.fl., 130. mál. — Þskj. 130.

[13:07]
Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Við Íslendingar erum sjálfstæð og fullvalda þjóð og af því erum við stolt. Það er bæði gott og eðlilegt. Sjálfstæðinu og fullveldinu fylgja bæði réttindi og skyldur, bæði gagnvart þeim sem hér búa en líka gagnvart öðrum þjóðum. Fullveldið og sjálfstæðið eigum við að nýta til góðra verka okkur til hagsbóta en líka samfélagi þjóðanna. Það er einu sinni svo að við deilum veröldinni með öðrum sjálfstæðum og fullvalda þjóðum og allar verða þær að reiða sig hver á aðra á margvíslegan hátt. Veraldarsagan er full af sögum um ríki, stórveldi, heimsveldi sem hafa risið og hnigið, styrjaldir, landvinninga, tilfærslu landamæra og nýlendur. Aflsmunur á sviði auðlinda, herstyrks og fjármagns réðu og ráða oftar en ekki för, oftast með skelfilegum afleiðingum. Því miður eru margar þjóðir enn við sama heygarðshornið í þessum efnum. Þegar aflsmunir ráða för getur fullveldi og sjálfstæði orðið harla lítils virði, eins og óteljandi dæmi sanna í fortíð og nútíð.

Fyrir okkur Íslendinga, sem erum óneitanlega smáþjóð og sumir myndu nú segja örríki, er afar mikilvægt að beita sjálfstæði okkar og fullveldi af skynsemi og raunsæi. Því fylgja bæði kostir og gallar að vera lítil og við eigum að styrkja kostina en draga úr göllunum. Saga okkar sýnir að við höfum borið gæfu til að stíga mörg skref sem gera einmitt þetta. Líf okkar tekur sífelldum breytingum og það gera samskipti ríkja líka. Oft er sagt að heimurinn hafi minnkað vegna margvíslegra tækniframfara og stóraukinna samskipta á öllum sviðum. Að sama skapi hafa sameiginleg verkefni, samskiptareglur, öryggismál, umhverfismál, loftslagsmál og aukinn tilflutningur fólks milli ríkja og heimshluta kallað á endurskoðun margs í samfélagi þjóðanna. Við Íslendingar förum ekki varhluta af þessum breytingum og okkur ber skylda til að vega og meta í sífellu hver staða okkar er, hvar hagsmunir okkar liggja og hvaða skref er skynsamlegt að stíga. Hagsmunirnir eru af margvíslegum toga; efnahagslegum, öryggis- og varnarlegum, umhverfislegum, menningarlegum og ekki síst þeim gildum friðar, frjálslyndis og mannréttinda sem við viljum standa vörð um.

Forseti. Allt frá því að við Íslendingar byrjuðum að fá í skrefum í eigin hendur sjálfstæði okkar og fullveldi höfum við þurft að laga okkur að því sem hefur verið að gerast í samskiptum þjóða. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur Ísland verið þátttakandi í margvíslegu fjölþjóðlegu samstarfi. Oftar en ekki höfum við verið í fararbroddi þeirrar vinnu enda er þátttaka í alþjóðasamstarfi forréttindi sem eingöngu stendur sjálfstæðum og fullvalda þjóðum til boða. Tilgangurinn hefur verið sá að styrkja stöðu landsins í samfélagi þjóðanna í menningarlegum efnum, stjórnmálalegu tilliti, því er varðar varnir og öryggi og að því er tekur til efnahags og viðskipta. Það er óumdeilt að þetta fjölþætta samstarf hefur styrkt fullveldi landsins og bætt efnahag þess.

Forseti. Í aðdraganda síðari heimsstyrjaldarinnar stóð Ísland á krossgötum. Þá varð smám saman ljóst að yfirlýsingin í sambandslögunum frá árinu 1918, um ævarandi hlutleysi, gat ekki staðist breytta heimsmynd. Breið samstaða var þó um að halda í hlutleysið þar til hernám Breta varð til þess að Íslendingar tóku afstöðu með þeim þjóðum sem stóðu þeim næst í hugmyndafræðilegum skilningi. Í framhaldinu gerðist Ísland aðili að Bretton Woods-samkomulaginu um fjölþjóðlegt gjaldmiðlasamstarf og aðild að Sameinuðu þjóðunum fylgdi í kjölfarið. Síðan gerðist Ísland eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalagsins, Íslendingar tóku þátt í stofnun Norðurlandaráðs, hafa verið aðilar að hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti frá lokum sjöunda áratugar síðustu aldar og eru aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í byrjun áttunda áratugarins urðu Íslendingar aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu og síðan aðilar að innri markaði Evrópusambandsins með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í byrjun tíunda áratugarins og með þátttöku í Schengen-samstarfinu árið 2001.

Forseti. Öll þessi skref voru á sinn hátt svar við breyttum aðstæðum. Þau lýstu því hvernig við aðstæður þess tíma var talið skynsamlegt að leita skjóls og tryggja hagsmuni landsins í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi. Allt þetta samstarf hefur þróast og breyst í tímans rás. Pólitískt og efnahagslegt vægi aðildar að einstökum samtökum hefur í sumum tilvikum aukist en minnkað í öðrum.

Forseti. Hér liggur fyrir tillaga til þingsályktunar frá þingflokki Viðreisnar sem ég mæli fyrir. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis að skipa nefnd sérfræðinga sem falið verði að vinna úttekt á stöðu Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu þar sem mat verði lagt á hvernig styrkja megi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar. Nefndin meti m.a. hvernig hagsmunum Íslands á sviði menningar, stjórnmála, varna og efnahags er best borgið í fjölþjóðlegri samvinnu. Utanríkisráðuneytið sjái nefndinni fyrir starfsaðstöðu, starfsmanni og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð auk þess sem viðeigandi stofnanir hins opinbera verði nefndinni til ráðgjafar. Nefndin skili úttekt til ráðherra eigi síðar en 31. janúar 2024. Ráðherra geri úttektina opinbera og flytji Alþingi skýrslu um hana á vorþingi 2024.“

Forseti. Tillagan er ekki alveg ný af nálinni en hún er nú lögð fram í fjórða sinn og væri óskandi að hún næði fram að ganga að þessu sinni því hún er afar mikilvæg og rökin fyrir henni verða æ sterkari og þörfin brýnni. Tillagan var fyrst lögð fram í júní 2019, síðan í október 2019, desember árið 2021 og loks núna 2022.

Forseti. Það hefur margt gerst frá því að tillagan var lögð fram í fyrsta sinn. Ég nefni til sögunnar þrennt sem er talandi dæmi um breytingar og þróun sem eiga sér rætur utan okkar landsteina en hafa engu að síður mikilvæg áhrif á okkur sem og önnur ríki. Í fyrsta lagi vil ég nefna að í upphafi árs 2020 var lýst yfir óvissustigi vegna kórónuveirunnar á Íslandi. Eftirleikinn þekkjum við og þau víðtæku áhrif sem faraldurinn hefur haft á heimsbyggðina, samskipti, efnahag og heilsufar og hefur enn. Faraldurinn hefur sýnt okkur svart á hvítu hve mikilvæg alþjóðasamvinna er til að vinna gegn vá sem þessari og tryggja almenningi aðgang að bóluefnum og lyfjum. Þar vorum við upp á velvild annarra ríkja komin sem ekki voru skuldbundin til að styðja okkur.

Í öðru lagi réðust Rússar inn í Úkraínu þann 24. febrúar á þessu ári og það stríð stendur enn. Afleiðingarnar eru hörmulegar fyrir Úkraínu og skaða einnig Rússland. En afleiðingarnar ná langt út fyrir þessi tvö ríki, bæði efnahagslegar og pólitískar. Átökin hafa orðið til þess að ekki síst ríki Evrópu hafa endurskoðað stefnu sína í öryggis- og varnarmálum. Þá sýnir stríðið svart á hvítu hvernig efnahagslegum þvingunum er beitt, hvernig yfirráðum yfir orkuauðlindum er beitt, hvernig áróðri er beitt og ýmiss konar brögðum og aðgerðum sem snúa að því að grafa undan samfélagsgerð þeirri sem við viljum byggja á og verja.

Í þriðja lagi hafa svartar skýrslur frá Sameinuðu þjóðunum um loftslagsmál birst hver af annarri. Þær sýna okkur og sanna að einstök ríki þurfa að axla meiri ábyrgð í þessum efnum, ábyrgð sem nær lengra en að eigin landamærum og verða ríki heims að ganga enn lengra í samvinnu og sameiginlegri ábyrgð í að takast á við þessa vá.

Forseti. Enn sem fyrr eigum við helst samleið með vestrænum lýðræðisríkjum, ekki síst Evrópuríkjum sem deila með okkur viðhorfum og gildum sem við viljum vernda og verja. Það er dagljóst að stærsta og metnaðarfyllsta verkefnið um samstarf og samvinnu í okkar heimshluta er Evrópusambandið. Við höfum tengst því bandalagi sterkum böndum en ekki stigið skrefið til fulls. Raunar ætluðum við að gera það fyrir áratug en heyktumst á því.

Evrópusambandið tekur sífelldum breytingum sem og verkefni þess. Skemmst er að minnast þess að Bretland gekk úr Evrópusambandinu í lok janúar 2020. Það hefur reynt á samstarfið milli ESB og Bretlands í kjölfarið og einnig Íslands. Þá hafa Bretar sjálfir ekki bitið úr nálinni með áhrif úrsagnarinnar og margt bendir til þess að þau verði afar neikvæð en ekki jákvæð eins og talsmenn útgöngunnar fullyrtu og við sjáum einmitt eina birtingarmynd þess í dag þegar forsætisráðherra Bretlands segir af sér vegna þess að hann treystir sér ekki til að ná fram þeim ávinningi sem Brexit átti að færa þjóðinni. Þá má einnig nefna að í upphafi voru það 12 ríki sem tóku upp evru en eru í dag orðin 19 og verða 20 þegar Króatía tekur upp evru um komandi áramót.

Forseti. Þátttaka okkar Íslendinga í alþjóðastarfi þarf að sækja styrk sinn í heilbrigða sjálfsmynd sem byggir í senn á raunsæi, sjálfstrausti, samkennd og samábyrgð. Við eigum að vera órög að láta til okkar taka á alþjóðavettvangi og við eigum að sitja við þau borð þar sem ákvarðanir eru teknar og sem okkur varða. Við getum lagt okkar til málanna og eigum ekki að sitja sem gestir við þau borð. Við eigum að sitja við þau borð sem heimilismenn.

Forseti. Aðferðafræðin sem lögð er til í tillögunni sem hér er mælt fyrir um er og hefur verið beitt áður þegar stórmál á sviði utanríkismála hafa verið í deiglunni, bæði þegar EES-samningurinn var í undirbúningi og umsókn Íslands að Evrópusambandinu sem og mat á áhrifum EES-samningsins sem við erum aðilar að.

Forseti. Við flutningsmenn þessarar tillögu erum fylgjandi viðræðum um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu og teljum æskilegt að þær verði teknar upp að nýju að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Það á ekki að vera nein hætta fólgin í því að treysta þjóðinni fyrir því að meta hvort við eigum að fara áfram í þær viðræður og klára þær, og hefur verið lögð fram ályktun í þessa veru. Sjálfur hef ég um langt skeið verið þeirrar skoðunar að aðild Íslands að Evrópusambandinu sé í senn skynsamleg og nauðsynleg. Atburðir síðustu missera hafa rennt enn frekari stoðum undir þessa sannfæringu mína. Það er brýnna en nokkru sinni fyrr að við leggjum mat á stöðu alþjóðamála og stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu og öðru alþjóðasamstarfi. Í greinargerð með tillögunni er ítarleg umfjöllun um fjölmörg atriði sem varða hagsmuni okkar og þær sviptingar sem hafa orðið og standa enn í umhverfi okkar og varða stöðu okkar og hagsmuni sem fullvalda og sjálfstæðrar þjóðar. Við eigum að beita styrkleikum okkar og viðurkenna þörf okkar fyrir aukið samstarf og beina þátttöku í brýnum verkefnum nútímans og framtíðarinnar. (Forseti hringir.) Samþykkt þessarar þingsályktunar er gott skref í undirbúningi þeirrar vegferðar á grundvelli fagmennsku, breiðra sátta og lýðræðis.

Forseti. Ég legg til að tillögunni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar og bind vonir við að þar fái hún vandaða efnislega umfjöllun og komi í kjölfarið til kasta þingsins til afgreiðslu.



[13:23]
Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við lestur þessarar þingsályktunartillögu og greinargerðar og við það að hlýða á ræðu hv. þingmanns hef ég verið að velta fyrir mér að byrja á þessu: Hvaða svæðisbundnu, fjölþjóðlegu samvinnu vísa flutningsmenn til fyrir utan Evrópusambandið? Er eitthvað annað sem þeir eru að vísa til en Evrópusambandið? Af hverju er verið að fara þessa fjallabaksleið að því að segja það sem flutningsmenn eru raunverulega að leggja til? Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að allir flutningsmenn væru hlynntir aðild að Evrópusambandinu. Af hverju er þetta ekki einfaldlega tillaga frá flutningsmönnum um að leggja fram þingsályktunartillögu um að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu? Er einhver önnur svæðisbundin, fjölþjóðleg samvinna sem er ekki minnst á og mér yfirsást? Það er væntanlega bara Evrópusambandið.

Það er reyndar þannig að af greinargerðinni að dæma er á ferðinni gríðarleg þekking á alþjóðamálum, mikil innsýn inn í hver þróunin hefur verið í alþjóðamálum og hver hún verður. Þetta eru greinilega miklir sérfræðingar sem hafa komið að gerð þessarar greinargerðar og er það vel. Ég er því líka að velta fyrir mér: Til hvers þarf þá nefnd á vegum utanríkisráðherra að komast að sömu niðurstöðu og komist er að í greinargerðinni? Greinargerðin segir augljóslega að það beri að sækja um aðild að Evrópusambandinu, í svo mörgum orðum. Það væri fróðlegt að heyra hvað hv. þingmaður segir um þetta.



[13:25]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætt andsvar og spurningar. Það er nú einu sinni þannig að það er ýmislegt samstarf sem við tökum þátt í sem er mismikið svæðisbundið. Við tökum t.d. þátt í NATO og Norðurlandaráði og það er auðvitað þannig að þetta samstarf er alltaf að taka breytingum. Við höfum séð að samstarfið innan NATO er að taka breytingum. Nýir aðilar eru að koma inn í NATO, hluti af Norðurlöndunum. Danir eru að breyta fyrirvörum sínum varðandi aðild að Evrópusambandinu. Það eru hreyfingar sem snerta allt þetta samstarf sem við erum að taka þátt í. En það er hins vegar algerlega rétt athugað hjá hv. þingmanni, enda er hann glöggur maður, að langmikilvægasta svæðisbundna samstarfið sem er í Evrópu og stendur okkur næst er Evrópusambandið. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir að vera svona glöggur að átta sig á þessu. Það er auðvitað þannig, hvernig sem á það er litið, að það er langviðamesta samstarfið sem við tengjumst. Aðild okkar að innri markaðnum í gegnum EES-samninginn er langstærsti samningur sem við höfum gert um svæðisbundið samstarf og þarf því mesta skoðun.

Varðandi síðari spurninguna þá erum við nú einu sinni þannig gerð að þótt við þykjumst vita allt best sjálf þá þykir okkur ágætt að fá álit annarra spakra manna eins og t.d. hv. þingmanns.



[13:27]
Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að staðfesta það sem mig grunaði svo sem. Þetta er tillaga til að draga fram að Ísland verði að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Mér finnst flutningsmenn fara óþarflega mikla fjallabaksleið að þessu, eins og köttur í kringum heitan graut. En það er fleira sem kom fram í máli hv. þingmanns og stendur í greinargerðinni sem mig langar aðeins að staldra við. Það er sú mynd sem er dregin upp af stöðu alþjóðamála, þessi gríðarlega innsýn í alþjóðamálin sem kemur fram í greinargerðinni. Þar segir, með leyfi forseti:

„Samvinna Bandaríkjanna við bandamenn sína byggist í vaxandi mæli á þeirra eigin hagsmunum en í minna mæli en áður á sameiginlegum hugsjónum …“

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Í hvaða samhengi er þessi fullyrðing sett fram? Til hvaða tíma er verið að horfa sem þessi gríðarlega mikla stefnubreyting í utanríkismálum Bandaríkjanna á að hafa átt sér stað? Er hann að tala um einhver ár eða eru þetta áratugir? Í hverju felst þessi stefnubreyting? Felst hún í að þeir eru ekki jafn duglegir í NATO? Kemur það fram í því hvernig þeir hafa leitt NATO til stuðnings við Úkraínu? Eru flutningsmenn að vísa til þess? Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Sameinuðu þjóðirnar? Það væri ágætt að fá umfjöllun um þetta.

Hitt atriðið er að það er fullyrt hér að Kína verði forysturíki á heimsvísu. Það er mikill spádómur og fróðlegt en það sem meira er þá er sagt að á eftir Kína komi Evrópusambandið, sem er vaxandi á alþjóðavettvangi og miklu áhrifameira en um getur. Til hvers er verið að vísa? Að evran hafi fallið gríðarlega gagnvart dollar á síðustu misserum? (Forseti hringir.) Orkukreppunnar í Evrópu sem á sér enga hliðstæðu? Er það sá kraftur sem Evrópa hefur fram að færa? Hvað nákvæmlega gerir það að verkum að á eftir Kína verði það Evrópusambandið sem verður leiðandi á heimsvísu?



[13:30]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar og spurningar. Það er nú einu sinni þannig að á undanförnum árum höfum við áttað okkur á því að það ríki sem sumir vilja telja og hefur óneitanlega verið forysturíki í hinum frjálsa vestræna heimi, eins og hann er oft kallaður, er nú kannski ekki alveg eins áreiðanlegt og við höfum sum viljað trúa. Nægir þar að benda á tíð síðasta forseta, á undan þeim sem nú situr. Ég sé að hv. þingmaður brosir. (TBE: Hann er ekki lengur forseti.) Ég veit að hann er ekki lengur forseti. En það sýnir okkur að afstaða Bandaríkjamanna er gríðarlega brothætt. Það munaði ekki miklu að það yrði stjórnarbylting í Bandaríkjunum ef hv. þingmaður getur rifjað það upp, óeirðir. Fráfarandi forseti þá vildi ekki fara frá völdum. Þetta veit auðvitað hv. þingmaður. Þetta hefur sýnt okkur og sannað að það er mjög varhugavert að treysta um of á eitt ríki sem vissulega er stórt og voldugt, en þegar til stykkisins kemur þá hugsar það auðvitað fyrst og fremst um sjálft sig og sína eigin hagsmuni. Það er að því núna. Það vill svo til að hagsmunir okkar fara vel saman um þessar mundir og það er bara hið besta mál. Mér hugnast betur fjölþjóðlegt samstarf sem er formbundið, þar sem ríkin sitja saman og taka ákvarðanir. Það er nú ástæðan fyrir því að ég tel að við eigum frekar að binda trúss okkar við Evrópu og Evrópusambandið heldur en að trúa því í blindni að Bandaríkjamenn séu ævarandi vinir og hugsi fyrst og fremst um aðra en sjálfa sig. (Forseti hringir.) Nefni ég t.d. þegar þeir ákváðu að draga her sinn héðan frá landi án nokkurs samráðs við okkur. Um hvaða hagsmuni hugsuðu þeir þá?



[13:32]
Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég er á sömu nótum og hv. þm. Teitur Björn Einarsson, þessi tillaga lítur vel út svona þegar maður byrjar að lesa hana. Hér er sérfræðingum falið að vinna úttekt á stöðu Íslands í svæðisbundinni fjölþjóðlegri samvinnu. En svo þegar maður les lengra þá kemur fljótlega í ljós að þetta snýst um það að horfa til Evrópusambandsins og kemur fram að flutningsmenn séu þeirrar skoðunar að okkur sé best borgið innan Evrópusambandsins. Að því leytinu til er ég sammála hv. þm. Teiti Birni Einarssyni að það er mikill Evrópusambandsbragur á þessari tillögu sem er kannski verið að reyna að færa í aðeins fegurri búning. Hv. þingmaður var svo sem ekkert að fela það hér að hans skoðun er sú að stærsta og metnaðarfyllsta verkefnið sé að ganga í Evrópusambandið. Ég er reyndar ekki sammála þeirri fullyrðingu. En það sem ég vildi spyrja hv. þingmann aðeins út í er það sem hann talar um og var komið aðeins inn á hér áðan, að samvinna Bandaríkjanna við bandamenn byggist í vaxandi mæli á þeirra eigin hagsmunum. Ef hv. þingmaður gæti kannski skýrt þetta nánar út og kannski nefnt einhver dæmi í því sambandi. Við höfum mjög mikla hagsmuni af okkar varnarsamstarfi við Bandaríkin og nú t.d. höfum við séð að það er kafbátaleitarsveit á Keflavíkurflugvelli á vegum Bandaríkjahers sem leitar að kafbátum hér við Íslandsstrendur. Ég held að það sé mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að einmitt þessu eftirliti sé sinnt. Við höfum dæmi úr Eystrasaltinu þar sem er búið að valda verulegum skemmdum á gasleiðslum (Forseti hringir.) og við eigum afar mikilvæga fjarskiptakapla í sjónum við ströndina. Gæti hv. þingmaður (Forseti hringir.) komið aðeins nánar inn á það hvað hann á við með því að þetta sé einhliða af hálfu Bandaríkjanna?



[13:35]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar og ítrekun á fyrri spurningum sem hér hafa komið fram áður. Ég reyndi að leggja á það áherslu og útskýra það að hagsmunir stórvelda fara oft saman við okkar, t.d. fara hagsmunir okkar og Bandaríkjamanna saman í kafbátaleit hér við landið. En ég treysti mér nánast líka til að fullyrða að daginn sem Bandaríkjamenn meta það þannig að það skipti þá ekki máli að fylgjast með kafbátaumferð við Ísland þá hætta þeir henni. Þeir munu ekki halda henni áfram ef við biðjum þá um það. Það er þetta sem ég er að reyna að segja, mér finnst varhugavert að treysta um of á eitt ríki þar sem stjórnarfarið er þannig að þeir eru með gríðarlega sterkan forseta. Við höfum séð það á síðustu misserum hverju það getur breytt, eftir því hvaða forseti er við völd. Ég held að það sé alveg sama hvar við förum um heiminn og skoðum þar sem Bandaríkjamenn hafa verið einir á ferð, hvort sem það er í styrjöldum í Miðausturlöndum eða fjær, að þar hafa hagsmunir þeirra ráðið för og þegar þeir telja að þeir annaðhvort geti ekki varið hagsmuni sína, jafnvel þótt þeir hafi komið inn til að aðstoða þjóðir með hermætti sínum, eða telja að þeirra hagsmunum sé ekki lengur borgið á viðkomandi svæði þá fara þeir í burtu. Það er nú hinn kaldi veruleiki. Hagsmunagæsla Bandaríkjanna snýst um Bandaríkin sjálf. Hún fellur saman með okkar hagsmunum, (Forseti hringir.) hún fellur saman með hagsmunum Evrópuríkja í mörgum tilvikum (Forseti hringir.) og þá er auðvitað gott að eiga þá að bandamönnum, mikil ósköp.



[13:37]
Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hv. þingmaður ræðir hér um eigin hagsmuni Bandaríkjanna. Ég held nú að Evrópusambandið sé ekkert öðruvísi en Bandaríkin hvað það varðar, það hugsar náttúrlega um eigin hagsmuni. Við höfum séð það í okkar samskiptum við Evrópusambandið. Þess vegna þykir mér varhugavert að trúa í blindni á Evrópusambandið eins og hv. þingmaður og flutningsmaður gerir. En varðandi Bandaríkin þá höfum við náttúrlega varnarsamning við Bandaríkin og þau hafa skuldbundið sig til að koma okkur til aðstoðar verði hér ófriður. Nú er sú staða komin upp í Evrópu að við þurfum að fara að huga að þessum málum í ríkara mæli en við höfum gert. Ég hef verið talsmaður þess að við kæmum að okkar eigin varnarbúnaði með einhverjum hætti, þá í samstarfi við NATO og Bandaríkin sérstaklega, og við tækjum þátt í þessu með íslenskum starfsmönnunum og öðru slíku. En það kemur hérna önnur athyglisverð fullyrðing í þessari þingsályktunartillögu og hún hljóðar þannig:

„Því næst kemur Evrópusambandið, sem hefur vaxið hratt og er miklu áhrifameira en áður en glímir líka við innri vanda.“

Flutningsmenn viðurkenna þannig að það sé innri vandi innan Evrópusambandsins og það er gott og vel. En hér er rætt um að það hafi vaxið hratt og sé miklu áhrifameira en áður. Og í hverju felast þessi áhrif? Ef hv. þingmaður gæti aðeins farið nánar yfir það. Felast þau í t.d. orkukreppunni sem Evrópusambandið glímir við núna, sem er gríðarlega erfið og alvarleg kreppa sem við Íslendingar, sem betur fer, þurfum ekki að hafa áhyggjur af heima við hjá okkur þegar kemur að orkunni? Lýsir þetta því að það sé áhrifameira þegar kemur að fjármálamörkuðunum? Er ekki evran búin að vera í hálfgerðu frjálsu falli undanfarið? (Forseti hringir.) Ég er ekki alveg að skilja þessa fullyrðingu. En það væri gott ef hv. þingmaður væri tilbúinn til að skýra það nánar, (Forseti hringir.) í hverju það felst að Evrópusambandið sé miklu áhrifameira en áður.



[13:40]
Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir andsvar og góðar spurningar. Já, það er athyglisverð spurningin um að það sé vert að passa sig á eigin hagsmunum Evrópusambandsins. Vissulega hefur Evrópusambandið hagsmuni, en hvaða hagsmunir eru það? Hvað er Evrópusambandið? Það vill þannig til að þarna eru sjálfstæð fullvalda ríki, 27 talsins, eftir að Bretar fóru, sem vinna saman á grundvelli eigin sjálfstæðis og fullveldis og það eru sameiginlegir hagsmunir þessara ríkja sem ráða för. Því stjórnar enginn einn. Í því felast í senn styrkleikar og sumir myndu segja veikleikar, en ég segi kostir, að þar ræður enginn einn för, öfugt við það sem er í ríkjum þar sem hagsmunir eins ríkis ráða för og jafnvel þar sem stjórnarfar er með þeim hætti að það getur verið mjög fallvalt að treysta á hvað gerist í þeim ríkjum. Ég tel það einmitt höfuðkost að vera í slagtogi þar sem sameiginlegir hagsmunir ráða för, almannahagsmunir Evrópubúa, en ekki sérhagsmunir einstakra ríkja, jafnvel þótt stór og voldug séu. Ég held að það sé mun betri kostur fyrir okkur Íslendinga að halla okkur að því og taka þátt í því starfi af einurð og alvöru.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.