153. löggjafarþing — 21. fundur
 20. október 2022.
verkferlar um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna, fyrri umræða.
þáltill. ELA o.fl., 17. mál. — Þskj. 17.

[14:59]
Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Auk mín eru það hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem eru flutningsmenn tillögunnar, þau Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson, Ágúst Bjarni Garðarsson, Ingibjörg Isaksen, Iða Marsibil Jónsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson.

Tillagan sem ég mæli hér með fyrir er sú að Alþingi álykti að fela mennta- og barnamálaráðherra að vinna að aðgerðaáætlun um verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Sú vinna verði unnin í framhaldi af vinnu starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun leiðbeininga fyrir starfsfólk skóla í tengslum við framkvæmd reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Samkvæmt erindisbréfinu þá átti sá starfshópur að skila af sér vinnu 15. ágúst síðastliðinn en ég hef heimildir fyrir því að vinna hópsins sé enn í gangi. Samkvæmt þeirri tillögu sem hér er mælt fyrir er lagt til að aðgerðaáætlunin verði mótuð á grunni nýrra farsældarlaga og byggð upp sem stuðningskerfi í kringum börn og ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins. Samráð verði haft við heilbrigðisráðherra, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Háskóla Íslands og aðra hagaðila við gerð aðgerðaáætlunarinnar. Samkvæmt tillögunni skal mennta- og barnamálaráðherra leggja aðgerðaáætlun um verkferla fyrir Alþingi eigi síðar en í maí 2023.

Samkvæmt greinargerð sem fylgir þessari tillögu eru markmið tillögunnar þau sem ég hef farið yfir hér að framan, en tilurð tillögunnar er byggð á grunni rannsóknar sem Soffía Ámundadóttir gerði til M.Ed.-prófs í stjórnun menntastofnana. Félag háskólakvenna var með hádegisfund á dögunum þar sem Soffía kynnti helstu niðurstöður rannsóknarinnar og heiti rannsóknarritgerðarinnar er: Við sættum okkur ekki við ofbeldi. Um er að ræða eiginlega rannsókn sem er byggð á reynslu skólastjórnenda í Reykjavík. Í rannsóknarritgerðinni kemur í ljós að líkamlegt ofbeldi grunnskólabarna færist í aukana og verður sífellt grófara. Eins og áður segir var rannsóknin gerð meðal skólastjórnenda í Reykjavík sem segja þetta þróun sem þeir finni fyrir í störfum sínum. Skólastjórnendur segja algjöran skort á stuðningi og miðstýrðum verkferlum. Það er mikil áskorun fyrir skólasamfélagið að takast á við þessi mál sem eru oft erfið og viðkvæm og taka verulega mikið á. Það gera þau fyrir alla hlutaðeigandi; foreldra, forráðamenn, aðstandendur, starfsmenn skólans og auðvitað barnið sjálft.

Þau börn og ungmenni sem eru í þessari flóknu stöðu beita ofbeldi m.a. vegna vanlíðunar, kvíða, þunglyndis og slakrar félagsfærni. Þess vegna er mikilvægt að vinna áfram með þann megintilgang farsældarlaganna að auka þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, ásamt því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir í málefnum barna með fjölþættan vanda, efla stuðning við fjölskyldur, auka fræðslu með virkri sí- og endurmenntun fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og fjölga aðgerðum og leiðum til lausna börnum til hagsbóta

Allir skólastjórnendur sem tóku þátt í rannsókninni voru sammála um að skortur sé á fræðslu og ofbeldisforvörnum. Skólastjórnendur voru jafnframt sammála um að það vantaði miðstýrða verkferla, að skortur sé á skráningum og viðbragðsáætlunum. Samkvæmt rannsókninni upplifir margt starfsfólk skóla stundum óöryggi og vantar verkferla og verkfæri þegar takast þarf á við krefjandi aðstæður. Þess vegna er mikilvægt að koma fram með viðurkenndar aðferðir sem taka á ógnandi hegðun og ofbeldishegðun og koma inn með markvissa fræðslu fyrir börn, ungmenni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk skólakerfisins.

Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til 13. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum. Með leyfi forseta, vil ég fá að lesa upp hluta af þessari grein reglugerðarinnar sem vísað er til hér í tillögunni en hluti af 13. gr. reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum er eftirfarandi:

„Ef starfsfólk skóla metur að háttsemi nemenda leiði af sér hættu fyrir samnemendur og/eða starfsfólk skóla ber starfsfólki skylda til að bregðast tafarlaust við slíku með líkamlegu inngripi til að stöðva nemanda. Líkamlegu inngripi skal aðeins beitt í ítrustu neyð og eingöngu þegar ljóst er að aðrar leiðir duga ekki til að forða nemanda frá því að skaða sig og/eða aðra. Starfsfólki skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Skal þess ávallt gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Láta skal tafarlaust af inngripi er hættu hefur verið afstýrt. Skólastjóri skal sjá til þess að atvik samkvæmt þessari málsgrein séu skráð og varðveitt í skólanum svo og ferill máls og ákvarðanir sem teknar eru í kjölfarið, í samræmi við lög um persónuvernd nr. 77/2000. Atvikaskráning skal fela í sér lýsingu á aðdraganda, atburðinum sjálfum og mati á þeirri hættu sem orsakast hefði af athafnaleysi.

Mikilvægt er að starfsfólk vinni ekki eitt við slíkar aðstæður og kalli eftir aðstoð annars starfsfólks skólans eða viðeigandi utanaðkomandi aðstoð, t.d. frá lögreglu, heilsugæslu eða öðrum eftir atvikum.“

En þrátt fyrir þessa skýru grein reglugerðarinnar hefur skort faglegan stuðning og samþætt úrræði fram til samþykktar farsældarlaganna. Farsældarlögin fyrirskipa um samþættingu þjónustu allra þeirra sem vinna að þjónustu og kennslu barna og byggja þarf upp miðstýrða verkferla um viðbrögð við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna.

En hvers vegna stöndum við frammi fyrir þeirri stöðu sem uppi er? Undanfarið höfum við verið að heyra fréttir af börnum og ungmennum sem líður illa og við heyrum hræðilegar fréttir af stöðu þeirra. Við heyrum fréttir af börnum og ungmennum sem stunda skipulagt ofbeldi, alls konar ofbeldi, stafrænt ofbeldi. Börn sem eru hinsegin eru beitt ofbeldi. Einnig virðist vera orðið nýtt „trend“ meðal barna og ungmenna að beita rasísku ofbeldi og virðist vera töluvert um það. Innan veggja skólanna okkar er aukning á ofbeldi og það verður sífellt grófara. Kennari sem tók þátt í rannsókninni segir að samfélagið verði að vakna til meðvitundar um alvarleika málsins. Það sé ekki eðlilegt að við séum að missa starfsfólk skólanna í örorku vegna ofbeldis nemenda en því miður þekkist það.

Rauði þráðurinn í svörum skólastjórnenda er sá að málaflokkurinn sé í algjörum ólestri. Samkvæmt rannsókninni sem vísað er til hér og greinargerðin byggist á alfarið þá vantar verkferla, vantar miðstýrða verkferla og stuðning. Staðreyndin er bara sú að við verðum að bregðast við fyrir börnin okkar og þeirra líðan og þeirra framtíð. Við sem samfélag verðum að taka höndum saman og þá á ég við okkur öll; stofnanir samfélagsins, fyrirtæki í okkar ágæta samfélagi, foreldrasamfélagið, forráðamenn, aðstandendur barna, skólasamfélagið. Við getum ekki lokað augunum. Við getum ekki látið eins og allt sé í lagi á meðan það er það ekki. Við getum ekki heyrt fleiri fréttir af enn meiri aukningu af slæmri líðan ungmenna og barna sem gæti birst m.a. í enn meiri aukningu á ofbeldi af ýmsu tagi. Núna er kominn tími aðgerða. Það er ekkert okkar undanskilið ábyrgð í þeim efnum að stíga inn í og grípa inn í.

Ég vil trúa því að samræmdir og miðstýrðir verkferlar sem auka þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þeirra þjónustu, ásamt því að efla fyrirbyggjandi aðgerðir sem eru afar mikilvægar í málefnum barna með fjölþættan vanda, efla stuðning við fjölskyldur, auka fræðslu fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi og fjölga aðgerðum og leiðum til lausna börnum til hagsbóta, muni skila okkur í rétta átt. Það er vegna þess sem ég legg fram þessa þingsályktunartillögu ásamt meðflutningsmönnum mínum.

Nú hef ég gert grein fyrir málinu og legg til að það verði allsherjar- og menntamálanefnd sem taki það til umfjöllunar.



[15:09]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vildi bara nota tækifærið og koma hingað upp vegna þess að ég held að ég deili þeirri tilfinningu sem fram kom í máli hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur og væntanlega með öllum hér inni hvað þetta eru sláandi umræður og fréttir sem við höfum fylgst með, sér í lagi í gærkvöldi í sjónvarpinu. Þetta er afar alvarlegt ástand sem hefur skapast í samfélaginu og ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að vinna bug á því með öllum tiltækum ráðum. Mig langar að spyrja hv. þingmann svona í samhengi þess að tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sú vinna verði unnin í framhaldi af vinnu starfshóps mennta- og barnamálaráðuneytisins um mótun leiðbeininga fyrir starfsfólk skóla í tengslum við framkvæmd reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum.“

Deilir hv. þingmaður þeirri skoðun sem fram kom m.a. í einu af þeim viðtölum sem voru á skjánum í gær, við fulltrúa að ég held starfsmanna Barnaheilla, að þetta sé raunar samfélagslegt verkefni, ekki bara eitthvað sem snýr að skólum og skólastarfi þó að birtingarmyndin sé sannarlega þar? Það sé samfélagslegt verkefni að vinna bug á því ofbeldi og þeirri ógnandi hegðun og hatursorðræðu sem við höfum séð í garð hinsegin fólks. Hefur hv. þingmaður einhverjar sérstakar hugmyndir um það?



[15:10]
Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, ég tek bara undir það sem hv. þingmaður talaði um, maður fær kökk í hálsinn og líður ekki vel yfir því að sjá og heyra fréttir af börnum okkar og ungmennum í samfélaginu sem líður það illa að þau grípa til örþrifaráða. Maður hugsar líka til þeirra sem eru gerendur að ýmsum ofbeldisverkum, börn og ungmenni grípa ekki til þessa nema vegna einhverrar vanlíðunar þannig að ég tek undir það með hv. þingmanni að við verðum að vinna bug á þessari staðreynd í okkar ágæta samfélagi með öllum tiltækum ráðum. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og til þess að ég myndi ekki gleyma einum né neinum mikilvægum aðila sem mér finnst mikilvægt að komi að þessari vinnu þá var notað orðalagið „hlutaðeigandi hagaðilum“ og mér finnst mjög mikilvægt að við fáum inn félagasamtök eins og Barnaheill eða Heimili og skóla og önnur slík samtök því að til að ná árangri í svona umfangsmiklu máli þurfum við öll að taka höndum saman. Við þurfum á að halda öllum slagkrafti þeirra sem þekkja til, kunna að vinna með börn og hafa hagsmuni þeirra fyrir brjósti inn í þetta verkefni. Það er mjög mikilvægt að það verði tekið upp í þeirri nefnd þingsins sem fær málið til umfjöllunar.



[15:12]
Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og lýsi mig algjörlega sammála þessari nálgun og í rauninni kom nú akkúrat það fram sem ég var að leita eftir, hvort hún sæi fyrir sér að þegar þeir aðrir hagaðilar, sem ég lít á að sé samfélagið allt en það þarf að búta það með einhverjum hætti niður, geti komið að þessari vinnu þegar málið fer í frekari þinglega meðferð. Annars vil ég bara þakka hv. þingmanni fyrir að bera þessa tillögu hér fram. Hún er tímabær, því miður, í samfélaginu. En það er verk að vinna og við verðum öll að gjöra svo vel og taka þátt í þeirri vinnu og vinna bug á þessu ástandi og kveða það í kútinn hið fyrsta.



[15:13]
Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Já, ég held að öll þau sem bera hagsmuni barna og ungmenna fyrir brjósti séu sammála því að við þurfum með einhverju móti að finna leiðir svo að við getum stigið inn í og það er löngu tímabært að stíga inn í. Maður veltir fyrir sér hvað gerðist, hvað kom fyrir. Hvernig lenti samfélagið á þessum stað? Ég vona að það verði leitað umsagna hjá þeim aðilum sem koma að einhverju leyti að vinnu með börnum og ungmennum og við fáum umsagnir frá þeim um hvernig hægt er að nálgast þetta verkefni, hvaða verkferlar gætu talist viðurkenndir og hvernig við innleiðum þá inn í mismunandi stofnanir og kerfi þar sem unnið er með börnum og ungmennum. Við hefjum samtalið hér innan Alþingis og finnum leið og síðan komumst við vonandi á þann stað að það verði innleiðing á einhverjum verkferlum og að hún heppnist vel.



[15:15]
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir að fá að taka þátt í þessari umræðu hér í dag. Ég tek undir með hv. þingmönnum að fréttir gærdagsins voru sláandi fyrir okkur öll en fyrir okkur sem vinnum að mannréttindamálum og látum okkur mannréttindi jaðarhópa varða þá koma þessar fréttir kannski ekki sérstaklega á óvart. Við höfum auðvitað lengi rætt um bakslag í baráttu hinsegin fólks, fötluð börn og ungmenni hafa lengi sætt mismunun og fordómum án þess að það hafi verið neitt sérstaklega rætt, í raun normalíserað, og aukinn rasismi í samfélaginu þar að auki. Á sama tíma og við förum í sterkt inngrip í öllum stofnunum sem þjónusta börn þurfum við að fara að efla mannréttindafræðslu í skólum því að það er auðvitað lykillinn að því að stöðva þetta gegndarlausa ofbeldi og einelti. Og ég spyr mig einmitt: Hvers vegna erum við komin á þennan stað? Hvað hefur gerst í samfélagi okkar á síðustu kannski tíu árum sem hefur leitt til þess að börnin eru tilbúin til að beita svo gegndarlausu ofbeldi að maður trúir því eiginlega ekki?

Ég vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hennar til þess að auka um leið fræðslu fyrir börn, foreldra og starfsfólk um mannréttindi, stétt og stöðu fólks til að vinna gegn þessu meini.



[15:17]
Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Björk Margrétar Bjarnadóttur fyrir andsvarið og tek bara undir það sem hún segir. Ég er með gríðarlegar áhyggjur af þessu bakslagi sem við erum að sjá varðandi aukningu á ofbeldi, í orðræðum, á samfélagsmiðlum og í hinum ýmsu birtingarmyndum þar sem börn og ungmenni, og ekki bara þau heldur fullorðið fólk því miður líka, eru með fordóma gagnvart hinsegin fólki, gagnvart fólki með fötlun, gagnvart öðrum kynþáttum og öðru slíku. Ég vil bara taka undir það sem hv. þingmaður segir, að við þurfum alltaf að vera dugleg að efla fræðslu. Kannski höfum við sofnað á verðinum í einhvern tíma, í of langan tíma, ég veit það ekki. Við höfum öll gott af því að líta inn á við og skoða: Hvað gerðum við, hvað gerðum við ekki og hvernig eigum við að stíga næstu skref ? En eitt er víst að við verðum að komast á betri stað. Við getum ekki bara lokað augunum og eyrunum og látið sem þetta sé ekki þróun sem sé í gangi og haldið bara áfram óbreyttu plani heldur verðum við að stíga inn. Ég held að það sé mikilvægt að þetta verði einnig rætt í þeirri nefnd sem tekur málið til umfjöllunar.



[15:18]
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt í þessari vinnu allri saman að við skoðum líka hvernig við tökumst á við börn í jaðarsettri stöðu sem beita einelti og ofbeldi, hvernig við tryggjum réttindi þeirra og velferð því að alþjóðlegar rannsóknir sýna okkur að börn sem tilheyra jaðarhópum eru í hættu á að verða fyrir meiri hörku oft inni í kerfinu. Þetta eru dæmi ég hef séð í mannréttindastörfum mínum. Það er oft meiri atvikaskráning, harðari skorður og þrengri rammi fyrir börn sem tilheyra jaðarhópum vegna þess að það búast alltaf allir við því að þau muni setja allt á hliðina. Það býr oft til mjög spennuþrungið ástand inni í kerfinu þegar allir búast alltaf við að börnin springi. Maður getur sett sig í þau spor, hvernig tilfinningin er þegar allir eru á nálum í kringum þig. Þannig að við þurfum svo sannarlega að hugsa um gerendur í þessu samhengi þótt mér hugnist mjög illa að tala um börn sem gerendur því að þau eru afleiðing af því kerfi sem þau hafa alist upp í.

Mig langar til að hvetja hv. þingmann til að huga sérstaklega að þessu í allri vinnu sinni í framhaldinu og að flutningsmenn þessarar tillögu hugsi til þeirra barna sem munu þurfa að takast á við stór vandamál vegna hegðunar sinna og gjörða hingað til. Þau eru ekki í auðveldri stöðu í dag.



[15:20]
Flm. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið og segja að hv. þingmaður sem hér stendur og hv. þm. Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, við erum algerlega sammála. Við þurfum að stíga líka varlega til jarðar og vanda okkur í því hvernig við búum til verkferla, hvernig við getum hjálpað líka þeim börnum sem beita ofbeldinu. Við þurfum að hjálpa þeim út úr því mynstri sem þau hafa lent í eða skapað sér. Við þurfum að hafa góðar áætlanir um hvaða verkferlar eru í kringum það að hjálpa þeim. Í því samhengi er mjög mikilvægt þegar við erum að vinna með börn og ungmenni að við skoðuðum m.a. hvernig við getum aukið forvarnafræðslu og verið með stöðuga endurmenntunarfræðslu hvað þetta varðar. Í þessu samhengi er mikilvægt líka að skoða áfallasögu nemenda þegar við erum að grípa inn í aðstæður af því að þegar barni líður illa er yfirleitt eitthvað sem orsakar þá líðan. Við getum ekki brugðist rétt við fyrr en við vitum nákvæmlega hvað það er sem veldur því að barnið bregst svona við.

Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir brýninguna og mjög gott innlegg inn í umræðuna og óska þeim sem taka málið til umfjöllunar velfarnaðar. Ég hlakka til að fá að fylgjast með framvindu verkefnisins á hliðarlínunni þar sem ég er nú á síðasta degi sem varaþingmaður á Alþingi hér í dag.



[15:22]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við ræðum mjög tímabært mál, tillögu til þingsályktunar um verkferla og snúa þeir að viðbrögðum við ógnandi hegðun og ofbeldi meðal barna og ungmenna. Við sem höfum verið að fylgjast með fréttum að undanförnu getum ekki hafa farið varhluta af því að standa að einhverju leyti agndofa frammi fyrir því að unga fólkið okkar skuli vera að beita hvert annað ógnandi hegðun. Við vitum að um langt skeið höfum við séð teikn á lofti um að ógnandi hegðun barna og ofbeldi þeirra á milli, og einnig gagnvart kennurum og starfsmönnum skóla og jafnvel annarra í samfélaginu, jafnvel gagnvart foreldrum og systkinum, sé að aukast.

Hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir fór mjög vel yfir tillöguna og því vil ég ekki bæta miklu við hana. Hún er mjög greinargóð en þar er auðvitað fyrst og fremst verið að leggja áherslu á það að veita þeim sem vinna með börnum verkferla til að takast á við þessa ógnandi hegðun sem getur verið fjölbreytt og málin geta verið afar krefjandi, ekki bara fyrir þolendur heldur líka fyrir gerendur og þá sem að þeim standa.

Umfjöllun um mál ungrar stúlku í fréttum og Kastljósi í gær hefur skilið þjóðina eftir slegna og leyfi ég mér að segja að í mínu tilfelli finnst mér nauðsynlegt að líta í eigin barm og held að foreldrar á Íslandi ættu svo sannarlega að gera það á þessum tímapunkti. Við sjáum notkun m.a. samfélagsmiðla, áhrif af alls kyns efni á vefnum, ógnandi áhrif tækninnar á börnin okkar sem í mörgum tilfellum eiga erfitt með að höndla hana. Samfélagsmiðlarnir eru margir hverjir með aldurstakmörkunum sem fæstir virðast vita um. Það þýðir að það er verið að leggja tól og tæki í hendurnar á ungum börnum sem jafnvel framleiðendurnir sjálfir eru búnir að segja að henti ekki þeim aldurshópi heldur séu fyrir eldri börn og unglinga.

Einn af okkar helstu góðgerðarmönnum á undanförnum árum sem unnið hefur að mikilvægum verkefnum varðandi það að rampa upp Ísland nefndi það í nýlegu viðtali sem tekið var við hann af því tilefni að hann teldi að tækninni fleytti það hratt fram að við raunverulega vissum ekki alveg hvað við værum með í höndunum. Ég held að það sé að mörgu leyti rétt. Þó er það þannig að tækniframfarir eru að mörgu leyti til góðs en ef við náum að höndla tæknina og tryggja að hún skaði ekki er sigurinn unninn. Við eigum að mínu áliti ekki að banna alfarið ákveðna notkun. Við eigum að fara eftir þeim reglum sem fyrirtækin eru að setja og við eigum að setja okkur reglur, fyrir börnin okkar til að fara eftir. Þá erum við fullorðna fólkið fyrirmyndin.

Hér er talað um þverfaglegt samstarf og það er gríðarlega mikilvægt í menntakerfinu. Þverfaglegt samstarf er oft hugsað milli stofnana, milli tveggja skóla eða ráðuneyta, en hér þurfum við samtal á milli fjölskyldu og menntakerfis og samfélags. Fjölskyldan er hornsteinn í samfélagi okkar og það kom ég með, frú forseti, sem innlegg inn í þessa umræðu í gær, hversu mikilvægt er að samveran og samtalið eigi sér stað innan veggja heimilisins. Hér er m.a. lagt til að veita tól og tæki, að veita leiðir til að takast á við vandann þegar hann gerist en ekki síður að beita ofbeldisforvörnum. Forvarnir í þessu tilliti skipta gríðarlega miklu máli, að koma í veg fyrir óæskilega hegðun áður en hún skýtur rótum, áður en hún er komin inn í hópinn sem getur verið svo hættulegt, áður en við erum farin að sjá múgsefjun hjá ungum börnum, að við tökum samtalið og tryggjum að forvarnirnar séu ekki bara innan skólakerfisins heldur einnig innan veggja heimilisins.

Það er enginn skortur á því, frú forseti, að við viljum gera mun betur og ég er sannfærður um að við getum gert það. Hér erum við að leggja lóð á þær vogarskálar. Við þurfum meiri umræðu. Við þurfum, eins og hér kemur fram, að leita gagnrýndra upplýsinga um hvernig við getum tekið á vandanum. Við þurfum að horfa til þeirra rannsókna og þeirra leiða sem gefist hafa vel við að taka á vanda sem þessum. Ég held og leyfi mér að segja að samfélagið okkar sé farið að hlaupa ansi hratt. Þar er ég eflaust engin undantekning þegar kemur að því að vera með mörg járn í eldinum. En börnin okkar eru það mikilvægasta sem við eigum og við þurfum að tryggja velferð þeirra. Það eru þau sem landið erfa og við sjáum gríðarlega stór stökk tekin í því að hlúa að börnum innan menntakerfisins og taka mið af einstaklingsbundnum þörfum þeirra til menntunar. Sama þurfum við að gera varðandi hegðun. Hér hefur komið fram í umræðunni, og var virkilega gott að heyra, hversu mikilvægt er að horfa til mismunandi hópa í þessu tilliti. Við erum íslensk þjóð með alls kyns fjölbreytta hópa innan samfélagsins. Allir eru þessir hópar mikilvægir og lita samfélag okkar fallegum litum. Við þurfum þess vegna að hafa tækin og tólin og við þurfum að hafa forvarnirnar í fyrsta sæti, taka umræðuna, vera upplýst og hræðast ekki.



[15:30]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir þessa mikilvægu þingsályktunartillögu, fyrir ræðuna og þá umræðu sem hefur skapast. Ég tek undir það með hv. þingmönnum, sem hér hafa tekið til máls, að þetta er mikilvægt mál. Þetta er risastórt mál og það er þyngra en tárum taki að horfa á fréttir síðustu daga og sjá þau hryllilega sorglegu áhrif sem aukið ofbeldi og ógnandi hegðun hafa í samfélaginu okkar og það hjá börnum. Nýjasta dæmið var birt í fréttum í gær en við höfum því miður verið að sjá fleiri og fleiri fréttir af slíkri hegðun þar sem samfélagsmiðlar hafa komið við sögu, þar sem verið er að taka upp myndbönd af hrottalegum árásum. Við höfum séð ofboðslega mikla og sorglega afturför í virðingu fyrir hinsegin fólki og hreina fordóma sem hafa birst hjá ungu fólki. Ég held að við sem eldri erum höfum svolítið vaknað upp við vondan draum þar sem við héldum einhvern veginn að þetta væri bara búið og við værum komin á nýjan stað. En augljóslega er verkefnið enn fyrir framan okkur.

Ég ætla að taka undir það að þetta er mikilvæg ályktun og ég held að það sé mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra vinni að viðbrögðum. Við sjáum að skólana vantar greinilega einhver tæki og tól til þess að geta tekist á við þessi vandamál og stutt er að minnast þess sem átti sér stað fyrir utan Menntaskólann í Hamrahlíð þar sem unga fólkið stóð upp og sagði: Hingað og ekki lengra. Það tengdist alvarlegu kynferðisofbeldi innan veggja skólanna og er alveg augljóst af öllu að þar þarf ráðuneytið að stíga inn og aðstoða skólastjórnendur og skólana í þessum málum.

Ég ætla líka að taka undir það, sem hefur komið fram, að þetta er samfélagslegt verkefni. Stóra málið er að við sem samfélag þurfum einhvern veginn að finna leiðir til að hlúa betur að börnunum okkar. Það er rétt að við þurfum að koma til móts við hvert og eitt barn en það þarf heilt þorp til að ala upp barn og við getum ekki varpað allri ábyrgðinni yfir á skólana. Skólarnir þurfa klárlega að fá aðstoð og stuðning. Þeir geta aldrei gert þetta einir og sér. Þá þarf foreldrasamfélagið, við sem samfélag, allt að taka þátt.

Ég segi bara: Til hamingju með þetta. Ég fagna þessu. Ég held að þetta sé mikilvægt mál. Tillagan sem við ræðum hér gerir ráð fyrir að við fáum aðgerðaáætlun eigi síðar en í maí á næsta ári. Ég verð bara að biðja hæstv. ráðherra að hreyfa sig enn hraðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ráðuneytið komi inn. Ég veit að hæstv. ráðherra kom velsældarlögunum í gegnum þingið á síðasta kjörtímabili sem að mörgu leyti tóku einmitt undir að hægt væri að aðstoða og koma til móts við börn sem sýndu hættulega hegðun. En nú erum við að sjá þetta í svo miklu magni og við erum að sjá þetta í hóphegðun eða einhvers konar hjarðhegðun sem er svo ofboðslega sorglegt og eitthvað sem maður átti síður von á. Ég fagna umræðunni, ég hlakka til að taka málið fyrir og fá umsagnir um það í hæstv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hvet hæstv. ráðherra til að leggja allt sitt af mörkum til að vinna með skólasamfélaginu öllu að því að veita skólunum einhverjar frekari bjargir til að takast á við þessi hryllilegu mál sem augljóslega eiga sér stað í íslenskum skólum, því miður.



[15:34]
Birgir Þórarinsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætlaði aðeins að koma örstutt inn í þessa umræðu sem er mjög mikilvæg og ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sérstaklega fyrir þessa mjög svo góðu og þörfu tillögu. Þetta eru orð í tíma töluð, eins og sagt er. Það er að sjálfsögðu mikið áhyggjuefni hvernig ofbeldi barna í grunnskólum færist í aukana og verður sífellt grófara. Það hefur komið í ljós, eins og kemur fram í tillögunni, að kennarar eru jafnvel orðnir óttaslegnir og það er skortur á stuðningi, miðstýrðum stuðningi sem ætti þá að koma frá stjórnvöldum, í því hvernig bregðast eigi við þessum málum. Ég held að slíkur stuðningur sé afar mikilvægur og þess vegna fagna ég mjög þessari tillögu og vona að aðgerðaáætlunin, sem hér er lagt upp með að verði skilað til Alþingis á næsta ári, á vormánuðum, verði það tæki sem hægt er að horfa til til að reyna að sporna við þeirri þróun sem hefur færst í aukana og er mikið áhyggjuefni.

Ég held að það sé mjög nauðsynlegt, og vonandi kemur það fram í þessari aðgerðaáætlun, að foreldrar sleppi kannski ekki alveg hendinni af börnum sínum þegar þau eru komin á unglingsár. Nú er ég kannski ekki að tala um að vera í einhverju eftirliti gagnvart þeim heldur er mikilvægt að foreldrar séu í góðum tengslum við barnið sitt og tali um þessa hluti við barnið, að það sé t.d. ekki eðlilegt að pósta ofbeldi á samfélagsmiðlunum, eins og við höfum séð gerast, að barnið taki alls ekki þátt í slíkri dreifingu. Unglingar eru að beita hvert annað ofbeldi og svo er það efni sett í dreifingu. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem fylgja samfélagsmiðlunum, því miður, þ.e. þetta stafræna ofbeldi sem er náttúrlega samfélagsmein. Þó að margt sé jákvætt við samfélagsmiðlana þá er þetta einn af þeim þáttum sem eru afar neikvæðir, þetta stafræna ofbeldi. Við sjáum líka birtingarmyndir þess að verið er að beita börn einelti á samfélagsmiðlunum. Börn eru að beita hvert annað einelti og það einelti getur líka falist í útilokun á samfélagsmiðlunum. Þetta er allt vandmeðfarið og ég vona að þetta verði allt saman skoðað í þessari vinnu.

Við höfum séð sláandi fréttir um ofbeldi af þessu tagi og þess vegna er þessi tillaga orð í tíma töluð. Það er mikið áhyggjuefni að mínum dómi þegar skólastjórnendur og kennarar eru farnir að upplifa óöryggi í starfi sínu. Það er eitthvað sem við verðum að taka föstum tökum þannig að kennarar óttist ekki að mæta í vinnuna og dragast einhvern veginn inn í ofbeldi af þessu tagi. En það eru kannski fleiri aðilar en skólarnir sem ættu að koma að þessu. Ég held að kirkjan gegni töluvert mikilvægu hlutverki í því að fræða börnin um þessa hluti. Fermingarfræðsla er sem dæmi mjög vel sótt og þar er tækifæri. Börnin eru á góðum aldri, þau eru á þeim aldri að meðtaka vel þessa hluti. Að ræða þessa hluti þar — ég held að það sé vettvangur sem við ættum að horfa til. Kirkjan hefur gert margt gott í barna- og unglingastarfinu og einmitt talað út frá náungakærleikanum, að ofbeldisfull hegðun af þessu tagi sé ekki liðin. Slík hegðun nær margfaldri útbreiðslu með samfélagsmiðlum sem gerir það að verkum að fleiri þátttakendur verða í ofbeldinu. Það er verið að pósta þessu og dreifa um allt netið þannig að áhrifin verða margföld. Þetta er eitthvað sem þarf sannarlega að fara vandlega yfir.

Það má líka ræða notkun snjallsíma í skólum og annað slíkt. Farið er að bera á því að skólastjórnendur séu farnir að takmarka notkun á snjalltækjum í skólum. Mér finnst það vera af hinu góða. Ég held að það sé eitthvað sem við ættum líka að skoða, hvort ekki ætti að vera eitthvert samræmt regluverk í grunnskólum um notkun á snjallsímum. Mér finnst að það gæti verið eitthvað sem hægt væri að horfa til í þeirri vinnu sem er fram undan og yrði kannski hluti af þessari verkáætlun. Ég er ekki sérfræðingur á þessum sviðum en maður veit hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig á þessum aldri. Flestöll börn eiga þessa síma og eru mikið að nota þá og það er eitthvað sem við þurfum líka að horfa til að mínum dómi. Uppsprettan og hugmyndirnar koma líka frá ofbeldismyndböndum og öðru slíku sem krakkarnir eru að horfa á. Það hefur áhrif á þau og getur síðan verið birtingarmynd þess ofbeldis sem við höfum séð.

Frú forseti. Að þessu sögðu vil ég enn og aftur þakka fyrir þessa tillögu. Ég vona að hún fái góða umfjöllun og að þeir sem best til þekkja í þessum málaflokki verði kallaðir til þannig að hægt sé að leggja þessa aðgerðaáætlun fram sem er svo sannarlega tímabær. Ég vona að okkur takist að vinna bug á þessu vandamáli sem er því miður vaxandi, þ.e. þegar ungmenni eru að beita hvert annað ofbeldi á netinu, á samfélagsmiðlunum. Þetta er vandamál sem er vaxandi og við verðum að bregðast við. Þess vegna fagna ég mjög þessari tillögu.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.