153. löggjafarþing — 21. fundur
 20. október 2022.
lyfjalög, 1. umræða.
frv. BGuðm o.fl., 353. mál (lausasölulyf). — Þskj. 366.

[16:59]
Flm. (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Leyfist mér að fá hausverk um helgar? Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lyfjalögum, nr. 100/2020, sem miðar að því að bæta aðgengi landsmanna að lausasölulyfjum. Það er mjög ánægjulegt að fá að mæla nú fyrir fyrsta lagafrumvarpi mínu hér á þingi sem er auðvitað frelsismál. Meðflutningsmenn mínir á máli þessu eru þau Gísli Ólafsson, Hanna Katrín Friðriksson, Diljá Mist Einarsdóttir og Óli Björn Kárason.

Hér er um að ræða breytingu á 3. mgr. 33. gr. lyfjalaga en núgildandi málsgrein hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lyfjastofnun er heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. mgr. til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun. Slíkar undanþágur má aðeins veita þar sem ekki er starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú. Lyfjastofnun skal birta lista á vef sínum yfir þau lyf, styrkleika og pakkningar sem heimilt er að selja samkvæmt ákvæði þessarar málsgreinar.“

Breytingin í þessu frumvarpi miðar að því að 2. málsliður 33. gr. falli brott þannig að afnumið verði það skilyrði að undanþágur megi aðeins veita þar sem ekki er starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú, sem sagt heimila sölu lausasölulyfja í almennum verslunum. Með nýju lyfjalögunum sem tóku gildi 1. janúar 2021 var Lyfjastofnun veitt heimild til að veita undanþágu frá ákvæði 1. mgr. 33. gr. þar sem kveðið er á um að einungis sé heimilt að selja almenningi lyf á grundvelli lyfsöluleyfis. Heimildin kveður á um að Lyfjastofnun geti veitt undanþágu til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennri verslun en slíka undanþágu megi aðeins veita þar sem ekki sé starfrækt lyfjabúð eða lyfjaútibú. Þannig er í raun í mjög litlum mæli heimilt að selja lausasölulyf utan apóteka. Þetta hefur maður aldrei skilið. Við erum með lyfseðilsskyld lyf sem eðli málsins samkvæmt krefjast þess að viss umgjörð sé utan um þau. Það þarf sérstaka heimild til að fá að kaupa þau. Svo erum við hins vegar með lyf sem ekki eru ávísunarskyld og eru opin öllum til kaupa. Því er þá þessi þröngi rammi settur utan um aðgengi fólks að þeim? Auðvitað á það ekki að skipta máli hver selur þessar nauðsynlegu vöru, miklu frekar eigum við að setja í kjölfarið eðlilegar kröfur á þann sem selur vöruna en ekki á hver það er. Með því að víkka út undanþáguheimild til að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum væri með tiltölulega einföldum hætti hægt að koma betur til móts við þarfir neytenda, auka aðgengi, auka samkeppni og lækka verð á tilteknum lausasölulyfjum sem Lyfjastofnun hefur þegar heimilað tilteknum almennum verslunum að selja hér á landi.

Ef við snúum okkur að undanþágunni og framkvæmd hennar hefur Lyfjastofnun skilgreint að til þess að heimilt sé að selja þessi lausasölulyf í almennri verslun þurfi að vera a.m.k. 20 km í næsta apótek eða lyfjaútibú. Það er óvíst hvernig þetta viðmið varð til eða a.m.k. fann ég ekki neinar upplýsingar þar um. Aðrar upplýsingar er að finna á heimasíðu Lyfjastofnunar og þar stendur að um gróft viðmið sé að ræða sem hægt sé að víkja frá, t.d. með tilliti til veðuraðstæðna, sem er mjög áhugavert. Þá hefur að sama skapi Lyfjastofnun skilgreint almenna verslun sem allar aðrar verslanir en þær sem selja lyf á grundvelli lyfsöluleyfis, sem sagt bara venjulegar búðir. Lyfjastofnun hefur sett fram fínar leiðbeiningar til handa þeim verslunum sem hafa fengið þessa heimild til sölu lausasölulyfja. Leiðbeiningarnar innihalda skýran ramma um meðferð og móttöku, innkaup lyfja, tiltekin afgreiðsluskilyrði við sölu þeirra, þjálfun starfsfólks og svo mætti lengi telja. Ekki mun þetta frumvarp slá af neinar kröfur um öryggi lyfja og það er mjög mikilvægt að halda því hér til haga.

Þegar frumvarp þetta er lagt fram eru 13 almennar verslanir með heimild til sölu á tilteknum lausasölulyfjum dreift um allt land. Það eina sem gerir þessar verslanir frábrugðnar öðrum almennum verslunum er hversu langt er í næsta apótek eða lyfjaútibú. Það er mikilvægt að halda því til haga að aðrar verslanir sem eru innan fjarlægðarmarka frá apótekum hljóta ekki síður að vera færar um að tryggja rétta meðferð, gæði og öryggi lyfja. Rökin fyrir því að veita aðeins almennum verslunum undanþágu sem uppfylla þetta 20 km skilyrði frá apóteki halda illa vatni. Með aukinni samkeppni í sölu á lausasölulyfjum má halda því fram að þjónustan batni og verð á þessum tilteknu lausasölulyfjum lækki. Undir það sjónarmið er tekið í skýrslu Norrænu samkeppniseftirlitanna um netverslun lyfja og sölu lyfja í lausasölu utan apóteka á Norðurlöndunum sem birt var 31. maí 2001. Hún er aðgengileg á heimasíðu Samkeppniseftirlitsins. Þar segir m.a., með leyfi forseta: „Með því að auka frelsi til sölu lausasölulyfja í almennum verslunum myndi þjónusta við almenning batna og samkeppni í sölu umræddra lyfja aukast.“

Þessi breyting á lyfjalögum getur því skipt sköpum fyrir rekstur almennra verslana, ekki síst fyrir smærri verslanir í smærri byggðarlögum. Afgreiðslutími apóteka er mjög misjafn eftir stærð byggðarlaga og taka afgreiðslutímar ekkert endilega tillit til þess hvenær einstaklingur fær t.d. frjókornaofnæmi, höfuðverk eða timburmenn.

Forseti. Þetta litla skref myndi færa fyrirkomulag lyfsölu einu skrefi nær því sem gengur og gerist á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Núverandi undanþáguheimild í lyfjalögum hefur gefið góða raun og rök til að hefta þessa undanþágu við fjarlægðartakmörk frá næsta apóteki eru vart haldbær. Í greinargerð með frumvarpinu er að finna samantekt um fyrirkomulag sölu á lausasölulyfjum í Norðurlöndunum. Sala á lausasölulyfjum er leyfð í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og þá er sala á nikótínlyfjum leyfð án takmarkana í Finnlandi. Í Svíþjóð er heimilt að selja ólyfseðilsskyld lyf í meiri mæli utan lyfjaverslana. Slíkt hefur leitt til verðsamkeppni á þeim lyfjum í Svíþjóð sem leitt hefur til betra aðgengis og lægra verðs til neytenda. Sölu lyfjanna fylgja afgreiðsluskilyrði en eins og ég rakti hér áðan hefur Lyfjastofnun þá þegar sett leiðbeiningar um slík afgreiðsluskilyrði sem er gert til að tryggja öryggi lyfjanna og þeirra sem þeirra neyta.

Virðulegi forseti. Markmið með því að afnema skilyrði í lyfjalögum er að bæta aðgengi landsmanna allra að lausasölulyfjum og tryggja framboð nauðsynlegra lyfja og ekki síst skiptir þetta atriði máli fyrir íbúa dreifðari byggða. Þessi breyting rímar alveg ágætlega við markmið núgildandi lyfjalaga um að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með öryggi sjúklinga að leiðarljósi og með sem hagkvæmastri dreifingu lyfja á grundvelli eðlilegrar samkeppni.

Ég legg til að málið gangi að lokinni 1. umr. til hv. velferðarnefndar.



[17:07]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætlaði nú ekkert að hafa mörg orð um þetta mál en kem hér upp til að lýsa yfir miklum stuðningi við það og fagna því sem hér er verið að leggja til og vil þakka hv. þm. Berglind Rós Guðmundsdóttur fyrir að flytja þetta mál og koma því hingað áleiðis inn í þingsalinn og vekja máls á þessu. Það gæti virst svona við fyrstu sýn að þetta sé ekkert sérstaklega veigamikið mál, hafi ekkert endilega áhrif á eitthvað rosalega marga, en rétt eins og hv. þingmaður sagði er þetta samkeppnismál, þetta er neytendamál, bætir aðgengi fólks að vöru sem það sannarlega þarf á að halda á einhverjum tilteknum tíma og þetta fellir niður ákveðnar girðingar og forræðishyggju sem við sjáum oft í íslenskri löggjöf, illu heilli. Það er yfirleitt hugsun sem er sett inn í lög með góðum fyrirheitum og góður ásetningur að baki. En ég vil nú meina að hugsunin á bak við þetta fyrirkomulag, sem er þá verið að afnema með þessari lagabreytingu sem hér er lögð til, sé skökk á alla kanta. Hv. þingmaður fór reyndar ágætlega yfir þetta og greinargerðin er sömuleiðis mjög vönduð og rökstyður vel af hverju við eigum að breyta þessu fyrirkomulagi. Þarna má t.d. má spyrja: Af hverju má verslun til að mynda selja stíflueyði, alls kyns ætandi efni, hvers kyns óhollustu; tóbak með skilyrðum og jafnvel hina stórhættulegu nikótínpúða, en ekki lausasölulyf að uppfylltum ákveðnum skilyrðum? Þetta er bara spurning um að treysta fólki sem rekur fyrirtæki og þetta er líka spurning um að treysta neytendum, að þeir kunni með hluti að fara. Mér finnst þetta vera gamaldags forræðishyggja og það er ekkert sem segir að verslunum sem eru fjær lyfjaverslunum eða apótekum sé betur treystandi en þeim sem eru nær lyfjaverslunum, að þær fari varlegar með íbúfen og frjókornaofnæmistöflur, svo dæmi sé tekið, og vitna ég nú aðeins í ræðu hv. þingmanns.

Svo er líka áhugavert að velta fyrir sér af hverju þessi fjarlægðarmörk eru 20 km. Það setjast einhverjir einstaklingar niður og ákveða hvernig er best að gera þetta: Er ekki bara fínt að hafa þetta 20 km? Af hverju ekki 15 km? Af hverju ekki 25 eða 40 eða jafnvel tíu? En þetta skiptir í raun og veru máli vegna þess að eins og kemur fram í greinargerðinni og kom fram í máli hv. þingmanns hér á undan mér er þarna um að ræða fjarlægðarmörk sem skilur á milli þess hversu góða samkeppnisstöðu fyrirtæki sem eru að keppa sín á milli búa í raun við. Fyrir utan nú bara það að markmið okkar með regluverki hér á Alþingi, ekki síst þegar kemur að svona málum, hlýtur að vera að auðvelda fólki að komast í þá vöru sem er um að ræða og búa þá til skilyrði þannig að þær séu t.d. ekki aðgengilegar börnum eða ekki sýnilegar í búðum eða hvernig við gerum það. Að setja þetta inn í einhverja kílómetra finnst mér ekki sniðugt. Þannig að út frá öllum eðlilegum samkeppnissjónarmiðum, og mér finnst þau skipta mjög miklu máli þó að við séum að tala um lausasölulyf, þá er verið að gera samkeppnisstöðu fyrirtækja skakka með svona reglum. Mér finnst þetta bara að vera óþarfi og það er betra fyrir fólk, auðveldara fyrir neytendur að hafa þetta með því fyrirkomulagi sem lagt er til í þessu máli og ég fagna því framlagningu þess.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.