153. löggjafarþing — 24. fundur
 27. október 2022.
skuldbindingar ríkisins vegna ÍL-sjóðs.

[10:58]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Eftir lokun markaða á fimmtudag hélt hæstv. fjármálaráðherra blaðamannafund þar sem hann kynnti að Íbúðalánasjóður færi að óbreyttu í þrot eftir 12 ár. Þá myndi reyna á ríkisábyrgð. Samkvæmt þessu liggur reyndar líka fyrir að næstu 12 árin á sjóðurinn fyrir skuldbindingum sínum. Á sama fundi kynnti fjármálaráðherra hugmynd sem hann sagði geta sparað, og ég held að það sé ástæða til að setja það í gæsalappir, „sparað“, ríkissjóði gríðarlegar fjárhæðir en þar mátti samt líka að heyra að væntanlegt fjártjón ríkissjóðs í dag væri um 47 milljarðar. Hvar lá þá eiginlega sparnaðurinn? Jú, honum átti að ná fram með því að ná samkomulagi við lánardrottna og með því að breyta líftíma bréfanna í sjóðnum. Þetta eru lífeyrissjóðirnir að stærstum hluta, með öðrum orðum almenningur. Sparnaðurinn liggur í því gamla lögmáli að aðrir eiga að taka reikninginn fyrir klúðrið við Íbúðalánasjóð. Undir er sparnaður almennings í landinu, ekki síst eldri borgara. Eigendur bréfanna eru reyndar líka ýmis almannaheillafélög, góðgerðarfélög sem byggja rekstrargrundvöll sinn einmitt á öruggum fjárfestingum með ríkisábyrgð. Framsetning skiptir máli. Í kynningu hæstv. fjármálaráðherra kom fram bein hótun hans um að ef eigendur bréfanna ganga ekki til samninga við fjármálaráðherra þá muni hann beita lagasetningu til að setja sjóðinn í þrot. Þá er stóra spurningin: Í hvaða samningsstöðu eru menn í viðræðum sem hefjast með hótun af hálfu ríkisstjórnar Íslands? Spurning mín er þessi: Styður hæstv. forsætisráðherra þá hugmynd að fara með þessum hætti inn í sparnað almennings, t.d. eldri borgara, og hugnast forsætisráðherra þessi aðferðafræði, að hefja samningaviðræður með beinum hótunum af hálfu ríkisstjórnar Íslands?



[11:00]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og ég get sagt það hér að þetta er vissulega stórt mál. En ég furða mig líka á því að mér hefur fundist umræðan nánast snúast um að við eigum bara að hafa þetta áfram ofan í einhverri skúffu og ekki hugsa um þetta núna. Þeirri hugsun er ég algerlega ósammála. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við opnum þessa skúffu. Þetta er uppsafnaður fjárhagsvandi og það er engin ein góð lausn í þessu máli. Ég held að við hv. þingmenn hljótum að vera sammála um það.

Málið snýst um það að þarna eru annars vegar kröfuhafar, eigendur skuldabréfa, eða hvað við kjósum að kalla þá, lífeyrissjóðir eru stærsti hlutinn, líka verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir, tryggingafélög og einstaklingar. Þetta er fjölbreyttur hópur sem hefur fært sínar eignir með mismunandi hætti, ýmist á stofnvirði eða markaðsvirði, sem hefur áhrif á hvernig mögulegt uppgjör kæmi út. Samkvæmt ársreikningareglum er lífeyrissjóðum til að mynda heimilt að gera þessi skuldabréf upp með tvennum hætti. Það er auðvitað í höndum lífeyrissjóðanna sjálfra að ákvarða hvaða leið er farin í því. Þeir sem hafa gert bréfin upp á kaupkröfu verða þá væntanlega fyrir mun minni áhrifum en þeir sem hafa gert það á markaðsverði. Þessi staða er því mjög mismunandi milli þeirra sem eiga hagsmuna að gæta. Mér finnst hins vegar ekki hægt að horfa fram hjá því að ef við gerum ekkert í þessu máli þá erum við að velta vandanum inn í framtíðina. Ég vil líka segja að ég lít ekki á þetta sem hótun. Ég lít einfaldlega á það sem hefur verið sett fram í þessum efnum, þ.e. að við eigum nokkra valkosti og enginn þeirra er góður, eins og svo oft er þegar við tökumst á við flókin úrlausnarefni. Hér hefur verið rætt að það sé æskilegt að við getum hafið samtal við eigendur bréfanna um að ná mögulega einhverju samkomulagi. Það fyndist mér eðlilegt fyrsta skref í þessum málum. (Forseti hringir.) En ég hef líka lagt á það áherslu, eins og kom fram í fyrra svari, að Alþingi Íslendinga fái tækifæri til að fara ofan í málið á viðeigandi vettvangi.



[11:03]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Hér heyrast engin svör um afstöðu Vinstri grænna til þess hvernig eigi að leysa málið. Mistökin sem eru rót þessa ævintýralega tjóns Íbúðalánasjóðs eru eitt, og þau eru rækilega staðfest í skýrslu rannsóknarnefndar. Tveir flokkar eiga þetta klúður skuldlaust, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, en eins og venjulega er það forsætisráðherra sem situr uppi með höfuðverkinn og hún er ekki öfundsverð af því. Það er enginn hér inni, hvorki í gær né í dag, að tala fyrir því að ekkert eigi að gera heldur hvernig eigi að leysa málið. Ég hef engar skýringar heyrt á því hvers vegna ekki var hægt að hefja samtal við samningsaðila án þess að blása fyrst í herlúðra, án þess að beita hótunum, án þess að stilla upp við vegg. Fjármálaráðherra hefur látið vinna lögfræðiálit. Þar er niðurstaðan sú að þessi aðferð sé heimil vegna þess að þetta hafi áður verið gert með neyðarlögum í hruninu. Það er vísað í þær aðstæður, þannig að ég spyr forsætisráðherra: Tekur hún undir það að þær aðstæður séu uppi í dag? (Forseti hringir.) Það væru sennilega stærstu fréttirnar í dag ef svo væri.



[11:04]
forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Í fyrsta lagi segir hv. þingmaður að afstaða mín sé ekki skýr. Jú, hún er algerlega skýr. (Gripið fram í.) Það á að segja frá þessu máli skýrt og greinilega, eins og gert hefur verið, það á ekki að fela það undir einhverjum stól, (Gripið fram í.) það kemur ekki til greina, af því að þetta eru almannahagsmunir sem hér eru undir. Hv. þingmaður er nú í flokki sem kennir sig við almannahagsmuni. Þá skulum við ræða um hagsmuni komandi kynslóða sem munu bera þennan reikning ef ekkert er að gert.

Þá segi ég: Eðlilegt fyrsta skref er að eiga þetta samtal við eigendur skuldabréfanna. Það er mín skýra afstaða. Ég tel, eins og kom fram í fyrra svari, að hagsmunir skattgreiðenda og lífeyrisþega geti farið saman, því að við skulum ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir hafa ákveðin tækifæri til þess þá að ávaxta sitt fé með öðrum hætti. Innbyrðis aðstæður þeirra eru mjög ólíkar, eins og fram kom í fyrra svari líka, vegna þess að þær eru færðar með ólíkum hætti.

Ég ætla að segja það líka hér að ég held að það skipti máli, og þess vegna var þetta mál lagt fram sem skýrsla, að við getum einmitt átt þetta samtal um það hvaða leiðir eru skýrar. Ég kalla þá eftir því hvaða leið flokkur hv. þingmanns vill fara í þessum málum. (Forseti hringir.) Vill hún ekki hefja þetta á því (Gripið fram í.) að fara í samtal við kröfuhafana, sem er það sem við erum að gera og er okkar skýra afstaða? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)



[11:05]
Forseti (Líneik Anna Sævarsdóttir):

Forseti vill minna á að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn sem standa í ræðustól hafa orðið í þingsalnum.