153. löggjafarþing — 24. fundur
 27. október 2022.
samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki, fyrri umræða.
þáltill. ÞKG o.fl., 131. mál. — Þskj. 131.

[16:51]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli aftur fyrir þingsályktunartillögu um að fram fari heildstæð úttekt á áhrifum laga og reglna á virka samkeppni. Þetta er að mínu mati gríðarlega mikilvægt mál. Að lesa þetta getur verið eins og þetta sé svolítið flókið, sem það er ekki. Þetta er mjög einfalt og felur í sér að við munum gera úttekt á helstu lögum og reglum hér heima í þágu neytenda og í þágu samkeppni sem er okkur gríðarlega mikilvæg.

Virk samkeppni skiptir öllu máli fyrir íslenskan almenning og velferð þjóðarinnar. Hún hefur reynst okkur vel á þeim sviðum sem hún hefur fengið að njóta sín á meðan samkeppnisskorturinn hefur reynst okkur þungbær. Það eru einmitt neikvæðu áhrifin sem við finnum svo vel fyrir í dag því að kostnaðurinn sem fylgir samkeppnisskortinum bætist ofan á þunga byrði verðbólgunnar. Heimilisbókhaldið hefði gott af aukinni samkeppni. Samkeppnisskortur er okkur alltaf í óhag. Virk og heilbrigð samkeppni skilar sér aftur á móti beint til neytenda með miklum árangri. Þegar samkeppni ríkir er tryggt að neytendum bjóðast vörur og þjónusta á bestu kjörum, enda er ekki hjá því komist þegar fyrirtækin keppa um stuðning neytenda, eru sífellt að leita leiða til að hámarka framleiðni og bjóða um leið viðskiptavinum hagstæðara verð. Slík fyrirtæki taka verðmyndun af markaði og geta því síður velt kostnaðarhækkunum út í verðlag, eins og við erum að upplifa núna með þau fyrirtæki sem eru undanþegin samkeppnislögum, en þau eiga hægara um vik að velta hækkunum út í verðlagið. Fyrirtæki sem eru í samkeppni bregðast fremur við með hagræðingu og umbótum í rekstri. Sömuleiðis tryggir samkeppni að betri þjónusta fæst enda hafa neytendur ávallt val um annað, þau hafa valfrelsi. Enn fremur stuðlar öflugt og gott samkeppnisumhverfi að auknum hagvexti. Fjöldi rannsókna hefur sýnt að atvinnugreinar sem búa við meiri samkeppni uppskera meiri vöxt í framleiðni. Þegar allt kemur til alls dregur samkeppni úr hvatanum til sóunar og stuðlar að bættum rekstri fyrirtækja. Samkeppnin sjálf skapar líka aukinn hvata til nýsköpunar. Það er reyndar jafnt neytendum sem framleiðendum í hag. Samkeppni á innlendum markaði skiptir öllu máli fyrir íslenskan almenning og allt samfélagið í heild sinni. Þá er samkeppnisaðhaldið að utan oftast besta tryggingin vegna áhrifa þess á innlendan samkeppnismarkað. Að sama skapi héldi það aftur af verðhækkunum og verðbólguþrýstingi ef auðveldara yrði fyrir íslenska neytendur að stunda viðskipti við erlenda aðila. Þess vegna skiptir miklu máli að létta undir með neytendum og draga úr viðskiptahindrunum þar.

Virðulegi forseti. Ávinningurinn er augljós. Hér á landi má þó finna fjölda samkeppnishindrana í löggjöf og regluverki og fjölmargir markaðir á Íslandi eru bundnir verulegum samkeppnishömlunum. Kostnaðurinn blasir við á mörgum sviðum og hann snertir okkur öll, t.d. á fjármála- og tryggingamarkaði, líka þegar við tökum eldsneyti, verslum í kvöldmatinn eða förum til læknis og svo mætti áfram telja. Samkeppnishamlandi regluverk er allt of víða. Hátt verð á nauðsynjavörum hefur líka leikið okkur grátt allt of lengi. Þær landbúnaðarvörur á matvörumarkaði sem ekki falla undir samkeppnisreglur hafa t.d. dregið lestina þegar kemur að hækkunum. Að vísu er, og við skulum draga það fram, hátt vöruverð líka til marks um mikinn kaupmátt hér á Íslandi en aðrar skýringar liggja líka að baki. Þar vegur samkeppnisskorturinn þyngst. Svo má vísa til smæðar íslenska hagkerfisins og gengissveiflna íslensku krónunnar sem grafa síðan enn frekar undan virkri samkeppni.

Viðhorf ríkisstjórnarinnar gagnvart neytendum birtist okkur líka skýrt þegar ráðherra samkeppnismála skipaði starfshóp um samkeppnis- og neytendamál án þess að skipa fulltrúa neytenda. Það má draga það fram að þegar við erum búin að upplifa fimm ár af þessari ríkisstjórn þá finnst mér hún afleit fyrir neytendur, eiginlega bara alveg ómöguleg, virðulegi forseti. Hverju tækifærinu á fætur öðru er í rauninni glutrað niður með gamaldags nálgunum, gamaldags ákvörðunum, en ég fer aðeins yfir það hér á eftir. Ég vil líka nefna dæmi um það hvernig ríkið sniðgengur útboðsreglur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og er svo dæmt til að greiða milljónir í skaðabætur.

Það eitt hvernig þessi ríkisstjórn hefur í fimm ár umgengist heilbrigðiskerfið er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig en líka hvernig viðhorf ríkisstjórnarinnar hefur birst þegar kemur að því að nýta samkeppnina, nýta sjálfstætt starfandi aðila — til að ýta undir hvað? Ýta undir betri þjónustu innan heilbrigðis- og velferðargeirans. Þar skortir líka alla vitund um að valfrelsi og samkeppni skipti máli fyrir velferð þegnanna hér á landi. En hvað gerir ríkið? Það sniðgengur útboðsreglur í heilbrigðis- og velferðarþjónustu og er síðan krafið um milljónir í skaðabætur eins og dæmin sanna. Við höfum bara konkret dæmi um þetta. Þá unir ríkið því ekki og fer í staðinn í málaferli við einkaaðila, væntanlega til þess að geta sniðgengið útboðsreglurnar, sniðgengið samkeppni. Vegna þessa sinnuleysis og rangrar forgangsröðunar stjórnvalda fer heilbrigðiskerfið og samfélagið á mis við samkeppnina og þann samfélagslega ávinning sem af henni hlýst.

Auðvitað er heldur enginn áhugi hjá stjórnvöldum að ræða vaxtamuninn í fjármálaþjónustu og áhrif gengisbreytinga á íslenskt atvinnulíf og almenning. Reyndar er það svo að mesta fákeppnin er á þeim sviðum. Ef við skoðum EES-samninginn þá er mesta fákeppnin hér á Íslandi og minnsta samkeppnin á þeim sviðum sem EES-samningurinn nær ekki yfir. Ég vil líka draga það fram að Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á samkeppnisskortinn í landbúnaði og víðar, sömuleiðis á bankamarkaði. Það sama kom fram í Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Þetta breytist ekki nema gerðar séu grundvallarbreytingar. Þessi fákeppnisstaða hér á landi er helsta ástæða þess að hér er dýrasta bankaþjónusta í Evrópu og þessi kostnaður birtist m.a. í rándýrri greiðslumiðlun og háum lántökukostnaði sem landsmenn þekkja allt of vel. Vaxtastigið hér er líka að jafnaði um fimm prósentustigum hærra en í nágrannalöndum okkar. Auðvitað er þetta enn eitt dæmið um kostnaðinn við krónuna. Alþjóðleg fjármála- og tryggingafyrirtæki vilja síður hefja starfsemi á Íslandi vegna krónunnar og þannig eru upptaka stöðugri gjaldmiðils ein skynsamlegasta leiðin til þess að auka samkeppni á þessum sviðum. Þetta er risaþáttur í þeim stríðskostnaði sem íslenska krónan ber, m.a. á sviði banka- og fjármálastarfsemi, kostnaði sem er stór partur af þungum bagga sem heimilin og ekki síst litlu fyrirtækin þurfa að bera hér á landi.

Virðulegi forseti. Kostir virkrar samkeppni eru því margir. Hún gagnast öllu samfélaginu í heild og bætir hag almennings. Hún tryggir aukið vöruframboð, aukið valfrelsi og betri þjónustu á meðan neytendum býðst einnig lægra verð. Samkeppni stuðlar að umbótum í rekstri og skapar aukinn hvata fyrir nýsköpun. Ábatinn er augljós og sérstaklega mikilvægur á tímum hárrar verðbólgu fyrir neytendur jafnt sem framleiðendur, en verðbólgan ýtir líka undir frekari samþjöppun og skaðar samkeppnismarkaðinn til lengri tíma litið. Þess vegna er mikilvægt að bæta ekki á vandann með samkeppnishindrunum og öðrum aðgerðum sem grafa undan samkeppni. Þessi ríkisstjórnin hefur hins vegar sýnt að hún er enginn verndari virkrar samkeppni. Miklu frekar finnst mér hún veita fákeppninni skjól miðað við viðhorfið þar, það birtist bara síðast í gær. Af mörgum stórum skrefum sem þarf að taka þá er augljóst að auðveldasta skrefið er að framkvæma samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki eins og er lagt til með þessu þingmáli okkar. Það myndi gagnast frekari umræðu og öllum aðgerðum í þágu neytenda og aukinnar samkeppni hér á landi.

Við flutningsmenn teljum framangreint gefa tilefni til að fram fari heildstæð úttekt á áhrifum laga og reglna á virka samkeppni. Við mælum með því að forsætisráðherra verði falin yfirumsjón með slíkri úttekt og að leitað verði samstarfs við Efnahags- og framfarastofnunina, OECD. Úttektina megi vinna í áföngum en henni verði lokið að fullu fyrir 1. júní 2024. Nánari útfærsla yrði í höndum ráðherra.

Það er ekki hægt að láta þetta tækifæri hjá líða að standa hér og mæla fyrir þingsályktunartillögu sem snertir samkeppni, þegar við horfum á það hvernig þessi ríkisstjórn hefur hagað sér þegar kemur að samkeppnismálum. Ég hef nefnt það þegar hæstv. menningar- og viðskiptaráðherra, sem fer með ábyrgð á samkeppnismálum, skipaði starfshóp um það hvernig ætti að endurskoða stofnanaumhverfi samkeppnis- og neytendamála, en þá var enginn fulltrúi af hálfu neytenda skipaður í þann starfshóp. Þetta er lítið dæmi en mikilvægt og stórt þegar upp er staðið um það hvernig viðhorfin eru hjá ríkisstjórninni. Það sama gildir um það þegar við horfum til að mynda á niðurstöðu spretthópsins sem var skipaður af hálfu ríkisstjórnarinnar undir forystu fyrrverandi forseta þingsins, sem er auðvitað mætur maður og flinkur og kann margt fyrir sér. Þau viðhorf sem birtast þar og verða síðan að tillögum ríkisstjórnarinnar — þar er verið að taka upp frumvarp hv. þingmanns Framsóknarflokksins um að veita megi undanþágu til að veita kjötvinnslum og afurðastöðvum heimild til að fara í mikla samvinnu. Það er sem sagt verið að bæta við undanþágum frá samkeppnisreglum. Mér finnst þetta vond leið. Þetta er vond leið, eins og ég hef áður farið yfir fyrr á þessu þingi, því að það hefur sýnt sig að hún er ekki í þágu neytenda. Þessar heimildir eru til staðar í núverandi samkeppnislögum og Samkeppniseftirlitið hefur einmitt beitt þessum heimildum. Það veitti t.d. heimild til að Kjarnafæði og Norðlenska fengju að sameinast að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og skilyrðin voru í þágu bænda. Þar var verið að varðveita valfrelsi bænda. Samkeppniseftirlitið stóð mjög skýrt með bændum þegar kom að þeim samruna. Það var uppfyllt núna með þeim ákvæðum sem Samkeppniseftirlitið setti fram og síðan hitt, að það var hægt að sýna fram á að sá samruni var líka í þágu neytenda. Þetta er ósköp einfalt. Það þarf að sýna fram á það ef fyrirtæki sameinast, hvort sem er í landbúnaði eða einhvers staðar annars staðar, að þau vinni í þágu neytenda. Nákvæmlega það sama var gert með þessu klassíska dæmi um að olíufélögin fengu heimild frá Samkeppniseftirlitinu á sínum tíma til að fara í samvinnu varðandi innkaup á olíu af því að þau gátu sýnt fram á að slík samvinna leiddi á endanum til þess að verðið til neytenda varð hagfelldara og umhverfið þeim meira í hag heldur en það var fyrir. Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara, svo lengi sem menn fara eftir því sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um og bendir á.

Ég verð að segja að mér brá svolítið í gær í umræðunni hér í þinginu þegar einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins afgreiddi aðkomu Samkeppniseftirlitsins þegar það skoðaði kaupin á Mílu þannig að það hefði verið hægagangur og það hefði seinkað og á endanum kostað lífeyrissjóðina 6 milljarða af því að verðið lækkaði. Það var líka frétt í gær um að þessi miklu kaup stuðluðu að því að meira yrði að gera á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þetta voru mjög skynsamleg kaup. Mér fannst ríkisstjórnin ekki standa sig þegar kom að þjóðaröryggi en það er önnur saga, það er búið að fara yfir það. En svo að við höldum okkur við þetta: Þingmaður Sjálfstæðisflokksins fann að því að Samkeppniseftirlitið hefði farið yfir þessi kaup og komið fram með ákveðnar athugasemdir og ábendingar um hvernig þessi kaup gætu líka orðið neytendum til hagsbóta. Þessir 6 milljarðar eru því ekki eitthvað sem fyrrverandi eigendur Símans misstu af heldur eru þetta miklu frekar 6 milljarðar sem neytendur hefðu ellegar verið snuðaðir um. Mér finnst það alvarlegt þegar forystufólk í Sjálfstæðisflokknum kemur hingað ítrekað með það að markmiði að grafa undan Samkeppniseftirlitinu. Með þessu er ég ekki að segja að ekki eigi að gagnrýna Samkeppniseftirlitið. Ég hef margoft sagt að margt megi betur fara, eins og til að mynda leiðsagnar- og leiðbeiningarhlutverk Samkeppniseftirlitsins, það má hraða málsmeðferð o.s.frv., en við skulum líka hafa í huga að það hafa ekki endilega alltaf fjárframlög alltaf fylgt til eftirlitsins.

Samkeppni er lykilatriði fyrir okkur Íslendinga, lykilatriði fyrir neytendur og lykilatriði líka fyrir framleiðendur sem vilja byggja á nýsköpun, sækja fram þannig að við byggjum hér upp samfélag sem verður fjölbreytt og verður ekki samfélag fákeppni heldur samfélag fjölbreytni og samkeppni. Það er okkur öllum í hag. Merkin sem ríkisstjórnin sendir og ríkisstjórnarflokkarnir allir þrír, mér finnast þau ekki góð. Þess vegna þarf að vera vel vakandi og við þurfum að fá yfirsýn yfir það hvernig lög og reglur þjóna neytendum og samkeppni hér á landi. Þess vegna leggjum við flutningsmenn til að við biðjum OECD að fara yfir þetta regluverk (Forseti hringir.) þannig að við getum farið inn í umræðuna og farið í aðgerðir (Forseti hringir.) sem nýtast ekki síst neytendum hér á Íslandi.



[17:07]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir hennar framsögu. Ég get tekið undir margt eða flest sem hv. þingmaður og 1. flutningsmaður þessarar ágætu tillögu sagði hér. Ég átta mig á því hvað flutningsmenn eru að reyna að gera og ég styð markmiðið sem hér er sett. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort flutningsmenn hafi ekki velt því fyrir sér hvort það þyrfti ekki — og þá væri það hlutverk nefndar þegar málið gengur til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ef ég fer rétt með, það gæti verið önnur nefnd en látum það liggja á milli hluta — hvort þessi tillaga sé ekki fullþröng. Í fyrsta lagi hefði ég haldið að það ætti að víkka þetta út og ekki síst beina augum að, eins og hv. þingmaður kom að í framsöguræðu sinni, hinni virku samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustu. Þar erum við algerlega samstiga. Hvort það eigi ekki að láta fylgja — það gæti verið einn af áföngum í þessari úttekt sem ég held að sé nauðsynlegt að gera, að horfa sérstaklega til þess hvernig ríkið, eða réttara sagt hið opinbera, vegna þess að það er ekki alltaf ríkið, það geta líka verið sveitarfélögin, hagar sér á samkeppnismarkaði og hvort lög og reglugerðir sem eru í gildi séu með þeim hætti að það auðveldi opinberum aðilum en geri þeim ekki torvelt fyrir, eins og ég held að það ætti að gera, að stunda samkeppni við einkaaðila. Og hvort það væri þá ekki skynsamlegt að reyna að formgera það í vinnu þeirrar nefndar sem fær þessa tillögu. Það væri forvitnilegt áður en við afgreiðum þetta mál, áður en það verður útrætt hér í þessum sal og áður en það gengur til nefndar, að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessa.



[17:09]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir þessa spurningu og þessa athugasemd. Ég greini það að við erum algerlega á sama máli hvað þetta varðar og ég tek undir það að þetta eigi að fara til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hv. þingmaður situr. (ÓBK: Sat.) — Sat. Þá er sú vegtylla farin. (ÓBK: Þetta týnist alltaf.) — Þetta týnist alltaf. Þetta kemur fyrir okkur. En það sem ég vildi sagt hafa er að þetta er risamál. Það snýr ekki síst að lífsgæðum okkar af því að við erum að tala um um það fjármagn sem verið er að setja í heilbrigðiskerfið. Ég er sannfærð um það og við í Viðreisn erum ítrekað búin að leggja hér fram frumvarp sem tekur einmitt á og ýtir undir samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustu. Öll þekkjum við söguna um Klíníkina og fleiri stofnanir, fleiri einkareknar stofnanir sem sumir mega ekki heyra minnst hér í þessum þingsal, en það má hv. þm. Óli Björn Kárason því að við erum á sama máli hvað það varðar.

Ég vil taka undir það að nefndin skoði sérstaklega þennan þátt. Mér finnst, og ég verð að segja það þó að ég gagnrýni þá ráðherra í ríkisstjórn sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem tengjast m.a. nýsköpun, líka fjármálaráðuneytinu, að ég hefði líka viljað sjá tekið af skarið og ekki síst heilbrigðisráðuneytið, að heilbrigðisráðuneytið hefði stigið inn í það mál sem nú er flutt af hálfu landlæknis sem er beinlínis beint að einkafyrirtæki sem er að reyna að hasla sér völl og hefur fjárfest mjög mikið, og reynt er að sniðganga allar útboðsreglur. Mér finnst það ekki heilbrigt. Þetta er ekki í þágu okkar neytenda, þetta er ekki í þágu heilbrigðiskerfisins og þetta er ekki í þágu valfrelsis eða fjölbreytni. Þess vegna er ég að segja að mér finnst ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir ekki grípa þau tækifæri sem gefast til þess einmitt að ýta undir þá samkeppni sem við hv. þingmaður erum sammála um.



[17:11]
Óli Björn Kárason (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég er sammála þeirri gagnrýni hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þegar kemur að framgöngu landlæknisembættisins gagnvart Köru Connect, vegna þess að það er það mál sem hv. þingmaður er að vitna til. Ég hef nú tekið til máls opinberlega og gagnrýnt það harðlega og það er rétt sem hv. þingmaður segir, að þetta er ekki til að auka hér skilvirkni og bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins. En það er kannski ekki sanngjarnt að ætlast til þess að ráðherra gangi fram með þeim hætti sem hv. þingmaður ætlar sér. Ég tel mig þekkja hæstv. heilbrigðisráðherra betur en svo og veit hvar hjarta hans slær í þeim efnum. En látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég er líka að velta fyrir mér er að það er frekar óljóst í tillögunni hvernig flutningsmenn vilja að hæstv. forsætisráðherra standi að verki, forsætisráðherra er bara falið að gera þetta en síðan er engin forskrift. Ég sé ekki heldur í greinargerðinni forskrift að því hvernig skynsamlegast sé að standa að verki fyrir utan það að fá sérfræðinga Efnahags- og framfarastofnunarinnar, sem er ágætt. Ég held að við getum lært mikið af því og það skiptir okkur máli og þeir hafa unnið úttektir fyrir okkur áður sem hafa skipt máli og gert okkur — stundum er gests augað glöggt og við eigum ekkert að vera feimin við það. En mér finnst vanta skýrari forskrift að því hvernig flutningsmenn sjá fyrir sér verklagið hjá forsætisráðherra, hvaða sérfræðingar eiga að koma að hér innan lands. Hafa flutningsmenn einhverja skýra hugmyndir um það? Á þetta að vinnast í einhvers konar samvinnu (Forseti hringir.) við hagsmunasamtök? Hv. þingmaður nefndi m.a. Neytendasamtökin (Forseti hringir.) í flutningsræðu o.s.frv. (Forseti hringir.) — Fyrirgefðu, frú forseti. Ég bara þakka kærlega fyrir.



[17:13]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við höfum fordæmi um ákveðna forskrift, sem er mjög gott framtak þáverandi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, sem ákvað fyrir um tveimur árum síðan að leita til OECD þegar kom að starfsumhverfi, samkeppnisumhverfi innan ferðaþjónustunnar. Það er bara gott dæmi um hvernig hægt er að vinna þetta. Ég hef sérstaklega dregið þetta dæmi fram af því að mér fannst það vera mikilvægt, ekki síst fyrir þessa grundvallaratvinnugrein sem er að byggjast upp. Hvernig getum við lært af grannþjóðum okkar? Hvernig getum við líka lært af öðrum atvinnugreinum sem hafa styrkt sig mjög í sessi og eflt sig hér innan lands? Það er eitt dæmi um verklag sem ég vil benda á.

Hagsmunasamtök. Já, að sjálfsögðu verður höfð samvinna og samband við þessi hagsmunasamtök. En ég vil leyfa mér að óska þess, af því að frelsi og svigrúm ráðherra er samkvæmt þessari tillögu svolítið mikið, að það verði samt þessi armslengd. Af því að við sjáum hagsmunasamtök — við sjáum bara nýstofnuð hagsmunasamtök í landbúnaði sem hafa það að markmiði að viðhalda öllum undanþágum frá samkeppnisreglum taka sérstaklega undir þær tillögur sem ég hef gagnrýnt mjög harkalega hér, þ.e. að fjölga undanþágum frá hinum almennu samkeppnisreglum, þannig að fólk þarf að hafa fyrirvara á því hvernig slíkt samráð er. Sjálfstæði þeirra sem fara yfir þetta og gera svona úttekt verður að vera algert.

Ég óska þess kannski fyrst og síðast að haft verði samráð við efnahags- og viðskiptanefnd þingsins um það hvernig á að vinna að svona tillögu. Ég held að þetta sé góður grunnur til þess alla vega að byrja að dýpka umræðuna um það hversu mikilvæg samkeppnin er fyrir samfélagið, samkeppni sem við hv. þingmaður erum sammála um að sé mikils virði fyrir okkur öll.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til efh.- og viðskn.