153. löggjafarþing — 24. fundur
 27. október 2022.
friðlýsing Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja, 1. umræða.
frv. JSkúl o.fl., 91. mál. — Þskj. 91.

[17:24]
Flm. (Jódís Skúladóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hér er lagt fram í 17. sinn frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Nú er sem aldrei fyrr mikilvægt að Ísland hafi frumkvæði að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum innan lögsögu sinnar, til himins og hafs, og bindi þar með í lög yfirlýstan vilja íslenskra stjórnvalda um að Ísland eigi engan þátt í þróun, geymslu eða flutningi kjarnorkuvopna og stuðli þannig að friðvænlegri heimi. Ekki hefur verið meiri hætta á kjarnorkustyrjöld í 60 ár eða frá því að Kúbudeilan stóð sem hæst, en sérfræðingar telja að ógnin sé meiri í dag en hún var þá. Málið hefur því aldrei verið mikilvægara. Morguninn 24. febrúar á þessu ári hófu Rússar allsherjarinnrás í Úkraínu. Þar er eitt af þremur stóru kjarnorkuveldunum búið að ráðast inn í fullvalda ríki og telst innrásin sjálf ekki bara ólögleg heldur eru einstakar hernaðaraðgerðir brot á reglum mannúðarréttar, þ.e. Genfarsáttmálanum, og mannréttindareglum. Aukinn hernaður og vígvæðing þrýstir á sífellda þróun í gerð hergagna um heim allan. Þjóðir heims eru víða að auka við kjarnorkubirgðar sínar frekar en að eyða þeim og á þetta við jafnt í viðkvæmum heimshlutum sem og í Vesturheimi. Kjarnorkuveldin, Bandaríkin og Rússland, eiga hvort um sig meira af kjarnorkuvopnum en heimsbyggðin til samans í trássi við alþjóðlegar skuldbindingar um að dreifa ekki kjarnavopnum og almenna afvopnun þeirra. Flest ríki heims viðurkenna hættuna sem stafar af gereyðingarvopnum og hafna hinni öldnu kenningu um gagnkvæmt ógnarjafnvægi.

Nú hafa atburðirnir í Evrópu sýnt okkur svo ekki verður um villst hversu hratt hernaðarbrölt getur þróast með skelfilegum afleiðingum. Núningur milli heimsvelda sem búa yfir kjarnorkuvopnum setja alla hluti í nýtt samhengi og knýr enn frekar á Ísland sem herlausa og friðelskandi þjóð að stíga fast til jarðar og með afgerandi hætti. Góð leið og táknræn væri að Ísland riði á vaðið og festi í lög að Ísland yrði svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla kjarnorkuvopn á nokkurn annan hátt.

Nú þarf að fara norður fyrir miðbaug til að finna land sem ekki hefur skrifað undir samning um friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum. Alls eru fimm fjölþjóðlegir sáttmálar um bann við kjarnorku og er suðurhvel jarðarinnar meira og minna friðlýst. Ekki hefur náðst að friðlýsa Norðurlönd fyrir kjarnavopnum en í ljósi þeirrar stöðu og áferðar sem þau hafa í alþjóðasamfélaginu, og ekki síst með tilliti til breyttra aðstæðna vegna stríðsins í Úkraínu og áhrifa þess á stöðu norðurslóða, færi vel á því að Ísland riði á vaðið. Kjarnorkuveldin hafa um langt skeið litið hýru auga til norðurs með augastað á flutningsleiðum um norðurskautið. Það er því mikið unnið með friðlýsingu og frumkvæði Íslands að afvopnun og friðlýsingu fyrir kjarnorkuvopnum, bæði fyrir land og þjóð en ekki síst fyrir norðurslóðir. Fjöldi stórborga og sveitarfélaga um allan heim eru friðlýst fyrir umferð kjarnavopna. Íslensk sveitarfélög hafa flest öll sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að friða verði landið frá kjarnorkuvopnum og umferð þeirra. Einungis eru það Reykjanesbær, Skútustaðahreppur og Grímsnes- og Grafningshreppur sem hafa ekki friðlýst fyrir kjarnavopnum. Ekkert er því til fyrirstöðu að vilji sveitarfélaganna um friðlýsingu verði lögfestur fyrir landið allt. Sú gagnrýni hefur komið fram í umræðum um friðlýsingu Íslands gegn kjarnavopnum að frumvarpið gangi gegn hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Því er vert að taka fram að alþjóðlegar skuldbindingar Íslands sem snúa að hafrétti tryggja skipum í neyð aðstoð innan lögsögu Íslands. Þetta er áréttað í 10. gr. frumvarpsins en greinin fjallar um undanþágur vegna alþjóðlegs réttar og því heimild til að liðsinna skipum í neyð.

Frú forseti. Mig langar að lokum að fagna þeirri umræðu sem hér fór fram fyrr í dag og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýr og afdráttarlaus svör við fyrirspurn hv. þm. Jakobs Frímanns Magnússonar. Þar kom fram í máli hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Ísland er friðlýst fyrir kjarnavopnum. Það segir skýrt í okkar þjóðaröryggisstefnu. Það er algjörlega upplýst afstaða og upplýst skilyrði sem okkar vina- og bandalagsþjóðir vita um og eru upplýstar um og fara ekki gegn.“

Í ljósi þessarar skýru svara ráðherra er okkur í lófa lagið að koma þessu mikilvæga máli í höfn og lögfesta loks friðlýsinguna. Ísland er herlaus þjóð sem hefur byggt utanríkisstefnu sína á friði og mannúð og þar höfum við í VG staðið í stafni. Ég tel að þetta mál hér er mælt fyrir í 17. sinn sé einkar farsælt fyrir friðarmál á norðurslóðum, fyrir Ísland og ekki síður fyrir frið í heiminum.

Að lokum legg ég til að málið gangi til hv. utanríkismálanefndar og þakka fyrir.



[17:31]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jódísi Skúladóttur fyrir framsöguna með þessu máli um friðlýsingu Íslands og íslenskrar landhelgi fyrir kjarnorkuvopnum, sem ég er meðflutningsmaður á og held ég hafi raunar verið síðan ég settist á þing.

Mig langar að byrja á að taka undir lokaorð hv. þingmanns um að núna ættum við bara að klára þetta mál og festa það í lög, enda kom það skýrt og greinilega fram í máli hæstv. utanríkisráðherra í dag að í raun sé búið að gera þetta með samþykkt þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. En ég tel engu að síður að það eigi að búa um þetta enn betur, líkt og gert er hér með þessu lagafrumvarpi. Það er áhugavert að það sé verið að mæla fyrir þessu máli akkúrat í dag en það vill svo til að í dag eru 60 ár frá því að þriðju heimsstyrjöldinni var mögulega afstýrt þegar einn maður neitaði að hlýða fyrirskipun og skjóta kjarnorkusprengju. Það gerðist í Kúbudeilunni og hér var um rússneskan hermann að ræða. Þetta gerðist talsvert langt frá okkur og í öðru hafi en setur þessi mál engu að síður í ákveðið alheimslegt samhengi vegna þess að kafbáti var fyrirskipað að skjóta kjarnorkusprengju á Bandaríkin. Það skiptir máli í hinu alþjóðlega samhengi að friðlýsa Ísland og íslenska lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum því að við vitum það og þekkjum að kafbátaumferð í kringum landið er þó nokkur og hefur raunar verið um margra áratuga skeið.

Það er áhugavert að lesa skrif og greiningar Alberts Jónssonar, varnarmálasérfræðings, sem ég hef í gegnum tíðina alls ekki alltaf verið sammála. En núna upp á síðkastið hefur hann verið að fjalla um stöðu Íslands í hinu alþjóðlega samhengi, ekki síst í kjölfar þess að Rússar réðust inn í Úkraínu, og bendir á að hafið hér í kringum Ísland og á norðurslóðum sé hernaðarlega mikilvægt, bæði í hernaðarstefnu Rússa en ekki síður Bandaríkjamanna. Með aukinni umferð hernaðarlegra farartækja á norðurslóðum og þar með í hafinu í kringum Ísland þá skiptir þetta frumvarp máli. Einhverjir kynnu kannski að spyrja hvort þetta væri ekki orðið úrelt eða gamaldags. Nei, akkúrat ekki. Þetta er einmitt mál sem skiptir máli hér og nú í stöðu alþjóðamála dagsins í dag. Það skiptir máli að binda það alveg kirfilega í lög að lögsaga Íslands og Ísland séu friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum og því ætla ég að binda vonir við að þetta mál fái góða umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd. Ég held að það væri mjög gagnlegt að fá til að mynda hæstv. utanríkisráðherra á fund nefndarinnar þar sem hún hefur áréttað að þetta sé partur í okkar þjóðaröryggisstefnu og við klárum þetta mál núna. Það er svo sannarlega brýnt, miðað við þá auknu hernaðarógn og auknu hernaðarlegu uppbyggingu og raunar þá auknu áherslu á þróun og endurnýjun kjarnorkuvopna og kjarnorkuvopnabúra landanna í kringum okkur. Ég nefni bara Rússland, Bandaríkin og Bretland sem eru náttúrlega í raun umhverfis okkur. Ég vona að nú verði þetta mál klárað og lögfest og að Ísland og lögsaga þess verði friðlýst með lögum gegn kjarnorkuvopnum.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Till. gengur til utanrmn.