153. löggjafarþing — 25. fundur
 7. nóvember 2022.
greiðsla skulda ÍL-sjóðs.

[15:28]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Ég vil spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra hvort hann styðji fjármálaráðherra í því að færa skuldir Íbúðalánasjóðs yfir á lífeyrisþega og launþega í landinu. Ég spyr af ástæðu. Þetta kom fram á blaðamannafundi hæstv. fjármálaráðherra sem m.a. talaði um svokallaðan sparnað og að það gæti fylgt því sparnaður að keyra sjóðinn í þrot, sjóð sem reyndar á fyrir skuldbindingum sínum í meira en áratug. Hinn svokallaði sparnaður felst sem sagt í því að aðrir eigi að taka reikninginn fyrir ríkið, að lífeyrissjóðir gefi eftir fjárhæðir og taki skuldbindingar í fangið. En gleymum því ekki að sjóðirnir eru almenningur í landinu. Fjármálaráðherra hefur með hótunum boðið lífeyrissjóðum að semja við sig um þetta, annars muni hann setja lög um að þeir taki á sig skuldbindingarnar. Meginreglan er auðvitað sú að samningar skulu standa. Meginreglan er sú að líftími skuldabréfa stendur. Almenningur býr ekki við þann lúxus að breyta lánasamningi um leið og kjörin verða óhagstæð þótt það kæmi eflaust mörgum til góða í dag þegar vextir hafa margfaldast. Það er mikill lagalegur vafi á því að lífeyrissjóðirnir hafi yfir höfuð heimild, hafi yfir höfuð umboð til að semja við fjármálaráðherra eins og hann leggur til. Sömuleiðis vafi á því hvort ríkið geti breytt leikreglum svona eftir á og eins auðvitað stórkostlega mikill vafi um það hver trúverðugleiki ríkisins verður eftir þetta sem lántakandi. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra: Er sanngjarnt að lífeyrisþegar beri þennan kostnað? Telur ráðherrann rétt að ganga í sparnað almennings til að borga fyrir pólitísk mistök annarra? Er eðlilegt að ríkið geti breytt lánskjörum sér í hag á þennan hátt? Og telur hæstv. ráðherra að það muni liðka fyrir kjarasamningum núna að launþegar fái þessa sendingu frá ríkisstjórninni í aðdraganda þeirra?



[15:30]
félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta mál er auðvitað mjög stórt hagsmunamál fyrir almenning í landinu, ég held að við getum öll verið sammála um það. Kannski ekki síst vegna þess að um er að ræða gríðarlega háar fjárhæðir sem almenningur er í raun að borga miðað við hvernig kerfið er í dag. Því er mjög brýnt að hægt sé að leysa þetta gríðarlega stóra hagsmunamál fyrir almenning í landinu og það er verið að reyna að gera það. Ég veit ekki betur en fjármálaráðherra sé í viðræðum við lífeyrissjóðina um að reyna að ná einhverri lendingu í þessu máli. Ég vonast til að það takist. Við skulum sjá hvort það gerir það ekki. Hvort almenningur borgi þetta með þeim hætti sem nú er að gerast eða að lífeyrissjóðirnir taki þetta á sig upp að einhverju marki — það er kannski verið að tala um að peningarnir komi hvort heldur sem er úr svipuðum vösum. Aðalmálið er að reyna að ná lausn í þessu máli og ég veit að fjármálaráðherra vinnur að því.



[15:32]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég sakna þess að heyra svör við einföldum spurningum, að félags- og vinnumarkaðsráðherra svari því hver afstaða hans er og hver afstaða Vinstri grænna er, hvort hann ætli að samþykkja þetta upplegg. Það er auðvitað fráleitt að tala um samningaviðræður sem eiga sér stað í aðdraganda hótana frá ríkisstjórninni um lagasetningu. Í hvaða stöðu eru menn við það samningaborð? Og það er heldur ekki rétt að tala um að þetta sé einn og sami aðilinn. Við erum að tala um lífeyrisþega og við erum að tala um launþega sem eiga að taka á sig byrðar ríkissjóðs. Þetta er ekki sami aðilinn. Það er nefnilega verið að teikna upp þá mynd að einföld saga sé flókin. Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Ég vil fá svör við þessum spurningum: Er sanngjarnt að lífeyrisþegar og launþegar í landinu beri þennan kostnað, að gengið sé í sparnað almennings með þessum hætti, að ríkið geti breytt lánskjörum sér í hag þegar reikningurinn er farinn að líta illa út og að almenningur eigi að taka upp reikninginn fyrir pólitísk mistök stjórnvalda?



[15:33]
félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði að þetta er gríðarlega stórt hagsmunamál fyrir almenning í landinu, hvort sem við horfum á það út frá því hvernig kerfið er akkúrat núna, sem ég held að við getum öll verið sammála um að sé ekkert sérstaklega gott — hvað var þetta, 1,5 milljarðar á mánuði? Er það þannig sem við viljum (Gripið fram í.) að þetta haldi áfram að malla, með þessum hætti? Ég get auðveldlega sagt að ég styð fjármálaráðherra í því sem hann er að gera, að reyna að semja um þetta við lífeyrissjóðina, og ég óska honum góðs gengis í því. Svo skulum við bara sjá til hvernig það gengur og hvort málið kemur hingað inn, en tökum eitt skref í einu.