153. löggjafarþing — 25. fundur
 7. nóvember 2022.
sérstök umræða.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[15:48]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Árið 2019 var samþykkt frumvarp þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, þess efnis að eitt leyfisbréf skyldi gefið út til kennara þvert á leik-, grunn- og framhaldsskólastig. Frumvarpið var sett fram, eins og segir á vef menntamálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„ …að líkur séu taldar á því að breytingarnar sem frumvarpið felur í sér verði til þess að efla skólaþróun, auka starfsánægju og styðja við nýliðun í kennarastétt. Þá er einnig gert ráð fyrir því í frumvarpinu að breytingarnar leiði til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga, hvatning til starfsþróunar, gæði menntunar og fjölbreytileiki verði meiri, auk þess sem stuðlað verði að starfsöryggi kennara. Í breytingunum felst einnig viðurkenning á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. Enn fremur eru taldar líkur á að það leiði til aukinnar skólaþróunar á öllum skólastigum og aukinnar nýliðunar kennara.“

Í umsögnum við frumvarpið bentu kennarar, ekki síst framhaldsskólakennarar, á að leyfisbréfið rýrði gildi kennaramenntunar á öllum skólastigum og gerði lítið úr sérþekkingu hvers skólastigs og öðru þar að lútandi sem nám byggir á. Almenn jákvæðni var hins vegar úr ranni leik- og grunnskólakennara. Hjá formanni Félags leikskólakennara kom fram að þetta gæti mögulega orðið til þess að laða fleiri nemendur í leikskólakennaranám, sem væri vissulega jákvætt, en á hinn bóginn gæti það leitt til þess að leikskólakennarar leituðu frekar á önnur skólastig þar sem starfsaðstæður og vinnuskipulag væri annað. Hann benti í kjölfarið á að mikilvægt væri að sveitarfélögin bættu til muna starfsaðstæður leikskólakennara og færðu kjör, starfs- og vinnutíma til samræmis þvert á skólastig. Hann óttaðist líka um samkeppni leikskóla við grunnskóla um menntaða kennara. Það er ein af spurningunum sem ég beini til ráðherra hvort hafi raungerst.

Af skólastigunum þremur er leikskólastigið það stig sem er líklega viðkvæmast þegar kemur að mönnun. Þrátt fyrir ýmis úrræði hefur víða gengið erfiðlega að manna leikskóla með menntuðum kennurum. Staðan í dag er sú að það vantar um 1.500 leikskólakennara til starfa á landinu og hlutfall faglærðra leikskólakennara er mun lægra í sumum sveitarfélögum en öðrum. Leikskólastigið hefur vaxið hratt og sífellt háværari kröfur eru um að börn komist á leikskóla að loknu 12 mánaða fæðingarorlofi foreldra og barna. Það er erfitt að sjá hvernig það á að vera framkvæmanlegt þar sem mikið vantar upp á að faglegt starfsfólk sinni umönnun og menntun yngstu barnanna okkar. Ég vil segja það í þessu samhengi að ég tel afar mikilvægt að fólk sem starfar á leikskólum og hefur ekki lokið stúdentsprófi fái tækifæri til að hefja fagskólanám, enda hefur það sýnt sig með samstarfsverkefnum á Suðurnesjum, Suðurlandi og í Árborg að það hefur skilað góðum árangri.

Virðulegi forseti. Það kom einnig fram í þeirri umræðu sem átti sér stað á þessum tíma að með sveigjanleika milli skólastiga, eins og leyfisbréfið gæfi, væri hægt að bæta skipulag og minnka gamaldags miðstýrða kassahugsun, eins og formaður Kennarafélags Reykjavíkur komst að orði, enda vitum við flest að menntun er í sífelldri þróun og starfið þarf að vera sveigjanlegt. Þar skiptir ekki síst máli að faglegt sjálfstæði kennara njóti sín. Kennari getur með starfsþróun aukið við færni sína og breytt sérhæfingu sinni eftir því sem honum hugnast best í gegnum starfsferil sinn og fært sig á milli skólastiga eftir áhuga eða þörf á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Hverri kynslóð fylgja nýjar áskoranir og skólakerfið þarf að vera í stöðugri þróun. Í þeim öru samfélagslegu breytingum sem við lifum við eru kennarar ekki síst þeir sem þurfa að vera á tánum og þurfa sífellt að auka færni sína til að mæta hinum breytilegu aðstæðum. Nú þegar liðin eru tæp þrjú ár síðan leyfisbréfið kom til framkvæmda er ekki úr vegi að spyrja hvernig það hefur reynst, hvort þau markmið og umbætur sem það átti að stuðla að hafi komið til framkvæmda og hvort sjáanlegur halli sé á eitt skólastig umfram annað þegar kemur að þeim umbótum, og ef svo er, hvað hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hyggst gera í þeim málum. Ég geri svo sannarlega ráð fyrir að Covid hafi haft einhver áhrif á stöðuna sem þá væri vert að draga fram. Vil ég í því sambandi segja að kennarar stóðu sig með eindæmum frábærlega í þeim aðstæðum og sýndu svo sannarlega aðlögunarhæfni sína til að bregðast hratt við mjög erfiðum aðstæðum.

Ég legg hér fyrir hæstv. ráðherra fjórar spurningar í sjö liðum sem ég geri ráð fyrir að verði snúið að komast yfir að öllu leyti hér í svörum. Ég fæ þá líka bara að fylgja því eftir með skriflegum fyrirspurnum ef við komumst ekki yfir þetta en ég hlakka til að hlusta hér á umræðuna.



[15:53]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og fagna henni hér í dag. Eitt leyfisbréf kennarar þvert á skólastig er nýmæli í lögum um menntun og hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla líkt og þingmaðurinn fór yfir. Jafnframt fór hún vel yfir markmið laganna og hvaða forsendur lágu þar að baki. Eitt leyfisbréf kennara var reyndar einungis einn áhersluþátta af nokkrum í þessum nýju kennararlögum sem leyfisbréfið var í. Meðal annarra áhersluþátta eru almenn og sérhæfð hæfni kennara og skólastjórnenda, sveigjanleiki í starfi, starfsöryggi og starfsþróun. Eitt leyfisbréf hefur vissulega skapað aukinn sveigjanleika fyrir kennara til að færa sig á milli skólastiga. Kennarar sem áður störfuðu sem leiðbeinendur á öðru skólastigi en þeir höfðu sérhæfingu í hafa í dag kennsluréttindi á öllum þremur skólastigunum. Þar með er starfsöryggi mun tryggara þar sem störf þeirra eru ekki auglýst árlega og þeir njóta launakjara sem kennarar en ekki sem leiðbeinendur. Starfsþróun kennara og skólastjórnenda er mikilvægur þáttur þegar kemur að því að auka gæði skólastarfs og fylgja eftir breytingum sem birtast í helstu stefnuskjölum stjórnvalda, til að mynda lögum, reglugerðum og aðalnámskrám.

Aðsókn í kennaranám hefur svo sannarlega aukist. Vorið 2019 var sett af stað fimm ára átaksverkefni stjórnvalda um nýliðun kennara en markmið þess er að bregðast við kennaraskorti með því að fjölga kennurum á öllum skólastigum. Ráðuneytið fylgist grannt með árangri þessa verkefnis um nýliðun kennara, sem þessi nýju lög spila einnig inn í, með markvissri gagnaöflun og til að fara stuttlega yfir meginatriðin hefur aðsókn í kennaranám stóraukist. Sem dæmi sóttu 855 um inngöngu í kennaranám árið 2018. Ári síðar, þegar átaksverkefninu var hleypt af stokkunum, fóru umsóknir í 1.280 og 2020 hafði umsögnum fjölgað enn frekar og þær orðnar ríflega 1.700. Í fyrra voru þær 1.500 og nú í ár um 1.100, þannig að við erum að sjá aðsóknartölur fara fram úr björtustu vonum. En það nægir ekki að horfa aðeins á aukna aðsókn í kennaranámið sem slíkt. Allir þessir kennarar þurfa að sjá tækifæri í því að starfa við kennslu að námi loknu og þar skiptir starfsumhverfi og tækifæri kennara til að vaxa og dafna og þróast í starfi höfuðmáli.

Kennararlögin hafa einnig orðið til þess að fjöldi fyrrum kennaranema sem lokið hafa bróðurpartinum af kennaranámi sínu en hætt í námi og ráðið sig til starfa sem leiðbeinendur hefur endurritast í kennaranám og útskrifast með leyfisbréf. Þar má telja að hvatningarstyrkir til kennaranema á lokaári, sem er hluti af nýliðunaraðgerðum stjórnvalda, ákvæði laganna um nýja MT-gráðu og eitt leyfisbréf hafi allt verið samverkandi þættir sem skilað hafa árangri. Þannig má segja að kennaralaun hafi hvað þetta varðar stuðlað að skólaþróun og aukinni hæfni þeirra fagstétta sem starfa í skólunum.

Varðandi fjölda leiðbeinenda, af því að þingmaðurinn spurði um það, þá erum við loks farin að sjá þróun í rétta átt í leik- og grunnskólum. Fjöldi leiðbeinanda hefur oft verið ágætismælikvarði á hvernig gengur að ráða í lausar kennarastöður á þessum skólastigum. Ef við tökum grunnskólastigið sem dæmi hefur hlutfallið farið lækkandi á undanförnum fjórum árum, sem er mikið gleðiefni. Í vetur starfa alls 339 leiðbeinendur við grunnskóla landsins en innan þessa fjölda eru rúmlega 100 kennaranemar sem eru komnir vel á veg í sínu námi og eru í launuðu starfsnámi á lokaári og útskrifast brátt með leyfisbréf. Í fyrra voru leiðbeinendur tæplega 450, þar af helmingur í kennaranámi, en fyrir tveimur árum voru þeir 550 og rúmlega helmingur þeirra voru kennaranemar. Til samanburðar náði fjöldi leiðbeinanda í grunnskólum landsins ákveðnum toppi árið 2019 þegar þeir fóru yfir 700 talsins.

Spurt var sérstaklega um skólaþróun og þá langar mig að benda á að samhliða lagasetningunni var sett á laggirnar svokölluð Menntaflétta sem er samstarfsverkefni nokkurra lykilaðila þegar kemur að endurmenntun og starfsþróun kennara. Menntafléttunni var stýrt af ráðuneytinu til þriggja ára ásamt Háskóla Íslands og unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands. Námskeið Menntaflétturnar hafa verið ákaflega vinsæl og vel sótt og í vetur og fyrravetur hafa yfir 1.200 kennarar og skólastjórnendur sótt mjög fjölbreytt námskeið Menntafléttunnar.

Ráðuneytið hefur ekki gert formlega úttekt á starfsánægju kennara eftir skólastigum eftir að lögin tóku gildi en gera má ráð fyrir að reglubundnar viðhorfs- og starfsánægjukannanir stéttarfélaga geti varpað ákveðnu ljósi á þá stöðu.

Sérstaklega var spurt um leikskólastigið og það átaksverkefni stjórnvalda að fjölgun kennara nái til allra skólastiga. Við vitum að vandinn er mikill á leikskólastigi og við höfum gefið og erum að gefa því skólastigi sérstakan gaum. Útskrifuðum leikskólakennurum hefur fjölgað frá því að átaksverkefni um nýliðun kennara hófst. Árið 2020 útskrifuðust þrír leikskólakennarar frá menntavísindasviði HÍ en nú í ár voru þeir 76 talsins. Það má því líta svo á að mikið hafi verið unnið í því að fjölga leikskólakennurum en þar má sannarlega gera meira og betur má ef duga skal. Þeirri vinnu er ekki lokið og við höldum áfram í þeirri baráttu. Hér má einnig nefna viljayfirlýsingu sem undirrituð var nýverið um að koma á fót fagháskólanámi í leikskólafræðum í öllum landshlutum. Sú vinna er farin af stað og ber menntavísindasvið Háskóla Íslands (Forseti hringir.) ábyrgð á því.

Ég mun síðan koma betur inn á leikskólastigið í lokaorðum mínum vegna þess að ég komst ekki yfir meira á þeim knappa tíma sem forseti úthlutar.



[15:59]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það er mikilvægt að meta hvernig lögin um eitt leyfisbréf hafa reynst. Áherslur laganna eru um að kennarar búi yfir þekkingu og færni til að takast á við framtíðaráskoranir sem blasa við næstu ár og næstu áratugi og að lögin skapi aukinn sveigjanleika fyrir kennara og tækifæri til að auka hæfni sína og færa sig á milli skólastiga, efli starfsþróun kennara og skólastjórnenda, stuðli að auknum gæðum skólastarfs og ýti undir fleiri möguleika á frekari samfellu í námi á milli skólastiga, líkt og málshefjandi benti á.

Áherslan er á starfsöryggi kennara og að með útvíkkuðum starfsréttindum sé horft til þess að aðsókn í kennaranám aukist og að kennarar sem ekki starfa við kennslu snúi til baka. Þetta eru allt fínustu áherslur, herra forseti. Með lögunum er aukin ábyrgð skólastjórnenda við mat á hæfni umsækjenda um kennslustörf. Samkvæmt leiðbeiningum um ráðningar skal tekið tillit til þess hvort umsækjandi hafi næga sérþekkingu eða hæfni í mannlegum samskiptum, svo dæmi séu tekin. Góður kennari þarf að sjálfsögðu að hafa góð tök á því námsefni sem hann er að kenna, en það eitt og sér dugar ekki til. Það er ekki síður mikilvægt að kennarar hafi næga þekkingu í uppeldisfræðum. Kennari þarf að mæta nemendum þar sem þau eru stödd og að vera fær um að leiðbeina þeim til aukins þroska og út frá þeim styrkleikum sem þau búa yfir og finna leiðir til að styrkja þá þætti sem nemandi á í erfiðleikum með. Góður kennari þarf að geta unnið með öðrum kennurum að því markmiði að koma öllum börnum til nokkurs þroska þannig að enginn verði út undan og að framhaldsskólanámi loknu standi ungmennin í það minnsta jafnfætis erlendum jafnöldrum sínum. Kennaramenntunin, starfsréttindi og starfskjör þurfa að endurspegla þetta stóra verkefni.



[16:01]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir að vekja máls á þessu. Kennarastéttin er ein mikilvægasta stétt landsins og menntun kennara gríðarlega mikilvæg. Hún er gríðarlega mikilvæg á Íslandi og í öllum samfélögum, ekki síst á tímum upplýsingabyltingarinnar. Kennaramenntun þarf að byggja á sterkum, fræðilegum grunni og stjórnvöld eiga að vinna markvisst að því að efla stöðu og virðingu kennara í íslensku samfélagi. Við eigum að horfa þar til ríkja eins og Finnlands. Í því samfélagi er kennaramenntun mjög hátt skrifuð og menntun barna ein sú fremsta í heiminum, allar kannanir benda til þess, PISA-kannanir og aðrar.

Varðandi eitt leyfisbréf þá var markmiðið með því að auka sveigjanleika og flæði kennara milli skólastiga og hvetja til starfsþróunar. Í lögunum var skilgreindur ákveðinn hæfnirammi sem var nýmæli í lögunum en skilgreiningin á hæfni skiptist annars vegar í almenna hæfni og hins vegar hæfni til að gegna tilteknu starfi. Því er starfsþróun alveg gríðarlega mikilvæg fyrir kennara. Ég tel að það sé raunverulega ekki komin nægileg reynsla á núverandi kerfi, en ég tel að stjórnvöld ættu, og hvet hæstv. ráðherra til þess hér, að auka framboð á námi til starfandi kennara svo þeir geti vaxið í starfi og starfsþróun þeirra verði eftir áhugasviði, vilja og getu.

Hér er um grundvallaratriði að ræða en það verður að fást alvöru reynsla á núverandi kerfi. Ég tel að núverandi kerfi, eins og það var sett upp, geti aukið sveigjanleika og það taki tillit til margra annarra þátta en bara prófgráða. Það er mjög mikilvægt og fagnaðarefni að í dag hefur fjölgað í kennaranámi. Ég held þó að enn sé stórkostlegt vandamál í gangi, m.a. varðandi leikskólakennara, og ég tel að hæstv. ráðherra ætti jafnvel að stefna að því að stytta leikskólanámið (Forseti hringir.) aftur í þrjú ár svo við fáum menntaða leikskólakennara. Það hlýtur að vera grundvallaratriði.



[16:04]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Markmið kennararafrumvarpsins um eitt leyfisbréf kennara þvert á skólastig eru að mínu mati góð. Það hlýtur að vera gott að stefna að sveigjanlegra skólakerfi og samfellu milli skólastiga, meira valfrelsi og tækifærum kennara og fjölbreytileika í menntakerfinu. Frumvarpið var þess vegna skref í rétta átt. En við sem hér störfum þekkjum að það er eitt að samþykkja hér lög og reglur og síðan annað hvernig tekst til við að framfylgja þeim. Það er einmitt það sem er hér til umræðu; hvernig til hafi tekist við framkvæmd þessara breytinga. Hefur tekist að skapa samfellu milli skólastiga og hafa skólastigin verið samræmd nægjanlega? Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að leikskólar séu ekki bara dagvistunarúrræði heldur einmitt fyrsta skólastigið. Framkvæmdin ber þess hins vegar ekki merki. Í svari hæstv. mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn sem ég sendi honum í haust kemur fram að ekkert sveitarfélag uppfylli skilyrði laga um menntun og hæfni kennara við leikskóla. Það er sláandi staðreynd. Á sama tíma og við tölum fyrir þessari samfellu, auknu frelsi og tækifærum kennara, eru starfsaðstæður og umhverfi kennara mjög misjafnt milli skólastiga. Afleiðingin ætti að vera öllum augljós, eins og málshefjandi fór hér yfir. Mikill skortur er á kennurum á fyrsta skólastigi, leikskólanum. Við göngum þarna einfaldlega ekki í takt og það er gott að við ræðum þennan viðvarandi vanda varðandi fyrsta skólastigið. Skilaboð okkar á þinginu eru þau að kennarar séu lykilstarfsmenn á fyrsta skólastiginu. Hvernig getum við stuðlað að því að svo verði í raun og veru?



[16:06]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu máli og leggja fram þessar spurningar sem hefur ekki verið fyllilega svarað hér í þingsal en verður áhugavert að fá svör við að endingu. Mig langar að grípa aðeins niður í greinargerð með frumvarpi til laganna sem við erum að ræða hér um, sem voru samþykkt hér á þingi 2019. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sá munur er talinn á heimild og starfsleyfi í þessu sambandi að kennari sem hefur starfsleyfi (leyfisbréf) hefur forgang við ráðningu til kennslu á því skólastigi sem leyfisbréfið tekur til. Heimild til kennslu veitir ekki sams konar forgang en veitir skóla hins vegar heimild til að ráða viðkomandi kennara til þeirrar kennslu sem heimildin nær til án þess að afla þurfi undanþágu frá undanþágunefnd fyrir viðkomandi skólastig, sbr. VI. kafla gildandi laga. Hafi kennari með leyfisbréf hins vegar sótt um kennslustarf á því skólastigi sem leyfisbréfið tilgreinir hefur hann forgang umfram kennara sem hefur einungis heimild til kennslu á sama skólastigi. Að þessu leyti hafa markmið gildandi laga um sveigjanleika og flæði kennara milli skólastiga ekki náðst fram.“

Markmið laganna er gott að mínu mati og ég tek undir það sem hér hefur komið fram að þetta sé að því leytinu til skref í rétta átt. Spurningarnar sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir hefur hins vegar varpað hér fram eru mikilvægar þar sem ýmislegt sem bendir til þess að það séu enn þá vanhöld á því að kerfið bjóði upp á þann sveigjanleika og æskilega nýliðun sem stöðug framþróun og framtíð og menntun barnanna okkar kallar á. Því þykja mér þetta mikilvægar spurningar og það verður gaman að heyra útkomuna úr þessu öllu saman, þá á blaði, t.d. hver áhrifin hafa verið með tilliti til fjölgunar eða fækkunar kennara á hverju stigi, hvort þessi lausn hafi m.a. orðið til þess raunverulega að efla skólaþróun og stuðla að nýliðun og hvatningu til starfsþróunar. Ég vil bara fagna þessari umræðu og þakka þingmanninum kærlega fyrir að vekja máls á þessu og hlakka mikið til að heyra meira.



[16:08]
Elín Anna Gísladóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það hafa átt og eru að eiga sér stað miklar breytingar í skólasamfélaginu okkar. Leyfisbréfum var breytt, innleiðing farsældarlaganna hefur áhrif á skólastarf og verið er að leggja niður Menntamálastofnun ásamt fleiru. Það mætti kannski orða það þannig að verið sé að breyta landslaginu alveg. Að einhverju leyti má segja sem svo að þörfin sé mikil þar sem framtíðin hefur komið hratt og allt annar veruleiki sem við stöndum frammi fyrir í dag en við höfðum fyrir aðeins örfáum árum. En erum við að flýta okkur of hratt án þess að hugsa út í afleiðingar ákvarðana okkar?

Það er gríðarlega mikilvægt þegar farið er í breytingar eins og þessa, með breytingu á leyfisbréfum, að við séum með áætlun um hvernig við ætlum að meta áhrifin. Hvernig ætlum við að bregðast við ef þetta hefur ekki tilætluð áhrif eða jafnvel hefur þau áhrif að færa hlutina til verri vegar? Er sú áætlun til? Með þessum breytingum gaf ríkið kennurunum ákveðið frelsi til að hreyfa sig á milli skólastiga. Sem stuðningskona frelsismála lít ég á það sem jákvætt og gott skref. Þetta ætti jafnvel að ýta undir það að fólk mennti sig á þessu sviði því að það hefur úr meiru að velja að námi loknu. Ráðherra svaraði áðan spurningu minni um hvort aukning í kennaranám sé greinanleg og það er gríðarlega jákvætt að svo sé. Vonandi stefnir þá, eins og margir hafa komið inn á hér, hugur þeirra sem eru í námi núna inn á leikskólastigið því að þar erum við í gríðarlegum vandræðum eftir þessa breytingu.



[16:09]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Ég held að við hér í salnum séum öll sammála um mikilvægi kennarastéttarinnar, hvort sem horft er til leikskóla-, grunnskóla- eða framhaldsskólastigsins, upp á þroska og viðgang okkar yngstu og bestu einstaklinga. Ég verð að leyfa mér að gagnrýna það aðeins, en nú er komin þriggja ára reynsla á þessa löggjöf, að úttektir á árangri hafi ekki verið fleiri en þær sem hæstv. ráðherra lýsti í svari sínu, almennar starfsánægjukannanir í skólum og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað ekki boðlegt í tengslum við svona grundvallarbreytingar. Það eru nokkur atriði sem við þurfum að ræða í samhengi við þetta mál sem ná lengra aftur í tímann. Alveg aftur til þess tíma er leikskólakennaranám var lengt úr þremur árum í fimm. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom inn á það áðan að ástæða væri til að skoða hvort gengið hafi verið til góðs með þeim breytingum og ég tek undir að það er nauðsynlegt að fram fari greining á því. Við sjáum til að mynda, ef við skoðum greiningu sem Haraldur Líndal vann fyrir Kópavogsbæ á útgjöldum árið 2021, að meðallaunaútgjöld á hvert stöðugildi eru 14% hærri í grunnskóla en í leikskóla. Það er augljóst að þetta hefur ruðningsáhrif upp úr leikskóla yfir í grunnskólana og svo væntanlega áfram. Það eru auðvitað sjónarmið uppi varðandi það að ekki hafi verið skynsamlegt að kennarar gætu stokkið yfir skólastig, ef svo má segja, að sama leyfisbréfið taki til grunnskólakennslu og kennslu í leikskóla og framhaldsskóla. (Forseti hringir.) Þetta eru sjónarmið sem ég vona að verði núna tekin til ítarlegrar skoðunar vegna þess að það má ekki kasta til hendinni og reyna að lesa árangurinn af þessum breytingum eða afturför út úr ánægjukönnunum sem eru almenns eðlis.



[16:12]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa mjög svo ágætu umræðu. Í ljósi þess að nú eru liðin tæp þrjú ár síðan lagabreytingin sem við ræðum var gerð er eðlilegt að velta upp þeirri spurningu hverju breytingarnar hafi í rauninni skilað og hvort sú aukna samvinna sem lagt var upp með að leyfisbréfin myndu skila hafi raungerst. Stærstur hluti þessa tíma einkenndist jú af heimsfaraldri kórónuveiru sem vissulega hafði áhrif á allt skólastarf með tilheyrandi álagi á kennara og starfsfólk á öllum þessum skólastigum og ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að allt það fólk sem vann í skólunum á öllum þessum skólastigum stóð sig afbragðsvel í þeim erfiðu aðstæðum. Í ljósi heimsfaraldursins hefur e.t.v. ekki gefist rými til að skoða áhrif þessara breytinga gaumgæfilega en hæstv. ráðherra nefnir hér mörg mjög áhugaverð atriði sem hjálpa til. Er ekki lag að gera formlega úttekt á því hvernig til hefur tekist? Mér heyrist fleiri hv. þingmenn hér í salnum vera á því þó að við nálgumst það kannski með mismunandi hætti. Hefur eitt leyfisbréf aukið samvinnu milli skólastiga eins og lagt var upp með? Má þar sérstaklega horfa til samstarfs sem var fyrirhugað á milli efstu bekkja grunnskóla og framhaldsskóla. Hefur farið fram greining eða samráð við grunnskóla og framhaldsskóla þegar kemur að þessari samvinnu og hefur hún á einhverjum tímapunkti verið skilgreind? Hefur verið við vinnu starfshópur til að stuðla að þessari samvinnu? Hvað af þessum atriðum hefur í sjálfu sér verið í virkni þennan tíma þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru?

Virðulegur forseti. Þegar breytingar eru gerðar á formi leyfisbréfs og þar af leiðandi starfsmöguleikum kennara, eins og var ráðist í með þessu eina leyfisbréfi, er að mínu mati nauðsynlegt að fylgja því eftir og gera úttekt á því hverju sú vinna hefur skilað og hvort árangurinn teljist fullnægjandi eða hvort það þurfi að fara í frekari aðgerðir til að ná honum fram.



[16:14]
Ingibjörg Isaksen (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir byrja hér á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Það er ávallt mikilvægt að ræða og rýna í hvernig gengur þegar ráðist er í breytingar. Eitt leyfisbréf kennara, sem við ræðum hér í dag, er ný leið til að ná í fólk í auknum mæli með menntun og hæfni til að sinna leik-, grunn- og framhaldsskólakennslu. Það er ekki komin löng reynsla á þetta fyrirkomulag, eða rétt um þrjú ár, en fyrirkomulagið virðist vera að virka samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið. Út frá því er samt mikilvægt þegar frá líður að endurskoða og meta þær aðgerðir sem farið hefur verið í því að við þurfum jú að læra af reynslunni og vera tilbúin til að bregðast við ef þörf verður á.

Þar sem ég hef ekki séð nein tölfræðileg gögn um reynsluna af einu leyfisbréfi get ég einungis talað út frá tilfinningum og þeim upplýsingum sem ég hef fengið í samtali við kennara og skólastjóra og einstaklinga úr skólakerfinu. Þar hef ég heyrt að þessar breytingar séu nánast eingöngu jákvæðar. Ræða hæstv. ráðherra hér á undan staðfestir það einmitt. Við höfum einnig fengið upplýsingar um að fólk sem starfað hafði sem leiðbeinendur sé nú loksins að klára námið sitt, einmitt vegna þeirra aðgerða sem ráðist var í. Kennarastarfið þykir nú meira aðlaðandi enda sýna tölur um ásókn í kennaranám það svo sannarlega svart á hvítu. Það er greinilegt að við eigum fullt af góðu og frambærilegu fólki sem vill fá starfa sem kennarar enda er kennarastarfið göfugt og gefandi en einnig krefjandi. Starf kennara er einstakt og það skiptir líka máli fyrir okkur sem samfélag að eiga góðan hóp kennara á öllum stigum menntakerfisins.

Einu áhyggjurnar sem ég hef heyrt varðandi leyfisbréfin eru þær að kennarar séu í auknum mæli að færa sig frá leikskólum yfir í grunnskóla þar sem starfsumhverfi er með öðrum hætti. Við þurfum að vera vakandi yfir þessum hugsanlegu tilfæringum milli skólastiga og stíga inn í með einhverjum hætti ef þörf verður á. Staðreyndin er sú, þrátt fyrir mikla fjölgun leikskólakennara, að enn er gríðarleg vöntun (Forseti hringir.) á þeim samt sem áður. Við erum öll meðvituð um hversu mikilvægur grunnur (Forseti hringir.) að framtíð barnanna okkar er einmitt lagður í leikskólum.



[16:16]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Í síðustu viku lýsti áttunda þing Kennarasambands Íslands yfir áhyggjum af skorti á kennurum og af mönnunarvanda í leik- og grunnskólum. Í ályktun sambandsins er kallað eftir því að fleira fagfólk sé ráðið til starfa í leikskólum og grunnskólum svo tryggja megi farsæld nemenda. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, var svo til viðtals á Morgunvaktinni í morgun á Rás 1 og lýsti sérstökum áhyggjum af stöðunni. Hann bendir á að þótt vissulega hafi verið gripið til ákveðinna aðgerða til að efla nýliðun þá blasi samt við mönnunarvandi í grunnskólum og framhaldsskólum, sér í lagi þegar kemur að verknámi. Svo hljótum við auðvitað að spyrja okkur hvort átaksverkefni og aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á undanförnum árum til að bregðast við kennaraskorti og fjölga nýnemum í kennaranámi hafi skilað árangri og dugað til að mæta þessum áskorunum sem Magnús Þór lýsti. Það er eitt að grípa til aðgerða til að stuðla að því að fólk sæki sér kennaramenntun, en svo er annað að tryggja að kennaramenntað fólk kjósi að starfa við kennslu í íslenska skólakerfinu. Þar koma auðvitað inn þættir eins og laun, starfskjör og starfsaðstæður. Það væri kannski gott að fá skýr svör frá hæstv. ráðherra í hans seinni ræðu, hvort hann sjái fyrir sér að þær áskoranir sem formaður Kennarasambandsins lýsti í útvarpinu í morgun muni leysast svona af sjálfu sér vegna aðgerða sem þegar hefur verið gripið til eða hvort hæstv. ráðherra telji þörf á enn frekara átaki og frekari aðgerðum til að stuðla að nýliðun.



[16:19]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að ítreka áskorun mína til hæstv. ráðherra um að skoða styttingu leikskólakennaranáms. Það er gríðarlega mikilvægt atriði og grundvallaratriði að leikskólakennarar í landinu séu með nauðsynlega grunnmenntun og séu ekki án menntunar. Ég tel sjálfur, og ég hef talað um það við fræðimenn og skólafólk, að fimm ára nám til leikskólakennara sé einfaldlega of langur tími. Það er miklu betra að hafa það þriggja ára nám svo að við fáum fleira menntað fólk í stéttina heldur en að hafa það fimm ára nám og fá færri. Hér er um grundvallaratriði að ræða. Ég tel líka að það sé gríðarlega mikilvægt að það sé almenn umræða í samfélaginu um menntun barnanna okkar og það á breiðum grundvelli og um stöðu kennara og menntun kennara. Ég er sjálfur með tillögu til þingsályktunar um lestrarkennslu og hef fundið fyrir miklum áhuga á því máli, m.a. í blaðaskrifum og öðru. Góður kennari getur haft gríðarleg áhrif á börnin okkar.

Varðandi löggjöfina eins og hún er í dag vil ég taka undir með hv. þm. Orra Páli Jóhannssyni um að það sé kannski kominn tími á formlega úttekt á því hvernig til hefur tekist svo að við fáum upplýsingar um það hvernig þetta kerfi með eitt leyfisbréf gangi og hver árangurinn sé. Þegar ég skoða lögin þá velti ég því fyrir mér hvort ekki væri rétt að hafa lagagrein um hæfniskröfurnar, um starfsþróunina og um það að ríkið standi fyrir tilboðum eða skólar landsins séu með tilboð um símenntun fyrir kennara. Ég tel að það að vera kennari krefjist ákveðinnar símenntunar og það að fá að þróast í starfi er gríðarlega mikilvægt og að geta farið á milli skólastiga eins og kennarar óska sér. Allir eiga að fá að njóta sín í starfi, ekki festast á ákveðnu skólastigi sem þeir kannski vilja ekki vera á. Ég tel að það kalli á ákveðna endurskoðun á lögunum að bæta þessu atriði inn, en ekki bara hafa þetta um eitt leyfisbréf og svo búið.

Í 12. gr. er fjallað um ráðningar og annað slíkt (Forseti hringir.) og þar segir að til að kennari sé ráðinn þurfi hann að hafa þá sérhæfingu sem tilgreind er í auglýsingu. (Forseti hringir.) Það þyrfti kannski að standa eitthvað nánar um sérfræðiþekkinguna og nánar um þá menntun sem stuðlar að þeirri sérhæfingu.



[16:21]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í langan tíma hef ég verið gagnrýnin á skólakerfið okkar. Það er margt virkilega gott í okkar menntakerfi en það er líka margt sem betur mætti fara. Það er nauðsynlegt að menntakerfið sé í sífelldri mótun og svari þannig kalli hvers samtíma og horfi til framtíðar. Menntakerfið þarf að vera síkvikt og sveigjanlegt og hafa getu til að sinna hverjum nemanda eftir hæfni og getu hvers og eins. Eins þarf kerfið að vera þannig uppbyggt að hæfni og geta hvers kennara njóti sín innan kerfisins. Með nýjum lögum sem samþykkt voru árið 2019, um eitt leyfisbréf kennara, er aukin ábyrgð sett á skólastjórnendur að meta hæfni og getu kennara í hvert starf fyrir sig. Ég lít svo á að hér sé viðleitni til að gera skólakerfið okkar enn betra. Það er jákvætt að kennarar geti núna hreyft sig á milli skólakerfa og fært þar með reynslu á milli. Kennari sem hóf sinn starfsferil kannski sem leikskólakennari hefur nú þann möguleika að þróa sig áfram í starfi og sækja um störf sem kennari í framhaldsskóla. Það hlýtur að vera jákvætt. Það er samt sem áður ekki hægt að horfa fram hjá því að þessar breytingar ýta undir mönnunarvanda innan leikskólanna. Það er margþættur vandi og ekki ein lausn sem leysir það. En nú hefur ráðherra boðað endurskoðun á menntastefnu og vona ég innilega að í þeirri endurskoðun muni leikskólamálin verða tekin föstum tökum. Við verðum að skoða það betur að ekki sé enn nægilegt jafnvægi á milli leik- og grunnskóla og við verðum að bregðast við því.



[16:23]
Elín Anna Gísladóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Aðeins meira um leikskólastigið. Það sem ég hef tekið eftir sem foreldri og sveitarstjórnarkona er að þessi breyting á leyfisbréfum hefur í það minnsta afhjúpað vanda leikskólanna. Svo virðist sem leikskólakennarar færi sig í grunnskóla en það flæðir ekkert til leikskólanna. Við þekkjum ansi mörg hverjar afleiðingarnar eru. Okkur berast sífelldar fréttir af vandamálum vegna manneklu á leikskólum, veikinda og kulnunar starfsfólks. Síðastliðinn fimmtudag sótti ég mitt eigið barn í leikskólanum vegna manneklu og mætti einmitt samstarfskonu minni í hurðinni sem þurfti líka að rjúka úr vinnunni til að sækja barn vegna manneklu. Fréttirnar sem við sjáum eru oftast úr Reykjavík en ég er í Mosfellsbæ og samstarfskona mín í Kópavogi. Áhrifin eru alls staðar. Þegar frumvarpið varð að lögum bentu þingmenn Viðreisnar á að það væri unnið hratt, allt of hratt. Málið væri gott en betra væri að vinna það nánar, t.d. hefði verið gott að greina kjarasamninga þessara stétta og starfsumhverfi, finna hvar núningsfletirnir væru og þekkja þá betur hvar vandamálin myndu birtast. Vel unnin innleiðing hefði einnig haft aðgerðaáætlun til þess að bregðast við vandamálum sem upp kæmu. En hverjir sitja uppi með úrlausn vandamálsins? Sveitarfélögin, ekki satt? Er þetta ekki enn eitt dæmið um mál þar sem úrlausnin lendir hjá sveitarfélögunum við breytingar sem ríkið gerir og ekkert fjármagn kemur frá ríkinu til að bregðast við þessu? Nú sitja sveitarfélögin í súpunni, þjónusta við yngstu börnin okkar versnar á sama tíma og við öðlumst meiri og meiri þekkingu á því hversu mikilvæg fyrstu árin í lífi barna okkar eru. Því spyr ég hæstv. mennta- og barnamálaráðherra: Hvað eiga sveitarfélögin að gera í þessari ómögulegu stöðu?



[16:25]
Bergþór Ólason (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það hefur kristallast í þessari umræðu hér í dag að enn einu sinni sitjum við uppi með afleidd áhrif lagasetningar sem sáust ekki fyrir við setningu laganna. Hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason hlær hér í sæti sínu en mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að koma inn á það í ræðu sinni á eftir hvort einhver greining hafi farið fram fyrir setningu laganna sem benti til þess að straumurinn yrði fyrst og fremst úr stétt leikskólakennara upp á efri stig námsferilsins. Ég bara spyr hæstv. ráðherra að þessu á meðan hann hlær hér í sæti sínu. Ég man ekki eftir að þessum áhrifum hafi verið lýst með neinum þeim hætti að þingmenn gætu glöggvað sig á þeim þannig að það hefði áhrif á afstöðu þeirra til frumvarpsins á sínum tíma. Ég vona að hæstv. ráðherra líti til þess.

Annað sem hefur komið í gegn í þessari umræðu er að allir þingmenn, að ég held, sem hér hafa talað eru sammála um nauðsyn þess að fram fari úttekt á áhrifum þessarar lagasetningar því eins og hv. þm. Elín Anna Gísladóttir sagði hér áðan þá eru áhrifin af þessu þau að okkar yngstu börn í skólakerfinu njóta verri þjónustu en áður en til þessa verks var gengið. Ég fagna því auðvitað mjög að hæstv. ráðherra finnist þetta gamanmál en mörgum okkar hér í salnum þykir þetta heldur alvarlegt. Það blasir auðvitað við ástandið í mönnun leikskólanna. Alls staðar er mönnunarvandi í leikskólunum, nema reyndar samkvæmt nýjustu fréttum í Reykjavík þar sem allt í einu þarf að fækka leikskólakennurum. Það voru óvæntar fréttir en ég held að þær séu ekki í neinu samhengi við raunheima og reikna nú með að þær fréttir verði bornar til baka á næstu dögum.



[16:27]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og hefur verið hin ánægjulegasta. Ég held að grundvallaratriði í þessu séu aðbúnaður og kjör. Hafandi starfað í grunnskóla þá þykist ég nú þekkja dálítið til þess hvað það er sem skiptir máli. Ég vil segja í ljósi þess sem hér var verið að ræða að það hefur ansi mikið breyst í samfélaginu á síðustu þremur árum. En varðandi það að leikskólakennaranámið eigi að stytta þá er ég algjörlega mótfallin því. Eitt leyfisbréf gengur einmitt út á sambærilegt nám, þ.e. fimm ára nám. Ég tel það bara mjög mikilvægt að þau sem eru að hugsa um yngstu börnin okkar séu líka mjög vel menntuð. Við erum hins vegar með kennara, eins og í öðrum stéttum, sem eru í öðru og skila sér ekki inn í skólastarfið og því þurfum við að breyta. Við þurfum að ná í þetta fólk aftur og það þurfum við að gera með bættum aðbúnaði og með því að bæta kjör og aðrar starfsaðstæður og gefa fólki tíma fyrir starfsþróun. Ég vil endilega benda á vianostra.is, þar má finna upplýsingar um hugmyndafræði og starf Menntaskólans á Tröllaskaga. Þar tóku kennarar sig saman og eru með starfsemi sem snýr að því að efla leik-, grunn- og framhaldsskólakennara en líka Erasmus-samstarf úti í heimi. Það er ótrúlega mikilvægt að kennurum, hvort sem þeir eru á leik-, grunn- eða framhaldsskólastigi, finnist þeir metnir að verðleikum og hafi þetta rúma tækifæri til að hreyfa sig á milli skólastiga, langi þá að gera það, eða bara að bæta sig og efla sig þar sem þeir eru staddir. Ég tel því að þetta sé af hinu góða og ég veit að von er á nýjum tölum varðandi stöðuna í þessum málaflokki og varðandi þessa hreyfingu sem ég vona að komi fram fljótlega.



[16:30]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem mér hefur fundist vera um margt mjög góð. Heilt yfir vil ég segja að ég held að það sé í það minnsta orðið ljóst að þessi breyting var jákvæð þegar kemur að því að efla ásókn í kennaranám, hvort sem það er í leikskólakennaranám eða annað. Eins og ég sagði hér áðan voru fjórir einstaklingar sem útskrifuðust af menntavísindasviði HÍ fyrir þremur árum en voru síðasta vor milli 70 og 80. Í annan stað vil ég segja, af því að hér var minnst á hæfnisramma og endurmenntun og fleiri þætti, að þessi nýju kennaralög, eins og ég vitnaði til í framsöguræðu minni, fólu ekki bara í sér eitt leyfisbréf. Það voru líka gerðar breytingar varðandi hæfnisrammann og sú reglugerð hefur síðan verið unnin í góðu samráði og er að komast í birtingu núna. Þar er m.a. kveðið á um starfsþróun. Samhliða var Menntafléttan sett upp sem hefur sýnt sig að er mikil þörf fyrir, út í grasrótinni og meðal þeirra sem eru að vinna með börnunum okkar í menntakerfinu, það er mikil þörf fyrir að við þjónustum skólakerfið betur en við höfum verið að gera. 1.200 einstaklingar, 1.200 kennarar hafa farið í gegnum þetta. Allt er þetta hluti af því sem við þurfum að efla samhliða.

Það sem skiptir mestu máli til framtíðar er hvernig við tökum utan um leikskólastigið okkar. Þar geld ég ákveðinn varhuga við því að horfa á patentlausnir, einfaldar lausnir sem felast í því að stytta leikskólakennaranámið og þá verði bara allt frábært. Það er ekki framtíðarlausn þegar kemur að þessu skólastigi. Við þurfum að taka miklu þéttar utan um það, virkja alla aðila, forsvarsmenn fæðingarorlofs, atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis. Það erum við að undirbúa núna og er liður í því að fókusera meira á leikskólastigið í íslenskum stjórnmálum en við höfum verið að gera (Gripið fram í.) því á undanförnum árum hefur ríkisvaldið ekki verið að gera það. (Forseti hringir.) Ég er ánægður að heyra hér sveitarstjórnarfólk og fulltrúa kalla eftir því beinlínis að ríkið geri það (Forseti hringir.) vegna þess að það er það sem ríkisstjórnin er að undirbúa og ætlar að gera.