153. löggjafarþing — 26. fundur
 7. nóvember 2022.
jöfn tækifæri til afreka.
fsp. SÞÁ, 291. mál. — Þskj. 295.

[16:44]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég beini hér tveimur fyrirspurnum til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra undir yfirskriftinni: Jöfn tækifæri til afreka. Fyrri spurningin lýtur að því hvað ráðuneytið hafi gert til að tryggja jöfn tækifæri trans barna og ungmenna til að iðka íþróttir og þar með að vinna til afreka á því sviði. Við vitum jú öll að það skiptir máli að börn geti tekið þátt í íþróttum frá unga aldri og þó svo að það sé auðvitað ekkert útilokað að verða afreksmaður í íþróttum þrátt fyrir að hafa byrjað iðkun seint þá held ég að flestir viti að það er kannski líklegra ef fólk getur iðkað íþróttir frá unga aldri.

Við erum samfélag sem leggjum mikla áherslu á að börn geti stundað tómstundir og þar á meðal eru íþróttirnar mjög mikilvægar. Mér er fullkunnugt um að ÍSÍ hefur gert bækling um trans börn og íþróttir og það er mjög jákvætt og gríðarlega mikilvægt að íþróttaþjálfarar og íþróttahreyfingar hafi þann efnivið. Við vitum að það þarf að huga að ýmsu til að tryggja að trans börnum líði vel í íþróttastarfi og hluti af því er að tryggja að íþróttaþjálfarar og íþróttahreyfingar taki vel á móti börnum en einnig að búningsaðstaða þeirra sé tryggð svo að vel sé. Inn í þetta spilar svo að mínu viti það sem gerðist hér fyrir einhverjum mánuðum þegar Alþjóðasundsambandið setti nýja stefnu og umdeilda þar sem trans sundfólki er gert að vera í sérflokki þegar kemur að sundi. Það er raunar í andstöðu við þau viðmið sem Alþjóðaólympíunefndin hefur sett um þátttöku trans fólks. Börn og ungmenni missa ekkert af svona umræðu og þess vegna skiptir það máli að heyra hvað hæstv. ráðherra er að gera í því að tryggja jöfn tækifæri barna og ungmenna til íþrótta.

Ég ætla að koma að síðari spurningunni hér á eftir en hún lýtur að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks (Forseti hringir.) og hvað sé verið að gera þar varðandi hinsegin fólk og íþrótta- og æskulýðsstarf.



[16:47]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir það með málshefjanda að það er gríðarlega mikilvægt að við sem samfélag gerum allt sem við getum til að trans börn og ungmenni hafi sömu tækifæri til að iðka íþróttir og vinna til afreka á því sviði. Þannig er háttað með stóran hluta af öllum stuðningi sem hið opinbera veitir til íþrótta- og æskulýðsstarfs að því er almennt streymt beint út, ýmist til sérsambanda eða æskulýðsfélaga, sem fara í samstarfi við ráðuneytið og fleiri með stefnumótunarvald þar. Ég nefni Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Það er nauðsynlegt að þeir sem koma að þessum málum geri átak í því að auka og efla tækifæri trans barna og ungmenna til að iðka íþróttir. Þar skipta viðhorf og viðbrögð jafningja auðvitað miklu máli.

Bæklingurinn sem hv. þingmaður minntist á, Trans börn og íþróttir, var gefinn út á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á árinu 2020. Honum var ætlað að auka vitund og gefa hagnýtar leiðbeiningar til allra þeirra sem koma að íþróttastarfi og starfa undir Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, sem eru nánast allar íþróttir í landinu.

Þingmaðurinn var líka að velta fyrir sér og spurði sérstaklega út í 8. aðgerð þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir 2022–2025, þar sem fjallað er um hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Skemmst er frá því að segja að það gengur ágætlega við framkvæmdina sem unnin er í samstarfi við Samtökin '78. Þar er unnið að gerð samkomulags við samtökin um að semja og gefa út fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi með leiðbeiningum fyrir þá sem bera ábyrgð á slíku starfi. Hugsunin er að verkefninu verði lokið innan tímamarka sem sett eru, eða árið 2023, og markmiðið er að tryggja þátttöku og aðgengi hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Til þess að svo geti orðið er óhjákvæmilega þörf á aðkomu allra sem að starfinu koma. Við erum í samtali við Samtökin '78 þessar vikurnar um að halda utan um þetta verkefni og í raun fleiri verkefni sem tengjast þátttöku þessara barna í íþrótta- og æskulýðsmálum.

Það má líka segja frá því að fyrir skemmstu var gefin út viðbragðsáætlun á vegum samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og hún var kynnt nú á föstudaginn. Henni er ætlað að gefa leiðbeiningar um hvernig best sé að bregðast við vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í starfi íþrótta- og æskulýðsfélaga, auk þess sem þær leiðbeiningar innihalda ýmsar gagnlegar upplýsingar, m.a. um hinseginleika og fjölmenningu í félagsstarfi. Þessi viðbragðsáætlun hefur verið talsverðan tíma í undirbúningi og vinnslu og hún var unnin í samstarfi við stærstu regnhlífasamtök íþrótta- og æskulýðsfélaga hér á landi. Við reiknum með að embætti samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs muni í framhaldinu fara í kynningu á henni og samtal við öll íþrótta- og æskulýðsfélög í landinu um að fylgja henni eftir.

Til að ramma þetta aðeins inn vil ég segja: Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við séum framsækin í öllu því sem við gerum í þessum efnum en vinnum þetta um leið með grasrótinni sem er frá degi til dags að vinna með börnum og ungmennum í gegnum íþrótta- og æskulýðsstarf. Það er það sem við leggjum áherslu á. Við sjáum það með samskiptaráðgjafann og eins með Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Samtökin '78 — ég held að það sé heppilegra að stjórnvöld halli sér í áttina að þessum samtökum frekar en að gefa út einhverjar skipanir að ofan eða eitthvað slíkt. Það er það sem við leggjum áherslu á og það fjármagn sem við höfum til þessara mála fer í að styrkja þær stoðir sem eru að vinna í grasrótinni dag frá degi í þessum málum.

Annars vil ég þakka þingmanninum fyrir þessa fyrirspurn. Ég hlakka til að hlýða á og taka þátt í umræðum sem verða vonandi í framhaldinu.



[16:52]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég er þakklát fyrir þessa mikilvægu umræðu. Staðan er einfaldlega sú að því meira sem við vitum um mikilvægi íþróttastarfs fyrir ungmenni okkar, líkamlega heilsu, andlega heilsu, velgengni í framtíðinni, því meira hrópandi verður sú staðreynd að þetta stendur ekki öllum ungmennum til boða. Hinsegin börn eru einfaldlega undanskilin eins og staðan hefur verið. Þess vegna er mjög gott að heyra, bæði í máli hv. þingmanns og frummælanda og hæstv. ráðherra, að verið er að vinna í þessum málum.

Mig langar að nota tækifærið og minna á þingsályktunartillögu sem ég lagði fram og var samþykkt hér á þingi fyrir u.þ.b. einu og hálfu ári, eða vorið 2021, um að Alþingi fæli ráðherra íþróttamála að móta heildstæða stefnu um afreksfólk í íþróttum í samvinnu við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og sveitarfélögin. Það er náttúrlega algerlega dauðafæri að nota þessa vinnu — ég geng út frá því að stefnan sé ekki tilbúin, hún hefur ekki verið birt eins og gera átti, og ég hef reyndar sent inn skriflega fyrirspurn til ráðherra varðandi málið — og innlima þetta. (Forseti hringir.) Eins mikilvægt og það er að hafa sérfræðinga með í ráðum er líka kominn tími til að láta stefnuna ná yfir okkur öll.



[16:54]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og raunar þarf ég ekki að bera upp seinni spurninguna, hún bara stendur fyrir sínu í þingskjali. Hæstv. ráðherra svaraði henni. Jafnframt vil ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir innlegg hennar í þessa umræðu og minna á þingsályktunatillögu hennar. Ég ætla að fagna því að ráðuneytið sé að vinna í samstarfi við Samtökin '78. Ég tel gríðarlega mikilvægt að þetta sé unnið þannig, enda þar um borð fólk sem hefur einna bestu þekkinguna og er mjög oft í beinum samskiptum við börn, foreldra og ungmenni sem reyna það á eigin skinni hvernig það er að taka þátt í íþróttastarfi. Mig langar líka að halda því til haga að ég tel mikilvægt að muna eftir húsnæðinu og búningsklefunum, því sem ekki snýr að samskiptum eða viðmóti íþróttaþjálfara. Þetta þarf hvort tveggja að haldast í hendur til þess að börnum líði vel í starfinu.

Að lokum vil ég segja: Það hefur orðið bakslag í málefnum sem snúa að réttindum hinsegin fólks og þá ekki síst trans fólks á alþjóðavísu en einnig hér á Íslandi. Ekki síst í því ljósi skiptir máli að við séum á tánum, þetta sé jafnvel haft í huga þegar unnið er að framkvæmd 8. aðgerðar í þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Við vitum að umræðan úti í samfélaginu getur haft áhrif á íþróttaþjálfara eins og aðra en auðvitað vona ég að svo sé ekki. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svarið.



[16:56]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og líka það innlegg sem hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson kom með hingað inn. Ég veit ekki hvort fyrirspurnin hefur borist þinginu en við höfum ekki lokið við afreksstefnu sem hv. þingmaður nefnir en erum að koma því starfi af stað af krafti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að það er tækifæri til að tengja það inn í stöðu þessa hóps gagnvart afreksíþróttastarfi.

Varðandi húsnæði og búningsklefa vil ég segja: Áskorunin er svolítið sú að það er ekki ríkið sem heldur úti þessari starfsemi heldur erum við að vinna með Landssamtökum ÍSÍ, UMFÍ og svo eru íþróttafélögin þar undir. Æskulýðssamtökin starfa síðan í sveitarfélögunum og eru oft að nýta húsnæði frá sveitarfélögunum eða reka það sjálf. Fjölbreytnin er því talsvert mikil.

Við höfum verið að ræða þetta vegna þess bakslags sem við sjáum í þessum málum og kannski í auknum mæli sérstaklega gagnvart ungu fólki, vil ég meina. Við höfum verið að leita leiða til að setja aukið fjármagn í það sem lýtur að þessum málum, bæði í samstarfi við Samtökin '78 en líka við fleiri aðila. Mig langar í því samhengi að nefna, sem ég hef talsverðar áhyggjur af, að mikið af þeim samtökum sem við erum að vinna með hafa eðli máls samkvæmt haft meiri slagkraft á höfuðborgarsvæðinu, eðli málsins samkvæmt. Höfuðstöðvarnar eru hér. Þetta eru samtök sem oft hafa ekki mikla fjárhagslega burði. Við höfum talsverðar áhyggjur af landsbyggðinni í þessu samhengi og erum að leita leiða til að setja af stað einhver verkefni þar sem við komum sérstaklega inn í landsbyggðarhéruð með áherslu á hinsegin börn, trans börn og fleiri og þátttöku í samfélaginu þar, (Forseti hringir.) hvort sem er í tónlist, íþróttum eða æskulýðsstarfi, eða bara að vera gott og gegnt ungmenni í sínu samfélagi. Þar held ég að áskoranirnar séu jafnvel fleiri en hér á höfuðborgarsvæðinu og við þurfum að fylgja því fast eftir.