153. löggjafarþing — 26. fundur
 7. nóvember 2022.
eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.
fsp. SÞÁ, 293. mál. — Þskj. 297.

[16:59]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég held að ekkert okkar hafi farið varhluta af fréttum um myglu í skólahúsnæði, hvort sem það er á leikskólastiginu eða í grunnskólum. Það hafa verið fréttir af leikskólum sem hafa þurft að loka og keyrt hefur verið með nemendur í sumum bekkjum Hagaskóla í rútum í annað bæjarhverfi. Mig langar að ræða þetta við hæstv. mennta- og barnamálaráðherra vegna þess að ef maður skoðar heimasíðu ráðuneytisins þá er nú eitt af því fyrsta sem segir þar um ráðuneytið að meginhlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins sé að tryggja menntun, aðbúnaðar og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi.

Ég legg því hér fram þrjár spurningar til hæstv. ráðherra. Sú fyrsta snýr að því hvort ráðuneytið fylgist með því að menntun, aðbúnaður og réttindi barna séu ávallt í fyrirrúmi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum og ef svo er hvernig eftirlitinu sé háttað.

Í öðru lagi hvernig ráðuneytið hafi brugðist við þegar ætla má að aðbúnaði í skólum hafi verið ábótavant.

Og að lokum hvort ráðuneytið hafi gripið til ráðstafana til að tryggja að skólahúsnæði barna sé heilsusamlegt, til að mynda laust við myglu og að brunavarnir séu fullnægjandi. En það hefur því miður oftar en einu sinni komið fram varðandi skólahúsnæði að brunavörnum sé ábótavant.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að grunnskólastigið og leikskólarnir líka eru auðvitað á forræði sveitarfélaganna. En líkt og ég vísaði áðan í þá er það meginhlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi og þess vegna finnst mér það skipta máli að vita hvort ráðuneytið sé að fylgjast með þessum málum og hvernig það gerir það og jafnvel hvort hæstv. ráðherra geti bent okkur á eitthvað sem hann og hans ráðuneyti geta gert til að bregðast við þessari ömurlegu stöðu sem er í húsnæðismálum og þar með aðbúnaði skólabarna.



[17:02]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og segja hér í upphafi strax; já við fyrstu spurningu þar sem velt er upp hvernig eftirliti sé háttað með leik-, grunn- og framhaldsskólum. Það er ráðuneytið sem fer með eftirlitshlutverk með starfsemi þessara skólastiga. Það er rammað inn í lög um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Hvað varðar starfsemi hins vegar leik- og grunnskóla, eins og hv. þingmaður kom inn á, þá er hún á ábyrgð sveitarfélaganna og þar fer ráðuneytið bara með almennt yfirstjórnar- og eftirlitshlutverk og fylgist með því að sveitarfélögin uppfylli skyldur sínar en hins vegar eru framhaldsskólarnir ríkisstofnanir og heyra beint undir ráðuneytið og það er nærtækara, eða það er nær okkur. Það eru sambærileg ákvæði í öllum lögunum þremur um markmið með mati og eftirliti á þessum skólastigum og þau eru auðvitað almennt orðuð, eins og að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsfólks skóla, tryggja starfsemi skólans í samræmi við ákveðnar laga- og reglugerðir og námskrár, tryggja gæði skólastarfs og að réttindi nemenda séu virt o.s.frv.

Í núverandi lagaumgjörð hefur ráðuneytið falið Menntamálastofnun að annast söfnun, greiningu og miðlun upplýsinga um skólahald. Það er bara liður í ytra mati á gæðum skólastarfs ásamt úttektum, alþjóðlegum samanburðarrannsóknum og fleira. Það er sem sagt Menntamálastofnun sem framkvæmir ytra mat á skóla á grundvelli opinberra gæðaviðmiða þar sem lagt er mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum þegar niðurstöðuskýrslur liggja fyrir.

Þá erum við komin kannski að annarri spurningunni: Hvernig hefur ráðuneytið brugðist við þegar kemur fram að þessum hlutum er ábótavant? Þegar niðurstöðuskýrslur liggja fyrir er kallað eftir umbótaáætlun frá viðkomandi skóla og rekstraraðila þeirra. Menntamálastofnun fylgir þessu eftir gagnvart sveitarfélögum og leik- og grunnskólum í núverandi lagaumgjörð en við erum að undirbúa breytingar á þessu. Menntamálastofnun upplýsir ráðuneytið um niðurstöður ytra mats og framgang umbóta með reglulegum hætti en ráðuneytið sinnir hins vegar sjálft eftirfylgni með umbótum í kjölfar úttektar á framhaldsskólum. Þegar um er að ræða sjálfstæða gagnaöflun á vegum ráðuneytisins er gerð áætlun um umbætur. Niðurstöðum, ábyrgð og umboði er ýmist beint til ríkis eða rekstraraðila skóla, eftir atvikum, kennara stofnana eða annarra þar sem við á.

Ef eftirlit og ytra mat með starfsemi skóla bendir til þess að þörf sé á umbótum er óskað eftir umbótaáætlun frá sveitarstjórn í tilvikum leik- og grunnskóla en skólameistara viðkomandi framhaldsskóla þar sem fram kemur hvernig brugðist verði við niðurstöðu matsins. Tímafrestir eru síðan ákveðnir og jafnframt hvernig áætluninni verður fylgt eftir.

Umbótunum er síðan fylgt eftir skriflega þangað til mat er lagt á að unnið hafi verið að öllum nauðsynlegum umbótum. Allt eru þetta stjórnsýslubréf og stjórnsýsluákvarðanir sem send eru á milli þannig að þetta er ekki mjög svona „effektíf“ skoðun, skulum við segja, ekki eins og við eigum í dag. Í einstaka tilvikum hafa skólar og sveitarfélög ekki framfylgt umbótum svo ásættanlegt er, eða ekki svarað beiðnum ráðuneytis um upplýsingar. Þegar þetta gerist þá gerir ráðuneytið það sem það getur gert, það getur tekið málið upp við innviðaráðuneyti sem fer með stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum þegar kemur að leik- og grunnskólunum vegna þess að mennta- og barnamálaráðuneyti hefur ekki lagaheimildir til þess að beita viðurlögum gagnvart sveitarfélögum eða öðrum rekstraraðilum leik- og grunnskóla ef þeir bæta ekki úr aðbúnaði í skólum eða aðbúnaði hefur verið ábótavant. En slíkar heimildir hefur innviðaráðuneytið á grundvelli sveitarstjórnarlaga.

Svo er spurt að því hvort ráðuneytið hafi gripið til ráðstafana til að tryggja að skólahúsnæði barna sé heilsusamlegt, til að mynda laust við myglu og að brunavarnir séu fullnægjandi. Í leik- og grunnskóla er það fyrst og fremst á ábyrgð sveitarfélaga og rekstraraðila að skólahúsnæði barna sé heilsusamlegt og uppfylli þar til gerðar kröfur heilbrigðisyfirvalda og kröfur um brunavarnir. Þar verður ráðuneytið að fara eftir því stjórnsýsluferli sem ég rakti hér áðan, það er í gegnum innviðaráðuneytið sem fer með eftirlit, bæði með brunavörnum og mannvirkjum. Ráðuneytið hefur hins vegar gert athugasemdir við ófullnægjandi húsnæði skóla, annað en myglu og brunavarnir, svo sem vegna ófullnægjandi aðstöðu fyrir verklegar greinar í grunnskólum og varðandi öryggi barna á leið sinni í íþrótta- og sundtíma, svo dæmi séu tekin. En stjórnsýslulega getum við ekki tekið á því vegna þess að við höfum ekki lagaheimildir til þess nema beina því til innviðaráðuneytisins.

En varðandi framhaldsskólana þá er yfirleitt gert ráð fyrir sérstöku rekstrarframlagi hjá framhaldsskólunum og að þeir geti sinnt viðhaldi húsnæðis en það hafa komið upp tilvik þegar ráðuneytið hefur þurft að styðja enn frekar við skóla ef upp hefur komið mygla eða öðru viðhaldi hefur verið ábótavant. Þessi dæmi hafa komið upp og við höfum takmarkaðar heimildir til að grípa inn í gagnvart leik- og grunnskólastiginu aðrar en þær að snúa okkur til innviðaráðuneytis (Forseti hringir.) sem hefur á hendi stjórnsýslu gagnvart sveitarfélögunum.



[17:08]
Hanna Katrín Friðriksson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um aðbúnað og réttindi nemenda. Mig langar að nota tækifærið og nefna hér að nýleg könnun sýnir að þriðjungur hinsegin ungmenna upplifir óöryggi í skólanum sínum, hefur upplifað andlegt og jafnvel líkamlegt ofbeldi og finnur fyrir sinnuleysi, m.a. af hálfu kennara. Því miður hefur jafnvel verið bakslag í þessum málum undanfarið og það er líka mjög skýrt að hinsegin ungmenni upplifa að leiðin til úrbóta sem er í boði sé námsefni og fræðsla sem sýnir hinseginleikann og sýni margbreytileikann og tryggir sýnileika þessara ungmenna, lífs þeirra og viðfangsefna. Það er alveg klárt að það er ekki nóg að kennarar sem hafa áhuga á þessu viðfangsefni séu til þess bærir að veita hinsegin ungmennum það sem þau þurfa í íslensku skólakerfi. Það þurfa allir kennarar að geta gert þetta. Íþróttakennarar þurfa að kunna þetta, stærðfræðikennarar, jarðvísindakennarar, allir kennarar ef hinsegin ungmennin okkar eiga að fá það út úr íslensku skólakerfi sem við viljum yfirhöfuð að ungmenni almennt fái.

Mig langaði, frú forseti, að leggja þetta inn í umræðuna hérna. Þetta er ekki góð staða og ég kalla eftir umbótum hér sem og umbótum á húsnæði.



[17:09]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurn sína. Núna hafa mýmörg myglumál komið upp í grunnskólum landsins og er það mjög alvarlegt. Ég vil taka sem dæmi m.a. Fossvogsskóla, mínum gamla barnaskóla, ég var þar í svokölluðum skúrum, eða selum, og það var bráðabirgðahúsnæði. Núna er aftur komið bráðabirgðahúsnæði í marga skóla landsins. Ég vil nota tækifærið hér og bæta við fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem lýtur að aðbúnaði á réttindum barna í skólum.

Eru einhverjir ákveðnir staðlar til í reglugerð, skrifleg fyrirmæli um það hver aðbúnaður á að vera? Við hvað er miðað þegar eftirlit með aðbúnaði fer fram?

Og einnig varðandi réttindi. Er það skráð í reglugerð hver réttindi barna í skólum eiga að vera vera og eru og hvernig er eftirlit háttað?

Hvernig er eftirliti gagnvart þessum reglugerðum háttað?

Það sem ég tel mjög mikilvægt er að við séum með ákveðna staðla hvað varðar aðbúnað og líka réttindin. Þetta er grundvallaratriði fyrir vellíðan barna í skólum og ég vil taka fram hér að félagsfærni barna á Íslandi er lægst samkvæmt OECD, einelti er landlægt hérna. (Forseti hringir.) Það eru 15% drengja með ADHD á meðan það eru 4% í Noregi. Ég tel að það þurfi að skoða aðbúnað,(Forseti hringir.) í breiðu samhengi og líka að það þurfi skrifleg fyrirmæli frá stjórnvöldum, miðstjórnarvaldinu og þá ráðherra.

(Forseti (OH): Forseti vill minna hv. þingmann á að virða ræðutímann.)



[17:11]
Elín Anna Gísladóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Mig langaði aðeins að koma inn á ytra mat af því að við vorum að tala um aðbúnað eins og húsnæði skólanna. Ytra mat er bara þrenns konar. Það er stjórnun og fagleg forysta, nám og kennsla og innra mat. Húsnæði er ekkert sérstaklega tekið fyrir í ytra mati. Það er ekki til að svara spurningunni, en mig langaði bara að koma að athugasemd um að það er ekki þarna inni. Skólarnir geta sett fjórða þáttinn inn sjálfir. Síðan eru þeir að leggja niður ytra mat eftir því sem ég best veit. Hvað tekur þá við og verður eitthvað sérstakt sem mun horfa á húsnæði í því samhengi?



[17:12]
Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem hafa tekið þátt í umræðu í tilefni þessarar fyrirspurnar. Ég verð að viðurkenna það að þetta var mjög kerfislægt svar hjá ráðherra en svo sem alveg ágætt að rekja stjórnsýsluferlið þegar kemur að þessum málum. En það breytir hins vegar ekki því að líkt og hér var komið inn á áðan þá virðist ytra matið ekki ná að taka til þátta sem skipta máli í þessu samhengi og ég heyrði það að mennta- og barnamálaráðuneytið getur falið innviðaráðuneytinu að skoða mál því stjórnsýslulega heyrir þetta undir það. Ég held að í samhengi við það sem segir að sé meginhlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins, þar sem aðbúnaður er sérstaklega nefndur, þá þurfi að skoða þetta fyrirkomulag nánar því að þó svo að stjórnsýslulega geti hlutir heyrt undir innviðaráðuneyti þá er ekki hægt að taka aðbúnaðinn, finnst mér, út úr hinni stóru umgjörð sem lýtur að skólamálum barna. Og kannski rétt í lokin þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort að hann eða hans ráðuneyti hafi falið innviðaráðuneytinu að grípa inn í eða grípa til einhverra ráðstafana (Forseti hringir.) vegna þeirra mála sem snúa að aðbúnaði og þá aðallega myglu og brunavörnum í skóla.



[17:14]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta og þessar umræður og segja að eðli máls samkvæmt er svarið svolítið kerfislægt vegna þess að við höfum ekki miklar heimildir til að stíga inn í þegar á leik- og grunnskólar eru annars vegar. Við höfum það gagnvart framhaldsskólunum en ekki gagnvart leik- og grunnskólunum og raunar hefur ríkt þegjandi pólitísk samstaða um það í íslensku samfélagi, allt frá 1994, að ríkið ætti ekki að skipta sér af grunnskólunum. Við höfum flutt þá yfir og við ættum bara að vera með eftirlit, svona í 20.000 fetum, jú, einhver samræmd próf, en við ættum ekki að skipta okkur af þessu. Þetta er altalað innan skólasamfélagsins, meðal sveitarfélaga og annarra.

Það sem við þurfum hins vegar að gera núna, og það er ákall eftir því, ekki bara hér í þingsal Alþingis eins og ég heyri, er að ríkið fari að stíga meira inn. Ríkisvaldið hefur ekki einu sinni haft mannafla til að gera það. Til að mynda gagnvart leikskólanum hefur íslenska ríkið verið með eitt stöðugildi til að sinna leikskólamálum, gagnvart grunnskólamálum kannski tvö stöðugildi, þá er ég að meina í ráðuneytinu. Það eru einhver mál sem hefur verið gripið inn í eftir þessu stjórnsýsluferli að því er ég best veit. Ég þekki það ekki nákvæmlega en það er þannig.

Við þurfum að auka eftirlit með öllum skólastofnunum. En við þurfum að vinna með sveitarfélögunum vegna þess að við erum þá að segja: Heyrðu, ríkið þarf að fara að halla sér fram og auka eftirlit með skólastigum en við þurfum á sama tíma líka að þjónusta skólakerfið og aðstoða þegar við erum að gera einhverjar athugasemdir. Í dag höfum við hrært þessu svolítið saman og m.a. hjá Menntamálastofnun hefur þessu verið hrært saman þar sem eftirlit, stjórnsýsla og vísir að þjónustu er. Hjá ráðuneytinu hefur ekki verið þjónusta en við höfum verið með eftirlit og þjónustu gagnvart framhaldsskólunum. Þetta eru breytingarnar sem við erum að undirbúa að ráðast í. Hluti af því þarf að vera aukið eftirlit og samhæfing á milli skóla, skólastiga en við (Forseti hringir.) þurfum líka að auka þjónustuna vegna þess að það er ekki nóg að segja bara: Þið verðið að breyta hlutunum. (Forseti hringir.) Við þurfum að aðstoða stofnanir við að breyta þeim. — Afsakaðu, forseti, ég fór yfir tímann en ég þakka fyrir þessa góðu umræðu.



[17:17]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (um fundarstjórn):

[17:19]
Diljá Mist Einarsdóttir (S) (um fundarstjórn):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Mig langar bara til að taka undir með virðulegum forseta. Það væri ágætt ef hv. þingmenn, sem eru tíðir gestir í þessu ræðupúlti, myndu sýna öðrum hv. þingmönnum þá virðingu að halda sig við þann dagskrárlið sem er hér undir og nýta bara þann tíma til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ekki koma hingað aftur upp í pontu til þess að lesa áfram og röfla um sama málefni og var verið að klára að ræða. Það er bara virðing við aðra sem sitja í salnum.



[17:19]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um fundarstjórn):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Aðeins um fundarstjórn forseta — ég er mjög ánægður með fundarstjórn forseta, svo það sé sagt í þessum sal. Ég ætlaði bara rétt að lauma því inn áður en ég fjalla aftur um fundarstjórn forseta að ég er líka sammála hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni um mikilvægi þess að ríkisvaldið axli sterkari ábyrgð þegar kemur að leik- og grunnskólum. En það eina sem ég er óánægður með við fundarstjórn forseta og geri kannski athugasemdir við er að mér finnst fundarstjórn forseta vera þannig að maður hefur oft fengið að tala aðeins lengur inn í rauða ljósið heldur en núna hjá hæstv. forseta. En ég skil það og ég mun reyna í síðustu fyrirspurninni að fara ekki inn í rauða ljósið.