153. löggjafarþing — 27. fundur
 8. nóvember 2022.
störf þingsins.

[13:33]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Á 151. löggjafarþingi steig Alþingi mikilvægt skref fram á við þegar samþykkt var frumvarp um að bæta inn í hegningarlög greinum sem eiga að taka á stafrænu ofbeldi. Eins og á mörgum öðrum sviðum var nauðsynlegt fyrir lög og reglur að þróast í átt að breyttu samfélagi. Samkvæmt nýlegum tölum frá Sameinuðu þjóðunum varð ein af hverjum tíu konum fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi í nánum samböndum á síðastliðnum 12 árum. Skýrsla frá hjálparsamtökunum Plan International, sem kom út í upphafi Covid-faraldursins, sýndi fram á að yfir helmingur 15–25 ára stúlkna hafði orðið fyrir stafrænu ofbeldi og rannsóknir sýna einnig að á tímum heimsfaraldursins jókst þetta hlutfall til muna. Það er hins vegar ekki nóg að setja í lög bann og refsingar við stafrænu ofbeldi ef ekki fylgir með þekking og fjármagn til þess að takast á við þessi mál. Til mín hafa leitað þolendur slíks stafræns ofbeldis sem því miður þurfa að upplifa aðgerðaleysi lögreglunnar í málum sínum. Á það sérstaklega við um þá þolendur sem lenda í stafrænu ofbeldi af hálfu gerenda sem ekki eru staðsettir á Íslandi, því þessir glæpir, rétt eins og internetið sjálft, þekkja nefnilega engin landamæri. Á meðan lögreglan aðhefst ekkert í þessum málum líða þolendur fyrir stöðugt áreiti af hálfu gerenda, áreiti sem stundum gengur svo langt að sendar séu myndir af þolendum nöktum eða í kynferðislegum athöfnum til fjölskyldu, vina, vinnuveitenda og samstarfsaðila, myndir sem teknar voru af gerendum þegar þeir voru í nánum samböndum við þolendur.

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að við hér á þingi stöndum með þolendum stafræns ofbeldis og þrýstum á lögreglu að fylgja þessum málum eftir af þunga (Forseti hringir.) eins og nauðsynlegt er og nýta sér alþjóðlegt samstarf á þessu sviði eins mikið og hægt er.



[13:36]
Birgir Þórarinsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu og fjölmiðlum um það að hælisleitendum var vísað brott frá landinu til Grikklands og það vinnulag sem lögreglan viðhafði hefur verið gagnrýnt. Auk þess hefur verið gagnrýnt hér úr þessum stól að það sé yfir höfuð hæft að senda hælisleitendur, sem hafa fengið synjun sinna erinda á Íslandi, til Grikklands. Ég hef áður nefnt undir þessum lið að ég hef skoðað flóttamannabúðir í Grikklandi og spurst sérstaklega fyrir um það hvort aðstæður í Grikklandi væru slæmar, og hvort það væri í raun og veru ekki forsvaranlegt að senda hælisleitendur þangað til baka. Framkvæmdastjóri stofnunar Sameinuðu þjóðanna um málefni farandfólks, eða IOM, sagði að flóttamannabúðir í Grikklandi stæðust evrópska staðla. Ég verð að segja, frú forseti, að eftir að ég skoðaði þessar flóttamannabúðir í Grikklandi þá er ég þess fullviss að það sé ekkert að því að senda fólk til baka til Grikklands sem hefur fengið þar vernd. Þeir aðilar sem þar eru og búa í þessum flóttamannabúðum búa við mannsæmandi aðstæður að mínu mati. Auk þess er sérstaklega gert ráð fyrir því að þar sé fatlað fólk. Börn njóta þar sérstakra aðstæðna, þar er leikskóli og börn sækja gríska skóla, eru sótt í skólabíl o.s.frv. (Forseti hringir.) Aðstæðurnar eru ágætlega mannsæmandi og mér finnst rétt að það komi fram vegna þess að margt sem hefur verið sagt hér um það að senda flóttamenn til baka til Grikklands er hreinlega rangt.



[13:38]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Við heyrum ítrekað vitnað til 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þar segir að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun kvótans myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstaklinga yfir veiðiheimildum. Því er gjarnan fleygt í umræðunni að þetta sé í raun marklaust ákvæði, einhvers konar skraut og kruðerí, nánast eins og inngangur að sjálfri bókinni, sem eru þá lögin sjálf. Þetta standi vissulega þarna en í raunveruleikanum séu það aðrir en þjóðin sem eigi þarna ríkustu hagsmunina. Við þessu er bara eitt svar: Þetta er lagagrein en ekki formáli eða merkingarlaus inngangur. Þetta er 1. gr. laga.

Í 1. gr. laga um fjölmiðla kemur skýrt fram að markmið laganna sé að stuðla að tjáningarfrelsi og rétti fólks til upplýsinga. Tjáningarfrelsi er grundvallarhugtak í okkar samfélagi og rétturinn til upplýsinga er auðvitað þar samofinn. Þetta er hornsteinn frjáls og lýðræðislegs samfélags. Í síðustu viku leið sennilega stórum hluta þjóðarinnar eins og fyrir 1. gr. fjölmiðlalaganna væri komið eins og 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, hún orðin andlag útúrsnúnings og afbökunar og þætti jafnvel merkingarlaus. Eða hvað á maður að segja um rétt almennings til upplýsinga og sjálft tjáningarfrelsið í landi þar sem fjölmiðlar eru gróflega hindraðir í störfum sínum við að segja frá því þegar stjórnvöld framkvæma vald sitt við brottvísanir á hælisleitendum frá Íslandi í hörmulegar aðstæður í Grikklandi? Í hvers konar löndum þykir eðlilegt að koma í veg fyrir myndatöku fjölmiðils með því að lýsa sterkum ljóskösturum að myndavélum ítrekað og einbeitt? Ástæða þess að þetta var gert er eingöngu sú að einhverjum á vettvangi fannst eðlilegt að almenningur sæi ekki aðfarirnar. Engin önnur skýring er möguleg. Ekki er síður óþægilegt að enn er allt á huldu um það hver tók þessa ákvörðun. Isavia bendir á lögreglu, lögreglan segir að þetta hafi ekki verið ætlunin og vill halda fund um málið. Það er gott og blessað að funda en það hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa okkar að það verði gert opinbert hvernig svona gat farið. (Forseti hringir.) Virðingarleysi og/eða skilningsleysi á störfum fjölmiðla í þessum aðstæðum er ekki hægt að líða.



[13:41]
Diljá Mist Einarsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Tíu ára vinkona mín, Elín Katrín Þórlindsdóttir, var nýlega í foreldraviðtali í skólanum. Þegar hún var spurð hvort hún vildi koma einhverju á framfæri benti hún á að skólinn byrjaði allt of snemma á morgnana. Hún lagði til að skólabyrjun yrði seinkað því að öll börn ættu rétt á svefni. Kennarinn hennar taldi að hún gæti ekki orðið við þessari umkvörtun og lagði til að Elín talaði við menntamálaráðherra. Elín hugsaði sig um og sagði svo: Þetta er allt í lagi, ég á vini á Alþingi. Og það á hún, vini sem eru henni hjartanlega sammála.

Það getur verið þrautinni þyngri að draga börn, hvað þá unglinga fram úr eldsnemma til að gefa þeim morgunmat og henda þeim svo út í náttmyrkrið sem er alltumlykjandi á Íslandi meiri hluta ársins. Það sitja ekki öll grunnskólabörn við sama borð þegar kemur að upphafi skóladagsins. Þessi næturvaktartímasetning á grunnskólastarfi er svo gott sem meitluð í stein af einhverjum sökum og því miður ekki í höndum þingsins. En ég tek þetta samt upp hér af því að mér finnst þetta mikilvægt mál og ég veit að það finnst fleirum. Lítill hluti nemenda í grunnskólunum nær viðmiðum um ráðlagða svefnlengd samkvæmt rannsóknum og svefn hefur mikil áhrif á minni og námsgetu. Svefn hefur líka áhrif á geðheilsu, líkamlegt ástand og einbeitingu. Lausnin er ekki svo einföld að fara bara fyrr að sofa því að eitt af því sem gerist á kynþroskaskeiðinu er að dægursveiflan færist til.

Væri ekki gott ef fyrirkomulag dagskrár í grunnskólum miðaðist við nemendurna og við seinkuðum því upphafi skóladags hjá þeim? Vonandi heyrir þetta einhver sem hefur raunveruleg áhrif á það.



[13:43]
Elín Anna Gísladóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Nýleg könnun Maskínu sýnir að fleiri og fleiri vilja aukið frelsi á leigubílamarkaðnum. Jafnvel stórnotendur þjónustunnar vilja sjá breytingar. Það er merkilegt að þegar notendur þjónustunnar vilja breytingar, þegar íslenska ríkið hefur fengið áminningu frá ESA um að íslenska löggjöfin feli í sér óréttmæta takmörkun á staðfesturétti og brjóti þannig í bága við EES-samninginn, þá eru stjórnvöld enn ekki tilbúin til að hlusta. Hvar er þetta frelsisfólk sem barði sér á brjóst um síðastliðna helgi?

Staðreyndin er sú að þessi mál snúast ekki lengur um frelsi. Þetta er líka orðin spurning um öryggi. Það er allt of oft sem ekki er hægt að fá leigubíla. Drukkið fólk gefst upp á biðinni og keyrir jafnvel heim á bílnum sínum sem stóð til þess að skilja eftir. Oft finnst manni að einu rök þeirra sem standa í vegi fyrir frelsi á leigubílamarkaði séu að það sé svo hættulegt að hver sem er geti sinnt þessari þjónustu. En staðreyndin er að fólk er að leita inn á svartan markað þar sem þjónustan sem nú er í boði annar ekki eftirspurninni. Hver sem er getur því núna skutlað fólki.

Ef við hleypum svokölluðum farveitum inn á markaðinn þá væru ferðir skráðar. Fólk hefði val um mismunandi bíla, tegund bílstjóra og gæti kannað hversu góður bílstjórinn sem það pantar er og vissi fyrir fram hvert verðið væri. Hvað er slæmt við það? Ég held jafnvel að farveiturnar hafi meiri burði til þess að koma svörtum sauðum úr þessu starfi en leigubílafyrirtækin hafa í dag.

Viðreisn hefur ítrekað lagt fram breytingar á lögum um leigubifreiðar en lukkuriddarar frelsisins standa í vegi fyrir því einfalda frelsismáli. Hagsmuna hverra eru þeir að gæta? Ekki almennings.



[13:44]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við ólumst sum upp við það að þurfa að velja á milli myndbandskerfa VHS og U-matic, hljóðkasetta eða mínikasetta og nú eru menn að brölta við að fá makkatölvurnar okkar til að tala almennilega við pc-tölvurnar. Kerfin kallast ekki á sem skyldi. Íslenskum almenningi er verulega brugðið yfir því hversu mislagðar hendur starfsmönnum hins opinbera voru er fötluðum manni og fjölskyldu hans var í síðastliðinni viku vikið úr landi með óviðeigandi hætti með atfylgi lögreglu og fleiri opinberra aðila í skjóli nætur. Þarna hefðu stofnanir ríkisins þurft að kallast betur á og samræma aðgerðir sem þola mættu ljósið, fyrirbyggja skömm, uppnám og mótmæli. Á Íslandi er viðvarandi skortur á vinnuafli og við reiðum okkur á erlent starfsfólk í fjölmörgum geirum. Horfum til þessa þegar við erum að velta því fyrir okkur hvort nýta megi krafta þeirra sem óska eftir því að mega koma, dvelja og starfa á Íslandi, hvort sem um er að ræða fólk sem þarf að flýja hættulegar aðstæður í heimalandi sínu eða fólk sem einfaldlega að leita betra lífs í betri samfélagsgerð.

Annað dæmi. Frjósemisvandi hrjáir fjölda íslensks fólks sem þráir það heitast að mega ættleiða börn. Milljónir foreldralausra barna um allan heim þrá það heitast að eignast fjölskyldu. Hér er verk að vinna við samræmingu laga og regluverks innan landsteina og utan. Undir liðnum störf þingsins vil ég í ljósi framangreinds leggja til að forseti þingsins og forsætisráðherra sammælist nú þegar um að gera það að forgangsmáli að sjá til þess að kerfin okkar dýru megni að tala saman, að augljóst framboð svari augljósri eftirspurn og að stofnanir ríkisins, ráðuneyti og yfirvöld sammælist um að sammælast, ganga í takt við væntingar þegnanna og valda okkur framvegis hvorki kinnroða né álitshnekki. Eftir höfðinu dansa limirnir. Ég vænti jákvæðra viðbragða þeirra sem hér hafði verið brýndir og eggjaðir til dáða, hæstv. forseti.



[13:47]
Vilhjálmur Árnason (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í dag, 8. nóvember, er dagur gegn einelti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það mikilvæga mál hér í störfum Alþingis. Eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól þá skiptir miklu máli í hinum fjölbreyttu, félagslegu málum, þar sem við tökumst á, að það sé frelsi til úrræða, að það góða fólk sem við höfum í okkar samfélagi og hefur lausnir og þekkir áskoranir eins og einelti er fái að koma fram með sínar lausnir og fái tækifæri til að bjóða upp á þær og þróa þær og það sé samanburður í gangi á því hvernig það gengur.

En ég held að það sé ekki síður mikilvægt að við ræðum aðgerðir gegn einelti hér af því að hluti af aðgerðunum er vinátta og samtal og annað um þetta efni. Þar held ég að við í þessum sal sem og aðrir sem taka þátt í opinberri umræðu, hvort sem er í fjölmiðlum eða annars staðar, ættum að tileinka okkur heiðarlegt og virðingarvert tungutak en vera ekki alltaf með sleggjudóma og ýmis ljót orð um náungann, sem maður heyrir oft. Ég er ekki að segja að við stjórnmálamenn verðum fyrir einelti, en það sem stundum er sagt um okkur, þegar okkur eru gerðar upp skoðanir í fjölmiðlum af samherjum eða öðrum, er oft ekki til eftirbreytni. Þetta er oft rót vandans. Eins og einhver sagði þá læra börnin það sem fyrir þeim er haft. Við skulum hafa það í huga í störfum okkar og standa öll gegn einelti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[13:49]
Stefán Vagn Stefánsson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Mig langar að nýta þessar tvær mínútur sem ég hef í dag til að ræða aðeins um orkumál og möguleika okkar hér á landi til að verða leiðandi í orkuskiptum á meðal ríkja heimsins. Aðstæður á Íslandi eru með þeim hætti að tækifæri til að verða leiðandi eru svo sannarlega fyrir hendi og það er okkar hér að nýta þau. Stríð í Evrópu og sú staða sem skapast hefur í orkumálum Evrópu hefur ýtt við okkur hér á landi til að skoða og meta möguleika okkar til að ná fullri sjálfbærni er kemur að orkuþörf þjóðarinnar. Sú staða sem Ísland er í nú er eftirsóknarverð og á eftir að verða enn þá eftirsóknarverðari á komandi árum. Sjálfstæði þjóða er m.a. metið út frá sjálfbærni er kemur að fæðu og orku. Á þessum sviðum eru Íslendingar svo sannarlega með forskot á aðrar þjóðir sem við verðum og eigum að nýta.

Ekki er hægt að ræða um orkumál í stóra samhenginu án þess að fjalla um loftslagsmál og loftslagsmarkmið stjórnvalda í dag. Ísland og Noregur taka þátt í sameiginlegu markmiði með Evrópusambandinu um að draga úr losun um 40% fram til ársins 2030 miðað við árið 1990. Samkvæmt stjórnarsáttmála verða sett sjálfstæð landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir sama tímabil og því markmiði sem ríkisstjórnin hafði sett um jarðefnalaust Ísland árið 2050 verður flýtt til 2040. Öllum ætti að vera orðið ljóst að orkuskipti kalla á aukna orku. Ef skoðaðar eru spár og spálíkön má gera ráð fyrir að við þurfum um 100 MW á næstu 20–30 árum. Möguleikarnir til að nálgast slíka orku eru til staðar en ljóst er að ráðast þarf í aðgerðir til að nýta þá orku sem fyrir er betur og auka samhliða orkuöflun.

Virðulegur forseti. Við þurfum að bretta upp ermar þegar kemur að orkuskiptum hér á landi. Fyrir liggur að ráðast þarf í gríðarlega uppbyggingu innviða svo að markmið sem við höfum sett okkur sjálf geti náð fram að ganga.



[13:51]
Jódís Skúladóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Samgöngur eru grundvöllur byggðar í landinu, æðakerfi mannlegs samfélags út um sveitir landsins. Mörg og mikilvæg samgöngumannvirki hafa litið dagsins ljós á undanförnum áratugum og mörg eru í farvatninu. Það er margt sem er undir og nefni ég þar sérstaklega aðgang að heilbrigðisþjónustu, atvinnulífið og svo margt annað. Við áætlanagerð eru jarðgangakostir metnir til fýsileika, kostnaðar og félagshagfræðilegs ábata með það að markmiði að unnt sé að forgangsraða verkefnum. Þegar framkvæmdum er forgangsraðað er litið til nokkurra mikilvægra þátta, svo sem mats á arðsemi, umferðaröryggis, tengingu atvinnu og búsvæða, svo og áhrifa á byggðaþróun í landinu með hliðsjón af byggðaáætlun.

Við sjáum það oft í umræðunni að einum samgöngubótum er stillt upp gegn öðrum og mikið kapphlaup fer af stað milli landshluta og jafnvel innan landshluta um forgangsröðun. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að eiginlegur gröftur Fjarðarheiðarganga hefjist í apríl eða maí árið 2024 og þau verði síðan tilbúin fyrir almenna umferð snemma árs 2030. Mikil umræða hefur verið um framkvæmdina og sitt sýnist hverjum. En það er mikilvægt að halda því til haga að göng undir Fjarðarheiði eru fyrsti hluti í mun stærri áætlun um að ná hringtengingu um Austurland. Aukin umsvif í atvinnurekstri, svo sem fiskeldi, kalla á hringtengingu. Göng undir Fjarðarheiði eru ekki eingöngu gríðarlega mikilvæg fyrir öryggi íbúa á Seyðisfirði, eins og berlega kom í ljós í skriðuföllunum, málið snýst líka um atvinnulífið út- og innflutning á vörum og svo margt annað.

Frú forseti. Ég þakka fyrir að nú sjái fyrir endann á áralangri baráttu um þessa mikilvægu samgöngubót sem er fyrsti áfangi í mun öflugra samgöngukerfi um allt Austurland fyrir alla Íslendinga.



[13:54]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Við höfum næga orku. Það er setning sem við fáum mjög oft að heyra. Og það er alveg rétt, við höfum næga orku ef við ætlum að halda áfram að keyra alla flutninga á mengandi jarðefnaeldsneyti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að fara í orkuskipti. Við höfum næga orku ef við ætlum ekki að veita fyrirtækjum tækifæri til að styrkja eigin innviði og tryggja samkeppnishæfni sína og minnka kolefnisspor sitt á alþjóðavísu. Þannig að ef við ætlum að fara í orkuskiptin, taka þátt í alþjóðlegum verkefnum og minnka kolefnisspor heimsins þá sé ég ekki annað en við séum ekki með næga orku. Við erum ekki sjálfbær í orkuframleiðslu og þurfum að geta farið í rannsóknir, skoðað og rætt þá orkukosti sem við höfum á Íslandi. Orkukostirnir sem við höfum eru misjafnir að gæðum og sumir munu aldrei verða að veruleika. En það er mikilvægt að við ræðum þær hugmyndir sem koma fram. Rannsóknir á orkukostum skipta miklu máli til þess að við vitum um hvað við erum að tala og um hverja við erum raunverulega að taka ákvörðun. Það má nefna dæmi um rannsóknir á náttúru, á hljóðvist og nærliggjandi samfélagi. Þetta eru hlutir sem þarf að rannsaka áður en tekin er ákvörðun um að virkja og því er mjög mikilvægt að gera rannsóknir. Loftslagsmál eru ekki eitthvað sem við leysum á eyju úti í Atlantshafi en við þurfum að geta lagt okkar af mörkum fyrir heimsbyggðina því að þetta er alþjóðlegt vandamál. Hvert skref skiptir máli.



[13:55]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Í Egyptalandi er hafin loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, oftast kölluð COP27 af því að hún er sú 27. í röðinni. Þar sagði aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, á fyrsta degi: Ríki heims eru á hraðferð lóðbeint til helvítis. Ef ekki er gripið til neyðaraðgerða strax til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, já, þá er það rétt hjá aðalframkvæmdastjóranum. Þá erum við að fara lóðbeint í hamfarirnar, sem eru reyndar hafnar. Hamfarahlýnun er af mannavöldum og það er mannanna verk að koma í veg fyrir að þær verði verri en þegar er orðið.

Efist menn um það sem er að gerast þá ráðlegg ég þeim að lesa og glugga í nýjustu skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Þar er hægt að lesa töflur sem segja til um það hvað gerist við 1° hlýnun, 1,5° og 2°, 3° o.s.frv. Það er bara einfalt að lesa sér til um það í þessum töflum. Þessar töflur sýna okkur nákvæmlega hvað hefur verið að gerast og hvað er að gerast og á hverju við eigum von. Eitt af því sem þar er bent á eru fólksflutningar. Fólk er á flótta vegna hnignandi jarðargæða, vegna þurrka, vegna veðuröfga, vegna hækkunar sjávarborðs o.s.frv. og eitthvert leitar það fólk. Jú, það leitar þangað sem það heldur að það geti fundið betri lífsgæði, betra líf og velsældina sem við búum við. Þannig að ef hv. þingmenn halda að 100 milljón flóttamenn í heiminum séu há tala þá held ég að þeir ættu að lesa þessar skýrslur til enda og gera sér grein fyrir því að ef hamfarahlýnunin verður ekki stöðvuð verða þeir miklu fleiri og mörg þeirra munu koma hingað, að sjálfsögðu.



[13:58]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Í október leituðu 80 manns til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda. Þetta eru mikið til öryrkjar og samkvæmt gögnum frá umboðsmanni er meðalgreiðslugeta þeirra minni en engin, 3.500 kr. í mínus, þannig er staðan þegar greitt hefur verið fyrir allar nauðsynjar. Óskertur örorkulífeyrir til einstaklings sem fékk örorkumat 40 ára er u.þ.b. 300.000 kr. á mánuði, 300.000 kr. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson segist hafa skapað stéttlaust samfélag. En trúir því einhver hér inni að öryrkinn tilheyri sömu stétt og Bjarni Benediktsson? Að öryrkinn með sínar 300.000 kr. á mánuði tilheyri sömu stétt og forstjórinn sem er með 4 milljónir í mánaðarlaun? Trúir því einhver hérna að fiskverkakona sem vinnur á gólfinu hjá útgerðarfyrirtæki tilheyri sömu stétt og eigandi fyrirtækisins sem greiðir sér hundruð milljóna í arð á hverju ári? Trúir því einhver að láglaunafólkið sem slítur sér út til að sjá börnum sínum farborða tilheyri sömu stétt og fjölskyldurnar sem eiga stóru sjávarútvegsfyrirtækin og raka til sín arðinum af fiskveiðiauðlindinni?

Hæstv. forseti. Tölum bara hreint út hérna. Sá sem heldur því fram að Ísland sé stéttlaust samfélag er veruleikafirrtur, fastur inni í búblu, úr öllum tengslum við fólkið í landinu. Það er þessi firring sem ræður för við stjórn landsins og veldur því að ójöfnuður fer vaxandi milli ára, að tekjurnar sem verða til í samfélaginu hlaðast efst í tekjustigann. Ísland er stéttskipt samfélag (Forseti hringir.) og þeir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar sem afneita því munu aldrei koma til með að breyta þessu. (Forseti hringir.) Til þess þarf nýja stjórn, sterka jafnaðarstjórn.



[14:00]
Ágúst Bjarni Garðarsson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil reyna að höfða til samvisku banka og tryggingafélaga. Fram undan eru kjaraviðræður og allar líkur eru á að þær verði nokkuð þungar. Samkvæmt verðlagseftirliti ASÍ hefur hækkun útgjalda hjá fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði numið rúmlega 128.000 kr. á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar á síðasta ári. Þetta eru verulega háar tölur og til að hægt sé að fleyta íslenskum fjölskyldum í gegnum núverandi ástand þarf meira til en að ríkið komi með aðgerðir. Allir þurfa að líta inn á við, sérstaklega breiðu bökin. Iðgjöld tryggingafélaga hafa hækkað mikið á síðastliðnum árum á sama tíma og tryggingafélög sitja á milljarða bótasjóði. Ábyrgð tryggingafélaga á heimilisbókhaldi íslenskra heimila er því veruleg. Í samtölum mínum við fólk hef ég heyrt að ekki sé óeðlilegt að fjölskyldur greiði á bilinu 40.000–55.000 kr. á mánuði fyrir líf-, bíla- og heimilistryggingar. Þetta eru háar tölur og upphæðir þegar þær eru settar í samhengi við önnur útgjöld sem meðalfjölskylda þarf að greiða, hvað þá barnafjölskyldur sem fyrir utan afborganir af húsnæðislánum þurfa að greiða leikskólagjöld, fæðiskostnað í skólum, íþróttaæfingar og svo mætti lengi telja. Það getur ekki verið að við ætlum okkur að stefna í þá átt að vera samfélag þar sem tryggingar eru aðeins á færi þeirra efnameiri.

Þá birtu Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki uppgjör sitt vegna fyrstu níu mánaða ársins í október. Þar kemur fram að samanlagður hagnaður þeirra á tímabilinu var 50,2 milljarðar kr. Það er vissulega, og það má segja í kaldhæðni, minni hagnaður en árið á undan, en arðsemin er yfir markmiði hjá öllum nema Landsbankanum sem stendur þó alveg ágætlega. Það væri betra fyrir þessi fyrirtæki að stíga þjóðdans en að dansa í kringum gullkálfinn.



[14:02]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Nú þegar þingmenn í fjárlaganefnd eru að vinna að því að yfirfara fjárlagafrumvarpið og ráðherrar eru væntanlega farnir að huga að frumvörpum næsta árs vil ég nota tækifærið til að hvetja bæði þingmenn og þá þingmenn sem eru ráðherrar til að huga sérstaklega að iðnnámi. Ekki bara árum heldur áratugum saman hafa stjórnmálamenn á Íslandi talað um mikilvægi iðnnáms og að við þyrftum að hvetja fleira fólk til að leita í slíkt nám, ekki bara iðnnám heldur annars konar tækninám og verknám. En þegar áhugasamir nemendur svöruðu loks kallinu þá var bara lokað, þá var ekki tekið við nema litlum hluta þeirra sem höfðu áhuga á að fara í þetta verðmæta og mikilvæga nám. Hundruðum áhugasamra nemenda var hafnað. Á sama tíma tala sumir ráðherrar og þingmenn um að við munum þurfa að flytja inn mikið af fólki til starfa hér, fólki sem önnur lönd eru búin að mennta og hafa lagt í ærinn kostnað við. Verðum við ekki að byrja á að taka til hér hjá okkur í okkar menntakerfi og sýna að okkur stjórnmálamönnum sé alvara með því að við metum iðnnám, verk- og tækninám? Ég ætla bara að nefna eitt dæmi sem er Hallormsstaðaskóli, sem er nokkurs konar nýsköpunarskóli, ótrúlega merkileg menntastofnun sem menntar fólk á ólíkum sviðum sem eiga það þó öll sameiginlegt að snúast í raun um nýsköpun, að hluta til um að vernda það sem við höfum byggt upp og eigum fyrir en líka um leið að búa til eitthvað nýtt og kenna fólki jafnvel að gera fyrirtæki úr því og búa til sem mest verðmæti úr þeim auðlindum sem við eigum og sérstaklega auðvitað mannauðinum. Ég vona að hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn hugi að þessu núna á næstu misserum.



[14:04]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Eru mannréttindi brotin á öldruðu fólki á hjúkrunarheimilum hér á landi? Já, það segir Sigrún Huld Þorgrímsdóttir hjúkrunarfræðingur í Silfrinu á RÚV, og þá einnig að engar heimildir séu í lögum til að læsa fólk inni eða binda það niður, eins og tíðkast á heilabilunardeildum. Þá fann hún að því að framkvæmd þjónustunnar væri í höndum bæði ríkis og sveitarfélaga og það valdi óskilvirkni. Þá sagði hún einnig að fólk á lokuðum heilabilunardeildum hjúkrunarheimila nyti minni réttinda en fólk í fangelsum og á réttargeðdeildum. Það er verið að læsa inni aldrað fólk sem hefur tapað vitrænni færni og það í trássi við lög og rétt þess og þá er einnig verið að binda fólk og gefa því geðlyf án þess að spyrja það. 5% þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum eru fjötraðir daglega. 25% fá sterk geðlyf í öðrum tilfellum en mælt er með, sem kom einnig fram í þættinum.

Komið er fram við aldrað fólk eins og þriðja flokks þegna hér á landi og þegar það þarf að leggjast inn á sjúkrahús er það orðið að fráflæðisvanda. Fjárhagslegt sjálfstæði þess er skert illa og það fer inn á hjúkrunarheimili og vasapeningum er skammtað til þeirra upp á 86.000 kr. á mánuði. Allt Covid-tímabilið var aldraða fólkið á almannatryggingabótum skilið eftir, það fékk ekki krónu í uppbót, skatta- og skerðingarlaust. Nei, eina hækkun þeirra frá ríkisstjórninni var núna í sumar upp á heil 3%, sem skilar sér í flestum tilfellum 80% til baka í ríkiskassann. Aldraðir mega bara eiga óskertar 25.000 kr. af lífeyrisgreiðslum sínum áður en skerðing upp á 45% hefst og veldur samanlagt næstum því 80% sköttum og skerðingum. Þetta óskiljanlega, andlega, líkamlega og fjárhagslega ofbeldi gagnvart öldruðu fólki bitnar verst á konum. Kona sem fær 250.000 kr. út úr almannatryggingum í dag og fær 50.000 kr. úr lífeyrissjóði — það skilar henni 10.000 kr. Fjárhagslega ofbeldið er algjört. Sjaldan launa ríkisstjórnarliðar ofeldið.