153. löggjafarþing — 27. fundur
 8. nóvember 2022.
um fundarstjórn.

heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu.

[14:37]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúna til að koma hingað upp til að nefna mjög athyglisvert mál sem er á döfinni akkúrat núna í Hörpu, heimsþing kvenna í Reykjavík. Ég minni á það að tæplega helmingur kjörinna fulltrúa á hinu háa Alþingi Íslendinga eru jú konur. Á sama tíma og við erum hvattar til þess að vera nú í Hörpunni og gefa þá körlunum um leið eftir sviðið þá furða ég mig á því og velti því fyrir mér, eðlilega, að ef þetta væri heimsþing karla í Hörpunni, hvort við konur fengjum eins gott brautargengi hér við að halda Alþingi gangandi eins og mér sýnist að karlarnir hafi núna í dag. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst þetta frekar lélegt, svo ekki sé meira sagt, illa fram við okkur komið, að hvetja okkur til að taka þátt í alheimsþingi kvenna frá 100 þjóðlöndum. Sýnið nú gestrisni og verið fínar við þær í Hörpunni en við ætlum að sjá um þingið á meðan og þið getið bara gleymt því.



[14:38]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég kem hérna upp til að taka undir með hv. þm. Ingu Sæland. Okkur ber að sýna kvennafundinum í Hörpu þá virðingu, þar sem nær helmingur þingmanna á þinginu eru konur, að þær gætu farið á fundinn og við hefðum þá bara lokað hér á meðan. Annað eins hefur nú verið gert. Annað sem ég myndi vilja vita, og væri auðvitað nauðsynlegt að ég tel, er hvort ekki sé verið að ræða á þessu kvennaþingi málefni aldraðra kvenna, hvernig komið er fram við þær á Íslandi og um mannréttindi þeirra. Það væri mjög gott mál ef einhver væri á leið á þingið og tæki það upp og léti vita af því að þau mannréttindi sem við teljum okkur hafa og erum að hæla okkur af að séu hér mjög góð, gilda því miður ekki um alla og verst sett er aldrað fólk.



[14:39]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ingu Sæland, það er mjög undarlegt að það sé verið að hvetja helming þingheims, alla kvenþingmenn þjóðarinnar, til að mæta á alþjóðafund kvenleiðtoga í heiminum í Hörpu, ráðstefnu sem er þar núna, og á sama tíma eru þingfundir í gangi og nefndastörf. Ég vil minna á það líka að í síðustu viku var enginn þingfundur þegar þing Norðurlandaráðs var í Helsinki og hluti þingmanna var ekki á svæðinu. Þá var enginn þingfundur en núna eru þingfundir þegar verið er að hvetja þingmenn til að taka þátt í þessum merkilega fundi. Þá voru sérstakar aðstæður og þá var ekki heldur heimild til þess að mæta á þingfund með fjarfundabúnaði þrátt fyrir sérstakar aðstæður. Ég tek eindregið undir með hv. þm. Ingu Sæland, þetta sýnir að ég held að ef það væri alheimsfundur karlleiðtoga í heiminum þá væri sjoppunni örugglega lokað og enginn þingfundur. Það var a.m.k. gert þegar Norðurlandaráðsþing var og þangað mætti bara hluti þingmanna.



[14:40]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég má til með að taka undir með hv. þm. Ingu Sæland. Íslenska þingið er gestgjafi þess fundar sem stendur nú í Hörpu. Íslenskar þingkonur eru hvattar til að taka virkan þátt. Annaðhvort eiga þær að þekkjast það boð og vera úti í Hörpu og skrópa hér eða mæta hér eins og lög gera ráð fyrir, taka þátt í umræðu og skrópa þar. Þetta bara passar ekki saman. Allar hugmyndir um að láta þingið ganga sinn vanagang þegar vantar helming þingmanna meika bara ekki sens, því það sem gerir þessa málstofu að því sem hún er, er einmitt að við séum með ólík sjónarmið, ólíkar raddir og sem flestar hér innan húss en ekki að við séum að halda dagskrá gangandi með hálfan mannskapinn fjarverandi. Að því sögðu þá gerir ríkisstjórnin okkur það auðvitað dálítið auðvelt að vera með létta og löðurmannlega dagskrá þessa dagana, (Forseti hringir.) það er ekki búið að leggja fram mörg stjórnarmál, alls ekki jafn mörg og til stóð, þannig að það liggur ekki mikið fyrir þessu þingi. (Forseti hringir.) En þá hefði kannski mátt endurskoða starfsáætlun og fella niður þingfundi eða í það minnsta hafa þá mjög stutta.

(Forseti (LínS): Forseti minnir á að þingmálið er íslenska.)



[14:42]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil koma hérna upp aftur og taka enn þá meira undir þetta. Ég var á þessu Norðurlandaráðsþingi, eða ég fór á Norðurlandaráðsþingið en fór samt ekki og var eiginlega að koma til baka, sem er önnur saga. En það var þó gefið frí hér á þingi þegar Norðurlandaráðsþingið stóð yfir og þá vorum við hvað, sjö, átta þingmenn. Ég get ímyndað mér að það væri ekki mikið vandamál fyrir þær konur sem eru staddar hérna á þinginu að komast í Hörpu. Og ef þær færu þangað væri aldrei sagt við þær að þær hefðu aldrei farið þangað, eins og var sagt við mig, en það er stórfurðuleg saga. En eins og ég segi, ég ítreka að mér þykir alveg sjálfsagt mál að við hefðum frestað þinginu og leyft þeim konum, bara öllum konum á þingi, ég sé að það eru ekki nema ein eða tvær eða þrjár — ég spyr mig hvort þær hefðu ekki viljað vera í Hörpunni núna. Ég held það.(Gripið fram í.)



[14:43]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað hérna. Mér finnst bara mjög mikilvægt að ræða einmitt þetta. Ég veit að eitt það mikilvægasta sem við getum gert t.d. í jafnréttismálum er að tryggja það að karlmenn taki virkan þátt í jafnréttismálum. Það hefði kannski verið bragur á því ef við hefðum bara farið að þeim tillögum sem hér hafa verið ræddar og allir þingmenn gætu tekið virkan þátt í því sem er að gerast í Hörpu. Við eigum að taka þetta til okkar og við eigum að gera betur.



[14:44]
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem kom hérna fram um að við þyrftum kannski að gefa þinginu aðeins meira frí til þess að við þingkonur kæmumst á heimsþing þingkvenna. Mér fannst mjög skemmtilegt þegar málshefjandi, hv. þm. Inga Sæland, sagði áðan „heimsþing kvenna í Reykjavík“, en þetta eru ekki bara konur í Reykjavík, þetta er ekki heimsþing þeirra, heldur heimsþing þingkvenna og þetta þing er okkur Íslandi til sóma. Það er kannski erfitt að taka einhverja ákvörðun um frí á þinginu núna, hlé á þingfundum, en ég held að það væri góður bragur á því að það væri farið að horfa til þess strax á næsta ári. (EÁ: Geta karlmenn mætt líka?)



[14:45]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég er nú of ungur til að muna eftir kvennaverkfallinu 1975 en kannski er einhver í salnum sem man eftir þeim degi. Það sem gerði þann dag að því sem hann var var að konur sýndu að samfélagið stöðvaðist án þeirra vinnuframlags á heimilinu eða á vinnumarkaði. Þegar konur lögðu niður störf var ekkert samfélag funkerandi lengur. Auðvitað ætti það að vera þannig hér á þingi líka þegar konum á þingi er ætlað að vera annars staðar vegna þess að við búum við þann fágæta lúxus að hér eru konur næstum helmingur þingmanna. Það er nánast einsdæmi á heimsvísu. Konur eru 47,6% íslenskra þingmanna. Þetta er eitthvað sem við montum okkur af en þetta er eitthvað sem á líka að hafa þau áhrif að þegar vantar þessi 47,6% þingmanna þá sé þingið bara óstarfhæft. (Forseti hringir.) Ég tek undir með þeim sem hafa lagt til að forsætisnefnd ræði þetta í þaula fyrir næsta ár.



[14:47]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mig langar bara að taka undir það sem hér hefur verið sagt. Mér finnst það til háborinnar skammar að það hafi ekki verið gefið frí hér á meðan, það sýnir hversu karllægt okkar Alþingi er enn þá, þó svo að nær helmingur þingmanna séu konur. Ég held að það sé einfaldlega kominn tími til að konurnar og við mennirnir sem stöndum með göngum bara út og sjáum hvort það þurfi ekki að fresta þingfundi þegar enginn mætir. Það virkaði 1975 og ég man eftir því.



[14:47]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að halda áfram með það sem ég talaði um í minni fyrri ræðu, þ.e. að í síðustu viku var enginn þingfundur vegna þings Norðurlandaráðs í Helsinki. En það voru nefndastörf. Ég tók eftir því bara í morgun á fundi allsherjar- og menntamálanefndar að þá komu kvenþingmennirnir seint á fundinn vegna þess að þær voru á ráðstefnunni í Hörpu, sem var mjög gott að mínu mati, og það kom niður á nefndastörfum. Ég tel því að það eigi að vera ekki bara eins og í síðustu viku, þá var enginn þingfundur vegna Norðurlandaráðsþings, en þá voru nefndastörf, heldur ætti að fella líka niður nefndastörf og jafnvel enn frekar, þegar svona háttar. Þá geta þingkvenmenn farið á ráðstefnuna og svo er viðvera í þingsal með öðrum hætti, hún varðar einstök mál og þar er þátttaka undir hverjum þingmanni komin. Þannig að ég tel mjög mikilvægt að nefndastörf verði felld niður þegar svona háttar en ekki aðeins þingfundir eins og var gert í síðustu viku.



[14:49]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég hóf máls á hér áðan og þakka öllum þeim sem hafa tekið undir það. Ég vil leyfa mér að halda að þetta hljóti að vera gáleysi því það er ekki bara verið að hvetja konur til að koma í Hörpu heldur er verið að hvetja okkur til að sýna gestrisni, sýna fram á að kurteisi kostar ekki neitt vegna þess að það erum jú við sem erum að halda þessa ráðstefnu kvenleiðtoga í heiminum. Það skýtur svolítið skökku við að maður skuli vera með samviskubit yfir því að fara í Hörpuna til að fylgja því boði í rauninni sem við höfum verið hvattar til að taka.