153. löggjafarþing — 27. fundur
 8. nóvember 2022.
fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, fyrri umræða.
þáltill. GIK o.fl., 49. mál. — Þskj. 49.

[16:52]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Auk mín eru á frumvarpinu hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Halldóra Mogensen, Helga Vala Helgadóttir, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Jóhann Páll Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Fullgilding bókunarinnar skal fara fram eigi síðar en við árslok 2022. Ríkisstjórnin skal stefna að því að lögfesta bókunina og samninginn um réttindi fatlaðs fólks samtímis.

Tillaga þessi var áður lögð fram á 152. löggjafarþingi (523. mál) og er nú lögð fram efnislega óbreytt.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Íslensk stjórnvöld undirrituðu hann 30. mars 2007 ásamt valfrjálsri bókun við samninginn. Markmið samningsins er að efla, verja og tryggja full og jöfn mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk til jafns við aðra, ásamt því að efla eðlislæga mannlega reisn þess og vinna að virðingu fyrir henni. Samningurinn felur í sér bann við hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og að fötluðu fólki sé tryggð jöfn og árangursrík réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

Alþingi samþykkti 11. júní 2012 þingsályktun nr. 43/140, um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014. Samkvæmt lið F.1 í III. kafla ályktunarinnar átti að leggja fram frumvarp til fullgildingar samningsins eigi síðar en á vorþingi 2013. Með þingsályktun nr. 61/145, sem var samþykkt 20. september 2016, var ríkisstjórninni veitt heimild til að fullgilda samninginn, sem var gert 23. september 2016. Með þingsályktun nr. 33/149, sem var samþykkt 3. júní 2019, var ríkisstjórninni falið að undirbúa lögfestingu samningsins og leggja fram frumvarp sem fæli í sér lögfestingu hans og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir að slík fyrirætlan komi fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Með frumvarpi sem lagt var fram 1. desember 2021 (þskj. 34, 34. mál á 152. löggjafarþingi) lagði Flokkur fólksins enn á ný til að samningurinn yrði lögfestur, en það náði ekki fram að ganga.

Valfrjáls bókun um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa einstaklinga vegna brota á samningnum var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, um leið og samningurinn sjálfur. Íslensk stjórnvöld undirrituðu bókunina 30. mars 2007 ásamt samningnum. Þegar tillaga sú til þingsályktunar er varð að þingsályktun nr. 61/145 var til meðferðar á Alþingi var samþykkt breytingartillaga við hana þess efnis að auk samningsins sjálfs skyldi jafnframt fullgilda valfrjálsu bókunina fyrir árslok 2017. Með þeirri breytingu var þingsályktunartillagan samþykkt einróma, en þrátt fyrir það hefur bókunin ekki enn verið fullgild af hálfu Íslands.

Ljóst er að á undanförnum árum hafa réttindi fatlaðs fólks fengið aukið vægi, ekki aðeins hér á landi heldur einnig á alþjóðlegum vettvangi. Til vitnis um það hafa 184 ríki nú þegar fullgilt samninginn um réttindi fatlaðs fólks og af þeim hafa 100 ríki fullgilt valfrjálsu bókunina. Í tengslum við úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi hafa íslensk stjórnvöld ítrekað verið hvött af öðrum ríkjum til að fullgilda valfrjálsu bókunina, nú síðast við þriðju allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála 25. janúar 2022. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við því hafa hingað til verið á þá leið að segja að fullgilding hennar sé til skoðunar, án þess að endanleg eða afgerandi afstaða hafi verið tekin.

Með fullgildingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks yrði stuðlað að aukinni vernd þeirra réttinda sem koma fram í samningnum. Yrði þannig komið á fót sambærilegri kæruleið við þá sem lengi hefur verið til staðar vegna þeirra réttinda sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og við þá sem var samþykkt að koma á fót með fullgildingu þriðju valfrjálsu bókunarinnar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins samkvæmt þingsályktun nr. 28/151. Þar með yrði nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gert kleift að taka við erindum frá einstaklingum og hópum einstaklinga á Íslandi. Með því að stíga þetta skref yrði vernd þessara mikilvægu réttinda aukin og er því lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda valfrjálsu bókunina og hefja undirbúning að lögfestingu hennar.

Ef við horfum aftur í tímann þá var hér á Alþingi samþykkt að lögfesta samning um réttindi fatlaðs fólks og á þeim tíma kom frétt á RÚV um málið. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Ég hef í raun og veru ekki haldbærar skýringar á því af hverju þetta er ekki á þingmálaskrá og verð að viðurkenna það. Ég skal með gleði taka þetta upp við dómsmálaráðherra og kanna hvar vinnan stendur.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra þegar hún svaraði fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um hvers vegna það væri ekki á þingmálaskrá að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

„Meirihluti Alþingis samþykkti þingsályktunartillögu Ágústs á síðasta þingi um að það ætti að lögfesta samninginn. Samningur Sameinuðu þjóðanna hefur það að markmiði að tryggja réttindi fatlaðs fólks til jafns við aðra. Þegar ríki lögfestir samninginn ber það skyldu til „að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.“

„Ríkisstjórninni var falið að undirbúa lögfestinguna og að leggja fram frumvarp sem fæli í sér lögfestingu samningsins og aðlögun íslenskra laga að honum eigi síðar en 13. desember 2020. Það er eftir einungis tvo mánuði. Hins vegar er ekkert svona frumvarp á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Af hverju? Vilji þingsins liggur alveg ljóst fyrir. Ráðherrar eiga að framfylgja vilja þingsins. Ráðherrar geta ekki valið og hafnað þingsályktunum eftir hentugleika.“

Þetta sagði Ágúst Ólafur Ágústsson á sínum tíma, með leyfi forseta. Það er þessari ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórn til háborinnar skammar að þær skuli draga lappirnar í svo langan tíma að fara að þeim lögum sem hafa verið samþykkt hér á þingi.

Áfram segir:

„Katrín sagði dómsmálaráðuneytið fara með málið og að það hefði verið rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar. „Ég veit að þetta hefur tekið tíma því þetta er töluvert flókið og hvort heimsfaraldur hafi eitthvað tafið fyrir því verkefni kann ég ekki að útskýra en ég veit að það hefur verið einhver vinna í gangi. Ég skal kanna það hvort við eigum von á slíku frumvarpi á þessu þingi því ég hef í raun og veru ekki haldbærar skýringar á því af hverju þetta er ekki á þingmálaskrá.“

Það er alveg staðreynd að þegar um málefni fatlaðs fólks er að ræða, málefni þeirra verst settu, eldri borgara og aldraðs fólks, þegar um málefni öryrkja eða þeirra sem verst hafa það í íslensku samfélagi er að ræða þá eru lappirnar dregnar í því að tryggja réttindi þeirra. Okkur ber skylda til þess hér á þingi, og sérstaklega þegar við erum búnir að samþykkja það fyrir tveimur árum síðan, að fara í það að lögfesta samninginn, að klára það.

Í 1. gr. valfrjálsrar bókunar við samninginn um réttindi fatlaðs fólks segir, með leyfi forseta:

„Aðildarríki að bókun þessari viðurkennir vald nefndarinnar um réttindi fatlaðra til þess að taka við og fjalla um orðsendingar frá og fyrir hönd einstaklinga eða hópa einstaklinga sem falla undir lögsögu þess og telja sig þolendur brots þess á ákvæðum samningsins.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þetta þýðir að þegar, og vonandi sem fyrst, samningurinn verður lögfestur og valfrjálsa bókunin einnig þá hefur fatlað fólk vald. Því verður fært vald til að kæra alla þá meðferð sem það telur sig ekki fá en eigi lögbundinn rétt á. Þetta er gífurlega mikilvægt og sérstaklega í málefnum fatlaðs fólks vegna þess að við vitum að réttindi þeirra hafa því miður hingað til ekki verið sérstaklega vel varin.

Í 4. gr. valfrjálsu bókunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin getur, hvenær sem er eftir að henni berst orðsending og áður en ákvörðun um inntak hennar hefur verið tekin, sent hlutaðeigandi aðildarríki beiðni til skjótrar umfjöllunar þess efnis að aðildarríkið geri bráðabirgðaráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til þess að koma í veg fyrir hugsanlegt óbætanlegt tjón fyrir þolandann eða þolendur ætlaðs brots.“

Þetta er gífurlega mikilvægt og sýnir hversu nauðsynlegt það er að lögfesta þessa valfrjálsu bókun. Ef fatlað fólk telur á sér brotið á einhvern hátt þá getur það farið og kært. Þá ber ríkisstjórninni að taka tillit til þess. Annað sem er mjög gott í þessu er að hópar geta einnig kært, ekki bara einstaklingar.

Ég ætla ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta en ég vona heitt og innilega að þessi valfrjálsa bókun fari nú til velferðarnefndar og þar verði farið að vinna í því, og virkilega brett upp ermar, bæði að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og þessa bókun. Við verðum að átta okkur á því að í samningnum um málefni fatlaðs fólks er gefið upp mjög ítarlega hvað á að verja. Eins og segir um það í valfrjálsu bókuninni þá eru þarna kæruleiðir fyrir einstaklinga og hópa vegna brota á samningnum sem var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006. Þetta var 2006 en við erum komin í 2022 og ég segi: Við eigum ekki að leyfa okkur að bíða lengur með þetta. Það er búið að lofa þessu. Það er búið að samþykkja hér á þinginu að gera eitthvað í þessu máli. Núna eigum við að gera kröfu um það að við klárum þetta mál, bæði lögfestingu samningsins og lögfestingu valfrjálsu bókunarinnar í eitt skipti fyrir öll.



[17:06]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mér varð nú svolítið hverft við þegar ég greip þetta skjal úr hillunni áðan til að búa mig undir að mæta í ræðustól og sá ekki nafnið mitt hérna. Ég gleymdi að láta hv. þingmann vita að ég vildi gerast meðflutningsmaður. Nú er það of seint en það færist hér með til bókar að sú var ætlun mín. En beiðnin barst akkúrat þegar verið var að skipta mér aftur inn á fyrir varamann sem hafði sæti hér fyrstu viku vetrar. Mér finnst mjög brýnt að þetta mál nái fram að ganga eins og mér finnst fáránlegt að þurfa að leggja það fram. Þessi þingsályktunartillaga segir ekkert annað en að ríkisstjórnin eigi að fara eftir tveimur þingsályktunartillögum, ekki bara einni, sem hafa verið samþykktar hér á Alþingi áður. Efndirnar eru ekki meiri en svo að það þarf að ýta á eftir verklausri ríkisstjórninni með tillögu um áður samþykkta hluti.

Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það í ræðu sinni um hvað þetta mál snýst. Þó að megintilefnið sé valfrjálsa bókunin við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er lögfesting samningsins í heild sinni eitthvað sem við þurfum líka að ræða. Ég fletti upp í skýrslu sem forsætisráðherra dreifði hér á þingi í gær, held ég, um framkvæmd ályktana frá Alþingi á árinu 2021. Þar er einmitt fjallað um þingsályktun 33/149, um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, þar sem fyrsti flutningsmaður var hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson og með honum var hálft þingið á málinu. Öllum þótti okkur þetta hið sjálfsagðasta mál og mesta þjóðþrifamál. Í þeirri ályktun er ríkisstjórninni falið að koma með frumvarp eða hvort það var að koma þessu nógu snemma til þingsins þannig að þessu yrði lokið 13. desember 2020. 13. desember var valinn, ef ég man rétt, vegna þess að það er afmælisdagur samningsins. Þá var gengið frá honum hjá Sameinuðu þjóðunum á sínum tíma. Árið 2020 var fyrir tveim árum.

Hvað stendur í þessari skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana, um framkvæmd ályktana, þar sem vilji þingsins er skýr, þar sem ríkisstjórninni er falið að gera eitthvað? Það er bara vísað í einhverja heildarvinnu um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks, að gerð verði landsáætlun um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem er gott og vel. Það er kannski ágætt að vinna að slíkri yfirgripsmikilli innleiðingu á þeim grundvelli en hvaða tímarammi er gefinn? Í fyrsta lagi er ekki gefinn tímarammi á framlagningu frumvarpsins, sem er það sem þingið samþykkti að ætti að gera, heldur er bara sagt að undirbúningur lagafrumvarps verði á ábyrgð verkefnisstjórnar og verði unninn samhliða þessari landsáætlun. Svo er hérna sá tímarammi að stefnt sé að því að leggja fram þingsályktunartillögu um landsáætlun á Alþingi haustið 2023. Það er eftir ár. Óttalega er biðin eftir réttlætinu löng, það verður nú að segjast.

En af hverju skiptir þetta máli? Þetta skiptir máli vegna þess að á meðan ekki er búið að búa almennilega um þessi mál, festa þau í lög, gera það að skyldu ríkisins að tryggja réttindi fatlaðs fólks og gera það að rétti fatlaðs fólks að sækja mál gegn ríkinu hjá alþjóðlegum úrskurðaraðila, geta stjórnvöld skákað í því skjóli og komist upp með ótrúlegustu hluti. Þá er t.d. ekki það úrræði fyrir fatlaðan mann, sem er brottvísað með hörðum aðferðum, að sækja rétt í sínu máli eftir þeirri leið, eða, svo að ég nefni bara dæmi af handahófi, fyrir samtök eins og Þroskahjálp að gera það fyrir hans hönd. Kæruleiðin er ekki fyrir hendi meðan ekki er búið að lögfesta valfrjálsu bókunina. Kannski er það ástæðan fyrir töfinni. Kannski er þetta ekkert óvart, kannski er það bara voða þægilegt fyrir stjórnvöld að geta kerfisbundið vanrækt skyldur sínar, jafnvel brotið á réttindum fatlaðs fólks meðvitað vitandi að afleiðingarnar eru bara oft býsna litlar. Það er dýrðin við þennan samning og valfrjálsu bókunina að það er bölvað vesen fyrir löndin sem lögfesta það. Þannig á það að vera vegna þess að lönd, ríki, ríkisstjórnir, um allan heim hafa um aldur og ævi komist upp með að jaðarsetja fatlað fólk og gera þátttöku þess í samfélaginu erfiða án þess að það hafi einhverjar beinar afleiðingar. Þessi samningur kemur í veg fyrir það. Það þýðir að stjórnvöld þurfa að grípa til aðgerða. Stjórnvöld þurfa að tryggja jafna stöðu fatlaðs fólks við allt annað fólk í samfélaginu, að búa svo um hnútana að fötlun einstaklings komi ekki í veg fyrir fulla samfélagsþátttöku viðkomandi. Þau þurfa líka að gæta þess sérstaklega að eiga samráð við fatlað fólk sem við sjáum nú oft misbresti á þegar frumvörp koma hingað til þingsins sem snerta þó þann hóp sérstaklega. Stjórnvöld þurfa að koma sérstaklega vel fram við þennan hóp í viðkvæmum aðstæðum eins og þegar fólk er á flótta. Þar eigum við þessi glænýju konkret dæmi um vanrækslusyndir ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sömu ríkisstjórnar og samkvæmt samþykktri áætlun Alþingis átti að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020; sömu ríkisstjórnar og átti, eigi síðar en fyrir árslok 2017, að fullgilda valkvæða viðaukann, þetta ótrúlega mikilvæga verkfæri sem gerir fólki eða samtökum kleift að leita til nefndar Sameinuðu þjóðanna um framkvæmd samningsins til þess að fá úrskurð um það hvort á því hafi verið brotið.

Ég held, frú forseti, því miður að þær miklu tafir sem eru orðnar á því að ríkisstjórnin fari eftir skýrum og ítrekuðum vilja Alþingis séu engin tilviljun, að þetta séu jafnvel bara meðvitaðir tafaleikir. Þess vegna, akkúrat þess vegna, skiptir svo miklu máli að hv. þingmaður sýni hér þá þrautseigju að leggja þetta mál fram aftur og aftur til þess að minna stjórnvöld á, til að sýna að við munum ekki gleyma þessum samningi, munum ekki leyfa ríkisstjórninni að komast upp með það að vanrækja það sem er sjálfsögð skylda hennar til að bæta stöðu fatlaðs fólks í samfélaginu.



[17:16]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hann kom ítarlega inn á það eins og framsögumaður, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, að búið er að samþykkja þingsályktunartillögu um fullgildingu á þessari valfrjálsu bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í þingsályktunartillögu nr. 61/145 var meira að segja kveðið á um að það skyldi gert fyrir árslok 2017. Ég sé þarna ákveðið máttleysi æðstu valdastofnunar landsins, Alþingis Íslendinga, gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég velti fyrir mér og væri gaman að heyra skoðanir hv. þingmanns á því: Hvaða úrræði getur Alþingi beitt þegar ekki er farið að þingsályktunartillögu þess? Ég hef ekki skoðað það nákvæmlega en ég veit að fullgilding er framkvæmdarvaldsathöfn og það er ráðherra málaflokksins sem þarf að fullgilda bókunina, ég veit ekki hvort hægt er að skoða aðkomu Alþingis, eitthvað slíkt, en hvaða úrræði er eiginlega hægt að beita? Við erum að lenda í þessu trekk í trekk á Alþingi, ég er nú nýbyrjaður hérna. Við sjáum þetta t.d. varðandi ríkisborgararétt og önnur mál. Hvað er hægt að gera í svona málum? Hér er komin önnur þingsályktunartillaga sem hefur verið samþykkt. Það sem ég skil ekki er að nú vill hæstv. forsætisráðherra tengja sig við mannréttindi og hefur mannréttindamálin á sinni könnu, Mannréttindaskrifstofu, og þau eru ófá málin sem koma til allsherjar- og menntamálanefndar hvað það varðar en samt er ekkert gert í þessu máli sem lýtur að réttindum fatlaðs fólks og kæruheimildum þess til erlendra aðila. Íslendingar hafa sótt rétt sinn út fyrir landsteinana frá tímum Jóns Hreggviðssonar, liggur mér við að segja. En spurningin er þessi: Hvað getum við gert í málinu?



[17:18]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Stórt er spurt. Ég er ekki með svarið, ég er ekki með patentlausn á þessu en auðvitað vekur þetta okkur til umhugsunar. Hér erum við að ræða tvær þingsályktanir sem voru samþykktar. Vissulega voru ákveðin vandkvæði varðandi lögfestinguna á samningnum, það var ekki ljóst hvaða þýðingu ætti að notast við til að leggja fram með frumvarpi. En búið er að vinna bug á því vandamáli og þar ættum við að vera komin miklu lengra og hvað varðar fullgildingu bókunarinnar þá eru fimm ár síðan henni átti að ljúka. Eins og hv. þingmaður segir þá er það einföld stjórnvaldsathöfn. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir því. Það er nánast bara að draga stimpil ofan úr hillu og ganga frá því uppi í ráðuneyti og skila þá væntanlega inn til Sameinuðu þjóðanna. En dæmið sem hv. þingmaður nefnir um ríkisborgararétt sýnir að þetta gerist ekki bara varðandi þingsályktanir, sem er svona veikari afurðin af þeim tveimur sem við skilum helst frá okkur, heldur líka varðandi hreinan lagabókstaf sem er þó sá sterki texti sem héðan kemur, sá sem á að fylgja. Þingsályktun er í raun kannski aldrei meira en sterk viljayfirlýsing sem stjórnvöldum ber ákveðin mórölsk skylda til að fylgja. En þegar farið er að brjóta lög gagnvart þinginu, og við erum búin að sjá hæstv. dómsmálaráðherra gera það í skjóli meiri hlutans allt þetta ár þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að vinna bug á því háttalagi, þá spyrjum við okkur eðlilega: (Forseti hringir.) Hvað gerir þingið þegar ríkisstjórnin hunsar skýran vilja þess? (Forseti hringir.) Við erum í dálitlum vanda meðan meiri hluti þings styður þá ríkisstjórn.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)



[17:21]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og kemur fram í ágætri greinargerð með þessari þingsályktunartillögu þá er fullgildingin til skoðunar hjá íslenskum stjórnvöldum. Ég vil líka vekja athygli á því að tillagan til þingsályktunar er um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ég vil bara beina þeim orðum mínum til framsögumanns hér, hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar, að ég tel rétt að við leggjum fram frumvarp um lögfestingu á þessari bókun. Ég held að það gæti skapað grundvöll fyrir það að fatlaðir einstaklingar gætu kært utan landsteinana. Það er þá alla vega kominn lagagrundvöllur hér heima. Ég get ekki séð að ein undirritun við fullgildingu eða bréf frá framkvæmdarvaldinu út í heim skipti máli þar. Ég get ekki ímyndað mér að nefndin fari að segja nei við því að taka á móti kæru héðan. Ég vil vekja athygli á máli sem kom upp hér fyrir nokkrum vikum þegar fatlaður maður var tekinn úr stóli sínum. Ef við hefðum innleitt þetta, (Forseti hringir.) telur hv. þingmaður ekki að fullgildingin og lögfestingin myndi auka réttindi og meðvitund innan stjórnkerfisins og annars staðar í samfélaginu (Forseti hringir.) að þessi kæruleið væri virt eins og við sjáum varðandi Strassborgardómstólinn?



[17:22]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Jú, auðvitað myndi þetta verða öflugt verkfæri hjá fötluðu fólki til að sækja rétt sinn gagnvart stjórnvöldum. En það er kannski ástæðan fyrir tregðunni hjá stjórnvöldum, ekki bara þegar einstaklingar telja á sér brotið, að þeir geti fengið úr því skorið hjá óháðum aðila, heldur líka varðandi öll hin réttindin sem kosta beinharða peninga. Þar erum við kannski komin að helstu ástæðunni fyrir því að stjórnvöld sjá hag sinn í því að fullgilda ekki og lögfesta ekki vegna þess að þá þarf að fara að veita fötluðu fólki almennilega þjónustu sem þau hafa verið snuðuð um til þessa.

En þá datt mér í hug: Við þinglokasamninga hefst mikil rekistefna í þá veru að stjórnarliðar vilja ekki hleypa stjórnarandstöðunni í gegn með eitt einasta mál öðruvísi en að vísa því frá. Meðhöndlunin á þessum þingsályktunum tveimur sýnir að stjórnarflokkarnir gætu alveg eins leyft okkur að láta samþykkja þetta hér í þingsal (Forseti hringir.) ef það hefur í raun sömu áhrif. Við samþykkjum og það er ekkert gert með það, er ekki bara alveg eins hægt að vísa hlutum frá?



[17:24]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir ræðuna. Ég vil bara taka heils hugar undir það með honum, og ég gerði mér fulla grein fyrir því, að hann hefði viljað vera á þessu máli. Eigum við ekki að segja að málið fari inn í velferðarnefnd og fari með hraðferð í gegnum hana, verði samþykkt beint inn í þingsal og við gerum nefndarálit og hann verði örugglega með á því? Nei, það yrði eins og í draumaheimi.

Hv. þingmaður spurði hvers vegna ríkisstjórnin drægi lappirnar í að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og einnig valfrjálsu bókunina. Ég spyr hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé vegna þess að málefni fatlaðs fólks séu í óefni hjá ríkisstjórninni. Við erum með 150 fatlaða einstaklinga lokaða inni á hjúkrunarheimilum, einstaklinga sem eru jafnvel milli þrítugs og fertugs. Það segir okkur að það er eitthvað mikið að kerfinu. Stjórnvöld afsaka sig alltaf með því að það sé flókið að breyta öllum þeim lögum sem þarf að breyta og þar af leiðandi taki þetta langan tíma. En er hv. þingmaður ekki sammála mér um að þegar um er að ræða málefni fatlaðs fólks, aldraðra, öryrkja, þeirra sem utar standa, þá sé allt flókið og erfitt og mikið vandamál en þegar um það er að ræða að breyta lögum fyrir þá sem hafa það virkilega gott og hafa fjármunina þá séu hlutirnir ekki flóknir og þá sé ekki neitt erfitt að samþykkja lög sem gera það að verkum að hinir ríku verða ríkari?



[17:26]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mér fannst hv. þingmaður í raun vera að spyrja mig hvort Ísland sé nokkuð stéttlausa samfélagið sem mér heyrðist fólk uppi í Valhöll halda fram að það væri nú um helgina. Það er það svo augljóslega ekki og hægt er að líta á ýmsa jaðarsetta hópa því til stuðnings. Vandinn við stóran hóp fatlaðs fólks og þá þjónustu sem því er ekki veitt er að það er búið að lögfesta mikið af því. Við erum með NPA-lögin sem kveða á um þjónustu við fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Sú þjónusta er skömmtuð með fjárlögum þannig að hún nær ekki upp í þá þörf sem er raunverulega til staðar í samfélaginu.

Í sömu lögum er, að mig minnir, fjallað um rétt fatlaðra einstaklinga til sjálfstæðrar búsetu. Til að sá réttur raungerist þarf einhver, annaðhvort frá ríki eða sveitarfélögum, að taka sig til og ræða við það fólk sem mögulega gæti nýtt sér slík úrræði, fólk sem er mögulega á einhverjum sambýlum eða í einhverjum búsetuúrræðum sem heyra orðið að mestu til gamalli tíð og við þurfum að fara að fasa út. Það þarf að banka upp á hjá öllu þessu fólki og athuga hvort það eigi ekki frekar heima í sínu eigin húsnæði í samræmi við NPA-lögin og með þjónustu á eigin forsendum í samræmi við lögin. Mér vitanlega er engin slík vinna farin af stað neins staðar enda myndi sá halli sem er á framkvæmd stjórnvalda gagnvart fötluðu fólki verða enn brattari. Þá allt í einu myndi birtast fólk sem á lögum samkvæmt heimtingu á meiri þjónustu en það er að fá í dag en situr í einhverjum úreltum úrræðum, og við það er látið sitja.



[17:28]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Ég er innilega sammála honum. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá að fatlað fólk var bara vistað í útihúsum, sem segir okkur margt. Ég hef líka margoft bent á hreppaflutninga á fötluðu fólki. Maður myndi halda að það væri liðin tíð. En það er bara örstutt síðan ég sá frétt um að fatlaður einstaklingur á hjúkrunarheimili hafi verið fluttur hreppaflutningum út á land í andstöðu við hana sjálfa, hún var ekki einu sinni spurð. Svo heyrum við líka að verið er að úthýsa fötluðu fólki af hjúkrunarheimilum vegna þess að hjúkrunarheimilin telja sig ekki geta ráðið við að þjónusta viðkomandi. Við erum sammála því að það þarf að lögfesta samninginn og það þarf að lögfesta viðaukann. Þá fyrst er ekki hægt að horfa fram hjá réttindum fatlaðs fólks og þá verður að fara að taka á vandanum.



[17:29]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Rétt örstutt: Ég tek undir með hv. þingmanni. Kjarninn í því sem við höfum verið að ræða í þessum andsvörum er að það er ekki hægt að skilyrða mannréttindi við fjárveitingar, það þarf bara að uppfylla mannréttindi. Með því að lögfesta samninginn verður sú skylda enn skýrari. Þá verður enn erfiðara að draga lappirnar sem er væntanlega ástæðan fyrir því að lögfestingin hefur beðið jafn lengi og raun ber vitni.



[17:30]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Við mælum hér fyrir sannarlega sanngirnis- og réttlætismáli sem á ekki að þurfa að mæla fyrir oftar en einu sinni. Það er stór hluti þingheims sem er meðflutningsaðilar á þessari tillögu en samt sem áður ekki meiri hluti og ég get ekki séð að það séu margir úr ríkisstjórnarflokkunum sem styðja þessa tillögu um valfrjálsu bókunina, að við löggildum valfrjálsu bókunina um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Ég tel ástæðu til að taka sérstaklega fram hvernig í raun og veru hefur verið komið fram á margan hátt svívirðilega við fatlað fólk. Bara það að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki vera búin fyrir langa löngu að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir allt sem segja þarf um vilja hennar til að mæta þörfum fatlaðra á Íslandi í dag. T.d. langar mig að vísa hérna í j-lið formálsorða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem segir:

„Ríki, sem eiga aðild að samningi þessum, sem viðurkenna nauðsyn þess að efla og vernda mannréttindi alls fatlaðs fólks, þ.m.t. þess sem þarf mikinn stuðning, …“

Í 1. gr., í markmiðsákvæðinu, er tekið fram að markmiðið með samningi þessum, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem valfrjálsa bókunin byggir á, sé „að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.

Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“

Ég get ekki látið staðar numið hér, virðulegi forseti, öðruvísi en að vísa í 15. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs, fólks þar sem segir:

„Enginn skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Einkum og sér í lagi er óheimilt að gera læknisfræði- eða vísindatilraunir á nokkurri manneskju án samþykkis hennar.“

Út úr þessari grein langar mig að taka hér í kjölfarið á mikilli umræðu sem hefur skotið upp kollinum og vaðið hér eins og eldur um akur, eðli málsins samkvæmt þegar ráðist er á fatlaðan einstakling í hjólastól. Það er í engu sem komið er fram við hann af mannúð eða virðingu þegar honum er vísað úr landi með valdi. Ráðist er að honum með slíkri grimmd að það er ekkert skrýtið þó að við rísum öll meira og minna upp á afturlappirnar til að fordæma slík vinnubrögð. Fékk þessi ungi maður að halda sinni reisn? Nei. Var komið mannlega fram við þennan mann? Var honum sýnd mannúð að einhverju leyti? Nei. Hvernig er þessi einstaklingur í stakk búinn til að vera sendur, í því ástandi sem hann er, aleinn á ókunnan stað, algerlega upp á sjálfan sig kominn og meira að segja sviptur því hjálpartæki, hjólastól, sem var þó a.m.k. að gera honum ferðirnar þægilegri heldur en það rusl sem hann var sendur með héðan frá okkur?

Ég vil bara benda á það, virðulegi forseti, að ef við værum búin að stíga það skref að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þá hefði aldrei verið hægt að koma eins svívirðilega fram við þennan unga mann, fatlaða unga mann, og við gerðum hér þessa margumtöluðu andstyggðarnótt.

Það er eitt að hafa heimildir til þess að vísa fólki úr landi og fylgja reglum og lögum. En það er annað að sýna manngæsku og mannúð þegar kemur að því. Það er nefnilega það. Það er enginn að tala um að hér eigi að vera opinn krani og allir eigi að koma til Íslands, allar þær milljónir manna sem eru að leita sér að betra lífi, 100 milljónir manna, 200 milljónir manna. Að sjálfsögðu erum við ekki að tala um það. En þegar ráðist er svona að fötluðum einstaklingi eins og þarna er gert þá er ekki furða þó að upp úr sjóði því gegnumheilt eru Íslendingar og við með risastórt hjarta úr gulli og við þolum ekki svona ljótar, mannvonskulegar aðfarir eins og þessi ungi maður mátti sæta.

Þannig að ég segi: Þessi viðauki sem hér er um rætt, þessi valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna sem við erum að óska eftir hér að verði samþykkt, er í rauninni lítið skref en nauðsynlegt skref í þá átt að veita a.m.k. einstaklingum, sem eiga eðli málsins samkvæmt að vera eins settir og kostur er á þann stað að vera sem næstir því að vera ófatlaðir miðað við fötlun sína — en erum við að gera það? Nei. Árum saman hefur verið ákall um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Flokkur fólksins mun mæla fyrir þessu frumvarpi enn eina ferðina, væntanlega mun ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur taka fallega utan um málið þegar ég mæli fyrir því vegna þess að þau hafa þegar gefið það út að samninginn eigi að löggilda.

Virðulegi forseti. Það var sem sagt með óbragð í munni og tárin í augunum sem stór hluti þjóðarinnar horfði á aðfarirnar þegar þessi ungi maður var gripinn eins og hver annar hveitipoki úr stólnum sínum og fleygt aftur í bíl eins og ég veit ekki hvað. Ég hef skömm á svona stjórnsýslu. Ég hef skömm á svona stjórnvöldum og ég hef skömm á því að við skulum ekki hafa dug til að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem sýnir enn og aftur hvaða álit íslensk stjórnvöld hafa á þeim sem minna mega sín, hafa á fötluðu fólki. Við höfum alltaf verið, og erum enn í þeirra augum, tíunda flokks þjóðfélagsþegnar.



[17:39]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég studdi það á sínum tíma að valfrjálsa bókunin yrði samþykkt, þ.e. að hana skyldi einnig fullgilda. Ég stend enn þá við það að ég telji að svo eigi að vera og álykta reyndar sem svo að sú vinna hljóti einhvers staðar að vera í gangi enda samþykkt ályktun hér á Alþingi.

Mig langar fyrst að segja að ég mótmæli því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur dragi lappirnar í þessum málum eins og hér hefur verið talað um. Það er vel hægt að vilja að hlutir gangi hraðar fyrir sig. Hins vegar er það í stjórnarsáttmála, og ekki verið rætt um neitt annað, að lögfesta skuli samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og að koma á fót mannréttindastofnun. Að þessu er verið að vinna og hefur verið unnið að því síðan Ögmundur Jónasson var ráðherra að innleiða þennan samning, þ.e. með því að breyta öðrum lögum, til að mynda um málefni fólks með sértækar stuðningsþarfir. Það hefur verið gert til að koma til móts við samninginn og færa okkar löggjöf í rétta átt.

En mig langar að spyrja hv. þingmann hvort að hún eða hennar þingflokkur hafi beint fyrirspurn til dómsmálaráðherra, sem að hafði alla vega einu sinni með þetta mál að gera, um það hvernig vinnunni við nákvæmlega þetta mál er háttað?



[17:41]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er engin vinna sem þarf að vera unnin hér. Samningur Sameinuðu þjóðanna er algerlega tilbúinn og hann liggur hreinlega á borðinu og hefur gert það núna síðustu 15 ár, ég veit ekki í hversu langan tíma en minnir að það hafi verið í mars 2007 sem skrifað var undir viljayfirlýsinguna og annað slíkt. Ég veit ekki hversu mörg ár þarf til þess. Vilji ráðherra er alveg skýr. Það er búið að mæla fyrir þessum samningi oftar en einu sinni og oftar en tvisvar við litlar eða engar undirtektir og jafnvel enginn ráðamaður í salnum. Ég vil meira að segja leyfa mér að segja, hv. þingmaður, að þau hafi ekki hugmynd um að við séum að ræða þetta mál akkúrat núna. Ég geng nú svo langt vegna þess að værukærðin og tómlætið gagnvart fátæku og fötluðu fólki er með slíkum ólíkindum að ég trúi varla að þau séu með eyrun opin.



[17:42]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það er með ólíkindum að tala svona, auðvitað fylgjast ráðherrar með því sem er á þingmálaskrá. Eins og ég kom að í mínu fyrra andsvari þá var samþykkt hér á Alþingi að þetta væri partur af því máli sem er undir. Líkt og ég rakti áðan þá er unnið að því að koma með frumvarp sem varðar lögfestingu á samningnum og einnig að koma hér á fót mannréttindastofnun. Fleiri ræðumenn í dag hafa talað um að hér sé í rauninni verið að flytja mál sem hafi í aðeins annarri mynd þegar verið samþykkt á Alþingi. Auðvitað er það okkar að ýta eftir því að sú vinna sem þarf að vinna sé unnin. Þess vegna spurði ég hv. þingmann hvort hún og hennar þingflokkur hefðu kallað eftir einhverju í formi fyrirspurna. Mér finnst bara sjálfsagt að halda þessu máli við og áfram því að ég tel alla vega að íslensk stjórnvöld hafi gengist undir það með samþykkt á Alþingi að valfrjálsa bókunin sé partur af þessum málum, enda er þetta partur af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Svo vil ég líka mótmæla því að það sé einhvers konar skeytingarleysi í garð kjara öryrkja hjá ríkisstjórninni. Við vitum að hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra er að vinna að frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar. Vinna við endurskoðun á lögunum hefur tekið langan tíma og það þarf að klára þá vinnu, en það þarf líka að vanda vel til verka og vinna þessi lög í góðri sátt. Það er hann að gera, m.a. með Öryrkjabandalaginu, og svo hafa bætur verið hækkaðar. Það er alltaf látið eins og það hafi ekki orðið nein hækkun en bætur hafa hækkað. Þarf að halda áfram að bæta kjör öryrkja? Já, það þarf að gera og að því vinnum við.



[17:45]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Bætur hafa hækkað og allt að gerast, ráðherrann er að vinna í málunum og hefði, skyldi, geri og gleðileg jól og allt það. Staðreyndin er hins vegar sú að kjaragliðnun öryrkja- og almannatryggingaþega er nánast að slá Íslandsmet. Á meðan alþingismenn og upparnir í samfélaginu fengu leiðréttingu sinna launa eftir hrunið 2008 voru engir sem sátu eins mikið eftir og almannatryggingaþegar.

Við erum að tala um valfrjálsu bókunina og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ríkisstjórn Íslands er í lófa lagið að samþykkja þessa valfrjálsu bókun, gera það í gær og löggilda strax samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hefði getað gert það fyrir löngu síðan. Viljinn er hins vegar enginn, annars væri búið að framkvæma þetta fyrir löngu síðan, hv. þingmaður. Það er í rauninni dapurt hvernig komið er hér upp og reynt að verja það sem er óverjandi, hvernig verið er að níðast á fötluðu fólki, fátæku fólki og öryrkjum þessa lands og ætla á einhverjum tímapunkti að verja það. Ég skil hv. þingmann að því leytinu til að hún er fulltrúi í þessari ríkisstjórn.



[17:46]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég er stoltur meðflutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu um fullgildingu og lögfestingu valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ferill þessa máls er einkar áhugaverður líkt og hv. framsögumaður Guðmundur Ingi Kristinsson rakti í framsögu sinni. Hér hafa verið samþykktar þingsályktunartillögur um að fullgilda þessa bókun og, eins og kemur fram í greinargerð þingsályktunartillögunnar, var tillaga til þingsályktunar nr. 61/145 samþykkt með breytingartillögu þess efnis að auk samningsins sjálfs skyldi jafnframt fullgilda valfrjálsu bókunina fyrir árslok 2017. Með þeirri breytingu var þingsályktunartillagan samþykkt einróma. Þrátt fyrir það hefur bókunin enn ekki verið fullgild af hálfu Íslands og eins og kemur fram í greinargerðinni er þetta mál enn þá til skoðunar hjá stjórnvöldum. Nú er fullgilding í sjálfu sér ekki flókin athöfn, hún er það alls ekki. Lögfesting er það í sjálfu sér ekki. Við erum með samninginn fyrir hendi og getum lögfest hann og við getum líka lögfest þessa valfrjálsu bókun. Það þarf að leggja þetta fram í frumvarpsformi og þrjár umræður og samþykkja það og þá er þetta orðið lögfest. Það er hins vegar til skoðunar hjá stjórnvöldum hvort eigi að gera það.

Ég tel að hér sé um mikið mannréttindamál að ræða fyrir fatlað fólk og ég bara skil ekki að það sé ekki löngu búið að gera þetta. Þegar Alþingi samþykkir eitthvað, lýsir yfir vilja sínum í þingsályktun til að fullgilda þessa frjálsu bókun fyrir árslok 2017, meiri hluti Alþingis, þá eiga stjórnvöld, ríkisstjórn sem styður við þingmeirihlutann, að framkvæma það fyrir árslok 2017. Núna er kominn nóvember, það er nálgast árslok 2022, fimm ár hafa liðið og það er ekki búið að fullgilda þetta. Það er algerlega með hreinum ólíkindum. Hvað þýðir það að ekki sé búið að fullgilda samninginn? Jú, það þýðir að fatlað fólk hefur ekki kæruheimild til nefndar Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þetta er sambærileg kæruheimild og er t.d. í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og kæruleiðin er líka samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem byggir á þriðju valfrjálsu bókuninni við þann samning.

Ég tel að með því að hafa ekki samþykkt þessa bókun, löggilt hana og lögfest samninginn sé verið að hafa réttindi af fötluðu fólki. Það að þetta sé í endalausri vinnu er algjörlega óásættanlegt. Þetta er eins og annað með þessa ríkisstjórn, eins og kom fram í máli hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur, að það er verið að skoða málið. Það bíður heildarendurskoðunar. Almannatryggingalöggjöfin bíður heildarendurskoðunar. Þrátt fyrir að Flokkur fólksins hafi lagt fram mörg frumvörp um einfaldar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni til þess að bæta réttindi fatlaðra og öryrkja og eldra fólks, nei, þá þarf að bíða heildarendurskoðunar. Það er verið að hafa réttindi af fólki með þessari afsökun: Það er til heildarendurskoðunar. Það er ekkert nema fyrirsláttur. Það þarf ekkert að breyta öllum heiminum þegar verið er að auka réttindi fólks á ákveðnum sviðum og það þarf ekki að bíða heildarendurskoðunar heildarlöggjafarinnar um almannatryggingar þegar breyta þarf ákveðnum réttindum til að gera réttarbætur hjá öryrkjum og öldruðum. Það þarf ekki. Það vita það allir. Það er miklu einfaldara að gera þetta smátt og smátt. Þetta eru einföld úrræði eins og skerðingar og annað slíkt.

Varðandi það að verið sé að taka þann rétt af fötluðum að kæra út í heim, en þá myndi nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks geta tekið á þeim kærumálum sem kæmu til hennar frá fötluðum einstaklingum á Íslandi, þá er það mjög slæmt. Mig langar að benda á 1. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, með leyfi forseta:

„Markmiðið með samningi þessum er að efla, verja og tryggja að allt fatlað fólk njóti til fulls og til jafns við aðra allra mannréttinda og grundvallarfrelsis og að efla virðingu fyrir eðlislægri reisn þess.“

Hérna er bara verið að fara fram á að fatlaður einstaklingur á Íslandi geti farið út í heim, kært fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, fyrir nefnd hjá alþjóðlegri stofnun, skorað á stjórnvöld, sagt að þau séu að brjóta á honum. Og hvaða einstaklingar eru þetta? Þá getum við lesið 2. mgr. 1. gr., með leyfi forseta:

„Til fatlaðs fólks teljast m.a. þau sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“

„Komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“ Hér er bara verið að fara fram á það að einstaklingar á Íslandi geti kært til nefndar Sameinuðu þjóðanna til að tryggja það að þeir geti tekið þátt í samfélaginu með árangursríkum hætti til jafns við aðra. Svo einfalt er það og það þarf enga nánari skoðun. Það þarf enga heildarendurskoðun á löggjöf á Íslandi til að samþykkja þessa bókun. Ég tel reyndar að núna ættu þingmenn að leggja fram frumvarp um lögfestingu þessarar bókunar, samningsins í heild, og ekki að vera að bíða eftir einhverri skoðun í nefnd í Stjórnarráðinu sem kemur lítið úr, ekki nema þeir myndu þá setja það í frumvarpsform. Það væri hægt að gera það á stuttum tíma.

Það kemur fram í greinargerðinni að 100 ríki af þeim 184 ríkjum sem hafa samþykkt þennan samning hafa fullgilt þessa valfrjálsu bókun — en ekki Ísland. Eins og kemur fram í greinargerðinni, í tengslum við úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um stöðu mannréttindamála á Íslandi, þá hafa íslensk stjórnvöld ítrekað verið hvött af öðrum ríkjum til að fullgilda valfrjálsu bókunina. Það eru ekki bara ítrekaðar þingsályktunartillögur sem hafa verið samþykktar, viljayfirlýsingar frá þinginu um að fullgilda, heldur hafa líka önnur ríki verið að benda á þetta. Samt er málið í skoðun. Hvað er það sem er verið að skoða? Mig langar bara að vita það: Hvað er það sem er verið að skoða? Þetta er svo augljóst mál. Þetta er ekki flókið á nokkurn einasta hátt.

Annað sem mig langar að benda á er það að Íslendingar hafa ætíð og yfirleitt sótt rétt sinn erlendis. Við getum tekið dæmi um Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindadómstól Evrópu. Lögfræðingar grínast með að það sé heil álma sem sinnir Íslandi þar. Við erum með fjölda mála frá Íslandi miðað við önnur Norðurlönd, við erum með svo miklu fleiri mál heldur en frá hinum Norðurlöndunum. Íslendingar hafa ætíð sótt rétt sinn erlendis. Það hafa þeir gert um aldir og nægir nánast að tala um Jón Hreggviðsson en hann var í Kaupmannahöfn í 18 ár og beið úrlausnar sinna mála þar. Það var ekki á Íslandi sem hann fékk hana en það er önnur saga.

Ég get tekið dæmi um að við breyttum öllu dómstólakerfi okkar út af máli áhugamanns um hjólreiðar sem var tekinn fyrir brot á biðskyldu og svo fyrir aðeins of hraðan akstur þar sem 50 km hámarkshraði var á Akureyri. Hann kærði það mál til Strassborgar og það breytti öllu héraðsdómstólakerfi landsins þannig að það voru stofnaðir héraðsdómstólar út um allt land og fógetaembættin voru lögð niður, sem var kerfið frá einveldistímanum. Ég efast ekki um að ef fatlað fólk á Íslandi fær þennan rétt til kæruheimildar þá muni það nýta sér hann í ríkum mæli til að tryggja fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra, vegna þess að íslensk stjórnvöld eru ekki að tryggja þennan rétt í dag. Þess vegna er þetta svo mikilvægt. Þetta er mikilvægt af því að íslensk stjórnvöld hafa ekki sinnt þessum málaflokki nægilega og þau geta sagt að þau séu með það í skoðun og annað slíkt. Það er bara staðreynd málsins að við erum eftirbátar annarra ríkja og þess sem önnur ríki hafa gert á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi úttektir mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Það er staðreynd málsins.

Íslenskt samfélag yrði betra og það yrði mannúðlegra og ekki þessi harka sem er í samfélaginu miðað við önnur norræn ríki ef við myndum ganga til móts við fatlaða einstaklinga með því að samþykkja þessa bókun, samþykkja þessa tillögu til þingsályktunar um fullgildingu á lögfestingu þessarar valfrjálsu bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og að sjálfsögðu tryggja þau réttindi sem þar eru. Það eigum við að geta gert án þess að íslenska ríkið fari á hausinn. Það kostar ekki neitt að samþykkja þessa valfrjálsu bókun og það eigum við að gera með miklum meiri hluta þingmanna. Og þegar búið er að svíkja tímafrestinn (Forseti hringir.) um að gera þetta fyrir lok árs 2017 þá eigum við að hafa þennan tímafrest skamman, eins og kemur fram, fyrir árslok 2022. Það er hægt að gera þetta (Forseti hringir.) strax í desember.



[17:57]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég ætla að koma aftur upp í umræðu um valfrjálsu bókunina og ég þakka þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson spurði hér: Hvað er verið að skoða í þessum málefnum? Ég veit það ekki. Ég held að ríkisstjórnin hafi síðustu fimm árin verið í naflaskoðun og kannski fundið eitthvert kusk þar. Það er alveg á hreinu að ríkisstjórnin dregur lappirnar í öllu sem varðar málefni fatlaðs fólks. Síðan kom hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hér upp og benti á að það væri mikið í gangi hjá ríkisstjórninni, þau væru að endurskoða almannatryggingakerfið, það væri verið að ganga í að lögfesta samninginn og breyta lögum og öðru og þetta væri mjög flókið og erfitt mál. Þau eru búin að hafa fimm ár. Með sama hraða, miðað við þær nýju upplýsingar sem ég hef í hv. velferðarnefnd, þá tekur þetta örugglega 50 ár í viðbót og ég segi bara: Guð hjálpi okkur, vonandi verður ríkisstjórnin ekki við völd þá heldur bara sem styst, vegna þess að á meðan hún er við völd þá mun ekkert verða gert í þessum málefnum.

Við sjáum það vel t.d. á þeim vinnubrögðum sem voru viðhöfð við endurskoðun almannatryggingalaganna. Hvers vegna hefur það tekið svo langan tíma? Jú, það er vegna þess að það átti að troða ofan í kok á öryrkjum starfsgetumati. Ég var í þeim nefndum, nefnd Péturs Blöndals og næstu nefnd á eftir. Það vantaði ekki gagnamagnið og það vantaði ekki upplýsingarnar en vandamálið var alltaf að það átti að þvinga fatlað fólk og öryrkja til hlýðni. Það átti aldrei að spyrja hvað það vildi eða gefa því tækifæri til að taka þátt í að ákveða hvernig hlutirnir ættu að vera. Nei, það átti bara að gera þetta samkvæmt vilja þeirra sem eru ófatlaðir, ríkisstjórnarinnar.

Við vitum líka hvernig fór með krónu á móti krónu-skerðingarnar. Hvaða flokkar lofuðu ekki hér fyrir síðustu þrennar kosningar að afnema krónu á móti krónu-skerðingar? Hverjar eru efndirnar? Jú, við erum með 65 aura á móti krónu í dag. Það átti að vera fyrsta skrefið. Ríkisstjórnin hefur sparað sér á þessu tímabili milljarða á ári og tugi milljarða með því að draga lappirnar í þessum málum — tugi milljarða. Og hvers vegna í ósköpunum haldið þið að núna fari þau eitthvað að flýta sér og bretta upp ermarnar og reyna að fara að gera eitthvað? Þau væru löngu búin ef þau hefðu viljað það. Við höfum séð að það er hægt að keyra í gegnum þingið mál á liggur við einum klukkutíma ef vilji er fyrir hendi. Það er alveg á hreinu að ef þessi ríkisstjórn hefði haft vilja til þess að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna og ganga frá því og fullgilda viðaukann og lögfesta hann þá væri hún löngu búin að því. Málið er bara ósköp einfalt, þau vilja ekki gera það og ætla sér ekki að gera það.

Ég hef séð líka hvernig á að fara með endurskoðun almannatrygginga. Það er ekki verið að ljúka endurskoðun almannatrygginga á þessu ári, það er ekki verið að ljúka endurskoðun almannatrygginga á næsta ári og ekki á þarnæsta eða þarþarnæsta ári. Þetta er bara áætlað langt fram í tímann. Og hvers vegna? Jú, vegna þess að þá er hægt að draga hvern einasta hlut lengur og lengur þannig að það séu minni líkur á því að öryrkjar og fatlað fólk fái sín réttindi. Það er fullyrt að ríkisstjórnin hafi hækkað bætur almannatrygginga. Jú, það er rétt, þau hækka bætur almannatrygginga og það er enginn efast um að þau séu að gera það en eru þau að hækka þær nóg? Eru þau að hækka þær samkvæmt lögum, skv. 69. gr.? Fara þau eftir launaþróun? Nei, það er komin yfir 50% kjaragliðnun. Og þegar þau hækka þá koma þau rosalega stolt og segja: Við hækkuðum um 3%, við hækkuðum um 4%. Síðustu 3%, hækkunin sem var núna í sumar og þau eru að hæla sér svona rosalega af, ég er búinn að sýna það og það er mjög einfalt reikningsdæmi: 3% hækkun, almenn hækkun á bætur almannatrygginga, í flestum tilfellum skilar bara 20% af henni sér í vasa þeirra sem eru heppnir, hjá sumum ekkert vegna skerðinga og keðjuverkandi skerðinga. 80% rennur strax beint í ríkissjóð aftur. Og hvers vegna vilja þau hafa þetta svona? Jú, vegna þess að það hentar. Þau vita það. Þau geta hælt sér af því: Jú, við settum peninga inn í þetta. En þau vita ósköp vel að þeir peningar fóru að stórum hluta í gegnum vasa þeirra sem þurftu á þeim að halda og beint aftur í ríkissjóð. Og það sannar þetta svart á hvítu að það sem við höfum gert undanfarin ár þegar við erum að koma með jólabónus eða aukagreiðslur að við erum með þær skatt- og skerðingarlausar. Það er ekkert að ástæðulausu. Það er það eina sem skilar sér beint í vasa viðkomandi, eins og á sínum tíma þegar ég fékk samþykkt að bifreiðastyrkir yrðu skattlausir. Þá fóru þeir að skila sér beint til viðkomandi sem styrkur til að hjálpa þeim, til að aðstoða viðkomandi við að geta verið með bifreið og annað. Eins og þetta var sett upp áður þá var þetta kvöð vegna þess að það endaði með því að skerða ekki bara venjulegar bætur innan almannatrygginga heldur fór það yfir í félagsbótakerfið og í húsaleigubætur og annað sem kom bara auðvitað málinu ekkert við. Hvað kemur bílastyrkur húsaleigubótum við?

Þetta gildir um allt. Sama er með fjármagnstekjur. Hvers vegna í ósköpunum er t.d. bara 25.000 kr. frítekjumark á lífeyrissjóði? Hefur einhver fengið skýringu á því? Hverjum datt það í hug? Af hverju 25.000 kr.? Af hverju ekki 50.000, 100.000, 200.000? Af hverju 25.000 kr.? Það er óskiljanlegt fyrirbrigði. Þetta sýnir að ríkisstjórnin gerir bara ekkert fyrir okkur. Við vitum líka að þau hafa verið að hæla sér hérna af því hvað ríkisstjórnin hefur verið að gera en þegar hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir svaraði kom hún ekkert að því hvers vegna í ósköpunum frítekjumarkið er aldrei hækkað. (Gripið fram í: … skoða það.) Hvers vegna í ósköpunum? Þið eruð kannski að skoða það en þið eruð búin að vera að skoða það kannski í fimm ár. Frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja ætti að vera 250.000 en ekki 109.000. Frítekjumark á fjármagnstekjuskatt ætti að vera margfalt. Þetta hefur ekki hækkað í á annan tug ára. Þetta er skattur. Þetta er skerðing á réttindum og fjármunum öryrkja. Það er verið að taka þarna fjármuni með því að sleppa því að hækka þetta frítekjumark. Þar af leiðandi liggur staðreyndin liggur fyrir.

Ég vona heitt og innilega að eitthvað verði gert í þessum málum en því miður hef ég enga trú á því með þessa ríkisstjórn við völd, því miður. Það verður í fyrsta lagi eitthvað vonandi sem skeður þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum og brettir upp ermarnar og kemur hlutunum í lag. Fatlað fólk á þann rétt að það sé farið að lögum og að við göngum í það að vera ekki bara með einhverja sparisamninga um samning Sameinuðu þjóðanna, skrifum undir og þykjumst ætla að gera hlutina. Við eigum að fara að sjá til þess að það sé gert og standa við það sem við lofum og sýna a.m.k. einu sinni þann manndóm að virða alþjóðleg réttindi fatlaðs fólks. Maður getur alltaf látið sig dreyma en það er mjög ólíklegt, því miður, að þessi ríkisstjórn muni sjá til þess. En vonandi, ég bara vona heitt og innilega að hún samþykki og við náum þessu máli um valfrjálsu bókunina út úr velferðarnefnd. Ef það tekst þá er stórt skref komið vegna þess að þá hefur fatlað fólk kæruheimildina. Þá getur það varið sig.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til velfn.