153. löggjafarþing — 28. fundur
 9. nóvember 2022.
störf þingsins.

[15:02]
Guðrún Hafsteinsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í mars á síðasta ári hófst starfsemi Sigurhæða á Selfossi þar sem boðið er upp á þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi. Það var Soroptimistaklúbbur Suðurlands sem hafði forgöngu um stofnun verkefnisins og langar mig að þakka þeim fyrir framtakið hér úr ræðustóli Alþingis. Sigurhæðir eru fyrsta og eina úrræði sinnar tegundar á Suðurlandi og er með víðtækasta og virkasta net samstarfsaðila á landinu eða 22 aðila alls. Vert er að taka fram að mikil ánægja með verkefnið frá samstarfsaðilum og hafa þeir nefnt hversu gott er að geta vísað konum í úrræði þar sem faglegur og hlýr faðmur tekur á móti þeim. Mjög gott samstarf hefur verið við lögregluna, Félagsþjónustu sveitarfélaga og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Á þessu fyrsta starfsári Sigurhæða hefur starfsemin verið afskaplega vel tekið og ljóst er að mikil þörf var fyrir þjónustu sem þessa. Nú er svo komið að tæplega 200 konur hafa verið eða eru í þjónustu Sigurhæða og viðtöl nálgast 600. Er þá viðamikið hópastarf ekki talið með. Sigurhæðir hafa fest sig í sessi bæði sem verkfæri samstarfsaðilanna 22 sem nýta úrræðið mjög vel og einnig meðal sunnlenskra kvenna sem æ oftar koma að eigin frumkvæði. Höfuðverkefni nú er að tryggja rekstrargrundvöll Sigurhæðir til framtíðar. Sigurhæðir hafa leitað til þingsins og til félagsmálaráðuneytisins eftir fjármagni til að tryggja starfsemina til framtíðar. Það er almennt mat allra sem að starfseminni koma og er staðfest í óháðri úttekt Háskóla Íslands á Sigurhæðum að geysimikil ánægja ríkir með Sigurhæðir meðal samstarfsaðila, skjólstæðinga og sjálfboðaliða.



[15:05]
Friðjón R. Friðjónsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Síðastliðinn sunnudag lauk 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, eins og flestum hér er kunnugt. Þar var ekki einungis kosið milli fólks í embætti heldur endurnýjuðum við Sjálfstæðismenn stefnu okkar í mikilvægum málaflokkum. Mig langar sérstaklega til að deila með þinginu og þjóðinni texta sem nú er stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum innflytjenda. Með leyfi forseta:

„Taka ætti vel á móti þeim sem vilja koma hingað til lands til að lifa og starfa. Mikilvægt er að tryggja öryggi erlends verkafólks og virða réttindi þeirra. Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakavottorð, að koma hingað og starfa. Ísland ætti að sýna frumkvæði í því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum hingað.“

Þessi texti var samþykktur með nánast öllum atkvæðum á fjölmennasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins í sögunni og undir hann tek ég heils hugar. Það er því ástæða til að ítreka að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir umburðarlyndi og að Ísland sé opið fyrir fólki sem kemur hingað með löglegum hætti.



[15:06]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hvernig væri að ríkisstjórnin myndi nú um næstu mánaðamót borga út 13. mánuðinn skatta- og skerðingarlaust til allra þeirra sem verst hafa það í almannatryggingakerfinu? Hvernig myndi okkur hérna inni líða með það að vera með 3.500 kr. í mínus á mánuði eftir að hafa greitt öll föst útgjöld heimilisins í síðasta mánuði, stíga síðan þau ömurlegu, erfiðu en nauðsynlegu skref að standa í biðröð eftir mat og einnig senda inn umsókn um fjárhagsaðstoð? Verðbólgan er í hæstu hæðum, jólin fram undan og aldrei hafa fleiri sótt um aðstoð til umboðsmanns skuldara síðan í Covid-faraldrinum. Ráðstöfunartekjur þeirra sem verst hafa það í okkar ríka samfélagi eru langt undir fátæktarmörkum og dragast saman ár eftir ár þannig að sárafátækasta fólkið okkar nær engan veginn endum saman. Best setta fólkið okkar finnur fyrir verðhækkunum á matvöru, húsnæði, leigukostnaði og öðrum nauðsynjum vegna vaxtahækkana svo um munar og er í áfalli vegna þess.

Nálægt 100 manns sóttu um aðstoð vegna fjárhagsvanda til umboðsmanns skuldara í október, sem er 20% aukning að meðaltali frá árinu áður og ástæðan er hækkun á húsnæði, mat, fötum og öðrum framfærslukostnaði. Stærsti hópur þeirra sem leitar til umboðsmanns skuldara eru öryrkjar, eða rúm 40%, og umsóknum þeirra fer fjölgandi. Þá eru 35% þeirra sem leita aðstoðar vinnandi fólk og atvinnulausir eru 20%. Að framansögðu, er ekki kominn tími til að borga út 13. mánuðinn skatta- og skerðingarlaust um næstu mánaðamót til aldraðs fólks og öryrkja í almannatryggingakerfinu þar sem lægsta greiðslan er um 200.000 kr. á mánuði eftir skatt, sem er engin ofrausn? Setjum þetta í samhengi við jólabónus okkar hér á Alþingi og nauðsyn okkar á honum. Er ekki frekar nauðsynlegt að borga þeim verst settu 220.000 kr. skatta- og skerðingarlaust um næstu mánaðamót?



[15:08]
Orri Páll Jóhannsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Nú þegar þjóðarleiðtogar heims og heilu sendinefndirnar hittast í Kaíró í tengslum við COP-fundinn svokallaða varðandi loftslagsmál þá berast líka ýmsar fréttir því tengt er lúta að umhverfismálum og neyslu þjóða. Því ber að fagna hve fréttum af umhverfismálum og því álagi sem hin ágenga tegund maðurinn veldur á jörðina fjölgar, sér í lagi í íslenskum fjölmiðlum, og upplýsingarnar eru meiri um það hvað við göngum gegndarlaust á gæðin sem mannskepna, eins og ég hef reyndar nokkrum sinnum komið inn á í ræðum hér. Í næstu viku er því spáð að mannkynið nái því að verða 8 milljarðar, sem er töluverður fjöldi fólks. Sérfræðingar hafa jafnframt áhyggjur af neyslu og misskiptingu auðs í heiminum, þ.e. sum okkar neyta freklegar en önnur. Það er með öllu óréttlátt að velta skuldinni yfir á þá einstaklinga sem ekki bera sömu ábyrgð og við hin. Mig langar að nota tækifærið hér, hæstv. forseti, og vekja athygli á ágætri grein, talandi um mátt fjölmiðla, þar sem við erum hvött til að stunda nægjusemi í nóvember. Það er nú í tísku að vera með ákveðið átak í hinum og þessum mánuðum ársins en ég hvet hv. þingmenn að rifja upp nægjusemina því að hún var einu sinni talin hér til dyggða en er í rauninni nauðsynleg ef okkur á að takast að stemma stigu við þeirri óheillaþróun sem við okkur blasir.



[15:10]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Við höfum öll réttindi til að hafa ólíkar skoðanir en það þýðir ekki að allar skoðanir séu réttar. Sú skoðun að jörðin sé flöt er röng. Hver sem er hefur rétt til að hafa og tjá þá skoðun en hún er samt röng. Hverjar eru líkurnar á því að hún sé rétt? Engar. Þetta er ekki rétttrúnaður, virðulegi forseti, heldur eina ályktunin sem mögulegt er að draga út frá staðreyndunum sem blasa við um efnið. Þegar fólk hafnar þessum staðreyndum má með réttu kalla það ólík viðhorf, sem áskorun við ríkjandi sannleika, sem baráttu gegn meintum rétttrúnaði, en jafnvel þá er það staðreyndavilla. Stundum er það nefnilega þannig að staðreyndirnar liggja fyrir, málið er margrannsakað og fyrir löngu búið að fara í saumana á því sem um er rætt hverju sinni.

Í stjórnmálum er þó of algengt að staðreyndavillur séu settar fram sem ólík sjónarmið. Eðlilega hefur stjórnmálafólk og kjósendur ólíkar skoðanir á öllu milli himins og jarðar. Tilveran væri ekki nándar nærri jafn skemmtileg ef við værum öll eins eða öll með sömu skoðanirnar. En rétturinn til að hafa og tjá ólík sjónarmið þýðir ekki að staðreyndir, rökfræði og aðgengilegar upplýsingar hætti að skipta máli. Jörðin verður áfram hnöttótt, hvort sem fólki er heimilt að segja hana flata eða ekki. Berum virðingu fyrir muninum á því sem er satt og ósatt, rétt og rangt, rökrétt og órökrétt. Heiðarleiki í stjórnmálum er fullkomlega háður því að kjósendur komi því til skila með atkvæði sínu að þeir meti hið sanna umfram hið ósanna.



[15:12]
Sigmar Guðmundsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vildi gera hér að umtalsefni og benda þingheimi og þjóðinni á áhugaverða grein sem birtist á Kjarnanum í dag. Fyrirsögnin er svona: „Þýskaland sendir nánast ekki nokkurn flóttamann aftur til Grikklands.“ Sagan er þarna rakin. Dómstólar í Þýskalandi hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé ómannúðlegt að gera það og þar er vísað til dóms Evrópudómstólsins frá árinu 2019. Í þessari grein á Kjarnanum er haldið áfram að benda á alls konar staðreyndir, til að mynda að ríki Evrópu hafi sent 96 hælisleitendur til baka til Grikklands á fyrstu sex mánuðum ársins. Við Íslendingar ætluðum að senda 30 á dögunum með einni flugvél í atburði sem hæstv. dómsmálaráðherra talaði um að væri nánast vikulegt brauð hér á Íslandi.

Það er hollt fyrir okkur að hafa þetta í huga. Staðan er sú að það er ómannúðlegt að senda fólk á götuna í Grikklandi, ekki síst ef það er í hjólastól. Þess vegna er sérkennilegt að við skulum gera það og sérkennilegt að stjórnmálaflokkurinn sem stendur einna helst fyrir því skuli á landsfundi sínum um helgina hafa samþykkt það og reynt að fullvissa fólk um að stefnan sé eftir sem áður mannúðleg. Það að segja að maður ætli að vera góður við fólk er ekki nóg, maður þarf að reyna að vera góður við fólk. Það er ekki nóg að hlutirnir séu í orði, þeir verða líka að vera í verki. Þess vegna hafa þrír þingflokkar, Viðreisn, Píratar og Samfylking, lagt fram þingsályktunartillögu, núna í annað sinn, þar sem fram kemur vilji til þess að stöðva brottvísanir og endursendingar flóttafólks til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. Af hverju gerum við það? Jú, það er vegna þess að Ísland á að vera ríki sem virðir mannréttindi og er með þau í verki en ekki bara í orði.



[15:15]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Nú stendur yfir heimsþing kvenleiðtoga í Reykjavík. Þetta er í fimmta sinn sem þetta þing er haldið hér á landi, nú undir yfirskriftinni „Power, Together for Partnership“, sem vísar til mikilvægis samstarfs og samstöðu um jafnréttismál. Á þinginu er fjöldi kvenleiðtoga víðs vegar að úr heiminum og þátttakendur á bilinu 500–600 konur. Sumar eru á fjarfundi en aðrar eru hérna á hafnarbakkanum. Þar á meðal eru ríflega 100 þingkonur og sendinefndir frá 22 þjóðþingum, sömuleiðis leiðtogar á öllum sviðum atvinnulífs, vísinda, fjölmiðla og viðskipta, svo fátt eitt sé nefnt.

Það er gríðarlega mikilvægt að auka sýnileika kvenna í valdastöðum. Í því felst valdefling fyrir komandi kynslóðir kvenna að horfa til eigin framtíðar og vita að þær standi jafnfætis bræðrum sínum, að kyn þeirra sé ekki hindrun heldur tækifæri. Hér á landi er það að verða kunnuglegra að konur gegni slíkum stöðum en við stöndum t.d. frammi fyrir því að í stjórnum er skiptingin verulega ójöfn. Hér á þinginu er hins vegar næstum helmingur þingmanna konur. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar var hlutfall kjörinna kvenna í sveitarstjórnum það hæsta til þessa eða 47%. Það er árangur sem við höfum barist fyrir og þurfum að halda áfram að berjast fyrir því að jafnrétti er auðvitað ekki náð. Þrátt fyrir að fullnaðarsigri hafi ekki endilega verið náð getur góður árangur okkar í jafnréttismálum verið innblástur annars staðar í heiminum þar sem þess er þörf. Þetta þing sem nú er haldið í Hörpunni er liður í því að kynna m.a. árangur okkar og skiptast á skoðunum. Það er í mínum huga bæði heiður og ábyrgð sem við þurfum að axla gagnvart jafnréttinu á heimsvísu.

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum þeim sem standa að þessu mikilvæga þingi og ég vona svo sannarlega að það haldi áfram að vaxa og dafna sem og jöfn réttindi og staða alls fólks óháð kyni.



[15:17]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. 800 milljónir. Já, 800 milljónir er sú upphæð sem við Íslendingar þurfum að greiða í sekt á næsta ári fyrir að hafa ekki staðið við loftslagsskuldbindingar okkar í tengslum við Kyoto-samkomulagið. 800 milljónir sem hefðu getað farið í að niðurgreiða sálfræðiþjónustu eða skera niður biðlista. En það að borga 800 millj. kr. sekt virðist ekki vera næg refsing til að íslenskir ráðamenn taki loftslagskrísuna alvarlega enda hverfur þessi upphæð bara inn í annað í fjárlagafrumvarpinu. Þetta er sekt sem á einungis eftir að hækka þar sem við stöndum ekki við þau loforð sem við gáfum sem hluta af Parísarsamkomulaginu. Það að jöklarnir okkar séu að hörfa, veðurfarið að breytast, skriður falli þar sem sífreri er að bráðna — ekkert af þessu hefur nægileg áhrif til þess að ráðamenn og stjórnmálamenn almennt séu tilbúnir til þess að taka þessa vá alvarlega.

Það er talað fjálglega um orkuskipti sem töfralausn en því miður er engin almennileg aðgerðaáætlun til staðar og stundum virðist eins og stjórnmálamenn vilji nýta þessi orkuskipti til að ná algerlega óskyldum málum í gegn, málum sem jafnvel eru slæm fyrir umhverfið. Við verðum að átta okkur á því að það er þegar komið neyðarástand í loftslagsmálum og það dugar ekkert hálfkák. Við þurfum að fara í alvarlegar aðgerðir strax og ekki sitja og bíða þar til það er of seint að framkvæma. Verður það kannski fyrst þegar fiskurinn, auðlindin okkar, hættir að koma á Íslandsmið sökum hlýnunar sjávar og aukins sýrustigs að stjórnmálamenn á Íslandi átta sig á því að aðgerða er þörf?



[15:19]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Já, í gær sat ég líka þetta frábæra kvennaþing sem haldið er í Hörpu, en mér skilst að hér undir liðnum fundarstjórn forseta hafi ég sem formaður allsherjar- og menntamálanefndar verið gagnrýnd fyrir fundarstjórn mína. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki náð að hlusta á allt það sem fram kom þar undir fundarstjórn forseta en ég ætla bara að segja að það að halda því fram að eitthvað hafi verið afmáð úr fundargerðum allsherjar- og menntamálanefndar er bara helber vitleysa. Það hefur ekki átt sér stað. Svo öllum sé það ljóst mættu fulltrúar ríkislögreglustjóra, stoðdeildir ríkislögreglustjóra, á fund okkar í allsherjar- og menntamálanefnd í gær og áttum við þar mjög gott samtal þar sem þessir aðilar fóru yfir þá brottvísun sem hefur verið mikið í fjölmiðlum og fundarmenn gátu spurt. Á morgun mætir svo á fund nefndarinnar Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra þar sem aftur verður hægt að ræða sama mál og nefndarmönnum er frjálst að spyrja. Ég vil koma því á framfæri hér varðandi það að óskað hafi verið eftir gestum að við verðum að sjálfsögðu við því, en það er ekki þar með sagt að ég sem formaður nefndarinnar geti ekki haft dagskrárvaldið og ákveðið hverjir koma hvenær. Það er reynt að verða við því eins fljótt og hægt er og svo verður.

En ég ætla af þessu tilefni líka, vegna þess að hér er verið að ræða sérstaklega endursendingar, brottvísanir til Grikklands, að segja að mér finnst bara gott að hv. þingmenn hafi lagt fram þingsályktunartillögu þar sem þeir tala sínum rómi um að þeim finnist að við eigum að hætta slíkum endursendingum. Ég held samt að við þurfum aðeins að hafa í huga að aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum. Það er fjöldi fólks sem hefur í gegnum tíðina leitað hingað til lands sem er líka með vernd í öðrum löndum og þeim einstaklingum sem var vísað brott og voru fluttir sérstaklega til Grikklands um daginn eru alls ekki eina fólkið sem þar er með vernd og hefur farið aftur til baka. Fjöldi fólks hefur farið að sjálfdáðum til baka. Ég held við þurfum að hafa það aðeins í huga (Forseti hringir.) þegar við tökum á móti fólki sem er í mjög erfiðum aðstæðum hvernig við ætlum að forgangsraða. Er eðlilegra að taka fólk sem er ekki (Forseti hringir.) með vernd í öðrum löndum eða viljum við láta þá ganga fyrir sem þegar hafa fengið vernd í öðrum löndum?



[15:22]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Geta þau ekki bara fengið sér vinnu? er oft viðkvæðið þegar við erum að mótmæla brottvísun flóttafólks. Geta þau ekki bara fengið vinnu og komið eftir þeirri leið til landsins? Þetta er viðkvæði flokkanna sem eru búnir að vera í ríkisstjórn lengur en elstu menn muna og hafa ekki notað þau völd til þess einmitt að auðvelda þessu fólki að fá sér vinnu. Sú leið er nefnilega alveg jafn lokuð og hún var fyrir þremur, fjórum eða fimm árum á sama tíma og áfram er verið að senda umsækjendur um alþjóðlega vernd úr landi.

Í Kastljósi í fyrradag fengu menn sjá raunverulegt dæmi um fólk í þessari stöðu: Rússnesk hjón sem vegna baráttu gegn harðstjórninni í Rússlandi þurftu að flýja land. Þeirra fyrsti viðkomustaður var Ítalía en svo kom þau til Íslands því að hér áttu þau rætur. Hingað hafa þau komið ótal sinnum með ferðamenn, þau eiga vini og þekkja landið; þau elska Ísland og hér vilja þau vera. Hann er meira að segja kominn með atvinnutilboð, en hann getur ekki nýtt sér það vegna þess að kerfið leyfir það ekki. Sama kerfi og Sjálfstæðisflokkurinn sérstaklega vill meina að fólk eigi að geta nýtt sér til að komast í vinnu frekar en að sækja í verndarkerfið.

Hinn spræki varaþingmaður, Friðjón Friðjónsson, minnti okkur á að nú um helgina hefði landsfundur Sjálfstæðisflokksins verið haldinn og hann heldur því fram að flokkurinn standi fyrir umburðarlyndi og að Ísland sé opið fyrir fólki sem hingað kemur. Máli sínu til stuðnings vísaði hann í ályktun flokksins frá helginni um að leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hér hefur fengið starf og er með hreint sakavottorð, að koma hingað og starfa. (Forseti hringir.) Hv. varaþingmaður hefur kannski ekki tekið eftir þeim Antoni og Viktoríu sem standa hér fyrir utan (Forseti hringir.) Alþingi og mótmæla vegna þess að þau fá einmitt ekki koma hingað og starfa, vegna þess að þau fá ekki að vera hér á landi í nafni hins meinta umburðarlyndis Sjálfstæðisflokksins.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími undir þessum dagskrárlið, störf þingsins, er 2 mínútur.)



[15:24]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Í fjárlagaumræðunni á dögunum hélt ég því fram að um 60.000 manns hefðu fyrir sex árum skrifað undir kröfu um að til heilbrigðiskerfisins yrði varið 11% af vergri landsframleiðslu. Þetta var ekki rétt hjá mér, þau voru 80.000 og rúmlega það sem skrifuðu undir kröfuna. Ef farið væri eftir 11% kröfunni frá árinu 2016 þyrftum við að bæta til heilbrigðismála tæpum 100 milljörðum kr. Nágrannaþjóðir okkar fjárfesta mun meira en við í heilsu og lífsgæðum fólks enda er það fjárfesting sem borgar sig. Við þurfum og eigum að hlúa að veiku fólki og umbuna þeim sem hafa helgað sig því starfi með mannsæmandi launum og mannsæmandi vinnutíma. Nú ríkir neyðarástand víða í heilbrigðiskerfinu okkar, starfsaðstæður eru óboðlegar á mörgum stöðum og biðlistar lengjast, fólk þarf að bíða dögum saman eftir tíma hjá heilsugæslunni og mönnunarvandinn vindur upp á sig.

Í upphafi þings sagði hæstv. fjármálaráðherra hróðugur að staðan í ríkisfjármálum væri mun betri en búist var við. Sú staða var ekki nýtt með fjárframlögum í fjárlagafrumvarpinu til að bæta heilbrigðiskerfið. Krafa er hins vegar gerð um að heilbrigðisstarfsfólk hlaupi hraðar, taki á sig enn meira álag og geri meira fyrir minna. Stóri vandinn á bráðamóttöku Landspítalans er skortur á hjúkrunarfræðingum. En ástandið er ekki bara slæmt á bráðamóttökunni í Reykjavík, það er líka slæmt á Suðurnesjum, á Suðurlandi og á Akureyri. Í morgun sagði hæstv. fjármálaráðherra frá því að komið hefði í ljós að staðan á ríkissjóði væri enn betri en gert var ráð fyrir þegar hann lagði fram fjárlagafrumvarpið. Heilbrigðiskerfið og velferðin verður að fá meira úr að spila á næsta ári ef ekki á illa að fara. Nýta verður betri stöðu einmitt til þess.



[15:27]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Þar sem konur stjórna ríkir meiri hagsæld. Þar sem aukið jafnrétti ríkir er meiri hagsæld. Þar sem konur stjórna ríkir líka meiri friður og þar sem konur stjórnuðu ríkjum var betur tekið á heimsfaraldri kórónuveirunnar. Já, þetta er meðal þess sem hefur komið fram á alþjóðaþingi kvenleiðtoga sem haldið er í Hörpu þessa dagana, árlegum viðburði þar sem leiðtogar úr öllum heiminum koma saman; stjórnendur fyrirtækja, aktívistar, gamlar konur, ungar konur, fyrrverandi ráðherrar, forsetar og núverandi þjóðarleiðtogar. Þrátt fyrir þessa vitneskju er það svo að samkvæmt nýrri rannsókn Reykjavík Index 2022 má sjá stórt bakslag í viðhorfi fólks til kvenstjórnenda. Hvernig má það vera? Ungt fólk er jafnframt miklu fordómafyllra í garð kvenleiðtoga en karlleiðtoga og það munar töluverðu. Í G7-ríkjunum má sjá að 69% fólks á aldrinum 18–34 ára eru jákvæð gagnvart kvenleiðtogum en voru 72% fyrir tveimur árum. Á sama tíma er fólk á aldrinum 55–65 ára miklu jákvæðara eða 76% jákvæð gagnvart kvenleiðtogum. Ef við horfum svo á viðhorf gagnvart þjóðarleiðtogum, ekki bara leiðtogum í fyrirtækjum almennt heldur bara þjóðarleiðtogum, má sjá að í Bandaríkjunum myndu bara 45% treysta konu til að leiða landið. Í Bretlandi eru það 54% en í Japan myndu einungis 34% treysta konu til að leiða ríkið.

Já, ágæti þingheimur, jafnrétti er ekki sjálfsagt. Við þurfum alltaf að berjast fyrir jafnrétti. Við þurfum að minna okkur á það (Forseti hringir.) að svona hlutir koma ekki af sjálfu sér. Við þurfum að berjast fyrir þessu. Við þurfum að standa saman af því að það eykur hagsæld ríkja.



[15:29]
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að benda á nokkrar staðreyndir. Við höfum náð góðum árangri í jafnréttismálum á Íslandi og við stærum okkur af því á heimsvísu og það er hvergi betra að vera kona en á Íslandi. En því miður er staðan sú að 70% þeirra sem útskrifast úr háskóla eru konur og einungis 30% karlar. Það eru ekki mörg ár síðan þetta var akkúrat öfugt en á þetta ekki að vera jafnt? Rannsóknir varpa ljósi á að stelpum er oftar hrósað í skóla en drengjum og svo má lengi telja. Við sjáum ákveðna mismunun gagnvart ungum drengjum strax í skóla. Þeim er sagt að þeir séu fyrirferðarmiklir, séu of mikið og við stelpur er oftar en ekki sagt: Æ, passaðu þig á strákunum. Ekki eru þetta mjög uppbyggilegar uppeldisstöðvar fyrir strákana okkar. Þá heyrum við einnig í dag af ungum karlmönnum sem finna sig ekki í samskiptum við konur og þau samskipti litast iðulega af því að þeir hræðist að stíga óviljandi yfir mörk. Má vera að ákveðin óvissa og gremja ungra karlmanna sé að skila sér í aukinni ofbeldishegðun og öfgahyggju? Ég tel þetta ekki vera samfélag sem okkur langar að búa í. Við þurfum að taka betur utan um unga karlmenn og beita fræðslu. Ég fagna því að staða kvenna sé betri en það verður að varast að pendúllinn sveiflist alla leið.

Virðulegur forseti. Erum við að tala jafn hátt um jafnrétti þegar það hallar á karlmennina í okkar samfélagi? Við sjáum ákveðna umpólun sem hefur ekki jákvæð áhrif á mótun samfélagsins til framtíðar. Við þurfum að opna augun, fræða og grípa til aðgerða svo við getum náð betra jafnvægi í samskiptum kynjanna. Svo þurfum við að spyrja okkur þessarar grundvallarspurningar: Í hvernig samfélagi viljum við búa?



[15:31]
Elín Anna Gísladóttir (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ræddi við ykkur leigubílamarkaðinn í gær en nú langar mig að tala um annað frelsismál, það frelsismál að fá að deyja með reisn. Nú á haustmánuðum vöktu félagasamtökin Lífsvirðing athygli á því að mjög mikilvægt væri að á Alþingi færu fram umræður og mótuð yrðu lög um dánaraðstoð. Félagið hélt málþing og kom m.a. fram hjá þeim að dæmi væru um að fólk svipti sig lífi þar sem það fengi ekki dánaraðstoð. Það er hræðilegt að þetta sé staðan en ég verð að viðurkenna að ég hugsaði þegar ég las þetta að auðvitað væri útkoma slík þegar ekki væru önnur úrræði til staðar. Við hjá Viðreisn höfum haft það á stefnuskránni okkar að innleiða þurfi valfrelsi varðandi lífslok þannig að við vissar vel skilgreindar aðstæður verði dánaraðstoð mannúðlegur valkostur fyrir þá einstaklinga sem kjósa að mæta örlögum sínum með þeim hætti. Að gefa sjúklingum þennan valkost byggir á virðingu fyrir rétti sjúklingsins á eigin lífi og líkama, dregur úr líkum á misnotkun og setur skýran lagalegan ramma um viðbrögð óski sjúklingur eftir dánaraðstoð.

Þetta er viðkvæmt mál og ekki endilega sú umræða sem er efst í hugum allra en þetta er mikilvægt mál og ég veit að málið hefur komið hér fram á fyrri þingum en ekkert orðið úr því. Þó að málið sé flókið viðfangs er það ekki ástæða til þess að sleppa umræðunum. Þvert á móti er það enn ríkari ástæða fyrir því að vandað sé til verka. Mikilvægt er að við mótum um þetta skýran ramma með valfrelsi og mannúð að leiðarljósi.



[15:33]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vék að þeirri þversögn í gær úr þessum ræðustól um hve mikill skortur er á vinnuafli í tilteknum geirum á sama tíma og við hrindum frá okkur árlega miklum fjölda fólks sem hingað leitar og er reiðubúið til starfa.

Nú vík ég að öðru en þó ekki allsendis óskyldu máli. Samkvæmt núgildandi lögum er fólki sem starfar á vegum hins opinbera gert að hætta störfum þegar 70 ára lífaldri er náð, algerlega óháð heilsu, getu eða atgervi, líkamlegu sem andlegu. Á sama tíma er áðurnefndur skortur á starfsfólki í fjölmörgum geirum. Orsakir þess má rekja til löngu úreltra laga frá þessum tíma þegar fólk hafði búið við heilbrigðisógnandi aðstæður og erfiðisvinnu sem leiddu til hraðara slits og öldrunar en við blasir í dag og horfði jafnvel til þess með tilhlökkun að fá að ljúka störfum. Að lifa í hárri elli er hugtak sem merkir í dag alls ekki það sama og það gerði til að mynda á síðustu öld. Sextugsaldurinn er nýi fertugsaldurinn er setning sem oft heyrist og vísar til bættrar lýðheilsu þjóðarinnar, m.a. fyrir tilstilli vitundarvakningar um mikilvægi hreyfingar, heilsuræktar, neyslu hollmetis, steinefna, fjörefna og hugleiðslu, svo nokkuð sé nefnt. Margir af ármönnum rokktónlistar sem komnir eru á níræðisaldur eru í rauninni í fullu fjöri og að því er virðist í fantaformi. Þar er að nefna Paul McCartney og Mick Jagger, sem báðir eru reyndar dæmi um menn sem stunda markvissa líkamsrækt og hollustuhætti þótt ekki hafi þeir virst neinir kórdrengir á árum áður. Þá er því stundum haldið fram að kjósi fólk að eldast hratt og markvisst sé vísasta leiðin að hætta að vinna og leggja niður störf. Að meina heilbrigðu, fullfrísku fólki að sinna störfum frá og með 70 ára aldri er tímaskekkja. Þessum úreltu lögum þurfum við að breyta. Vissulega þarf að taka mið af vilja fólks og heilsu í þessu samhengi og ekkert væri því til fyrirstöðu að bjóða mannfólkinu upp á reglubundna skoðun rétt eins og okkur ber að láta skoða ökutækin okkar árlega þegar tilteknum aldri slíkra tækja er náð.