153. löggjafarþing — 28. fundur
 9. nóvember 2022.
rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl., fyrri umræða.
þáltill. GRÓ o.fl., 30. mál. — Þskj. 30.

[16:23]
Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að mæla hér fyrir tillögu um þingsályktun um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum og aðgerðum íslenskra yfirvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við erlenda hermenn á árum síðari heimsstyrjaldar. Meðflutningsmenn mínir á þessu máli eru 20 og koma úr öllum þingflokkum nema Miðflokki. Þingsályktun þessi, sem er að mestu óbreytt frá því að hún var áður flutt á 145. löggjafarþingi, af þáverandi hv. þm. Heiðu Kristínu Helgadóttur, felur í sér að Alþingi álykti að fela forsætisráðherra — en hæstv. forsætisráðherra var einmitt ein af flutningsmönnum frumvarpsins á 145. löggjafarþingi — að skipa nefnd til að rannsaka starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942–1943 og sérstaklega verði rannsakaðar aðgerðir yfirvalda til að sporna gegn samskiptum íslenskra kvenna við erlenda hermenn í kjölfar hernámsins 1940. Áhersla verði lögð á að kanna hvort mannréttindabrot hafi verið framin af hálfu íslenskra yfirvalda.

En hvers vegna, frú forseti, erum við að tala um að rannsaka aðgerðir íslenskra stjórnvalda fyrir 80 árum? Er það ekki bara eitthvert fortíðarmál sem best er að gleyma. Þökk sé baráttukonunum í Öfgum sem vöktu verðskuldaða athygli á þessu máli á kvennaþingi í vor og Ölmu Ómarsdóttur sem nýlega gerði heimildarmynd um mál stúlknanna á Kleppjárnsreykjum, þá hefur þetta mál ekki fengið að liggja grafið og gleymt.

Rétt eins og í fleiri löndum þá eru ýmsir smánarblettir á fortíðinni sem margir vildu helst að ekki væru dregnir fram í sviðsljósið. En rétt eins og í öðrum löndum er það skylda okkar að takast á við þessa smánarbletti, viðurkenna mistökin og tryggja að við lærum af þeim til frambúðar. Þetta er eitt slíkt mál, byggt á hugmyndum þess tíma um að tryggja hreinleika hins íslenska kynstofns, hugmyndum sem enn í dag skjóta rótum og blómstra víða í Evrópu, meira að segja í nágrannalöndum okkar.

Frú forseti. Mikil hræðsla greip um sig í Reykjavík eftir hernámsdaginn 10. maí 1940. Það var ekki hræðsla við hermennina heldur hræðsla um að siðferði ungra stúlkna á Íslandi væri í hættu, hræðsla um að þær myndu óhreinka hinn íslenska kynstofn með því að eiga samneyti við þessa erlendu hermenn. Á skömmum tíma áttu ungar stúlkur eftir að verða helsta ógn íslenskar arfleifðar, ekki bara í augum almennings heldur einnig efstu ráðamanna þjóðarinnar. Flest þekkjum við söguna um ástandsstúlkuna, stúlku sem dansaði við dáta fram á nótt og var fyrir vikið smánuð af íslenskum karlmönnum. Sannleikurinn er hins vegar mun grófari þar sem hér á landi var ítrekað brotið á mannréttindum og kynfrelsi ungra stúlkna. Sú aðför sem ungar konur máttu þola á stríðsárunum var mjög viðamikil og átti eftir að hafa gífurleg áhrif á líf margra stúlkna, stúlkna sem hið svokallaða ungmennaeftirlit hafði afskipti af.

Ári eftir að breskir hermenn höfðu numið land hér voru samþykkt neyðarlög sem í dag má meta sem viðamestu persónunjósnir Íslendinga. Lög sem eingöngu var beint að ungum stúlkum. Lög sem láta hugmyndir dómsmálaráðherra dagsins í dag, um forvirkar rannsóknarheimildir, blikna í samanburðinum. Lögin fólust í því að hefja eftirlit með ungmennum sem uppvís höfðu orðið að því sem skilgreint var sem óæskileg hegðun á borð við lauslæti, drykkjuskap og slæpingshátt undir formerkjum hæfilegra uppeldis- og öryggisráðstafana, eins og sagt var, með leyfi forseta. Svo mikið var Alþingi í mun að stöðva ungar konur í blóma lífsins að sett var upp sérdómstig sem bar nafnið ungmennadómstóll aðeins fyrir þær. Allt var þetta gert til þess að passa upp á hreinleika íslenskra kvenna og tilkall íslenskra karlmanna til þeirra. Þjóðernishyggjan varð svo sterk hér á landi á stríðsárunum að grófum úrræðum var beitt svo að íslenskar konur féllu ekki í hendur erlendum karlmönnum því þá átti þjóðin á hættu að íslenski kynstofninn og menningin myndi deyja út.

Til þess að þessi lagasetning yrði að veruleika vildu ráðamenn þjóðarinnar vekja upp hræðslu og ótta meðal almúgans. Jóhanna Knudsen, virt yfirhjúkrunarkona, var fengin til að rannsaka siðferði reykvískra kvenna. Hún ásamt tveimur aðstoðarmönnum tók sér aðeins tvo mánuði í það verkefni þar sem þau eltu ungar stúlkur á röndum og skráðu niður það sem þeim þótti varhugavert við athæfi þeirra. Jóhanna og kollegar hennar skráðu niður lýsingar á útliti, klæðaburði, mat á greind og það sem þær áttu að hafa gerst brotlegar um; allt frá því að vera með rauðar varir og mikinn farða yfir í að vera með, að hennar mati, fífla- og mellulæti. Jóhanna skráði einnig niður hvers kyns samskipti við hermenn, sama hversu saklaus þau voru.

Á aðeins tveimur mánuðum höfðu Jóhanna og hennar menn skráð nöfn 820 kvenna og af þeim áleit Jóhanna að um 500 þeirra væru í hættulegum kynnum við setuliðið. Áleit hún svo að hér væri aðeins um að ræða toppinn á ísjakanum. Jóhanna lagði til alls konar úrbætur í kjölfar rannsóknar sinnar, á borð við að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum upp í 20, að allar stúlkur á aldrinum 12–16 ára yrðu tímabundið fjarlægðar úr Reykjavík, að opnað yrði sérstakt uppeldishæli fyrir ástandsstúlkur því alls ekki mátti spilla sveitum landsins með hinni skæðu hermannaveiki og að lokum að starfrækt yrði sérstök leynilögregludeild og rannsóknastofa í siðferðismálum. Allt til að vinna bug á ástandsmeinsemdinni sem virtist eitra þjóðlíf Íslendinga að hennar mati.

Alþingi skipaði sérstaka ástandsnefnd til að fara yfir skýrslu Jóhönnu. Hún var skipuð af þremur ungum karlmönnum sem áttu að vinna bug á vanda ungra kvenna í landinu. Í greinargerð sem fylgdi skýrslunni töldu nefndarmennirnir, sem augljóslega höfðu mikinn skilning á upplifun kvenna, að íslenska konan þekkti ekki muninn á heiðvirðri konu og vændiskonu. Agnari Kofed Hansen lögreglustjóra þótti þessi skýrsla þó aðeins sýna 20% af vandanum sem stafaði af ástandinu og sagði að fimmfalda mætti tölu hinna léttúðugu kvenna.

Blöðin voru ekki lengi að taka snúning á þessari sveiflu Agnars og rituðu í fréttum sínum að 2.500 vændiskonur væru starfandi í Reykjavík, bæ sem hýsti þá 40.000 íbúa. Fjölmiðlar tóku virkan þátt í að espa upp kvenfyrirlitninguna með hverri áróðursgreininni á fætur annarri. Neyðarlög voru sett á Alþingi í desember 1941 þar sem sjálfræðisaldurinn var hækkaður úr 16 árum í 18. Lög um eftirlit ungmenna og ungmennadómstól tóku gildi í apríl 1942. Með þeim lögum var veitt heimild til að stemma stigu við óæskilegri hegðun á borð við lauslæti, drykkjuskap og slæpingshátt. Þessi bráðabirgðalög voru í gildi í eitt og hálft ár og á þeim tíma tók ungmennadómstóllinn fyrir alls 62 mál. Tuttugu og sex stúlkur voru dæmdar til sveitavistar og 14 til vistunar á vinnuhæli á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði. Það hæli var hins vegar ekki tilbúið þegar löggjöfin tók gildi og voru stúlkurnar því lokaðar inni á sóttvarnahúsi Reykjavíkur. Ef stúlkurnar létu illa voru þær færðar í fangageymslur fangelsisins á Skólavörðuholtinu. Þær aðgerðir sem beitt var innan ungmennaeftirlitsins voru einstaklega grófar og í dag álitnar brot á barnasáttmála og persónuverndarlögum. Yfirheyrslurnar sem stúlkurnar þurftu að sæta gengu mjög nærri kynfrelsi þeirra og var m.a. notast við leggangaskoðun til að athuga hvort meyjarhaft þeirra væri rofið. Voru vottorð þess efnis notuð til að sanna sekt þeirra. Höfðu stúlkurnar játað að hafa stundað kynlíf með íslenskum pilti var hann tekinn til yfirheyrslu og orðum hans gefið meira vægi en stúlkunnar.

Ungmennaeftirlitið virtist vinna eftir þeirri reglu að siðferðislegu vandamálin sem þau töldu þjóðina standa frammi fyrir væru bundin við hóp jaðarsettra kvenna af lægri stéttum. Margar af þeim stúlkum sem teknar voru til skýrslu ungmennaeftirlitsins voru þolendur ofbeldis og hefðu mál þeirra átt heima á borði barnaverndar en ekki til refsingar ungmennadómstóls. Því ber að nefna að engar stúlkur af efri stéttum voru sakfelldar af ungmennadómstól. Þyngst var þó að vera dæmd til vistar á Kleppjárnsreykjahæli. Staðurinn var afskekktur og gerður til að einangra stúlkur sem ekki stóðust siðgæðismatið. Stúlkurnar sem voru vistaðar á Kleppjárnsreykjum voru ungar, allt niður í 12 ára gamlar. Stúlkurnar máttu þola mikið harðræði. Ein af refsiaðferðunum á hælinu var að loka stúlkurnar í kjallara þar sem neglt hafði verið fyrir glugga. Þar máttu þær dúsa í allt að þrjá daga með aðeins dýnu á gólfinu sem iðandi var, að þeirra sögn, af pöddum. Einnig voru þær, börnin, jafnvel sprautaðar niður með lyfjum. Ekki er vitað til þess að þolendur ungmennaeftirlitsins, sem dæmdar voru til vistar í sveit og til vistar á Kleppjárnsreykjum, hafi sagt opinberlega frá reynslu sinni: Hvernig áttu þær að geta gert það þegar alið hafi verið á þjóðarhatri og fordæmingu á tilvist þeirra í stríðinu? Þær fengu aldrei tækifæri til að skila skömminni og fengu hvorki afsökunarbeiðni eða bætur.

Það er svo sannarlega kominn tími á það að þetta framferði stjórnvalda gagnvart ungum stúlkum á stríðsárunum sé rannsakað og því gerð góð skil. Mikilvægt er að skömminni sé skilað þangað sem hún á heima, m.a. hingað inn á Alþingi, og að þessar konur, sem því miður eru flestar ekki lengur á meðal vor, fái afsökunarbeiðni frá íslenskum stjórnvöldum sem þær eiga svo sannarlega skilið.

Það er von mín að þingheimur allur, óháð flokkum og flokkapólitík, sýni í huga, orði og aðgerðum að við erum tilbúin að viðurkenna þau mannréttindabrot og það ofbeldi sem þarna var framið. Við séum tilbúin til að ræða og rannsaka þennan smánarblett í íslenskri sögu og taka ábyrgð á gerðum forvera okkar hér á Alþingi. Allar þær stúlkur sem urðu fyrir barðinu á ungmennaeftirlitinu, ungmennadómstólunum og vistheimilinu að Kleppjárnsreykjum eiga það skilið.



[16:38]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta mál. Ég er ánægð með að vera meðflutningsmaður á því. Þetta er ótrúleg saga sem gerðist á þessum árum, 1942–1943. Ég er einlæglega sammála því að þetta eigi að rannsaka. Slík rannsókn yrði einfaldlega mikilvægur liður í því að gera það upp, og gera það upp fyrir opnum tjöldum, sem þarna átti sér stað og að stjórnvöld svari þessum einföldu en mikilvægu spurningum um hvað það var sem þarna gerðist og hvers vegna; hvaða áhrif það hafði t.d. á þessar 14 stúlkur sem sættu vistun á hælinu, hvaða áhrif það hafði á líf þeirra og hver meðferðin var á meðan á vistuninni stóð, en kannski ekki síður í kjölfarið. Það þarf líka að skoða hvað það var sem leiddi til þess að þessar 14 stúlkur sættu vistun á hælinu því að ég hef þá tilfinningu, eftir að hafa fylgst með umfjöllun um þessi mál og lesa mér aðeins til um þau, að það hafi ekki verið alveg tilviljanakennt, þegar litið er á bakgrunn þeirra, hvaða stúlkur það voru sem fengu þessa harðneskjulegu meðferð á sínum tíma.

Ég er líka sammála því, og tel raunar að það þurfi ekki rannsókn til, að stjórnvöld eigi að biðjast afsökunar á þessum kafla og á því sem þarna gerðist þó að það séu auðvitað aðrir við stjórn landsmála í dag en þá var. En ég tel einfaldlega mikilvægt að rannsaka þetta og ég tel mikilvægt að sú rannsókn verði líka hluti af okkar sögu og okkar sagnfræði og hluti af okkar kvennarannsóknum, (Forseti hringir.) það er það sem ég vildi segja hér.



[16:40]
Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og stuðninginn við frumvarpið. Ég er hjartanlega sammála öllu því sem kom fram hjá hv. þingmanni. Það er mikilvægt að þetta verði rannsakað. Það eru til gögn á Þjóðskjalasafni sem eru sökum persónuverndar ekki aðgengileg nema fræðimönnum, það þarf að rannsaka þau. Það þarf að fara ofan í þetta. Það hefur komið fram, t.d. í heimildarmynd Ölmu Ómarsdóttur, að stundum voru ástæðurnar ekki alveg á hreinu af hverju ákveðnir aðilar fóru á Kleppjárnsreyki á meðan aðrir fór annað. Í þeirri heimildarmynd er saga einnar stúlkunnar sögð og greint frá því hve mikil áhrif þetta hafði á hana alla tíð en hún tók sitt eigið líf langt fyrir aldur fram.

Ég er líka hjartanlega sammála hv. þingmanni um að stjórnvöld geti án nokkurrar rannsóknar beðist afsökunar. Við höfum séð það í öðrum löndum, t.d. nú nýlega í Kanada, þar sem stjórnvöld hafa beðist afsökunar þrátt fyrir að rannsókn sé ekki lokið. Þótt sú afsökun sé í dag jafnvel aðeins táknræn, þar sem flestar þessar konur eru því miður ekki lengur á meðal vor, hefur hún mikilvæg áhrif á ættingja og aðra sem þær þekkja.



[16:42]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Það er alveg rétt að tíminn vinnur ekki með okkur, eigi afsökunarbeiðnin að ná til þeirra kvenna sem þarna voru vistaðar. Þess vegna nefni ég það m.a. að það sé í sjálfu sér ekki þannig að ljúka þurfi opinberri rannsókn til að stjórnvöld geti beðist afsökunar. Við þekkjum atvik máls nægilega vel. Ég held hins vegar að það sé mikilvægur hluti af því að gera málið heildstætt upp að fara í slíka rannsókn. Ég vil líka nefna að afsökunarbeiðni hefur þýðingu fyrir aðstandendur, fyrir börn, ættingja og aðstandendur þeirra kvenna sem í hlut eiga. Það er líka mikilvægt að gera svona sögu upp því að sagan ætti að kenna okkur að það á aldrei að líta svo á að mistök sem þessi geti ekki endurtekið sig. Við höfum séð umfjöllun um að samskipti kvenna og stúlkna við erlenda hermenn sköpuðu ólgu í samfélaginu. Almenningsálitið var mjög afdráttarlaust í fordæmingu sinni gagnvart þessum konum og stelpum. Það má velta fyrir sér þætti fjölmiðla í því samhengi og það er líka þáttur sem þarf að gera upp; fjölmiðlarnir sjálfir, hvernig þeir sögðu frá þeim samskiptum og hvaða orðanotkun var beitt gegn þeim sem í hlut áttu. Það er bara svo margt þarna sem er sorglegt en um leið áhugavert eins og njósnir sem hafi náð til stúlkna niður í 12 ára aldur. Það eru börn. Það er því ekki svo að þessar aðgerðir stjórnvalda hafi eingöngu beinst að konum í samskiptum við karlmenn, ekki að það réttlæti eða bæti hlutina, en þarna undir voru hins vegar líka börn.



[16:44]
Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvarið og aftur erum við hjartanlega sammála um þetta allt. Þarna voru svo sannarlega börn og í þessum hópi voru líka konur sem höfðu náð 18 ára aldri. En það var líka þannig að ekki var gerður greinarmunur á því hvernig samskiptin voru. Það voru dæmi um það að ungar stúlkur væru dæmdar til vistar fyrir það eitt að hafa haldist í hendur á almannafæri við hermann. Það voru líka dæmi um að konur sem urðu ástfangnir af einum manni, voru með einum manni og aðeins einum manni, voru dæmdar fyrir lauslæti. Allt er þetta eitthvað sem okkur finnst kannski vera skrýtið í dag en við megum ekki gleyma því að persónunjósnir, kynþáttahyggja — þetta er allt saman að grassera aftur núna. Þess vegna er svo mikilvægt að við lærum af þessum mistökum fortíðarinnar og að við biðjum þá afsökunar sem við brutum á. Ef við lærum ekki af þessum mistökum munum við endurtaka þau aftur og aftur.



[16:46]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Hér er um mikilvægt mál að ræða og ég er meðflutningsmaður þess. Ég tel rétt að rannsaka þá atburði sem áttu sér stað á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum. Ég hef lesið greinargerðina og tók eftir ákveðnu misræmi hjá framsögumanni og það kom líka fram í andsvörum. Hann talar um kynþáttastefnu, að það hafi m.a. verið undirrótin, og kynþáttahyggju. Ég er algerlega ósammála því. Ég spyr hv. þingmann: Hvað hefur hann fyrir sér í því að vera að fjalla um kynþáttahyggju og kynþáttastefnu varðandi þetta mál? Ég fæ hreinlega ekki séð það, hvorki í greinargerðinni né í málinu sem heild. Nú voru amerísku hermennirnir sem komu hingað nánast allir hvítir karlmenn og bresku hermennirnir líka. Ég tel að það sé hins vegar verið að blanda hlutum saman. Ef við ætlum að tala um kynþáttastefnu og kynþáttahyggju á þessum tíma þá væri rétt að ræða það, og rétt að rannsaka það líka, hvernig íslensk stjórnvöld komu fram við gyðinga sem voru hér flóttamenn, hvernig þau neituðu að taka á móti gyðingum. Það er kynþáttahyggja og það á ekki bara við um Ísland. Í Bandaríkjunum var líka neitað að taka á móti fólki, m.a.s. fólki sem var komið í höfn í Miami og þurfti að sigla þaðan burtu í útrýmingarbúðir gyðinga. Það er kynþáttahyggja. En ég get ekki séð það í þessu máli. Ég tel að í þessu máli séum við að tala um íslenska sveitasamfélagið og kúgun lágstéttanna á Íslandi sem átti sér stað með þessum hætti og hversu gróft brot á friðhelgi einkalífs átti sér stað hér með njósnum um 500 konur á aldrinum 12–61 árs. Við erum líka að tala um gróft brot og illa meðferð á þeim stúlkum sem voru á hælinu á Kleppjárnsreykjum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann viti hversu margar af þessum 14 stúlkum séu enn á lífi. Ég vil líka taka fram að ég tel þetta mikilvæga rannsókn vegna þess að einungis er búið að aflétta leynd á hluta af þessum gögnum. Þriðja spurning mín er því: Veit hv. þingmaður af hve miklum hluta af gögnunum er ekki búið að aflétta leynd?



[16:49]
Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Í fyrsta lagi varðandi kynþáttahyggjuna þá kemur hún mjög vel fram í heimildamyndinni Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, sem ég nefndi meðal annars. Þar eru sýndar greinar úr dagblöðum þess tíma og yfirlýsingar ráðamanna og þar er sagt hreint út að þetta sé til verndar hinum íslenska kynstofni. Varðandi það hversu margar konur séu enn á lífi þá er það ekki alveg á hreinu hvort einhverjar séu enn á lífi, því miður. Það tengist því að það er leynd yfir sumum af þessum gögnum þannig að það hefur ekki komið fram opinberlega. Ég þarf svo að reyna að muna þriðju spurningu þingmannsins (EÁ: Hún var um það hversu miklum hluta gagnanna búið væri að aflétta leynd af.) — Það á eftir að aflétta leynd af hluta af gögnunum. Eins og stendur í greinargerðinni þá var þessum gögnum komið á Þjóðskjalasafnið eftir lát Jóhönnu. Það eru mjög ströng skilyrði um það hvernig fá má aðgang að þeim gögnum. Þau gögn sem eru þar eru að hluta til ekki opinber og ekki aðgengileg almenningi eða okkur hér á þinginu eða neinum öðrum.



[16:51]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það getur vel verið að það hafi komið fram í þessari heimildarmynd. Mig minnir að ég hafi séð hana á sínum tíma, en ég man ekki nákvæmlega eftir þessu atriði varðandi kynþáttahyggjuna. Það breytir því ekki að þetta kemur ekki fram í greinargerðinni og ég er bara innilega ósammála því að kynþáttastefna hafi legið þarna undir, hvað varðar ástandið. Ég held að kynþáttahyggja hafi ekki legið þar undir.

Varðandi hinn íslenska kynstofn — eða hvað á að kalla fólk sem býr hér á 103.000 km² eyju í Norður-Atlantshafi. Við getum talað um norræna kynstofninn, norræna menn og Engilsaxa og það allt en 1/3 Norðmanna flutti til Bandaríkjanna og 1/4 Íslendinga, og þetta voru hvítir karlmenn. Við getum verið ósammála um að kynþáttahyggja hafi verið drifkrafturinn á bak við þetta. Ég held að það hafi fyrst og fremst verið íslenskt samfélag, að sveitasamfélagið hafi einfaldlega ekki ráðið við þegar nútíminn kom með amerískum hermönnum, sem leiddi til upphafs nútímans á Íslandi.

Það er líka erfitt, og vonandi mun þessi rannsókn taka til þess, að dæma eldri tíma með mælistiku okkar í dag. Ég tel mikilvægt að líta til þess. En það á eftir að aflétta leynd af gögnum og ég vona að ef þetta mál verður samþykkt muni rannsóknarmenn komast í þau gögn sem eru lokuð. Er það ekki rétt skilið? Það væri gott að heyra álit framsögumanns á því. Ég tel það vera grundvallaratriði.

Ég tel mjög mikilvægt, ég tek undir það sem kom fram í máli Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur áðan, að opinberir aðilar, íslensk stjórnvöld, biðjist afsökunar á þessu framferði sem er mjög mikilvægt að rannsaka. Og þau geta gert það án þess að rannsóknin fari fram. Það liggur þegar fyrir hvernig framkoman var gagnvart þessu fólki, stúlkunum 14, og líka að það var verið að njósna um 500 stúlkur og þær voru allar af lægri stigum. Önnur spurning er sú hvort (Forseti hringir.) þarna sé ekki meira verið að kúga ungar stúlkur af lægri stéttum og hvort það sé ekki líka mikilvæg rannsókn (Forseti hringir.) svo að slíkt endurtaki sig ekki, bæði í fjölmiðlaumræðu og líka hvað varðar stjórnvöld. (Forseti hringir.) Svona mál mega ekki gleymast og stjórnvöld mega ekki komast upp með það að svona gerist aftur.



[16:53]
Forseti (Oddný G. Harðardóttir):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti vill enn og aftur minna hv. þingmann á að það er mikilvægt að virða ræðutímann.



[16:53]
Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Okkur getur greint á um það hversu mikilvæg kynþáttahyggjan var og hversu mikilvæg stéttarkúgunin var; ég held að kannski hafi hvort tveggja verið í gangi þarna. Rétt eins og hv. þingmaður benti á þá er margt órannsakað varðandi kynþáttahyggjuna sem ríkti á þessum tíma, t.d. það hvernig gyðingar voru meðhöndlaðir hér á landi á árunum fyrir stríð og ekki veitt hæli. Varðandi leynd á gögnunum þá afhentu ættingjar Jóhönnu Knudsen Þjóðskjalasafni gögn frá henni árið 1961, það sem talið var að væru persónuleg gögn. Þau voru afhent undir því skilyrði að ekki mætti opna þau í 50 ár. Þegar þau voru opnuð árið 2012 kom í ljós að þarna voru gögn frá ungmennaeftirlitinu. Þetta voru sem sagt ekki persónuleg gögn Jóhönnu heldur, samkvæmt Þór Whitehead prófessor, sem hefur rannsakað þetta, voru þarna gögn ungmennaeftirlitsins sem ekki höfðu fundist áður í neinum skjalasöfnum lögreglunnar eða á Þjóðskjalasafninu. Fræðimönnum var veittur takmarkaður aðgangur að þessum gögnum. Það er spurning hvenær tímabært er að aflétta leyndinni en persónuverndarsjónarmið skipta miklu máli þegar kemur að slíkum málum.



[16:56]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé mál sem ætti að fá framgang í þinginu og verða samþykkt, þ.e. að skipuð verði nefnd til að rannsaka vinnuhælið á Kleppjárnsreykjum og aðgerðir stjórnvalda gegn samskiptum íslenskra stúlkna við hermenn á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Það má ekki tefjast um mörg ár í viðbót að slík rannsókn fari fram þar sem þessar stúlkur eru allar annaðhvort látnar eða komnar á efri ár. Ég tel að hér sé um mikilvæga rannsókn að ræða og það er brýnt að hún fari fram sem allra fyrst. Framkoma stjórnvalda og lögregluyfirvalda við stúlkurnar er algerlega óásættanleg. Þetta er klassískt brot, dæmigert brot, sem má ekki gleymast, má ekki fyrnast. Við verðum að geta lært af slíkum brotum og það gerum við eingöngu með því að rannsaka þau til hlítar á sem breiðustum grundvelli og senda þau skilaboð til stjórnvalda að ef þau brjóta af sér með þessum hætti þá mun það ekki gleymast.

Úti í heimi er enn verið að rannsaka brot úr síðari heimsstyrjöldinni og það er verið að draga stríðsglæpamenn komna á tíræðisaldur fyrir dómstóla, fyrir brot sem þeir frömdu á þeim tíma. Þetta er vissulega miklu minna mál en fyrir íslenskt samfélag eru brotin þess eðlis að rannsókn á að fara fram, þó að málið sé orðið gamalt. Hún á ekki einungis að ná til stjórnvalda og þeirra persónunjósna sem náðu til 500 kvenna á aldrinum 12–61 árs og til þeirra 14 stúlkna sem vistaðar voru á hælinu á Kleppjárnsreykjum. Stúlkurnar sem voru vistaðar á hælinu voru þar í dimmum og skítugum herbergjum fullum af skordýrum og það var ekkert annað í herberginu en dýna á gólfinu. Heimildir herma að stúlkurnar hafi verið einangraðar í klefunum sólarhringum saman. Eins og kemur fram í greinargerð framdi ein stúlkan sem var vistuð þar sjálfsmorð síðar á lífsleiðinni, þá ríflega fertug að aldri. Þetta voru sár sem fylgdu stúlkunum áratugum saman eftir að þær höfðu dvalið í þessum fangabúðum á Kleppjárnsreykjum.

Það er mikilvægt að rannsaka þetta mál og ég vona að rannsóknarnefndin rannsaki líka fjölmiðlaumfjöllunina á þessum tíma. Eins og framsögumaður málsins, hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson, benti á, og kemur fram í greinargerðinni, hafði hún áhrif. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Leiða má líkur að því að fjölmiðlaumfjöllunin hafi mótað almenningsálitið sem þróaðist á sömu lund og þær konur sem áttu í hlut máttu í daglegu tali þola niðrandi uppnefni og smánarorð.“

Talað er um að fjölmiðlaumfjöllun á þessum tíma hafi haft áhrif á almenningsálitið þannig að stúlkurnar urðu nánast fyrir kerfisbundnu einelti í samfélaginu og voru ofsóttar af stjórnvöldum. Stundaðar voru persónunjósnir sem eiga sér sennilega engan líka í seinni tíma sögu Íslands. Það er gríðarlega mikilvægt að málið sé rannsakað á þessum grundvelli vegna alvarleika brotsins, vegna framgöngu stjórnvalda og vegna fjölmiðlaumfjöllunarinnar. Um er að ræða gróft brot á friðhelgi einkalífsins, sem 500 stúlkur eða konur á aldrinum 12–61 árs þurftu að þola, gróft brot á mannhelgi og illa meðferð á þessum 14 stúlkum.

Það er hins vegar mikilvægt að við séum ekki alltaf að bera fortíðina við mæliglas okkar daga hvað varðar mannréttindi. Þróun í mannréttindum hefur orðið gríðarleg á seinni tímum. Það er mjög mikilvægt. Ég ítreka að ég tel mikilvægt að íslensk stjórnvöld biðjist afsökunar á þessu framferði, biðji konurnar og ekki síst aðstandendur þeirra, afsökunar. Það er grundvallaratriði. Þetta skiptir fjölskyldurnar miklu máli. Það þarf líka að skoða félagslega stöðu kvennanna. Þetta eru í flestum tilvikum, eins og framsögumaður benti á, stúlkur af lægri stéttum íslensks samfélags. Það má halda því fram að þetta hafi verið hluti af kerfisbundinni kúgun á stúlkum í lægri stéttum íslensks samfélags, á stúlkum sem voru að leita eftir frelsi þegar hingað komu hermenn frá Vesturheimi, sem þær féllu fyrir. Þær þurftu að sæta mjög grófu broti á einkalífi. Friðhelgi einkalífsins var varin í stjórnarskrá þess tíma og er enn varin í stjórnarskrá okkar tíma.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla nánar um þetta mál en ég tek heils hugar undir þessa tillögu með þeim orðum sem ég hef flutt hér. Ég vísa líka til andsvara minna við flutningsmann tillögunnar.



[17:02]
Flm. (Gísli Rafn Ólafsson) (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu. Ég þakka líka þeim þingmönnum sem eru meðflutningsmenn með mér á þessari þingsályktunartillögu. Það eru h.v. þingmenn Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Diljá Mist Einarsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Guðrún Hafsteinsdóttir, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Hildur Sverrisdóttir, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Sigmar Guðmundsson, Tómas A. Tómasson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.

Það er ósk mín að þessi þingsályktunartillaga fari að lokinni þessari umræðu til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd. Það er einnig von mín að hv. nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd taki hana til umræðu sem fyrst og að hún fái að fara í gegnum þetta þing án þess að vera notuð sem skiptimynt í þinglokasamningum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allsh.- og menntmn.