153. löggjafarþing — 28. fundur
 9. nóvember 2022.
fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða, fyrri umræða.
þáltill. ÞórP o.fl., 397. mál. — Þskj. 434.

[17:46]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Flutningsmenn, ásamt þeim sem hér stendur, eru hv. þingmenn Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Isaksen, Jóhann Friðrik Friðriksson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Þingsályktunartillagan hljóðar svo — og má geta þess, virðulegi forseti, að ályktunin sjálf lætur ekki mikið yfir sér en í mínum huga og flutningsmanna er um verulega stórt mál og mikilvægt að ræða:

„Alþingi ályktar að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023 þar sem markmiðið yrði að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.“

Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni er gerð nokkuð ítarleg grein fyrir því hvað felst í tillögunni. Það er nú einu sinni þannig að við erum eyja úti í miðju Atlantshafi og erum háð flutningum til landsins á aðföngum, matvælum og fleiru. Þessar flutningsleiðir geta raskast og það þarf ekki meira til en einhverjar náttúruhamfarir. Við þekkjum þau áhrif sem heimsfaraldurinn, sem nú er nýafstaðinn að mestu leyti, hafði og við sjáum því miður ekki enn fyrir endann á stríðsátökum í Úkraínu, öllum þeim ósköpum. Slík atriði geta haft veruleg áhrif á flutningsleiðir til landsins og valdið því að allir flutningar stöðvist. Áhrifin blasa við. Það hefur verið skortur á kornvöru, orkuverð hefur hækkað o.s.frv. Lengi vel var ekki hægt að flytja kornvöru frá Úkraínu, sem er einn stærsti kornvöruframleiðandi í heimi. Þetta er að gerast allt í kringum okkur og við þurfum að bregðast við.

Í skýrslu sem forsætisráðherra lét gera, sem kom út í haust og var lögð fyrir Alþingi, um neyðarbirgðir, kemur fram svart á hvítu að staðan hér á landi er langt frá því að vera viðunandi. Verkefnið er ærið. Það þarf að kortleggja stöðuna betur, leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma. Við þurfum að byggja upp fyrirkomulag sem tryggir að nægjanlegt magn afurða sé til hér á hverjum tíma og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Við getum séð það fyrir okkur að fyrirkomulagið getur falið það í sér að ríkisvaldið grípi inn í í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum eða framleiðendum til að tryggja birgðahaldið. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum og handan Atlantsála, í Evrópusambandinu, er þessu óhikað beitt ef eitthvað bjátar á í umhverfinu. Hvort sem um er að ræða uppskerubrest eða stríðsátök þá er þessu beitt þar. En svona aðgerðir virka mismunandi á framleiðsluvörur okkar. Við þekkjum að geymslutími landbúnaðarafurða getur verið ærið misjafn og því þarf að haga seglum eftir vindi, hvernig við tökum á því. Það er tiltölulega lítið mál að frysta kjöt og fisk en grænmeti og mjólkurafurðir hafa mun minna geymsluþol. Þetta þarf allt að skoða í stóru samhengi.

Í skýrslu sem Landbúnaðarháskóli Íslands sendi frá sér árið 2021 var fjallað um fæðuöryggi þjóðarinnar og hvað þurfi til að uppfylla viðmið þess efnis. Þar kemur fram að við stöndum okkur að mörgu leyti vel en við erum mjög háð innflutningi á ákveðnum vörum, t.d. á aðföngum eins og áburði og olíu, til þess að geta framleitt vörurnar hér innan lands. Það fyrirkomulag sem er lagt til í þessari tillögu snýr að því að það kerfi sem komið yrði á myndi tryggja að hægt væri að framleiða meira af landbúnaðarvörum hérlendis og við ættum þá ákveðið umframmagn, ættum birgðir miðað við hefðbundna neyslu, ættum birgðir í einhverja mánuði af vissum vörum. Við yrðum samt alltaf að taka tillit til geymsluþolsins.

Eins og staðan er í dag erum við svo sem ekki með neina stjórn á þessu. Það eru bara markaðslögmálin sem ráða því hvað er til á markaði og við höfum verið vön því að flutningsleiðir hafa verið greiðar. En staðan er því miður breytt og við þurfum að bæta úr. Við getum séð það fyrir okkur að í samningum, sem þarf auðvitað að gera milli framleiðenda og ríkisins, þurfi væntanlega að greiða framleiðendum fyrir að geyma vöruna í einhvern tíma og ríkið þyrfti þá að koma þar inn í. En við þurfum alltaf að passa að slíkt hefði ekki áhrif á verðmyndun á markaði. Það þarf líka að taka það til greina þannig að menn þurfa að vanda sig þegar að þessu kemur, og þetta gerist ekki einn, tveir og þrír.

Síðan er það gríðarstór þáttur, sem við höfum svo sem verið að ræða hér í þessum sal og er töluvert rætt, sem snýr að kornræktinni. Þar eigum við inni gríðarleg sóknarfæri og eins með útiræktun á grænmeti, þar getum við gert enn betur. En það skortir innviði, sérstaklega hvað varðar framleiðslu á korni. Við þyrftum að fara í að byggja upp kornsamlög sem gætu þá tekið við korni og geymt það. Ríkisvaldið þarf að koma að þeirri uppbyggingu, annað er óhjákvæmilegt. Við getum horft til þess í því samhengi að það yrði þá bæði til manneldis og í skepnufóður. Þetta eru feiknalegar fjárfestingar sem þarf að fara í en það er samt gríðarlega mikilvægt að menn taki þetta alvarlega. Okkur hættir til að fara að hugsa um fæðuöryggi þjóðarinnar þegar neyðin er stærst en við þurfum alltaf að vera viðbúin.

Í þessu samhengi þarf margt að fylgja með. Fyrir tveim dögum var tryggingavernd bænda til umræðu. Hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir lagði fram fyrirspurn til matvælaráðherra og þar sköpuðust góðar umræður. Þetta er einn þáttur sem þarf að koma inn í þetta spil. Við þurfum líka að horfa til þess að starfsskilyrði bænda eru verulega misjöfn og þau þarf að treysta til þess að fá framleiðsluviljann enn frekar fram en er í dag og tryggja að við getum framleitt allar þær vörur sem eru inni í myndinni í þessu samhengi, hvort sem það er grænmeti, korn, kjöt, mjólk o.s.frv.

Virðulegur forseti. Það er svo sem hægt að ræða þetta í langan tíma. Að lokum vil ég bara segja: Við erum búin að taka þessa umræðu um fæðuöryggi þjóðarinnar og þetta mál er nátengt þeirri umræðu. Við tókum 1. umr. um þetta 9. febrúar árið 2022. Sú umræða fór ekki hátt þá en ekki liðu margir dagar þar til innrás Rússa í Úkraínu varð að veruleika þann 24. febrúar. Mjög fljótlega fóru menn að ræða fæðuöryggi þjóðarinnar af fullri alvöru. Það er hverri þjóð gríðarlega mikilvægt að vera sjálfbær um sem flesta hluti. Það er tiltölulega einfalt að stökkva út í búð og kaupa í matinn en menn gleyma því oft að ferillinn sem á sér stað áður en matvaran kemur í kjörbúðina getur verið ansi langur. Það er engan veginn sjálfgefið að hlutirnir verði allir eins á morgun og þeir voru í dag. Menn þurfa alltaf að hugsa þannig, að hugsa eins og gildir bændur gera, en þeir eiga forða fyrir veturinn til að fóðra skepnur sínar og hugsa um að framleiða heilnæm og góð matvæli.

Virðulegi forseti. Það gleður mig mjög að sjá áhuga þingmanna á þessari þingsályktunartillögu og kann ég þeim miklar þakkir fyrir. Það verður fróðlegt að fylgja henni eftir. Þegar umræðu verður lokið gengur þessi þingsályktunartillaga væntanlega til hv. atvinnuveganefndar og kemur þar til umfjöllunar ásamt mörgum öðrum spennandi málum sem snúa að framtíð matvælaframleiðslu á Íslandi. Ég held ég hafi þetta ekki lengra. Ég vil enn og aftur koma þökkum til þeirra þingmanna sem standa að þessari tillögu.



[17:59]
Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Það er gott að eiga gildan og mætan bónda á þingi og það úr einu blómlegasta landbúnaðarhéraði Íslands; hann þekkir greinina betur en flestir aðrir hér í þessum sal. Ég vil þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir þá góðu tillögu sem hér er lögð fram sem ég styð heils hugar. Það er skrifað í skýin það sem hér blasir við og hann hefur tíundað með ágætum. Við eigum að stíga þessi skref markvisst. Aðstæður í heiminum eru ógnvænlegar en kunna að fela í sér ákveðna dulbúna blessun fyrir okkur sem höfum verið að hika við að verða matvælaframleiðsluþjóð á háum skala með sjálfbærum hætti og sjá til þess að hér verði enginn matarskortur hvað sem á dynur. Ef þetta er það sem þurfti til að ýta við okkur þá er það svo en við eigum, að mínu mati, að ganga lengra en að huga að kjöt-, mjólkur- og kornframleiðslu. Við eigum að nýta okkur þá grænu orku sem við eigum gnægð af. Við eigum að færa sem næst orkuverunum ylframleiðslu á grænmeti og hollmeti sem við höfum verið að flytja inn í allt of miklum mæli; við getum líka verið sjálfbær í þeim efnum. Ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að við eigum að stíga skrefin stór og markviss í þessum efnum.



[18:02]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að við eigum að stíga enn frekari og stærri skref í þessu samhengi, sem snýr að því að nýta okkar grænu orku í framleiðslu, eins og við gerum í dag. Við framleiðum allt að 40% af því grænmeti sem er á boðstólum í dag og þá fyrst og fremst tómata, gúrkur og paprikur. Við getum bætt mikið í. Það eru einhverjar tilraunir og eitthvað verið að prófa varðandi framleiðslu á ávöxtum. Það er snúnara mál en væntanlega verður það hægt í einhverri framtíð, eins og maður segir. Það kom fram í máli hv. þingmanns að við eigum að nýta okkur þau tækifæri sem við höfum, nota þær gjafir sem landið okkar gefur okkur. Við erum ekki að nýta landið nema að litlum hluta. Við eigum alveg ofboðslegt magn af ræktanlegu landi sem við erum ekki að nota. Við getum bætt verulega í þegar kemur að ylræktinni, þ.e. í grænmetinu, og ég vil enn og aftur minna á möguleika okkar til kornræktar og útiræktunar á grænmeti en þá þarf öll þessi umgjörð líka að koma til eins og ég hef talað um áður og kom fram í máli mínu áðan.



[18:04]
Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir andsvarið. Ég ólst upp í fyrrnefndu landbúnaðarhéraði, þeirri blómlegu sveit, fyrstu ár ævinnar, í húsi fólks sem hafði lifað tvær heimsstyrjaldir. Viðbrögð þess fólks við þeirri lífsreynslu voru þau að risastórt búr í kjallaranum var þéttpakkað af dósamat, ef til þeirrar þriðju skyldi koma. Dósamatur er eitthvað sem við ætlum okkur ekki endilega að nærast á nema ill nauðsyn krefji, með undantekningum. Ímynd okkar er hagfelld í flestu tilliti. Við þurfum að huga að henni þegar við ætlum að hefja stórfellda matvælaframleiðslu, bæði til eigin nota og útflutnings. Þar hafa bændur orðið fyrir nokkrum höggum að undanförnu og beðið álitshnekki, getum við sagt. Við þurfum að huga að framleiðslulandinu Íslandi sem slíku. Við þurfum að huga að því, undir kliðmjúkum bjölluhljómi, að gæta að orðspori okkar og að ekkert verði aðhafst hér sem getur skert ímynd okkar sem trúverðugs hollmetisframleiðslulands.



[18:05]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það að eiga forða — það þekktist nú vel að þurfa að eiga eitthvað inni í búri, þegar ekki var hægt að hlaupa út í búð reglulega. Ég er alinn upp í sveit og hef ekki alltaf verið vestan við Vaðlaheiði, eins og maður segir. Ég er alinn upp austan við Vaðlaheiðina og ekki var alltaf hægt að komast reglulega í búðir. Ég þekki vel þá umræðu að eiga eitthvað inni í búri til að geta gripið í ef ekki var ferð í kaupstað. En við skulum líka hafa á hreinu þá miklu blessun sem þessi þjóð hefur búið við mjög lengi, þ.e. að við höfum verið laus við stríðsátök hér á landi. En því miður koma stríðsátök úti í heimi og hamfarir alltaf til með að hafa áhrif á líf okkar.



[18:07]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir framsögu á þessu mikilvæga máli. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að við sem þjóð tryggjum fæðuöryggi okkar. Það er líka mikilvægt að við gerum það á vel úthugsaðan hátt. Þegar ég var að alast upp heyrði maður oft í fjölmiðlum orð eins og smjörfjall og kjötfjall. Ég veit ekki alveg hvernig þau fjöll voru en það voru alla vega til miklar birgðir af óseldu kjöti.

Mig langaði því í fyrra andsvari mínu að spyrja hv. þingmann: Nú er eitt að safna birgðunum en eins og hv. þingmaður benti á er t.d. einungis hægt að geyma kjöt í ákveðið langan tíma. Okkur langar sennilega ekki mikið að borða tíu ára fryst lambakjöt. Hvaða aðferðir sér hv. þingmaður til að viðhalda þessum birgðum? Og hvað gerist þegar kannski er nægt framboð af fersku kjöti á markaði og einhvern veginn þarf að endurnýja birgðirnar? Nú hefur maður séð í öðrum löndum að þar hafa slík matvæli verið nýtt til að veita aðstoð erlendis, eða jafnvel innan lands. Kjötið hefur einfaldlega verið keypt af stjórnvöldum og gefið til hjálparstarfs. Mig langaði að vita hvaða hugmyndir hv. þingmaður sér í kringum þessa endurnýjun á birgðahaldi og hvernig því er háttað.



[18:09]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Smjörfjall og kjötfjall — við þekkjum þá umræðu og hún var frekar neikvæð. En í dag búum við ekki við kjötfjall og smjörfjall — ég ætla ekki að segja að við búum ekki við þann kost — enda voru tímarnir aðrir, við skulum bara orða það þannig. Við skulum hafa í huga að við erum að tala um birgðir. Við þurfum líka að horfa til þess að innlend matvælaframleiðsla er mjög háð erlendum aðföngum. Þau getur líka brostið. Við þurfum alltaf að búa í haginn að einhverju leyti, hvort sem eigum eitthvert magn af kjöti, grænmeti, mjólkurafurðum og korni eða ekki. Við þurfum líka að búa í haginn eins og kemur ágætlega fram í skýrslu um neyðarbirgðir sem forsætisráðherra hafði forgöngu um, sem snýr t.d. að olíu, áburði og þess háttar og varahlutum í vélum og öllu því sem þessu fylgir, öllu þessu langa ferli. Mitt svar er svo sem ekkert mjög einfalt í þessu samhengi, hvernig við eigum að geyma þetta eða hversu lengi, ég hef þau svör ekki á takteinum. Við þurfum að skoða það ofan í grunninn. Hvað teljum við t.d. vera hæfilegar birgðir af olíu í landinu? Það hefur verið getið um það í skýrslu um neyðarbirgðir. Við getum líka velt því fyrir okkur hversu miklar birgðir við þurfum að eiga af tilbúnum áburði af því að við erum ekki að framleiða hann hér o.s.frv. Allt þetta þarf að skoða í framhaldinu, hvernig við sjáum þessa hluti fyrir okkur.



[18:11]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held að það sé einmitt málið að það er mjög flókið hvernig á að halda utan um alla þessa hluti. Ég held að það sé líka mjög mikilvægt í þessari umræðu, þegar við erum að gera þetta, að við höfum umhverfissjónarmið í fyrirrúmi. Það er mjög mikilvægt að við gerum þessa hluti á þann hátt að við séum ekki líka að ganga á umhverfið.

Hv. þingmaður nefndi aðföng til ræktunar og eldis, áburð og fleira, og þá hugsaði ég strax: Er þetta ekki eitthvað sem við gætum verið að vinna hér? Til dæmis plastið sem við notum á baggana sem gera það að verkum að við getum nýtt heyið mun betur — mér hefur verið tjáð að hægt væri að endurvinna það plast sem verður afgangs hér á landi í nógu miklu magni til að allir bændur gætu fengið endurunnið plast frá Íslandi. (Forseti hringir.)

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni, hvort hann sér einhver (Forseti hringir.) hringrásar- og endurnýjunarsjónarmið sem gætu verið til staðar þegar kemur að aðföngunum.



[18:12]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og spurningin varð næstum því til þess að ég óskaði eftir því að fara í aðra ræðu en ég held að ég bíði aðeins með það. Vissulega er það draumsýnin og draumurinn að horfa á ákveðið hringrásarhagkerfi í þessu samhengi. Ég held að við séum ekki komin alveg þangað að við getum endurunnið allt rúlluplast sem hér fellur til út af vissum ástæðum. En að stærstum hluta er vel staðið að því að safna því og það er flutt út í aðra vinnslu. Síðan er t.d. að koma á markað, og það er mjög áhugavert, lífrænt plast úr ákveðinni sterkju sem er ekki plast en einhver filma sem á að geyma rúllur í og það á að prófa það hér á næsta ári. Loftslagsmál, umhverfissjónarmið o.fl. — tíminn leyfir það ekki að fara lengra en við gætum rætt þessa hluti mjög lengi.



[18:14]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir framsöguna. Ég er meðflutningsmaður á þessari tillögu um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Í tillögunni segir að Alþingi álykti að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt sé að framleiða hér á landi. Ég er sammála þessu en mér finnst að þetta nái ekki alveg utan um vandamálið. Þetta er hluti af vandamálinu ef við horfum á þetta út frá þeim neyðarbirgðum sem er mikilvægt að hafa.

Ég er með nokkrar spurningar til hv. þingmanns varðandi kortlagninguna á stöðunni og lágmarksbirgðir. Það þarf væntanlega að vera kerfi til að endurnýja lágmarksbirgðir. Hve langan tíma á t.d. að geyma þessar neyðarbirgðir og þarf ekki að vera rúllandi endurnýjun á neyðarbirgðum svo að þær verði ekki gamlar og rotni og mygli o.s.frv.? Væri ekki rétt að það væri einhver ákveðin stofnun sem sæi um þetta, eins og þjóðaröryggisráð, sem sæi um eftirlit með þessum neyðarbirgðum?

Annað sem ég tek eftir í greinargerðinni varðar neyðarbirgðir sem hægt er að framleiða hér á landi. Þá fer maður strax að velta fyrir sér: Hvað með neyðarbirgðir sem ekki er hægt að framleiða hér á landi, t.d. olíu og önnur erlend aðföng? Varðandi landbúnaðarframleiðslu — það þarf náttúrlega olíu á dráttarvélarnar og önnur aðföng til að halda við dráttarvélunum og tækjunum, til að keyra þau áfram. Ég veit að í Bandaríkjunum eru neyðarbirgðir af olíu gríðarlegar, bæði út af heraflanum og líka út af samfélaginu. Vantar ekki líka að taka það inn í mengið, þ.e. neyðarbirgðir sem lúta að landbúnaðarframleiðslunni? Ekki tökum við upp eylandsljáinn og förum að slá. Við þurfum að yrkja jörðina með þeim erlendu tækjum sem við höfum sem eru drifin áfram á olíu. Við erum ekki enn búin að rafvæða allan flotann. Ég bíð með næstu spurningu þar til í síðara andsvari.



[18:16]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Kortlagning og í hve langan tíma eigi að geyma afurðirnar í frysti og þess háttar — þetta eru allt verulega góðar og fínar spurningar og eru hluti af þeirri vinnu sem þarf að fara í í framhaldinu. Það þarf að viðhalda vissu magni innan lands og auðvitað þarf að taka af þessum birgðum en ekki geyma þær til 10 ára þannig að afurðirnar verði ónýtar, það er ekki tilgangurinn með þessu. Hver ætti að sjá um það — hv. þingmaður minntist á þjóðaröryggisráð og ég held að það sé ágætur vettvangur til að ræða þessa hluti. Auðvitað tengist þetta fyrst og fremst þjóðaröryggi og þá forsætisráðherra, sem er höfuð ríkisstjórnarinnar, og þjóðaröryggisráði í framhaldinu.

Við skulum ekki fara fram úr okkur. Við erum að fjalla um neyðarbirgðir sem snúa að matvælaframleiðslu hér innan lands og þingsályktunartillagan fjallar fyrst og fremst um það. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi olíu á dráttarvélar og önnur aðföng og það er komið frekar vel inn á það í skýrslunni um neyðarbirgðir, sem forsætisráðherra lét gera og við fórum yfir í október. Þar geta menn sér þess til hve mikið þarf að vera til af olíu o.s.frv. En við erum fyrst og fremst í þessari þingsályktunartillögu að fjalla um hvernig við eflum innlenda matvælaframleiðslu til að við þurfum ekki að treysta á innflutning á öðrum vörum. Heimafenginn baggi er alltaf bestur, hv. þingmaður.



[18:18]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Vissulega er þetta hluti af málinu og hér er eingöngu verið að ræða neyðarbirgðir landbúnaðarafurða. Ég tek eftir því að í greinargerðinni er lögð áhersla á skoðun á uppbyggingu vegna kornræktar og geymslu á kornbirgðum hér á landi. Ég fór strax að hugsa um kjötfjallið, ostafjallið og það allt. Veit hv. þingmaður, þar sem hann er bóndi, eitthvað um geymslur undir kjötafurðir, grænmeti og mjólkurafurðir — eru nægar geymslur til í landinu? Þarf ekki líka að huga að því að hafa það inni í menginu í þessari tillögu að hugað sé að nægu geymslurými varðandi neyðarbirgðir? Þegar þetta fyrirkomulag verður útfært þarf það auðvitað að lifa áfram og það er væntanlega forsætisráðherra sem myndi sjá um það, það er reyndar matvælaráðherra í þessu tilviki. Getur hv. þingmaður aðeins frætt okkur um þessa hluti varðandi aðrar landbúnaðarafurðir?



[18:20]
Flm. (Þórarinn Ingi Pétursson) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ætli við séum ekki að framleiða í lambakjöti svona helming af því sem við framleiddum fyrir 30 til 40 árum. Væntanlega er eitthvað af frystigeymslum komið til ára sinna, en megnið af þeim er til, hvort sem þær eru í notkun eða ekki. Varðandi geymslur fyrir grænmeti og annað þá er, eins og við vitum, takmarkaður geymslutími á því. Kartöflur geymast ágætlega yfir veturinn í góðum geymslum og þess háttar. Ég bara þekki ekki nógu vel geymslutíma og geymsluþol á ákveðnum afurðum en kjöt má geyma í töluverðan tíma, í marga mánuði, jafnvel ár. Umfram allt snýr þetta að því að við kortleggjum stöðuna, að við eigum alltaf eitthvert visst magn af ákveðinni vöru í landinu ef allt fer á versta veg. Um það snýst málið í hnotskurn.



[18:21]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að þakka flutningsmanni, hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni, fyrir yfirferðina á þingsályktunartillögunni sem snýst um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða. Þar er lagt til að Alþingi álykti að fela matvælaráðherra að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt sé að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2023. Þar yrði markmiðið að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarvörum í landinu á hverjum tíma. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvæg tillaga og mér finnst við hæfi að nefna að hún spilar auðvitað einnig inn í markmiðið um að tryggja afkomu greinarinnar en á sama tíma, í ljósi aðstæðna, að bregðast við breytingum sem hafa átt sér stað í öryggis- og varnarmálum. Það má líta til margra þátta í því tilliti en hér er fyrst og fremst verið að leggja til að til staðar sé kerfi sem tryggir að hægt sé að framleiða landbúnaðarafurðir hérlendis og í umframmagni, umfram hefðbundna neyslu, en að ríkisvaldið hafi á sama tíma heimildir til að greiða framleiðendum geymslugjald til að geyma umframframleiðslu án þess að hún hafi áhrif á verðmyndun á markaði.

Mér finnst þetta fyrirtakstillaga. Ég held að það skipti mjög miklu máli fyrir okkur að geta tvinnað þetta tvennt saman. Í umræðunni hér í dag, sem hefur verið upplýsandi og góð, hefur verið komið inn á sjálfbærni okkar sem þjóðar. Sjálfbærni skiptir máli og við búum að gríðarlega sterku matvælaframleiðslukerfi hér á Íslandi. Sama er ekki hægt að segja um margar aðrar þjóðir og þess vegna er ærin ástæða til að við höllum okkur að því. Það hefur líka verið nefnt í umræðunni hér að annars konar nauðsynjar þurfi að vera til staðar á hættutímum. Það er hægt að nefna marga þætti í því tilliti. Í tillögunni er m.a. komið inn á kornræktina og mikilvægi hennar. Ég var svo heppinn fyrir allnokkru að geta kynnt mér repjurækt á Suðurlandi. Repja er framleidd og nýtt sem eldsneyti. Við getum sannarlega gert betur varðandi rannsóknir og þróun á því sviði til að mæta fleiri þáttum sem við þurfum að vera sjálfbær með.

Við þurfum að huga að neyðarbirgðum á hverjum tíma og sú skýrsla sem þjóðaröryggisráð beitti sér fyrir að yrði gerð kemur auðvitað inn á mikið af þessum þáttum. En hér er komin tillaga, að mér sýnist, sem getur svo sannarlega mætt einni stórri áskorun í þeirri vegferð að tryggja neyðarbirgðir ef hættuástand kemur upp. Við gegnum í gegnum heimsfaraldur ekki alls fyrir löngu og þá var sú umræða uppi að fæðuöryggi þjóðarinnar þyrfti að vera tryggt. Það er því búið að nefna það í þessum þingsal, og margoft á undanförnum þremur árum, hve mikilvægt er að við kortleggjum betur stöðuna. Við séum í þeirri öfundsverðu stöðu að framleiða mikið magn af mat en við þurfum að geta tryggt geymslu hans. Við þurfum að geta tryggt að það hafi ekki áhrif á markaði. Við þurfum að geta tryggt að við séum að koma til móts við þá aðila sem koma til með að framleiða það umframmagn.

Ég fagna tillögunni, ég er meðflutningsmaður á henni. Ég ítreka þakkir mínar til framsögumanns og vænti þess að þingsályktunartillagan fái góða umfjöllun í kjölfarið.



[18:26]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég ætlaði fyrst og fremst að sefa áhyggjur Gísla Rafns Ólafssonar hvað varðar geymslu á matvælunum sem við erum að hefja stórfellda framleiðslu á til innlendra nota nú og síðar og jafnvel til útflutnings. Þegar ég var nýbyrjaður í tónlistarbransanum — sem ég mátti ekki hefja störf við fyrr en að afloknu stúdentsprófi, það var stífur agi á heimilinu, ég fékk eitt ár áður en ég átti að hefja læknisfræðinámið — höguðu örlögin því þannig að ég endaði í Stóra-Bretlandi 19 vetra. Ég var með breskan trymbil og hann var kærður til stéttarfélagsins og þar með var hópurinn ekki starfhæfur og fór út. Þá var stundum þröngt í búi. En til hátíðabrigða var jafnan farið á hamborgarastaðinn Wimpy´s sem þá var aðalhamborgarakeðjan í Lundúnum. Þess er að minnast hve þetta voru ljúffengar máltíðir. Þetta var á miðjum áttunda áratugnum, um það leyti sem margir hér inni voru að verða að veruleika, fara af hugmyndastigi yfir á holdlega sviðið, jarðneska sviðið. Þetta eru sem sagt í skýru minni einhverjar bestu máltíðir táningsáranna. 20 árum síðar upplýstist það að Wimpy´s-hamborgararnir og Wimpy´s-keðjan öll hafði verið stofnsett með góðum hagfelldum samningum við breska herinn um kaup á tugmilljónum hamborgara úr seinni heimsstyrjöldinni. Nokkrir áratugir voru liðnir frá því að þessir hamborgarar höfðu verið frystir og var þeim síðan sporðrennt af íslenskum tónlistarmönnum á Wimpy´s-veitingahúsunum í Lundúnum og rísa upp í minningunni sem eitthvað það ljúffengasta sem maður lagði sér til munns. Ég vona að Gísli Rafn Ólafsson geti slakað á og sofið áhyggjulaus eftir þessar fréttir.

Ég ætla bara að ítreka það sem hann vék að og við eigum að hafa hugfast. Við höfum af mikilli lánssemi fengið að byggja eyju sem býr yfir þeim miklu gæðum sem raun ber vitni; græna orkan margnefnda, blómlegu sveitirnar, sem sum okkar hafa fengið að kynnast og búa í. Ég held að ímynd okkar sem þjóðar hreinnar, heilnæmrar, hollrar fæðu sé okkur afar dýrmæt, bæði sem áfangastaðar og sem útflutningsþjóðar. Þess vegna ætla ég enn og aftur að segja: Hugum vel að umhverfismálunum og hugum vel að ímyndarmálunum með þeim hætti sem við viljum gera hér eftir sem hingað til og látum ekki neitt líðast sem getur dregið úr trúverðugleika okkar eða skaðað ímynd okkar sem siðaðrar framleiðsluþjóðar á heilbrigðum og hollum matvælum.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.