153. löggjafarþing — 29. fundur
 10. nóvember 2022.
dýravelferð.

[10:33]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum hvernig aðbúnaður dýra hefur verið í Bæjarsveit í Borgarfirði, á tveimur bæjum í Borgarfirði, eiginlega svo ömurlegt og hryllilegt að það er varla að maður geti komið orðum að því. Mig langar þess vegna að beina fyrirspurn til hæstv. matvælaráðherra sem er jú sá ráðherra sem ræður nákvæmlega yfir þessum málaflokki, sem er yfirmaður Matvælastofnunar, MAST. Það er á hennar vakt nákvæmlega þar sem staðan í Bæjarsveit er eins og Steinunn Árnadóttir lýsti á fésbókarsíðu sinni í gærmorgun. Þar sem segir, með leyfi forseta:

„Staðan í Bæjarsveit í morgun, 9.nóvember: Nautgripir eru heylausir og vatnslausir. Hestar sem fluttir voru úr Borgarnesi á sunnudagskvöld og sameinaðir horuðu nautgripunum standa í drullu á smá túnbletti. Einn hestur liggur. Sennilega dauður. Fóðrið sem þau fá eru margra ára gamlar heyrúllur. Þá á eftir að tala um þá 100–200 nautgripi sem eru læstir inni og hafa ekki sést í þrjú ár.“

Virðulegi forseti. Ég er eiginlega orðin svo andaktug yfir því hvers lags eiginlega slugsugangur er hér á ferðinni. Hvernig stendur á því að við þurfum að þola það, raunverulegir dýravinir og Íslendingar og íslenskur almenningur og fólkið sem býr í námunda við þessa bæi, þar sem í raun og veru — ég hef verið að tala við allnokkra einstaklinga — eru mismunandi há veinin sem koma út úr fjósinu þarna? Þau eru mismunandi hungruð greinilega, blessuð dýrin.

Ég bara spyr hæstv. matvælaráðherra: Hvenær ætlar hún að nýta sér það umboð og það vald sem hún hefur til að taka raunverulega á því augljósa dýraníði sem allir í landinu virðast koma auga á sem láta sig það varða nema hún?



[10:35]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og það er sannarlega rétt að þessi málaflokkur, dýravelferðarmál, heyrir undir mig. Það var raunar þannig að þegar ég gegndi embætti umhverfisráðherra á sínum tíma þá mælti ég fyrir frumvarpi til laga um dýravelferð þegar málaflokkurinn var síðan fluttur til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eins og hv. þingmaður veit þá er því þannig fyrir komið að öll framkvæmd er í höndum Matvælastofnunar og í ljósi kæruheimilda sem eru til í lögum þá get ég ekki tjáð mig um einstök mál, eins og það er nú skemmtilegt svar eða hitt þó heldur. En það er staðan.

Hins vegar hef ég, í ljósi þess yfirstjórnunarhlutverks sem ég hef sem ráðherra, ákveðið að nota heimildir í lögum um Stjórnarráð Íslands til þess m.a. að fá frekari upplýsingar frá Matvælastofnun um verkferla, upplýsingagjöf og hvort Matvælastofnun telur sig skorta heimildir. Bréf þessa efnis var sent á Matvælastofnun 25. október og ég vænti þess að fá svar á næstu dögum.

Ég vil líka geta þess, og ég fagna því, að Ríkisendurskoðun hefur hafið frumkvæðisathugun á dýraverndar- og dýravelferðarmálum í landinu í ljósi þeirrar umræðu sem uppi hefur verið. Það hvílir mikil ábyrgð á umráðamönnum dýra samkvæmt lögum. Það fylgir því mikil ábyrgð að annast dýr þannig að velferð þeirra sé tryggð. Ég er sammála því að svo sé og ég mun gera og hef gert það sem í mínu valdi stendur til að beita þeim heimildum sem ég hef samkvæmt lögum til þess að tryggja að borin sé virðing fyrir dýrum.



[10:37]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Jú, hún ber ábyrgð en samt sem áður er það Matvælastofnun sem keyrir skútuna. Staðreyndin er sú að þetta svar hæstv. ráðherra var nákvæmlega það sem ég bjóst við. Hún er að firra sig allri ábyrgð. Hún hefur 100% heimild, hvort sem er í reglugerðum eða einfaldlega að fylgja lögum um dýravelferð. Lög um dýravelferð eru algerlega skýr hvað lýtur að því ef dýrum líður illa eða þau eru vanfóðruð eða þau eru hrædd og ég veit ekki hvað maður getur talið upp sem kemur fram í dýravelferðarlöggjöf. Það er verið að brjóta dýravelferðarlöggjöfina frá A til Ö og það er vitað af Matvælastofnun, það er vitað af hæstv. ráðherra, þannig að ég hvet hana til dáða og til að fara eftir þeim heimildum sem hún hefur, beita því valdi sem hún hefur. Ef hún treystir sér ekki til að gera það þá skal ég gjarnan leysa hana af sem matvælaráðherra og sjá um þessa dýravelferð þótt það væri ekki nema bara til að klára að laga það sem miður er að fara hér fyrir framan allan landslýð.



[10:38]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þetta eru viðkvæm og vandmeðfarin mál sem snerta fólk og það er mikilvægt. Það er mikilvægt að við ræðum þau hér í þingsal en það er líka mikilvægt að við höldum okkur við lögin eins og þau eru og það verður ekki þannig á grundvelli gildandi laga að ráðherra hlutist til um einstök mál. Það er ekki þannig. Hins vegar er það algerlega skýrt í dýravelferðarlöggjöfinni að Matvælastofnun fer með alla framkvæmd laganna. En ég árétta það að í ljósi þess hversu alvarleg þau mál eru sem hafa verið til umræðu þá hef ég talið rétt að skrifa stofnuninni bréf og óska eftir skýrum svörum um verkferla en ekki síst um samskipti við almenning, upplýsingagjöf o.s.frv. Vegna þess hversu viðkvæm málin eru og vegna þess að hér er um málleysingja að ræða þá þurfum við að gæta að okkur í hverju skrefi.