153. löggjafarþing — 29. fundur
 10. nóvember 2022.
sjávarútvegsdagur SFS.

[10:45]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þann 25. október síðastliðinn héldu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sjávarútvegsdaginn. Þremur einstaklingum var boðið að koma fram og ávarpa fundinn og meðal þeirra sem fram komu voru Þorsteinn Már Baldursson, forstjóri Samherja, og hæstv. matvælaráðherra. Ákvörðun um að bjóða forstjóra Samherja að ávarpa fundinn hefur sætt gagnrýni, enda er um að ræða forstjóra fyrirtækis sem er beinlínis grunaður um að flytja út íslenska spillingu og hefur réttarstöðu sakbornings hérlendis og annars staðar vegna ætlaðra stórfelldra mútubrota og skattsvika. Með þessari dagskrá heiðruðu SFS manninn sem hefur gengist við því að hafa gengið allt of langt í ófrægingarherferð sinni gagnvart þeim blaðamönnum sem komu upp um óskundann hér um árið.

Þorsteinn Már nýtti tækifærið og tjáði ráðherra og öðrum fundargestum að eitt helsta vandamál íslensks sjávarútvegs væru veiðiheimildir til smærri útgerða og strandveiða, að þær ógnuðu stöðu hans eigin fyrirtækis og íslenskrar stórútgerðar á alþjóðlegum mörkuðum. Þessi skilaboð til strandveiðimanna eru heldur hjákátleg eftir þann mikla orðsporshnekki sem gjörðir Þorsteins Más í Namibíu ollu íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum á heimsvísu.

Virðulegi forseti. Ráðherra hefur sjálf sagt að það ríki djúpstæð tilfinning meðal almennings um óréttlæti innan sjávarútvegsins. Ég leyfi mér að bæta við að sú tilfinning stafar eflaust ekki síst af því að aðilar í stórútgerðinni virðast komast upp með nánast hvað sem er án sjáanlegra afleiðinga.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða skilaboð finnst henni SFS vera að senda samfélaginu með því að bjóða Þorsteini Má að halda þetta erindi sitt á fundinum?



[10:47]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Bara svo forsaga málsins og minnar aðkomu að þessu sé rakin lítillega þá var það svo að upplýsingafulltrúi SFS hafði samband við ráðuneytið eins og títt er og þar var falast eftir því að ég sem ráðherra sjávarútvegsmála ávarpaði það sem kallað er og yfirskriftin er sjávarútvegsdagurinn 2022, sem var haldinn af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtökum atvinnulífsins og Deloitte. Við þessari beiðni var orðið. Í aðdraganda fundarins kom í ljós að ég gat ekki setið þessa ráðstefnu vegna fundar í ráðherranefnd þannig að það varð úr, eins og því miður gerist oftar en ekki, að ég ávarpa fundinn og opna hann og vík síðar á fundinum. Ég var því ekki viðstödd þá umræðu sem þarna var og ekki frekar en almennt var það lagt í mínar hendur að meta það hverjir töluðu þar og hverjir ekki, enda viðgengst það ekki þegar ég er beðin um að flytja opnunarávarp að það sé bundið einhverjum slíkum skilyrðum. Hins vegar vil ég segja vegna spurningarinnar sem hv. þingmaður ber hér upp að það er auðvitað staðreynd að um er að ræða alvarlegar ávirðingar og alvarleg mál sem eru í rannsókn á þessu sviði, mál sem geta skaðað og hafa skaðað orðspor íslensks sjávarútvegs og fram hjá því verður auðvitað ekki litið, hvorki í þessu samhengi né öðru.



[10:49]
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Mér heyrist vera samhljómur á milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Bjarna Jónssonar í hennar flokki sem sagði í sérstakri umræðu um rannsókn á Samherjamálinu og orðspor Íslands hér á Alþingi, tveimur dögum eftir þennan sjávarútvegsdag 27. október síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kusu að gera forstjóra Samherja að andliti samtakanna á dagskrá sinni á þriðjudaginn sem helguð var degi sjávarútvegsins.“

Hann sagði enn fremur, með leyfi forseta:

„Það er óásættanlegt að orðspor heillar greinar sé undir vegna einstakra fyrirtækja sem byggja viðurværi og auðæfi sín á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.“

Ég vil bara spyrja aftur, eða kannski ítreka og gera spurninguna aðeins sértækari: Finnst hæstv. ráðherra það virkilega ásættanlegt að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hegði sér með þessum hætti og bjóði þessum manni að taka sviðið?



[10:51]
matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Rétt eins og hv. þingmaður áréttar sína spurningu þá árétta ég mitt svar: Það er ekki og getur ekki verið mín ákvörðun hverjir tala á fundum einstakra félaga, stofnana eða fyrirtækja. Ég get hins vegar rætt ýmsar hliðar sem hafa komið upp og munu koma upp í tengslum við orðspor Íslands á alþjóðavísu.