153. löggjafarþing — 29. fundur
 10. nóvember 2022.
álag á innviði vegna hælisleitenda.

[10:58]
Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Ég vildi beina fyrirspurn til hæstv. innviðaráðherra, sem jafnframt er formaður Framsóknarflokksins, og koma fyrst með smá samhengi fyrir okkur inn í spurninguna. Á hverjum tíma hérna á Íslandi eru tugþúsundir útlendinga á landinu. Þeir koma hingað á grundvelli EES-samningsins, þeir halda uppi alls konar atvinnugreinum, má segja; hjálpa okkur að byggja húsin okkar, vegina okkar og að sjálfsögðu nýtur þetta fólk réttinda og á þá líka rétt á þjónustu hér. Af því skapast eitthvert álag á innviði sem okkur finnst þó í lagi vegna þess að ávinningurinn af þessu er auðvitað mikill. Við erum síðan auðvitað líka að reyna að fá til landsins sérfræðinga utan EES og er talað um að þar þurfi að fá talsverðan fjölda líka, auðvelda þessum hópi að koma til landsins. Síðan þegar kemur að umræðu um hælisleitendur þá erum við í þeirri stöðu að 80% allra hælisleitenda koma frá Úkraínu og Venesúela. Íslensk stjórnvöld hafa boðið íslenskan faðm opinn gagnvart þeim sem koma frá Úkraínu og kærunefnd útlendingamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að fólkið frá Venesúela eigi rétt á aðstoð og vernd. Þá eru eftir örfá hundruð sem ekki falla inn í þennan hóp sem ég var að lýsa, sem telur tugþúsund á hverjum tíma í landinu. Samt er það þannig að íslensk stjórnvöld virðast sífellt vera að tala um að þessi tiltekni hópur, þessi fámenni hópur sem kæmist fyrir í Silfurbergi í Hörpu, sé að skapa þannig álag á kerfin okkar, á innviði okkar að við þurfum að grípa til harðra aðgerða til að koma þessu fólki úr landi helst sem fyrst mörgu hverju.

Mig langar að spyrja hæstv. innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins í ljósi þessa samhengis: Eru það ekki hrein öfugmæli að örfá hundruð skuli skapa þetta viðbótarálag á kerfin okkar þegar við ræðum ekki um hin tugþúsundin sem við bjóðum velkomin og sjáum að geta gert samfélaginu gagn?



[11:01]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Kannski má segja að þingmaðurinn sé að reyna að nálgast umræðuna svolítið öðruvísi og á málefnalegri hátt heldur en margt hefur verið í þeirri umræðu á síðustu vikum, misserum og jafnvel lengri tíma. Það er nefnilega alveg rétt að íslenskt samfélag gæti ekki þróast, þroskast og verið með slíkan vöxt eins og verið hefur án þess að hingað komi fólk til vinnu. Við erum enn þann dag í dag á ótrúlega öflugum stað, ekki síst í ljósi samanburðar við önnur lönd hvað atvinnuleysi varðar og þar af leiðandi þörf okkar á því að fá hingað vinnuafl til að standa undir íslensku samfélagi. Það er rétt að hér eru tugþúsundir í vinnu. Sumir koma hingað til að vinna til skamms tíma eins og er í öllum löndum, aðrir kjósa að setjast hér að og þeir þurfa auðvitað að fá þá þjónustu sem til þarf, íslenskukennslu, þeir eignast börn og þurfa pláss í leikskólum og alla þá innviði sem til þess þarf. Það er bara talsvert álag nú þegar, vegna þess að þetta er mjög stór hópur. Síðan hefur líka verið horft til þess að fá hingað sérfræðinga til að taka þátt í þeim hátækniiðnaði sem við erum að byggja upp og í skapandi greinum. Við höfum verið að tala um að það sé kannski skrýtið að við séum að horfa eingöngu á EES-svæðið en hafa ekki allan heiminn þar undir. Það er líka rétt hjá þingmanninum og ég held að við þurfum að gera það og takast þá á við það líka. Síðan er til kerfi þar sem eru annars vegar kvótaflóttamenn sem við höfum verið að standa okkur nokkuð vel í að taka á móti og reyna að gera eins vel fyrir og við mögulega getum. Það eru þeir sem standa hvað verst að mati Sameinuðu þjóðanna og við í samstarfi við þær. Síðan eru það hælisleitendur sem við ráðum við að ákveðnu marki líka, en þegar allt bætist ofan á þá viljum við líka gera vel við þann hóp. En það er neyðarkerfi og það er kannski ágætt að við förum að ræða það að það sé ekki sama leið og allar hinar. (Forseti hringir.) Ef það er þannig að þeir sem fara í hælisleitendakerfið væru í raun að koma til þess að sækja sér vinnu eins og þessar tugþúsundir þá kannski þyrftu þeir að fara aðra leið heldur en í gegnum hælisleitendakerfið.



[11:03]
Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það sem ég er að reyna að benda á er að íslenskt samfélag getur auðvitað haft sama gagn af þeim sem koma inn í gegnum verndarkerfið og þeim sem koma inn með öðrum leiðum. Það er engin ástæða fyrir okkur til að álykta sem svo eða tala með þeim hætti að þegar þessi tiltekni fjöldi er annars vegar þá verði það eitthvert annað ferli hjá þessu fólki inn í samfélagið en öllum hinum. Auðvitað er það þannig að fólk vill koma hingað, njóta verndar, geta komið börnunum sínum í skóla og séð fyrir sér og sínum með atvinnu og mig langar þá að spyrja: Er eitthvað sem gerir það að verkum að við eigum að hugsa öðruvísi um þennan hóp þegar að því kemur? Er eitthvað sem bendir til þess að þessi örfáu hundruð sem ég var að vísa til, sem koma í gegnum hælisleitendakerfið og vissulega er rétt að það er verndarkerfi, en það er þó a.m.k. einhver afleiðing af verndarkerfinu að þetta fólk kemur hingað og vill vinna og búa til verðmæti — er einhver ástæða til að ætla að þessi hópur verði frekar einhver baggi á samfélaginu eða búi til einhvers konar viðbótarálag (Forseti hringir.) eða að það sé verra að fá þetta fólk en allar hinar tugþúsundirnar sem hingað koma á hverjum tíma, (Forseti hringir.) jafnvel þótt fólkið komi hingað inn í landið á mismunandi forsendum? (Forseti hringir.) Það er kannski það sem ég er svolítið að reyna að fá fram hjá hæstv. ráðherra.



[11:05]
innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Já, nú erum við kannski farin að nálgast hinn málefnalega kjarna. Það er nefnilega þannig að þegar við erum að taka á móti kvótaflóttamönnum þá er það fólk sem er í mjög erfiðri stöðu og að mati Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannahjálpar þeirra í þeirri verstu. Þeir þurfa umframþjónustu og við erum að reyna að samræma þá þjónustu við þá sem koma hér í gegnum verndarkerfið, neyðarkerfið. Það er allt önnur þjónusta heldur en þeir sem koma hingað til að vinna. Það er nákvæmlega þess vegna sem það þrýstir meira á suma hluta kerfisins og það er þess vegna sem við ráðum kannski ekki við óendanlegan fjölda fólks. En ég er algjörlega sammála þingmanninum um að þegar fólk er komið hingað inn og komið í störf þá eru allir að leggja jafn mikið til samfélagsins með vinnu sinni. Það er nú eitt af því sem er það góða við Ísland, að flestir sem hingað hafa komið hafa farið í vinnu umfram t.d. mörg önnur Norðurlönd. (Forseti hringir.)

Ég hef sagt hérna áður og ætla að segja það í lokin: Við getum alveg horft á Norðurlöndin sem fyrirmynd (Forseti hringir.) í þessu máli eins og mörgum öðrum. Við erum einhvern veginn akkúrat ekki þar í augnablikinu en þessi umræða fannst mér ágæt(Forseti hringir.) við hv. þingmann og málefnaleg.