153. löggjafarþing — 29. fundur
 10. nóvember 2022.
fjáraukalög 2022, 1. umræða.
stjfrv., 409. mál. — Þskj. 457.

[12:47]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2022 sem er að finna á þskj. 457. Alla jafna samþykkir Alþingi ein fjáraukalög á ári en í ljósi breytinga á skipan Stjórnarráðsins í tengslum við myndun nýrrar ríkisstjórnar í nóvember á síðasta ári var í mars síðastliðnum lagt fram frumvarp til fjáraukalaga sem varð svo að lögum í júní. Því var einungis ætlað að endurspegla á tæknilegan hátt þær breytingar sem gerðar voru á Stjórnarráðinu.

Það frumvarp sem ég mæli fyrir nú er því annað frumvarp til fjáraukalaga vegna ársins sem lagt er fram á Alþingi. Fjáraukalögum er lögum samkvæmt einungis ætlað að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjaldamálum en ekki mæta útgjöldum til nýrra verkefna, aukins umfangs starfsemi eða rekstrarhalla einstakra málefnasviða og málaflokka umfram settra útgjaldaramma.

Líkt og í fyrri fjáraukalögum eru í þessu frumvarpi hvorki lagðar til breytingar á tekjuhlið fjárlaga né tilheyrandi breytingar á sjóðstreymi og afkomu ríkissjóðs. Á hinn bóginn er greint frá endurmetnum afkomuhorfum í greinargerð frumvarpsins. Þá eru í frumvarpinu fyrst og fremst lagðar til breytingar á framlögum til málaflokka þar sem aukinna fjárheimilda er þörf en ekki lækkanir á framlögum til annarra málaflokka. Í einhverjum tilvikum geta þó tiltekin útgjaldamál, til að mynda millifærslur, leitt til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka lækki.

Megin útgjaldatilefni frumvarpsins leiðir af áhrifum kórónuveirufaraldursins, einkum á fyrri hluta þessa árs, breyttum efnahagshorfum og þá sér í lagi auknum áhrifum verðbólgu á vaxtagjöld ríkissjóðs. Auk þess spila stóran þátt ýmis útgjaldamál vegna stríðsátaka í Úkraínu og mikillar fjölgunar flóttafólks og umsókna um alþjóðlega vernd.

Því til viðbótar eru lagðar til breytingar á hagrænni skiptingu fjárheimilda og millifærslur á milli málaflokka en slíkar breytingar hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Loks eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2022 sem varða heimildir til kaupa og sölu fasteigna, lóða og jarða og hlutabréfa, en ég mun fara nánar yfir það hér á eftir.

Áður en lengra er haldið vil ég vekja athygli á því að við vinnslu frumvarpsins hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið haft stöðu lífeyrisaukasjóðs Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til skoðunar. Lífeyrisaukasjóður kom til við breytingar á LSR í framhaldi af samkomulagi við heildarsamtök opinberra starfsmanna árið 2016 um breytt fyrirkomulag lífeyrismála. Eitt sem leiddi af því var að skipt var út jafnri réttindaávinnslu yfir í aldurstengda réttindaávinnslu. Til að þau sem voru þá í starfi yrðu ekki fyrir verulegri réttindaskerðingu greiddi ríkissjóður tæplega 107 milljarða kr. sem var metinn munur á jafnri og aldurstengdri ávinnslu þessa tiltekna hóps í sérstakan lífeyrisaukasjóð. Með því fjárframlagi var talið að LSR gæti tryggt að réttindi þessa hóps yrðu því sem næst óbreytt miðað við þær tryggingarfræðilegu forsendur sem þar var miðað við. Tilefni skoðunar á stöðu sjóðsins nú er að staða hans hefur verið neikvæð umfram tilskilin mörk í fimm ár og því ber að taka upp viðræður við heildarsamtök starfsmanna ríkisins um orsakir þess og hvernig bregðast þurfi við því.

Leiði mat á stöðunni í ljós að veita þurfi auknu framlagi í lífeyrisaukasjóð LSR til að bæta stöðu hans verður lagt til að þeirra heimilda verði aflað með breytingum á frumvarpinu í meðförum þingsins.

Þessa vildi ég geta hér strax við framsögu.

Virðulegi forseti. Ég vík nú að meginefni frumvarpsins. Samtals er lagt til að fjárheimildir málefnasviða og málaflokka verði auknar um 74,7 milljarða kr. Það svarar til 6,1% aukningar frá áður samþykktum fjárheimildum í fjárlögum ársins 2022 en ef einungis er horft til rammasettra útgjalda í þessu frumvarpi nema tillögur um auknar fjárheimildir 35,9 milljörðum eða sem nemur 3,5% aukningu frá fjárlögum.

Að frátöldum vaxtagjöldum snýr langstærsti hluti tillagna frumvarpsins að verkefnum sem tengjast heilbrigðismálum eða 18,4 milljarðar kr. Hækkunin skýrist að mestu af auknum kostnaði vegna kórónuveirufaraldursins en samtals nema þau útgjöld 14,8 milljörðum kr. Það er að stærstum hluta launakostnaður vegna aukinnar mönnunar, svo sem vegna sérstakra álagsgreiðslna og breytilegrar yfirvinnu. Jafnframt má nefna kostnað við prófefni vegna veiruskimunar, aukið umfang leyfisskyldra lyfja og einnig mætti nefna 180 millj. kr. hækkun vegna aðgerða til að sporna gegn langtímaáhrifum kórónuveirufaraldursins. Um 60% af öllum þessum útgjöldum falla til á Landspítalanum. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir 3,6 milljarða kr. hækkun fjárheimilda vegna umframútgjalda á nokkrum liðum sjúkratrygginga innan ársins, einkum lyfjakostnaðar.

Útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukast um 4,5 milljarða samkvæmt frumvarpinu. Þar vega þyngst annars vegar 2,9 milljarða hækkun á málefnasviði 27, örorka og málefni fatlaðs fólks, vegna hæstaréttardóms um að óheimilt sé að skerða framfærsluuppbót örorku- og ellilífeyrisþega á þeim forsendum að einstaklingur hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis. Hins vegar 3% hækkun bóta almannatrygginga og hækkun barnabóta sem liður í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar á árinu til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins eða um 1,6 milljarðar kr.

Á móti þessum auknu útgjöldum vegur lækkun vegna endurmats á nýliðun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, en gert er ráð fyrir að sú hækkun verði minni en áður hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum. Samtals er talið að um 4,1 milljarður verði kostnaðarauki og hann rúmist innan þeirrar lækkunar og eru tillögur um viðbótarfjárheimildir lægri sem því nemur.

Af öðrum útgjaldatilefnum á málefnasviðum félags-, húsnæðis- og tryggingamála má nefna að gert er ráð fyrir 1,2 milljarða kr. auknu framlagi til Fæðingarorlofssjóðs vegna endurmats á útgjöldum sjóðsins á árinu. Aukningu útgjalda má m.a. rekja til lengingar fæðingarorlofsréttar, auk þess sem nýting réttarins dreifist yfir lengra tímabil. Þá er gert ráð fyrir 650 millj. kr. auknu framlagi vegna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega en ráðgert er að greiða 27.772 kr. í eingreiðslu til einstaklinga sem hafa verið með réttindi allt árið. Að auki er lögð til 380 millj. kr. hækkun fjárheimilda vegna félagslegra aðgerða til að sporna gegn langtímaáhrifum af kórónuveirufaraldrinum og 340 millj. kr. hækkun vegna samninga við sveitarfélögin um framhald tilraunaverkefnis um samræmda móttöku flóttafólks. Vakin er athygli á því að þessu til viðbótar er gert ráð fyrir millifærslum af almennum varasjóði vegna aukins fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttafólks, líkt og ég hef áður vikið að.

Lagt er til að útgjöld til málefnasviðs 0, 7, nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, aukist um 1,8 milljarða kr. Þar vegur þyngst 1.750 millj. kr. aukning vegna skuldbindinga umfram heimildir í fjárlögum vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar.

Á málefnasviðum mennta- og menningarmála er lögð til 1,2 milljarða kr. hækkun. Þar er um að ræða ýmsar aðgerðir til að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldursins. Þannig er lögð til 450 millj. kr. aukning til menningarstyrkja, 350 millj. kr. í stuðning við íþróttahreyfinguna og 130 millj. kr. vegna ýmissa félagslegra aðgerða til að sporna gegn langtímaáhrifum faraldursins. Þá er gert ráð fyrir 146 millj. kr. til að styrkja rekstur Þjóðleikhússins sem hefur orðið fyrir skakkaföllum vegna heimsfaraldursins.

Af öðrum málefnasviðum má m.a. nefna 2,2 milljarða kr. aukinn stuðning við landbúnað í samræmi við tillögur starfshóps sem skipaður var vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi og er ljóst að sú staða er m.a. tengd innrás Rússa í Úkraínu, auk 1,1 milljarðs kr. í aukningu vegna utanríkismála og alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þar er annars vegar um að ræða 650 millj. kr. í varnarmál vegna stríðsátaka í Úkraínu og hins vegar 400 milljónir til mannúðar- og efnahagsaðstoðar til Úkraínu.

Þá er gert ráð fyrir 400 millj. kr. á málefnasviði 09, almanna- og réttaröryggi, vegna aukins kostnaðar vegna kórónuveirufaraldursins. Hér er einkum um að ræða launakostnað, svo sem vegna smitrakningar og samgöngutakmarkana. Enn fremur er gert ráð fyrir um 37 milljarða hækkun á málefnasviði 33, fjármagnskostnaður, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar, vegna endurmats á vaxtagjöldum. Breytingin skýrist nær alfarið af hærri verðbótum sem gjaldfærðar verða á rekstrargrunni á yfirstandandi ári en hækkun þeirra nemur tæplega 36 milljörðum kr. Sú aukning skýrist af hærri verðbólgu á þessu ári en forsendur fjárlaga gera ráð fyrir. Þetta leiðir aftur til hærri gjaldfærslu á verðbótum verðtryggðra lána.

Áætlað heildarumfang gjaldfærðra verðbóta á árinu nemur tæplega 50 milljörðum eða sem nemur u.þ.b. 36 milljarða hækkun frá áætlun fjárlaga. Heildarumfang verðtryggðra lána ríkissjóðs er nú yfir 500 milljarðar kr. og því leiðir hvert prósentustig aukinnar verðbólgu til ríflega 5–6 milljarða hækkunar á verðbótum. Það er því til mikils að vinna að halda áfram að ná tökum á verðbólgunni.

Að öðru leyti er vísað í nánari umfjöllun um útgjaldabreytingar málefnasviða og málaflokka í greinargerð viðkomandi málefnasviða.

Virðulegi forseti. Ég vek einnig athygli á því í tengslum við hlutverk og umfang fjáraukalaga að í 24. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um almennan varasjóð A1-hluta ríkissjóðs. Skilyrði fyrir ráðstöfun úr sjóðnum eru sams konar og þau sem gilda um frumvarp til fjáraukalaga, þ.e. að honum er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg.

Almennum varasjóði er einkum ætlað að mæta frávikum í launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga og meiri háttar, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum, svo sem vegna náttúruhamfara eða útgjöldum sem ókleift er að mæta með öðrum hætti samkvæmt fjárlögum.

Í fjárlögum ársins 2022 nemur heildarfjárheimild sjóðsins um 16,5 milljörðum kr. eða sem svarar til 1,4% af heildarfjárheimild fjárlagaársins. Þegar hefur verið ráðstafað ríflega 3,9 milljörðum úr almenna varasjóðnum en þar af eru 3,6 milljarðar vegna endurmats á launaforsendum fjárlaga, einkum vegna hagvaxtarauka. Gert er ráð fyrir því að til viðbótar verði millifærðir úr almennum varasjóði um 1,4 milljarðar vegna breytingar á vinnutíma vaktavinnufólks og um 3,2 milljarðar vegna málefna Úkraínu og mikillar fjölgunar flóttafólks og umsókna um alþjóðlega vernd. Auk þess rúmir 3 milljarðar vegna kaupa á bóluefnum, kostnaður við sóttvarnahótel vegna kórónuveirufaraldursins, 1,2 milljarðar vegna dómskrafna í málum sem ríkissjóður hefur tapað og um 1,4 milljarðar vegna annarra tilefna.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um frekari ráðstöfun úr sjóðnum og er því til staðar 2,6 milljarða sjóður til að bregðast við óvæntum og óhjákvæmilegum útgjöldum fyrir lok ársins ef til þess kæmi.

Virðulegi forseti. Ég ætla þá næst að víkja að nýjum heimildum í frumvarpi til fjáraukalaga.

Lagt er til að við heimildarákvæði í 6. gr. fjárlaga bætist þrír nýir liðir. Fyrsti liður er að heimila sprota- og nýsköpunarsjóðnum Kríu að fjárfesta fyrir allt að 1.940 millj. kr. í samræmi við fjárfestingaráætlun sjóðsins og að greiða allt að 418 millj. kr. af áætluðum 8.300 millj. kr. heildarfjárfestingum hans. Jafnframt að ákveða að gengisáhætta Kríu vegna fjárfestingaloforða í erlendri mynt verði hjá ríkissjóði.

Í öðru lagi er lagt til að þiggja að gjöf fasteignir undir fiskeldi að Hólum í Hjaltadal undir starfsemi Háskólans á Hólum.

Í þriðja lagi er óskað eftir heimild til að taka við glerlistaverki sem fært verður íslensku þjóðinni að gjöf og komið verði fyrir í íslenskri náttúru ásamt því að fella niður eða endurgreiða gjöld og annan kostnað við flutning listaverksins til landsins og koma því fyrir á viðeigandi stað.

Virðulegi forseti. Áður en ég lýk máli mínu vil ég fjalla stuttlega um áætlaðar afkomuhorfur á yfirstandandi ári ásamt breytingum sem orðið hafa í lánsfjármálum.

Hraður viðsnúningur er að verða á afkomu ríkissjóðs á þessu ári í kjölfar sögulega mikils afkomuhalla árin 2020 og 2021 sem leiddi af heimsfaraldri kórónuveiru. Áhrifa faraldursins hefur áfram gætt á útgjaldahlið ríkissjóðs í ár en þó ekki í sama mæli og síðastliðin tvö ár. Þá hefur tekjuhlið ríkissjóðs tekið hraustlega við sér eftir að hafa dregist mikið saman í faraldrinum.

Þessi viðsnúningur sést glögglega í hratt batnandi frumjöfnuði. Áætlað er að halli frumjafnaðar á árinu 2022 verði 1% af vergri landsframleiðslu í stað 2,7% af landsframleiðslu samkvæmt áætlun fjárlaga. Frumjöfnuður ríkissjóðs batnar um 94 milljarða kr. frá áætlun fjárlaga. Gangi þessar áætlanir eftir er frumjöfnuðurinn að batna um 4,7% af vergri landsframleiðslu á milli ára en frumjöfnuður ríkissjóðs var neikvæður um 187 milljarða árið 2021 eða sem svarar til 5,7% af vergri landsframleiðslu.

Á hinn bóginn er útlit fyrir að vaxtajöfnuðurinn versni talsvert frá áætlun fjárlaga vegna mikillar aukningar í vaxtagjöldum ríkissjóðs sem aukast um tæplega 37 milljarða frá forsendum líkt og áður var rakið.

Að teknu tilliti til vaxtajafnaðarins er heildarafkoman engu að síður um rúmlega 60 milljörðum kr. betri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að afkomuhalli ríkissjóðs verði 3,4% af landsframleiðslu á árinu 2022 í stað 5,2% samkvæmt áætlun fjárlaga og 7% í fyrra, árið 2021.

Þessi umskipti má rekja til öflugs efnahagsbata sem hófst árið 2021 og hefur náð miklum styrk á þessu ári. Batinn hefur einna helst verið drifinn áfram af mikilli fjölgun ferðamanna og vexti einkaneyslu. Hvort tveggja hefur verið umfram væntingar við samþykkt fjárlagaársins.

Atvinnuleysi hefur lækkað hraðar en vonir stóðu til jafnvel þótt aldrei fyrr hafi fleiri flutt til landsins en frá því fyrstu níu mánuði árs en árið 2022. Batinn hefur verið svo öflugur að óvíða meðal aðildarríkja OECD verður meiri hagvöxtur en hér á landi í ár.

Verðbólga hefur þó einnig hækkað í ár talsvert umfram það sem spáð var við samþykkt fjárlagaársins. Stafar verðbólgan bæði af hárri verðbólgu erlendis og ekki síður af innlendum þáttum. Hækkun húsnæðisverðs skiptir þar miklu en hún er þó ekki eini innlendi kostnaðarþátturinn sem hefur hækkað mikið. Há verðbólga eykur tekjur ríkissjóðs til skamms tíma. Áhrif til lengri tíma eru þó óljósari enda ýmsir útgjaldaliðir sem hækka einnig. Væntingar standa til að verðbólga hjaðni áfram næstu mánuði þótt nokkurn tíma muni taka hana að komast aftur í 2,5% markmið Seðlabanka Íslands.

Heildartekjur ársins 2022 eru áætlaðar 1,067 milljarðar eða 28,8% af vergri landsframleiðslu. Samkvæmt endurmati verða heildartekjur um 115 milljörðum kr. meiri en í samþykktum fjárlögum þess árs. Þar af aukast skatttekjur og tryggingagjöld um 100 milljarða kr. Endurmatið er í samræmi við breyttar efnahagsforsendur og nýjustu upplýsingar um álagningu og innheimtu einstakra skattstofna.

Heildarútgjöld ársins 2022 eru áætluð á þjóðhagsgrunni 1.193 milljarðar eða 32,2% af vergri landsframleiðslu. Það er 54 milljörðum hærra en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Tæplega 37 milljarða af áætlaðri aukningu útgjalda má rekja til áætlunar um hærri gjaldfærslu vaxtagjalda eins og ég hef áður rakið.

Þá er áætlað að frumgjöld aukist um 18 milljarða frá áætlun fjárlaga þegar tekið er tillit til liða sem gert er ráð fyrir að verði lægri á árinu, t.d. útgjöld vegna atvinnuleysis sem eru lægri. Til hækkunar vega þyngst aukin útgjöld til heilbrigðisþjónustu, endurmat á launaforsendum fjárlaga, m.a. vegna hagvaxtar, auk viðbótarkostnaðar vegna mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar til að bæta hag tekjulægri heimila vegna aukningar verðbólgu á árinu. Nánar er fjallað um breytingar á tekju- og gjaldahlið frá áætlun fjárlaga í greinargerð fjáraukalagafrumvarpsins.

Virðulegi forseti. Heildarskuldir ríkissjóðs eru áætlaðar 1.470 milljarðar í árslok 2022 en til samanburðar voru þær áætlaðar 1.609 milljarðar í fjárlögum fyrir þetta ár, 1.470 í stað 1.609. Lækkunin nemur því 139 milljörðum kr. og skýrist annars vegar af bættri afkomu ríkissjóðs og hins vegar af því að erlent lán fyrir um 75 milljarða var ekki endurfjármagnað eins og áætlanir gera ráð fyrir í fjárlögum. Sú breyting hefur bein áhrif á heildarskuldir til lækkunar og hefur ekki áhrif á skuldahlutfall ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál þar sem sjóðir og bankainnstæður eru dregnar frá heildarskuldum, og við höfum að jafnaði varðveitt erlendu lánin í gjaldeyri í Seðlabankanum.

Áætlað er að skuldir ríkissjóðs samkvæmt þeirri skilgreiningu verði 1.203 milljarðar kr. eða 32,5% af vergri landsframleiðslu í árslok 2022 en voru áætlaðar 1.247 milljarðar kr. eða 35% af landsframleiðslu í fjárlögum ársins. Hér erum við aftur að tala um skuldahlutföllin samkvæmt fjármálareglum laga um opinber fjármál. Staðan er um 2,5% betri en við höfum séð fyrir, 32,5% í stað 35%. Í fjárlögum ársins var gert ráð fyrir lántökum fyrir 321 milljarð á árinu sem innihélt meiri fjárþörf og endurfjármögnun erlenda lánsins en vegna uppgreiðslunnar og minni fjárþarfar ríkissjóðs hefur lántakan verði endurmetin til 160 milljarða lækkunar og er að öllu leyti innlend. Þetta eru afar jákvæð tíðindi og verður að segjast að skuldahlutföll ríkissjóðs í lok þess árs stefni í að vera ekki bara hagstæðari borið saman við áætlanir heldur bara mjög heilbrigð þegar litið er til laga um opinber fjármál þar sem við höfum verið að miða við að halda skuldahlutföllum undir 30%. Að staðan skuli vera um 32,5% eftir þennan mikla hallarekstur sýnir hversu miklu betur við erum að komast frá heimsfaraldrinum að þessu leyti til en við áður óttuðumst. Í alþjóðlegu samhengi eru skuldahlutföll ríkissjóðs einnig mjög heilbrigð.

Hæstv. forseti. Ég hef nú farið yfir alla helstu þætti þessa annars frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2022. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar þingsins sem fær málið til skoðunar.



[13:09]
Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að halda mig í núinu og vekja athygli á því hvað hæstv. ríkisstjórn skuldar örorku- og ellilífeyrisþegum núna fyrir jól. Upphaflega átti að hækka bætur almannatrygginga um 3,8% á þessu ári. Mótvægisaðgerð ríkisstjórnarinnar í júní bætti við 3% og því hafa bætur almannatrygginga hækkað að meðaltali um 5,3% á árinu. Verðbólgan var metin sem 7,5% yfir árið. Við vitum að þetta stenst ekki lengur. Hún stefnir í 8,8% miðað við Seðlabankann og Samtök atvinnulífsins tala um 8%. Þarna munar um 3% það sem af er ári. Þetta eru um 9.000 kr. á mánuði, vel yfir 100.000 kr. yfir árið fyrir skatt. Þetta er raunkostnaður vegna ófyrirsjáanlegra atburða á árinu. Hæstv. ríkisstjórn mætir með 28.000 kr. eingreiðslu til öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega fyrir hátíðirnar. Í fyrra komum við saman að frumkvæði stjórnarandstöðunnar og veittum 53.000 kr. eingreiðslu fyrir jólin. Er eitthvað því til fyrirstöðu að hæstv. fjármálaráðherra tvöfaldi þá upphæð sem nú er í fjárauka?



[13:11]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að gera athugasemd við þetta orðalag, að ríkisstjórnin skuldi einhverja hluti. Við erum með lög sem kveða á um það hvernig við ákveðum breytingar á örorkubótum frá einu ári til þess næsta og það er algerlega einstakt sem ríkisstjórnin hefur verið að gera, að grípa inn í vegna verðbólgunnar á miðju ári. Í fyrra fórum við þá leið, undir lok árs, að bæta í fjárlög ársins 2022 vegna þess sem hafði vantað á árinu 2021 í ljósi þess að verðbólgan hafði þróast með öðrum hætti en opinberar hagspár sem stuðst var við gerðu ráð fyrir. En við gerum miklu betur núna sem ríkisstjórn, við komum inn á miðju ári og hækkum strax. Um það erum við að fjalla hér og síðan verður bætt við í fjárlögum næsta árs til að loka því sem á vantar miðað við spárnar eins og þær voru þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. (Forseti hringir.) Því er það ekki rétt túlkun hjá hv. þingmanni að ríkisstjórnin skuldi eitthvað, við erum að gera mun meira en lögin gera ráð fyrir.



[13:12]
Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst við erum komin í þessa umræðu um hvað sé skuldað þá eru lögin þannig að skv. 69. gr. á að fylgja verðlagi eða launum, hvort heldur sem hærra er. Það vita allir sem hafa fylgst með þessum tölum að þetta hefur ekki verið raunin. Ég er hins vegar ekki að tala um fortíðina, ég er að tala um yfirstandandi ár og þá staðreynd að þrátt fyrir hækkunina sem átti sér stað á miðju ári þá mætir hún ekki þeirri verðbólgu sem upp er komin. Við áttum okkur á að þetta er hópur einstaklinga sem eru í viðkvæmustu stöðunni í samfélaginu í dag. Við sjáum tölur frá umboðsmanni skuldara sem sýna að aldrei hafa fleiri úr hópi öryrkja leitað eftir fjárhagsaðstoð. Þess vegna ítreka ég spurningu mína: Er ekki ástæða til að fylgja því fordæmi sem var sett í fyrra og mæta þessum kostnaði til að koma til móts við þá verðbólgu sem er nú þegar skollin á þessum heimilum? Er svarið já eða nei?



[13:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er að finna í þessu frumvarpi þar sem koma mun viðbótargreiðsla undir lok árs. Hún kemur til viðbótar þeirri greiðslu sem þegar er gert ráð fyrir í fjárlögum ársins. Ég held því fram að þessi ríkisstjórn hafi með aðgerðum sem gripið var til strax fyrir mitt þetta ár sýnt vilja sinn í verki til þess að koma til móts við þann hóp sem minnst hefur og þarf að treysta á almannatryggingar sér til framfærslu. Með hækkunum sem gert er ráð fyrir að verði í fjárlögum næsta árs þá erum við að gera þetta mjög myndarlega, sérstaklega í sögulegu ljósi.

Síðan er það með lögin og hvernig þau eru túlkuð. Við myndum t.d. aldrei leiðrétta til lækkunar ef verðbólga þess árs sem við höfum verið að horfa til yrði lægri en hækkanir á örorkubótum sem gengu út frá hagspá. Að því leyti verður að skoða þetta í samhengi lengri tíma.



[13:14]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Aðeins áfram með þetta mál og hliðstæðu við það í fjáraukanum. Hér erum við að horfa á nýja verðbólguspá upp á 8,8% en gert er ráð fyrir 7,5% varðandi fjárlög 2023 í spá Hagstofunnar. Eitthvað þarf því að uppfærast þar. Hins vegar er í málaflokki 12.10, stjórn landbúnaðarmála, bætt við að því er virðist 2,2 milljörðum. Fjallað er um það að samkvæmt niðurstöðum hópsins séu kostnaðarhækkanir búgreina áætlaðar rúmlega 4,6 milljarðar sem er um 20% hækkun. Það er 20% verðbólga í þeim málaflokki. Ríkisstjórnin ætlar að koma og redda rúmlega 10% verðbólguhækkun þar en ekki á málefnasviði öryrkja. Ég skil ekki af hverju verið er að nota svo mismunandi tölur. Er kostnaðarliður eða undirvísitala búgreinar til marks um miklu hærri verðbólgu heldur en almenn vísitala neysluverðs þar sem almannatryggingar eru undir?



[13:16]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða þá stöðu að tekjur ríkissjóðs eru um 115 milljörðum yfir áætlun, afkoman 60 milljörðum betri og skuldahlutföllin miklu hagstæðari. Það eru nokkrir útgjaldaliðir. Ég verð að segja að það kemur dálítið á óvart að menn skuli þá fara með einhverjum smásmugulegum hætti ofan í einstaka útgjaldatilefni og bera þau saman. Það er einfaldlega ekki hægt að bera almannatryggingar og þær reglur sem við höfum verið að fylgja hvað þær snertir saman við stöðu bænda og þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir, allir matvælaframleiðendur í landinu, vegna stríðsátaka, hærra orkuverðs og hækkana á áburðarkostnaði. Eins og allir vita var settur af stað sérstakur hópur, svonefndur spretthópur, að frumkvæði matvælaráðherra sem komst að þessari niðurstöðu. Ekki er bara verið að horfa nákvæmlega í einhverjar vísitölubreytingar. Það er verið að skoða raunstöðuna, hvað þurfi til að matvælaframleiðsla í landinu geti haldið óröskuð áfram. Það er ekki gert með hliðsjón af því hvaða breytingar verða á bótum almannatrygginga yfir tímabilið.



[13:17]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég bar þetta saman er ekki til að bera saman málaflokkana sem slíka heldur einmitt vegna fullyrðingar ráðherra um raunstöðuna. Það er augljóst að raunstaðan er ekki uppfærð í málaflokki öryrkja. Við höfum séð það og sjáum það bara á forsendunum og á því hver verðbólgan er í raun og veru. Samt er þetta gert annars staðar. Það getur vel verið að undirtala vísitölu eða allir kostnaðaraukar o.s.frv. varðandi búgreinarnar séu nákvæmlega þetta og það sé raunhækkun þar, frábært og í raun er ekkert yfir því að kvarta. En þá kvarta ég yfir því þegar þetta er ekki gert annars staðar á sama hátt ef við horfum til raunhækkunarinnar þar. Af hverju er þetta gert á mismunandi hátt í ólíkum málaflokkum?



[13:18]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lög gera ráð fyrir því að við tökum ákvarðanir um breytingar á bótum almannatrygginga einu sinni á ári við fjárlög. Ef forsendur bresta þá gera lög ekki ráð fyrir því að það beri að grípa inn í. Engu að síður gerði ríkisstjórnin það. Hún gerði það með öðrum hætti í fyrra, eiginlega fordæmalausum, með því að horfa til þess að við næstu ákvörðun um breytingar á bótum almannatrygginga yrði staðan vegin upp eftir árið 2021. Það þótti mjög myndarlegt. Við göngum enn lengra núna og grípum inn í á miðju ári, hækkum og bætum síðan við í fjárlögum næsta árs til að verja þennan hóp. Við skulum bara spyrja að leikslokum, kannski þegar við klárum fjárlög vegna næsta árs, hvernig ríkisstjórninni hefur gengið að skjóta skjólshúsi yfir þann hóp sem er veikastur fyrir áhrifum verðbólgunnar. Þar finnst mér að ríkisstjórnin hafi nákvæmlega ekkert að óttast í umræðunni heldur hafi mjög skýra mynd til að draga upp af því að þetta mál hefur verið í forgangi.



[13:19]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við tölum hér um fjáraukalögin. Ég hef einhvern veginn vaðið í þeirri villu að þau væru til þess að mæta einhverju ófyrirséðu og óvæntu sem upp kynni að koma, einhverju sem ekki væri hægt að setja inn í fjárlögin sjálf. Þann 6. apríl sl. felldi Hæstiréttur dóm þar sem hann viðurkenndi frá a til ö að íslenska ríkið hefði brotið á réttindum einstaklinga sem höfðu búið hluta starfsævi sinnar erlendis, öryrkja og ellilífeyrisþega — svokölluð búsetuskerðing. Nú er hins vegar gert ráð fyrir í þessum fjárauka að 2,9 milljarðar fari úr fjáraukanum til að greiða þessa skuld ríkisins við þessa einstaklinga, vegna þess að 4,1 milljarður kr. varð eftir sem var búið að marka í nýgengi örorku sem ekki raungerðist enda búið að setja slagbrand fyrir Tryggingastofnun þannig að þeir sem eru virkilega fatlaðir fá ekki einu sinni að komast þar inn.

Ég spyr því hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig í ósköpunum stendur á því að þetta ratar inn í fjárauka? Hvernig í ósköpunum stendur á því að öryrkjum og ellilífeyrisþegum, sem lepja dauðann, úr skel er ekki mætt betur en raun ber vitni?



[13:21]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi dómsniðurstöðuna þá var ekki hægt að gera ráð fyrir henni í fjárlögum. Við höfum áður tekið það af almennum varasjóði ef ríkið tapar dómsmáli. Það er eðlileg ráðstöfun í mínum huga.

Varðandi það að nýgengi örorku hafi verið minna en gert var ráð fyrir í fjárlögunum þá kann ég ekki að útlista skýringar á því en við höfum séð hærra hlutfall fara í endurhæfingarörorkulífeyri og vonandi tekst okkur með þeim hætti að koma í veg fyrir að margir endi á varanlegri örorku sem eiga sér t.d. von um að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Það væri þá góð fjárfesting í endurhæfingarörorkulífeyrinum vegna þess að það eykur lífsgæði og sparar samfélaginu sömuleiðis stuðning sem ella myndi falla til. Síðan er það önnur umræða hvort við ættum að gera meira og betur í almannatryggingum en ég er nú reyndar mjög stoltur af því að sjá hversu mikil aukning hefur verið á kaupmætti bóta undanfarin 6–10 ár.



[13:22]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Hins vegar er það svo að í þessu frumvarpi er t.d. gert ráð fyrir því að heimild fáist upp 6 milljarða kr. til að kaupa hluta í glæsivillunni niðri við Austurbakka, í Landsbankanum — 6 milljarða kr. Önnur staðreynd er sú að ekki er verið að greiða búsetuskerðingardóminn upp með varasjóðnum. Það er verið að fara í þessa ríflega 4 milljarða sem urðu afgangs miðað við það sem áætlað var að setja í nýgengi örorku.

Staðreyndin er sú að kjaragliðnunin hefur vaxið ár frá ári, endalaust, og þeir sem eru fátækir hafa orðið fátækari. Hæstv. fjármálaráðherra hlýtur að sjá það sjálfur að þegar við erum að glíma við verðbólgu, verðbólguna sem ég var búin að ræða um við hæstv. fjármálaráðherra fyrir tveimur árum að allar forsendur væru fyrir að myndi skella á okkur — og var nú brosað í kampinn yfir því — þá er það þetta sem við erum að tala um: 1 milljarður og 600.000 kr. til að gjöra svo vel og rétta lægstu tekjutíundunum fyrir jólin, sem lepja dauðann úr skel í almannatryggingakerfinu. (Forseti hringir.) Þetta eru öryrkjar sem hafa ekkert annað að reiða sig á en almannatryggingar, ekki neitt. Og þetta eru fátækustu eldri borgararnir sem hafa heldur ekkert annað að reiða sig á en almannatryggingar.



[13:23]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi ráðstöfun til að mæta dómnum þá leggjum við ekki til auknar fjárheimildir þegar fjárheimildir eru til staðar til að greiða út bætur. Við sækjum einungis í varasjóðinn þegar þess gerist þörf og það dregst þá frá því sem ekki gengur út af eldri eða ónýttum fjárheimildum.

Varðandi Landsbankahúsið þá finnst mér það vera þessu máli algerlega óviðkomandi (Gripið fram í.) og færist einfaldlega á eignarhlið ríkissjóðs. Við erum ekki að kasta þeim peningum í höfnina. Við eignumst fasteign í staðinn fyrir fjárfestinguna og það er ekki hægt að bera þetta saman.

Síðan er það staðreynd að kaupmáttur bóta almannatrygginga hefur aukist mjög verulega undanfarin ár og á tímabili jókst kaupmáttur bóta meira en nokkur annar hlutur í samfélaginu, þ.e. í framfærslutekjum. (Forseti hringir.) Það var m.a. þess vegna sem ég lagði áherslu á að lækka skatta mest fyrir þá hópa sem voru í kringum 315.000–350.000 kr. (Forseti hringir.) Þegar við vorum að tryggja þá skattalækkun þá fannst mönnum það allt of lítið, en nú standa menn upp hér og biðja um fjárhæðir sem eru jafnvel lægri og segja að þær skipti öllu máli. (Gripið fram í.)

(Forseti (DME): Forseti biður hv. þingmenn að nota ræðupúltið til að koma athugasemdum sínum á framfæri.)



[13:25]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í þá aukningu sem er fram komin í vaxtagjöldum vegna hærri verðbólgu — þetta eru 37 milljarðar kr., ég held að það sé þriðjungur þess framlags sem fer í að reka Landspítalann okkar — þessa stöðu og áhrifin sem þetta hefur. En ég vildi setja þetta í samhengi við ákveðna óvissuþætti sem við sjáum að eru enn fyrir hendi. Sala Íslandsbanka — fjárlagafrumvarpið gerir áfram, sýnist mér, ráð fyrir þeirri sölu og þeim fjármunum en engu að síður liggur fyrir fréttatilkynning frá ríkisstjórninni sjálfri frá því í apríl um að ekki verði af frekari sölu fyrr en ný lög liggi fyrir um fyrirkomulag sölunnar. Þau lög liggja ekki fyrir en ég velti fyrir mér: Þetta eru stórir póstar sem hafa áhrif á heildarmyndina, er þetta frumvarp um fyrirkomulag sölu Íslandsbanka væntanlegt? Þurfum við ekki að hafa þá mynd fyrir framan okkur (Forseti hringir.) þegar við afgreiðum fjárlögin núna og kannski smá umfjöllun um þessi vaxtagjöld?



[13:26]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum tekið hér upp á undanförnum árum alþjóðlega reikningsskilastaðla sem eiga að vera til þess fallnir að auka sem mest gagnsæið um stöðu opinberra fjármála. Reyndar sýnist mér í fljótu bragði að við göngum lengra en nokkur önnur þjóð í því að kalla upp á yfirborðið allar skuldbindingar og allt það sem vanfjármagnað er. Við reiknum okkur t.d. vexti af vanfjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum inn í framtíðina. Ég veit ekki hver sú tala ætti að vera á ári fyrir Þýskaland og Frakkland ef menn þyrðu bara að horfast í augu við það sem þeir hafa ekki fjármagnað. Hér er um að ræða reiknaða stærð sem eru verðbætur ofan á verðtryggðar skuldir. Við skulum hafa það í huga að það er svona mjög gróft séð kannski einn þriðji ríkisskuldanna sem er verðtryggður. Já, þetta er há tala en hún kemur ekki til útgreiðslu núna þó að hún sé gjaldfærð. Hún er gjaldfærð vegna þess að verðbótaþáttur höfuðstólsins hækkar um (Forseti hringir.) þessa fjárhæð. Ég er nú búinn með tímann, ég skal koma inn á Íslandsbanka hér á eftir.



[13:28]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir sjónarmiðin en ég sakna svaranna. Þessi tala er veruleiki dagsins í dag. Þetta er hækkunin. Auðvitað og vitaskuld hefur hún áhrif á það fjárlagafrumvarp og þau fjáraukalög sem við erum hér með til meðferðar. Sjónarmið ráðherrans um þessi áhrif og svör um það hvers er að vænta um sölu á ríkisbanka, verðmætið er í tugum milljarða talið — hvernig horfir þetta við ríkisstjórninni?



[13:28]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stóra myndin er sú að það munar í kringum 160 milljörðum hvað við þurftum að taka minna af lánum á þessu ári en við gerðum áður ráð fyrir. Það eitt og sér er miklu stærri tala en eftirstandandi hlutur í Íslandsbanka. Þetta eru góðu fréttirnar í þessum fjárauka og útkomunni árið 2022. Jafnvel þótt við þurfum að gjaldfæra samkvæmt þessum staðli þessa verðbótafærslu sem vaxtagjöld á árinu 2002 er það samt sem áður þannig að skuldahlutföll ríkissjóðs lækka og eru lækkandi þrátt fyrir hallarekstur, sem eru frábær tíðindi, og við erum með mun betri skuldahlutföll í lok árs en á horfðist.

Varðandi bankann: Það mun á endanum ráðast af því hver meirihlutavilji á þinginu verður. Við skulum taka eitt skref í einu og spyrja að leikslokum. Næst fáum við skýrslu ríkisendurskoðanda, það eru einhverjir dagar í það skilst mér. Í framhaldi af því finnst mér rétt að taka næstu skref. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að losa um eftirstandandi eignarhlut í Íslandsbanka, alveg tvímælalaust, en það er ekki hægt að gera það við hvaða aðstæður sem er. Það þurfa að vera hagstæð skilyrði (Forseti hringir.) til að losa um hlutinn.



[13:30]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þessi fjáraukalög snúast, að því er mér sýnist, aðallega um fimm atriði. Það eru verðlagsuppfærslur, það eru Covid-áhrif, það eru breytingar á Stjórnarráði, fullt af millifærslum þar, það eru einhver ný verkefni og svo er það stríðið í Úkraínu, sem hefur líka áhrif á verðlag. Hinn 25. mars 2022 var öllum opinberum sóttvarnaaðgerðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 aflétt jafnt innan lands sem á landamærum. Vissulega kom ákveðin bylgja í kjölfarið sem hafði mikil áhrif á heilbrigðiskerfið og það sést á þessum tölum hérna varðandi sjúkrahúsþjónustuna, tæpir 10 milljarðar sem fara þar vegna Covid.

Það er atriði sem við höfum oft talað um varðandi lög um opinber fjármál og segir í þeim um frumvarp til fjáraukalaga, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Þarna mætti nefna millifærslu fjárveitinga, heimild um flutning fjárheimilda milli ára, eftirlit með fjárlögum innan fjárlagaárs og svo er ákveðin upplýsingaskylda og tilfærsla á lánum líka o.s.frv. Það eru þó nokkur svona úrræði sem ráðherra hefur til að fylgja þeim ramma, innan hvers málefnasviðs í rauninni, sem er settur í fjárlögum. Það er alveg skiljanlegt. Þegar kemur t.d. stríð sem hefur svona víðtæk áhrif er eðlilegt að uppfært sé miðað við það, verðlagsuppfærslur eru eðlilegar þegar það er atvinnuleysi, að þær tölur séu einfaldlega leiðréttar og þess háttar. En það eru, eins og ég sagði áðan, tvímælalaust einhver ný verkefni hérna. Það er einnig ósamræmi á milli þess hvað er uppfært og hvað ekki, sem mér finnst dálítið áhugavert, eins og kom fram áðan í andsvörum mínum við ráðherra.

Ef við rennum stuttlega yfir það sem er að gerast þá er fyrsta atriðið samstarf um öryggis og varnarmál, 650 milljónir aukalega, af 3,6 milljörðum sem eru í fjárlagafrumvarpi fyrir 2023. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að bregðast við þessu innan fjárlaga, t.d. með því að fjárlagaliðurinn fari í mínus. Hann verður það um áramótin og svo er hann bara byggður upp aftur, af því að þetta er tímabundið. Ég spyr hvort það eru réttar fjárheimildir eða ekki. Það kemur bara í ljós eftir því sem á líður. Það er mikilvægt að átta sig á því að lög um opinber fjármál hafa þetta öðruvísi en áður var í lögum um fjárreiður ríkisins þar sem alltaf þurfti að gera upp allt um áramótin en núna flæða fjárheimildir meira á milli ára. Það þarf að rökstyðja ef það þarf að færa fjárheimildir á milli ára. Það getur verið vegna málefnalegrar ástæðu en það þarf líka að útskýra af hverju það er hallarekstur. Það geta líka verið málefnalegar ástæður fyrir því. En við erum enn þá einhvern veginn í gamla fyrirkomulaginu, að gera upp málefnasviðin við áramót þannig að þau standi í núlli. Það gerir fjárlaganefnd pínulítið erfitt fyrir að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og sjá í rauninni hvernig þróunin er, hvort ákveðinn málaflokkur sé undirfjármagnaður eða jafnvel offjármagnaður. Ef það er alltaf verið að stilla til fram og til baka þá er ekki hægt að skoða söguna um hver áramót til að sjá hvernig staðan var, það þarf að fara að skoða hvað var lagfært líka og það eykur bara flækjustigið við eftirlitið, sem er ekki lítið. Utanumhaldið margfaldast í rauninni og það sem þarf að vesenast í, sérstaklega þegar það eru fleiri en einn fjárauki á árinu eins og hefur gerst hérna nokkrum sinnum að undanförnu út af Covid.

Hér er t.d. millifært í skatta-, eigna- og fjármálaumsýslu. Ég veit ekki af hverju allar þessar millifærslur eru í fjárauka. Þó að það hafi verið gerðar breytingar á Stjórnarráðinu þá átta ég mig ekki á þessu. Kannski er það að einhverju leyti ófyrirsjáanlegt, en nei, það á ekki að vera það, það var ákvörðun ríkisstjórnarinnar að breyta Stjórnarráðinu. Það var gert snemma árs og mér finnst það ekki vera rosalega ófyrirséð. Það var kannski bara dálítill trassaskapur. Mér finnst allar þessar millifærslur óþarfar, óþarfa bix á fjárheimildum á milli ráðherra. Kemur okkur eiginlega ekkert rosalega mikið við þegar allt kemur til alls. Verkefnin sem slík eru unnin óháð því nákvæmlega hvaða ráðherra eða ráðuneyti er ábyrgt fyrir þeim. Mér finnst þetta voðalega óþægilegt fyrirkomulag.

Önnur tilfærsla hér undir hagskýrslugerð og grunnskrár og svo varðandi liðinn nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar, þar eru 1,7 milljarðar eða svo vegna endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Það er ekki ófyrirséð. Það var alveg vitað þegar var verið að afgreiða fjárlögin síðast að það væri ekki nægilegt fjármagn þarna. Það sama með frumvarp til fjárlaga 2023, það er líklega vanfjármögnun þar. Hvað þá með lyfin, ég fer aðeins yfir það á eftir. Þetta er eitt af þeim dæmum, finnst mér, sem er kannski bara viljandi vanfjármagnað í fjárlögum. Það þarf hvort eð er að greiða þetta seinna og þá er það gert með ákvörðun eða ekki, eftir því hvernig fjárheimildir eða hagvöxturinn þróast, annars er hægt að fresta þessu eins og hefur verið gert líka. Þetta er tilfallandi af því að það gengur betur en búist var við og þá er hægt að gera þetta upp núna. Það kemur ekki of illa niður á afkomunni.

Hérna eru framlög til sveitarfélaga, 2,2 milljarðar, endurskoðuð áætlun vegna leiðréttingar fyrir árið 2021, það er áhugavert. Þetta er eitt af tveimur atriðum hérna sem eru vegna leiðréttingar fyrir árið 2021 en ekki 2022, allt í lagi svo sem. Það er fjáraukalagafrumvarp fyrir 2021 en við erum samt að afgreiða ríkisreikning fyrir árið 2021 núna í fjárlaganefnd, þannig að það verða einhverjar breytingar á því. Ég veit ekki hvort það er óheppilegt eða óþarft að taka þetta inn í fjáraukalög. Þetta ætti í rauninni bara að fara inn í fjárlög sem leiðrétting á ákveðinni vanfjármögnun í þessum málaflokki þar sem hver málaflokkur má alveg fara í mínus.

Hér er löggæsla vegna faraldurs, en mig langaði að fara aðeins yfir í samgöngurnar. Það er áhugavert misræmi þar. Þar eru 350 milljónir og 300 milljónir eru sagðar vera vegna verðlagsþróunar almenningssamgangna eða, með leyfi forseta:

„Tillagan samanstendur af auknum fjárveitingum til samningsbundinna ríkisstyrktra flugleiða, til Loftbrúar, til áætlunaraksturs á landsbyggðinni og ferjureksturs.“

Þetta er ekki vegna verðlagsþróunar hjá Strætó, þar gildir líka samningur, samningur um framlög til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Þar er sérstaklega tilgreint að sá samningur á að vera verðlagsbættur að gefnum fyrirvara um afgreiðslu þingsins, sem er tiltölulega eðlilegt í svona samningum. En hérna er ekki verið að leggja til verðlagsbætingu á nákvæmlega þeim heldur bara leggja til verðlagsbætingu á Loftbrúnni, áætlunarakstri á landsbyggðinni og ferjurekstri. Ekki á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju ekki? Af hverju í ósköpunum ekki? Þetta er eitthvað sem fjárlaganefnd þarf að skoða.

Hér er leiðrétting vegna alþjónustu í pósti, það er allt í lagi. Það er uppreikningur. Ég fór áðan í andsvörum yfir stjórn landbúnaðarmála. Miðað við þessar tölur þá eru 18,5 milljarðar í fjárlögum 2022, held ég að sé, en eins og hér er sagt eru kostnaðarhækkanir búgreina áætlaðar 4,6 milljarðar á árinu 2022, sem er um 20% hækkun. Það er svolítið mikið. Ríkið ætlar að dekka 2,2 milljarða tæpa á árinu 2022, rúmlega 10%, rúmlega helminginn af þessari 20% hækkun. Þetta er mun meiri hækkun en gengur og gerist, en það er gert ráð fyrir 8,8% almennri vísitöluhækkun neysluverðs, almennri verðbólgu. Hún er svo sem mismunandi, hún leggst misþungt á ólíka undirþætti vísitölu og það getur vel verið að búgreinarnar séu að verða fyrir enn þá meiri hækkunum en meðaltalið gerir ráð fyrir. Þetta er eitthvað sem ég hef oft bent á, maður verður stundum að horfa á dreifinguna frá meðaltalinu. Þeir sem verða fyrir áhrifunum, hvar eru þeir í dreifingunni? Dreifast þeir líka í kringum meðaltalið eða eru þeir útlagar á einhvern hátt? Það getur vel verið að í þessu tilfelli séu búgreinar í rauninni útlagar og eru með kostnaðarþætti sem eru í hærri kanti undirvísitölu verðbólgunnar. Það er bara gott og blessað, eitthvað sem við verðum að skoða.

Annað sem mig langar til að fjalla um eru lyfin. Þar eru 2,6 milljarðar rúmlega vegna endurmats á útgjöldum ársins. Við erum að fá fregnir núna frá heilbrigðisyfirvöldum um að það sé vanmat í frumvarpi til fjárlaga 2023 vegna lyfja. Þetta þarf þá væntanlega að bætast ofan á það líka í fjárlögum fyrir 2023. En þetta er einn af þeim kostnaðarliðum sem hefur verið vanmetinn oft á undanförnum árum. Það var gert ákveðið átak fyrir nokkrum árum síðan þannig að matið hélst nokkurn veginn rétt en við erum að detta undir það aftur, vegna annarra ástæðna líka heldur en voru þá. Vanmatið er til staðar.

Ferlið sem við förum í gegnum til að reyna að komast að því hvernig þetta virkar allt, hvernig þessi rammafjárhagsgerð virkar er svona: Við fáum skilaboð í fjárlaganefnd þegar fagráðuneytin koma og segja: Við leggjum til X-mikið í verkefnin okkar. En fjármálaráðuneytið segir nei. Við spyrjum fjármálaráðuneytið og þeir segja: Nei, við gerum ekkert svoleiðis. Það er ráðherranefnd um efnahagsmál og ríkisstjórnin sem ákveður þetta. Það hefur líka verið bent aftur á fagráðuneytin, þau verði bara að skila sínum áætlunum. Sem þau síðan gera og við lendum í einhvers konar hring þar sem allir benda á alla. Niðurstaðan í þessu akkúrat núna er að það er ráðherranefnd um efnahagsmál og ríkisstjórnin sem tekur ákvörðun um það hver ramminn er, t.d. í heilbrigðismálum. Ef ráðuneyti heilbrigðismála, öll saman í rauninni, leggja til ákveðna upphæð sem þau telja að sé kostnaðurinn við það að reka heilbrigðiskerfið, hann sé þetta mikill, en ríkisstjórnin segir: Nei, við ætlum að úthluta minna til rammans um þessi heilbrigðismál, þá þurfum við að vita hérna á þingi og fólkið hérna úti hver munurinn er og af hverju hann er. Hvaða þjónustu er verið að skerða? Það sem virðist iðulega gerast er að þá eru liðir eins og lyf einfaldlega vanfjármagnaðir Menn vita að þegar kemur síðan að skuldadögum er borgað fyrir öll lyfin hvort eð er. Þannig að ákvörðunin um að veita minna fjármagn er í rauninni gagnslaus. Hún er blekking. Það sem er verið að segja okkur um afkomu ríkissjóðs er þá líka blekking af því að það eiga eftir að koma meiri gjöld og alla jafna er ríkisfjárlagagerðin gerð út frá varfærnisjónarmiðum þannig að bæði tekjur og gjöld eru metin af ákveðinni varfærni, sérstaklega tekjurnar. Það hefur áhrif á það hvað er hægt að taka ákvörðun um sem gjöld. Ef tekjurnar eru 1.000 milljarðar í alvörunni en það er bara gert ráð fyrir 900 milljónum í tekjur af því að það er varfærin áætlun, þá er ekki hægt að miða við neitt annað en 900 milljarða í útgjöld líka. Svo raungerist það að það eru 1.000 milljarðar í tekjur, 100 milljarðar þarna á milli sem er hægt að nota í eitthvað annað, t.d. að fara eftir réttri áætlanagerð í heilbrigðismálum. Þetta er fyrirkomulag sem ég er ekkert rosalega hrifinn af. Ég vil fá kostnaðarmatið eins og það liggur fyrir og einfaldlega að fjármagna það. Það væri heiðarleg framsetning að mínu mati. Svo raungerast réttar tekjur í kjölfarið, óháð því hvernig annað gerist eða að ríkisstjórnin þarf að huga að betra tekjumódeli. (Forseti hringir.) En eins og er erum við sífellt að elta einhverjar áætlanir sem standast ekki. Þær standast ekki af því að þær eru ekki heiðarlega settar fram.



[13:45]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka ráðherra fyrir sína framsögu og ætla svo sem ekkert að dvelja lengi við þessa umræðu. Málið kemur núna til vinnslu í fjárlaganefnd þar sem við förum í gegnum þetta. Flest af þessu er auðvitað kostnaður sem nú þegar fallinn til og eins og við þekkjum sem unnið höfum með þetta í einhver ár þá er þetta uppgjör á því sem hefur þurft að bregðast við hér á árinu. Það eru meira að segja dálítil viðbrigði að vera allt í einu með tvo fjárauka í staðinn fyrir marga, en það er áleiðis að betra verklagi.

Varðandi endurgreiðsluna í tengslum við nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar þá er sannarlega búið að styrkja grunninn frá því sem var, hann hefur hækkað varanlega um 500 milljónir. En það er alveg rétt að gengið hefur illa að áætla þetta og eðli máls samkvæmt þá vitum við kannski aldrei hvað verður af verkefnum á hverjum tíma. Með því að gera þessar 500 milljónir varanlegar var verið að reyna að nálgast það sem er undir á hverjum tíma.

Það er líka vert að minnast á þessar 750 milljónir sem ríkisstjórnin ákvað að verja til sértækra félagslegra aðgerða á þessu ári vegna kórónuveirunnar, m.a. til að styrkja innleiðingu nýrra lausna í heilbrigðistækni og -þjónustu. Það má ekki gleyma því að þótt við séum ekki með neinar takmarkanir eða eitthvað slíkt þá fellur áfram og enn þá talsverður kostnaður til á heilbrigðisstofnanir og annað, vegna þess að fólk er því miður enn að veikjast af þessum fjanda og er þar af leiðandi talsvert frá. Ég er ekki einu sinni viss um að þetta sé endilega það allra síðasta sem við tölum um varðandi kórónuveirufaraldurinn.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að stíga aðeins inn og styðja við lögregluna. Við þekkjum að mikið hefur mætt á henni eins og víða annars staðar í almannagæslunni, ekki síst urðu þeir aðilar talsvert fyrir því að þurfa að skipta upp svæðum og annað slíkt sem leiddi til aukins kostnaðar. Síðan þurfum við bara að styrkja löggæsluna enn frekar og erum byrjuð á þeirri vegferð með því að auka stöður, fjölga í námi og þvíumlíkt. Það er vel, en það þarf að styrkja grunnlöggæsluna.

Ég er ánægð að sjá þetta varðandi samningsbundnar, ríkisstyrktar leiðir áætlunar- og ferjuaksturs á landsbyggðinni. Þetta hefur auðvitað verið talsvert til umræðu í fjárlaganefndinni, sérstaklega samningur Strætó, og við þurfum kannski bara að taka það til umfjöllunar og fá rökstuðning fyrir því hvers vegna það situr eftir. Þótt aukin útgjöld séu fyrir ríkissjóð þá er ánægjulegt að loftbrúin sé að nýtast talsvert vel. Það er mjög gott.

Sama má segja um spretthópinn og það sem hér er verið að leggja til að við samþykkjum. Það er sömuleiðis viðvarandi verkefni og alls ekki eitthvað sem er búið, þ.e. þau áföll og búsifjar sem bændur hafa orðið fyrir, en kannski er hægt að fara aðrar leiðir eða bregðast við þeim málum með öðrum hætti og ég hygg að svo verði gert.

Sama er að segja um Bjargráðasjóð. Það þarf svo lítið til af því að hann er svo smár. Til að mæta áföllum hefur undanfarin ár verið brugðist við eftir á. Ef við sameinum hann náttúruhamfaratryggingarsjóðnum þá verðum við kannski komin með sjóð sem getur náð dálítið vel utan um þetta.

Ég ætla að lýsa yfir ánægju minni með þá fjármuni sem settir eru í Vatnajökulsþjóðgarð, á Gíg þar sem verið er að kaupa húsgögn og búnað og ná dálítið utan um það. Þar eru saman komnar fleiri stofnanir og aðilar sem skipta máli þegar við komum að og horfumst í augu við þessi stóru mál sem eru fram undan.

Sama vil ég segja varðandi viðspyrnuna í tónlist og sviðslistum. Við ræddum það talsvert hérna og hér voru settar 450 milljónir í það. Sama gildir um íþrótta- og æskulýðsmálin. Það var mikilvægt að koma til móts við börn í viðkvæmri stöðu, sem bjuggu og búa við ofbeldi, með sumarúrræði — líka þau sem eiga við almennan tilfinninga- og hegðunarvanda — og virkniúrræði fyrir 16–19 ára, sem voru ekki á vinnumarkaði eða í námi, og svo auðvitað foreldra sem búa við lágar tekjur. Allt skiptir þetta máli.

En það er líka mikilvægt að setja fjármuni í viðbótarstuðning við íslenskukennslu. Það er mjög mikilvægt, ekki síst á þeim tímum sem við stöndum frammi fyrir þegar við tökum á móti auknum fjölda innflytjenda og flóttamanna, að við búum vel að þeirri kennslu þannig að fólk og börn geti sótt sér hana.

Það kemur ekkert á óvart að bæði Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri fái kannski mestu fjármunina eðli máls samkvæmt vegna Covid-aðgerða og því er það eitthvað sem við vissum. Einnig er vert að minna á, af því að stundum er talað eins og ekkert sé að gert, að verið er að styrkja þjónustu BUGL og BUGL-teymisins á Akureyri. Eðlilega höfum við rætt mikið um aukna eftirspurn vegna geðrænna vandamála. Talsvert hefur verið ráðist í aðgerðir þar og þetta er partur af því. Svo er auðvitað líka verið að leggja talsverða fjármuni til heilbrigðisstofnananna á landsbyggðinni og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem eiga að mæta þessu öllu saman. Við erum einmitt með Sjúkratryggingar Íslands á borði okkar sem fara fyrir okkar hönd með talsvert stóra samninga sem snúa að heilbrigðismálum. Hér er verið að bæta talsvert við sökum þess að mjög mörg verkefni bættust þar við og ekki er úr vegi að reyna að ná utan um þau.

Varðandi lyfin þá get ég tekið undir það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði. Við erum búin að vera í fjárlaganefnd í nokkur ár og það er því miður eitt af því sem viðgengst enn þá að við nálgumst þetta aldrei. Sannarlega koma gengisþættir inn og annað slíkt en við þyrftum kannski að reyna að nálgast þetta eins og ég sagði áðan með kvikmyndastuðninginn. Við erum að reyna að nálgast það. Við eigum að reyna að nálgast þetta núna miðað við þær upplýsingar sem við höfum, a.m.k. að einhverju leyti. Síðan gætum við auðvitað, eins og hefur komið fram, tekið endalaust á móti nýjum, tæknilegum og góðum lyfjum en við þurfum væntanlega líka að forgangsraða miðað við það sem talið er brýnast af þeim sem með þau vinna.

Hvað desemberuppbótina varðar, sem við höfum kallað eingreiðslu til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, þá mun ég leggja það til í nefndinni að við förum yfir hana og skoðum. Ég hef rætt það við félaga mína í meiri hlutanum að í ljósi aðstæðna, verðbólgu og annars slíks, ættum við að reyna að gera betur.

Annað sem við höfum gert á þessu ári hvað varðar barnabætur, fæðingarorlof og annað slíkt, sem hér hefur verið farið yfir, skiptir auðvitað máli — ekki síst þegar aðstæðurnar eru eins og þær eru. Ég tel að við þurfum að horfa svolítið á þetta og átta okkur á hvað af þessu er einvörðungu vegna Covid og hvað annað við gætum þurft að horfa í, ekki síst núna þegar við erum að vinna með fjárlögin. Ég þarf svo sem ekkert að fara neitt sérstaklega yfir það hér en ég held að við ættum á hverjum tíma að reyna að minnka fjáraukann og hafa að sjálfsögðu sem mest inni í fjárlögum, það er auðvitað uppleggið. En svo þurfum við að bregðast við því sem ráðherra fór ágætlega yfir og er kannski stærsti hlutinn, þ.e. vaxtagjöldum og verðbótaþættinum sem hér er verið að færa upp og verður okkur kannski áfram dálítið þungur.



[13:56]
Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjáraukalög hæstv. fjármálaráðherra. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir það sem ég náði út úr ræðu hennar sem virkilega glaðvakti mig þar sem ég sat hérna við borðið. Hv. þingmaður er formaður fjárlaganefndar og sjaldan hef ég heyrt fegurri tón koma úr þessum ræðustóli frá ríkisstjórnarliðinu heldur en þegar hv. formaður fjárlaganefndar sagði að hún myndi leggja það til og a.m.k. skoða mun betur hvort ekki væri hægt að gera betur fyrir bágstaddasta fólkið okkar núna fyrir jólin. Þetta vekur í rauninni væntingar. Þetta vekur mér von, virkilega, virðulegi forseti.

Í fjáraukalögunum kemur fram að útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingamála aukast um 4,5 milljarða kr. samkvæmt frumvarpinu. Þar vegur þyngst annars vegar 2,9 milljarða kr. hækkun á málefnasviði 27, sem er málefnasvið örorku og málefni fatlaðs fólks, vegna hæstaréttardóms sem ég nefndi áðan í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra þegar hann flutti frumvarpið til fjáraukalaga. Þessi hæstaréttardómur var um það að óheimilt væri að skerða framfærsluuppbót örorku- og ellilífeyrisþega á þeim forsendum að einstaklingur hafi búið hluta starfsævi sinnar erlendis. Hins vegar tölum við um 3% hækkun bóta almannatrygginga og hækkun barnabóta sem lið í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar á árinu til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Þar í voru lagðir um 1,6 milljarðar kr. Spáir einhver í alvöru í það hve mikið af þessum 1,6 milljörðum kr. skilaði sér beint í ríkissjóð aftur? Veltir einhver því upp hvað þessir þúsundkallar sem þessi 3% gáfu fátækasta fólkinu okkar — hvað komu raunverulega margar krónur á mánuði í vasa þeirra, og það í blússandi verðbólgu? Þau greiða náttúrlega skatta af þessu því að þessari ríkisstjórn er umhugað um það nú sem endranær að halda áfram að skattleggja fátækt og sárafátækt. Það er eitt að segja: Gjörðu svo vel elsku vinur, ég ætla að gefa þér 10.000 kr., en ætla samt sem áður að taka helminginn af því til baka af því að þetta er nú kannski aðeins of vel í lagt.

Á móti þessum auknu útgjöldum vegur lækkun vegna endurmats. Og takið nú eftir: lækkun vegna endurmats á nýliðun örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Það er nefnilega gert ráð fyrir því að sú lækkun sé hvorki meira né minna en 4,1 milljarður kr. Ráð var fyrir gert að þurfa að greiða samtals um 4,1 milljarði kr. meira í sambandi við nýgengi örorku en raun bar vitni. Staðreyndin er jú sú, og ég veit ekki hvort ég er að upplýsa um eitthvert leyndarmál þegar ég nefni það, að ég hef verið að hjálpa nokkrum einstaklingum sem virkilega hafa verið að glíma við Tryggingastofnun, einstaklingum sem hafa gjörsamlega orðið óvinnufærir, slitið vöðva, farið í aðgerð, eru í sjúkraþjálfun, endurhæfingu og ég veit ekki hvað og hvað, en komast einhverra hluta vegna ekki inn á endurhæfingarlífeyri, hvað þá örorku. Þannig að ég er farin að halda að þessi mikli ótti við nýgengi örorku, og hvað ríkissjóður þurfi að borga ofboðslega mikið hvað það varðar, sé bara að verða þess valdandi að það séu hreinlega komnir það margir slagbrandar til Tryggingastofnunar að þeir séu nánast búnir að slengja í lás. Þannig að mín fyrirspurn á eftir að verða — og fá skriflegt svar við því — hvað raunverulega er mikið sótt um og hvað er tekið mark á mörgum, jafnvel þó að það séu tíu læknisvottorð og alls konar pappírar sem fylgja viðkomandi umsókn en er hent í ruslið virðist vera í Tryggingastofnun sjálfri.

Í þessu tilviki hefðum við í Flokki fólksins hiklaust tekið þennan 4,1 milljarð kr. og fært peningana þangað sem þörfin er mest fyrir þá, til öryrkjanna, beinustu leið til þeirra. Það er algerlega morgunljóst og öllum ljóst að þrátt fyrir að hér sé endalaust verið að hrópa af hæstv. fjármálaráðherra og fleirum að jöfnuður mælist hvergi meiri en á Íslandi þá vil ég einfaldlega benda á einföldu reikniformúluna hvað lýtur að því að finna meðaltalið, finna meðaltalið og finna jöfnuðinn. Einstaklingur með tvær milljónir á mánuði og annar með 300.000 á mánuði, þeir eru nefnilega með alveg rosalega góð laun, þeir eru með 1.150.000 kr. að meðaltali. Hugsið ykkur. Það er mikill jöfnuður í þessu. Það er hægt að jafna ýmislegt út og teygja þetta í allar áttir til að fá einhverjar tölur sem sýna fram á að þetta sé alveg frábært. Ég gef lítið fyrir OECD þegar verið er að tala um þennan jöfnuð vegna þess að við vitum að það eru tugþúsundir Íslendinga sem eiga um sárt að binda og núna í verðbólgunni bendir allt í átt að því að mjög margir eigi eftir að fara undir hamarinn, eins og var hér í hruninu 2008, og missa eignirnar sínar vegna þess að þessi ríkisstjórn gerði ekki nokkurn skapaðan hlut til að girða fyrir það, gerði ekki nokkurn skapaðan hlut í forvörnum miðað við það að allt landslag var í áttina að því að hér kæmi verðbólguskot. Og það er ekki bara verðbólguskot, það er bara brjáluð verðbólga í gangi í landinu í dag. Það er ekki flóknara en það.

Í staðinn fyrir að setja þessa milljarða sem urðu allt í einu afgangs, af því þeir passa sig á því að reyna að koma í veg fyrir að nokkuð komist inn í almannatryggingakerfið eins og það er uppbyggt í dag, þá á að nota þessa peninga til þess að greiða skuldir ríkissjóðs gagnvart þessum einstaklingum sem Hæstiréttur dæmdi núna 6. apríl sl. að ríkið hefði brotið á. Í stað þess að fara í hinn svokallaða varasjóð eins og venjan er til að greiða afglöp ríkisins þá á núna að fara í þessar umframkrónur sem var gert ráð fyrir að þyrfti að setja í almannatryggingakerfið. Það var ekkert ófyrirséð hvað varðaði þetta mál sem féll hjá Hæstarétti 6. apríl sl., ekki neitt. Það er ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Það er ekkert sem réttlætir það að slengja þessum fjármunum inn í fjárauka, ekki neitt. Þetta var vitað. Þetta var algerlega uppi á borðinu og ríkið búið að þvælast á milli í öllu dómskerfinu til að reyna að koma í veg fyrir að búsetuskerðingar yrðu dæmdar ólöglegar, til að geta haldið áfram að níðast á þeim sem höfðu fæstu krónurnar á milli handanna. Nákvæmlega þannig.

Flokkur fólksins og ég sjálf er með breytingartillögu við fjáraukann sem var verið að dreifa hérna rétt áður en ég kom í ræðustólinn. Þetta er í rauninni fyrsta skrefið mitt í breytingartillögum sem við munum gera, Flokkur fólksins, við þetta fjáraukalagafrumvarp. Ég mæli fyrir þessari breytingartillögu. Lagt er til að auka framlög á málefnasviði 27 um 800 millj. kr. og jafnframt framlög á málefnasviði 28 um 360 millj. kr. Tillagan felur í sér fjárheimild fyrir 60.000 kr. eingreiðslu í desember 2022 til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, líkt og þeir hafa fengið undanfarin ár, og að hafa þetta skatta- og skerðingarlaust. Frumvarp ráðherra leggur til að eingreiðslan í ár verði skert um helming, úr 53.100 kr. í 27.772 kr. Það er með öllu óboðlegt að skera niður eingreiðslu til öryrkja um jólin, sérstaklega í ljósi þess að verðlag hefur hækkað svo um munar, auk þess sem útgjöld vegna örorku almannatrygginga eru 4 milljörðum krónum lægri í ár en áætlað var í fjárlögum, eins og ég minntist á áðan. Einnig er lagt til að eingreiðsla verði veitt til þeirra 6.000 ellilífeyrisþega sem lökust hafa kjörin, sem einnig verði undanþegin skerðingum og skattlagningu enda ljóst að margir ellilífeyrisþegar eru jafn illa settir og efnaminnstu öryrkjarnir og algerlega óverjandi að mismuna að þessu leyti. Lagt er til að fjárhæð eingreiðslunnar hækki úr 53.100 kr., sem var í desember árið 2021, í 60.000 kr., með tilliti til verðlagsþróunar.

Heildarkostnaðurinn við þetta er viðbót upp á ríflega einn milljarð sem, eins og sjá má, gæti skipt öllu máli fyrir þennan fátækasta þjóðfélagshóp, gæti skipt öllu máli fyrir þau þegar kemur að jólunum sem eru fyrirkvíðanleg. Þau eru fyrirkvíðanleg. Það er engin gleði hjá fátæku fólki þegar dregur að jólum, það er engin gleði hjá efnalitlum foreldrum þegar líður að jólum, engin, það er engin tilhlökkun. Og hér tala ég af eigin reynslu. Það er ömurlegt að standa í þeim sporum að geta ekki tekið þátt í lágmarksundirbúningi jólanna, geta ekki einu sinni keypt sér eina jólaseríu í herbergisgluggann hjá barninu sínu, að geta ekki keypt handa því nýja skó fyrir jólin. Það er ömurlegur staður að vera á og enn þá ömurlegra að geta ekki sett pakka undir jólatréð. En svona er nú Ísland í dag. Þannig að betur má ef duga skal.

Viðbótarbreytingin sem er fyrirhuguð frá hendi okkar í Flokki fólksins og verður tekin fyrir núna í fjárlaganefnd er eins og við höfum gert undanfarin ár. Við köllum á aukafjárveitingu til hjálparstofnana sem miðla matargjöfum til þeirra sem hafa ekki ráð á því að kaupa sér mat á diskinn af því að þeim er haldið í slíkri fátækt af þessum stjórnvöldum. Síðast en ekki síst vantar 300 millj. kr. í starfsemi SÁÁ til að þau geti haldið sjó og tekið á móti því fólki sem situr grátbiðjandi um hjálp á biðlistum. Það er með hreinum ólíkindum, virðulegi forseti, hvernig við getum horft fram hjá því hvað margir eiga bágt í samfélaginu og hvernig okkur væri í lófa lagið að laga þessa hluti. Það stendur enn þá út af t.d. að greiða til SÁÁ þá fjármuni sem þau eru búin að bíða eftir allt þetta ár, 2022. Eins og þau hafi það mikið að þau geti bara beðið þangað til á næsta ári eða kannski bara þangað til ég veit ekki hvenær. En þetta hefur verið viðtekin venja. Það sem ég man þegar ég sat í fjárlaganefnd er að ég barðist og barðist og barðist fyrir því að það sem löggjafinn hafði samþykkt, það sem fjárveitingavaldið hafði samþykkt, skilaði sér þangað sem þörfin var fyrir það.

Virðulegi forseti. Ég segi: Það er sárara en tárum taki að maður skuli þurfa að koma hingað upp og óska eftir svona nauðsynlegum umbótum inn í samfélagið, inn í heilbrigðiskerfið okkar og fyrir fólkið okkar. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri svo sem allt önnur saga að í þessum fjárauka væri óskað eftir auka 6 milljörðum kr. til að kaupa í glæsihöll Landsbankans niður á Austurbakka, þar væri verið að fjárfesta. Fjárfestum í fólki fyrst. Fjárfestum í mannauðnum sem felst í fólkinu okkar. Forgangsröðum fjármunum fyrir fólkið fyrst og kaupið svo steinkumbalda, snobbvillur, eins og mér finnst þessi Landsbanki vera þarna niðri á Austurbakka á örugglega dýrustu lóð á öllu landinu. Það er sjálfsagt ekki nógur gróðinn náttúrlega. Maður er mergsoginn svoleiðis af þessu bankakerfi að það verður náttúrlega að vera einhver glæsihöll utan um alla svívirðuna sem er höfð í frammi hjá þessu bankakerfi gagnvart fólkinu í landinu.

Svo einkennilegt sem það er, og hefði kannski verið ráð að ræða það betur og við ættum kannski að taka sérstaka umræðu um það hér í þessum æðsta ræðustól landsins, þá eru bankarnir, þrátt fyrir verðbólgu sem var nú í síðasta mánuði 9,4%, þrátt fyrir hækkandi vexti sem nú eru komnir almennt á milli 7% og 8%, að taka til sín enn þá fleiri prósentur, enn þá fleiri prósentur en sem nemur verðbólgunni og raunverulegum vöxtum. Hvernig má það vera? Það er verðugt rannsóknarefni, svo að ekki sé meira sagt. En ég bind miklar vonir við nýjan formann fjárlaganefndar. Ég var áður með hæstv. heilbrigðisráðherra, hann var formaður fjárlaganefndar, frábær formaður fjárlaganefndar, og ég trúi því af öllu hjarta að hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, núverandi formaður fjárlaganefndar, muni gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að hjálpa mér og okkur hinum að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum fyrir jólin.



[14:11]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég hafði vonast til þess að hæstv. fjármálaráðherra væri hér og hlustaði á þær umræður sem hér fara fram þannig að við gætum jafnvel fengið svör við einhverjum af þeim spurningum sem við höfum.

En í umræðum um fjárlög næsta árs fyrr í haust lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra um hvort kostnaður við stuðning Íslands við Úkraínu yrði ekki sérstaklega fjármagnaður í fjárauka í stað þess að taka þann pening frá annarri mikilvægri mannúðar- og þróunaraðstoð. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði fyrirspurn minni á eftirfarandi veg, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst alveg ótvírætt að Alþingi geti með fjáraukalagaheimild bætt í stuðninginn á árinu 2022. Það er augljóst öllum að það var ófyrirséð þegar fjárlög þessa árs voru sett saman að það myndi reyna á slíka alþjóðlega aðstoð. Mér finnst ég einfaldlega skynja hér á þinginu mjög mikinn og eindreginn þverpólitískan stuðning við að senda skýr skilaboð, m.a. með fjárframlögum en ekki bara með yfirlýsingum, að þeim sé fylgt eftir með virkum hætti.“

Það er ánægjulegt að sjá að í fjáraukalögum er meira fjármagn sett í stuðning vegna komu flóttamanna frá Úkraínu og að þar er vonandi verið að dekka nær allan kostnaðinn með nýju fjármagni. Það er hins vegar sorglegt að sjá að ekki er slíkt hið sama gert þegar snýr að mannúðar-, þróunar- og efnahagsstuðningi við Úkraínu. Samkvæmt fylgiskjali með fjáraukalögunum hafa íslensk stjórnvöld lofað slíkum stuðningi við Úkraínu upp á alls um 1.030 millj. kr. Auk þessara 1.030 millj. kr. er kostnaður við flutning á hergögnum skráður sem þróunaraðstoð upp á 153 milljónir. Þetta er ofan á þær 250 milljónir sem skráðar eru á málefnasvið 04.30, varnarmál, og ég er ekki viss um að það standist alþjóðlegar skilgreiningar eða jafnvel lög að kostnaður við flutning á hergögnum sé skilgreindur sem þróunarsamvinna og tel ég að væntanlega þurfi að flytja þennan kostnað yfir á lið 04.30.

Eins og ég sagði þá er heildarstuðningurinn við Úkraínu þegar kemur að mannúðar-, þróunar- og efnahagsstuðningi um 1.030 milljónir en í fjáraukalögunum er hins vegar aðeins veittur 400 millj. kr. auki við málefnasviðið. Þar sem þessar 153 milljónir eru líka þarna inni þá má segja að 783 millj. kr. séu teknar af annarri þróunar- og mannúðaraðstoð sem gert hafði verið ráð fyrir á árinu og eins og bent er á í fjáraukalögunum og fylgiskjalinu með þeim þá er mannúðar- og efnahagsstuðningur Íslands við Úkraínu fjármagnaður af þróunarsamvinnufé, og svo ég noti orðalagið sem kemur í fjáraukalögunum, með leyfi forseta: Þetta er fjármagnað „af þróunarsamvinnufé á kostnað framlaga til annarra brýnna alþjóðlegra verkefna.“

Þetta gengur þvert á yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra fyrr í haust þar sem talað var um að önnur verkefni myndu ekki líða fyrir Úkraínustríðið. Næg er þörfin eins og sést í auknum fjölda loftslagstengdra hamfara víða um heim, svo ekki sé talað um þá hungursneyð sem nú fer vaxandi í Afríku og Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir. Þó svo að við viljum gera Úkraínu vel þá má það aldrei verða á kostnað annarra brýnna verkefna og ég skora á hæstv. fjármálaráðherra og hv. fjárlaganefnd að standa við gefnar yfirlýsingar og tryggja að fólk í neyð víða um heim líði ekki fyrir þetta stríð í okkar bakgarði.

Það er annað málefnasvið sem ég tók eftir að nokkrar breytingar voru á. Þær falla annars vegar undir sjávarútveg og hins vegar landbúnað. Þar er verið að skera niður framlög til nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, annars vegar um 100 milljónir til sjávarútvegs og 20 milljónir til landbúnaðar og ástæðan sem var gefin er að þessar 120 milljónir þyrftu að fara í aukinn kostnað vegna sameiningar ráðuneyta. Það að skorið sé niður í nýsköpun á þessum mikilvægu sviðum til þess eins að ráðuneyti geti stækkað er algjörlega óásættanlegt. Það er von mín að hæstv. fjármálaráðherra og hv. fjárlaganefnd skoði þessi mál nú eftir 1. umr. Ef ekki, þá mun ég senda inn breytingartillögur til að laga þessi mál.



[14:19]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að taka undir ræðu hv. þm. Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, varðandi málefnasvið 27, örorka og málefni fatlaðs fólks. Ég vil benda á greiðsluna sem tekin er af fjárveitingum, en vegna hæstaréttardóms sem féll á dögunum þá hækkar fjárheimildin um 2.875 millj. kr. Það er vegna dóms Hæstaréttar á árinu um að óheimilt sé að skerða framfærsluuppbót á þeim forsendum að einstaklingur hafi búið hluta ævi sinnar erlendis. Þetta mál vannst og það leiðir til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð. En það furðulega í þessu máli er að ríkissjóður tekur þetta ekki úr varasjóðum sínum. Ég myndi telja að þetta væri akkúrat slíkt mál. Þessi óvæntu útgjöld koma fram og akkúrat svona dóma á að greiða úr varasjóði ríkissjóðs. Sú greiðsla sem hér er greidd vegna dómsins er að hluta tekin af fjárveitingu vegna nýgengi örorku en hún var ofáætluð í fjárlagafrumvarpi þessa árs. Það má velta fyrir sér: Er verið að skerða fjárheimildir til málaflokksins í heild eða ekki? Ég tel að þessa peninga sem voru eftir vegna ofáætlana um nýgengi örorku hefði mátt nýta til að minnka kjaragliðnun til margra ára en ekki nota þá í greiðslu vegna dómsmáls sem ríkið tapar, svo það liggi fyrir.

Varðandi önnur mál sem eru hér undir þá vil ég byrja á að nefna af hverju verið er að leggja fram frumvarp til fjárauka. Ég vil vísa til 26. gr. laga um opinber fjármál þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt, ef þess gerist þörf, að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með úrræðum sem tilgreind eru í lögum þessum.“

Það frumvarp sem hér er til umræðu er til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum. Ég vil vekja athygli á málefnasviði 3 í frumvarpi til fjáraukalaga, endurmati á afkomu ársins 2022, en þar kemur fram að vaxtagreiðslur ríkisins eru að aukast um tæplega 37 milljarða kr. Þar segir:

„Á hinn bóginn er útlit fyrir að vaxtajöfnuðurinn versni mikið frá áætlun fjárlaga vegna mikillar aukningar í vaxtagjöldum ríkissjóðs sem aukast um tæplega 37 ma.kr. frá forsendum fjárlaga. Þá aukningu má fyrst og fremst rekja til mun hærri gjaldfærslu á verðbótum á rekstrargrunni en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir en gjaldfærðar verðbætur aukast um 36 ma.kr. á yfirstandandi ári vegna hárrar verðbólgu.“

Hér er ríkissjóður að borga 37 milljarða vegna verðbólgunnar. Við getum rétt ímyndað okkur hverjar greiðslur heimilanna í landinu eru vegna hárrar verðbólgu með öll sín verðtryggðu lán. Það eru háar fjárhæðir, miklu hærri fjárhæðir en hér kemur fram, 37 milljarðar, og sýnir hvers konar óréttlæti felst í hinum verðtryggðu lánum. Þau eru ekki til umræðu hér en ég vil bara benda á þetta. Þetta sýnir líka að skuldastaða ríkisins er alls ekki nógu góð. Ríkisfjármálin eru í miklum ólestri vegna gríðarlegra skulda ríkissjóðs og það getur skapað mikla hættu, bæði á tímum verðbólgu og líka vegna ófyrirséðra vaxtahækkana sem fram undan eru í samfélaginu og úti í heimi. Hér eru 37 milljarðar kr. sem eingöngu eru vegna verðbólgu.

Mig langar núna að fjalla um málefnasvið 7, nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Þar er gerð tillaga um 1,75 milljarða kr. aukna fjárheimild til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar. Fjárheimildir ársins nema 1.453 millj. kr. og voru þær auknar varanlega um 500 millj. kr. í fjárlögum til að mæta útgjaldaaukningu endurgreiðslukerfisins. Þessi skuldbinding sem er lögð til, tæplega 1,8 milljarða kr. vegna hækkunar, vekur furðu enda er um að ræða meira en tvöföldun á endurgreiðslu frá þegar samþykktu fjárlagafrumvarpi. Ég minni á að þegar mennta- og viðskiptaráðherra kynnti í vor frumvarp sitt um auknar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar var áætlað að kostnaðaráhrifin yrðu í kringum 300 millj. kr. á ári. Hvað veldur þessari gríðarlegu aukningu? Er það vegna þess að mistök áttu sér stað við gerð síðustu fjárlaga eða er það vegna þess að verklag við öflun fjárheimilda á málefnasviði þessu er eitthvað frábrugðið því sem gengur og gerist annars staðar? Það liggur næst við að spyrja: Eru fjárheimildir vegna endurgreiðslna á árinu einnig verulega vanáætlaðar? Ég get ekki séð annað en að svo sé og það væri vert að fjármálaráðherra myndi skýra þetta nánar hér í ræðustól. Vert er að nefna að innlendir kvikmyndaframleiðendur hafa gagnrýnt mjög áform um niðurskurð á styrkjum til innlendrar kvikmyndaframleiðslu á næsta ári og er þar vegið að íslenskri kvikmyndagerð með mjög óvægnum hætti á allan hátt.

Mig langar að nefna málefnasvið 11, samgöngu- og fjarskiptamál, en þar eru lagðar til auknar fjárheimildir um 300 millj. kr. til að bregðast við neikvæðari verðlagsþróun innan ársins sem hefur haft mikil áhrif á rekstrarkostnað almenningssamgangna. Tillagan samanstendur af auknum fjárveitingum til samningsbundinna ríkisstyrktra flugleiða, til Loftbrúar, til áætlunaraksturs á landsbyggðinni og ferjureksturs. Því ber reyndar að fagna að hér er verið að styrkja almenningssamgöngur á landsbyggðinni sérstaklega og ég tel að við getum gert mun meira til að efla almenningssamgöngur á landsbyggðinni en gert hefur verið, ég tala nú ekki um ferjurekstur eins og t.d. Breiðafjarðarferjuna Baldur og vonandi kemur ný ferja sem allra fyrst.

Að lokum langar mig að fara yfir þrjú málefnasvið sem hér eru í frumvarpi til fjáraukalaga, þ.e. málefnasvið 23, sjúkrahúsþjónusta, málefnasvið 24, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, og málefnasvið 25, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta. Á málefnasviði 23, sjúkrahúsþjónusta, er lagt til að fjárheimild málaflokksins aukist um 9.606 millj. kr. vegna aukinna útgjalda í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Annars vegar er óskað eftir 8.644 millj. kr., rúmlega 8,6 milljörðum, til að mæta ófyrirséðum kostnaði í kórónuveirufaraldrinum á Landspítala og rúmum 900 millj. kr. til Sjúkrahússins á Akureyri. Mig langar að benda á frumvarp til fjárlaga þessa árs, fjárlög þessa árs, en þar segir um málefnasvið 23, sjúkrahúsþjónustu, með leyfi forseta:

„Fjárheimild málaflokksins er aukin um samtals 2.567 m.kr. í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að styrkja viðbúnað heilbrigðiskerfisins sem viðbrögð við heimsfaraldri Covid-19.“

Ég velti því fyrir mér varðandi þetta málefnasvið hvort hér sé ekki einfaldlega verið að rökstyðja auknar fjárheimildir til sjúkrahúsþjónustu á fölskum forsendum. Það sé verið að gera þetta í tengslum við kórónuveirufaraldurinn þegar það lá fyrir í umræðunni um núgildandi fjárlög að sjúkrahúsþjónusta í landinu væri undirfjármögnuð. Ég fer fram á að fjármálaráðherra skýri þetta nánar þar sem í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir aukinni fjárheimild upp á tæplega 2,6 milljarða kr. í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um viðbrögð vegna Covid-19. Svo er núna farið fram á aukafjárheimild í fjáraukalögum upp á 9,6 milljarða kr. vegna kórónuveirufaraldursins. Ég trúi því ekki að þessi aukna fjárheimild sé vegna kórónuveirufaraldursins. Hún er vegna þess að sjúkrahúsþjónusta í landinu er undirfjármögnuð. Það benti stjórnarandstaðan á aftur og aftur og var með breytingartillögur um að auka fjárveitingar til sjúkrahúsþjónustu, til málefnasviðs 23. Ég set stórt spurningarmerki við það að vera að setja þetta í búning heimsfaraldursins, kórónuveirufaraldursins. Það sama á við um auknar fjárheimildir til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, málefnasvið 24, og hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu, málefnasvið 25. Það er algerlega ótækt ef rétt er að þessar forsendur fyrir hækkuninni séu ekki kórónuveirufaraldurinn heldur undirfjármögnun. Það er alvarlegt mál ef fjármálaráðherra kemur hér með frumvarp til fjáraukalaga þar sem hann fer fram á auknar fjárheimildir til sjúkrahúsþjónustu, til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og til hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu á fölskum forsendum. Ég krefst frekari skýringa á því hvort hér sé raunverulega um auknar fjárheimildir að ræða vegna kórónuveirufaraldursins. Það var gert ráð fyrir honum í núgildandi fjárlögum svo það liggi algerlega fyrir, eins og ég las hér upp úr frumvarpinu frá síðasta ári.

Að lokum vil ég ítreka þær breytingartillögur sem Flokkur fólksins mun leggja fram við þetta frumvarp til fjáraukalaga: Auknar fjárheimildir til SÁÁ upp á 300 millj. kr., fjárheimild til matargjafa til fátæks fólks upp á 150 millj. kr. og í þriðja lagi að öryrkjar og aldraðir fái svokallaðan jólabónus. Það er þegar búið að prenta breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir þetta ár og framsögumaður er formaður Flokks fólksins, Inga Sæland. Það er þegar búið að dreifa þessari breytingartillögu. Þar er lagt til að á málefnasviði 27, örorka og málefni fatlaðs fólks, verði aukning um 800 millj. kr. og heildarfjárveiting til málaflokksins verði 1.450 millj. kr. í stað 650 millj. kr. Við bætist nýtt málefnasvið nr. 28, málefni aldraðra, og nýr undirflokkur, þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur, og þar verði rekstrartilfærslur upp á 360 millj. kr. Ég vonast til þess að þingheimur styðji þetta mjög mikilvæga mál. Ég á ekki von á því að það komi neinar mótbárur við því. Þetta er mjög mikilvægt og skiptir mjög miklu máli eins og kom fram í ræðu hér á undan.



[14:32]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og góðum félaga í fjárlaganefnd kærlega fyrir ræðuna. Mig langaði í samhengi við þau sjónarmið sem þingmaðurinn nefnir, leggur áherslu á og hefur verið öflugur í að standa vörð um, sem er hagur og staða öryrkja á Íslandi, að rifja þetta aðeins upp. Nýfallinn dómur Hæstaréttar Íslands um sérstaka framfærsluuppbót er umfjöllunarefni í fjáraukalögum. Það stakk okkur svo á sínum tíma, eftir að dómur í héraði lá fyrir og síðan mjög vel rökstuddur og greinargóður dómur í Landsrétti, að ríkisstjórnin skyldi leggja það á sig að sækja um áfrýjunarleyfi til að fara með þetta mál alla leið upp í Hæstarétt Íslands. Það finnst mér lýsa mjög sterkri pólitískri afstöðu til þessa hóps. Ég lagði fram skriflega fyrirspurn á sínum tíma til hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, um lagalegar en ekki síst pólitískar forsendur þess að fara með þetta mál til Hæstaréttar í ljósi þess að mér fannst dómurinn vera þannig að það væri algjörlega borðleggjandi hvernig þetta myndi fara.

Hvað varðar pólitísku sjónarmiðin sem þetta lýsti þá kom fram og kom mér á óvart að það hefði verið þáverandi félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, sem kynnti þá ákvörðun fyrir ríkisstjórn að fara með málið til Hæstaréttar, en núverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem tók við embættinu, gerði engar athugasemdir við það. Af því mátti heyra og skilja að í ríkisstjórninni og hjá félagshyggjuflokkunum þar, bæði Framsókn og Vinstri grænum, væri einhugur um að berjast allt upp í Hæstarétt fyrir því að fólk skyldi ekki njóta þessara réttinda.



[14:34]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta sem hv. þingmaður var að lýsa er klassískt viðhorf þessarar ríkisstjórnar til öryrkja og aldraðra og málefna þeirra. Ég get ekki séð neinn mun á stjórnarflokkunum hvað það varðar, skiptir engu hvort það er Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir eða Framsóknarflokkurinn, afstaðan er sú sama. Út á við og í fjölmiðlum virðast Vinstri grænir þó vera að reyna að leika einhverja aðra rullu en þeir gera innan ríkisstjórnarinnar. Þetta snýst um það. Barátta öryrkja og aldraðra fyrir réttindum sínum er mjög erfið barátta, bæði fyrir dómstólum, í samfélaginu og gagnvart stjórnvöldum. Við sjáum það gagnvart 69. gr. laga um almannatryggingar að búið er að brjóta það ákvæði árum saman með aukinni kjaragliðnun hvert einasta ár. Ég, ásamt félögum mínum í Flokki fólksins, lagði fram þingsályktunartillögu um að samtök öryrkja og samtök aldraðra kæmu að kjarasamningsviðræðum um leið og ríkisstjórnin kæmi þar að, sem verður væntanlega undir lok þeirrar samningalotu, í svokölluðum þríhliða viðræðum. Það er mjög mikilvægt að þau fái sæti við borðið þegar efnahagsstefna ríkisstjórnar verður loksins mótuð vegna þess að hún er ekki komin fram. Hún kom ekki fram í fjárlagastefnunni, ekki í fjármálaáætluninni og það er erfitt að lesa einhverja stefnu úr þessum fjárlögum, hvorki þessu frumvarpi sem hér er til umræðu og fer til nefndar og núverandi fjárlagafrumvarpi. Hún verður mótuð í þríhliða viðræðum ríkis og aðila vinnumarkaðarins.

Varðandi þennan dóm og framfærsluuppbótina þá hef ég ekki kynnt mér það sérstaklega. En það er algerlega fráleitt ef öryrkjar hafa náð fram réttindum sínum fyrir Landsrétti að Hæstiréttur fari með það lengra innan dómskerfisins þegar hann þarf þess ekki. Það vitum við bæði og það vita allir. Þau eiga að sætta sig við dóminn og láta staðar numið en ekki standa í deilum fyrir framan dómstóla landsins alveg til hæsta dómstigs. Það sýnir viðhorf ríkisstjórnarinnar í heild til öryrkja.



[14:37]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat ekki stillt mig um að koma hér upp og nefna þetta dómsmál og allan þennan rekstur innan dómskerfisins af því að hv. þingmaður fjallaði um að aukin framlög væru í fjárauka vegna niðurstöðu þessa máls. Kjarnaatriðið er auðvitað að niðurstaðan lá fyrir í Landsrétti. Niðurstaðan var afdráttarlaus, skýr og vel rökstudd. Auðvitað er ekkert sem bannar ríkisstjórninni að fara með þetta mál alla leið upp í Hæstarétt en þá þarf ríkisstjórnin líka að gangast við pólitískri afstöðu sinni til þessara réttinda. Að menn hafi það í sér að fara með þessa hagsmuni, þennan viðkvæma hóp og berjast af þessum þunga og krafti þegar við blasir að rökin eru veik, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Það var áhugavert að sjá það og skynja, og fá það skriflega staðfest, að félagsmálaráðherrarnir úr flokkum Framsóknar og Vinstri grænna voru einhuga um að svona skyldi þetta vera og svona skyldi framgangan vera gagnvart þessum hóp.



[14:38]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar sitt. Niðurstaðan var skýr og byggð á sterkum forsendum í Landsrétti varðandi réttindi öryrkja en samt ákveður ríkisstjórnin að fara með málið upp í Hæstarétt. Það sýnir bara viðhorfið. Ef niðurstaða Landsréttar byggir á skýrum og sterkum rökum og hún fer með málið til Hæstaréttar þá þýðir það að hún fellst ekki á forsendur dómsins. Hún er ósátt við eitthvað. Það sýnir bara málflutning þeirra að þau vilja bæði éta kökuna, halda henni og baka hana. Afstaða þessarar ríkisstjórnar, sama hvað félagshyggjuflokkarnir í ríkisstjórninni vilja meina og róttæku, sósíalísku og femínísku Vinstri grænir, er að hún er í baráttu við öryrkja í landinu. Það er bara svoleiðis. Sama er með Framsóknarflokkinn. Þau geta leikið einhverja rullu í fjölmiðlum en staðreyndirnar tala sínu máli — kjaragliðnunin, niðurstaða Landsréttar og endalaust stríð við hópa eins og öryrkja sýnir bara hvers konar viðhorf þetta er. Það er ekki af neinu sem flokkurinn minn, Flokkur fólksins, fékk tæp 9% í síðustu kosningum. Það er ástæða fyrir því og það er mikilvægt að við fáum að halda okkar rödd, að við getum haldið þessari rödd áfram og þessari baráttu — flokkur sem formaður flokksins stofnaði árið 2016, fyrir nokkrum árum síðan. Þetta er flokkur sem er 100 árum yngri en Framsóknarflokkurinn og á mun bjartari framtíð fyrir sér en hann.



[14:40]
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Við erum hér með til umræðu fjáraukalög. Þar hefur hæstv. fjármálaráðherra eðlilega og réttilega dregið fram þær breytingar sem hafa orðið frá því að við hófum umræðu um frumvarp hans til fjárlaga og það er alveg rétt að það eru ýmis jákvæð teikn á lofti. Þar er rakið að frumjöfnuður ríkissjóðs batni vegna efnahagsbata og ástæður þess eru mikil fjölgun ferðamanna og vöxtur í einkaneyslu. Báðar þessar breytur eru umfram forsendur í fjárlagafrumvarpi. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að þessi bati nemi um 94 milljörðum kr. Þetta er jákvætt og þetta er þýðingarmikið og yfir þessu eigum við að gleðjast.

Ég vil hins vegar leyfa mér að nefna að í samhengi við fjölgun ferðamanna þá hef ég miklar áhyggjur af stöðunni eins og hún er á alþjóðavettvangi og þeim blikum sem þar eru á lofti því að hagrannsóknir sýna okkur það að þegar að kreppir þá sker fólk fyrst niður í ferðalögum, menningu og upplifun. Þarna komum við kannski aftur að þeirri stöðu sem gerði okkur veikari fyrir á tímum heimsfaraldurs, hversu háð við erum ferðaþjónustunni. Við verðum þess vegna að vera mjög vakandi fyrir því sem er að gerast í þeim ríkjum sem ferðamennirnir okkar koma frá og það er ástæða til að hafa áhyggjur af því að þar þurfi ekki mikið að breytast til að áhrifin verði umtalsverð hjá okkur.

Það eru líka miklar breytingar á vaxtagjöldum. Verðbólga hefur aukist langt umfram það sem búist var við og vaxtagjöldin eru að hækka um 37 milljarða frá fyrri forsendum sem má fyrst og fremst rekja til verðbólgunnar. Þetta eru mjög stórar tölur og þarna þarf að halda því til haga að áður en þessi mynd teiknaðist upp þá vorum við engu að síður í þeirri stöðu að vaxtakostnaðurinn var fjórði stærsti útgjaldaliður frumvarpsins þannig að kostnaður okkar af vaxtagjöldum er óheyrilegur. Þetta er auðvitað mikið og stórt áhyggjuefni. Þó að heildarafkoman sé að batna þá er það auðvitað gríðarlega mikið áhyggjuefni hversu há vaxtagjöld ríkissjóðs eru orðin og verða á næstu árum. Þetta er langstærsta breytingin þegar við erum að skoða núna hvað er að breytast í útgjöldunum. Við getum séð það í samhengi við hversu mikið verðbætur hafa hækkað frá 2019, þær hafa farið úr 10 milljörðum upp í tæpa 50. Í þessu samhengi myndi ég vilja vísa í, benda á og halda til haga því sem fram hefur komið í umsögnum frá Samtökum atvinnulífsins, frá Viðskiptaráði og öðrum aðilum sem eru að benda á þá alvarlegu stöðu og þá sérstöðu um það hve há vaxtagjöld eru hér í samanburði. Vaxtakostnaðurinn er t.d. mun hærri hér en víða erlendis og er á ársgrundvelli hærri en framlög til Vegagerðarinnar og Háskóla Íslands til samans. Auðvitað væri betra og ákjósanlegt að geta varið fjármunum á annan hátt en þennan til að geta eflt grunnþjónustu og innviði eins og sannarlega er þörf á. Þannig að það verður alltaf að setja þennan kostnað í samhengi við það hverjar afleiðingarnar eru af því að hafa þennan lið og þennan póst jafn stóran og raun ber vitni. Heimilin í landinu þekkja það ágætlega að það er dýrt að skulda. Þetta er líka veruleiki ríkissjóðs sjálfs.

Þetta kemur inn á það hversu ofboðslega þýðingarmikið það er að ríkisfjármálin séu í takt við peningamálastjórnina og þetta hefur Seðlabankinn verið að benda okkur á ítrekað og ekki síst núna allt þetta ár. Ég upplifi það þannig eftir að hafa setið í fjárlaganefndinni núna í haust að Seðlabankinn hafi því miður verið skilinn einn eftir af ríkisstjórninni með það verkefni að glíma við verðbólguna. Þegar aðhaldið minnkar verður afleiðingin þessi. Þannig að batnandi afkomu virðist mætt með því að draga úr aðgerðum sem þarf til að koma efnahagslífinu og ríkissjóði í jafnvægi.

Ég held að forsendur ríkisfjármálanna séu hæpnar. Skuldir næstu ára munu bera með sér háa vexti og þetta er staða sem er alltaf að teiknast upp sem verri og verri. En til að einfalda myndina er kannski kjarninn í þessu öllu saman sá að tekjur standa ekki undir gjöldum og það er í sjálfu sér ekki ný saga. Þetta er það sem við í Viðreisn höfum verið að benda á um langan tíma. Afsökunin, fjarvistarsönnunin, er ekki heimsfaraldurinn eða afleiðingar heimsfaraldurs því þetta var staðan fyrir tilkomu hans. Vissulega drógust tekjurnar saman í heimsfaraldri og kölluðu á aukin útgjöld en þegar maður tekur þann kafla og það tímabil út fyrir sviga þá sjáum við að þessi mynd hafði teiknast upp löngu fyrir heimsfaraldur, að ríkissjóður hefur verið rekinn með halla vegna ákveðins freistnivanda stjórnvalda. Þetta kom fram í áliti fjármálaráðs við síðustu fjármálaáætlun.

Þetta meirihlutasamstarf krefst málamiðlana, eðlilega. Svo er alltaf. En það breytir því ekki að þó að þrír flokkar starfi saman og þurfi að gera málamiðlanir eru þeir samt ekki lausir undan þeirri ábyrgð að geta tekið stöku ákvörðun. Það virðist einhvern veginn vera þannig í þessu samstarfi að pólarnir tveir draga fram það versta hvor í öðrum, að það vantar upp á aðhald og ábyrgð Sjálfstæðisflokksins. Það virðist vera afleiðing af því að vera í sambúð með Vinstri grænum, og Sjálfstæðisflokki og Framsókn tekst ekki að halda aftur af útgjaldagleði hins armsins. Það eru engar skýrar ákvarðanir sem við erum að sjá, engar lausnir um það hvort eigi að brúa bilið með aukinni tekjuöflun eða gjaldalækkunum og ég velti því fyrir mér hvort það verði þannig áframhald á því á þessu kjörtímabili að við séum í biðflokki með allar þýðingarmiklar ákvarðanir. Niðurstaðan er að ríkissjóður er ósjálfbær, lífskjörin eru tekin að láni og reikningurinn sendur næstu kynslóð.

Ég er að leggja svona mikla áherslu á þessa stóru mynd um fjármálin. Flestir aðrir hér hafa verið að tala um einstaka útgjaldaliði; um sjúkrahúsþjónustuna, um velferðarkerfið, um heilbrigðismálin í heild sinni, en auðvitað er það þannig að þessi stjórn fjármála hjá ríkisstjórninni núna, um árabil, hefur þau áhrif að við stöndum veikari að vígi um að verja innviðina, að styrkja heilbrigðiskerfið, að standa með Landspítalanum, sem meiri hluti þjóðarinnar er mjög á því að eigi að gera. Þessi slælega stjórn ríkisfjármálanna hefur þau áhrif að staðan er ekki sterkari en raun ber vitni í heilbrigðis- og velferðarmálunum. Það er ekki hægt að slíta þetta tvennt í sundur. Þess vegna verða líka þeir sem vilja tala máli sterkara velferðarkerfis, sterkara heilbrigðiskerfis, að standa með okkur í því að halda ríkisstjórninni við efnið um það að vera ábyrg í fjármálunum, að fjármunirnir fái að leita þangað sem þeirra er þörf en ekki sé verið að stofna til skulda utan um einhver gæluverkefni, fjölgun ráðuneyta og annað í þeim dúr. Þetta helst allt saman í hendur.



[14:50]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Velferðarþjóðfélag byggir á félagslegum réttindum. Það byggir ekki á sporslum og tilviljanakenndum bónusum, eingreiðslum. Þess vegna er það óþolandi staða að þurfa að standa hérna í þingsal annað árið í röð og kallað eftir eingreiðslu, sómasamlegri eingreiðslu fyrir öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega. Ástæðan fyrir því að þessi krafa er sett fram, ástæðan fyrir því að hún var sett fram í fyrra og sett aftur fram núna, er sú að almannatryggingakerfið okkar virkar ekki eins og það á að virka. Það virkar ekki eins og við viljum að það virki. Það stendur ekki undir því hlutverki að verja lífsafkomu þeirra tekjulægstu. Öryrkjar eru fastir í skerðingafrumskógi og kjör þeirra hafa dregist aftur úr kjörum á almennum vinnumarkaði, þvert á það sem mælt er fyrir um í 69. gr. almannatryggingalaga.

Hvernig getum við hér í þessum sal réttlætt það fyrir sjálfum okkur og öðrum að óskertur lífeyrir hjá manneskju sem fær örorkumat 40 ára er bara rétt rúmlega 300.000 kr. á mánuði, 300.000 kr. fyrir skatt, langt undir lágmarkslaunum á vinnumarkaði? Þetta er hátt í fimm sinnum lægri fjárhæð en við erum með í mánaðarlaun hér í þessum sal. Hvernig getum við réttlætt þessa stöðu? Við getum það ekki. Þetta er óverjandi. Og einmitt þess vegna gerðist það t.d. hérna fyrir ári, eftir margra vikna stapp og þrýsting frá stjórnarandstöðuflokkum, að Alþingi sameinaðist um að veita öryrkjum og endurhæfingarlífeyrisþegum 53.000 kr. eingreiðslu í desember svo að fólk gæti kannski haft það bærilegt yfir hátíðirnar.

Nú er efnahagsárferðið allt annað á Íslandi, 9% verðbólga og vextir hafa hækkað mjög skarpt þannig að bæði er kaupmáttur að rýrna og greiðslubyrði vegna húsnæðis að rjúka upp. Í október leituðu 80 manns til umboðsmanns skuldara vegna fjárhagsvanda. Þetta voru mikið til öryrkjar og samkvæmt gögnum frá umboðsmanni skuldara er meðalgreiðslugeta þeirra minni en enginn, 3.500 kr. í mínus. Þannig er staðan þegar greitt hefur verið fyrir allar nauðsynjar. Það er mikilvægt að halda þessu til haga hér í þessum sal. Og hvað gerir ríkisstjórnin við þessar kringumstæður? Jú, þá á að skera niður þessa eingreiðslu sem við vorum að tala um, skera hana niður um u.þ.b. helming, þessa desembereingreiðslu, og það er réttlætt með vísan til hækkunar greiðslna almannatrygginga síðasta sumar, hækkunar sem nú þegar hefur brunnið upp á verðbólgubálinu. Höldum því til haga.

Í byrjun ársins voru greiðslur almannatrygginga hækkaðar um 3,8%. Mótvægisaðgerðin í júní bætti við 3%, svo að alls hafa greiðslurnar hækkað um rúmlega 5%, einhvers staðar á bilinu 5–6. Ríkisstjórnin kvittaði undir að verðbólgan þetta árið yrði 7,5%. Þannig var það í haust en sú spá er orðin úrelt. Núna væntir Seðlabankinn 8,8% verðbólgu að meðaltali og Samtök atvinnulífsins vænta a.m.k. 8% verðbólgu. Á mannamáli þýðir þetta að öryrkjar og endurhæfingarlífeyrisþegar taka á sig 3% verðlagshækkun á árinu, hátt í 10.000 kr. á mánuði, óbætta. Þetta væri kannski þolanlegt, þetta væri kannski eitthvað sem væri bara hægt að láta nægja að leiðrétta um næstu áramót ef kjör öryrkja hefðu raunverulega fylgt almennri launaþróun á undanförnum árum og ef fólk hefði það þokkalegt, fólk sem er í þeirri stöðu að geta ekki unnið. En staðan er bara sú að óskertur örorkulífeyrir hefur ekki fylgt almennri launaþróun. Hann er tugþúsundum lægri en lágmarkslaun í landinu og nær helmingur öryrkja hefur lægri heildartekjur en sem nemur lágmarkslaunum. Þetta er óverjandi staða og við hljótum að geta verið sammála um það.

Ráðherrar og stjórnarþingmenn bera alltaf blak af þessu ástandi með vísan til þess að það sé einhver svona heildarendurskoðun í gangi. En það borðar enginn heildarendurskoðun og fólkið sem rétt skrimtir, það hefur ekkert efni á því að bíða bara eftir þessari heildarendurskoðun. Þess vegna hljótum við að gera skýlausa kröfu um það núna aftur að þessi desembereingreiðsla verði sambærileg og í fyrra. Þetta er krafan. Þá gildir auðvitað hið sama og síðast, að með þessari eingreiðslu erum við hér á Alþingi að viðurkenna vafningalaust að okkur hefur ekki tekist að búa til nógu gott kerfi fyrir fólk sem getur ekki unnið, fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þá erum við að viðurkenna það. Ef fólk með fötlun og ef fólk með skerta starfsgetu hefði það nógu gott þá værum við ekkert að takast hérna á um einhverja eingreiðslu árlega.

Þetta er staðan. Virðulegi forseti. Stóra verkefnið, eins og ég sagði hér í byrjun ræðunnar, er hins vegar auðvitað það að skapa hérna gott almannatryggingakerfi sem við getum verið stolt af.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til fjárln.