153. löggjafarþing — 29. fundur
 10. nóvember 2022.
upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, 1. umræða.
stjfrv., 415. mál. — Þskj. 463.

[14:57]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Með frumvarpinu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt ákvæði tveggja reglugerða Evrópuþingsins og ráðsins. Annars vegar nr. 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og hins vegar nr. 2020/852 um að koma á ramma til að greiða fyrir sjálfbærri fjárfestingu, sem heitir á ensku EU Taxonomy.

Með fyrrnefndu reglugerðinni eru lagðar skyldur á aðila á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjafa til að birta upplýsingar um það hvernig áhætta tengd sjálfbærni er felld inn í fjárfestingarákvarðanir og í ráðgjöf og hvort og þá hvernig tekið er tillit til skaðlegra áhrifa á sjálfbærni. Reglugerðin tekur mið af markmiðum Parísarsamkomulagsins um að draga verulega úr áhættu og áhrifum af loftslagsbreytingum með því meðal annars að beina aðilum á fjármálamarkaði að lausnum sem taka mið af þróun í átt að minni losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum.

Með áhættutengdri sjálfbærni er átt við atvik eða ástand á sviði umhverfismála, félagsmála eða stjórnarhátta sem gætu haft veruleg neikvæð áhrif á virði fjárfestinga. Þær upplýsingar sem ber að birta eiga að gera endanlegum fjárfestum kleift að taka upplýstari fjárfestingarákvarðanir og eiga þær því að vera hluti af þeirri upplýsingagjöf sem veitt er fjárfestum áður en samningur er gerður.

Samkvæmt reglugerðinni ber aðilum á fjármálamarkaði og fjármálaráðgjöfum að veita fjárfestum upplýsingar áður en samningur er gerður og með viðvarandi hætti með því að birta þær á vefsetrum sínum, í reglubundnum skýrslum og starfskjarastefnum.

Með reglugerð 2020/852 er komið á fót samræmdu evrópsku flokkunarkerfi með skilgreiningum á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Flokkunarkerfinu er ætlað að auka gagnsæi með tengdri upplýsingagjöf markaðsaðila og stórra fyrirtækja og hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að átta sig á því hversu sjálfbær tiltekin atvinnustarfsemi er svo þeim sé kleift að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir með sjálfbærni að leiðarljósi.

Flokkunarkerfinu er jafnframt ætlað að sporna við svokölluðum „grænþvotti“, sem lýsir sér í því að tiltekin atvinnustarfsemi eða fjárfestingarafurð er markaðssett sem sjálfbær án þess að hægt sé að sýna fram á það eða umhverfisstaðlar hafa í reynd ekki verið uppfylltir, og með því öðlast ósanngjarnt samkeppnisforskot. Flokkunarkerfið skapar grundvöll fyrir samevrópska staðla og vottanir fyrir sjálfbærar fjármálaafurðir.

Tæknileg viðmið um hvaða atvinnustarfsemi telst færa verulegt framlag til umhverfismarkmiða reglugerðarinnar verða útfærð í framseldum reglugerðum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem innleiddar verða í íslenskan rétt með reglugerð ráðherra.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting reglugerðarinnar og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um það hvernig eftirlit með ákvæðum frumvarpsins fer fram, um heimildir eftirlitsaðila til upplýsingaöflunar, viðurlagaákvæði og heimild ráðherra til að setja reglugerðir og Seðlabanka Íslands til að setja reglur.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að lögin muni gilda um aðila á fjármálamarkaði, þ.e. vátryggingafélög, verðbréfafyrirtæki og lánastofnanir sem veita þjónustu á sviði eignastýringar, lífeyrissjóði, og rekstraraðila sjóða. Þá er gert ráð fyrir að stórum félögum og einingum tengdum almannahagsmunum, sem falla undir skyldu til að birta ófjárhagslegar upplýsingar samkvæmt ársreikningalögum, verði skylt að hafa með í skýrslum yfir ófjárhagsleg atriði upplýsingar um hvernig og að hvaða marki starfsemi fyrirtækisins tengist atvinnustarfsemi sem telst vera umhverfislega sjálfbær.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með framkvæmd laganna og hafi til þess hefðbundnar eftirlitsheimildir.

Virðulegi forseti. Frumvarp þetta er liður í því að uppfylla markmið áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun árið 2030 og efla viðbrögð við loftslagsbreytingum með því að auka fjármagnshvata fyrir fyrirtæki til að færa sig í átt að lítilli losun gróðurhúsalofttegunda og viðnámi gegn loftslagsbreytingum. Frumvarpið kveður á um ríkar kröfur um upplýsingagjöf aðila á fjármálamarkaði, stærri fyrirtækja og félaga tengdum almannahagsmunum til neytenda um sjálfbærnimál og eykur samræmi þeirra upplýsinga og þeirra aðferða sem beitt er við mat á því hvað teljist sjálfbær atvinnustarfsemi. Þess má vænta að þetta auki traust á þeim fjármálaafurðum sem markaðssettar eru sem sjálfbærar eða grænar og það sem skiptir kannski mestu, að við náum frekari árangri á öllu þessu sviði og við höfum væntingar um að það geti einnig dregið úr svonefndum grænþvotti.

Virðulegi forseti Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. í þinginu.



[15:02]
Gísli Rafn Ólafsson (P):

Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Við höfum rætt reglugerðirnar og ýmislegt annað í þingsal þegar þær hafa verið að koma og nú er frumvarpið komið fram. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að það sé vel skilgreint hvað séu sjálfbærar fjárfestingar og hvað sé sjálfbærni hjá fyrirtækjum. Það er gott að við erum að fá þessar skilgreiningar frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samstarfið. En ég hefði viljað sjá að við hefðum verið skrefi á undan Evrópusambandinu þegar kemur að slíku vegna þess að við hefðum þegar átt að eiga einhverjar skilgreiningar á sjálfbærni sem hefðu átt að vera í reglum. Yngri fjárfestar og margir lífeyrissjóðir eru farnir að gera þá kröfu að fjármálagerningar og annað sem fyrirtæki og aðrir fjárfesta í séu sjálfbærir og skaði ekki umhverfið og samfélagið. Það hefur reyndar verið ágreiningur um þessar skilgreiningar og flokkun Evrópusambandsins, að hún sé ekki alveg nógu ströng þegar kemur að umhverfismálum. En það er betra að hafa hana en engar skilgreiningar eða flokkun.

Mig langaði að segja, í framhaldi af samræðunum hér í morgun við hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að hér er verið að gera ákveðnar kröfur á skráð fyrirtæki um að fjalla í skýrslum sínum og ársreikningum um ófjárhagsleg atriði. Ég hefði viljað sjá vinnu milli umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins annars vegar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins hins vegar, þar sem farið yrði í að gera þær kröfur til fyrirtækja að vera með loftslagsbókhald þar sem fram kæmi hversu mikið þau væru að gera, hversu mikið af því sem þau væru að vinna eða búa til orsakaði mikinn útblástur og hvað þau væru að gera til mótvægis gegn því.. Þess má geta að þetta er ekki eins flókið og menn halda vegna þess að til er íslenskur hugbúnaður til að hjálpa fyrirtækjum við að gera þetta af sjálfsdáðum, en spurning hvort það ætti að setja einhverja hvata inn í lög til að fá þessi fyrirtæki til að hugsa grænt um allt sitt starf.

Ég þakka hæstv. ráðherra enn og aftur fyrir að koma þessu áfram og hlakka til að sjá fyrsta sjálfbæra fjármálagerninginn í boði hér á Íslandi.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.