153. löggjafarþing — 32. fundur
 16. nóvember 2022.
hæfi ráðherra við sölu á hlut í Íslandsbanka.

[15:17]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í umræðum um skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna sölunnar á Íslandsbanka í gær spurði ég hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur hvort það vantaði ekki algerlega að fjalla um hæfi ráðherra til að taka ákvörðun um að selja föður sínum hlut í Íslandsbanka. Ástæðan fyrir þeirri spurningu er sú augljósa staðreynd fyrir öll sem lesa skýrsluna að enga slíka umfjöllun er þar að finna þrátt fyrir tilefni. En það er alltaf gott að leita álits hjá öðrum og það stóð ekki á svörum hjá hv. þingmanni sem svaraði, með leyfi forseta: „Já, það er rétt, það er ekkert fjallað um akkúrat þetta atriði í skýrslunni.“ Fjármálaeftirlitið er ekkert að skoða þetta atriði heldur. Enn fremur sagði fyrrnefndur hv. þingmaður í andsvörum við hv. þm. Sigmar Guðmundsson, með leyfi forseta:

„Við erum ekkert hætt að rannsaka þetta. Það hefur oft komið fram og ég held að allir, við þingmenn sem sitjum hér og getum ekki annað, stjórnsýslan og ríkisstjórnin — ég held að hún sé öll af vilja gerð að rannsaka þetta betur.“

Ég verð að segja að þessi orð vöktu með mér von og gleði og mig langar því að spyrja ráðherra til að vera alveg viss hvort þetta sé ekki rétt skilið, í fyrsta lagi: Er það ekki rétt hjá okkur að í skýrslunni er ekkert fjallað um hæfi ráðherra til að taka ákvörðun um að selja föður sínum hlut í Íslandsbanka?

Í öðru lagi: Er það ekki einnig rétt að stjórnsýslan og ríkisstjórnin sé af öll af vilja gerð til að rannsaka þetta mál betur?



[15:18]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir spurninguna. Ég tek undir að ég kannast ekki við að það sé fjallað um þetta hæfi varðandi söluna.

Hann spyr hvort við séum öll af vilja gerð til að kanna þetta mál til hlítar. Að sjálfsögðu erum við það. Ég hef sagt það víða og stend við það alveg eins og ég stend hér í dag, að það skiptir auðvitað öllu máli að traust ríki þegar við erum að meðhöndla eignir ríkissjóðs Íslands, vegna þess að eignir ríkissjóðs Íslands eru eignir almennings í landinu. Ég hef líka sagt að það skipti máli að þetta taki allt sinn tíma. Það var engin óskastaða, bæði í fjármálahruninu og þegar við vorum að klára þessa hluti, að ríkissjóður fengi alla þessa banka. En það var mun betra að gera það þannig en að þeir væru í eigu erlendra kröfuhafa sem hefðu getað farið út í gegnum gjaldeyrismarkaðinn með sínar krónueignir. Þá hefði verið mjög erfitt á gjaldeyrismarkaði. Af hverju er ég að segja þetta? Vegna þess að það skiptir líka máli að við höfum fengið þessar eignir og erum að koma þeim í verð. Aðferðafræðin skiptir máli. Það gekk mjög vel með fyrsta hluta sölunnar.



[15:21]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Við erum í þeirri stöðu í dag, ólíkt því sem var í vor þegar við vorum með vísbendingar um alls konar misbresti í þessu ferli — eins og hæstv. ráðherra segir skiptir máli hvernig hlutirnir eru gerðir — að núna erum við með í höndunum skýrslu Ríkisendurskoðunar sem staðfestir mjög margar af þessum grunsemdum um misbresti. Við erum í raun komin lengra í áttina að því að segja það með fullri vissu að hér hafi allt verið í algeru klúðri og komin í áttina að því að það sé svo lagalega séð. Við erum almennt komin með mjög góða niðurstöðu um að að það séu misbrestir á framkvæmdinni og framkvæmd skiptir máli. Framkvæmd laga skiptir máli. Við komumst t.d. að því í kosningunum í Norðvesturkjördæmi í upphafi þessa kjörtímabils: Framkvæmdin skipti máli, þó að Alþingi hafi komist að því að lög hafi ekki verið brotin. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Er í rauninni nóg að kalla eftir skýrslu þegar það á greinilega eftir að klára að rannsaka þetta til að axla pólitíska ábyrgð?



[15:22]
menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Fram hefur komið í viðtali við Unni Gunnarsdóttur, varaseðlabankastjóra Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands, að bankinn er með söluna til umfjöllunar. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég tel að það sé svolítið brýnt, líka af því við erum að tala um orðsporsáhættu og annað, að bæði ráðherrar og þingmenn og allir þeir sem fjalla um þetta mál sýni ákveðna biðlund. Það erum ekki við sem erum að fara að rannsaka þetta mál í kjölinn. Nú er þessi hluti hjá Fjármálaeftirlitinu og það þarf að vanda mjög alla orðræðu í kringum það, svo ég ítreki það bara. En við erum ekki komin með heildarmyndina af sölunni fyrr en það er komið.