153. löggjafarþing — 33. fundur
 17. nóvember 2022.
aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum, fyrri umræða.
þáltill. ÞKG o.fl., 22. mál. — Þskj. 22.

[16:26]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Innrás Rússa í Úkraínu hefur á svipstundu gjörbreytt stöðu heimsmála, samstarfi við bandalagsþjóðir okkar og þeim hættum og áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir. Þessar breytingar bætast við þá þróun sem hefur orðið undanfarna áratugi og voru grundvöllur fyrri tillagna okkar í Viðreisn sem miðuðu að því að styrkja stöðu landsins í breyttum heimi, m.a. með því að skoða það að stíga skrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar og við eigum að treysta þjóðinni til að stíga það skref.

Síðustu atburðir gera þá athugun enn brýnni en kalla líka á þéttara samstarf innan NATO og þessir atburðir kalla líka á aukið framlag Íslands til sameiginlegra verkefna bandalagsþjóðanna. Jafnframt er mikilvægt að gera varnarsamninginn við Bandaríkin skýrari að því er tekur til nýrrar öryggisáhættu, vegna netárása, samskipta Íslands við umheiminn og ferla komi til þess að taka ákvarðanir um að bregðast við aðsteðjandi hættu. Í þessu megum við ekki vera það einföld að útiloka einhverja þætti. Við erum búin að sjá það á síðustu misserum og síðustu vikum og mánuðum að það er ekkert sem er ómögulegt. Þótt það sé ógnvænlegt og fólgin í því gríðarleg áhætta fyrir allan heiminn þá felst í því líka ákveðin ógn og áhætta fyrir okkur Íslendinga. Aðstæður kalla því á kerfisbundið og skilvirkt samtal og samráð við yfirvöld Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja okkar, einkum nú um stöðuna á meginlandi Evrópu og hvað hún þýði fyrir okkur Íslendinga. Sömuleiðis er mikilvægt að huga að þeim fælingarmætti sem myndi felast í varanlegri viðveru varnarliðs á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þótt þetta kunni að vera viðkvæmt fyrir einhverja stjórnmálaflokka þá er þetta eitthvað sem við verðum að meta núna. Það skiptir auðvitað öllu máli fyrir land eins og Ísland, herlaust smáríki í Norður-Atlantshafi að við getum farið í þetta kerfisbundna og skilvirka samtal.

Flestar þjóðir hafa farið í markvissar aðgerðir til að bregðast við nýjum aðstæðum ásamt sameiginlegum verkefnum, sameiginlegum efnahagsþvingunum gagnvart Rússum og mikilvægri mannúðaraðstoð vegna hörmunga stríðsins. Við vorum að koma, nokkrir þingmenn, m.a. af upplýsingafundi varðandi þróunarsamvinnu þar sem ýmis alþjóðasamtök tóku höndum saman og áttu mjög góðan og öflugan fund með okkur þingmönnum, hvort sem þeir voru í fjárlaganefnd eða utanríkismálanefnd, en þar voru þau að leggja einmitt mikla áherslu á að það þarf að tryggja aðstæður í Úkraínu, tryggja þau réttindi, mannréttindi og fleira sem sem er ógnað þar, en um leið megum við ekki heldur gleyma þróunarsamvinnunni því að það er hætt við því að ef við einblínum eingöngu á Úkraínu — við verðum að gera það, við verðum að einblína á Úkraínu en við megum heldur ekki draga úr stuðningi okkar, þvert á móti, við aðra heimshluta því þar eru ógnir fyrir heiminn allan til skemmri og lengri tíma.

Mörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa t.d. ákveðið að auka framlög til varnarmála í þeim tilgangi að axla meiri ábyrgð á hervörnum álfunnar, ekki síst Þjóðverjar sem hafa nú m.a. gjörbreytt sínum áherslum. Þegar horft er til Norðurlanda er líka athyglisvert að Danir hafa nýlega gefið út endurnýjaða stefnu í utanríkismálum þar sem lögð er áhersla á að dýpka samstarfið innan Evrópusambandsins, styrkja þátttökuna í NATO og treysta betur varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þannig hafa Danir aukið framlög sín til varnarmála og sömuleiðis ákveðið að fella úr gildi fyrirvara landsins við varnarmálasamstarf Evrópusambandsins, þeir treystu þjóðinni til að taka þá ákvörðun eins og þjóðin gerði og kallað var eftir í atkvæðagreiðslunni í Danmörku í sumar. Þeir þorðu að treysta þjóðinni til þessara skrefa. Innrás Rússa leiddi einnig til vaxandi umræða í Finnlandi og Svíþjóð um fulla aðild ríkjanna að NATO og þau hafa, eins og við þekkjum, sótt um aðild að bandalaginu og flestöll aðildarríki bandalagsins samþykkt inngöngu þeirra.

Búast má við því, virðulegi forseti, að hernaðarátökin í Úkraínu og hinar umfangsmiklu efnahagsþvinganir sem lýðræðisríkin hafa gripið til gagnvart Rússlandi hafi langvarandi áhrif, auki óstöðugleika í heimsmálum og raski alþjóðasamskiptum líkt og við höfum þegar séð með tilliti til matvæla og iðnframleiðslu og aðfangakeðjunnar á heimsvísu. Ísland, eins og önnur Evrópulönd, er og verður háð samvinnu við Bandaríkin um hervarnir. Jafnframt er þar skýrt að Evrópuríki verða að axla meiri ábyrgð á vörnum álfunnar en þau hafa hingað til gert og þau eru þegar byrjuð að gera það. Flest ríkjanna hafa stigið stór skref og táknræn í þessa átt og nú þarf að halda áfram að þeirra mati á þeirri vegferð, ekki síst til að standa vörð um sameiginleg grunngildi lýðræðisþjóða. Vegna vaxandi áhrifa Kína verða Bandaríkin eðlilega bundnari við Asíu en áður, ekki síst Suður-Kínahaf og það svæði. Þetta hefur bæði áhrif á varnarsamstarf Evrópuríkja og efnahagsleg samskipti. Breyttar aðstæður kalla á þéttari samvinnu innan Evrópu á báðum sviðum milli þeirra ríkja sem grundvölluð eru á sameiginlegum vestrænum gildum og Ísland er að sjálfsögðu engin undantekning í þeim efnum.

Aðildin að innri markaði Evrópusambandsins fyrir tilstilli EES-samningsins og aðildin að NATO hafa verið tvær meginstoðir íslenskrar utanríkisstefnu. Við flutningsmenn teljum eðlilegt að nýjum aðstæðum verði mætt með því að styrkja þessa tvo kjarna utanríkisstefnunnar. Eftir síðari heimsstyrjöld gerðu lýðræðisríkin sér grein fyrir því að útilokað væri að tryggja frið og öryggi með hervörnum einum saman. Aukið viðskiptafrelsi, vaxandi hagsæld og sömu leikreglur fyrir alla hefðu jafn mikla þýðingu til að ná því friðarins markmiði. Hervarnir og viðskiptafrelsi voru því þannig tvær hliðar á sama peningi og þær eru það enn þá. Hugsum því til baka: Hvar værum við stödd ef helsta forystufólkið í stjórnmálum hefði á sínum tíma hér á landi staðhæft að með tilboði Bandaríkjanna um aðild Íslands að NATO væri verið að misnota hörmungar í annarlegum tilgangi? Við værum einfaldlega ekki þar. Við megum heldur ekki gleyma því að bandalagsþjóðir okkar í NATO eru að mestu þær sömu og við eigum samvinnu við á innri markaði Evrópusambandsins.

Utanríkispólitík ríkisstjórnarinnar byggir aftur á móti á þeirri sérkennilegu hugsun að hægt sé að telja fólki trú um að þessar þjóðir verji fullveldi okkar í NATO en vilji síðan koma því fyrir kattarnef innan Evrópusambandsins. Samvinna þessara þjóða um efnahag, varnir og öryggi byggist á sameiginlegum gildum. Við erum þegar aðilar að kjarna efnahagssamstarfsins. Lokaskrefið til fullrar aðildar er spurning um minna skref en við stigum á sínum tíma þegar Ísland varð aðili að innri markaði Evrópusambandsins. Í tillögu okkar er því aðeins verið að kalla á að eðlilegt mat verði lagt á stöðuna í ljósi nýrra aðstæðna og þeirra breytinga sem fyrirsjáanlegar eru á heimsvísu. Varfærnara getur það varla verið og það má kannski gagnrýna okkur fyrir það.

Ákvörðun um aðild að EES-samningnum og innri markaði Evrópusambandsins var tekin við lok kalda stríðsins. Síðan eru liðnir þrír áratugir. Það hefur verið tími mikilla umskipta og breytinga í alþjóðamálum, mjög umfangsmikilla breytinga þótt bara væri horft til síðustu mánaða. Víðast hvar hafa bandalagsríki okkar tekið nýjar og þýðingarmiklar ákvarðanir, hvort sem um er að ræða efnahagssamstarf eða varnarsamstarf. Samt höfum við Íslendingar ekki tekið neinar nýjar ákvarðanir til að laga okkur að breyttum aðstæðum. Það er í þessu utanríkispólitíska tómarúmi ríkisstjórnarinnar sem þingflokkur Viðreisnar hefur sett fram þá tillögu sem hér um ræðir.

Fyrsta efnisatriði tillögunnar felur því í sér að utanríkisráðherra geri áætlun um verulega aukna þátttöku Íslands í borgaralegum störfum vegna sameiginlegra verkefna NATO. Ísland hefur í áranna rás tekið þátt í slíkum borgaralegum verkefnum. Nú þegar aðrar þjóðir stórauka framlög til varnarmála er rétt að Ísland leggi sitt af mörkum með umtalsvert öflugri þátttöku á þessu sviði en verið hefur. Að sjálfsögðu verður Ísland að leggja áfram sitt af mörkum á sviði mannúðar og flóttamannaaðstoðar, þróunaraðstoðar og gera það markvisst og af metnaði.

Annað efnisatriði tillögunnar lýtur að því að utanríkisráðherra óski eftir samningum við Bandaríkin um viðbót við varnarsamninginn. Breyttar aðstæður kalla á skýrari ákvæði í sumum greinum. Á vettvangi NATO er unnið að vörnum gegn netárásum. Hins vegar er ekki hægt að segja með óyggjandi hætti að varnarsamningur við Bandaríkin nái yfir netárásir á Ísland. Flutningsmenn telja því sérstaklega mikilvægt að í texta varnarsamningsins eða viðauka við hann verði tekin af öll tvímæli um að hann nái til viðbragða við netárásum sem ógna öryggi og ekki síður fullveldi Íslands. Einnig er mikilvægt að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti á mikilvægi þess að halda samgöngum og samskiptum Íslands við umheiminn opnum á ófriðartímum. Tryggja þarf öryggi fólks og birgðaflutninga og gæta þarf að öryggi þeirra sæstrengja sem liggja til landsins, ekki síst í ljósi þess að rússneskir kafbátar hafa kortlagt sæstrengina og gleymum heldur ekki skemmdarverkunum á Nordstream-gasleiðslunum í Eystrasaltinu fyrr í vor. Svo er líka nauðsynlegt að bæta við ákvæðum sem mæla fyrir um hvernig ákvarðanir skuli teknar og hvar ábyrgð liggur í stjórnkerfinu komi til þess að taka þurfi ákvarðanir um viðbrögð við yfirvofandi hættu. Í þessum tengslum vil ég líka segja að við verðum að efla sérfræðiþekkingu á öryggis- og varnarmálum og gera það markvisst.

Þriðja atriði tillögunnar lýtur svo að því að meta mikilvægi þess að hafa viðvarandi varnarsveitir á landinu í samvinnu við NATO og sérfræðinga í varnarmálum. Þetta er mikilvæg viðbót við þann fælingarmátt sem felst í aðild Íslands að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin. Baldur Þórhallsson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, hefur m.a. bent á þetta, með leyfi forseta:

„Allt til ársins 2006 byggði varnarstefna Íslands og bandalagsríkja Íslands í NATO á varanlegri viðveru varnarliðs á landinu. Mikilvægi fælingarinnar má ekki vanmeta og því lykilatriði að vera með fasta viðveru varnarliðs á öryggissvæðinu í Keflavík. Föst viðvera varnarliðs myndi styrkja til muna þann fælingarmátt sem aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin felur í sér, eins og raunin var á tímum kalda stríðsins.“

Þetta segir einn helsti sérfræðingur okkar á þessu sviði, Baldur Þórhallsson. Í tengslum við loftrýmis- og kafbátaeftirlit við Ísland skiptast bandalagsríki okkar á að sinna tímabundinni viðveru á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem nú hefur aukist samhliða vaxandi áhyggjum af framtíðaráformum rússneskra og kínverskra stjórnvalda á norðurskautinu. Viðvera bandalagsríkjanna er ekki föst að nafninu til en þá vaknar sú spurning hvort hún sé það í raun. Að sögn stjórnvalda er ekki um fasta viðveru að ræða. Reynsla síðustu ára sýnir hins vegar annað og við skulum þá segja það bara hreint út og láta alla vita af því. Ef viðvera herafla er í rauninni föst hér er því að mínu mati um tvískinnung að ræða og það dregur úr þeim fælingarmætti sem aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin fela í sér. Mat á þessum atriðum má ekki stöðva þótt forystuflokkurinn í ríkisstjórn sé andsnúinn þátttöku Íslands í NATO og veru varnarliðs hér á landi. Hér þarf kalt hagsmunamat miðað við öryggishagsmuni þjóðarinnar.

Síðast en ekki síst fjallar fjórða efnisatriðið um það að styrkja pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu. Einkum þykir brýnt að horfa til þess að Ísland auki áhrif sín með því að fá sæti við borðið í Evrópusambandinu eins og í NATO. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu og áherslu Bandaríkjanna á önnur svæði heims hafa öryggis- og varnarmál hlotið aukið vægi innan Evrópusamstarfsins. Mikilvægt er að Ísland verði strax frá byrjun með í áætlunum Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum með þeim þunga sem fylgir fullri aðild að sambandinu. Ljóst er að því myndi fylgja frekari öryggistrygging gagnvart þeim áhættuþáttum sem landið er annars illa tryggt fyrir, ekki síst hvað samfélagsöryggi varðar. Án aðildar að Evrópusambandinu njóta Íslendingar ekki slíkrar tryggingar, líkt og fram kom í ábendingum þverfaglegrar áhættumatsskýrslu frá 2009 sem unnin var í kjölfar brotthvarfs varnarliðsins. Þessu hafa Danir nýlega gert sér grein fyrir og í Noregi er sífellt hærra ákall eftir aukinni umræðu og þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild landsins, raunar þvert á flokka, þvert á hugmyndastefnur. Þar nægir m.a. að vísa til ályktunar á landsfundi norska hægri flokksins og frá hlið verkamannaflokksins má vísa til ummæla formanns borgarráðs Óslóarborgar, og fyrrum forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, sem lengi hefur verið mótfallinn ESB-aðild landsins, hefur sömuleiðis kallað eftir umræðu og þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Tölum saman, hefjum umræðuna og treystum síðan þjóðinni til að stíga þetta skref. En hér má ekki treysta þjóðinni, það kom alveg skýrt fram í þingsal, m.a. fyrr í vikunni þegar fjármálaráðherra og ráðherra í ríkisstjórn Íslands segist ekki treysta þinginu, hvað þá þjóðinni, til þess að stíga svona stór og mikilvæg skref.

Með lokaskrefinu frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins að fullri aðild má einnig auka aðgengi fyrir íslenskar vörur að Evrópumarkaði, ekki síst sjávarafurðir, og tryggja heimilum og fyrirtækjum, litlum sem stórum, meiri stöðugleika og betri samkeppnishæfni með öflugri gjaldmiðli. Þetta er einfaldasta leiðin til að tryggja samkeppni, m.a. á bankamarkaði og tryggingamarkaði. Aukið viðskiptafrelsi og aðgangur að mörkuðum styður einnig við öryggi Íslands. Hervarnir og viðskiptafrelsi eru tvær hliðar á sama peningi, eins og var sagt fyrir tugum ára síðan þegar framsýnt fólk ákvað að verða hluti af NATO og í kjölfarið var líka stofnað til Evrópubandalagsins. Þetta fjórða efnisatriði tillögunnar snýr því að því.

Virðulegi forseti. Heimsmyndin er gjörbreytt, togstreita milli stórvelda heimsins og ekki eru líkur á því að hún minnki á næstu árum. Viðskiptaþvinganir eru líklegri til að verða algengari og þeim beitt í meira mæli en áður og þá er mikilvægt að vera í öruggu skjóli meðal ríkja sem tryggja aðgang Íslands að stórum mörkuðum. Þannig tryggjum við einnig viðskiptafrelsi í ríkara og öruggara mæli sem er einkum mikilvægt í því breytilega og óörugga umhverfi sem nú er uppi, sjáum bara Bretland. Við stöndum andspænis nýjum áskorunum, annars konar valdahlutföllum í heiminum og vaxandi þörf lýðræðisríkja fyrir samvinnu, ekki einungis um hervarnir heldur einnig um grunngildi, menningu, viðskipti og efnahag. Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga því ekki einskorðast við daginn í dag. Við þurfum að horfa fram í tímann. Við þurfum að meta stöðu Íslands í nýju ljósi og tryggja framtíðarhagsmuni landsins á öllum sviðum.



[16:41]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir að þessi tillaga sé komin inn í þingið og að við ræðum varnar- og öryggismál og alþjóðlegt samstarf. Efnislega er ég að mestu mjög sammála því sem kemur fram í tillögunni nema kannski fjórða þættinum sem þar er ræddur, varðandi það að Ísland gangi í Evrópusambandið vegna öryggishagsmuna Íslands. Ég var staddur á ráðstefnu á vegum NATO-þingsins fyrir fjórum vikum í Finnlandi og þar var farið yfir ástandið í norðanverðri Evrópu og öllu svæðinu, öryggið. Þarna voru forseti Finnlands og þingforsetinn og varnarmálaráðherra Finnlands. En þarna var einnig utanríkisráðherra Finnlands og hann var spurður út í grein 42.7 í Lissabonsáttmálanum, sáttmála Evrópusambandsins, og 42.7 gr. var sérstaklega tilgreind, af hverju það væri ekki bara nóg fyrir Finnland að treysta á þessa grein þegar kemur að varnarsamstarfi. Það hefur oft verið minnst á þá grein á Íslandi í tengslum við þetta, hún ætti að tryggja varnir Evrópusambandsins. Hann sagði að þetta hefði ekkert að gera með varnir. Finnar litu svo á að þetta gæfi þeim ekki neitt í vörnum Finnlands og það væri nauðsynlegt fyrir þá, þeir yrðu að vera hluti af NATO til að tryggja varnir landsins. Ég verð því miður að koma þessu beint frá mér hvernig finnski utanríkisráðherrann svaraði þarna á ráðstefnunni í Helsinki, á ensku: „There is no structure, no soldiers and no training.“ Hann lét mjög skýrt í ljós hvernig Finnar litu á þetta og síðan svöruðu Svíar með sama hætti fyrir sig á ráðstefnunni. (Forseti hringir.) Mig langar því að fá betri útskýringu á því hvernig Viðreisn sér þetta fyrir sér í þessu samhengi og hvernig þetta hefur verið rætt síðan í febrúar.



[16:44]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Þegar Eystrasaltsríkin fengu frelsi þá ákváðu þau að fara bæði inn í Evrópusambandið og NATO, hvort tveggja tryggði tvær hliðar á sama peningnum, friðarpeningnum, viðskiptafrelsi og varnir og öryggi. Í sögulegu samhengi, og við þekkjum bæði söguna mjög vel enda hv. þingmaður mjög vel inni í öllu sem viðkemur varnar- og öryggismálum, þá var Svíþjóð lengi vel hlutlaust og telur sig enn vera hlutlaust ríki, gat ekki farið í NATO en ákvað að fara í ESB, m.a. út af viðskiptahagsmunum en líka út af því að það væri meira öryggi fólgið í því að vera í viðskiptabandalagi við önnur ríki Evrópusambandsins. Það sama gilti um Finnland. Finnland var í ljósi sögunnar í mjög erfiðri stöðu til að fara á sínum tíma inn í NATO, en ákvað að fara í ESB af því að það væri þó meira öryggi fólgið í því að vera innan ESB heldur en utan. Það gátu þeir gert án þess að verða fyrir áreiti og yfirgangi Rússa. Það er fyrst núna sem þessi tvö ríki geta í ljósi Úkraínustríðsins farið inn í NATO. Ég vil spyrja á móti hæstv. þingmann — háttvirtan, en verður eflaust hæstv. einhvern daginn: Hver er þróunin í Þýskalandi? Hvert er matið og hvað er að gerast í Þýskalandi? Þeir gera þetta ekki bara á grunni NATO heldur líka á grunni Evrópusambandsins og eru að auka framlög sín á grunni þess að gera Evrópu sterkari. Hver var tilgangurinn með þjóðaratkvæðagreiðslunni í Danmörku, fyrir Dani að verða hluti af þeirri grein Evrópusambandsins eða samningsins innan upphaflega Evrópubandalagsins og síðan Evrópusambandsins, varðandi varnar- og öryggismál? Það var af því að þeir telja hag sínum betur borgið með því að verða alltaf við borðið þegar rætt er um varnar- og öryggismál. Ég heyri það líka að Norðmenn eru uggandi yfir því að Norðurlandaþjóðirnar sem eru þá komnar inn í bæði NATO og Evrópusambandið, þ.e. Finnland, Svíþjóð og Danmörk, (Forseti hringir.) muni í rauninni flytja mál Norðmanna og Íslendinga við Evrópusambandsborðið þegar kemur að varnar- og öryggismálum (Forseti hringir.) af því að þau mál eru rædd og þau verða rædd. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir þeirri staðreynd.



[16:46]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Finnski utanríkisráðherrann í Helsinki fyrir fjórum vikum benti á þá augljósu staðreynd að það væri raunverulega ekki hægt að treysta ESB sem varnarbandalagi. Umrædd lagagrein tryggði engar varnir í Finnlandi, á bak við greinina stæði ekkert þegar á reyndi, eins og ég sagði áðan; engin umgjörð væri til um neinar varnir, engir hermenn og hvað þá heræfingar. Það væri erfitt að byggja varnir og öryggi á lagagreinum einum og sér, þvert á það sem mætti ætla hér á landi af málflutningi þingmanna Viðreisnar og Samfylkingar skömmu eftir innrásina. Ég hef gagnrýnt það og gerði það, innrásin var á aðfaranótt fimmtudags og á flokksþingi Samfylkingarinnar var þetta orðið höfuðmál á laugardegi, innan tveggja daga. Mér fannst þetta ekki vel gert, að fara að flækja málin með þessu, og þá sérstaklega í samhengi við það sem við höfum núna orðið vitni að, hvernig Finnar og Svíar tala raunverulega um þessi mál. Þessar þjóðir segja, okkar helstu vinaþjóðir, Norðurlandaþjóðir, að NATO sé nauðsynlegt fyrir varnir og öryggi þessara ríkja. Það sé lykilatriði. Þessi grein, 42.7, sem hefur verið vísað í í umræðu hér af hálfu Viðreisnar og Samfylkingar síðan í lok febrúar, rétt eftir að innrásin í Úkraínu hófst — mér fannst þetta ekki vel gert. Mér fannst þetta rugla fólk svolítið í ríminu varðandi þessi málefni sem snúa að vörnum og öryggi Íslands. Ég ætla síðan að fara aðeins efnislega í gegnum greinina hér á eftir en þetta er lykilatriði af minni hálfu. Við eigum ekki að fara að rugla þessu saman. Ég bendi á að 80% af því fjármagni sem er varið innan NATO til varnar- og öryggismála kemur frá ríkjum utan Evrópusambandsins. 23 af 27 ríkjum Evrópusambandsins eru í NATO. (Forseti hringir.) Það eru 9 ríki af 30 sem eru í NATO í dag sem leggja til 80% af fjármagninu.



[16:49]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég held að við verðum að skoða málið í svolítið stærra samhengi. Sameiginleg stefna Evrópusambandsins snýst einmitt um öryggismál í hinu stóra samhengi. Ekki gleyma því að Evrópusambandið er önnur hliðin af tveimur á peningi, friðarpeningi heimsins. Heildræn nálgun í þessari sameiginlegu stefnu á öryggis- og varnarmál í sem víðustum skilningi er einkum það sem ESB hefur fram að færa umfram NATO á þessu sviði. Áhættuþættirnir gagnvart Íslandi eru heldur ekki — og þess vegna erum við að draga þetta fram — ósvipaðar þeim sem settir eru fram í öryggisstefnu Evrópusambandsins, m.a. á sviði efnahags, innviða, umhverfis o.s.frv., netöryggis líka. Slík samvinna tekur bæði til viðbúnaðar- og viðbragðsáætlana á Íslandi sem og þátttöku í alþjóðlegum aðgerðum. Öryggis- og varnarstefna Evrópusambandsins að mínu mati fellur því mjög vel að stefnu íslenskra stjórnvalda í öryggismálum. Við erum líka að sjá núna nýju drögin að þjóðaröryggisstefnu. Í ljósi alls þessa er ESB að fara að taka sér vaxandi hlutverk í öryggis- og varnarmálum. Þá vil ég einfaldlega, í ljósi öryggis- og varnarhagsmuna Íslendinga, eiga sæti við borðið, ekki síst til þess að tryggja betur lýðræði og frið í álfunni. Það er hluti af því. Það er stór partur af því að við í Viðreisn erum að tala um varnar- og öryggismál, hvernig við tryggjum frið, öryggi og lýðræði. Þess vegna er það svo brýnt fyrir okkur að verða fullgildur aðili að samstarfinu. Ég spyr enn og aftur: Voru þá Danir í þjóðaratkvæðagreiðslu sinni að ræða um ekki neitt? Ekki um þátttöku í varnar- og öryggishluta Evrópusambandsins? Það vita allir innan Evrópusambandsins að þeir munu auka framlög sín bæði innan NATO og innan Evrópusambandsins til varnar- og öryggismála. Umræðan um varnar- og öryggismál í víðu samhengi hjá Evrópusambandinu mun aukast og þá eigum við að vera þátttakendur. Það skiptir svo miklu máli fyrir okkur Íslendinga. (Forseti hringir.) Enn og aftur segi ég: Treystum einfaldlega þjóðinni til að taka næsta skref. Við það á enginn að vera feiminn.



[16:51]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég kom inn á það í andsvari að ég fagna umræðunni um þessi mál og að þetta mál sé lagt fram. Ég er þó kannski ekki alveg sammála 4. tölulið tillögunnar.

Mig langar rétt að hlaupa yfir helstu þætti málsins. Fyrsta atriðið er að Ísland stórauki þátttöku sína í borgaralegum verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins. Ég held að það sé vel til fundið að skoða hvað hægt er að gera. Gott verk hefur verið unnið undanfarin 15–20 ár sem snýr að þessum borgaralegu verkefnum sem maður þekkir kannski best til, hvort sem það er flugumferðarþjónusta í Kosovo eða Afganistan á sínum tíma. Mörg önnur verkefni hafa verið unnin eins og við fjölmiðlastörf í Eystrasaltsríkjunum í dag. Því er örugglega víða hægt að gera enn betur í þeirri vinnu.

Ég vil benda á að ég hef rætt það áður í þingsal að ég hefði viljað sjá okkur leggja meiri áherslu á leit og björgun í Norður-Atlantshafi sem hluta af borgaralegri þjónustu við Atlantshafsbandalagið og tryggja þjónustuna, t.d. loftrýmisgæslu. Eins og ég skil umræðuna í dag þá geta orrustuþotur bara flogið yfir Ísland, ekki eins og í gamla daga þegar þær gátu farið út á sjó og tekið æfingar. Raunverulega er geta Íslands takmörkuð til að sinna leit og björgun á Atlantshafinu. Ísland er, eins og við þekkjum, rúmir 100.000 km² og landhelgin um 786.000 km² en frá Íslandi erum við að stýra leit og björgun á hafsvæði sem er 2 milljónir km², 20 sinnum stærra en Ísland. Ég held að þetta eigi að vera eitt af markmiðunum. Mín persónulega skoðun er að við eigum að gera betur í þessu og þar gætum við kannski sett inn aukið fjármagn.

Varðandi 2. tölulið, með leyfi forseta:

„… að gera varnarsamstarf við Bandaríkin virkara í ljósi nýrrar hættu sem steðjar að öryggi þjóða heims óski utanríkisráðherra þegar í stað eftir viðræðum við Bandaríkin um viðbót við varnarsamning landanna.“

Undir a-lið í 2. tölulið þá er einmitt talað um netárásir og netöryggismál eins og við ræddum síðast í gær. Þetta er gríðarlega mikilvægur þáttur og verður sífellt mikilvægari. Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað. Í sjálfu sér þekki ég ekki hvort eitthvað hafi verið gert síðan síðasta viðbótin var gerð árið 2006. Þá var þetta sem snýr að netöryggismálum og netárásum varla til. Því hefur þetta þróast gríðarlega mikið á 16 árum og það er vel til fundið að þau mál séu skoðuð, bæði netárásir sem og fjölþáttaógnir sem tengjast þessu.

Við þurfum líka að hafa í huga, eins og ég minntist á í gær í umræðu um netöryggis- og fjölþáttaógnir, að styrkja þetta virkilega með Norðurlandaþjóðunum í gegnum NORDEFCO. Það samstarf er að eflast núna þegar Finnar og Svíar ganga inn í NATO og það er gríðarlega mikilvægt. Auðvitað er þetta síðan eitt af fimm sviðum NATO sem búið er að skilgreina í dag. Það eru loftrýmisgæsla, hernaður á landi og sjó og síðan hefur hinn stafræni heimur og geimurinn orðið fjórða og fimmta sviðið innan NATO-samstarfsins sem eru orðin gríðarlega mikilvæg, eins og við þekkjum í umræðunni.

Í b-liðnum er þess getið „að varnarsamningurinn taki með ótvíræðum hætti til mikilvægis órofinna samgangna, innviða og samskipta Íslands við umheiminn á ófriðartímum, eins og birgða og fólksflutninga, sæstrengja og orkuöryggis“.

Ég hef fulla trú á að vel sé gætt að þessu í varnarsamningnum. Í sjálfu sér er eitt mesta mikilvægi Íslands fyrir NATO fólgið í að gæta hafsvæðisins frá Norður-Ameríku, Bandaríkjunum og Kanada, yfir til Evrópu, að gæta flutninga, liðsflutninga og birgða yfir hafið. Það sem gæti verið nýtt í þessu er hið gríðarlega mikilvægi sæstrengja og orkuöryggis, sem er kannski sú umræða sem hefur mest farið af stað eftir Úkraínustríðið en var reyndar byrjuð fyrir rúmu ári síðan í tengslum við orkukreppuna sem við höfum kynnst í Evrópu. Það er bara mjög eðlilegt að þetta sé skoðað betur.

Síðan finnst mér c-liðurinn áhugaverður, „að varnarsamningurinn geymi ákvæði um verkferla og ábyrgð á töku ákvarðana komi til þess að virkja þurfi aðstoð Bandaríkjanna samkvæmt ákvæðum samningsins“. Nú þekkir maður ekki almennilega hvernig stendur á gagnvart þessu. Auðvitað þurfa verkferlar og formfesta að vera í þessum samskiptum. Hvað gerist ef við þurfum á einhverju að halda í einstökum málum sem snúa að vörnum og öryggi landsins? Það er fínt að taka það upp og skýra betur ef þörf er á og einnig varðandi verkferla í stjórnkerfinu. Það held ég að sé mjög áhugaverð nálgun. Eins og við þekkjum kannski af nefndafundum í utanríkismálanefnd þá höfum við aðeins velt fyrir okkur hvernig þetta fari allt fram, ef einhvern tíma skyldi koma upp slíkt hættuástand að virkja þyrfti samninginn við Bandaríkin, og hvernig samvinna við NATO fari fram.

Síðan er það 4. töluliðurinn. Ég kom inn á að ég væri ekki alveg ginnkeyptur fyrir honum og ég er honum mótfallinn. Varðandi það sem snýr að því að við göngum í Evrópusambandið til að tryggja varnir Íslands þá hef ég verið að benda á að 80% af því fjármagni sem er varið til varnar- og öryggismála innan Atlantshafsbandalagsins kemur frá þessum 9 þjóðum af 30 sem ekki eru í Evrópusambandinu. Í dag koma 20 % frá Evrópusambandsríkjunum, sem vonandi verða 23% innan skamms tíma þegar Finnar og Svíar ganga inn, en 80% koma frá þeim 9 þjóðum sem standa utan Evrópusambandsins en innan NATO. Þess má geta að þegar Bretar gengu út úr Evrópusambandinu þá breyttist þetta hlutfall úr 70/30 í 80/20. Bretar lögðu til þriðjung þess fjármagns Evrópusambandsins sem var varið til varnar- og öryggismála á þeim tímapunkti.

Ég rakti það í máli mínu áðan að þegar utanríkisráðherra Finnlands var spurður í Helsinki fyrir fjórum vikum hvort gr. 42.7 í Evrópusáttmálanum, sem kom inn í Lissabon-sáttmálann á sínum tíma, dygði ekki til að tryggja varnir Finna og Svía, þá sagði hann að lagagreinin væri eiginlega innihaldslaus eins og ég benti á áðan. Það var á þeim forsendum að engar varnir væru raunverulega tengdar þessu, engir hermenn og hvað þá heræfingar. Það væri erfitt að byggja varnir lands á slíku ferli. Ég bendi á að ég hef farið fimm sinnum til Finnlands á einu ári, nokkrum sinnum hefur þetta komið upp og stór hluti af þeirri umræðu hefur tengst varnar- og öryggismálum. Ég held að fáar þjóðir í Evrópu síðustu 70, 80 ár hafi tekið varnar- og öryggismál jafn alvarlega og Finnar. Allt sem kemur að varnar- og öryggismálum þar er úthugsað. Þeir drógu aldrei úr fjármagni til varnar- og öryggismála, eitt fárra ríkja í hinum vestræna heimi eftir kalda stríðið og á þeim tíma sem kom í framhaldinu. Síðustu 30 ár hafa þeir alltaf haldið sínu striki sem snýr að þessu og eru raunverulega með ótrúlegt kerfi á bak við sinn her til að tryggja þessar varnir. Við fengum góða kynningu fyrir fjórum vikum um hvernig þeir hugsa þetta. Vetrarstríðið veturinn 1939–1940 situr mjög í Finnum og því er það í genunum þeirra að það þurfi að tryggja þetta. Allt samfélagið er samþætt um að ýta á og tryggja þessar varnir. Ég fæ kannski að koma upp í fimm mínútur á eftir, tíminn líður hratt, en ég læt þetta duga að sinni.



[17:01]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Það er margt að ræða í þessu og ég vil hrósa hv. þingmanni sérstaklega, sem hefur nokkurn veginn einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins verið að sinna varnar- og öryggismálum þjóðarinnar, fyrir þátttöku og umræðu.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Af hverju er ekki farið í formleg samtöl við Bandaríkin til að reyna að tryggja að þetta sé ótvíræð viðbót við varnar- og öryggissamninginn? Það eru ekki skýrir verkferlar um það hvernig eigi að bregðast við ef öryggishætta steðjar að eða við hvern eigi að tala ef ráðist er á sæstrengi, svo dæmi séu nefnd.

Í öðru lagi vil ég taka undir með hv. þingmanni varðandi verkefnin, til að mynda leit og björgun. Við eigum einmitt að skoða hvað við getum gert og hvert við setjum aukin framlög. Borgaraleg verkefni eru hluti af því sem við getum gert, bæði á erlendri grundu en líka hér heima.

Síðan er önnur spurning varðandi veru viðvarandi varnarliðs. Við vitum það bæði tvö, höfum margsinnis séð það, að hér eru ákveðnir flokkar varnarliðs meira og minna með viðveru, hvort sem það eru Danir í einhverjar sex vikur og Ítalir í átta vikur hverju sinni eða hvað það er. Af hverju er ekki hægt að segja það? Er það viðkvæmt fyrir ríkisstjórnina?

Þriðja spurningin er: Hefði hv. þingmaður viljað sjá ákveðnari skref tekin í varnar- og öryggismálum af hálfu ríkisstjórnar til að tryggja öryggi og varnir Íslands? Telur hv. þingmaður að þetta hafi verið fullnægjandi af hálfu ríkisstjórnarinnar? Mín skoðun er sú að við getum gert meira en út af samsetningu ríkisstjórnarinnar þvælast ákveðin atriði fyrir fólki. (Forseti hringir.) Ég geri mér grein fyrir því að hv. þingmaður eigi örugglega erfitt með að svara þessu vegna þess að hann styður ríkisstjórnina, (Forseti hringir.) en mér finnst ekki nægilega mikið að gert í þessu risamáli.



[17:04]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Þetta eru mjög góðar spurningar. Ég tek fram að ég kem líka fram með mínar persónulegu skoðanir hér. Það er ekki alltaf einfalt að vera í þriggja flokka stjórn þar sem ólíkar skoðanir ráða för. Mínar persónulegu skoðanir held ég að séu öllum ljósar og hafa víða komið fram í máli mínu. Ég held að það væri mjög eðlilegt að þessi formlegu samtöl við Bandaríkjamenn yrðu tekin upp og að verkferlar, formfesta og kerfin séu rædd. Heimurinn er mjög breyttur frá 1951, við lifum í allt öðrum heimi. Ég efast um að Bandaríkjaher hefði farið árið 2006 eða bandaríski flotinn með sínar herþotur ef hann hefði haft einhverja hugmynd um það sem ætti eftir að fylgja í framhaldinu. Ég held að það sé orðið viðurkennt, maður heyrir mjög víða í samtölum og hjá bandarískum fræðimönnum að þeir telja svo vera.

Varðandi viðveru varnarliðs á Íslandi. Auðvitað er það þannig og það hefur komið fram í fréttum, t.d. varðandi kafbátaleit og hvað hefur verið að gerast hérna síðustu fimm eða sex ár — maður hefur sjálfur talið 11 kafbátaleitarvélar á sama tíma úti á velli og skilst mér að þær hafi flestar verið 13 — að hér hefur að meðaltali verið stöðug viðvera í fimm eða sex ár og töluverður mannskapur. Þetta passar með loftrýmisgæsluna. Þegar hún var kölluð til í byrjun held ég að hún hafi átt að vera þrisvar, fjórum sinnum á ári, tvær, þrjár vikur í senn. Í dag er hún lengri og oftar yfir árið, enda held ég almennt að skilningurinn sem snýr að þessu í pólitík á Íslandi sé allt annar.



[17:06]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni. Ég held að það hafi verið stór pólitísk mistök af hálfu þáverandi ríkisstjórnar Bandaríkjanna að kalla flugflotann heim. Það voru mikil mistök ef menn hefðu séð fram á aðstæður í dag — þannig er það nú reyndar oft í pólitíkinni að menn sjá ekki allt fyrir. Um leið brýnir þetta okkur að þora að horfa fram í tímann, sem er eiginlega stóra verkefni stjórnmálanna, ekki bara að verja ástandið fyrir heldur líka að þora að horfa fram í tímann og taka skref inn í framtíðina, hafa skoðun á umhverfinu sem við viljum að börnin okkar búi við eftir 10, 20, 30 ár. Hluti af því er að hafa tryggingu í varnar- og öryggismálum. Heimurinn er svo sannarlega breyttur.

Varðandi fjórða þáttinn sem hv. þingmaður nefndi, um Evrópusambandið, þá virði ég að sjálfsögðu þessar skoðanir en tel einfaldlega að betra sé fyrir smáríki að vera í skjóli með öðrum. Við ein og sér gerum ekki mikið, hvort sem það er gagnvart stórum þjóðum eins og Rússum og Kínverjum eða í viðskiptasambandi gagnvart risastórum ofurfyrirtækjum eins og Google, Apple eða Microsoft. Við erum því í meira skjóli í samstarfi og því meira og dýpra sem samstarfið er, því meira öryggi höfum við, annars vegar á sviði varnarmála og hins vegar á sviði efnahagsmála, félagsmála og samfélags. Það er mín sýn og maður þarf kannski að tala betur til fólks varðandi það af hverju svo miklu máli skiptir fyrir okkur Íslendinga að eiga í djúpri samvinnu, taka skrefið sem verður ekki eins stórt og það sem við tókum á sínum tíma með EES-samstarfinu, að fara alla leið á tímum þegar heimurinn er svo sannarlega breyttur. Evrópusambandið er að fara að auka allt öryggis- og varnarsamstarf innan sinna raða. Ég held að enginn þræti fyrir það.



[17:09]
Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það sem ég er að ræða varðandi Evrópusambandið snýr líka að því að við séum ekki að rugla saman málefnum sem snúa að aðild Íslands að Evrópusambandinu og síðan varnar- og öryggismálum þjóðarinnar. Það er ekki sterkur þráður til að spinna í tengslum við aðild að Evrópusambandinu, ég held að sú umræða verði fyrst og fremst að fara fram á einhverju öðru sviði.

Hv. þingmaður ræddi aðeins um Dani. Það er áhugavert og ég vildi bæta því við að við í Varðbergi héldum ásamt Alþjóðastofnun Háskóla Íslands ráðstefnu á þriðjudaginn og síðan fór hópurinn á nefndasvið í gær ásamt 15 norrænum sérfræðingum í varnar- og öryggismálum frá Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Færeyjum og Grænlandi. Það er ekki oft sem við fáum tækifæri til að ræða varnar- og öryggismál á þessu heimssvæði við Færeyinga og Grænlendinga. Samvinna um leit og björgun og slíkt kemur inn í þetta og hana held ég að við verðum að skoða. Danir eru að fara í að endurnýja skipin sem þeir eru með í Norður-Atlantshafi, þessi fjögur skip sem þeir hafa fyrst og fremst nýtt í landhelgisstörf í kringum Grænland og norður á Íslandi. Nú eru Danir að bæta í og settu 1,5 milljarð danskra króna í fjárfestingar í þessum málum og ætla að byggja upp sín skip og sína getu. Ég held að það væri mjög áhugavert ef sú geta væri byggð upp í leit og björgun í samvinnu við Íslendinga og mögulega Bandaríkjamenn. Lisa Murkowski hefur verið með frumvarp í öldungadeildinni í Bandaríkjunum sem snýr líka að öryggismálum á norðurslóðum. Það væri mjög áhugavert að reyna að leiða þessa hesta saman innan NATO til að tryggja leit og björgun. (Forseti hringir.) Ég held að leit og björgun sé gríðarlega mikilvæg fyrir okkar svæði.

Að lokum vil ég fyrst og fremst segja: Við erum að fást við gríðarlega mikilvægt og stórt svið til næstu áratuga. (Forseti hringir.) Það verða svo miklar breytingar á heimsvísu að þetta er lykilmál í öllu samhengi hlutanna.



[17:11]
Bjarni Jónsson (Vg):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Staða Íslands í samstarfi við bandalagsþjóðir sínar er sterkari en ætla mætti af þessari tillögu og kynningu hennar. Íslensk stjórnvöld hafa átt í virku samtali við okkar helstu bandalagsþjóðir, ekki síst í að búa Ísland betur undir nýjar ógnir samtímans, fjölþáttaógnir og netógnir, tryggja öryggi innviða o.s.frv. Það er sannarlega mikilvægt að árétta það og samstaðan þýðingarmikil okkur sem hér störfum.

Ég vil að ræða einstaka liði þessarar tillögu sem hér liggur fyrir og ég byrja á 1. liðnum. Þá vil ég segja að fyrir liggur að við höfum þétt raðirnar með bandalagsþjóðum okkar til að fást við þær ógnir sem við nú stöndum frammi fyrir, ekki síst vegna innrásar Rússa í Úkraínu og afleiðingar þess sem við sjáum ekki fyrir endann á. Áhersla á borgaraleg verkefni fremur en hernaðarleg hafa verið í fyrirrúmi af okkar hálfu og þess er að vænta að svo verði áfram og á því verði frekar skerpt í ljósi yfirstandandi stríðsátaka.

Varðandi 2. liðinn. Ísland hefur þá sérstöðu að í gildi er tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin. Á grunni hans og annars samstarfs bandalagsríkja okkar eigum við í reglulegu samráði og íslensk stjórnvöld við Bandaríkin um öryggishagsmuni okkar, samtal sem virðist virt og ljóst. Það er mikilvægt fyrir þjóðaröryggi okkar að við séum sem best búin til að verjast og takast á við hvers kyns netógnir, netglæpi, netárásir, falsfréttir, atlögu á stoðir lýðræðis og stafrænar árásir á grunninnviði, að til staðar sé nauðsynleg þekking og umgjörð í landinu til að veita okkur vernd gegn sífellt flóknari og háþróaðri netógnum. Ein af grundvallarstoðum þjóðaröryggis okkar felst því í stafrænu sjálfstæði þjóðarinnar, að við séum ekki öðrum háð um slíka varnir. Þá þekkingu getum við m.a. sótt til þeirra vinaþjóða okkar sem sterkastar eru á þessu sviði. Stafrænt sjálfstæði Íslands þarf að vera ein af grunnstoðum þjóðaröryggisstefnu okkar. Hér getum við einmitt nýtt varnarsamning okkar við Bandaríkin betur til að njóta þeirrar þekkingar til að byggja upp þá innviði sem þörf er á til að fást við sífellt flóknari fjölþáttaógnir og netógnir nútímans, að þær vinaþjóðir okkar sem best eru til þess búnar aðstoði okkur við að byggja upp varnir gegn þessum nýju ógnum. Þetta getum við gert á grundvelli núgildandi varnarsamning við Bandaríkin og í gegnum samstarf við fleiri vinaþjóðir.

Hér að 3. liðnum. Í ljósi þess hve eðli þeirra ógna sem við þurfum að fást við hefur breyst eru það raddir fortíðar að kalla eftir því að Bandaríkin eða aðrar þjóðir komi upp setuliði á nýjan leik. Öryggisáskoranir Íslands eru sannarlega margar, flóknar og sumar alvarlegar og við það þurfum við að fást með viðeigandi hætti í samstarfi við vinaþjóðir okkar.

Með 4. liðinn. Ekki verður séð að innganga í Evrópusambandið muni treysta öryggishagsmuni Íslands eða pólitíska stöðu landsins. Við þurfum að meta stöðu okkar á hverjum tíma og það er ljóst að hér er svarið nei. Það er hins vegar mikilvægt að við eigum í virku og góðu samstarfi við Evrópuþjóðir og að Evrópuþjóðir treysti gildi sín og taki sjálfar ábyrgð á eigin framtíð.



[17:15]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Bjarna Jónssyni, þingmanni Vinstri grænna og formanni utanríkismálanefndar, fyrir að taka þátt í samtali um þessa tillögu. Ég geri mér grein fyrir því að við erum svolítið á öndverðum meiði hvað varðar öryggis- og varnarmál en ég verð þó að segja að ég fagna mörgu því sem hv. þingmaður sagði um mikilvægi þess að efla okkur, efla varnir Íslands þegar kemur að fjölþáttaógnum. Þá vil ég einmitt benda á það að ein helsta mantran hjá Evrópusambandinu í sinni víðtæku öryggis- og varnarstefnu, sem þau eru að auka og efla, er m.a. um netöryggi, um fjölþáttaógnir, um það sem getur ógnað lýðræði, frelsi og friði í álfunni. Lykillinn að því er m.a. að efla varnir gegn fjölþáttaógnum og ég veit að samstarfsríki okkar eru flest ef ekki öll, fyrir utan kannski Bretland, í einmitt Evrópusambandinu og við þurfum að leita til þeirra.

Ég geri mér alveg grein fyrir því að Vinstrihreyfingin – grænt framboð er á móti því að ganga í Evrópusambandið en ég held að við ættum að taka það skref að segja bara: Við skulum treysta þjóðinni til að taka næsta skref og ákveða hvort við eigum að fara að endurnýja ferlið. Þá kemur fram hversu víðtækt hlutverk Evrópusambandið hefur og mun fara með enn frekar á sviði varnar- og öryggismála sem er beintengt við efnahagsmál, félagsmál, loftslagsmál, svo maður tali nú ekki um þau, í álfunni. Allt þetta snýr að varnar- og öryggishagsmunum. Ekki bara að horfa á þröngu hagsmunina eins og við horfðum á þá á sínum tíma, heldur eru varnar- og öryggishagsmunir í miklu víðara samhengi í breyttum heimi. Þar er t.d. Evrópusambandið á undan okkur varðandi loftslagsmál og ætlar að auka í enn frekar og styrkja markmið þegar kemur að loftslagsmálum. Allt þetta snertir okkur Íslendinga, (Forseti hringir.) ekki síst á sviði varnar- og öryggismála. Það er þetta stóra samhengi (Forseti hringir.) sem við í Viðreisn viljum að þingið og síðan þjóðin fái að taka afstöðu til.



[17:17]
Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin. Ég held ég geti tekið undir margt sem hér kom fram sem er það að við þurfum að eiga í ríkara samstarfi við þjóðir Evrópu, þar með talið Evrópusambandið og þjóðir þar, um margvíslega hagsmuni okkar. Ég hef talað um að við þurfum að horfa á það að móta okkar eigin framtíð saman en ekki láta aðra móta hana fyrir okkur og við þurfum að efla samstarf á mörgum sviðum. Ég heyri líka alveg þá vinda sem blása í Evrópu og innan Evrópusambandsins og áherslur sem þeir eru að horfa til í ljósi breyttra tíma og hræðilegra á köflum. Ég held að það sé hægt að stíga mörg mikilvæg skref í að efla samstarf við aðrar Evrópuþjóðir og Evrópusambandið, m.a. á sviði öryggismála en líka vegna þess við eigum þessi sameiginlegu gildi okkar. En við þurfum hins vegar ekki að eiga aðild til að geta formfest og bætt það samstarf enn frekar. Ef það liggur svolítið fyrir hvar við stöndum, við erum þar sem við erum, og vilji er til að eiga í góðu samstarfi við Evrópusambandið, þá kannski er auðveldara að forma framhaldið en ef við værum að dansa á einhverri brún og vissum ekki í hvorn fótinn við ætluðum að stíga með þetta. Ég held því að við getum sameinast um það að auka enn frekar samstarf Evrópuþjóða, m.a. hvað varðar öryggismál en ekki síst varðandi margvíslegar fjölþáttaógnir.



[17:19]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Evrópusambandið er m.a. að styrkja allar sína gagnagrunna. Við þurfum að hafa aðgang að þeim. Það gerist ekki öðruvísi en að við verðum aðilar að Evrópusambandinu. Fyrrverandi forystumenn flokka, t.d. í Noregi, sem voru alfarið á móti Evrópusambandinu, eru að reyna að draga fram mikilvægi umræðunnar um Evrópusambandið í þessu stóra samhengi; hvaða máli þetta skiptir, ekki bara fyrir efnahagslega hagsmuni landsins heldur líka félagslega og út frá umhverfi en ekki síður út frá varnar- og öryggishagsmunum. Þar hefur m.a. Bondevik verið að kalla eftir aukinni umræðu í Noregi og farið svipaða leið og við í Viðreisn erum að leggja til, að þjóðinni verði treyst til að taka næsta skref í Evrópumálum, harðara er það nú ekki. Árið 1949 urðum við aðilar að NATO. Það var eitt farsælasta skref í utanríkissögu þjóðarinnar þegar við tókum þá ákvörðun að vera við borðið, vera fullgildir aðilar við borðið til að hafa okkar rödd, til að tala rödd smáríkis sem hefur hagsmuni af því að vera í bandalagi og samstarfi fullvalda þjóða. Þá skipti rödd okkar máli, eins og hefur margoft sýnt sig í gegnum tíðina, hvað rödd okkar Íslendinga við það borð hefur haft mikla þýðingu. Það er að mínu mati mjög gott dæmi um það að það skiptir máli hvernig við Íslendingar notum fullveldi okkar til að styrkja það enn frekar og það gerum við í samstarfi við vinaþjóðir okkar, bæði austan hafs sem vestan.

Ég vil spyrja hæstv. hv. þingmann hvort hann telji svo vera að það séu hér varnarsveitir eða liðssveitir til að tryggja varnir okkar nokkurn veginn allt árið. Telur hann að það sé um viðvarandi veru að ræða eða er um stopular heimsóknir vinaþjóða okkar í NATO (Forseti hringir.) að ræða þegar kemur t.d. að loftrýmisgæslunni hér við landið? Er þá ekki bara hægt að ganga alla leið og segja: Heyrðu, við viljum einfaldlega (Forseti hringir.) vera með varnarlið hér viðvarandi til að tryggja fælingarmátt en líka ákveðna þjónustu og starfsemi hér á landi?



[17:22]
Bjarni Jónsson (Vg) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég held að við séum alveg að tala í sömu átt þegar við ræðum um mikilvægi þess að efla samstarf Evrópuríkja og ekki síst í ljósi þessa einmitt að við deilum svo mörgu og sameiginlegum grunngildum, jafnvel sem er vegið að svo víða í kringum okkur. Evrópuríki hafa líka verið í fremstu röð í loftslagsmálum og fleiri málum sem við viljum sannarlega taka þátt í með þeim en svo er spurning um leiðirnar til að efla það samstarf og ná sem mestum árangri fyrir okkur og aðra. Það er ekki bara Evrópusambandið, við erum líka með Evrópuráðið og fleiri vettvanga þar sem við erum sannarlega að vinna saman með okkar sameiginlegu gildi. Ég er mjög frjálslyndur í þeirri umræðu þegar kemur að auknu samstarfi við Evrópuþjóðir og Evrópusambandið þótt ég sé kannski ekki á þeim stað að vilja að ganga alla leið eins og hér hefur verið nefnt.

Varðandi viðveru eða ekki viðveru þá hafa hér verið að koma sveitir í tengslum við ákveðin verkefni sem hafa verið tímabundin og á ýmsum tímum og það hversu samliggjandi þær viðverur eru er kannski mismunandi. En síðan er bara eðli verkefnanna að breytast svo mikið þegar kemur að þessum öryggisþáttum Íslands og þess vegna hef ég verið að benda á, og náttúrlega íslensk stjórnvöld, mikilvægi þess að efla möguleika okkar til að fást þetta, eins og þessar innviðavarnir okkar allar sem felast ekki bara í þessum hefðbundna hernaði og hefðbundnum vörnum heldur nútímavörnum. Þar þurfum við virkilega á bandalagsþjóðum okkar að halda til að aðstaða okkur, til að miðla þekkingu sinni, þjálfa upp fólk, koma upp grunninnviðum í landinu til þess að við eigum auðveldara með að takast á við og séum ekki öðrum háð um allar þær varnir gegna þeim fjölþáttaógnum sem við okkur blasa og þar þurfum við alveg klárlega að styrkja stöðu okkar.



[17:24]
Njáll Trausti Friðbertsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að koma upp og rétt að klára nokkra punkta og vil einnig þakka kærlega fyrir þessa umræðu sem farið hefur fram í dag um þessi stóru og miklu mál. Þessi málaflokkur mun skipta okkur gríðarlega miklu máli á næstu áratugum. Ég fagna þessari umræðu og held að það sé líka spennandi verkefni fyrir utanríkismálanefnd að ræða tillöguna og fá vonandi góðar umsagnir um þessi mál og góða kynningu fyrir hv. utanríkismálanefnd og þá þingmenn sem þar sitja, ég vona að við getum tekið góða og djúpa umræðu um þessi mál.

Varðandi það sem snýr að vörnum landsins í dag, eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þá held ég að það hafi verið gríðarlega mikilvægt og gæfa fyrir Íslendinga að hafa gengið í marsmánuði 1949 í Atlantshafsbandalagið, verið með frá upphafi. Það hafi verið gríðarleg forsjálni í þeirri ákvörðun sem þar var tekin af hálfu þeirra stjórnmálamanna sem leiddu þá för. Ég held líka að varnarsamningurinn frá því í maí 1951 hafi verið gríðarlega mikilvægt og stórt skref fyrir íslenskt samfélag á fyrstu árum lýðveldisins. Þetta voru algerar grundvallarákvarðanir sem voru teknar á þeim tímapunkti. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka þá umræðu reglulega upp. Við erum líka á seinni árum kannski að eflast og höfum eflst mjög þessa mánuðina, grunar mig, í allri umræðu innan Norðurlandaráðs og í varnar- og öryggismálum innan Norðurlandaráðs og ég held að norrænt varnarsamstarf í gegnum NORDEFCO muni eflast varðandi varnar- og öryggismálin. Ég bendi á skýrslu Björns Bjarnasonar frá 2020 sem hann vann fyrir utanríkisráðherra Norðurlandanna, tíu árum eftir að Thorvald Stoltenberg kom með sína skýrslu 2010, ég tel að hún sé ákveðinn grunnur. Reyndar væri áhugavert, held ég, að þessi skýrsla yrði unnin aftur núna miðað það sem gerst hefur, þó að það séu bara tvö ár síðan hún kom út, vegna þess að það hafa orðið miklar breytingar í svo mörgu sem snýr að þessu. Einnig er samstarf tíu þjóða sem við Íslendingar erum hluti af og heitir, með leyfi forseta, ég verð að segja það á ensku, ég hef það ekki í kollinum hvað það heitir á íslensku: Joint Expeditionary Force, sem við hófum þátttöku í fyrir tveimur árum. Það er samstarf Norðurlandaþjóðanna, Eystrasaltsins, Niðurlanda og Bretlands. Það starf sem þar er unnið hefur líka verið að eflast en þó að þetta starf eflist í norðurhluta Evrópu þá megum við samt ekki gleyma því og er mjög mikilvægt að gleyma því ekki að við erum hluti af og verðum hluti af Atlantshafsbandalaginu og það er full samstaða þar og unnið þvert yfir milli vonandi 32 ríkja innan skamms tíma.

Eitt stærsta verkefnið sem hefur komið upp í þessari umræðu er að verja fjarskiptakaplana. Við höfum dæmi bara á undanförnum vikum, þrjú dæmi, við Svalbarða, við Hjaltlandseyjar og sunnan við Frakkland þar sem strengir hafa slitnað í sjó. Mig minnir að það séu 550 svona kaplar í heiminum og mjög stór hluti af allri stafrænni umferð og netumferð fer um þessa kapla. Gervihnettir heimsins geta sinnt kannski 2–5% af flutningsmagni sem fer um kaplana í dag þannig að þetta eru gríðarlega mikilvæg mannvirki og þessa kapla þarf að verja.

Hérna var aðeins komið inn á fólksflutninga og við sem höfum tekið þátt í þessari umræðu áttum mjög góðan fund með félögum í þróunarsamvinnu í Iðnó fyrr í dag. Þar eins og á NATO-þinginu er mikið rætt um hvað sé að fara að gerast næstu áratugina, tengt fólksflutningum, loftslagsmálunum og rætt í stærra samhengi hlutanna en við gerum kannski hér og ræðum allt of lítið hér. Hvað er að fara að gerast næstu tíu, 20, 30 árin? Ég var í Addis Ababa í Eþíópíu á NATO-þinginu fyrir þremur árum þar sem var einmitt verið að tala um mannfjölgun, sérstaklega í Afríku, en þar mun mannfjöldi tvöfaldast á næstu 30 árum, og loftslagsmálin. Maður átti kannski ekki von á því ástandi sem hefur skapast þar á bara örskömmum tíma. Þar hefur ekki rignt núna í að verða fimm ár og náttúrlega orðin mjög slæm staða og að einhverju leyti er loftslagsmálunum náttúrlega kennt um þessa stöðu. Það eru mjög alvarlegir þurrkar í Sómalíu, Eþíópíu og víðar.

Orkuöryggi, ég myndi vilja koma inn á það en hef ekki tíma núna. En það sem er kannski grunnatriði og hvað við Íslendingar þurfum að gera, varðandi þessa tillögu, er líka að meta hvaða varnir við teljum nauðsynlegar fyrir Ísland og varðandi öryggi (Forseti hringir.) og látum ekki aðra segja okkur það. Við þurfum líka að vera með á hreinu (Forseti hringir.) hvað framfarir við viljum sjá í þessum málum til að tryggja okkar varnir og öryggi á íslenskum forsendum.



[17:29]
Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu um tillögu okkar Viðreisnar og hún snýr nákvæmlega að lokaorðum hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar varðandi það að við þurfum að meta þetta sjálf. Út á það gengur tillagan, að það verði framkvæmt hér að við metum þörf okkar til viðbótar við það sem við höfum nú þegar varðandi varnar- og öryggismál, þannig að það er alveg hárrétt sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson segir, við þurfum að geta metið þetta sjálf. Það þýðir það að mínu mati líka að við eigum að gera það, tillagan gengur út á það og við megum ekki vera þannig að við útilokum eitt eða neitt frá því borði sem getur hugsanlega nýst til að styrkja varnir og öryggi okkar Íslendinga í m.a. víðu samhengi. Ég vil undirstrika það að hefðbundin mörk milli innra og ytra öryggis eru að verða sífellt óljósari eftir því sem áskoranir á sviði öryggismála verða fleiri og fjölbreyttari, eins og við þekkjum, og umræðan í gær um fjölþáttaógnir var einmitt ágætt dæmi um það. Þetta fæst ekki slitið í sundur í dag í þessum breytta heimi þegar meta þarf og bregðast við þeim þverþjóðlegu ógnum sem nútímaríki standa frammi fyrir. Þess vegna erum við að segja að aðild að bæði NATO og ESB skipti máli fyrir öryggishagsmuni Íslands, ekki síst núna þegar við þurfum að mínu mati bæði belti og axlabönd og ég vona að við getum verið sammála um það. Við erum sem herlaus þjóð, og við ætlum okkur að vera herlaus þjóð áfram, algerlega upp á það komin að alþjóðakerfið virki sem skyldi og að alþjóðareglur séu virtar. Við eigum allt öryggi okkar t.d. í landhelginni undir því að alþjóðahafréttarsáttmálinn virki, að alþjóðareglur virki. Lífsgæði okkar og lífsafkoma í stóra samhenginu er háð því að alþjóðareglur séu virtar og þær virki bæði fyrir okkur en líka fyrir bandalagsþjóðir okkar.

Fyrir smáríki eins og Ísland skiptir öllu máli þegar kemur að vörnum og öryggi landsins að efla fælingarmátt í vörnum og leita skjóls í stærri bandalögum með stærri þjóðum eins og er að finna innan Evrópusambandsins og líka það að efla enn frekar varnarsamninginn við Bandaríkin til að styrkja verkferla. Varnarsamningurinn er að grunni til eins og við þekkjum frá 1951. Það hafa verið viðbætur við hann, en í þessum breytta heimi er ekki skýrt hvernig við virkjum varnirnar með því að kalla til Bandaríkin ef á okkur er ráðist eða á sæstrengina eða reynt að torvelda samgöngur, allt sem truflar þjóðaröryggi okkar. Þeir verkferlar eru ekki nægilega skýrir. Út á þetta gengur m.a. tillagan, að meta það hvaða leiðir eru bestar fyrir okkur, meta það og fara í það að taka samtöl við Bandaríkin til að skerpa á þætti okkar og nálgun og rétti okkar samkvæmt varnarsamningnum.

Ég vil líka draga það fram að við að sama skapi getum, og ég held að það væri einfeldni að útiloka einhverja möguleika á því, verið hugsanlegt skotmark vegna staðsetningar okkar í Norður-Atlantshafi. Sumir munu segja: Bíddu, hvað ertu að meina? En við sjáum alveg að áherslan á Norður-Atlantshaf, á norðurslóðir er að aukast og eftir innrás Rússa, þetta grófa árásarstríð Rússa í Úkraínu, vil ég einfaldlega ekki útiloka eitt eða neitt og við megum ekki gera það, við Íslendingar. Þegar viðbúnaður víða fer vaxandi þá þurfum við að taka varnir okkar til endurskoðunar í stærra samhengi. Ég bið fólk um að hafa það hugfast. Ísland er líka ákveðin ógn í augum annarra ríkja sem frjálslynt lýðræðisríki í alþjóðlegu samstarfi. Í því felst ákveðin ógn, að við erum þessi rödd og við viljum styrkja hana enn frekar og við í Viðreisn viljum hafa hana enn sterkari með því að hafa hana við borðið í Evrópusambandinu. En af hverju segi ég að við getum líka verið ógn í augum annarra ríkja sem þetta frjálslynda lýðræðisríki sem vill byggja á mannréttindum, og gerir það, sem tengjast lýðræði, frelsi og friði? Við sjáum bara viðbrögð rússneskra stjórnvalda í kjölfar þeirra efnahagsaðgerða sem gripið var til af þeirra hálfu vegna innrásarinnar í Úkraínu, bæði þegar Krímskaginn var tekinn á sínum tíma og núna.

Það sem fylgir þessu líka er að við megum ekki vera smeyk við að beita rödd okkar á alþjóðavettvangi, segja það sem við eigum að segja og þurfum að segja til að verja lýðræðið, til að verja frið í heimsálfu okkar og í heiminum öllum. Það þýðir líka að samhliða því að beita rödd okkar þurfum við að nýta þann vettvang og þær aðstæður allar til þess að rödd okkar verði enn sterkari. Hluti af því er að fara í þetta endurmat á varnarhagsmunum okkar, efla varnarsamninginn og sjá til þess að það verði gerðir viðaukar til að styrkja varnir okkar og öryggi en líka það að taka skrefið til fulls til þess að ganga í Evrópusambandið, til að horfa á heiminn allan í þessu stærra samhengi sem allar þjóðir eru að gera í dag, hvernig við víkkum út varnar- og öryggishagsmuni okkar með því að sitja við borðið þegar kemur að loftslagsmálum, þar sem Evrópusambandið er enn og aftur á undan okkur Íslendingum með því að setja metnaðarfull markmið. Það voru fréttir af því í síðustu viku að þau ætluðu að setja sér enn metnaðarfyllri markmið árið 2030 og ég geri ekki ráð fyrir öðru en að íslenska ríkisstjórnin fylgi í kjölfarið. Ég hefði viljað sjá hana frekar leiða þessa umræðu en hún er ekki að gera það. Þetta er dæmi um það sem er gott við að vera í Evrópusambandinu, hún þrýstir þjóðinni til að taka loftslagsmálin mun alvarlegar heldur en hún hefur gert fram til þessa, líka af hálfu íslenskra stjórnvalda þó að margt hafi verið vel gert. Evrópusambandið skiptir máli fyrir efnahagslega hagsmuni og efnahagslegir hagsmunir hafa svo mikla þýðingu fyrir frið og öryggi og lífshamingju fólks þannig að þeir eru beintengdir varnar- og öryggishagsmunum þjóðarinnar, alveg eins og stofnendur NATO og stofnendur Efnahagsbandalagsins síðan í kjölfarið sáu á sínum tíma. Það var engin tilviljun að Bandaríkjamenn hvöttu einmitt Evrópuþjóðirnar til að stofna Efnahagsbandalagið, forvera Evrópusambandsins, af því að þeir sáu að í gegnum viðskipti, opin landamæri, frjálsan flutning á fólki, viðskiptum, þjónustu o.s.frv. jukust líkur á því að hægt yrði að tryggja frið í álfu þar sem höfðu geisað tvær heimsstyrjaldir og stríð á öldunum þar á undan.

Ég vona að utanríkismálanefnd taki þessa tillögu og ræði hana vel og fái fljótlega til sín gesti. Það er ekki mjög mikið af málum innan utanríkismálanefndar akkúrat þessa stundina og ég vonast til þess að við getum rætt þessa tillögu í þaula og sent út sem fyrst til umsagnar. Það er brýnt að við í þessu víða samhengi ræðum varnar- og öryggishagsmuni Íslendinga og við það á enginn að vera feiminn. Það á heldur ekki að vera nein feimni við að taka allt inn á það borð sem við þurfum að gera til þess að tryggja varnar- og öryggishagsmuni okkar, hvort sem það er NATO, varnarsamningurinn eða í tengslum við Evrópusambandið.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.