153. löggjafarþing — 35. fundur
 22. nóvember 2022.
skaðabótalög, 1. umræða.
frv. GIK o.fl., 58. mál (launaþróun). — Þskj. 58.

[15:41]
Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, um launaþróun. Auk mín eru flutningsmenn Ásthildur Lóa Ólafsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson, eða þingflokkur Flokks fólksins eins og hann leggur sig.

1. gr. Í stað orðsins „lánskjaravísitölu“ í 1. málslið 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: launavísitölu.

2. gr. 29. gr. laganna orðast svo: Fjárhæðir samkvæmt lögum þessum eru miðaðar við launavísitölu eins og hún var 1. júlí 1993 (131,3) og taka þær sömu breytingum og mælt er fyrir um í 15. gr.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Frumvarp þetta var flutt á 151. og 152. löggjafarþingi (72. mál) og er nú lagt fram óbreytt að öðru leyti en því að vísitölur og útreikningar fjárhæða samkvæmt þeim hafa verið uppfærðir. Efni þess á rætur að rekja til frumvarps sem lagt var fram á 150. löggjafarþingi (430. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Ein umsögn barst um frumvarpið á 152. löggjafarþingi, frá Alþýðusambandi Íslands, sem lýsti yfir stuðningi við frumvarpið og sagði það stuðla að því meginmarkmiði skaðabótalaga að gera tjónþola eins setta og þeir voru fyrir tjón.

Bótafjárhæðir skaðabótalaga breytast í hlutfalli við breytingar sem verða á lánskjaravísitölu en sú vísitala er lítið notuð við útreikning á verðlagi. Í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í verðlagsmælingum verður að teljast brýn þörf á að lögum um skaðabætur verði breytt svo að fjárhæðir þeirra taki breytingum í hlutfalli við breytingar á þeim mælikvörðum sem almennt eru notaðir við mat á verðlagi. Þar koma helst tveir mælikvarðar til skoðunar, annars vegar vísitala neysluverðs og hins vegar launavísitala. Tilgangur skaðabóta er að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni og miða skaðabótalögin við árslaun í því sambandi, samanber 1. mgr. 6. gr. og 7. gr. laganna. Þegar örorka tjónþola er metin til frambúðar er aðallega horft til þess hvaða áhrif örorka hefur á getu hans til að afla tekna. Því er ástæða til að miða við launavísitölu þegar fjárhæðir skaðabóta eru ákvarðaðar til frambúðar. Þess ber að geta að í apríl 1995 var hætt að nota lánskjaravísitölu til þess að verðtryggja nýjar fjárskuldbindingar og þess í stað notast við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Lánskjaravísitalan stóð í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stóð í 10.652 stigum í júlí 2022. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 225% frá gildistöku þeirra og lágmarksviðmið árslauna fyrir 66 ára og yngri í 3.894.698 kr. og í 1.298.233 kr. fyrir 74 ára og eldri, samanber 3. mgr. 7. gr. laganna. Þær fjárhæðir eru talsvert lægri en lægstu launakjör á almennum vinnumarkaði. Launavísitalan stóð í 131,3 stigum við gildistöku skaðabótalaga en stóð í 855,8 stigum í júlí 2022 og hefur því hækkað um 552%, talsvert meira en lánskjaravísitalan. Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni en hefur ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru m.a. ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar.

Þessir hópar njóta því ekki sömu verndar nú og skaðabótalögin tryggðu þeim við gildistöku. Ef fjárhæðir laganna eru uppfærðar til samræmis við launavísitölu hækkar lágmarksviðmið 3. mgr. 7. gr. laganna fyrir 66 ára og yngri úr 3.894.698 kr. í 7.821.478 kr. Fyrir 74 ára og eldri myndi lágmarksviðmið hækka úr 1.298.233 kr. í 2.607.159 kr. Þessar tölur sýna að lágmarksvernd laganna hefur minnkað verulega undanfarna áratugi með tilliti til launaþróunar og að lögin bæta ekki skert aflahæfi tjónþola að fullu þegar lágmarksviðmiðin endurspegla ekki launaþróun í samfélaginu. Ef markmiðið er að bæta upp skert aflahæfi tjónþola verður að tengja fjárhæðir laganna við launaþróun. Verði frumvarp þetta samþykkt yrðu ákvæði skaðabótalaga til þess fallin að veita þeim sem hafa lágar tekjur sambærilega vernd og þau gerðu við gildistöku laganna.

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Það er verið að gjaldfella vinnu hóps fólks sem gæti lent í slysum og borga því meira en helmingi minna en það ætti að fá. Ofan á þetta bætist að það er ekki auðhlaupið fyrir einstakling sem lendir í slysi að berjast við lögfræðingaher tryggingafélaganna og þeirra góðu fjárhagslegu stöðu. Tryggingafélögin nota þá aðferð þegar viðkomandi lendir t.d. í bílslysi að tjón er metið og ákveðin upphæð er greidd inn á svokallaðan bótasjóð sem er tryggingarskuld. Þessi upphæð verður síðan inni í þessum bótasjóði þangað til tjónið hefur verið greitt upp. Því miður verður í mörgum tilfellum svo til öll upphæðin alltaf þarna inni. Því miður er staðreyndin sú að fólk fær ekki þær bætur sem það á rétt á þegar það lendir í slysum. Alls konar aðferðum er beitt til að sjá til þess að fólk nái ekki fram rétti sínum gagnvart tryggingafélögunum, t.d. gjafsóknum. Fólk hefur ekki efni á að fara í mál við tryggingafélögin og því lengur sem málið dregst þeim mun erfiðara verður fyrir viðkomandi að berjast fyrir því að fá fullar bætur og oft samþykkja einstaklingar í nauðvörn tilboð tryggingafélagsins sem er langt fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist.

Það að upphæðirnar skuli vera orðnar nærri helmingi lægri en þær eiga að vera sýnir líka að það er eitthvað mikið að þessu kerfi og spurningin er bara: Eru skaðabótalögin eins og þau eru í dag lögleg? Nei. Ég set spurningarmerki við það vegna þess að tilgangur skaðabótalaga er að bæta, eins og kemur fram, það fjártjón sem fólk verður fyrir vegna slyss þannig að það standi ekki verr eftir. Staðan á ekki að vera betri en fólk á alls ekki að standa verr en eins og þetta er í dag stendur fólk helmingi verr eftir miðað við þessar tölur þannig að þetta er spurning um hvernig í ósköpunum þetta getur staðið svona og hvers vegna enginn hefur gert neitt í þessum málum. Við verðum að átta okkur á því að við erum að miða við 1993. Það er löngu tímabært að taka þessi skaðabótalög öll til endurskoðunar. Einhverra hluta vegna kemur dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra sem á að sjá um, það er í verkahring ráðherra, að þessi lög séu rétt en gerir ekki neitt. Hagsmuni hverra er þá viðkomandi dómsmálaráðherra að verja? Alveg örugglega ekki fórnarlambanna heldur einbeitir hann sér að tryggingafélögunum og vonar að fórnarlömbin þagni.

Hvað þýðir það á mannamáli þegar tryggingafélögin dæla peningum inn í bótasjóði og þurfa ekki að borga út nema brot af því sem þangað fer inn? Það þýðir að þar safnast fyrir gífurlegir fjármunir. Þá fjármuni geta tryggingafélögin nýtt sér til góðs í ákveðnum fjárfestingum og vextina af þeim. Þessir bótasjóðir eru aldrei gerðir upp á Íslandi. Þeir bólgna bara út og við sáum meira að segja í hruninu á sínum tíma að bótasjóður fór á flakk um heiminn. Hann fór til Cayman-eyja eða Tortóla og endaði sem lúxusíbúð í Kína og kom svo til baka, held ég, og endaði sem veð í botninum á sundlauginni á Álftanesi, ef ég man rétt hringferð þess furðulega máls.

Ég spyr: Hvers vegna eru þessi lög þannig að við gerum ekki eins og siðmenntaðar þjóðir og gerum þessa bótasjóði upp? Sjóðirnir eru til að bæta tjón fólks, ekki til að leyfa tryggingunum að leika sér og gambla með þessa peninga á markaði. En einhverra hluta vegna kemur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn, dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra, og gerir ekkert í málinu. Þetta er mjög sorglegt og segir okkur líka að það er eins gott að fólk átti sig á því á móti að ef það lendir í slysi á það rétt á að fá það bætt. En fær fólk það bætt? Nei, það er engin spurning. Ég segi í fyrsta lagi að eins og staðan er í dag er það mjög ólíklegt. Í öðru lagi mun það taka langan tíma. Í þriðja lagi eru líkurnar allar á því að viðkomandi endi í örorku. Ef þessar fjárhæðir skila sér eins og þær eiga að gera til þeirra sem eiga rétt á þeim er ég viss um að stór hópur þess fólks sem lendir á örorku gæti nýtt þá fjármuni til að breyta um vinnuvettvang, fara í nám, gera eitthvað annað. Það þyrfti ekki að hafa fjárhagsáhyggjur og væri þar af leiðandi betur í stakk búið til að takast á við það áfall sem fólk verður fyrir þegar það slasast, ég tala nú ekki um þegar fólk slasast alvarlega og verður fyrir áföllum sem lenda illa á bæði einstaklingnum og fjölskyldu hans.

Þess vegna segi ég að okkur beri skylda til þess á Alþingi að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að tekið verði á þessu máli. Ég vona heitt og innilega að þetta mál fái framgang og ég reikna með að það fari til allsherjar- og menntamálanefndar og ég veit og vona heitt og innilega að það verði til þess að tekið verði á þessum málum. Ég get ekki ímyndað mér annað, miðað við þau orð sem ég hef heyrt, en að hæstv. dómsmálaráðherra muni styðja þetta. Dómsmálaráðherrar undanfarinna ára hafa talað um að það sé löngu tímabært að taka þessi lög og endurskoða þau og koma þeim í lag, sérstaklega þessum fjárhæðum, vegna þess að það á að vera og getur ekki annað en verið sjálfsagt að þær fjárhæðir fylgi launavísitölu. Það segir sig sjálft að þær eiga að endurspegla það fjártjón sem viðkomandi verður fyrir og þar af leiðandi er launavísitalan eini mælikvarðinn sem hægt er að nota á þetta. Hún er sá mælikvarði sem segir okkur hvaða laun viðkomandi var með en ekki launin eins og þau eru í dag sem eru helmingi lægri upphæðir. Í lögum í dag er hálfgerð eignaupptaka á launum þess slasaða. Það getur aldrei verið tilgangur þessara laga.

Frá öllum sjónarhornum séð, ef þetta mál fær ekki framgöngu þá er löggjafinn að segja, við á Alþingi, að þetta sé ásættanlegt, að það sé ásættanlegt að þeir sem lenda í slysum fái helmingi minna en þeir ættu að fá og það sé bara eðlilegt. Rökfræðilega gengur það ekki upp þannig að í framhaldi af þessu vona ég svo heitt og innilega að þetta mál fái sinn framgang og verði samþykkt hér sem lög þannig að við séum þá alla vega búin að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að hlutirnir séu réttir og að þeir sem lenda í slysum, verða fyrir óhappi, þurfi ekki að fara að leita réttar síns hjá tryggingafélögum og fái tjón sitt bætt, fái, eins og lögin segja, tjón sitt bætt að fullu. Þar af leiðandi sé alveg á hreinu að lögin séu rétt. Því miður er það þannig með lögin eins og þau eru að fólk færi ekki tjón sitt bætt. Það fær ekki nema helminginn og það fær jafnvel ekki þann helming að fullu bættan vegna þess að það er mjög erfitt að sækja þann rétt.

Ég aðskildi gjafsóknarhlutann frá þessu. Eins og ég segi er síðan annað frumvarp sem ég mun flytja um gjafsóknina en það er annað vandamál hvernig gjafsóknarlögin eru. Það er ekki auðvelt fyrir einstakling, hvað þá veikan, að berjast við tryggingafélögin, berjast við að halda geðheilsunni, líkamlegri heilsu, í þeirri aðstöðu að vera kannski alvarlega slasaður eftir umferðarslys með börn og annað, að þurfa líka að berjast við tryggingafélögin, að það sé ekki sjálfsagður hlutur að viðkomandi fái gjafsókn ef á þarf að halda til að berjast við tryggingafélögin. Eins og hefur komið fram þá er það alveg með ólíkindum að það sé núorðið meira en helmingsmunur á því sem á að vera og á því sem er.

Eins og hefur komið fram hefur ASÍ stutt þetta. Þeir hafa sent inn stuðning sinn ár eftir ár. Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp bréfi ASÍ frá 27 janúar 2022. Orðrétt segir þar:

„Efni: Mál nr. 430. Frumvarp til laga um skaðabótalög (launaþróun og gjafsókn). Alþýðusamband Íslands styður eindregið þau sjónarmið sem frumvarp þetta er byggt á hvað varðar vísitöluviðmiðun skaðabótalaga og telur frumvarpið stuðla að því meginmarkmiði skaðabótalaga að tjónþolar verði eins settir og þeir voru fyrir tjón.“

Það er ekki þannig í dag, langt í frá. Svo segir einnig í bréfinu:

„Hvað varðar skilyrðislausa gjafsókn vegna líkamstjóna þá telur ASÍ rétt, að heimildir til gjafsóknar fyrir efnaminni einstaklinga þurfi að rýmka verulega, hvort sem um skaðabótamál sé að ræða eða ekki. ASÍ telur hins vegar að ekki sé ráðlegt að falla alfarið frá skilyrðum 1.mgr. 126.gr. einkamálalaga en það geti það stuðlað að tilefnislausum málaferlum og hamlað samkomulags uppgjörum og sáttum innan og utan réttar.“

Ég tel að ef við horfum á tryggingamál á Íslandi þá séum við að borga margfalt hærri tryggingar en annars staðar á Norðurlöndunum, allt upp undir sjöfalt, áttfalt hærri tryggingar. Mér finnst að það eigi að vera sjálfsagt inni í þessum tryggingum að ef viðkomandi lendir í tjóni og hefur ekki efni á að reka málið fyrir dómstólum þá fái hann gjafsókn til þess að gera það.

Síðan er annað sem við verðum að fara að taka á og er alveg óskiljanlegt að dómsmálaráðherra eftir dómsmálaráðherra skuli láta óáreitt og það er að við skulum vera í þeirri stöðu að gera ekki upp bótasjóðina, leyfa tryggingafélögunum að safna fé í bótasjóði. Ég man að Pétur Blöndal orðaði það best, hann talaði um þessa furðulegu sjóði sem fé án hirðis. Það kom í ljós að þetta var algjörlega hárrétt sýn hjá honum vegna þess að einhvern veginn var hægt að taka þessa sjóði og láta þá hverfa í bankahruninu. Það er alveg með ólíkindum að við skulum vera eina þjóðin á Norðurlöndum sem gerir ekki upp reglulega. Þessa sjóði þarf að gera upp reglulega, a.m.k. á fimm ára fresti, jafnvel fimm til tíu ára fresti, og það ætti að vera sjálfsagt. Það furðulegasta í þessu er að fyrrverandi dómsmálaráðherra sagðist ætla að taka aðeins á þessu máli og fara að gera eitthvað í því og endurskoða skaðabótalögin en einhverra hluta vegna hætti hún við það. Ég hef ekki heyrt í núverandi dómsmálaráðherra en maður hefur á tilfinningunni að það sé enginn vilji til þess að breyta þessu máli, að viljinn sé bara í eina átt og að bótasjóðirnir bólgni út. Það má dæla og dæla peningum í þá en þeir sem verða fyrir tjóni sitja eftir og verða oft að kyngja því að fá jafnvel ekki nema 10% af þeim bótum sem þeir eiga rétt á. Við erum að tala um 10% af nærri helmingi lægri bótum en þær ættu að vera fá. Þannig að ef einhver fær 5 millj. kr í bætur ætti hann að fá 10 millj. kr. í bætur. Og þá erum við að tala um 10% af því sem hann á rétt á því að rétt upphæð miðað við tjónið hans væri kannski upp á 40–50 milljónir, miðað við þær tekjur sem hann hafði á þeim degi þegar hann varð fyrir tjóni.

Eins og ég segi vona ég heitt og innilega að maður þurfi ekki að endurflytja þetta eftir ár en því miður trúi ég því einhvern veginn ekki að dómsmálaráðherra í núverandi ríkisstjórn muni nokkurn tímann taka á þessu máli. Þeir vilja hafa þetta svona og ríkisstjórnin vill hafa þetta svona. Þau standa með tryggingafélögunum, þau eru að klekkja á tjónþolunum og vilja hafa það svoleiðis og munu sennilega verja sérstaklega tryggingafélögin en láta tjónþolana sitja uppi með að fá ekki nema brotabrot af því sem þeir eiga að fá.



[16:01]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir framsöguna þar sem hann fór vel yfir þetta mikilvæga mál sem er frumvarp til laga um breytingu á skaðabótalögum, um að bótafjárhæðir skaðabótalaga breytist í hlutfalli við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Hér er um grundvallarmál að ræða og vert að fara aðeins yfir tilgang skaðabótalaga, sem er hver? Jú, hann er að gera tjónþola eins settan og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni. Það er grundvallaratriði. Fólk verður fyrir tjóni og það þarf að bæta þannig að það verði eins sett og það hefði ekki orðið fyrir tjóni.

Skaðabótalögin miða við lánskjaravísitölu. Hvað er lánskjaravísitala? Saga lánskjaravísitölu er svolítið áhugaverð. Lánskjaravísitala er vísitala sem var í upphafi reiknuð út frá vísitölu neyslu og byggingarvísitölu, þ.e. tveir þriðju framfærsluvísitölunnar voru lagðir saman við einn þriðja af byggingarvísitölunni og þá fékkst út lánskjaravísitalan. Árið 1990 var vísitölunni breytt þannig að þrjár vísitölur giltu jafnt í lánskjaravísitölunni. Það var vísitala neyslu, launavísitala og byggingarvísitala. Þetta var í fimm ár. Svo árið 1995 var vísitölunni breytt aftur þannig að nú fylgir lánskjaravísitala eingöngu vísitölu neyslu. Eins og kemur fram í greinargerðinni, og ég tel mikilvægt að leggja áherslu á, stóð lánskjaravísitalan í 3.282 stigum við gildistöku skaðabótalaga árið 1993 en stóð í 10.652 stigum í júlí 2022. Fjárhæðir skaðabótalaga hafa því hækkað um 225% frá gildistöku þeirra. Þetta er lánskjaravísitalan. Launavísitalan, sem hér er lagt til að bætur skaðabótalaga miðist við, stóð við gildistöku skaðabótalaga árið 1993 í 131,3 stigum en í júlí 2022 stóð sama vísitala, launavísitalan, í 855,8 stigum. Hún hefur því hækkað um 552% sem er mikið meira, talsvert meira, en lánskjaravísitalan. Við erum að tala um 552% á móti 225%. Launavísitalan hefur hækkað um 552% en lánskjaravísitalan sem miðað er við í lögunum hefur hækkað um 225% þannig að við erum að tala um rúmlega tvöföldun á lánskjaravísitölu en fimmföldun, fimm og hálf-földun ef við getum notað það orð, á launavísitölunni.

Eftir því sem laun hækka umfram verðlag hefur verulega dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni og hefur ekki fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag. Þetta eru ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar. Þessir hópar njóta einfaldlega ekki sömu verndar og skaðabótalögin tryggðu við gildistöku, það er svo augljóst mál, þannig að hér er um eðlilega leiðréttingu að ræða. Það er augljóst mál að tilgangi skaðabótalaganna um það að einstaklingur sem verður fyrir tjóni, tjónþoli, verði eins settur og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni, því markmiði er ekki náð. Við verðum að breyta vísitölunni þannig að hún fylgi launavísitölu svo við náum tilgangi skaðabótalaganna. Ég tel að þetta frumvarp sé raunverulega mjög mikilvægt og raunverulega þess eðlis að við ættum að fallast á það að ná upphaflegum tilgangi skaðabótalaga þar sem núverandi vísitala, lánskjaravísitalan, er ekki að ná því.

Ég vænti þess að þingheimur samþykki þessa breytingu og ég skil ekki rökin fyrir því af hverju ekki er búið að samþykkja það að miða við launavísitölu í stað lánskjaravísitölu. Það eru greinilega einhverjir aðrir hagsmunir, hvort það séu hagsmunir tryggingafélaga eða eitthvað slíkt — en a.m.k. er alveg klárt mál að fólkið sem verður fyrir líkamstjóni, þar á meðal ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar, ber skarðan hlut frá borði. Hérna er um mikið réttlætismál að ræða og ég trúi ekki öðru en að þetta fái góða umfjöllun í nefnd og komist til 2. umr. Þetta er mjög mikilvægt atriði og ég vil benda á að það eru 29 ár síðan skaðabótalögin voru samþykkt, 30 ár á næsta ári. Við skulum halda upp á 30 ára afmælið með því að miða bætur við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu.



[16:06]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir söguna og hvernig þetta púslast allt saman. Þetta vakti hjá mér áhuga á máli sem ég hef verið að pæla í í tengslum við það hvernig mismunandi leiðir til að haga skaðabótum eða lífeyri eða sektum eða ýmsu öðru dreifist út um öll lög. Það er gert á mismunandi hátt úti um allt. Í mínum fræðum, í tölvunarfræðinni og að búa til hugbúnað og slíkt, þá reynir maður alltaf að haga hlutunum þannig að þegar það er eitthvað sem er sameiginlegt, eins og t.d. ákveðin launakjör eða í þessu tilviki skaðabótakjör, ef við getum orðað það þannig, þá er haldið utan um það á einum stað. Þegar það þarf að breyta einhverju eða uppfæra eitthvað þá er það gert á einum stað og þá lagast það alls staðar. Þetta tengist kannski því vandamáli að við erum ekki með neina skilgreiningu á því hvað myndi t.d. teljast vera lágmarksframfærsla. Ef við værum með einhverjar slíkar skilgreiningar þá gætu þær t.d. verið notaðar til að uppfæra annað sjálfkrafa eftir því sem launavísitalan þróast eða hvaða aðrar vísitölur sem við viljum miða við. Þá uppfærast sjálfkrafa allir þættir í öllum öðrum lögum sem vísa í slíka sameiginlega breytu. Hér er verið að leggja til að þetta eigi frekar að fylgja launaþróun og þegar launaþróun breytist þá hefur það áhrif á lágmarksframfærsluviðmið sem væri þá eðlilegra kannski að miða við, bara í nokkurn veginn öllu eða einhverju margfeldi þar af eða því um líkt, þannig að skaðabætur væru kannski tengdar framfærsluviðmiðum, jafnvel sektir líka og ýmislegt þannig.



[16:09]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem gefur mér tækifæri til að koma aftur í ræðustól og færa enn betri rök fyrir máli mínu um að við eigum frekar að miða við launavísitölu en lánskjaravísitölu. Ég rakti aðeins sögu lánskjaravísitölunnar. Frá 1995 var henni breytt þannig að hún fylgir eingöngu vísitölu neyslu og hún hefur hækkað um 225% á gildistíma laganna síðustu 29 ár. Hins vegar hefur launavísitalan hækkað um 552%. Fyrir 29 árum voru lífskjör verri á Íslandi en í dag. Það hefur verið hagvöxtur ár eftir ár þannig að lífskjörin eru mun betri. Ef við förum 29 ár til baka þá var minni kaupmáttur. Lífskjör hafa batnað. Þegar við miðum þessar bætur eingöngu við lánskjaravísitölu þá erum við eiginlega að segja við fólkið sem verður fyrir tjóni: Þið eigið að hafa sömu lífskjör og voru fyrir 29 árum þó svo að allir aðrir í dag árið 2022 hafi notið góðs af lífskjarabatanum á þessum 29 árum. Það er alveg óásættanlegt að við séum með ákveðinn hóp fólks sem verður fyrir tjóni og skaðabæturnar ná ekki tilgangi sínum. Hann verður ekki eins settur og ef hann hefði ekki orðið fyrir tjóni ef verið er að miða við lífskjör fyrir 29 árum. Það er óásættanlegt, tel ég. Þess vegna er svo mikilvægt að miða við launavísitölu af því að kaupmáttur launa hefur aukist á þessum 29 árum. Það er verið að láta ákveðinn hóp fólks hafa lífskjör 29 ár aftur í tímann. Þess vegna eigum við að miða við launavísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Það er munurinn. Það er það sem mér finnst svo mikilvægt. Við þurfum að miða þetta við tímann í dag en ekki festast í lánskjaravísitölu sem er bara miðuð við neysluna. Það eru lífskjörin sem skipta máli.



[16:11]
Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Já, ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni. Ég var einmitt að reyna að benda á að í staðinn fyrir að vera með einhverja skilgreinda upphæð í skaðabótalögum, sem uppfærist samkvæmt launavísitölu, væri eðlilegra að vísa í einhver viðmið um lágmarksframfærslu. Það er ekki bara launaþróun, af því að hún er mismunandi milli launahópa, sem stillir þetta á réttan hátt, þ.e. meðallaunaþróun er ekkert endilega viðeigandi fyrir allar þessar mismunandi skaðabætur, lágmark lífeyris og ýmislegt svoleiðis, því að þarna erum við að glíma við krónutölur, lágar krónutölur, háar krónutölur. Þegar þau sem eru t.d. á lægri launum fá meðaltalið fá þau miklu lægri krónutölu en þau á hærri launum. Yfirleitt er það þannig að þeir sem eru á hæstu laununum fá miklu meiri prósentur í hækkunum þegar allt kemur til alls og draga meðaltalið svolítið upp. Það myndi skilja eftir þau sem eru með lægri krónutölu. Þetta er sambærilegt við þessi mál, skaðabótamálin — ef menn vilja ná að fylgja lífsgæðunum sem slíkum þá verður maður að átta sig á því hvaða lífsgæði við erum að tala um. Erum við að tala um fyrstu, aðra, þriðju eða fjórðu tekjutíund, sem verið er að miða sérstaklega við? Ef við miðum t.d. lágmarksframfærslu við ákveðið fyrirkomulag sem uppfærist samkvæmt fleiru en bara launaþróun, (Forseti hringir.) því vísitalan getur breyst á fjölbreyttan hátt, þá væri það, held ég, nákvæmara tæki.



[16:13]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Þú ert vinnandi einstaklingur með milljón á mánuði og verður fyrir tjóni, missir getuna til tekjuöflunar. Þú býrð við ákveðin lífskjör sem miðast við eina milljón á mánuði og þá er að sjálfsögðu rétt að miða þær bætur við það, miða við launavísitölu. Launavísitala er meðaltal og eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Eftir því sem laun hafa hækkað umfram verðlag hefur dregið úr þeirri vernd sem skaðabótalögin veita fólki sem verður fyrir líkamstjóni en hefur ekki stundað fulla atvinnu á síðustu þremur árum fyrir slysdag.“

Hverjir eru þetta? Þetta eru ungir einstaklingar sem ekki hafa unnið fulla vinnu, heimavinnandi einstaklingar og eldri borgarar. Við miðum við laun en svo þegar kemur að hækkun þeirra þá miðum við við lánskjaravísitölu, sem er vísitala neyslu. Að sjálfsögðu þurfum við að miða við hækkun á launavísitölu af því að það er miðað við laun í upphafi. Við miðum í upphafi við laun en svo hoppum við yfir í aðra vísitölu. Það gengur að sjálfsögðu ekki, það er ósamræmi milli viðmiðsins í upphafi og vísitölunnar sem fylgir launaþróun. Það er það sem þarf að miða við. Það miðast við kaupgetu, það er grundvallaratriði. Eins og ég segi þá held ég að lánskjaravísitala, bara hugtakið lánskjaravísitala, eigi ekki einu sinni heima þarna, það ætti að miða við vísitölu neyslu. Lánskjaravísitalan sýnir krukkið í þessu sem hefur átt sér stað frá 1993 og það að nota orðið lánskjaravísitala er algjörlega úrelt, þetta er vísitala neyslu. Það á að miða við launin, tekjuöflunina. Tekjuhæfileikar þínir eru skertir vegna tjóns og það á að miða við launavísitölu. Hún miðast við getuna til að afla tekna, ekki það sem þú neytir, ekki við neysluvísitölu. (Forseti hringir.) Þannig að mér finnst það svo sjálfsagt mál að það hálfa væri nóg og ég vona að þetta verði að lögum sem allra fyrst.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.