153. löggjafarþing — 38. fundur
 28. nóvember 2022.
alþjóðlegar fjárfestingar í nýsköpun.

[15:10]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í umsögnum um drög að frumvarpi til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu, sem var í samráðsgátt stjórnvalda, var mjög skýr og mjög afdráttarlaus umsögn frá íslenskum frumkvöðlum og forstjórum nýsköpunarfyrirtækja sem hafa sótt tugi milljarða erlenda fjárfestingu í íslensk nýsköpunarfyrirtæki undanfarin ár. Þeir segja m.a., með leyfi forseta:

„Það er álit umsagnaraðila að frumvarpsdrögin myndu, yrðu þau að lögum í óbreyttri mynd, hafa verulega íþyngjandi áhrif á íslensk nýsköpunarfyrirtæki og hafa verulega neikvæð áhrif á möguleika þeirra á að verða sér úti um alþjóðlega fjármögnun en slík fjármögnun, sem oft er sérhæfð, skiptir íslenskt nýsköpunarumhverfi sköpum enda lítið um sérhæfða fagfjárfesta á Íslandi sökum smæðar landsins.“

Þeir eru því mjög neikvæðir. Ég vil líka benda á í þessu samhengi að bæði erlendar stofnanir, OECD, en líka Viðskiptaráð undanfarið og Samtök atvinnulífsins hafa bent ítrekað á að samkeppnishæfni vegna alþjóðasamskipta og fjárfestinga hefur fallið verulega hér á Íslandi síðastliðin tíu ár. Þetta erlenda fjárfestingarumhverfi er að verða mjög óhagfellt og ýtir ekki beint undir samkeppnishæfni landsins.

Umsagnaraðilar segja síðan áfram, með leyfi forseta:

„Það er okkar álit að ef lögin yrðu að veruleika í óbreyttri mynd þá myndu íslenskir frumkvöðlar í auknum mæli kjósa að stofna fyrirtæki erlendis um starfsemina til að komast hjá íþyngjandi áhrifum þess — sem væri mikið tjón fyrir íslenskt samfélag og öfugþróun.“

Frumvarpið sé því „…háð slíkum ágöllum að verulegri hættu geti stafað að íslenskri nýsköpun og hátækniþróun“.

Ég vildi spyrja ráðherra nýsköpunarmála: Mun hann beita sér fyrir því að þetta frumvarp verði lagt til hliðar eða að gerðar verði verulegar breytingar á því sem verði líka hagfelldar fyrir íslensk nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðlaumhverfi?



[15:13]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram í máli hv. þingmanns um þá gagnrýni sem hefur komið fram um þetta frumvarp. Ég er þeirrar skoðunar að nú sé rétt að staldra við út af öllum þeim umsögnum sem hafa komið varðandi stöðuna á erlendri fjárfestingu hér á landi og fara yfir þessa gagnrýni áður en lengra er haldið. Við verðum að taka okkur tíma til að skoða bæði forsendur og tilgang frumvarpsins ofan í kjölinn. Ég tel persónulega að það hasti ekkert að koma málinu í gegn fyrr en almenn sátt hefur náðst. Flestir skilja tilganginn og geta stutt hann, en það verður að eyða þeirri óvissu sem er til staðar og hv. þingmaður nefnir, t.d. hef ég séð í ábendingum að það þurfi að skýra til hvaða fyrirtækja og greina rýnin skuli ná og einnig þurfi að fara fram greining á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins áður en lengra er haldið.

Áformin yfir höfuð eru í sjálfu sér skiljanleg. Margar hættur ber að varast en kúnstin felst í því að smíða löggjöf sem hæfir tilefninu og er hvorki of víðtæk né of ströng. Fremur en að fæla alþjóðlega fjárfesta frá landinu ættum við einmitt að hvetja þá til að koma hingað til lands með einföldu, skiljanlegu og samkeppnishæfu regluverki, þó að jafnframt sé hugað að öryggishagsmunum þjóðarinnar. Hindrunin í vegi alþjóðlegrar fjárfestingar í mikilvægum innviðum og atvinnugreinum er nú þegar orðin talsvert mikil hér á landi. Því tel ég mjög mikilvægt að rýna það og fara vel yfir hvernig við getum skoðað fjárfestingarumhverfið í heild sinni, sérstaklega fyrir nýsköpunarfyrirtæki svo að þau velji það að starfa hér, svo að þau velji að stækka fyrirtækin hér og komi hingað með þessa fjárfestingu af því að við vitum hversu mikilvæg hún er fyrir íslenskt efnahagslíf.



[15:15]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Þetta skiptir nefnilega máli, við erum að ræða hér frumvarp sem virðist ná langt út fyrir þau svið sem varða þjóðaröryggi og mikilvæga innviði. Þeir sem skrifa undir þetta hafa m.a. verið með fyrirtæki sem við þekkjum vel: Lucinity, Sidekick Health, Meniga, Avo, DTE, Oculis, Oz, Kerecis — líftækni, gervigreind — Carbon Recycling International. Þetta eru raddir sem við verðum auðvitað að hlusta á og taka alvarlega. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra nýsköpunarmála hvort það hafi ekki örugglega verið haft samráð við hans ráðuneyti við samningu þessa frumvarps. Ef svo er ekki þá er einhver veruleg brotalöm í Stjórnarráðinu. En um leið verð ég líka að hrósa ráðherra fyrir þetta svar sem lýsir ákveðnum áhyggjum, verulegum áhyggjum, af þessu máli. Ég hef sjaldan séð ráðherra í ríkisstjórn nokkurn veginn slátra máli annars ráðherra í ríkisstjórn jafn snyrtilega og gert var hér áðan.



[15:16]
háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er verkefni okkar stjórnmálamanna, jafnt í ríkisstjórn sem annars staðar, að hlusta á þær gagnrýnisraddir sem koma upp þegar frumvörp eru lögð fram. Þegar svona stórt mál er sett í samráð og athugasemdir af þessu tagi koma frá fyrirtækjum sem hafa verið að stíga stór skref í uppbyggingu í íslensku efnahagslífi verðum við auðvitað að leggja við hlustir. Það er ekki annað í boði. Við þurfum líka að nálgast þetta út frá því hverjir eru kostir alþjóðlegrar fjárfestingar fyrir land eins og Ísland af því að þeir eru algerlega ótvíræðir. Slíkri fjárfestingu fylgir bæði ný þekking og kunnátta en um leið mun fjölbreytni í atvinnulífinu aukast og nýir markaðir fyrir útflutning opnast. Stoðirnar eru að verða fjölbreyttari í íslensku atvinnulífi. Á sama tíma þurfum við að smíða löggjöf sem hæfir tilefninu og það er ýmislegt sem þarf að varast. Við verðum á sama tíma að draga úr hömlum og hindrunum og fara milliveg í þessu máli eins og öðrum.