153. löggjafarþing — 38. fundur
 28. nóvember 2022.
alþjóðleg vernd flóttamanna.

[15:24]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra. Málefni flóttamanna hafa verið rædd hér reglulega í þessum sal undanfarna mánuði. Frá upphafi árs til loka október höfðu komið hingað 764 einstaklingar með vegabréf frá Venesúela og flestir hafa nú þegar fengið hér alþjóðlega vernd og meira að segja svokallaða viðbótarvernd sem tryggir mun ríkari réttindi en t.d. þeir sem koma hingað frá Úkraínu njóta. Það má reikna með að í dag sé fjöldinn farinn að nálgast 1.000 innan ársins. Allt gerist þetta á grundvelli úrskurðar kærunefndar útlendingamála þar sem vísað er til bágborinna kjara fólks í heimalandinu sem vissulega hefur átt bjartari tíma en þá sem sósíalistinn Maduro býður upp á og áður félagi hans Hugo Chávez, allt frá árinu 1999.

Staðan sem vísað er til í úrskurði kærunefndar útlendingamála á við um mörg önnur lönd, því miður. Í gær bárust fréttir af því að sátt hefði náðst að einhverju marki milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Venesúela. Bandaríkin voru fljót til eftir að sáttmálinn var undirritaður og afléttu olíuviðskiptabanni til Venesúela og olíurisinn Chevron fær að halda störfum sínum áfram þar í landi. Venesúela sem hér um ræðir er 25. stærsti framleiðandi olíu í heiminum og áttunda stærsta land innan OPEC. Á fyrsta ársfjórðungi 2024 var vöxtur á landsframleiðslu um 17,4% á milli ára í Venesúela.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Telur hæstv. ráðherra að hælisleitendur frá fleiri löndum en Venesúela gætu fengið alþjóðlega vernd og jafnvel viðbótarvernd á þeim forsendum að aðstæður heima fyrir séu með svipuðum hætti og lýst er í úrskurði kærunefndarinnar gagnvart fólki frá Venesúela? Og í öðru lagi: Í ljósi frétta af viðskiptasamningum um aukna olíuframleiðslu og viðskipti við Venesúela, með hvaða hætti sér hæstv. ráðherra fyrir sér að verði undið ofan af þeirri stöðu sem hér hefur skapast vegna úrskurðar kærunefndar útlendingamála?



[15:26]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er full ástæða til að fagna því að eitthvert samkomulag hafi náðst um að bæta mannréttindi og lífsgæði í Venesúela undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og vinda ofan af þeim áhrifum sem sósíalisminn hefur skapað í því landi. Af hálfu bæði Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála er það auðvitað stöðugt endurmetið hverjar aðstæður eru í þeim ríkjum þaðan sem flóttamenn eru að koma til landsins. Það á einnig við um Venesúela og til að mynda veit ég að bæði frá Noregi og Þýskalandi hafa sendinefndir verið að skoða aðstæður í þessum löndum. Við leitumst við að horfa til upplýsinga sem koma fram í þeirra skýrslum og koma þeim á framfæri. Ég veit að þessar stofnanir nýta þær í sinni umfjöllun. Þær skoða gjarnan skýrslur sem berast frá alþjóðastofnunum, einstaka löndum eða öðrum samtökum og auðvitað getur það haft áhrif til breytinga. Einnig hefur verið rýnt í þennan úrskurð kærunefndar útlendingamála varðandi fólk frá Venesúela og skoðað hvernig megi endurskoða málsmeðferðina á þeim grunni, þ.e. miðað við nýjar upplýsingar. Því vonum við það besta í þessum efnum. Það er auðvitað mjög sláandi hversu margir koma hingað vegna þeirrar viðbótarverndar sem hér var nefnd og nær til fólks sem kemur frá Venesúela. Tímabilið sem er gefið hér er lengra en almennt er í Evrópu og því koma sennilega yfir 800 manns frá Venesúela á þessu ári á meðan þá má telja í einhverjum tugum í einstaka Norðurlöndum, svo dæmi sé tekið.



[15:29]
Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að það hafi kannski ekki beint verið svar við spurningunum. En mig langar til að reyna að ná fram ákveðnu atriði hér í seinni fyrirspurn minni: Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að í ljósi bættra aðstæðna í Venesúela, sem vonandi verður í kjölfar þess samkomulags sem gert var og yfirumsjónar Sameinuðu þjóðanna, verði viðhaldið fjögurra ára viðbótarvernd hjá öllum þeim sem hana hafa fengið á þessu ári — til fjögurra ára, viðbótarvernd sem ekki er verið að veita í nágrannalöndum okkar? Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þeir sem komu hingað á árinu frá Venesúela, hátt í 1.000 manns, og fengu hér viðbótarvernd njóti hennar í fjögur ár þó að allar forsendur á heimasvæðinu verði mögulega breyttar?



[15:30]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég sé ekki fyrir mér að einhverjir úrskurðir verði gerðir afturvirkir, þ.e. ef það yrði breyting á afgreiðslu mála hjá Útlendingastofnun og svo aftur kærunefnd þá get ég ekki séð að það yrði afturvirkt. Hvort þetta hafi þau áhrif að það verði við framtíðarafgreiðslu horfið frá þeirri niðurstöðu sem fékkst hjá kærunefnd útlendingamála þá veit ég, eins og ég sagði í svari mínu áðan, að þetta er stöðugt til endurskoðunar. Hér er auðvitað alltaf verið að skoða þessar umsóknir, hvaðan sem þær koma, og það er stöðugt til endurskoðunar matið á því hverjar aðstæður eru í þessum löndum. Ég ber miklar væntingar til þess, ekki síst út frá íbúum Venesúela, að þessi samningur sem gerður er núna og nær til framkvæmda, undir stjórn Sameinuðu þjóðanna, verði vonandi til þess að bæta lífsskilyrði það mikið í þessu landi að fólk hætti að flýja þaðan.