153. löggjafarþing — 39. fundur
 29. nóvember 2022.
veiðigjald, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 490. mál (framkvæmd fyrninga). — Þskj. 582, nál. 643 og 645, nál. m. brtt. 647, nál. 648.

ATKVÆÐAGREIÐSLA

[17:54]

[17:48]
Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við samþykkt þessa frumvarps er ekki verið að breyta umdeildri reiknireglu um veiðigjald. Aðeins er verið að jafna greiðslurnar þannig að sérstök hækkun bókhaldslegra fyrninga sem lækkar tekjuskattsstofn viðkomandi útgerðar hafi minni áhrif á veiðigjald á næstu árum. Summan yfir tímabilið skilar svipuðum veiðigjöldum. Að láta sem frumvarpið sé um hækkun veiðigjalds er blekking. Frumvarpið dregur hins vegar fram gallana við ákvörðun veiðigjaldsins; að sérstök ívilnandi Covid-aðgerð sem beinist að öllum fyrirtækjum og einstaklingum í atvinnurekstri skuli valda sveiflum veiðigjalds milli ára á sama tíma og útgerðir skila methagnaði. Við í Samfylkingunni greiðum frumvarpinu ekki atkvæði okkar enda viljum við fara aðra gegnsærri og réttlátari leið við ákvörðun veiðigjalda. Við teljum einnig rétt að stjórnarmeirihlutinn beri ábyrgð á samþykkt þessa frumvarps sem felur í sér afturvirkni sem hingað til hefur verið talin óæskileg og ólögleg.



Brtt. í nál. 647 felld með 32:19 atkv. og sögðu

  já:  AIJ,  ArnG,  ÁLÞ,  BLG,  GRÓ,  GE,  GIK,  HKF,  HVH,  IngS,  LenK,  LE,  OH,  SGuðm,  TAT,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ,  ÞSv.
nei:  ÁslS,  BGuðm,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BjarnJ,  BHar,  GÞÞ,  GuðmG,  GHaf,  HHH,  HSK,  HarB,  HildS,  JSkúl,  JónG,  KJak,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  RenB,  SIJ,  SVS,  SSv,  TBE,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
12 þm. (ÁBG,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  DME,  EÁ,  IÓI,  JFM,  JFF,  JPJ,  KFrost,  SDG) fjarstaddir.
3 þm. gerðu svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:50]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við erum að ræða hér frestun á lækkun veiðigjalds, dreifingu á neikvæðum áhrifum þess að aðferðafræðin við útreikning veiðigjalds er flókin og ógegnsæ. Við í Viðreisn erum ekkert á móti málinu sérstaklega, ég kem betur inn á það á eftir, en við erum hins vegar á móti veiðigjaldi í núverandi mynd m.a. vegna þessa flækjustigs, ógegnsæis og pólitískra afskipta. Við viljum þess vegna nýta tækifærið og leggja fram tillögu þess eðlis að veiðigjald sé reiknað á grundvelli markaðsverðs aflans en ekki opinberrar verðlagningar sem endurspeglar alls ekki verðmæti fisksins. Það er rétt spor í rétta átt og bætir vont kerfi en ég sé hér að líklega næ ég ekki í gegn, því miður. Menn verða þá bara að eiga það við sig. En ég held að við getum öll verið sammála um að þetta vandræðamál kjarnar þennan ófögnuð sem veiðigjaldsútreikningurinn er yfir höfuð. Ógegnsæið er slíkt, að frá því að málið kom upp hefur helsta umræðan falist í því að takast á um hvort þetta sé hækkun eða lækkun og að flokkur matvælaráðherra hafi lagt þetta þannig upp að hér sé verið að hækka veiðigjöld þegar staðreyndin er sú að þessi víxlverkun leiddi af sér lækkun og hér er verið að fresta þeirri lækkun. Gæti ógegnsæið og jarðvegurinn fyrir óhappadrjúg pólitísk afskipti verið frjórri?



[17:52]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegur forseti. Í umræðu í dag þá hafa stjórnarliðar sagt að það væri ekki tímabært að gera breytingar á óréttlátum útreikningum. Það er alltaf tímabært að gera betur og það er alltaf tímabært að breyta rétt. Tillaga okkar í Viðreisn gengur út á að auka gegnsæi í þessu óréttláta kerfi, gengur út á að auka fyrirsjáanleika í þessu óréttláta kerfi, gengur út á að auka réttlæti í þessu óréttláta kerfi; að við hættum þessu möndli milli veiða og vinnslu, gerum þetta gegnsætt, fáum þetta upp á borðið og treystum markaðnum. Hér eru flokkar í ríkisstjórn sem treysta ekki markaðnum. Tillaga okkar í Viðreisn byggir undir það að við eflum samfélag án sérhagsmuna. Þess vegna segi ég já.



[17:53]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Með tillögum Viðreisnar er verið að gjörbylta í grundvallaratriðum hvernig lög um veiðigjald virka. Það er verið að hverfa frá afkomutengingu í prinsippinu með því að miða við verð á uppsjávarfiski í öðru landi. Við verðum að muna að ekki er fiskmarkaðsverð á öllum tegundum sem veiðigjald er innheimt á. Við þurfum líka að vita hvernig við ætlum að meðhöndla sjófrystar afurðir o.s.frv. Mér finnst það lýsa ákveðinni vanþekkingu á sjávarútvegi að gera ráð fyrir því að makríll veiddur af Íslendingum sé sama vara og makríll veiddur af Norðmönnum eða á öðrum veiðislóðum, eða loðna. Ef þessi tillaga væri samþykkt yrði niðurstaðan sennilega sú að þá myndum við t.d. ekki geta fengið veiðigjöldin frá Skattinum 1. desember. Íslenskar útgerðir keppast við að veiða loðnu þegar hún skilar mestum verðmætum, þegar hún er til manneldis og hrognfyllt. Það eru takmarkanir í tíma og rúmi á því hvar Norðmenn mega veiða og því má ætla að verðmætið sé einfaldlega lægra. Þannig er mjög undarlegt að ætla sér að miða við gjaldahliðina við breytilegan kostnað við veiðar á loðnu á Íslandsmiðum, en tekjuhliðina við uppreiknaða stærð á annarri loðnu frá Noregi.



 1. gr. samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  BGuðm,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BjarnJ,  BHar,  DME,  GÞÞ,  GuðmG,  GHaf,  HHH,  HSK,  HarB,  HildS,  JSkúl,  JónG,  KJak,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  RenB,  SIJ,  SVS,  SSv,  TBE,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
19 þm. (AIJ,  ArnG,  ÁLÞ,  BLG,  GRÓ,  GE,  GIK,  HKF,  HVH,  IngS,  LenK,  LE,  OH,  SGuðm,  TAT,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
11 þm. (ÁBG,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  EÁ,  IÓI,  JFM,  JFF,  JPJ,  KFrost,  SDG) fjarstaddir.
1 þm. gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

[17:54]
Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við í Viðreisn ætlum ekki að setja okkur upp á móti því að hér sé kláruð lagasetning til að koma í veg fyrir að þessi óskapnaður verði verri og hafi verri áhrif á íslenskt samfélag en þegar er. Við munum hins vegar sitja hjá við atkvæðagreiðsluna, annars vegar vegna þess að við viljum sjá stærri og meiri breytingar og hins vegar vegna þess að við setjum auðvitað fyrirvara við það hvernig þetta mál kemur til kasta Alþingis, að við skulum fá hér örfáa daga til að afgreiða þetta viðamikla mál og erum þar með rænd möguleikanum á að ræða það í stærra samhengi. Þó þakka ég fyrir ráðuneytissvarið frá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Ég hefði viljað fá pólitíska umræðu um þetta mál en sá tími er ekki til staðar. Við munum sitja hjá.



 2. gr. samþ. með 33 shlj. atkv. og sögðu

  já:  ÁslS,  BGuðm,  BÁ,  BirgÞ,  BjG,  BjarnB,  BjarnJ,  BHar,  DME,  GÞÞ,  GuðmG,  GHaf,  HHH,  HSK,  HarB,  HildS,  JSkúl,  JónG,  KJak,  LA,  LRS,  LínS,  NTF,  OPJ,  ÓBK,  RenB,  SIJ,  SVS,  SSv,  TBE,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP.
19 þm. (AIJ,  ArnG,  ÁLÞ,  BLG,  GRÓ,  GE,  GIK,  HKF,  HVH,  IngS,  LenK,  LE,  OH,  SGuðm,  TAT,  ÞorbG,  ÞKG,  ÞSÆ,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
11 þm. (ÁBG,  ÁsmD,  ÁsF,  BergÓ,  EÁ,  IÓI,  JFM,  JFF,  JPJ,  KFrost,  SDG) fjarstaddir.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frumvarpið gengur til 3. umr.