153. löggjafarþing — 41. fundur
 5. desember 2022.
staða Sjúkratrygginga Íslands.

[15:26]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Um mitt síðasta ár var sýndur þáttur Kveiks um stöðu heilbrigðiskerfisins og Sjúkratrygginga þar sem m.a. kom fram að 52 ára sjálfstætt starfandi svæfingarlæknir var á toppi listi yfir þá lækna sem Sjúkratryggingar Íslands greiða mest fyrir hvern vinnudag. Sá læknir fékk að meðaltali greiddar 703.938 kr. á dag. Einnig kom fram í umræðunni þá að Sjúkratryggingar hefðu ekki hugmynd um kostnaðarmat á þeim verkefnum sem stofnunin hafði samið um við viðsemjendur sína. Núna er komin fram uppsögn forstjóra Sjúkratrygginga Íslands og það segir m.a. í tilkynningu hennar, með leyfi forseta:

„Fjárlagafrumvarpið boðar óhjákvæmilega lækkun rekstrarkostnaðar með fækkun starfsmanna Sjúkratrygginga og stórskerðingu á þjónustu við landsmenn.“

Hún segir einnig:

„Rauði þráðurinn í þessum úttektum og skýrslum hefur því miður verið sá að stofnunin hafi ekki sinnt skyldum sínum með fullnægjandi hætti, m.a. vegna takmarkaðs rekstrarsvigrúms.“

Ég geri ráð fyrir því að þessi tilkynning sé að koma í kjölfarið á þeim breytingartillögum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram vegna fjárlaga 2023 sem fela í sér 3 milljarða kr. hækkun, aðallega vegna lyfjakostnaðar að vísu, til að mæta umframútgjöldum hjá Sjúkratryggingum Íslands á árinu 2022 en hefur síðan áhrif á 2023. Ég geri ráð fyrir því að þessi uppsögn og þessi ummæli komi þrátt fyrir breytingartillögur ríkisstjórnarinnar. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra einmitt um það og einnig tillögu ráðherra fyrir fjármálaáætlun. Var staðan ekki augljós þegar lagt var upp með fjármálaáætlun í vor og af hverju erum við þá föst í þessari stöðu núna?



[15:28]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir fyrirspurnina. Þegar kemur að uppsögn sem hv. þingmaður tengir þessari stöðu sem hann dregur fram — því gífurlega mikilvæga og mikla hlutverki sem við ætlum Sjúkratryggingum sem viðsemjanda, þjónustukaupa, í lögbundnu eftirliti og kostnaðarmati á bak við samningagerð o.s.frv. — þá held ég að við verðum að bera virðingu fyrir slíkum ákvörðunum og sjaldnast eru þær einhlítar. Ég ætla kannski að leyfa mér að biðja hv. þingmann að virða það við mig að draga þetta almennt fram. Það er ekki að ástæðulausu að það er dregið sérstaklega fram í stjórnarsáttmála að efla eigi Sjúkratryggingar sem viðsemjanda og þjónustukaupa á heilbrigðisþjónustu fyrir okkar hönd. Við erum þarna að ræða hátt í þriðjung af heilbrigðisþjónustu þannig að á alla mælikvarða er þessi stofnun mjög mikilvæg og mikil að umfangi. Þess vegna erum við líka hér á milli umræðna með um 100 milljónir í viðbótarframlag; stofnunin hefur verið í kringum 1% af samningum. Það er líka mikilvægt að við skiljum á milli rekstrarins sem slíks og þeirrar þjónustu sem þar er innt af hendi og alls umfangs samningagerðar. En framlögin hafa hækkað um 16% frá 2017. Og með viðbótarframlagi um 100 millj. kr. er stofnunin að fá u.þ.b. 2 milljarða á fjárlögum á næsta ári.



[15:31]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Frú forseti. Ég ber einmitt gríðarlega virðingu fyrir forstjóra Sjúkratrygginga Íslands sem hefur ítrekað komið með mjög góðar umsagnir fyrir fjárlaganefnd og gert mjög skilmerkilega grein fyrir þeim umsögnum. Í þessu bréfi er talað um að lækkun rekstrarkostnaðar sé um 200 milljónir, 100 milljónir til viðbótar þýðir þá skerðingu um 100 milljónir. Það er ofan í þá stöðu sem við höfum verið með á borðinu síðan um mitt síðasta ár, þegar Kveikur upplýsti um þá stöðu, að Sjúkratryggingar hafa ekki bolmagn til þess að kostnaðargreina það sem hún er að semja um. Það gerir að verkum að samningsstaðan er mjög augljóslega ekki góð gagnvart sérfræðilæknum. Upplýsingarnar benda til þess að við séum að hella peningum á mjög rangan stað í heilbrigðiskerfinu og skiljum þá (Forseti hringir.) Landspítalann eftir, hann er að borga verktakagreiðslur í staðinn fyrir launagreiðslur.



[15:32]
heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta innlegg. Ég get óhikað tekið undir það með hv. þingmanni að núverandi forstjóri hefur staðið sig afar vel. Vegna starfa minna í fjárlaganefnd og fyrri starfa get ég tekið undir allt það sem hv. þingmaður sagði hér, þetta voru mjög góðar umsagnir. Ég virði þær áhyggjur sem forstjórinn setur fram og við höfum rætt þær. Ég vil meina að við séum, eins og talað er um í stjórnarsáttmála, raunverulega að bæta fjármunum við. Á þessum árum hafa u.þ.b. 400 milljónir bæst við í framlögum til stofnunarinnar ef ég horfi til þess að hjálpartækjamiðstöðin kom þar undir. Getum við gert betur og þurfum við að taka betur utan um þetta miðað við umfangið og það sem við ætlum að gera, hv. þingmaður nefndi hér m.a. mikla og flókna samninga? Já, alveg örugglega. Í því munum við vinna.