153. löggjafarþing — 41. fundur
 5. desember 2022.
um fundarstjórn.

svör ráðherra í sérstakri umræðu.

[16:35]
Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég er svolítið hugsi yfir þessu formi, þessum dagskrárlið hér. Fyrir þá sem ekki vita þá er það þannig þegar sérstök umræða fer fram að hæstv. ráðherra fær að vita fyrir fram hverjar spurningarnar eru til að ráðherra fái tíma og ráðrúm til að móta skýr svör við þeim. Sú meginspurning sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson lagði upp með, og fleiri þingmenn kölluðu sérstaklega eftir svörum við, í umræðunni hér áðan er þessi: Hvers vegna hefur ráðherra ekki gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að öryrkjar þurfi að greiða úr eigin vasa fyrir endurhæfingu og þjónustu sjúkraþjálfara og sérgreinalækna sökum þess að samningar eru lausir? Við heyrðum engin svör frá hæstv. ráðherra í dag. Hann minntist varla á þetta, hvorki í fyrri ræðu sinni né í þeirri seinni. Í því ljósi velti ég fyrir mér þessu formi, hvort það sé e.t.v. óþarfi að vera að leggja upp með sérstakar spurningar ef ráðherrar hirða ekki um að svara þeim, gera ekki einu sinni minnstu tilraun til þess, þótt þeir fái þær mörgum dögum fyrir fram. Mér finnst þetta umhugsunarefni.