153. löggjafarþing — 48. fundur
 13. desember 2022.
félagsleg aðstoð, 3. umræða.
stjfrv., 435. mál (greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris). — Þskj. 508.

[18:47]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Hér ræðum við um endurhæfingarlífeyri. Þetta frumvarp fjallar um þá einstaklinga sem einhverra hluta vegna þurfa á endurhæfingu að halda, eru dottnir út af vinnumarkaði, hafa lent í slysum eða einhverjum öðrum þeim áföllum sem hafa orðið þess valdandi að þeir eru ekki vinnufærir lengur. Ég hef nú í rauninni verið að gagnrýna þetta frumvarp um leið og ákveðinn partur mætti segja að væri jákvæður, ef að ríkisvaldið ætlar að halda því þannig að eftir þriggja ára endurhæfingu sé enn ekki komið í ljós hvort viðkomandi einstaklingur sé orðinn bær til þess að fara að vinna. Ég skil ekki út af hverju, eftir þriggja ára endurhæfingu, að það þurfi að bæta við tveimur árum í stað þess að setja viðkomandi á örorku. Ef hann er ekki bær til að vinna eftir þriggja ára endurhæfingu þá á hann eðli málsins samkvæmt að fara á örorkulífeyri.

Mig langar að vísa aðeins í umsögn Öryrkjabandalagsins sem er nú bæði jákvæð og líka með ákveðna varnagla, með leyfi forseta:

„ÖBÍ telur hins vegar brýnt að núverandi fyrirkomulag endurhæfingarlífeyris verði endurskoðað með það í huga að ferlið allt verði skilvirkara og fyrirsjáanlegra en nú er og að meðferðarþjónusta verði samhliða því efld áður en til lengingar endurhæfingartímabilsins kemur.“

Af hverju er ég að blanda mér í umræðuna um endurhæfingarlífeyri og er ég ekki ofboðslega glöð að hann skuli geta orðið allt að fimm ár? Ég er ofboðslega glöð ef þessi þrjú ár verða ekki þess valdandi að viðkomandi væri bara fleygt út á guð og gaddinn ef það hefði sýnt sig að hann hefði ekki enn þá verið orðinn fullfær til þess að taka þátt í vinnu. En það sem ég tel ástæðu til að nefna hér er einfaldlega að ég er búin að vera að aðstoða fólk við að glíma við Tryggingastofnun og báknið þar innan dyra, til þess að reyna að aðstoða fólk við að komast á endurhæfingarlífeyri sem er óvinnufært með öllu. Það er nú bara ákveðin þrautaganga út af fyrir sig, ég verð að viðurkenna það. Það kemur einmitt fram í umsögn Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Skortur á leiðbeiningum til umsækjenda um endurhæfingarlífeyri. Ófá dæmi eru um að umsækjendum um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað um áframhaldandi greiðslur endurhæfingarlífeyris á þeim grundvelli að fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun teldist ekki uppfylla skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, þar sem endurhæfingaráætlun teldist ekki nógu skýr, og án þess að leiðbeina um hvaða vankantar séu á endurhæfingaráætluninni sem lögð er til grundvallar umsóknar um endurhæfingarlífeyri, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. 10975/2021.“

Þetta er nákvæmlega það sem einstaklingarnir voru að ganga í gegnum sem ég var að reyna að aðstoða, nákvæmlega það. Það var alveg sama; hvert vottorðið kom á fætur öðru, hver yfirlýsingin á fætur annarri, hver teikningin af skapalóni á fætur öðru um það hvernig viðkomandi myndi endurhæfast. En þrátt fyrir það er alltaf beðið um þetta aftur og upp á nýtt. Þetta er ekki nóg, þessu er synjað, verið er að skoða málið, þessu er hafnað, hafnað, hafnað. Þú þarft að gera þetta og hitt en samt sem áður var aldrei teiknað almennilega upp hvað Tryggingastofnun vildi nákvæmlega fá. Það er galið, virðulegi forseti, að senda veikt fólk sem er jafnvel í andlegu ójafnvægi á milli Pontíusar og Pílatusar til að ná í og reyna að koma á framfæri gögnum sem þetta bákn er að biðja um. En á sama tíma fá þau ekki eina einustu krónu. Hvernig eiga þau að geta verið í endurhæfingu, farið til sjúkraþjálfara, leitað sér sálfræðihjálpar, keyrt á milli, sinnt fjölskyldu eða hvaðeina annað sem þau bera ábyrgð á? Það er algjörlega galið að tryggja ekki fólki þennan endurhæfingarlífeyri, sérstaklega þegar hugtakið snemmtæk íhlutun hefur verið svo mikið í tísku. Það á að grípa þetta fólk strax. Að sjálfsögðu á að grípa þetta fólk strax. Er viljinn raunverulegur til að endurhæfa þetta fólk eða er hann það ekki?

Ég ætla ekkert að vera að lengja þetta, halda einhverja þrusuræðu og nýta allan minn ræðutíma hvað þetta varðar. En ég ætla samt sem áður að drepa niður í umsögn Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Krafa um endurhæfingu ungs fatlaðs fólks. Komið hafa upp tilvik þar sem einstaklingar með meðfædda fötlun eins og t.d. taugaþroskaröskun fái synjun á umsókn sinni um örorkumat eftir að hafa náð 18 ára aldri og er vísað til þess að endurhæfing sé ekki fullreynd.“

Hvers lags eiginlega kerfi er þetta? Ég varð vitni að því að fjölfatlaður einstaklingur sem var algerlega ósjálfbjarga þurfti, um leið og viðkomandi varð 18 ára gamall, að mæta í endurmat niður á Tryggingastofnun, alveg eins og hann hefði bara sprottið upp úr hjólastólunum og hlaupið af stað. Þetta er niðurrifsstarfsemi, virðulegi forseti. Þetta er alveg galið, ég get bara ekki skilið það. Mér er algerlega fyrirmunað að skilja að kerfið skuli vera svo gjörsamlega óeftirgefanlegt. Það er enginn heili á bak við það sem segir: Heyrðu, nei, það vantar báða fætur og báðar hendur á þennan einstakling og þá væntanlega er ástæðulaust að setja hann í eitthvert endurmat, hvað þá að starfsendurhæfa viðkomandi.

Með leyfi forseta, þá segir hér áfram:

„Við túlkun lögskýringargagna má ráða að markmið með endurhæfingarlífeyri eigi ekki við um fatlað fólk og enn síður við þann hóp einstaklinga sem hafa áður verið skilgreindir sem fötluð börn enda er fötlun almennt skilgreind sem langvarandi ástand í íslenskum rétti.“

Að lokum: Loksins þegar þrautagöngunni er lokið og einstaklingurinn er kominn með grænt ljós, kannski búinn að leggja umsóknina fram átta eða tíu sinnum þegar loksins viðkomandi dómarar inn í Tryggingastofnun, sem mér skilst að séu nú oftar en ekki bara félagsráðgjafar, hafna þessu ekki, þá kemur: Jú, allt komið, til hamingju með endurhæfingarlífeyrinn. En þú verður að koma aftur eftir tvo, þrjá eða fjóra mánuði.

Nú erum við að tala um að geta framlengt endurhæfingarlífeyri til allt að fimm ára. En það á að leggja á þessa einstaklinga sem eru enn í virku ferli í endurhæfingunni að byrja alveg upp á nýtt þessa sömu gömlu þrautagöngu með vottorð og alls konar bæklinga og bitlinga fyrir Tryggingastofnun. Til hvers? Það hefur orðið þannig að mjög margir hafa hreinlega fallið milli skips og bryggju vegna þess að það tekur oft og tíðum svo langan tíma að fá þetta í gegn og fá þetta samþykkt. Viðkomandi byrjar jafnvel strax og hann er kominn inn á endurhæfinguna að undirbúa það að sækja um hana aftur, sem hann verður að gera innan þriggja mánaða. En því miður getur tekið allt að þrjá til sex mánuði að koma því í gegn þannig að hann mun lenda algerlega undir valtaranum, virðulegi forseti. Þess vegna finnst mér að bragur væri á því að tryggja, ef raunverulegur vilji er til að taka utan um þennan þjóðfélagshóp, endurhæfa þetta fólk og gefa því kost á að ná bata, að þetta verði öðruvísi en svo að öllum líði nánast illa með að þurfa að ganga í gegnum þetta. Fólk á að geta glaðst yfir því að fá þessi tækifæri, þetta á ekki að vera eins og einhver refsivöndur. Það bara gengur ekki upp.

Um leið og má fagna því að það séu stafir á blaði sem segja: Heyrðu, endurhæfing. Þið fáið endurhæfingarlífeyri. Við viljum gera allt til að virkja ykkur úti í samfélaginu. Þá segi ég einfaldlega: Standið þá bara við það án þess að viðkomandi þurfi að ganga á milli Pontíusar og Pílatusar og viti oft ekki hvort hann er að koma eða fara í þessu kerfi.



[18:58]
Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um félagslega aðstoð, greiðslutímabil endurhæfingarlífeyris, það er verið að lengja það úr þremur árum í fimm. Hvort sem við þurfum að labba á milli Pontíusar og Pílatusar — einhver sagði að það væri ekki rétt, maður ætti að labba á milli Pontíusar og Heródesar, en það skiptir ekki máli, Pontíus, Pílatus, Heródes, við eigum ekki að þurfa að labba neitt í svona kerfi. Þeir sem eiga að hlaupa á milli allra þessara kerfa eru fatlaðir, veikir, slasaðir. Það er ætlast til þess að þeir hlaupi á milli stofnana og safni gögnum og það er bara einn tilgangur með því að hafa kerfið þannig. Það er til að draga það á langinn að þeir komist inn í kerfið, það er verið að reyna að þreyta viðkomandi svo að hann gefist upp á að reyna að komast inn í það kerfi sem hann á rétt á. Það er mjög einfalt mál að leysa þetta og það átti að byrja á því, áður en við byrjum á þessu, og það er að koma upp miðstöð endurhæfingar. Viðkomandi labbar þar inn og fær þar alla þjónustu. Hann getur líka, ef hann hefur aðstöðu til, sent á undan sér rafræna beiðni. Ef hann getur það ekki þá getur hann komið á staðinn og fengið aðstoð við að fylla út beiðnina og síðan sér miðstöðin um að fá það sem upp á vantar, allar upplýsingar um viðkomandi frá lækni og allt annað sem á þarf að halda.

Eins og staðan er í dag þá þarf viðkomandi að byrja á því að fara til læknis og ef hann er ekki með heimilislækni þá þarf hann einhvern veginn að ná því í gegn. Það er mjög erfitt að eiga við það fyrir fólk og við vitum að það getur tekið allt upp í tvo mánuði að komast til heimilislæknis. Og þegar þú kemst að hjá heimilislækninum þá þarftu jafnvel að finna einhver önnur gögn og síðan þarf að koma þessu til Tryggingastofnunar og hún tekur sér að lágmarki sex vikur til þess að vinna málið áður en það fer í ferli. Þetta sýnir okkur hversu fáránlegt þetta kerfi er.

Þegar þú ert kominn inn í kerfið þá byrjar sama þrautagangan aftur, liggur við um leið. Það er eitthvað að svoleiðis. Okkur var bent á það í velferðarnefnd af lækni að þetta er orðið algjört skrifræði fyrir þá og það sé lágmark að þeir geti sent inn vottorð sem gildi kannski í sex mánuði áður en farið er að heimta nýtt vottorð. Við vitum að í sumum tilfellum er það mikið lengur, það fer ekki á milli mála oft á tíðum að það mun taka jafnvel eitt, tvö, þrjú ár að endurhæfa viðkomandi og þá er það óskiljanlegt að það eigi á tveggja, þriggja mánaða fresti að vera eltast við einhver gögn til þess að segja kerfinu það sem kerfið veit.

Ef við ætlum að láta þetta virka þá verðum við að byrja á réttum stað, fara á þennan stað og gera hlutina á réttan hátt. Ég mun styðja þetta mál vegna þess að ég veit að þarna undir eru hópar, það er því miður byrjaður að safnast fyrir í endurhæfingarkerfinu hópur fólks sem á ekki að vera þarna inni og ætti að vera komið yfir á örorku og öfugt, fólk fyrir utan sem kemst ekki inn í kerfið. Ég vona heitt og innilega líka að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim sem eru að detta út úr kerfinu vegna þess að þeim er eiginlega hent á milli eins og heitri kartöflu og þá lenda þeir í félagsbótakerfinu. Það er betra að þeir séu þarna inni vegna þess að þarna fá þeir alla vega fullan örorkulífeyri. Þess vegna vona ég heitt og innilega að um leið og við samþykkjum þetta mál þá verði drifið í því að einfalda kerfið þannig að fólk geti gengið inn á einn stað, fengið allt sem á þarf að halda án þess að það þurfi að hlaupa út um allar trissur og það verði séð til þess að það þurfi ekki að fara strax af stað aftur til að eltast við sömu hlutina. Hlutirnir séu líka gerðir þannig að það sé metið hversu langan tíma fólk þarf að vera í endurhæfingu að lágmarki, hvort sem það eru fimm, sex mánuðir, ár og þá þurfi kannski að endurnýja.