153. löggjafarþing — 48. fundur
 13. desember 2022.
fjáraukalög 2022, 3. umræða.
stjfrv., 409. mál. — Þskj. 668, breytingartillaga 781 og 806.

[22:17]Útbýting:

[22:19]
Haraldur Benediktsson (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Hér við 3. umr. um fjáraukalagafrumvarp geri ég í örstuttu máli grein fyrir lítilli breytingartillögu sem er fyrst og fremst tæknilegs eðlis, þ.e. að við færum til framlag sem nefndin gerði tillögu um við 2. umr., um 77,3 millj. kr. Við færðum það einfaldlega á vitlausan lið í tillögu okkar og erum hér að gera millifærslu en gerð er nánari grein fyrir því í breytingartillögunni sem dreift hefur verið. Í stuttu máli kemur framlagið til vegna fræðslumála, vegna íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Það lenti einfaldlega á vitlausum lið í breytingartillögum í 2. umr. og við gerum tillögu um að það færist til mennta- og barnamálaráðherra hér við 3. umr.



[22:20]
Eyjólfur Ármannsson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Í fjáraukalögum eru ófyrirséð fjárútlát á árinu og eitt það merkilegasta hér, það sem er stærsti hluti þessara fjáraukalaga, er 14 milljarða heimild vegna lífeyrisauka LSR, sem breytingartillaga kom um núna fyrir 2. umr., ef ég man rétt, minnisblað frá ráðherra. Það er vegna þess að það er verið að breyta lífeyrissjóðakerfinu úr því að vera aldursskipt yfir í greiðsluskipt, svipað og þegar verið var að fara úr A-deild yfir í B. Samningurinn um þetta var gerður, ef ég man rétt, ég er ekki með minnisblaðið fyrir framan mig, árið 2016, og síðar um haustið var gerð breyting á lögum þar sem ríkið opnaði fyrir það að einstaklingar sem voru hættir að greiða til LSR fengju að komast inn í svokallaðan lífeyrisaukasjóð. Ekki var gert mat á þessu eða greining á kostnaðinum fyrir ríkissjóð við að fjölga einstaklingum sem áttu rétt samkvæmt þessu. Þeir áttu svokölluð geymd réttindi. Þetta var ekki metið á sínum tíma. Það voru mistök af hálfu ríkisins að gera þetta, að hleypa fleirum inn í kerfið þannig að einstaklingar sem voru ekki ríkisstarfsmenn gátu orðið ríkisstarfsmenn aftur og virkjað þessi réttindi, þessi geymdu réttindi. Kostnaðurinn við þetta var 14 milljarðar kr. Við fengum minnisblað um þetta núna korteri fyrir 2. umr. fjáraukalaga, ef ég man rétt, bara fyrir nokkrum vikum. Það er alveg klárt í mínum huga að það verður að rannsaka það nánar hvað átti sér stað í fjármálaráðuneytinu. Hvernig má það vera að Alþingi Íslendinga var ekki upplýst um þennan kostnað þegar þessi lög voru samþykkt?

Nú erum við að fá bakreikning upp á 14 milljarða kr. Það er algjörlega óásættanlegt. Við munum þurfa að samþykkja það að greiða þessa 14 milljarða í fjáraukalögunum. Vissulega er sanngirnissjónarmið á bak við þetta en það breytir því ekki að við verðum að geta lært af mistökum sem við gerum. Við getum borið þetta saman við Íslandsbankasöluna þar sem gerð voru mistök. Ég hef fært rök fyrir því. Ég get endurtekið þau. Fjármálaráðherra fær heimild til að selja bankann, það er ekki farið að stjórnsýslulögum með söluna. Það er ekki farið að lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, það er ekki gerð krafa um að lögaðilar upplýsi um raunverulegan eiganda þegar þeir gera tilboð, sem er sáraeinfalt, bara að hafa eina línu þar sem sagt er hver raunverulegur eigandi er. Það var ekki gert. Sama er í þessu máli. Undirbúningur var ónógur. Þetta mál var ekki undirbúið nægjanlega vel. Ekki var gerð nægileg greining á kostnaði. Það sama með Íslandsbankasöluna. Undirbúningurinn var ekki nógu góður. Ég get tekið þriðja málið, ÍL-sjóð. Það er reikningur upp á 450 milljarða kr. Það var mjög ágætt hjá hæstv. fjármálaráðherra að koma með skýrslu um það, leggja fyrir Alþingi og efna til umræðna um það hér í þinginu, en ekki að hann skyldi fara með þetta á blaðamannafund og segja hvað hann ætlaði að gera, þ.e. að slíta þessum bréfum sem myndi þýða eignarnám ef það væri gert með lögum. Það hafa komið lögfræðiálit, m.a. frá Róbert Spanó, fyrrverandi forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, nú prófessor við Háskóla Íslands og gestaprófessor við Oxford-háskóla. Það var örugglega greitt fyrir það lögfræðiálit eins og aðra vinnu sem hann og aðrir lögfræðingar inna af hendi en hann á líka starfsheiður að verja, stóran og mikinn starfsheiður. Í því áliti segir einfaldlega að ef hæstv. fjármálaráðherra fer að slíta skuldabréfunum frá 2004 þá sé það eignarnám og íslenska ríkið verði bótaskylt. Undirbúningur undir það mál var ekki nægilega góður.

Ég tel það vera skyldu mína í fjárlaganefnd og ég tel það vera skyldu allrar fjárlaganefndar að krefjast þess að þessi mál verði öll rannsökuð. Þessi lífeyrisaukasjóður, 14 milljarðar sem verið er að fara fram á og fjárlaganefnd samþykkti að verði greitt í fjáraukalögunum, langstærsti pósturinn þar — við eigum að hafa aga á þessu, krefjast þess að vita hvað átti sér stað nákvæmlega. Hvað fór úrskeiðis, hver voru mistökin? Ég vænti þess að hv. fjárlaganefnd, þar sem ég er fulltrúi fyrir Flokk fólksins og hef átt ágætt samstarf við aðra meðlimi, fari í þessa vinnu. Ég skora á alla fulltrúa í fjárlaganefnd að taka undir þessa beiðni. Þetta snýst ekki um pólitík. Þetta snýst um það að vinnubrögðin verði fagleg og við sem fjárveitingavald, æðsta stofnun landsins, gerum kröfu á stjórnsýsluna að vinna almennilega, undirbúa málin, greina þau almennilega. Hver er kostnaðurinn? Það var ekki gert, í engum af þessum þremur málum. Þetta eru 450 milljarðar ef bréfin í ÍL-sjóði fá að renna sitt skeið á enda, sem þau þurfa að gera, ef þau gera það ekki þá þurfum við að greiða bætur fyrir það. Ef dómstólar á Íslandi samþykkja það ekki þá verður farið með það til Strassborgar, til Mannréttindadómstóls Evrópu, og Ísland verður skuldbundið að þjóðarétti að greiða þetta. Það er veikt eignarréttarákvæði í 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu og ég get ekki ímyndað mér að dómstóll líti ekki á það ákvæði og skuldabréfin séu ekki varin eignarrétti. Þetta mál er langstærsta málið í fjáraukalögunum í ár.

Annað mál sem er mjög stórt er sjúkrahúsþjónusta. Það er farið fram á það, á málefnasviði 23, sjúkrahúsþjónusta, að Landspítalinn og Sjúkrahúsið á Akureyri fái 9,6 milljarða vegna Covid. Ég hef gert athugasemdir við þetta og óskað eftir upplýsingum um það hvort það sé raunverulega vegna Covid en ekki einhverrar vanfjármögnunar. Við fengum greiningu á því að þetta væri vegna Covid, ekki kannski fullnægjandi. Það er erfitt fyrir mig sem fulltrúa í fjárlaganefnd að gagnrýna það. En það er mjög stór póstur, 9,6 milljarðar. Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir Covid. Vissulega kom bylgja í upphafi ársins sem kostaði mjög mikið en að við skulum núna fá bakreikning upp á 9,6 milljarða vegna sjúkrahúsþjónustu vegna Covid — það er mjög há fjárhæð, svo að það sé sagt. Þetta er mjög stór póstur og mér finnst ég ekki hafa fengið nægilegar upplýsingar. Það er nú eitt við það að vera fulltrúi í fjárlaganefnd, mér finnst upplýsingar, sérstaklega úr heilbrigðiskerfinu, oft ekki vera nægjanlega góðar, sérstaklega ekki varðandi sjúkrahúsin. Gerð var breytingartillaga við fjárlögin um 750 milljónir vegna liðskiptaaðgerða. Ég óskaði eftir minnisblaði og vildi fá greiningu á því, ég á eftir að athuga í inboxinu hvort það sé komið, hvaða liðskiptaaðgerðir þetta væru. Þar var líka gerð breytingartillaga um 2 milljarða aukaframlag til sjúkrahúsa, það var til grunnrekstrar. Ég óskaði eftir því að fá greiningu á því hvaða grunnrekstur þetta væri, í hvað peningurinn ætti að fara. Ég hef ekki enn fengið þær upplýsingar. Það virðist vera að það snúist um undirfjármögnun, að bjarga því.

Annað mál sem er stórt í fjáraukalagafrumvarpi eru vextirnir. Við erum að greiða um 36 milljarða vegna vaxta og verðbóta. Það er verðbólga í ár og ríkið er að fara að greiða rúma 36 milljarða vegna verðbótaþáttarins. Það er nákvæmlega það sama og íslensk heimili eru að lenda í. Það kemur verðbólga, 10% verðbólga, þá leggst hún á höfuðstólinn. Þarna er íslenska ríkið að lenda í því að greiða 36 milljarða sem eru engir smápeningar. Þetta segir mér að við verðum sem lítið samfélag að sjá til þess að íslenska ríkið eða ríkissjóður sé ekki of skuldsettur. Það er mjög mikilvægt að við lækkum skuldir okkar sem allra mest. Ég hef fylgst með smáríkjum eins og t.d. Eistlandi. Þeir eru algerlega skuldlausir, mjög litlar skuldir, og það er mjög mikið öryggisatriði fyrir lítil samfélög. Íslenska hagkerfið er lítið hagkerfi, þetta er lítið samfélag, og það er mikilvægt að við séum ekki skuldsett. Við vorum ágætlega stödd fyrir Covid. Við gátum sett okkur í halla til að fjármagna það efnahagsáfall sem við urðum fyrir út af Covid af því að við vorum lítið skuldsett. Núna þurfum við aftur að safna í sjóði og greiða niður skuldir svo að við getum tekið á áföllum framtíðarinnar og byggt upp gott velferðarkerfi, góða innviði, góðar samgöngur, án þess að stór hluti af fjárlögum ríkissjóðs fari í vexti og verðbætur. Þetta er mjög mikilvægt. Við vorum líka ágætlega sett fyrir hrunið mikla 2008, við gátum tekist á við það af því að við vorum ekki mjög skuldsett. Þetta er stóra málið í heiminum í dag. Í Suður-Evrópu er það þannig að vextir á evrunni mega t.d. ekki hækka mikið. Þá mun evran sennilega hrynja af því að Suður-Evrópa mun ekki geta greitt af skuldum sínum ef vextir hækka mikið. Þannig er það. Vinur minn sem er hagfræðingur í Ósló var að benda mér á bók þar sem höfundur er einfaldlega að spá því að 29. október 1930, þegar kreppan mikla skall á, muni gerast aftur í framtíðinni, innan X ára, ég veit ekki hversu margra ára, ég veit ekki eftir hve mörg ár en það mun gerast af því að ríki heims eru orðin svo rosalega skuldsett. Það var nákvæmlega það sem gerðist í kreppunni miklu. Þá hrundi spilaborgin 29. október 1930. Þá hófst kreppan mikla. Það er verið að spá því núna út af skuldsetningu í heiminum og skorti á verðmætasköpun til að borga upp öll þessi lán sem búið er að lána núna, það er búið að dæla út peningum frá hruninu 2008 og svo líka í Covid. Það er ekki verðmætasköpun til að borga af þessum lánum. Hún er ekki til staðar á Vesturlöndum og þá mun koma skellur. Hvenær sem það verður — við getum lengt aðeins í þessu en við vitum ekki alveg hversu lengi — þá verður Ísland að vera vel í stakk búið, vera ekki skuldsett eins og önnur ríki. Við þurfum ekki annað en að sjá forsíðuna á The Economist, „Frozen Out“, eða frosin úti þar sem menn eru einfaldlega að spá því að Evrópa muni ekki ráða við orkukreppuna sem er í gangi í dag. Þýsk fyrirtæki geta ekki keppt með dýra orku. Fyrirtæki í Suður- Noregi geta ekki keppt, geta ekki verið í rekstri, meira að segja bakarí í Suður-Noregi getur ekki keppt við bakarí í Norður-Noregi út af rafmagnskostnaði. Það er ekkert sérstaklega bjart fram undan og ég tel að við eigum að búa okkur undir það og haga fjármálum okkar þannig að við undirbúum okkur. Undirbúum allar sölur vel, sölu á Íslandsbanka, lærum af mistökum okkar varðandi Íslandsbanka, ÍL-sjóð og lífeyrisaukasjóð LSR. Þannig getum við einungis lært og verið öguð til framtíðar. Þetta er grundvallaratriði. Verðmætasköpun á Íslandi er mjög mikil. Við erum svo heppin að við búum við miklar auðlindir. Góð staða er ekki vegna þess að Íslendingar hafi verið svo rosalega góðir að stjórna sér heldur vegna þess að við búum við gjöfulustu fiskimið í heimi, gríðarlega orku og einstaklega fallega náttúru. Ferðamenn eru farnir að koma hingað aftur og það er það sem keyrir hagvöxtinn áfram. Við í þessu húsi þurfum að sjá til þess að það sé agi á ríkisfjármálunum og það er skylda fjárlaganefndar og ég vona að við sjáum okkur hag í því að fara í þá vinnu að finna hvað gerðist varðandi ÍL-sjóð, lífeyrisaukasjóð LSR og líka varðandi söluna á Íslandsbanka.



[22:34]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferðina og sérstaklega áhugavert að heyra hvernig nýliði í fjárlaganefnd upplifir ferlið þar og þennan áþreifanlega skort á gagnsæi og hvað það gengur oft treglega að kalla gögn út úr kerfum hins opinbera, hvað það er erfitt að sækja allar upplýsingar sem við ættum að vera að byggja okkar ákvarðanir á. Ég nefni gjarnan sem dæmi að á 151. löggjafarþingi þá voru framlög til loftslagsmála tekin saman í rammagrein í fjármálaáætlun sem var síðan samþykkt sem fjármálaáætlun 2022–2026. Þar voru öll framlög til loftslagsmála bara á einum stað, sett upp í eitt myndrit, skýrt og aðgengilegt. Við ákváðum þegar fjármálaáætlun var lögð fram í vor að kalla eftir sambærilegum gögnum fyrir þá áætlun og fjárlaganefnd bað um þetta fyrir hönd umhverfis- og samgöngunefndar í apríl. Svarið kom í nóvember og var engan veginn eins aðgengilegt og það var í áætluninni sjálfri tveimur árum áður. Þannig að það er ekki nóg með að það sé stundum erfitt að nálgast upplýsingarnar, stundum minnkar aðgengi að þeim.

Við 2. umr. var felld tillaga, sem var sameiginleg að mig minnir fjögurra stjórnarandstöðuflokka, um að fylla upp í gatið hjá sveitarfélögunum varðandi fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk sem var áætlað að hlypi á einum 5 milljörðum. Vegna þess að þessi tillaga var felld þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort það hafi ekki legið upplýsingar fyrir í nefndinni um þetta. Af hverju voru það bara fulltrúar fjögurra stjórnarandstöðuflokka sem sáu þetta gat, sem ég hélt að við værum öll sammála um að væri til staðar? (Forseti hringir.) Nema stjórnarliðar studdu ekki þessa tillögu, felldu hana í þingsal.



[22:37]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Varðandi upplýsingaöflunina þá er það ákveðið vandamál að oft eru upplýsingarnar ekki framreiddar á réttan hátt eins og t.d. ummæli forsætisráðherra í gær um að meiri hlutinn ætlaði að bjóða betur en gert er í tillögu Samfylkingarinnar. Þau drógu tillögur sínar til baka og svo sjáum við í morgun að það eru 600 milljónir komnar aukalega. Svo segir í grein í dag að það sé 5 milljarða kostnaðarauki í óbreyttu kerfi og svo sjáum við líka að það eru 2 milljarðar að koma á næstu tveimur árum, 600 milljónir í ár og svo 1.400 milljónir á næsta ári vegna launakostnaðar varðandi NPA-samningana. Það er stöðugt stríð að fá réttar upplýsingar, svo maður skilji þær og þetta sé einfalt. Og bara orðalagið, „jargonið“, það eru alveg fræði út af fyrir sig. Maður kallar ekki allt ömmu sína, búinn að vera að lesa og pæla í lagatexta undanfarin ár. Það á að hafa þetta eins einfalt og hægt er en það er ekki verið að gera það. NPA-samningarnir eru vanfjármagnaðir. Þetta er réttur samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og íslenska ríkið á að borga 25% og við höfum ekki verið að standa okkur varðandi fjármögnunina og það vantar meiri peninga. Það eru 44 einstaklingar núna sem hafa ekki fengið NPA-samninga. Við þurfum bara að sjá til þess að peningarnir fáist. Það er verið að brjóta rétt á þessu fólki. Það féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra þar sem sagði að það skipti engu máli að það væri búið að skilyrða samninginn við fjármögnun ríkisins, það er meira að segja farið að gera það, var gert í þessu tilviki, og dómstóllinn sagði: Þið hafið enga lagastoð til að gera þetta, skiptir engu máli hvar peningurinn er. Íslenska ríkið, Alþingi Íslendinga, ber ábyrgð líka á fjármögnun sveitarfélaganna á endanum. Það erum við sem gefum þeim tekjustofna. Og varðandi þetta mál sem hv. þingmaður nefnir sérstaklega þá er klárt mál að það er gat þarna, það þarf að fjármagna það. (Forseti hringir.) Við í minni hlutanum ráðum þessu ekki. Þetta er spurning sem ætti að spyrja meiri hlutann að. Ég tel að við eigum að fjármagna þetta.



[22:39]
Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Mér finnst þetta einmitt svo merkilegt. Minni hlutinn er nefnilega mjög oft ekki bara í einhverri pólitík í tillögugerð sinni, sérstaklega við fjárlög, heldur er einfaldlega að grípa ábendingar sem koma frá sérfræðingum eða hagsmunaaðilum — getur maður kallað sveitarfélögin það, hitt stjórnsýslustigið sem sinnir ýmissi grunnþjónustu við borgarana? Þarna er gat. Það hefur legið fyrir og strax þegar lög um NPA voru sett þá lá fyrir að þetta væri væntanlega vanfjármagnað af sjónarhóli sveitarfélaganna séð. Það hefur síðan orðið reyndin þegar framkvæmdin hefur komist í fast form og þegar sveitarfélögin benda á það þá er bara annar helmingur þingsins sem opnar eyrun. Upplýsingarnar liggja fyrir. Vilji Alþingis er skýr varðandi það að veita þessa þjónustu en allt kemur fyrir ekkert. Nú er oft talað um að samstarfið í fjárlaganefnd sé með miklum ágætum og mér sýnist það nú á því hvernig nefndarfólk vinnur saman. Þetta er hópur sem ver meiri tíma með hvert öðru en væntanlega með nokkrum öðrum lifandi verum meðan þau eru að afgreiða fjárlög, alla vega. Hvers vegna sigtast svona mál, sem maður myndi halda að væri þverpólitískt samstöðumál eins og að fullfjármagna NPA-samningana, þannig að það skapast þessi togstreita á milli ríkis og sveitarfélaga? Þetta er algerlega óþörf togstreita sem kemur niður á þjónustuþeganum sem gæti ekki verið meira sama úr hvaða vasa þessi peningur kemur. Af hverju nær fólk ekki saman um þetta?



[22:41]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Þetta er ákveðin grundvallarspurning og ég veit að flokksfélagi hv. þingmanns, hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, fulltrúi flokks Pírata í fjárlaganefnd, er óþreytandi við að spyrja þessara spurninga. Málið er þetta: Í stjórnarskránni segir að ekkert gjald megi greiða úr hendi ríkissjóðs nema samkvæmt fjárlögum eða fjáraukalögum. Þetta er ekkert einsdæmi. Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, þar sem fjallað er um NPA-samningana í bráðabirgðaákvæði eins og við vorum að fjalla um áðan, eru vanfjármögnuð af því að fjárveitingavaldið setur ekki nægjanlega mikinn pening í þetta. Þetta er að gerast líka varðandi 69. gr. almannatryggingalaga, nákvæmlega sama vandamál. Í lögunum er tryggt að bætur almannatrygginga skuli fylgja launaþróun og ekki vera lægri en verðlagsþróun. Það er búið að brjóta þetta í mörg ár, meira en áratug, sem leiðir til kjaragliðnunar. Svo erum við líka með lög um Ríkisútvarpið en þar á að fara eftir lögunum, þar er mikilvægt að fara eftir lögunum. Nefskatturinn sem á að fara til RÚV hækkar samkvæmt verðbólgu og fólksfjölda í landinu og fjárveitingavaldið getur alveg sagt: Þið fáið ekki krónu af þessum nefskatt, það segir í stjórnarskránni. En þar þarf að fara eftir lögunum. Við vorum með breytingartillögu í Flokki fólksins um að þessar 290 milljónir færu til íslenskrar kvikmyndagerðar, til Kvikmyndasjóðs. Það var fellt að sjálfsögðu. Svona er þetta aftur og aftur. Öryrkjar og aldraðir eiga rétt á því samkvæmt stjórnarskrá að fá aðstoð, 69. gr. er til að tryggja þennan rétt, tryggja þessa aðstoð en samt er ekki farið eftir því. Svo er valið að fara eftir lögum um RÚV, það er risamál. Það er nákvæmlega það sama með lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. (Forseti hringir.) Þar er ekki nægileg fjármögnun. Þetta er bara spurning um forgangsröðun og ekkert annað. En svo hefur líka stór hluti af þessu ekkert (Forseti hringir.) með pólitík að gera. Þetta er bara spurning um fagleg vinnubrögð og sérstaklega í fjárlaganefnd, að fá réttar upplýsingar og fjalla um þær á faglegum forsendum. (Forseti hringir.) Það er ekki allt pólitík sem á sér stað hérna.

(Forseti (ÁLÞ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk. )



[22:44]
Gísli Rafn Ólafsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Fjáraukalög, það er dálítið athyglisvert að reyna að átta sig á því hverju er verið að bæta við. Ég hélt alltaf að fjáraukalög, áður en ég kom hingað á þing, væri það að allt í einu yrðu til einhverjir peningar og það þyrfti að búa til einhver lög í kringum þá. En svo komst ég að því að þetta er í raun uppfærsla í lok ársins, getur reyndar gerst fyrr á árinu líka en er núna oftast í lok ársins, þar sem verið er að stilla af það sem kannski var vitlaust metið en einnig að takast á við þá hluti sem hafa breyst á árinu.

Það er nú þannig, ef maður les í gegnum fjárlagafrumvarpið og reynir að fletta sig í gegnum hin ýmsu málefnasvið, að í raun eru einkum þrjár ástæður gefnar fyrir því að það er hækkun eða lækkun. Sú fyrsta er stríðið í Úkraínu og þær afleiðingar sem það hefur haft á hin ýmsu málefnasvið. Í öðru lagi er enn að finna, í frumvarpi um fjáraukalög, óvæntan kostnað vegna heimsfaraldurs. Það er kannski svolítið skrýtið að hann hafi verið óvæntur vegna þess að við vorum í miðjum heimsfaraldri þegar fjárlögin fyrir síðasta ár voru samþykkt. Því hefði kannski mátt sjá eitthvað af þessu fyrir, en við skulum ekki vera of kröfuhörð á það. Það þurfti að taka ákvarðanir fyrr á þessu ári sem kannski var ekki búið að gera ráð fyrir. Í þriðja lagi þá er ekki alltaf hægt að spá nákvæmlega fyrir um allt. Við sjáum það kannski einna helst í því að það koma breytingar á hlutum. Við getum bara tekið eitt dæmi, við vitum ekki hvort fjöldi barna á næsta ári mun verða svipaður og á þessu ári; kannski ákveða Íslendingar allt í einu að eignast fullt af börnum á næsta ári og það hefur t.d. áhrif á fæðingarorlof og ýmislegt annað.

Mig langaði að nota tímann og renna örstutt í gegnum frumvarpið sem við erum með hér eftir 2. umr. og þá er búið að taka tillit til margra þátta. Mig langaði aðeins að stikla á stóru, bara þannig að fólk átti sig á því hverju verið er að breyta. Heildarupphæðirnar eru nú bara ágætlega háar. Það er verið að breyta rúmlega 80 milljörðum, getur það passað? Við finnum út úr því. Við fáum einhvern sem er góður í að lesa út úr heildartölunni til að finna það út.

Ég ætla að renna hratt í gegnum þetta, bara eins og þetta er sett upp. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að undir liðnum samstarf um öryggis- og varnarmál þurfti að bæta í. Við sáum svo sannarlega ekki fyrir okkur innrás Rússlands í Úkraínu þegar við vorum að samþykkja fjárlög í fyrra. Þar var bætt við um 650 milljónum. Þar eru 400 milljónir í ýmsan stuðning tengdan vörnum og 250 milljónir í hergagnaflutninga. Þess má geta, ef ég man rétt, að við erum að bæta svipaðri tölu við í fjárlögunum fyrir næsta ár og er ánægjulegt að sjá að verið er að gera það.

Hoppum hratt yfir. Næsta málefnasvið sem mig langaði að nefna er nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinar. Þar erum við með ákveðin endurgreiðslukerfi í gangi, bæði fyrir kvikmyndagerð og rannsóknir og þróun. Aftur er erfitt að vita hversu margar kvikmyndir verða teknar upp á Íslandi og hversu mikið við þurfum að greiða í þetta. Við erum reyndar að stilla þetta betur af og færa þetta nær raunveruleikanum í nýju fjárlögunum en í þessum fjáraukalögum var 1.750 milljónum bætt við vegna endurgreiðslu kvikmyndagerðar og svo voru 60 milljónir settar í nýsköpun tengda heilbrigðislausnum.

Ef við hoppum næst yfir í flokk 09.10, sem er löggæslan, þá er þar verið að bæta við samtals um 380 milljónum, svona nokkurn veginn. Stærstu tveir póstarnir eru tengdir auknum kostnaði ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna kórónuveirunnar. Það eru 371 milljón og svo eru 30 milljónir í réttargæslugátt sem ég fjallaði um þegar við vorum að ræða fjárlögin, góð lausn til að auka innsýn brotaþola og gerenda í það hvernig mál þeirra standa. Það er líka ánægjulegt að sjá að á milli umræðna, eða þegar við vorum að greiða atkvæði í 2. umr., bættust 150 milljónir við í fullnustumál en það eru fangelsismálin. Það er viðbót við 28,1 milljón sem var búið að eyrnamerkja vegna aukins kostnaðar vegna kórónuveirufaraldurs í fangelsum. Þessum 150 milljónum er ætlað að tækla sumt af þeim uppsafnaða fjárhagsvanda sem var í fangelsum og munu vonandi nýtast vel, auk þess sem verið er að auka fjárframlag á næsta ári, ef ég man rétt, sem vonandi leiðir til þess að gerðar verða bætur og ýmsar lagfæringar og annað varðandi fangelsismál hér á landi.

Undir liðinn samgöngur eru settar 300 milljónir í almenningssamgöngur. Ég veit að margir hefðu viljað sjá hærri upphæð en hver króna skiptir máli þannig að það er ánægjulegt. Undir landbúnaðarmálum er ansi há upphæð. Það eru alveg 2 milljarðar, u.þ.b. 2,2, sem koma inn í stuðning við bændur. Ástæðan fyrir því er líka nokkuð sem við höfum heyrt nokkrum sinnum áður, Úkraína, hærri kostnaður við áburð og ýmislegt annað, þannig að það er mjög skiljanlegt. Það er líka verið að bæta við fjármagni í Bjargráðasjóð upp á 30 milljónir sem er mjög ánægjulegt að sjá. Við vorum með umræðu hér fyrr í mánuðinum, ef ég man rétt, um hvort sameina ætti hann Náttúruhamfarasjóði. Það verður athyglisvert að sjá hvað gerist í því. Hvað getum við farið í fleira? Jú, það er ánægjulegt að sjá styrk hér upp á 146 milljónir til Þjóðleikhússins vegna kórónuveirufaraldursins, 450 milljónir sem voru settar til tónlistar- og sviðslistafólks til þess að bæta upp vegna kórónuveirunnar.

Einnig er ánægjulegt að sjá, undir íþrótta- og æskulýðsmálum, að þar er bæði verið að bæta við 130 milljónum til barna og fjölskyldna eftir kórónuveirufaraldurinn og 450 milljónum til íþróttafélaga. Eins og þið heyrið er ég að fara frekar hratt í gegnum þetta og stikla á stóru. En það er líka ánægjulegt að sjá að þegar við förum undir skólastigin er verið að bæta við peningum í bæði leik- og grunnskóla og eins í framhaldsfræðslu til þess að auka við íslenskukennslu fyrir börn frá Úkraínu en líka almennt til leikskóla og grunnskóla til að geta betur tekið á móti börnunum frá Úkraínu.

Stærstu flokkarnir sem eru að breytast eru tengdir sjúkraþjónustunni og heilbrigðiskerfinu. Ófyrirséður kostnaður Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri er samtals 9,5 milljarðar. Það er verið að setja peninga í heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og heilsugæsluna vegna kórónuveirufaraldursins, Sjúkratryggingar Íslands fá meira fjármagn vegna kórónuveirufaraldursins; 260 milljónir í aukinn kostnað við tannlækningar, þannig að vonandi er tannheilsa íslenskra barna aðeins að batna. Það er líka ánægjulegt að sjá 84,3 milljónir settar í geðheilsu fanga og 50 milljónir í neyslurými sem við höfum verið að þrýsta mikið á. Sjúkraflutningar, þar er verið að auka við fjármagn og aftur vegna kórónuveirufaraldursins. Það er líka ánægjulegt að sjá að vegna ferðaheimilda fyrir fólk innanlands, þ.e. að fólk fái niðurgreiddar ferðir utan af landi til að sækja sjúkrahúsþjónustu hér á höfuðborgarsvæðinu, verður bætt við 6,1 milljón; það eru smápeningar en skipta miklu máli fyrir það fólk sem í hlut á. Það er rúmur milljarður sem fer í hjúkrunarheimilin vegna kórónuveirufaraldursins og lyf og lyfjakostnaður hækkar heilmikið, samtals um 3,2 milljarða. Það skýrist þannig að um 2,6 af þessu er hreinlega endurmat á kostnaði en inni í þessu eru til viðbótar 306 milljónir sem fara í Covid-tengd lyf. Við eyddum líka 49 milljónum í öndunarvélar, það er ánægjulegt að sjá það kom hingað inn en það er ekki há upphæð allt í allt.

Þegar kemur að örorkubótunum þá eru nokkrar breytingar þar. Dómur féll um framfærsluuppbót sem kostaði ríkið 2,8 milljarða. Þann 1. júní var tilkynnt 3% hækkun bóta og það kostaði 1,5 milljarða og svo erum við núna að samþykkja eingreiðslu sem kostaði 650 milljónir. Barnabótaaukinn sem var kynntur í maí er 1,1 milljón. Fæðingarorlofið, sá tími sem fólk er að fara í fæðingarorlof hefur aðeins lengst en þeim hefur einnig fjölgað sem fara í fæðingarorlof.

Ég ætla að nota þær mínútur sem eftir eru til þess að tala um mál sem ég lagði fram við 2. umr., en því miður var ekki tekið tillit til þess. Þannig var að a.m.k. 1.183 milljónir voru lagðar í kostnað vegna Úkraínu, sem lagðist á málefnasvið 35, alþjóðlega þróunarsamvinnu. Til að koma til móts við það á þessu ári er í fjáraukalögunum 400 milljónum bætt inn á þetta málefnasvið. Ég lagði til að þetta yrði að fullu bætt, þ.e. að öðrum 783 milljónum yrði bætt inn þannig að hægt væri að halda áfram stuðningi við önnur brýn alþjóðleg verkefni. Því miður hlaut sú tillaga mín ekki brautargengi í meðförum þingsins en við höldum áfram að berjast um það í næstu fjárlögum. Ef hækkanir eru miklar til Úkraínu munum við að sjálfsögðu berjast fyrir því að í næstu fjáraukalögum, fyrir 2023, verði tekið meira á þeim kostnaði.



[23:00]
Inga Sæland (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Þá erum við loksins komin í fjáraukalagafrumvarpið okkar góða. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu við fjáraukann um að við bætist nýtt málefnasvið og nýr málaflokkur: 28, Málefni aldraðra. 28.30, Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur. Fjárheimildir hækki þannig að framlag úr ríkissjóði málaflokksins verði 126 millj. kr.

Greinargerð: Lagt er til að hækka framlög á málefnasviði 28 svo að greiða megi 60.300 kr. eingreiðslu í desember til ellilífeyrisþega sem fá greiddan óskertan ellilífeyri almannatrygginga, þ.e. hafa lægri tekjur en sem nemur frítekjumörkum 3. og 4. málsliðar 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar á ársgrundvelli. Samkvæmt upplýsingum sem við í Flokki fólksins fengum í morgun frá Tryggingastofnun ríkisins tekur tillaga okkar hér og nú til 2.080 einstaklinga. Við erum búin að smætta hana mikið niður frá því sem var þegar við lögðum hana fram áður þar sem henni hafði verið hafnað. Hvað sem verður um hana þegar kemur að atkvæðagreiðslu þá er hún a.m.k. hér til staðar og við mælum fyrir henni.

Í hópi þessara 2.080 einstaklinga sem tillagan nær utan um núna eru 1.032 þeirra öryrkjar sem fá nú ellilífeyri í stað örorkulífeyris, hópurinn sem ég hef ítrekað verið að benda á að hefur stigið yfir þröskuldinn við að verða 67 ára, margir hverjir misst svokallaða aldurstengda örorkuuppbót og eru í rauninni langt undir lágmarksframfærsluviðmiði. Það er rétt að taka fram að tillagan nær ekki til fólks sem dvelur á hjúkrunarrýmum enda fellur ellilífeyri þeirra niður eftir sex mánaða dvöl þar, samanber 21. gr. laga um málefni aldraðra og 48. gr. laga um almannatryggingar. Gert er ráð fyrir að lögð verði til breyting á lögum um almannatryggingar til að tryggja að þessi viðbótargreiðsla verði skattfrjáls og hafi ekki áhrif á aðrar greiðslur til ellilífeyrisþega.

Þá legg ég líka til hækkun á framlögum um 149 millj. kr. á málefnasviði 32 til að styrkja hjálparstofnanir sem úthluta matargjöfum og í mörgum tilvikum fatnaði og nauðsynjum til handa fátæku fólki. Loks er lagt til að lækka fjárfestingarframlög um 5.981 millj. kr. og falla frá kaupum ríkisins í höfuðstöðvum Landsbankans við Austurbakka. Ég hef ítrekað talað um að okkur í Flokki fólksins þykir alltaf að við eigum að fjárfesta í fólki fyrst og setja það ævinlega í fyrsta sæti og forgangsraða fjármunum svo að allir megi búa við mannsæmandi kjör. Þessir tæplega 6.000 milljarðar sem hæstv. fjármálaráðherra óskar hér heimilda til í fjáraukalögum eru betur komnir að mati Flokks fólksins í málefni fólks sem þarf á hjálp okkar að halda.

Ég ætla ekki að halda frekari ræðu um þetta. Ég mæli hér fyrir þessum breytingartillögum við fjáraukalögin og svo sjáum við til hvað um þær verður, hvort við fylgjum þeim eftir í atkvæðagreiðslu eða hvernig það verður.