153. löggjafarþing — 53. fundur
 23. janúar 2023.
notkun rafvopna.

[15:41]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Rafbyssur eru tæki sem ætlað er að stöðva einstaklinga sem sýna lögreglu ógnandi hegðun eða óhlýðni við tilmælum lögreglu. Dómsmálaráðherra hefur nú ákveðið með einu pennastriki að vopna almenna lögreglumenn slíkum vopnum. Dómsmálaráðherra tók þessa ákvörðun sjálfur án aðkomu ríkisstjórnar, án lýðræðislegs samtals við þing og þjóð og vonar hann að fyrstu byssurnar verði komnar í notkun um mitt ár. Lítið hefur hins vegar heyrst frá dómsmálaráðherra um hvernig farið skuli með áhættuna af því að nota slík vopn á almenna borgara, annað en að samkvæmt regludrögum ráðherra megi ekki beita rafvopnum gegn einstaklingum í, með leyfi forseta, áberandi slæmu líkamlegu ástandi eða konum sem eru augljóslega þungaðar.

Forseti. Ég viðurkenni að þetta orðalag sló mig. Getur verið að það sé ætlun ráðherra að leyfilegt sé að nota rafbyssur gegn einstaklingum sem eru í sérstökum áhættuhópi, bara svo lengi sem það er ekki augljóst? Við vitum um fjölmörg dæmi þess að almennir borgarar verði fyrir varanlegum skaða eða dauða eftir hafa verið skotnir með rafbyssu. Notkun lögreglu á rafbyssum við handtökur erlendis hefur gjarnan verið bendluð við andlát fólks í svokölluðu æsingsóráði. Af þessu tilefni spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Hvernig ætlar ráðherra að tryggja að rafbyssum verði ekki beint gegn fólki með alvarleg geðræn vandamál, með fíknivanda eða undirliggjandi sjúkdóma, með gangráð t.d. eða gegn óléttum konum sem eru ekki augljóslega þungaðar?



[15:43]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað hægt að orða það þannig að ráðherra hafi ákveðið þetta með einu pennastriki — þau eru reyndar nokkur pennastrikin þegar skrifað er undir reglugerðir þó það sé ekki nema nafnið manns — og gagnrýnt að þetta hafi ekki verið gert eftir að hafði átt sér stað samtal við þing eða aðra. Ég vil bara taka það fram sérstaklega, virðulegur forseti, að þessi ákvörðun var tekin eftir mjög vandaðan undirbúning, mjög langan aðdraganda þar sem það hefði í raun ekki þurft að fara fram hjá neinum að þessi ákvörðun var í burðarliðnum. Þetta hef ég ávarpað í fjölmiðlaumræðu á undanförnum mörgum mánuðum, sagst vera að undirbúa þessa reglugerð og þær reglur sem um það gilda án þess að kallað hafi verið eftir nokkurri sérstakri umræðu um það. Þessi ákvörðun er fyrst og fremst tekin á grundvelli þess að auka á öryggi lögreglumanna. Það er fullt tilefni til, virðulegur forseti. Staðan í þeirra störfum hefur orðið miklu alvarlegri á undanförnum fáum árum heldur en hún var fyrir nokkrum árum og afleiðingarnar eru augljósar. Það er mikið meira um slys á lögreglumönnum og meira um óhöpp gagnvart þeim sem þeir eru eiga við þar sem menn lenda í líkamlegum átökum.

Það er horft mikið við þessa ákvörðun til reynslu annarra þjóða. Reynsla annarra þjóða sem við berum okkur gjarnan saman við er mjög góð. Reynslan sýnir að þetta dregur svo nemur tugum prósenta úr slysum á lögreglumönnum og einnig á þeim sem þeir eru eiga við á hverjum tíma. Reynsla sýnir einnig að það þurfi sjaldnast að grípa til þessara varnarvopna heldur sé nóg að þau séu til staðar og þannig verði ekki úr þessi líkamlegu átök sem kallað er eftir. Ég get komið betur að starfsreglunum í kringum þetta en auðvitað eru mjög strangar reglur sem gilda um alla valdbeitingu lögreglu. Það á jafnt við um þetta eins og önnur varnarvopn sem lögregla hefur.



[15:45]
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Í Bandaríkjunum, þar sem notkun þessara vopna er útbreidd, er talið að síðustu 20 ár hafi yfir þúsund manns látist eftir að hafa fengið raflost úr rafbyssu í höndum lögreglu. Samt segist dómsmálaráðherra ekki hafa áhyggjur af innleiðingu slíkra vopna hér á landi, sami ráðherra og þurfti á dögunum að draga til baka ummæli sín í fjölmiðlum um hóp flóttafólks sem hann taldi vera hér á landi en fór með rangt mál og það ekki í fyrsta skipti. Ráðherra staðhæfir hér að undirbúningur hafi verið vandaður og langur að þessari reglugerð, þessari reglusetningu. Hann staðhæfir enn fremur að reynslan af þessum vopnum sé góð í nærliggjandi löndum. Því spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra: Á hverju byggir hann þessar staðhæfingar sínar? Ég fer fram á að ráðherra deili þeim gögnum með þinginu svo hægt sé að taka mark á honum. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem vill auka öryggi lögreglumanna sem við tökum öll undir: Hvernig ætlar hann að tryggja öryggi almennra borgara? Ég óska eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra svari fyrri spurningu minni.



[15:47]
dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér er fullyrt að um 1.000 manns eða fleiri hafi látist í Bandaríkjunum vegna þessara rafvarnarvopna. Ég get ekki útilokað það. Ég þekki ekki þær tölur nákvæmlega en það er vissulega þannig að þegar verið er að beita vopnum eða varnarvopnum af einhverju tagi þá geta hlotist af því alvarlegir skaðar. Það liggur í augum uppi. Það á jafnt við um kylfur og annan slíkan búnað sem eru varnarvopn lögreglu í dag, auk skotvopna í þeim tilfellum sem það á við. Eins og ég sagði áðan erum við að horfa til þeirra reglna sem gilda í öðrum löndum í nágrenni við okkur. Við erum ekki að horfa til Bandaríkjanna í þessum efnum. Við erum fyrst og fremst að horfa til Evrópulanda og þeirrar góðu reynslu sem er hjá nágrannaþjóðum okkar þar í þessum málum. Það er sjálfsagt að deila gögnum með þinginu varðandi þetta. Til eru vandaðar skýrslur um þetta. Ég verð á fundi allsherjar- og menntamálanefndar í fyrramálið til að gera nánari grein fyrir þessu.