153. löggjafarþing — 54. fundur
 24. janúar 2023.
dagskrártillaga.

[13:34]
Forseti (Birgir Ármannsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Eins og tilkynnt var á síðasta þingfundi hefur forseta borist dagskrártillaga, svohljóðandi:

„Undirrituð gerir það að tillögu sinni, í samræmi við 1. mgr. 77. gr. laga um þingsköp Alþingis, að á dagskrá næsta fundar verði þau dagskrármál sem forseti Alþingis leggur til, að því þó undanskildu að út af dagskrá fundarins verði tekið 382. mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, alþjóðlega vernd. Ég óska eftir því að þessi tillaga verði borin upp til afgreiðslu í samræmi við áðurnefnda grein þingskapa.“

Undir bréf þetta ritar Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir. Fer nú fram atkvæðagreiðsla um tillöguna.



[13:35]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Að loknum umræðum um störf þingsins og sérstökum umræðum er á dagskrá þingfundar frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga sem hefur það helsta markmið að skerða réttindi fólks á flótta og eru uppi margvíslegar vísbendingar um að efni frumvarpsins brjóti gegn stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum Íslands. Það skýtur afar skökku við, miðað við ástandið í þjóðfélaginu, að stjórnarmeirihlutinn hér á þingi vilji setja þetta mál í forgang. Neyðarástand ríkir í heilbrigðiskerfinu og fram undan er mikil dýrtíð vegna verðbólgu sem heimilin eru þegar farin að finna fyrir. Ég tek því undir tillögu hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og legg til að Alþingi fresti þessu máli og taki fyrir brýnni mál sem þjóðin krefst þess af okkur að leysa.



[13:36]
Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að þingflokkur Samfylkingarinnar leggst eindregið gegn þessu frumvarpi og það mun koma fram í þeim ræðum sem við munum halda hér á meðan málið er á dagskrá. Það breytir því ekki að það skiptir líka máli þegar gert er samkomulag að maður virði slíkt. Fyrir jól var það hluti af þinghléssamkomulagi að þetta mál færi af dagskrá og yrði sett á dagskrá í upphafi vorþings eftir að allsherjar- og menntamálanefnd hefði fjallað um málið í nefndavikunni síðustu. Þess vegna munum við ekki greiða atkvæði um þessa tillögu.



[13:37]
Hildur Sverrisdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem hefur í nokkur ár verið til umfjöllunar og hefur síðan í haust farið í gegnum gríðarlega vandaða vinnu af hálfu þingsins þar sem ýmsum sjónarmiðum hefur til að mynda verið mætt. Það er ekkert nýtt í því að minni hluti vilji gjarnan vera í meiri hluta, en það er ekki svo. Og mér þykir vont að sjá að þeir sem alla jafna hafa talað um gildi og mikilvægi lýðræðis vilji samt hafa það að engu þegar það hentar og vilji hér í staðinn trekk í trekk taka þingið og dagskrá þess í gíslingu bara af því að það hentar þeim í staðinn fyrir að málið fái að fara í sinn lýðræðislega farveg þar sem fólki gefst kostur á að segja skoðun sína á málinu og greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu eins og reglur kveða á um. Ég mun því ekki samþykkja þessa tillögu. Mér þykir líka vont að sjá sýndarmennsku þess efnis þar sem allir hér inni vita að það er hægt að fjalla um mörg mikilvæg mál í einu hér á Alþingi.



[13:38]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Við í Viðreisn styðjum ekki þetta mál en ég vil segja eins og var sagt hér á undan: Við gerðum samkomulag fyrir áramót við stjórnarmeirihlutann og að sjálfsögðu viljum við standa við það samkomulag. Efnislegar umræður eru engu að síður eftir hér í þinginu.

Varðandi hins vegar ákall um lýðræði þá vil ég líka benda á að hæstv. forsætisráðherra sagði áðan í fréttum að það ætti að kalla málið aftur inn eftir þessa 2. umr. Því er nú þegar komin fyrirskipun frá ríkisstjórninni um að málið verði kallað inn á milli 2. og 3. umr. Það segir auðvitað mikið um það hvernig þessu máli er háttað en að svo komnu munum við ekki greiða atkvæði með þessari tillögu Pírata.



[13:39]
Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu, þegar verið er að kalla þetta sýndarmennsku, að það sé skýrt að þegar verið er að skerða mannréttindi jaðarsettra hópa þá er það bókstaflega ástæðan fyrir því að Píratar eru til, þ.e. að standa í vegi fyrir svoleiðis mannréttindabrotum sem þetta mál stendur fyrir. Þannig að þetta er engin sýndarmennska. Við Píratar erum að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að þetta mál klárist eins og það lítur út í dag. Við teljum okkur vera að gera það sem er rétt og ég vil bara að það komi fram í þessari umræðu. Þess vegna er þessi dagskrártillaga hér af því að það er vitað að þetta er umdeilt mál. Það er vitað að það kallar á mikla umræðu. Það er vitað að það er mikil andstaða við málið en samt er það sett í forgang. Málið er sett á dagskrá þrátt fyrir að vitað sé að það muni taka langan tíma að ræða það af því að það er ekki komin nein niðurstaða í þessu máli sem nær einhvern veginn að koma okkur saman um að klára það. Þannig að þetta er forgangsmál og það er mikilvægt að það sé algerlega öllum ljóst.



ATKVÆÐAGREIÐSLA

[13:41]

Dagskrártillaga  felld með 32:4 atkv. og sögðu

  já:  GRÓ,  HAS,  HallM,  IIS.
nei:  ÁBG,  ÁslS,  ÁsF,  BÁ,  BirgÞ,  BjarnB,  DME,  GÞÞ,  GHaf,  HSK,  HarB,  HildS,  IngS,  IÓI,  JFM,  JSkúl,  JFF,  JónG,  LA,  LRM,  LRS,  LínS,  NTF,  ÓBK,  SVS,  SÞÁ,  SSv,  TAT,  VilÁ,  WÞÞ,  ÞórP,  ÞórdG.
7 þm. (DagH,  GE,  HVH,  LE,  SGuðm,  ÞKG,  ÞSv) greiddu ekki atkv.
20 þm. (AIJ,  ArnG,  ÁsmD,  ÁLÞ,  BGuðm,  BergÓ,  BjG,  BHar,  EÁ,  GuðmG,  GIK,  HHH,  HKF,  KJak,  KFrost,  OH,  OPJ,  SDG,  SIJ,  ÞorbG) fjarstaddir.