153. löggjafarþing — 58. fundur
 1. feb. 2023.
um fundarstjórn.

greinargerð ríkisendurskoðanda um Lindarhvol.

[15:01]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Nú hefur um nokkurt skeið verið gerð tilraun til þess að fá greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol opinberaða. Var tekin endanleg ákvörðun í hv. forsætisnefnd þann 5. apríl 2022 þess efnis að niðurstaða forsætisnefndar væri að opinbera skyldi þessa greinargerð án takmarkana. Enn þann dag í dag, 1. febrúar 2023, hefur það ekki verið gert og vekur það nokkra furðu. Vekur það einnig furðu mína að ekki sé búið að birta þessa ákvörðun á heimasíðu Alþingis, eins og segir í 6. gr. reglna um störf og starfshætti forsætisnefndar Alþingis þar sem segir að birta skuli ákvarðanir forsætisnefndar á síðunni, en umrædd ákvörðun hefur ekki verið birt. Hvað veldur því, hæstv. forseti, að þessi greinargerð Sigurðar Þórðarsonar, setts ríkisendurskoðanda, hefur ekki verið birt? Nú hefur umræddur maður borið vitni í dómsal (Forseti hringir.) og ég held að við hljótum þá að þora að fara að birta þessa greinargerð eins og forsætisnefnd tók ákvörðun um fyrir ári síðan.



[15:03]
Forseti (Birgir Ármannsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti vill geta þess að eftir að forsætisnefnd gerði grein fyrir því að hún hygðist birta þessa greinargerð komu athugasemdir frá Ríkisendurskoðun og stjórn Lindarhvols sem urðu tilefni til að málið hefur áfram verið til meðferðar í forsætisnefnd og hefur hún ekki lokið þeirri málsmeðferð. Það er staða þessa máls.



[15:03]
Logi Einarsson (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þrátt fyrir þessar skýringar þá skilst mér að málið sé þannig að mikill meiri hluti forsætisnefndar vilji birta þetta, en reglur þingsins séu með þeim hætti að jafnvel þó að svo sé þá hafi forseti einhvers konar neitunarvald. Nú er það þannig að þessar reglur hafa væntanlega verið búnar til af dauðlegu fólki og þeim er hægt að breyta. Mig langar bara að varpa því upp hvort þingheimi finnist það almennt vera eðlilegt að einn einstaklingur í miklum minni hluta, jafnvel þótt forseti sé, geti notað neitunarvald í slíku tilviki. Ég hvet þingið til að velta því fyrir sér og breyta bara reglunum í kjölfarið.



[15:04]
Helga Vala Helgadóttir (Sf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Vegna orða forseta um að eftir að ákvörðun hefur verið tekin í forsætisnefnd hafi borist einhverjar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun og Lindarhvoli, stjórn Lindarhvols, þá er þetta ekki einhver ákvörðun forsætisnefndar sem kemur út úr tóminu. Það var búið að senda tvö bréf frá forseta Alþingis, 28. apríl og 4. júní 2021, þar sem stjórn Lindarhvols var innt álits eftir því hvort það væri ekki óhætt að birta þessa greinargerð. Svaraði stjórn Lindarhvols því með bréfum, dags. 11. maí 2021 og 22. júní 2021. Í apríl 2022 er tekin ákvörðun um það í forsætisnefnd að birta greinargerðina eftir að búið er að tala við Ríkisendurskoðun, fjármálaráðuneytið, Lindarhvol og fleiri og að vandlega yfirveguðu og yfirlögðu ráði er tekin ákvörðun um það í forsætisnefnd að greinargerðin skuli birt. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir það virðist forseti einn beita neitunarvaldi í dag og neitar að birta greinargerðina.



[15:06]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti. Ég var á þessum forsætisnefndarfundi þegar ákveðið var að birta skýrsluna um Lindarhvol. Við vissum að það átti eftir að berast svar en ákvörðunin var tekin á þann hátt að hvert sem svarið væri, hvert sem innihaldið væri í þessu skjali sem verið var að bíða eftir, ætti samt að birta skýrsluna. Það var ákvörðunin sem var tekin í forsætisnefnd af því þá var búið að fara í alla þessa hringi, tvisvar, þrisvar, ég veit ekki hversu oft. Það var búið að fá sama svarið aftur og aftur. Það var búið að fá sömu rökin aftur og aftur og þau stóðust aldrei neina skoðun sem mælti gegn því að birta þessa skýrslu bara þá þegar. En allt í lagi, bíðum eftir þessu skjali. Birtum það svo til þess að öll gögn fylgi með. En síðan þá hefur ekkert gerst. Þannig að ég kalla aftur á forseta að fylgja því sem þar var samþykkt, þrátt fyrir að við vitum að í forsætisnefnd er í rauninni bara eitt atkvæði og það er atkvæði forseta. En ef hann ætlar að fara í gegn öllum sem greiddu atkvæði þá spyr maður sig: Er það forseti allra þingmanna sem situr þarna?



[15:07]
Andrés Ingi Jónsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Þar sem ég sit í forsætisnefnd er ég tæplega að segja forseta tíðindi þegar ég lýsi því yfir að ég skil ekki af hverju ekki sé löngu búið að birta þessa greinargerð setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Eins og farið hefur verið yfir hér var það ákvörðun forsætisnefndar í apríl á síðasta ári að birta skýrsluna. Sú ákvörðun var tilkynnt hagaðilum, stjórn Lindarhvols og öðrum og þeim var gefinn tveggja vikna tími, ekki til að taka í einhverja handbremsu heldur bara til að búa sig andlega undir það að þetta skjal myndi birtast. Það var ekki neitt annað sem átti að búa að baki. En svo fann forseti einhverja handbremsu og ég hef aldrei skilið nákvæmlega hvaða hagsmunir kalla sérstaklega á að grípa í hana vegna þess að í þessari skýrslu eru upplýsingar sem eiga erindi til almennings. Þetta eru upplýsingar sem varpa ljósi á embættisfærslur hæstv. fjármálaráðherra, mögulega. (Forseti hringir.) Við vitum það ekki alveg (Gripið fram í: … komin skýrsla.) af því að ekkert okkar hefur séð þessa útgáfu skýrslunnar. Forseti er búinn að sitja á henni í — hvað erum við að tala um mörg ár núna? (Forseti hringir.) Og þar af eitt ár eftir að forsætisnefnd öll samþykkti að birta skýrsluna.



[15:08]
Forseti (Birgir Ármannsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti verður að geta þess að í þessu máli hafa komið fram sjónarmið sem rekast á: Annars vegar að um sé að ræða skjal sem unnið hafi verið meðan á málsmeðferð Ríkisendurskoðunar stóð en hafi ekki falið í sér endanlega skýrslu Ríkisendurskoðunar og þar með eigi við ákvæði 15. gr. laga um Ríkisendurskoðun sem felur í sér sérstaka þagnarskyldu. Hins vegar hafa komið fram sjónarmið um að hér sé um að ræða skjal sem eigi fremur heima undir almennum reglum upplýsingalaga. Það er um það sem ágreiningur hefur verið í forsætisnefnd.

Þess ber hins vegar að geta að endanleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um málefni Lindarhvols kom út, var afhent þinginu og varð opinber í maí 2020. Var hún þá send til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fjallaði töluvert um hana á síðasta kjörtímabili en lauk ekki umfjöllun. Núverandi stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd getur hvenær sem er tekið það mál upp og fjallað um hana eftir þeim aðferðum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur til slíkrar málsmeðferðar.



[15:10]
Björn Leví Gunnarsson (P):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti rakti hérna þessi andstæðu sjónarmið sem við erum búin að fá lögfræðiálit á að standast ekki, þ.e. annað álitið stenst ekki, um að þetta séu einhvers konar einkahagsmunir fólks sem ekki megi birta. Staðreyndin er sú að þetta snýst um sölu á eignum sem er þinglýst, það er aðgengilegt ef fólk fer inn og nær að pikka út alla samningana og gæti tekið þetta saman sjálft. Það er hins vegar rosalega mikil vinna. Það er ekkert þarna sem annars er leynilegt. Það er ekkert í skýrslunni, sem við fengum frá óháðum lögfræðingi, sem krefst þess að það beri að útmá neinar persónuupplýsingar neins staðar, eðlilega ekki. Eins og ég segi þá liggja í rauninni þarna undir bara þinglýstir samningar þannig að það er alveg fáránlegt að því sé enn haldið á lofti að það séu einhver andstæð sjónarmið í þessu máli. Þau eru ekki til staðar.